Hæstiréttur íslands
Mál nr. 110/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
|
|
Fimmtudaginn 19. febrúar 2015 |
|
Nr. 110/2015. |
Landsvirkjun (Jón Sveinsson hrl.) gegn Ístaki hf. (Hjördís Halldórsdóttir hrl.) |
Kærumál. Málskostnaðartrygging.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um að Í hf. yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli félagsins á hendur L. Var ekki talið að leiddar hefðu verið líkur að því að Í hf. væri ófært um greiðslu málskostnaðar, sem félagið kynni að verða dæmt til að greiða í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. febrúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. janúar 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Landsvirkjun, greiði varnaraðila, Ístaki hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. janúar 2015.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 15. desember 2014, er höfðað af Ístaki hf., Bugðufljóti 19, Mosfellsbæ, á hendur Landsvirkjun, Háaleitisbraut 68, Reykjavík.
Við þingfestingu málsins, 4. desember 2014, krafðist stefndi málskostnaðartryggingar úr hendi stefnanda að mati dómsins með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vegna líkinda fyrir ógjaldfærni stefnenda.
Stefnandi mótmælir kröfunni.
Við munnlegan flutning málsins um þennan þátt hans 15. desember 2014 ítrekaði stefndi kröfu sína og krafðist einnig málskostnaðar úr hendi stefnanda í þessum þætti málsins. Stefnandi ítrekaði mótmæli sín við kröfunni og krafðist einnig málskostnaðar úr hendi stefnda í þessum þætti málsins.
I
Til stuðnings þeirri kröfu að stefnanda verði gert að setja málskostnaðartryggingu vísar stefndi til þess að samkvæmt fram lögðum ársreikningi stefnanda fyrir árið 2013 sé staða stefnanda slæm. Á árinu hafi verið tap af rekstri stefnanda og nemi tapið um 2,4 milljörðum króna. Árið 2013 hafi bú móðurfélags stefnanda jafnframt verið tekið til gjaldþrotaskipta og sé Landsbankinn hf. nú aðaleigandi stefnanda. Bankinn hafi án árangurs reynt að selja stefnanda, en ekki fengið viðunandi tilboð í hlutafé hans. Einnig hafi stefnandi kynnt þá fyrirætlan sína að ,,skipta rekstri félagsins upp í tvö sjálfstæð dótturfélög“, annars vegar Ístak Ísland ehf. og hins vegar Ístak Norge AS. Fyrrnefnda félagið hafi tekið til starfa 1. október 2014 og haldi utan um starfsemi á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi, en síðarnefnda félagið haldi utan um starfsemi í Noregi. Stefndi hafi sent stefnanda fyrirspurn vegna þessara fyrirætlana 7. nóvember 2014 og óskað eftir svörum innan 10 daga, en svar hafi ekki borist.
Skilyrði b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 sé því uppfyllt fyrir því að stefnanda verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar.
II
Stefnandi byggir á því að framangreint ákvæði laga nr. 91/1991 beri að túlka þröngt. Árangurslaust fjárnám hafi ekki verið gert hjá stefnanda. Þá sé fjárhagsstaða hans ekki slík að leiða megi líkur að því að hann verði ófær um greiðslu málskostnaðar, sem hann kunni að verða dæmdur til að greiða í þessu máli. Samkvæmt framlögðum ársreikningi fyrir árið 2013 nemi eignir hans samtals um 11 milljörðum króna í árslok 2013, þar af séu fastafjármunir að andvirði um 6,3 milljarða króna og veltufjármunir að verðmæti um 4,7 milljarðar króna. Þá hafi handbært fé frá rekstri í lok árs 2013 numið um 594 milljónum króna. Ekki skipti máli þótt stefnandi hafi kynnt þá fyrirætlun sína að skipta rekstri sínum upp í tvö sjálfstæð dótturfélög. Ekki skiptir heldur máli þótt fyrirætlanir eiganda stefnanda um sölu á stefnanda hafi ekki gengið eftir.
III
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991um meðferð einkamála getur stefndi krafist þess, við þingfestingu máls, að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar megi leiða líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar sem á hann kunni að falla í málinu.
Meðal gagna málsins er ársreikningur stefnanda fyrir árið 2013. Ársreikningurinn er áritaður af óháðum endurskoðanda án athugasemda 26. febrúar 2014. Í ársreikningnum kemur fram að tap hafi orðið á árinu 2013 að fjárhæð um 2,4 milljarðar króna. Það sé verulegur viðsnúningur frá árinu 2012, en þá hafi hagnaður af rekstri stefnanda numið um hálfum milljarði króna. Hins vegar kemur fram í ársreikningnum að eignir stefnanda nemi samtals um 11 milljörðum króna í árslok 2013, þar af séu fastafjármunir að andvirði um 6,3 milljarðar króna og veltufjármunir að verðmæti um 4,7 milljarðar króna. Á móti séu skuldir stefnanda um 8,2 milljarðar króna. Eigið fé stefnanda nemi um 2,8 milljörðum króna. Þá átti stefnandi í árslok 2013 um 594 milljónir króna í handbært fé, og hafði handbært fé hans lækkað úr um 609 milljónum króna í ársbyrjun, eða um rúmar 15 milljónir króna. Óumdeilt er að ekki hefur verið gert árangurslaust fjárnám hjá stefnanda. Fyrirætlun stefnanda um að ,,skipta rekstri félagsins upp í tvö sjálfstæð dótturfélög“ getur, eins og málið liggur fyrir dóminum, ekki haggað þessari niðurstöðu. Þá getur engu máli skipt þótt breytingar kunni að verða á eignarhaldi stefnanda.
Að mati dómsins hafa ekki verið leiddar að því líkur að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar, sem hann kann að verða dæmdur til að greiða í þessu máli. Verður því að hafna kröfu stefnda.
Ákvörðun um málskostnað í þessum þætti málsins bíður efnisdóms.
Við meðferð málsins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hafnað er þeirri kröfu stefnda, Landsvirkjunar, að stefnanda, Ístaki hf., verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í þessu máli.