Hæstiréttur íslands
Mál nr. 856/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Fullnusta refsingar
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2016 þar sem varnaraðila var gert að afplána 630 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Hæstaréttar [...] 2012 og dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...] 2014, en honum var veitt reynslulausn með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 25. ágúst 2016. Kæruheimild er í 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði kom brotaþoli á neyðarmóttöku Landspítalans 10. desember 2016 og lýsti þar ætluðu kynferðisbroti varnaraðila gegn sér. Voru teknar ljósmyndir af margvíslegum áverkum hennar á hnjám, hálsi, baki, auk þess sem lýst var miklum eymslum kringum endaþarm. Á neyðarmóttöku gaf brotaþoli skýrslu fyrir lögreglu og lýsti atburðum á greinargóðan hátt í tímaröð og því ofbeldi sem hún kvað varnaraðila hafa beitt sig. Hún kvaðst jafnframt hafa verið hrædd við hann. Brotaþoli kom á lögreglustöð 12. sama mánaðar og kvaðst ekki vilja kæra varnaraðila og óskaði eftir að draga til baka fyrri framburð sinn. Hún kvaðst ekki vilja að málið héldi áfram, það væri ,,best fyrir hana og hennar fjölskyldu“. Jafnframt greindi hún frá því að hún hefði verið ,,beitt þrýstingi fyrir þessa skýrslutöku“ og að eftir að varnaraðili var handtekinn vegna málsins hafi ,,þeir komið heim með byssu“. Í ljósi framangreinds og með hliðsjón af gögnum málsins verður fallist á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að í málinu sé fullnægt skilyrðum 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 til að fallist verði á kröfu sóknaraðila. Breytir engu í því sambandi yfirlýsing brotaþola 27. desember 2016, þar sem ítrekað er að hún falli frá kæru. Verður úrskurður héraðsdóms því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness, að X, kt. [...], verði gert að afplána 630 daga eftirstöðvar reynslulausnar 5 ára fangelsisrefsingar, samkvæmt dómi Hæstaréttar, uppkveðnum [...] 2012 og 3 mánaða fangelsisrefsingar, samkvæmt dómi héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum [...] 2014, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun þann 25. ágúst 2016.
Í greinargerð með kröfunni segir að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsaki nú meinta nauðgun og frelsissviptingu í einbýlishúsi við [...] í [...] laugardaginn 10. desember sl. Brotaþoli málsins hafi lýst atvikum á þann hátt að hún hafi farið með X á dvalarstað hans við [...] í [...] að morgni 10. desember sl. Hafi vinur X skutlað þeim þangað þar sem þau hefðu stundað kynlíf. Hafi X síðan orðið pirraður þar sem hann hafi ekki fengið sáðlát við samfarirnar. Brotaþoli hafi þá viljað fara heim til sín en X hafi þá orðið viðskotaillur og ekki leyft henni að fara. Brotaþoli hafi þá farið í bað. Þar sem hafi X gefið henni tvo kosti, annað hvort að „totta á honum tittlinginn“ eða leyfa honum að „ríða sér í endaþarm“. Brotaþoli hafa harðneitað kærða en hann hafi brugðist illur við og rekið henni bylmingshögg á vangann, farið ofan í baðið til hennar, skellt brotaþola á fjórar fætur og haft við hana endaþarmsmök. Brotaþoli kvaðst hafa öskrað á kærða að hætta og gert honum grein fyrir því að hún fyndi mikið til en hann hefði ekki hætt heldur hafi hann rifið fast í hár hennar. Brotaþoli hafi öskrað og grátið og kærði sagt henni að hætta að gráta og haldið áfram. Hann hafi síðan hætt án þess að fá fullnægingu. Brotaþoli hafi sagst vilja fara heim en kærði hafi neitað henni um það og sagt að hún fengi ekki að fara fyrr en hann hefði fengið fullnægingu. Brotaþoli sagði kærða þá hafa tekið í hana og lyft henni á axlirnar á sér og farið með hana inn í svefnherbergi hans og lagt hana á rúmið þar sem hann hafi þvingað hana til kynmaka gegn hennar vilja. Brotaþoli kvaðst hafa öskrað og grátið og beðið hann um að hætta en kærði hafi brugðist við með því að glotta, horft á hana gráta og beðið hana um að gráta hærra. Kærði hafi að lokum hætt og brotaþoli upplifað að kærði hafi áttað sig á því hvað hann væri að gera og hafi hann þá haft munnmök við brotaþola. Kærði hafi ítrekað spurt brotaþola hvort henni fyndist sem hegðun hans væri nauðgun og hann síðan farið að gráta. Kærði hafi síðan fallist á að leyfa henni að fara heim klukkan 21 sama dag og hafi hann fengið vin sinn til að skutla henni. Eftir að heim hafi verið komið hafi brotaþoli hringt í systur sína sem hafi komið til hennar og þær farið saman á neyðarmóttöku Landspítalans og í kjölfarið gefið skýrslu hjá lögreglu.
Við húsleit lögreglu hjá kærða hafi sést að myndavélakerfi væri inni í húsinu og ein myndavél beinst að svefnherbergi kærða þar sem brotið hafi m.a. átt sér stað. Kærði hafi ítrekað neitað að veita lögreglu aðgang að kerfinu, en lögregla vinni að því að ná myndefni úr kerfinu.
Í vottorði frá neyðarmóttöku Landspítalans komi fram að við skoðun hafi brotaþoli verið með áverka á endaþarmi og að hún hafi einnig verið blá og marin á báðum hnjám. Þá sé einnig lýst áverkum víðsvegar um líkamann, mar hafi verið að koma út víða á líkama, m.a. á hálsi, handleggjum, baki og mikið mar á hnjám. Þá hafi brotaþoli fundið til í hálsi og raddböndum eftir að hafa grátið mikið og hafi verið talið að þeir áverkar samræmdust frásögn brotaþola. Varðandi andlega líðan brotþola hafi brotaþoli við komi á neyðarmóttöku, titrað og skolfið. Um mikla vöðvaspennu hafi verið að ræða, brotaþoli hafi setið alveg stíf og átt erfitt með að slaka á. Hún hafi setið í hnipri öðru hvoru og hafi verið í dofa- og lostástandi. Hún hafi verið niðurbrotin, hrædd og miður sín. Hún hafi verið með sjálfsásakanir þar sem hún hafi áður verið búin að fá viðvörun um þennan mann. Þá hafi hún verið sögð einlæg, hafa gefið skýra sögu og samræmi hafi verið í því sem hún hafi sagt og þar sem hún fyndi til. Þá hafi hún sagst hafa upplifað mikinn ótta þegar þetta hafi gerst og fundist hann vera skrímsli. Þá segi jafnframt í skýrslu neyðarmóttöku að brotaþoli hafi ekki verið ákveðin í að kæra vegna mikils ótta við hefnd geranda. Í gögnum málsins sé ljósmyndaskýrsla frá tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þar sem sjá megi mikla og dreifða áverka á líkama brotaþola.
Þann 12. desember s.l. hafi brotaþoli verið boðuð til skýrslutöku á lögreglustöð. Hafi hún þá ekki viljað gefa skýrslu, heldur viljað draga framburð sinn til baka. Þegar brotaþola hafi verið bent á að hún þyrfti þó á endanum að koma fyrir dóm og gefa framburð þar, hafi hún sagt að þá myndi hún segja að þetta hafi allt saman verið lygi. Hún hafi sagt að hún vildi ekki þetta vesen og vildi ekki lenda í vandræðum, að það væri best fyrir hana og hennar fjölskyldu. Hafi brotaþoli verið í miklu uppnámi, skolfið og titrað og beygt nokkrum sinnum af.
Í upphafi málsins hefði Inga Lillý Brynjólfsdóttir, hdl., verið tilnefndur réttargæslumaður brotaþola og hafi hún verið viðstödd er rannsóknarlögreglumaður tók skýrslu af brotaþola á neyðarmóttökunni. Sú skýrsla hafi verið tekin upp í hljóði og fylgir sú upptaka gögnum málsins. Þann 14. desember sl. hafi lögreglu borist umboð, dags. 13. desember sl., til handa Sveini Andra Sveinssyni, hrl., þar sem brotaþoli óskar eftir því að hann verði tilnefndur réttargæslumaður hennar í málinu í stað Ingu Lillý. Með umboðinu hafi fylgt yfirlýsing frá brotaþola þar sem hún reki málavexti á annan hátt en í skýrslutöku hjá lögreglu á neyðarmóttöku og komi þar fram að kynlífið hafi verið með hennar samþykki og að hún hafi viljað stunda gróft kynlíf. Jafnframt hafi hún viljað afturkalla heimild þá sem hún gaf lögreglu til að kalla eftir læknisvottorði hjá Landspítalanum, en einnig hafi hún afturkallað heimild sína til Landspítalans þar sem hún aflétti trúnaði yfir þeim gögnum.
Þann 16. desember sl. hafi systir brotaþola gefið skýrslu hjá lögreglu þar sem hún hafi neitað að tjá sig að mestu en sagt svo vera, þar sem hún óttaðist kærða og „skósveina hans“.
Fram komi í skýrslutöku af kærða að hann neiti sök í málinu. Hann kvaðst hafa hitt brotaþola að morgni 10. desember sl. Þau hafi byrjað á því að taka upp úr töskum og átt svo góða og villta kvöldstund. Þau hefðu sofið saman alls staðar í húsinu með samþykki þeirra beggja. Aðspurður hvort að þau hefðu farið í bað saman á neðri hæðinni hafi kærði sagt að svo hefði verið. Í fyrstu hafi hann sagt að þau hefðu bara verið að kela og kyssast í baðinu en þegar lesið hafi verið upp úr framburði brotaþola um að það hefðu orðið endaþarmsmök í baðinu hafi hann sagt að svo hefði verið, en með samþykki þeirra beggja. Aðspurður hvort brotaþoli hafi öskrað og beðið hann um að hætta endaþarmsmökum hafi hann sagt að svo hafi ekki verið. Í þinghaldi vegna kröfu ákæruvaldsins um framlengingu á gæsluvarðhaldi kærða á grundvelli rannsóknarhagsmuna hafi verjandi kærða minnst á ofangreinda yfirlýsingu og hafi því fengið vitneskju um hana frá núverandi lögmanni brotaþola.
Að mati lögreglu sé ljóst að brotaþoli skýri frá grófu kynferðisofbeldi kærða í hennar garð og lýsir því að hafa verið haldið á heimili kærða gegn hennar vilja. Áverkar á líkama hennar samræmist framburði hennar. Hafi hún haft mikið og dökkt mar á báðum hnjám sem í niðurstöðum læknis á neyðarmóttöku segi að komi heim og saman við framburð hennar um að henni hafi verið nauðgað aftan frá um endaþarm og verið skipað að ganga á hnjánum með allan þunga geranda á sér. Þá hafi hún verið með áverka á hálsi og rákir sem samkvæmt lækni kæmi vel heim og saman við lýsingu brotaþola á því að gerandi hafi rifið aftan í hnakkann og hálsinn til að toga hana til. Þá hafi brotaþoli verið með húðrispur og sviða á baki sem hún hafi lýst að væru eftir mottu sem hún lá á þegar henni hafi verið nauðgað um leggöng. Andlegt ástand brotaþola við komu á neyðarmóttöku hafi samræmst því að hún hafi orðið fyrir miklu áfalli. Hún hafi verið í losti, skolfið og grátið en hafi þó verið skýr í frásögn og trúverðug samkvæmt gögnum frá neyðarmóttöku. Lögreglan telji hins vegar framburð kærða fráleitan og samræmist ekki líkamlegu og andlegu ástandi brotaþola.
Samkvæmt öllu framansögðu er það mat ákæruvaldsins að kærði liggi undir sterkum grun um að hafa framið brot sem varðað við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er það mat lögreglu að með þessu sé fullnægt skilyrðum 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016, um að hann hafi á reynslutímanum rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnarinnar.
Samkvæmt 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga getur dómstóll úrskurðað að kröfu ákæranda að maður sem hlotið hafi reynslulausn skuli afplána eftirstöðvar refsingar ef hann á reynslutíma rýfur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi framið nýtt brot sem varðað geti sex ára fangelsi eða að brotið varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Með heildarmati á þeim gögnum sem fyrir liggja í máli þessu er það niðurstaða dómsins að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um að kærði hafi á reynslutíma rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnarinnar og til staðar sé sterkur grunur um að kærði hafi framið brot sem varðað geti allt að sextán ára fangelsi. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra í máli þessu eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016, frestar kæra til Hæstaréttar Íslands ekki framkvæmd úrskurðar.
Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, skal afplána 630 daga eftirstöðvar reynslulausnar 5 ára fangelsisrefsingar, samkvæmt dómi Hæstaréttar uppkveðnum [...] 2012, og 3 mánaða fangelsisrefsingar samkvæmt dómi héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum [...] 2014, sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun þann 25. ágúst 2016.
Kæra til Hæstaréttar Íslands frestar ekki framkvæmd úrskurðarins.