Hæstiréttur íslands
Mál nr. 186/2000
Lykilorð
- Ómerking
- Heimvísun
- Játningarmál
|
|
Fimmtudaginn 28. september 2000. |
|
Nr. 186/2000. |
Ákæruvaldið(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Eggert Haukdal (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) |
Ómerking. Heimvísun. Játningarmál.
Ekki var talið, að framburður ákærða hefði verið með þeim hætti, að héraðsdómari hafi með réttu mátt líta svo á, að fyrir lægi skýlaus játning á sakargiftum í þeim skilningi, sem um ræðir í 125. gr. laga nr. 19/1991. Voru því ekki lagaskilyrði til þess að taka málið til dóms sem játningarmál án frekari gagnaöflunar fyrir dóminum. Þótti ekki verða hjá því komist að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 25. apríl 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, þar sem aðallega var krafist ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar en til vara sýknu að hluta og mildari refsingar.
Ákæruvaldið krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða og þyngingar á refsingu og verði ómerkingarkröfu hans hrundið.
Fyrir Hæstarétti krefst ákærði þess aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi eða heimvísað.
Að ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt fyrir dóminum um formhlið þess hinn 25. september 2000.
I.
Með ákæru 15. febrúar 2000 var ákærði sóttur til saka fyrir eftirtalin auðgunarbrot í opinberu starfi sem oddviti Vestur-Landeyjahrepps:
I. Fyrir umboðssvik með því að hafa hinn 27. desember 1994 misnotað aðstöðu sína til að gefa út í nafni hreppsins, án þess að hreppsnefnd hafi samþykkt, skuldabréf til Búnaðarbanka Íslands að fjárhæð 1.035.000 krónur, með sjálfskuldarábyrgð ákærða og tveggja annarra hreppsnefndarmanna, og eignfæra þá fjárhæð á viðskiptareikning á nafni jarðarinnar Eystra-Fíflholts. Lánsfénu hafi ákærði varið að meginhluta til greiðslu á skuldabréfi, útgefnu 19. júní 1991 að fjárhæð 622.000 krónur, sem verið hafi rekstri hreppsins óviðkomandi.
Í ákæru er þetta talið varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 138. gr. sömu laga.
II. Fyrir fjárdrátt með því að hafa dregið sér af fjármunum hreppsins samtals 1.177.360 krónur á þann hátt, sem hér greinir:
1. Á árunum 1994, 1995 og 1996 lækkað skuld, sem ákærði hafði stofnað til á viðskiptareikningi Eystra-Fíflholts, um 677.360 krónur með því að millifæra eftirfarandi á rekstur hreppsins sem útgjöld vegna ábyrgðar, heimildarlaust og án vitundar hreppsnefndarinnar:
31. desember 1994 250.000 krónur
31. desember 1995 200.000 krónur
31. desember 1996 227.360 krónur
eða samtals 677.360 krónur.
2. Á árinu 1996 látið færa til inneignar á viðskiptareikning sinn 500.000 krónur, sem höfðu verið gjaldfærðar hjá sveitarsjóði sem kostnaður vegna vegagerðar í hreppnum, án reikninga að baki þeirri færslu. Mótfærslan hafi í fyrstu verið færð á Ræktunarsamband Vestur-Landeyja, en síðan millifærð sem inneign ákærða á viðskiptareikning hans.
Í ákæru eru þessi brot talin varða við 247. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 138. gr. sömu laga.
II.
Ákærða var kynnt ákæran 24. febrúar 2000 og segir orðrétt í bókun héraðsdóms um viðbrögð hans fyrir dómi: „Ákærði kannast við að hafa gefið út skuldabréf sem greinir í 1. lið ákæru og skýrir málið nokkrum orðum. Hann kveðst hafa greitt bréfið upp. Hann kveðst hafna orðinu umboðssvik og þessari ákæru. Fyrri lið síðari hluta ákæru hafnar ákærði. Hann segir að sér hafi ekki verið kunnur þessi færslumáti fyrr en rannsókn fór fram. Ákærði játar síðari hluta síðari liðar ákæru."
Ákærði kom aftur fyrir héraðsdóm 6. mars 2000 og gaf ítarlegri skýrslu um einstaka liði ákærunnar. Kvaðst hann þá ekki hafa ætlað að valda sveitarfélaginu tjóni, en um væri að ræða afleiðingar af viðskiptum hreppsins með jörðina Eystra-Fíflholt. Að síðari skýrslutöku lokinni var fært til þingbókar, að málflytjendur væru sammála um, að fullnægt væri skilyrðum 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og þeir óskuðu eftir að reifa sjónarmið um heimfærslu og ákvörðun viðurlaga. Af framlögðum endurritum verður ekki séð, að héraðsdómari hafi gætt ákvæða 2. mgr. 14. gr. laga nr. 19/1991 um upplestur þess, sem bókað er í þinghaldi, og staðfestingu hlutaðeigandi. Af hálfu ákærða er því haldið fram hér fyrir dómi, að hann hafi í raun hafnað öllum ákæruatriðunum sem röngum.
III.
Þótt ekki sé þess berum orðum getið í héraðsdómi er ljóst, að farið var með málið samkvæmt 125. gr. laga um meðferð opinberra mála. Fyrir dóminum lýsti ákærði tilteknum athöfnum sínum í starfi oddvita Vestur-Landeyjahrepps. Skýringar hans á þeim og bókuð framangreind ummæli fyrir dómi gefa ekki tilefni til að ætla, að ákærði hafi játað, að þær hafi verið saknæmar og gerðar í auðgunarskyni, sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga. Framburður hans var því ekki með þeim hætti, að héraðsdómari hafi með réttu mátt líta svo á, að fyrir lægi skýlaus játning á sakargiftum í þeim skilningi, sem um ræðir í 125. gr. laga nr. 19/1991. Voru því ekki lagaskilyrði til þess að taka málið til dóms sem játningarmál án frekari gagnaöflunar fyrir dóminum. Af þessu leiðir þegar, að ekki verður hjá því komist að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Samkvæmt þessum úrslitum verður allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærða á báðum dómstigum, svo sem í dómsorði greinir. Um ákvörðun málsvarnarlauna verjanda ákærða fyrir Hæstarétti er þess að gæta, að þau ná einungis til þess þáttar málsins, er lýtur að ómerkingarkröfunni, sem að réttu lagi fer á undan efniskröfu.
Af hálfu ákærða hafa fyrir Hæstarétti verið bornar brigður á hæfi héraðsdómara til að fara með mál þetta. Sá málatilbúnaður er á því reistur, að eiginkona dómarans hafi verið framkvæmdastjóri KPMG Lögmanna ehf., en allt hlutaféð í því félagi hafi þá verið í eigu KPMG Endurskoðunar hf., sem látið hafi hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps í té þá endurskoðunarskýrslu, er lögreglurannsókn og dómsmeðferð málsins hafi síðar byggst á. Er um þetta einkum vísað til g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. gr. laga nr. 19/1991. Rétt er, að héraðsdómari taki afstöðu til þessa atriðis, áður en leyst verður efnislega úr málinu að nýju.
D ó m s o r ð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 125.000 krónur, og skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 24. mars 2000.
Mál þetta var höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 15. febrúar sl., á hendur Eggerti Haukdal, kt. 260433-7419, Bergþórshvoli II, Vestur-Landeyjum. Honum eru gefin að sök auðgunarbrot í opinberu starfi sem oddviti Vestur-Landeyjahrepps, sem lýst er svo:
"I. ...umboðssvik í opinberu starfi, með því að hafa hinn 27. desember 1994, misnotað aðstöðu sína til að gefa út í nafni hreppsins, án þess að hreppsnefnd samþykkti, skuldabréf til Búnaðarbanka Íslands, að fjárhæð kr. 1.035.000, með sjálfskuldarábyrgð ákærða og tveggja annarra hreppsnefndarmanna, og eignfæra þá fjárhæð á viðskiptareikning á nafni Eystra-Fíflholts. Lánsfénu varði ákærði að meginhluta til greiðslu á skuldabréfi, útgefnu 19.6.91 að fjárhæð kr. 622.000, sem var rekstri hreppsins óviðkomandi.
Telst þetta varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 138. gr. sömu laga.
II. Fyrir fjárdrátt í opinberu starfi, með því að hafa dregið sér af fjármunum hreppsins samtals kr. 1.177.360, á þann hátt sem hér greinir:
1. Á árunum 1994, 1995 og 1996, lækkað skuld, sem ákærði hafði stofnað til á viðskiptareikningi Eystra-Fíflholts, um kr. 677.360, með því að millifæra á rekstur hreppsins sem útgjöld vegna ábyrgðar, heimildarlaust og án vitundar hreppsnefndarinnar, sem hér greinir:
31.12.1994kr. 250.000
31.12.1995kr. 200.000
31.12.1996kr. 227.360kr. 677.360
2. Á árinu 1996 látið færa til inneignar á viðskiptareikning sinn kr. 500.000, sem höfðu verið gjaldfærðar hjá sveitarsjóði sem kostnaður vegna vegagerðar í hreppnum, án reikninga að baki þeirri færslu. Mótfærslan var í fyrstu færð á Ræktunarsamband Vestur-Landeyja, en síðan millifærð sem inneign ákærða á viðskiptareikning hans.
Teljast þessi brot varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 138. gr. sömu laga."
Ákæruvald krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Verjandi ákærða krefst þess að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa.
Hinn 23. febrúar 1999 sendu níu íbúar Vestur-Landeyjahrepps bréf til Ríkislögreglustjóra þar sem þeir fóru fram á að hafin yrði opinber rannsókn á meintum brotum ákærða á almennum hegningarlögum og fleiri lögum sem talin voru. Með bréfinu fylgdi m.a. greinargerð er unnin hafði verið að beiðni hreppsnefndar af KPMG Endurskoðun hf. á Selfossi um vinnu við ársreikning hreppsins fyrir árið 1997.
Með bréfi dagsettu 24. mars 1999 leitaði Ríkislögreglustjóri eftir afstöðu hreppsnefndar til málsins. Á fundi hreppsnefndar Vestur- Landeyjahrepps 6. apríl 1999 var samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur tillaga Brynjólfs Bjarnasonar, oddvita, um að ekki þætti ástæða til frekari aðgerða í málinu.
Lögreglan tók málið til rannsóknar óháð þessari afstöðu hreppsnefndar. Með bréfi 8. nóvember 1999 leitaði Ríkislögreglustjóri eftir því hvort hreppsnefnd vildi hafa uppi bótakröfu í máli þessu. Erindinu svaraði oddviti neitandi með bréfi 7. janúar sl. Segir í bréfinu að samþykkt hafi verið á fundi hreppsnefndar 1. desember 1999 að hafna boði um að hafa uppi skaðabótakröfu, " þar sem Vestur-Landeyjahreppur hefur ekki orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna aðgerða fyrrverandi oddvita."
Ákæruefnum má skipta í þrennt og verður fjallað um hvern lið fyrir sig.
Ákæruliður I.
Skuldabréf það sem hér um ræðir er gefið út til Búnaðarbankans þann 27. desember 1994 af ákærða f.h. Vestur-Landeyjahrepps, með sjálfskuldarábyrgð hans sjálfs, Indriða Ólafssonar og Sigmundar Felixsonar, en þeir áttu á þeim tíma sæti í hreppsnefnd. Lánsféð fór til að greiða upp eldra skuldabréf eins og lýst er í ákæru. Bréf þetta er vegna þess sem ákærði kallaði fyrir dómi Eystra-Fíflholts vandann. Samþykkt var í hreppsnefnd á árinu 1987 að beita forkaupsrétti að jörð þessari og var hún seld aftur. Er þetta skuldabréf angi af þeim viðskiptum sem þar áttu sér stað. Er óumdeilt að rangt var að binda sveitarfélagið við greiðsluskuldbindingu þessa, en ákærði hefur haldið því fram að ekki hafi staðið til að sveitarfélagið yrði fyrir útgjöldum vegna þessa. Þá hafði ákærði greitt skuld þessa að fullu áður en lögreglurannsókn hófst.
Skuldabréfaútgáfa þessi var eins og segir í ákæru rekstri sveitarfélagsins óviðkomandi og var ekki samþykkt formlega af hreppsnefnd, þó bréfið hafi komið í stað eldra bréfs vegna sömu viðskipta. Hafa verður í huga að undir skuldabréfið rituðu sem sjálfskuldarábyrgðaraðilar ákærði og tveir aðrir fulltrúar í hreppsnefnd. Þetta brot ákærða er í ákæru réttilega heimfært til 249. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 138. gr. sömu laga.
Ákæruliður II.
Undir þessum lið er ákærða gefinn að sök fjárdráttur í opinberu starfi. Um þessi atriði bæði er fjallað í skýrslu KPMG Endurskoðunar hf. Hinn 19. desember 1998, er unnið var að þeirri skýrslu, rituðu ákærði og Einar Sveinbjörnsson, löggiltur endurskoðandi, yfirlýsingu þar sem fjallað er um þau atriði sem ákært er fyrir undir þessum lið. Meginefni yfirlýsingar þessarar er svohljóðandi:
"Eftir afstemmingu viðskiptareikninga reyndist skuld oddvita við sveitarsjóð í árslok 1997 vera 1.863.350 kr., en samkvæmt ársreikningi 1997 var inneign oddvita 19.162 kr.
Við afstemmingarvinnu kom fram að á árinu 1994 tók oddviti út peninga að fjárhæð 1.207.499 kr. sem færð var á bókhaldslykil 29-33-522, Eystra Fíflholt. Á árunum 1994, 1995 og 1996 var þessi fjárhæð lækkuð með því að millifæra 679.269 kr. á rekstur sveitarfélagsins með eftirfarandi hætti:
ÁrBókhaldslykillTexti skv. fylgiskjölum
199415-84-999-1L. ýmis útgjöld v/ábyrgðar250.000 kr.
199417-25-164-1L. laun (lækkun)169.120 kr.
199515-84-999-1L. útgjöld v/ábyrgðar200.000 kr.
199517-25-164-1L. laun171.029 kr.
199615-84-999-1L. útgjöld ábyrgðar227.360 kr.
679.269 kr.
Fram kom hjá oddvita að gjaldfærsla þessi er gerð án samykkis sveitarstjórnarinnar.
Á árinu 1996 er fært til gjalda 500.000 kr. á bóhaldslykilinn 10-22-444 1 Viðhald gatna skv. fylgiskjali nr. 289/1996. Fylgiskjal þetta er millifærslublað og er texti með færslunni Bókf. kostn. v/Þúfuvegar. Enginn gildur reikningur er að baki þessari færslu. Mótfærslan er í fyrstu færð á Ræktunarsamband Landeyja, en síðan millifærð á viðskiptareikning oddvita sem skuld við hann. Samkvæmt fundargerðum hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps samþykkir nefndin að leggja 500.000 kr. til framkvæmda við Þúfuveg. Upplýst hefur verið að framlag þetta var greitt af sýsluvegasjóði Rangárvallasýslu, en ekki af Vestur-Landeyjahreppi. Framangreind gjaldfærsla á því ekki við rök að styðjast.
Með vísan til framangreindra upplýsinga hefur oddviti fært sér til inneignar 1.179.269 kr. sem hann óskar að verði bakfærð við leiðréttingu á ársreikningi Vestur-Landeyjahrepps fyrir árið 1997.
Að teknu tilliti til framangreindra millifærslna, þ.e. vegna Eystra-Fíflholts og Þúfuvegar, og viðskiptastöðu oddvita í árslok 1997 er skuld hans því við sveitarsjóð 3.042.619 kr. í árslok 1997. Á árinu 1998 hefur oddviti endurgreitt 1.200.000 kr. af skuld sinni.
Oddvita er ljóst að sveitarstjórn á eftir að fjalla um launaútreikning hans fyrir árið 1997, sem gæti leitt til lækkunar á skuld oddvita, svo og vaxtareiknings vegna skuldar hans við sveitarsjóð.
Oddviti staðfestir að það séu ekki önnur atriði í bókhaldi Vestur-Landeyjahrepps sem tengjast misfærslu hans með fjármuni sveitarfélagsins.
Oddviti vill taka fram að fjárhagsvandi sinn stafaði af ábyrgðarskuldbindingum vegna Guðmundar Ólafssonar, Eystra-Fíflholti, sem hann varð að innleysa. Ábyrgðarskuldbindingar þessar voru ritaðar í nafni Vestur-Landeyjahrepps með vitund tveggja hreppsnefndarmanna auk oddvita, en formleg heimild aldrei fengin frá hreppsnefnd Vestur-Landeyjahrepps."
Ákæruliður II, 1.
Lið þennan hefur ákærði játað fyrir dómi og með framangreindri yfirlýsingu. Hann ítrekaði framburð sinn hjá lögreglu við yfirheyrslu 1. október 1999, en þar segir ákærði að sér hafi ekki verið þessar bókhaldsfærslur ljósar fyrr en á fundi með Einari Sveinbjörnssyni, löggiltum endurskoðanda. Hann hafi alltaf ætlað sjálfur að bera ábyrgð á fyrirgreiðslu vegna Eystra-Fíflholts og ekki viljað að hreppurinn yrði fyrir tjóni.
Þessar færslur máttu vera ákærða ljósar eins og hann játaði fyrir dómi. Hefur ákærði brotið með þessu gegn 247. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 138. gr. sömu laga.
Ákæruliður II, 2.
Eins og lýst er í ákæru voru færðar í bókhaldi hreppsins kr. 500.000 sem útgjöld við gerð Þúfuvegar, án þess að gildur reikningur lægi að baki. Var þessi færsla nýtt í bókhaldinu til lækkunar á skuld ákærða. Samkvæmt því sem upplýst var við rannsókn lögreglu og endurskoðun reikninga sveitarsjóðs var þessi fjárhæð ekki greidd af hreppnum, en kostnaður við þessa vegagerð var greiddur af sýsluvegasjóði og Vegagerðinni. Hefur ákærði játað brot samkvæmt þessum lið og er það réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.
Refsingar og sakarkostnaður.
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingum. Færslur þær sem um ræðir og útgáfa skuldabréfs voru heimildarlausar og fólu í sér auðgunarbrot og brot í opinberu starfi eins og að framan er rakið. Hins vegar höfðu leiðréttingar verið gerðar er lögreglurannsókn málsins hófst. Ákærði lét af starfi oddvita vegna málsins, en hann hafði gegnt því samfleytt frá árinu 1970. Verður refsing hans ákveðin fangelsi í sex mánuði. Er rétt að skilorðsbinda refsinguna með almennu skilorði til tveggja ára.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað. Málsvarnarlaun verjanda eru ákveðin 125.000 krónur.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Ákærði, Eggert Haukdal, sæti fangelsi í sex mánuði. Fullnustu refsingarinnar skal frestað og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun, 125.000 krónur.