Hæstiréttur íslands
Mál nr. 158/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Óvígð sambúð
- Fjárslit
- Kröfugerð
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 15. júní 2004. |
|
Nr. 158/2004. |
M(sjálfur) gegn K(Friðjón Örn Friðjónsson hrl.) |
Kærumál. Óvígð sambúð. Fjárslit. Kröfugerð. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Máli M var vísað frá Hæstarétti þar sem kröfugerðin var í andstöðu við 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. apríl 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2004, þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningsefnum í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli aðilanna vegna loka óvígðrar sambúðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og kröfur sínar „að öllu leyti teknar til greina.“ Í kæru sóknaraðila til Hæstaréttar segir að dómkröfur séu „óbreyttar frá því sem var fyrir héraðsdómi, en þar krafðist [sóknaraðili] þess:
1. Að viðurkennd verði greiðsla hans á orkureikningi að fjárhæð kr. 90.242, þann 14. febrúar 2002, og að varnaraðila verði gert að endurgreiða þá fjárhæð auk dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags.
2. Að varnaraðila verði gert að greiða 45% af greiðslum sem [sóknaraðili] innti af hendi 4. mars 2002, sem voru afborganir af veðskuldum er hvíldu á Starrahólum 3, auk dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags.
3. Að varnaraðili verði dæmdur til að greiða [sóknaraðila] andvirði bifreiðarinnar [...], upphaflega kr. 920.000 þann 30. júlí 1998, auk vaxta af sambærilegum lánum frá þeim degi til 11. apríl 2001, en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags.
4. Að viðurkennt verði að [sóknaraðili] sé eigandi að sumarbústað á landi nr. 15 að Öndverðarnesi I. Til vara krefst [sóknaraðili] þess að viðurkenndur verði eignarréttur hans að 55% bústaðarins.
5. Að gagnkröfu varnaraðila um greiðslu húsaleigu auk dráttarvaxta verði vísað frá dómi.
6. Að varnaraðila verði gert að greiða [sóknaraðila] hæfilega þóknun í formi málskostnaðar fyrir héraðsdómi vegna reksturs málsins.“
Þá gerir sóknaraðili kröfu um að sér verði dæmdur kærumálskostnaður.
Auk framangreinds er í kærunni gerð sú krafa að úrskurður héraðsdóms verði ómerktur og málinu heimvísað, svo að sóknaraðila gefist kostur á að fá tekna skýrslu af tilgreindu vitni fyrir dómi og leggja fram gögn, sem héraðsdómari hafi synjað viðtöku, en þá jafnframt, að því er helst verður ráðið, til öflunar enn frekari sönnunargagna.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti er að finna umfjöllun, sem ekki verður séð að tengist ofangreindum dómkröfum hans, heldur einvörðungu kröfu, sem sóknaraðili hafði uppi í héraði og lýtur að því að skiptastjóri fresti að taka afstöðu til nánar tilgreindra efniskrafna hans þar til skiptastjóri hefur aflað yfirlits yfir bankareikninga málsaðila og verðbréfaviðskipti þeirra á árunum 1997 til 2001. Skilja verður þennan málatilbúnað svo að sóknaraðili vilji halda þessari kröfu sinni til streitu hér fyrir rétti til viðbótar þeim kröfum, sem að ofan eru raktar.
Samkvæmt meginreglu einkamálaréttarfars þarf kröfugerð að vera svo ákveðin og ljós að unnt sé að taka hana upp sem dómsniðurstöðu í máli. Þarf kröfugerð samkvæmt þessu að koma fram í þeirri mynd, sem aðili óskar sjálfur eftir að verði niðurstaða málsins. Kröfugerð sóknaraðila, eins og henni hefur verið lýst hér að framan, er á reiki og gætir þar ósamkvæmni. Hvort tveggja er í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Verður af þessum sökum ekki hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2004.
Mál þetta var tilkynnt dóminum 27. október 2003 með bréfi Þorsteins Einarssonar hrl., sem er skiptastjóri við skipti til fjárslita milli málsaðila. Það var tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð 11. febrúar sl. Það var endurupptekið 5. mars og tekið til úrskurðar á ný.
Sóknaraðili er M.
Varnaraðili er K.
Sóknaraðili gerir þessar kröfur:
Að viðurkennd verði greiðsla hans á orkureikningi að fjárhæð 90.242, þann 14. febrúar 2002, og að varnaraðila verði gert að endurgreiða þá fjárhæð auk dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags.
Að varnaraðila verði gert að greiða 45% af greiðslum sem sóknaraðili innti af hendi 4. mars 2002, sem voru afborganir af veðskuldum er hvíldu á [...]. Auk þess krefst sóknaraðili dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags.
Að varnaraðili verði dæmd til að greiða sóknaraðila andvirði bifreiðarinnar [...], upphaflega kr. 920.000 þann 30. júlí 1998, auk vaxta af sambærilegum lánum frá þeim degi til 11. apríl 2001, en dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags.
Að viðurkennt verði að hann sé eigandi að sumarbústað varnaraðila á landi nr. [...] að [...]. Til vara krefst hann þess að viðurkenndur verði eignarréttur sinn að 55% bústaðarins.
Að kröfu um greiðslu húsaleigu auk dráttarvaxta verði vísað frá dómi.
Þá kvaðst sóknaraðili ekki vilja falla frá kröfu sem lýst er í bréfi skiptastjóra þess efnis að frestað verði ákvörðun um viðurkenningu krafna þar til tiltekinna upplýsinga um bankaviðskipti hefur verið aflað.
Loks krefst sóknaraðili hæfilegrar þóknunar vegna reksturs málsins í formi málskostnaðar.
Varnaraðili gerir þessar kröfur:
Í aðalsök: 1. Að dómkröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi. 2. Að varnaraðili verði sýknaður af öllum kröfum sóknaraðila. 3. Að sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað, varnaraðila að skaðlausu.
Í gagnsök: Að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila 540.000 krónur með dráttarvöxtum frá 20. apríl 2003 til greiðsludags og málskostnað.
Með úrskurði 13. júní 2002 hófust opinber skipti til fjárslita milli aðila máls þessa. Skiptastjóri var skipaður Þorsteinn Einarsson hrl. Með bréfi 24. október 2003 skaut skiptastjórinn til dómsins ágreiningi er hann sagði að væri uppi við skiptin og lýsti í nokkrum liðum. Vísaði hann til 122. gr. laga nr. 20/1991.
Ágreiningsatriðin eru talin í fimm töluliðum í bréfinu:
1. “... um þá kröfu [sóknaraðila] að skiptastjóri fresti því að taka afstöðu til krafna hans nr. 3, 4 og 5 þar til fyrir lægju upplýsingar sem skiptastjóri mun leita eftir.”
2. “[Sóknaraðili] krafðist þess að viðurkennt yrði að hann væri eigandi að 55% hlut í sumarhúsi, sem [varnaraðili] keypti á uppboði í svokölluðu [...]landi í [...] ...” Skiptastjóri hafnaði þessari kröfu sóknaraðila.
3. “[Sóknaraðili] krafðist þess að [varnaraðila] yrði gert að greiða honum skuld vegna kaupa hennar á bifreið í júlí 1998. Krafa [sóknaraðila] var kr. 2.218.798.- þann 30. september s.l. [Sóknaraðili] krafðist þess að hluta þeirrar kröfu yrði skuldajafnað við kröfu á hendur honum um greiðslu húsaleigu kr. 1.200.000.- sem [sóknaraðili] skuldbatt sig til að greiða til skiptastjóra á skiptafundi 4. apríl 2003.” Skiptastjóri neitaði að taka afstöðu til kröfu þessarar þar sem um væri að ræða ágreining sem ekki heyrði undir skiptastjóra. Vísaði hann m.a. til athugasemda í greinargerð um 112. gr. laga nr. 20/1991.
4. “[Sóknaraðili] krafðist þess að skuldajafnað yrði við kröfu á hendur honum um greiðslu húsaleigu kr. 1.200.000 kröfum [sóknaraðila] vegna greiðslu hans á veðlánum áhvílandi á [...], kr. 93.981.- er hann kvaðst hafa innt af hendi þann 4. mars 2002 og kr. 90.424.- sem hann kvaðst hafa innt af hendi þann 14. febrúar 2003 vegna orkukaupa tilheyrandi [...].” Skiptastjóri hafnaði þessari kröfu sóknaraðila.
5. “Þá er ágreiningur um kröfu skiptastjóra á hendur [sóknaraðila] um greiðslu dráttarvaxta frá 20. apríl 2003, en þá var gjalddagi kröfu á hendur [M], kr. 1.200.000.”
Rétt er að í úrskurði þessum verði reifuð atvik, málsástæður aðila og komist að niðurstöðu um hvert atriði fyrir sig.
Taka ber fram að hinn 10. júlí 2002 var felldur dómur í máli er varnaraðili máls þessa höfðaði á hendur sóknaraðila. Þar er fjallað um fjárskipti þeirra við sambúðarslitin. Í niðurstöðu dómsins kemur skýrt fram að með honum sé einungis leyst úr ágreiningi um eignarhluta í fasteigninni [...], en ekki fjallað um aðra þætti fjárskipta þeirra. Þar var ákveðin eignarhlutdeild málsaðila í fasteigninni þannig að sóknaraðili ætti 55% hennar. Dóminum var áfrýjað, en fallið var frá þeirri áfrýjun og er dómurinn því endanlegur.
1. Að skiptastjóri fresti því að taka afstöðu til krafna.
Með bréfi til skiptastjóra 9. október 2003 krafðist sóknaraðili þess að skiptastjóri skrifaði öllum bönkum og verðbréfafyrirtækjum í landinu og legði fram afrit af bankareikningum og verðbréfaviðskiptum sóknar- og varnaraðila á árunum 1997 til 2001. Á skiptafundi 20. október krafðist sóknaraðili þessa sama og tengdi við að skipstjóri frestaði að taka afstöðu til ákveðinni efniskrafna hans þar til upplýsinga hefði verið aflað.
Tilgangur sóknaraðila með þessari kröfu er óskýr. Fram kemur sú afstaða hans á skiptafundinum að skiptastjóra bæri við lokafrágang skipta að hafa til hliðsjónar að eignamyndun verði ekki á kostnað hins aðilans.
Á skiptafundi 5. september 2002 kom fram til skipta væri íbúðarhúsið að [...] og innbú. Þá kæmu til uppgjörs veðskuldir á þessu íbúðarhúsi. Ekki yrði fjallað um annað.
Endanleg afstaða skiptastjóra til skiptanna mun birtast er lagt verður fram frumvarp að úthlutunargerð. Afstaða skiptastjóra til krafna á þessu stigi málsins er ekki unnt að skýra sem annað en tillögu að sáttum, sem aðilar eru sjálfráðir um hvort þeir gangast að. Eins og áður segir mörkuðu aðilar skiptameðferðinni ákveðinn ramma þegar í upphafi og er umrædd upplýsingaöflun sennilega með öllu þarflaus til að ljúka þeim skiptum. Verður þessari kröfu sóknaraðila vísað frá dómi.
2. Að viðurkenndur verði eignarhluti sóknaraðila í sumarbústað.
Á fyrsta skiptafundi, sem haldinn var 5. september 2002, kom fram og voru aðilar sammála um að til skipta væri íbúðarhúsið að [...] og innbú. Þá kæmu til uppgjörs veðskuldir á þessu íbúðarhúsi. Ekki yrði fjallað um annað. Athugasemd sóknaraðila um sumarbústað þennan kom fram á skiptafundi 4. apríl 2003, svo og í bréfi hans til skiptastjóra 9. október 2003. Þar krafðist hann þess að bústaðurinn yrði seldur og andvirði hans skipti þannig að hann fengi sjálfur 55%, en varnaraðili 45%. Við málflutning fyrir dóminum breyttist krafa hans í það horf sem að framan greinir, að hann ætti allan bústaðinn. Til vara krefst hann þess að viðurkenndur verði eignarréttur hans að 55% bústaðarins.
Bústað þennan keypti varnaraðili á nauðungaruppboði sem fór fram 6. apríl 2000. Sóknaraðili heldur því fram að þau hafi litið á bústaðinn sem sameign á sama hátt og [...]. Segir hann að varnaraðili hafi hirt leigutekjur af íbúð og lagt sameiginlegt fé þeirra í bústaðinn. Sé því eðlilegt að hann sé eigandi að meiri hluta þessa sumarhúss.
Hún kveðst hafa notað sitt eigið fé til kaupanna. Hún mótmælir því að sóknaraðili hafi lagt fram fé til kaupa á bústaðnum eða endurbóta sem nauðsynlegar hafi verið. Hún bendir þó einkum á að við upphaf skiptameðferðarinnar, á skiptafundi 5. september 2002 hafi umfang skiptanna verið ákveðið. Hafi aðilar þar lýst því hverju bæri að skipta og hafi þessi bústaður ekki verið þar á meðal.
Eins og varnaraðili bendir á var ekki vikið að sumarbústað þessum þegar aðilar tilgreindu þær eignir sem til skipta skyldu koma hjá skiptastjóra þann 5. september 2002. Var þar mættur lögmaður af hálfu sóknaraðila. Er sóknaraðili bundinn við þessa afmörkun, sbr. 105. gr. laga nr. 20/1991. Verður því að hafna kröfu sóknaraðila um viðurkenningu eignarréttar að sumarbústað þessum.
3. Að varnaraðila verði gert að greiða til sóknaraðila kr. 2.218.798.
Krafa þessi er orðuð með lítið eitt öðrum hætti í endanlegri kröfugerð sóknaraðila. Hér er hins vegar búið að reikna vexti á höfuðstól kröfu hans.
Eins og getið er í lið 2 kom þetta atriði ekki til umfjöllunar á fyrsta skiptafundi sem haldinn var 5. september 2002. Það er með bréfi til skiptastjóra, dagsettu 3. mars 2003, sem sóknaraðili hreyfir þessu við skiptin. Í bréfinu, sem nefnt er kröfulýsing, segir að varnaraðili hafi keypt bifreið af sóknaraðila 30. júlí 1998. Umsamið kaupverð, 920.000 krónur, sé ógreitt. Sóknaraðili hafi staðið í þeirri trú að kaupverðið myndi reiknast til að auka hlutdeild hans í íbúðarhúsinu að [...]. Í dómsmáli milli aðila hafi héraðsdómur ekki fallist á þessa kröfu sóknaraðila, þar sem ekki væri sýnt fram á tengsl milli bifreiðaviðskiptanna og fasteignarinnar.
Í athugasemdum sóknaraðila um bílakaup þessi segir að fjárhæðin sem hann krefji um sé upphaflegt kaupverð framreiknað með vöxtum. Bíllinn hafi verið settur á nafn varnaraðila að hennar ósk. Síðan vitnar sóknaraðili í bréf lögmanns varnaraðila og gerir frekari athugasemdir. Engar þeirra ná að skýra grundvöll þessarar kröfu hans.
Varnaraðili mótmælir þessari kröfu sóknaraðila. Í fyrsta lagi telur hann þessa kröfu hans of seint fram komna, sbr. fyrri athugasemdir. Í öðru lagi sé ekki um að ræða ágreiningsefni sem heyri undir skiptastjóra samkvæmt 112. gr. laga nr. 20/1991. Í þriðja lagi telur hann kröfuna fyrnda, en segir þó ekki á hve löngum tíma krafan fyrnist. Loks í fjórða lagi mótmælir varnaraðili því að kaupin hafi átt sér stað. Hér hafi verið um málamyndagerning að ræða, sem sóknaraðili og endurskoðandi hans hafi gengið frá í því skyni að hagræða skattskilum.
Eins og getið er að framan er þessi krafa ekki höfð uppi á skiptafundi sem haldinn var 5. september 2002. Þá kemur fram í forsendum áðurgreinds héraðsdómsmáls aðila um þessa bifreið: “Í málinu liggur fyrir að stefndi seldi stefnanda 1. júlí 1998 bifreið sína [...] fyrir 920.000 krónur. Málsaðilar eru sammála um að ekki hafi staðið til að stefnandi greiddi kaupverðið og ekkert liggur fyrir um hvert raunverulegt verðmæti bifreiðarinnar var...” Með hliðsjón af þessu er ekki forsenda til að fjalla um þessa fjárkröfu sóknaraðila og ber að vísa henni frá dómi.
4. Að viðurkenndar verði kröfur um endurgreiðslu vegna afborgunar af veðskuld og greiðslu reiknings.
Hér er um að ræða kröfur sem sóknaraðili gerir í liðum 1 og 2, sem að framan greinir. Orkureikning skýrir sóknaraðili lítillega í kröfugerð sinni. Hann segir að þegar hann hafi greitt þennan reikning hafi húsið staðið autt um tíma. Varnaraðili hafi hrakið leigjanda úr kjallaraíbúð í húsinu og lokað hefði verið fyrir rafmagn vegna vanskila. Reikningar hafi verið á nafni varnaraðila.
Varnaraðili telur kröfu þessa vera of seint fram komna. Þá sé hún vanreifuð. Hún bendir á að samið hafi verið um tiltekna leigugreiðslu er sóknaraðili skyldi inna af hendi og hafi þá verið tekið tillit til orkureikninga. Þá hafi uppgjör veðskulda farið fram við afsalsgerð.
Gegn mótmælum varnaraðila hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að þessir reikningar séu með réttu hluti af þeim skuldum er ber að greiða af sameiginlegum eignum þeirra. Verður því hafnað kröfu um að viðurkennt verði að svo sé.
5. Að viðurkennt verði að sóknaraðila beri að greiða dráttarvexti af kr. 1.200.000.
Á skiptafundi sem haldinn var 4. apríl var samþykkt að sóknaraðili skyldi greiða kr. 1.200.000 í húsaleigu til skiptastjóra. Skyldi greitt þann 20. apríl 2003. Svo virðist sem gengið hafi verið útfrá því að hann ætti sjálfur 55% af þeirri fjárhæð vegna hlutdeildar sinnar í fasteigninni.
Atriði þetta kom til umræðu á skiptafundi 20. október 2003, þar sem ákveðið var að vísa ágreiningsefnum máls þessa til héraðsdóms. Þar krafði skiptastjóri sóknaraðila um greiðslu kröfunnar, en hann hafnaði og lýsti því að hún væri að fullu greidd með skuldajöfnuði. Ákvað skiptastjóri að hafna kröfu sóknaraðila um viðurkenningu skuldajafnaðar, en krafði sóknaraðila um greiðslu kröfunnar auk dráttarvaxta.
Sóknaraðili kveðst nú hafa greitt höfuðstól kröfunnar til skiptastjóra.
Í bréfi skiptastjóra kemur fram að hann hyggist sjálfur sækja þessa kröfu, bæði um greiðslu höfuðstóls og dráttarvaxta, auk málskostnaðar. Hann féll síðar frá því og hefur varnaraðili nú kröfu þessa uppi sem gagnkröfu til aðfararhæfs dóms um greiðslu á 540.000 krónum auk dráttarvaxta og málskostnaðar.
Sóknaraðili mótmælir ekki greiðsluskyldu. Sóknaraðili verður hins vegar ekki dæmdur til að greiða til varnaraðila.. Fjárhæðina skuldbatt hann sig til að greiða til skiptastjóra og leysir skiptastjóri úr því hver fjárhæð kemur til úthlutunar til varnaraðila. Í þessu máli verður aðeins leyst úr ágreiningi um skiptin, en ekki viðurkennt aðfararhæfi krafna milli aðila málsins um annað en málskostnað.
Sóknaraðili samþykkti að greiða tilgreinda fjárhæð sem húsaleigu. Í samræmi við almennar reglur ber honum að greiða dráttarvexti af fjárkröfunni sem hann greiðir ekki á gjalddaga. Sýnt er að hann skuldbatt sig til að greiða 540.000 krónur til skiptastjóra á ákveðnum degi og ber að viðurkenna skyldu hans til að greiða dráttarvexti frá þeim degi.
Málskostnaður o.fl.
Í samræmi við framangreindar niðurstöður verður að úrskurða sóknaraðila til að greiða 140.00 krónur í málskostnað til varnaraðila. Er þá tekið tillit til virðisaukaskatts.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan. Uppkvaðning hefur dregist vegna anna dómara.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kröfum sóknaraðila, M, um að skiptastjóri fresti því að taka afstöðu til krafna og að varnaraðila, K, verði gert að greiða honum 920.000 krónur auk vaxta, er vísað frá dómi.
Hafnað er kröfum sóknaraðila um viðurkenningu á eignarrétti að sumarbústað og um viðurkenningu á rétti til endurgreiðslu.
Viðurkennt er að sóknaraðila beri að greiða til skiptastjóra dráttarvexti af 540.000 krónum frá 20. apríl 2003 til greiðsludags.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 140.000 krónur í málskostnað.