Hæstiréttur íslands

Mál nr. 633/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                                                                              

Miðvikudaginn 7. desember 2011.

Nr. 633/2011.

A

(Leifur Runólfsson hdl.)

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Kærumál. Börn. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun máls frá Hæstarétti.

A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem B var heimilað að vista tvö börn A utan heimilis um tveggja mánaða skeið frá tilteknum tíma. Áður en dómur gekk í Hæstarétti lauk þeim tíma sem B var heimilað að vista börn A utan heimilis. Hafði A því ekki lengur lögvarða hagsmuni af að fá hnekkt niðurstöðu hins kærða úrskurðar og var málinu vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem barst héraðsdómi 23. nóvember 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember 2011, þar sem staðfestur var úrskurður varnaraðila 4. október 2011 um að B og C skyldu vistuð á heimili á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði frá og með 4. október 2011 að telja. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og „öllum kröfum varnaraðila um vistun barna sóknaraðila utan heimilis verði hafnað þannig að honum verði fengin forsjá barna sinna að nýju.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með hinum kærða úrskurði var fallist á að tvö börn sóknaraðila skyldu vistuð á heimili á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði frá og með 4. október 2011 að telja. Samkvæmt þessu hefur sóknaraðili ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá hnekkt niðurstöðu hins kærða úrskurðar um heimild varnaraðila til vistunar barna sóknaraðila utan heimilis hans. Málinu verður því vísað frá Hæstarétti.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember 2011.

I.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 3. nóvember sl., barst dóminum 11. október 2011 með kröfu sóknaraðila, A, [...], [...], um að úrskurður varnaraðila, barnaverndarnefndar Reykjavíkur, frá 4. október 2011, um að börn sóknaraðila, B og C, verði vistuð á heimili á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði frá þeim degi, verði ógiltur og að sóknaraðila verði afhent börnin þegar í stað. Þá krefst hann málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður varnaraðila frá 4. október 2011 verði staðfestur. Gerir varnaraðili ekki kröfu um málskostnað.

II.

Börnin sem mál þetta snýst um eru fimm ára gamlir tvíburar, fæddir 23. apríl 2006. Eru þau einu börn foreldra sinna, sóknaraðilans A og D. Foreldrarnir skildu í ársbyrjun 2008 og lúta börnin sameiginlegri forsjá þeirra, en lögheimili barnanna er hjá sóknaraðila.

Með úrskurði hinn 21. september 2010 tók varnaraðili ákvörðun um að börnin skyldu vistuð á heimili á hans vegum í tvo mánuði frá þeim degi að telja. Í framhaldi af því krafðist sóknaraðili þess fyrir dómi að úrskurður þessi yrði felldur úr gildi. Undir rekstri þess máls setti varnaraðili fram kröfu um að börnin yrðu vistuð utan heimilis sóknaraðila allt til 21. mars 2011, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Því máli lauk með dómsátt 8. desember 2010, þar sem sóknaraðili og móðirin samþykktu þessa kröfu, en þar var einnig kveðið á um umgengni þeirra við börnin sem komið hafði verið í fóstur á heimili samkvæmt ákvörðun varnaraðila. Að áliðnu tímabilinu sem dómsáttin tók til lýsti móðirin þeirri afstöðu að hún teldi hagsmunum barnanna best borgið með því að þau yrðu áfram á heimili fósturforeldra næstu sex mánuði. Því andmælti sóknaraðili, sem krafðist þess að fá börnin aftur til sín. Með úrskurði varnaraðila uppkveðnum 22. mars 2011 var kveðið á um að börnin skyldu áfram vistuð utan heimilis sóknaraðila í tvo mánuði. Varnaraðili taldi nauðsynlegt að vista börnin lengur en greinda tvo mánuði og krafðist þess því fyrir héraðsdómi að vistun barnanna utan heimilis skyldi standa í sex mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar varnaraðila, eða til 22. september 2011. Féllst héraðsdómur á greinda kröfu með úrskurði sínum hinn 25. maí 2011 og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti 22. júní sama ár. Að loknu framangreindu tímabili hinn 22. september 2011 ákvað varnaraðili, á grundvelli heimildar í 31. gr. barnaverndarlaga að neyðarvista börnin í allt að 14 daga og úrskurðaði svo hinn 4. október sl. að börnin skyldu vistuð utan heimilis í tvo mánuði frá þeim degi, með vísan til a-liðs 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Hefur sóknaraðili borið framangreindan úrskurð undir dóminn með heimild í 2. mgr. 27. gr. sömu laga og krefst þess eins og áður segir að hann verði felldur úr gildi og að varnaraðila verði gert að afhenda honum börnin þegar í stað.

III.

Samkvæmt lýsingu varnaraðila hafa málefni barnanna verið í vinnslu hjá honum frá því í október 2007, en þá hafi honum fyrst borist tilkynning um vanrækslu vegna þeirra. Hinn 21. nóvember s.á. hafi foreldrarnir undirritað áætlun um meðferð máls þar sem þau hafi fallist á stuðningsúrræði varnaraðila, m.a. að þau undirgengjust greiningar- og kennsluvistun fyrir sig og börnin á Vistheimili barna. Í lok janúar 2008 hafi foreldrarnir tekið börnin af vistheimilinu en þau hafi verið vistuð þar aftur hinn 13. febrúar sama ár með samþykki foreldranna. Hafi það verið gert í framhaldi heimsóknar starfsmanns varnaraðila á heimili barnanna þann dag, en hann hafi metið aðstæður barnanna þannig að þær væru ótryggar og að aðbúnaðar allur væri óásættanlegur, auk þess sem móðirin væri í andlegu ójafnvægi. Hafi staðið til að börnin væru einungis vistuð í eina viku á Vistheimili barna á meðan foreldrarnir ynnu í sínum málum en dvölin þar hafi staðið alls í sex mánuði, með samþykki foreldranna.

Foreldrarnir hafi undirritað meðferðaráætlun 3. mars 2008 og hafi þeir þá m.a. samþykkt að undirgangast forsjárhæfnismat. Í niðurstöðum forsjármats E sálfræðings frá júní 2008 komi fram að foreldrarnir hafi staðið í erfiðu skilnaðarferli og deilt um forsjá barnanna. Í viðtölum við báða aðila hafi komið fram mikið vantraust og ásakanir á báða bóga um hver ætti sök á erfiðleikunum. Einnig hafi verið fullyrðingar á báða bóga um vanhæfi hins í foreldrahlutverkinu. Samkvæmt sálfræðilegum prófun­um, sem gerðar hafi verið á foreldrunum hafi þau bæði verið talin hæf til að sinna foreldra­hlutverkinu en til að sinna því af fullri ábyrgð og skyldurækni þyrftu þau að leggja deilumál sín til hliðar og einbeita sér að hag barnanna og bæta uppeldisaðstæður þeirra. Gerðu þeir það ekki og nýttu ekki ráðgjöf sem í boði væri, bæði varðandi uppeldi barnanna og vinnu með eigin veik­leika, þ.e. uppeldis- og sálfræðiráðgjöf sem veitt væri af barnaverndaryfirvöldum, gætu þeir ekki talist hæfir til að sinna foreldra­hlutverkinu.

Varnaraðili kveður starfsmenn sína hafi leitað eftir upplýsingum um afskipti lögreglu af for­eldrum barnanna. Í svarbréfi, dags. 4. júlí 2008, komi fram að frá 1. desember 2007 hafi lögreglan í 16 skipti haft af­skipti af foreldrunum. Einnig hafi verið leitað eftir upplýs­ingum slysa- og bráðamóttöku Landspítalans og í bréfi þaðan, dags. 9. júlí 2008, komi fram að móðirin hafi leitað þangað í þrígang.

Foreldrarnir hafi undirritað nýja meðferðaráætlun 4. júlí 2008 og á meðferðarfundi starfsmanna varnaraðili hinn 9. október 2008 hafi verið bókað að stuðningsúrræðið Greining og ráðgjöf væri hafið í samvinnu við foreldra og lagt til að meðferðarúrræðið yrði framlengt um fjóra mánuði. Fram til ársloka 2008 hafi borist alls sex nýjar tilkynningar þess efnis að aðbúnaði barnanna væri verulega áfátt í umsjá foreldranna. Slíkar tilkynningar hafi haldið áfram að berast allt árið 2009 og hafi þær orðið samtals 14 á því ári. Í tilefni þessa hafi verið óskað eftir upplýsingum um líðan barnanna í leikskóla og í svari, dags. 20. október 2009, hafi komið fram að líðan þeirra hefði hrakað, þau væru vansæl og félagslegur aðbúnaður þeirra færi versnandi vegna rígs og ósættis foreldranna. Málið hafi verið tekið fyrir á meðferðarfundi starfsmanna varnaraðila 3. desember 2009 og ákveðið að gera meðferðaráætlun með foreldrum með aðkomu sálfræðings sóknaraðila sem myndi ræða við börnin og meta líðan þeirra. Foreldrum yrði gert að leita sér aðstoðar sálfræðings með það að markmiði að þau gætu unnið saman sem forsjáraðilar barnanna. Málið hafi enn verið tekið fyrir á meðferðarfundi starfsmanna varnaraðila hinn 7. janúar 2010 og hafi þá verulegum áhyggjum verið lýst af framvindu málsins, tilkynningarnar héldu áfram að berast og samvinna við varnaraðila væri engin.

Fram kemur hjá varnaraðila að foreldrarnir hafi mætt í viðtal sitt í hvoru lagi 13. janúar s.á. og þeim þá verið kynnt bókun meðferðarfundar. Foreldrarnir hafi lýst yfir áhyggjum af börnunum hvort í umsjón annars. Varnaraðili hafi lagt fram til­kynningu um mögulegt kynferðis­legt ofbeldi á telpunni í umsjá móðurinnar. Telpan hafi farið í könnunarviðtal í Barnahúsi 19. janúar en ekkert komið þar fram sem benti til kynferðislegrar misnotkunar. Á fundi sóknaraðila 23. febrúar s.á. hafi verið ákveðið að foreldrunum yrði gert að þiggja sálfræðiaðstoð til að styrkja sig í foreldra­hlutverkinu, að sálfræðilegt mat yrði gert á börnunum, að aflað yrði upplýs­inga frá lög­reglu og að óboðað eftirlit yrði með heimili varnaraðila. Foreldrarnir hafi verið boðaðir til viðtals þar sem þeir hafi skrifað undir áætlun um meðferð máls. Í svarbréfi lög­reglu, dags. 24. mars 2010, komi fram að lögreglan hafi 16 sinnum haft afskipti af mál­efnum sóknaraðila á tímabilinu 4. júlí 2008 til 10. mars 2010.

Varnaraðili kveður tilkynningar hafa haldið áfram að berast starfsmönnum varnaraðila og í aprílmánuði 2010 hafi borist þrjár tilkynningar þar sem áhyggjum hafi verið lýst af umönnum barnanna hjá sóknaraðila. Í niðurstöðum mats F sálfræðings á líðan og stöðu barnanna, dags. 19. maí s.á., komi fram að börnin hafi verið eðlilega þroskuð, vitsmuna­lega og félagslega. Sú togstreita sem ríkt hafi á milli foreldra virtist ekki hafa sett greini­leg merki á börnin en mikilvægt sé að foreldrar geti unnið saman að velferð barna sinna til að tryggja hagsmuni þeirra. Foreldrarnir hafi gengist undir forsjárhæfnismat á ný og í skýrslu E sálfræðings, dags. 23. júní 2010, komi m.a. fram það heildarmat á forsjárhæfni foreldranna að það sé undir meðallagi. Séu báðir foreldrarnir hæfir til að sinna foreldrahlutverkinu en hæfi sóknaraðila sé þó heldur lakara en móður. Forsjárhæfni foreldranna sé hins vegar skert vegna ósættis þeirra og sé því full ástæða til að halda áfram því eftirliti sem verið hafi með málefnum barnanna.

G sálfræðingur hafi tekið að sér að vinna með foreldrunum svo þeir gætu unnið saman sem forsjáraðilar barnanna. Í skýrslu hans hinn 10. júlí 2010 komi fram að hvorugt foreldrið hafi kært sig um samskipti við hitt né hafi þau talið forsendur fyrir vinnu sálfræðingsins með þeim. Foreldrarnir hafi neitað að hittast og hafi þau ásakað hvort annað. Mat sálfræðingsins hafi verið að foreldrarnir gætu ekki bætt samskipti sín og að áfram yrðu deilur á milli þeirra varðandi börnin og annað. Ólíklegt væri að hægt yrði að sætta foreldrana og mælti sálfræðingurinn ekki með að sóknaraðili héldi áfram vinnu sinni með samskipti foreldranna þar sem engar forsendur væru fyrir henni.

Tilkynning hafi borist 18. júlí 2010 þess efnis að telpan væri í umsjá skyld­mennis sem ekki væri treystandi. Þá hafi tilkynning borist frá varnaraðila 27. júlí s.á. þess efnis að stúlkan hefði lýst harðræði og vanrækslu af hálfu móður sinnar. Sálfræðingur sóknaraðila hafi rætt við börnin 27. ágúst s.á. og 3. september s.á. hafi verið staðfest af hálfu slysadeildar að varnaraðili hefði mætt þangað með telpuna. Málið hafi verið lagt fyrir meðferðarfund starfsmanna 9. september s.á. þar sem bókað hafi verið að á grundvelli fyrirliggjandi gagna í málinu yrði að teljast hæpið að börnin næðu eðlilegum þroska í þeim aðstæðum sem foreldrarnir byðu þeim. Á fundi varnaraðila hinn 21. september 2010 hafi það verið niðurstaða varnaraðila, með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum í málinu, að foreldrarnir gegndu ekki forsjárskyldum sínum líkt og lög gerðu ráð fyrir og að börnin gætu ekki búið við ríkjandi ástand.

Varnaraðili kvað upp úrskurð 21. september 2010 þess efnis að börnin skyldu vistuð á heimili á hans vegum í tvo mánuði frá þeim degi að telja. Í framhaldi af því krafðist sóknaraðili þess fyrir dómi að úrskurður þessi yrði felldur úr gildi. Undir rekstri þess máls setti varnaraðili fram kröfu um að börnin yrðu vistuð utan heimilis sóknaraðila allt til 21. mars 2011. Því máli hafi lokið með dómsátt 8. desember 2010 þar sem sóknaraðili og móðirin hafi samþykkt þessa kröfu, en þar hafi einnig verið kveðið á um umgengni þeirra við börnin sem komið hafi verið í fóstur á heimili samkvæmt ákvörðun varnaraðila.

Varnaraðili kveður jafnframt hafa verið ákveðið á framangreindum fundi hinn 21. september að börnin skyldu fara í könnunarviðtal í Barnahúsi og hafi þau þar greint frá ofbeldi af hálfu móður. Á meðferðarfundi starfsmanna sóknaraðila hinn 29. september sama ár hafi verið bókað að nauðsynlegt væri að láta enn frekar á það reyna að bæta uppeldisskilyrði foreldranna þannig að hagsmunir barnanna yrðu í fyrirrúmi. Lagt hafi verið til að fundinn yrði fjölskylduráðgjafi til að vinna með foreldrum og að þau sæktu bæði tíma hjá geðlækni. Málið hafi á ný verið bókað á meðferðarfundi starfsmanna varnaraðila hin 4. október 2010 vegna ósættis foreldra um umgengni við börnin á vistunartímanum. Hafi foreldrarnir undirritað áætlun um meðferð máls, dags. 18. og 19. október sama ár, þar sem fram hafi komið að þau myndu sækja viðtöl hjá fjölskylduráðgjafa og geðlækni, auk þess sem móðir hafi samþykkt að sækja viðtöl hjá sálfræðingi sem sérhæfði sig í að vinna með foreldra sem beittu ofbeldi.

Varnaraðili kveður starfmenn sína hafa kallað eftir upplýsingum frá meðferðarfulltrúum foreldra í janúar sl. Komi m.a. fram í skýrslu H sálfræðings, dags. 10. janúar 2011, að á meðferðartímabilinu hafi orðið jákvæð breyting hjá foreldrunum varðandi samskiptaerfiðleika þeirra í milli. Um væri að ræða fjölskyldu sem ætti við óleysta erfiðleika að etja, bæði persónulega og fjölskyldulæga. Hvað sóknaraðila varðaði þá væri mikilvægt að vinna með tengslin milli hans og móður með það að markmiði að styrkja þau í foreldrahlutverkinu. Í skýrslu I sálfræðings móður, dags. 13. janúar 2011, komi m.a. fram að hún hafi takmarkað innsæi, hún aðgreini ekki vel eigin þarfir og barnanna og eigi erfitt með að sjá langtímaþarfir barnanna. Meðferðartíminn sé hins vegar of stuttur til að meta hvort móðirin taki meðferð. Í erindi sem borist hafi frá J geðlækni sóknaraðila hinn 17. janúar 2011 komi fram að erfitt sé fyrir hann að gefa umsögn um málið eftir fjögur viðtöl við sóknaraðila. Sóknaraðili sjái enga þörf fyrir geðlæknisaðstoð og telji sig ekki hafa nein vandamál.

Hinn 14. janúar 2011 hafi borist erindi frá fósturforeldrum barnanna þar sem þau hafi lýst áhyggjum af líðan barnanna eftir umgengni við foreldrana og að drengurinn hafi upplýst að hann hafi verið beittur harðræði heima hjá sóknaraðila, bæði af honum sjálfum og sambýliskonu hans. Hafi drengurinn og skýrt sálfræðingi varnaraðila frá því að sambýliskonan hafi meitt hann. Þá hafi upplýsingar borist frá leikskóla barnanna, dags. 17. febrúar 2011, um að líðan þeirra væri með miklum ágætum. Þau hefðu tekið stórstígum framförum og væru í góðu jafnvægi.

Á fundi varnaraðila hinn 8. mars 2011 hafi legið fyrir greinargerð starfsmanna, dags. 2. s.m., þar sem lagt hafi verið til að börnin færu á ný í umsjá foreldra sinna hinn 18. mars 2011. Það hafi hins vegar verið mat varnaraðila, með tilliti til gagna málsins í heild sinni, að uppeldisfærni foreldranna hefði ekki styrkst nægjanlega á tímabilinu til þess að það þjónaði hagsmunum barnanna að fara aftur í þeirra umsjá og teldist forsjárhæfni þeirra enn vera skert. Brýnt væri að reynt yrði til hlítar að vinna áfram með samskiptavanda foreldra og áfram yrði veittur stuðningur til að styrkja þau í uppeldishlutverki sínu, s.s. með sálfræðiviðtölum beggja foreldra auk viðtalsmeðferðar hjá fjölskylduráðgjafa. Hafi móðirin skrifað undir samþykki fyrir áframhaldandi vistun til sex mánaða hinn 15. mars 2011 en sóknaraðili ekki verið því samþykkur. Kemur fram að sálfræðingur varnaraðila hafi rætt við börnin á fósturheimilinu 17. mars 2011 og þau þá lýst yfir mikilli ánægju með veru sína á fósturheimilinu. Hafi sálfræðingurinn talið börnin hafa tekið stórstígum framförum hvað málþroska varðaði. Málið hafi á ný verið tekið fyrir á fundi varnaraðila hinn 22. mars s.á. og varnaraðili þá ítrekað framangreint mat sitt. Enn hafi málið verið tekið fyrir á fundi 5. apríl s.á. og þar sem ekki hefði þá legið fyrir samkomulag við foreldrana um umgengni í fóstri hafi varnaraðili þá úrskurðað um umgengnina, sbr. 74. gr. barnaverndarlaga.

Móðirin hafi undirritað meðferðaráætlun hinn 27. apríl 2011 og óskað eftir að fá viðtöl við K sálfræðing. Komi fram í skýrslu hans, dags. 19. ágúst s.á., að það sem hún hafi lært sé líklegt til að styrkja hana sem foreldri og uppalanda. Hafi líðan hennar sveiflast töluvert í þeim viðtölum sem hann hafi átt við hana, líkt og búast mætti við með hliðsjón af óvissunni um framtíð barna hennar, umgengni við þau og erfiðleikum í samskiptum við sóknaraðila. Móðirin hafi og farið í viðtöl til L geðlæknis.

Meðferðaráætlun, dags. 11. apríl 2011, hafi verið send lögmanni sóknaraðila, en sóknaraðili hafi þó ekki undirritað hana. Báðir foreldrarnir hafi óskað eftir að nýr fjölskyldumeðferðarfræðingur kæmi að málinu í stað H félagsráðgjafa og hafi þau orðið sammála um að velja M sálfræðing. Móðirin hafi strax mætt í boðuð viðtöl til hans en sóknaraðili hafi alfarið neitað að hitta hann fyrstu vikurnar, nema með tilteknum skilyrðum. Sóknaraðili og N eiginkona hans hafi komið til viðtals hjá varnaraðila hinn 31. maí sl. Rætt hafi verið um sáttameðferðina hjá M og hafi sóknaraðili þá sagst ekki vilja taka þátt í henni nema eiginkona sín fengi að vera með í öllum viðtölum. Að ósk varnaraðila hafi N lýst sig reiðubúna að samþykkja að fara í sálfræðimat m.t.t. uppeldishæfni. Þau hjónin hafi hins vegar ekki orðið við ósk starfsmanna varnaraðila um að undirrita meðferðaráætlunina en hafi tekið hana með sér. Undirrituð meðferðaráætlun hafi þó aldrei borist en sóknaraðili hafi samþykkt, með tölvupósti dags. 7. júní 2011, að gert yrði tengslamat á börnunum. Með tölvupósti hinn 21. júní 2011 hafi N dregið til baka samþykki sitt um að gert yrði sálfræðimat á henni.

Sóknaraðili hafi óskað eftir því við varnaraðila að fá að fara í viðtöl til O sálfræðings og hafi það verið samþykkt. Komi fram í skýrslu O, dags. 30. ágúst 2011, að sóknaraðili hafi mætt til hans í tvö viðtöl. Hafi sóknaraðili verið gríðarlega ósáttur við gang mála og virst hafa allt á hornum sér, sérstaklega gagnvart varnaraðila. Hafi fljótt orðið ljóst að sóknaraðili hefði lítinn áhuga á að vinna með eitthvað í sínu fari. Hafi það verið mat sálfræðingsins að áframhaldandi viðtalsvinna með sóknaraðila væri ekki vænleg þar sem hún væri gegn vilja hans.

Í skýrslu M sálfræðings, dags. 18. ágúst 2011, komi fram að móðir hafi strax mætt í boðað viðtal en þurft hafi þrjú samtöl við sóknaraðila og eitt við lögmann hans til að fá samþykki hans fyrir að mæta í viðtal. Þrátt fyrir það hafi hann ekki mætt strax og hafi þurft milligöngu starfsmanna varnaraðila til. Hafi og þurft að samþykkja það skilyrði sóknaraðila fyrir viðtölunum að N kona hans fengi að vera viðstödd öll viðtölin. Hafi M ályktað í skýrslunni að foreldrarnir gætu átt í samskiptum er vörðuðu börnin, væru mörk skýr, samskiptaleiðir skilgreindar og þau nytu stuðnings þangað til þau hefðu náð aukinni hæfni í samskiptum. Ætti frekari vinna með samskipti foreldranna að fara fram mæltist hann til þess að hún yrði unnin af fagaðila og að samskipti foreldranna yrðu undir eftirliti þangað til þau hefðu náð aukinni færni.

Í skýrslu P sálfræðings, dags. 26. ágúst 2011,  varðandi tengslamat á börnunum, komi fram drengurinn hafi hvað jákvæðust tengsl við móður sína og móðurfjölskyldu. Tengsl drengsins gagnvart sóknaraðila virðist samkvæmt niðurstöðum viðtala og tengslaprófs gefa vísbendingar um að drengurinn sé mjög óöruggur gagnvart sóknaraðila og óttist hann jafnvel. Hins vegar virðist hann hafa frekar hlutlaus tengsl við N stjúpmóður sína. Tengsl drengsins við fósturforeldra, sérstaklega fósturmóður, séu jákvæð. Tengsl telpunnar gagnvart foreldrum sínum beri vott um ákveðið óöryggi þar sem hún sé bæði hlutlaus og lokuð gagnvart þeim. Hún virtist hins vegar hafa myndað jákvæð tengsl gangvart stjúpmóður sinni og óskað þess helst að geta alltaf verið nálægt henni. Tengsl telpunnar gagnvart fósturfjölskyldu sinni séu almennt mjög jákvæð, auk þess sem hún virðist treysta mikið á samskipti og tengsl við bróður sinn.

E sálfræðingur hafi gert forsjárhæfnismat á foreldrum á árunum 2008 og 2010. Komi þar m.a. fram að telja verði forsjárhæfni beggja foreldranna skerta vegna ósættis á milli þeirra. Hafi sálfræðingur varnaraðila óskað eftir frekari útskýringum á mati E. Komi fram í svarbréfi hans, dags. 19. ágúst 2011, að í niðurstöðum síðara matsins hafi verið bent á margvíslega veikleika í fari beggja foreldra sem skertu mjög færni þeirra í foreldrahlutverkinu. Vitnað hafi verið til óöryggis, sveiflukennds geðslags, hvatvísi og innsæisskorts hjá móður og ósveigjanleika, stjórnsemi, tortryggni og tilhneigingar til að væna annað fólk um neikvæðar hugsanir og fyrirætlanir hjá sóknaraðila. Í matinu frá 2010 væri geta og vilji foreldra til að leggja deilumál sín til hliðar talin hafa afgerandi áhrif á hvort þau gætu talist hæf til að sinna foreldrahlutverki sínu og því verið talið mikilvægt að þau ynnu vel með þann þátt. Í bréfi E komi þó fram það mat að hafi þeim ekki tekist að sinna uppeldishlutverki sínu á fullnægjandi hátt í kjölfar matsins megi ætla að greindir veikleikar séu alvarlegri en matsgerðirnar gefi til kynna og geri foreldrana þar með enn síður færa um að sinna foreldrahlutverki sínu.

Þegar mál þetta hafi enn verið tekið fyrir á fundi varnaraðila hinn 20. september sl. hafi komið fram það mat starfsmanna að staða sóknaraðila væri óbreytt frá fundi varnaraðila í mars en staða móður hefði styrkst. Ekki væri hægt að leggja til að börnin færu heim til sóknaraðila og eiginkonu hans í nánast óbreytt ástand, enda ljóst að sóknaraðili hefði verið til lítillar samvinnu og ekki unnið í sínum málum eins og bókað hefði verið á fundum varnaraðila í september 2010 og mars 2011. Yrði að telja fullreynt að ná samvinnu við sóknaraðila um gerð meðferðaráætlunar. Í framhaldi fundarins hafi móðir samþykkt vistun barnanna til 4. október 2011 en sóknaraðili hafi neitað að veita slíkt samþykki. Hafi því verið ákveðið að beita neyðarráðstöfun skv. 31. gr. barnaverndarlaga og kyrrsetja börnin á heimili á vegum varnaraðila í allt að 14 daga. Málið hafi að nýju verið tekið fyrir hjá varnaraðila 4. október sl. Hafi þar komið fram að báðir foreldrarnir krefðust þess að börnin kæmu í umsjá þeirra og að þau samþykktu ekki að börnin yrðu vistuð í varanlegt fóstur á vegum varnaraðila. Væri það mat varnaraðila að það þjónaði ekki hagsmunum barnanna að ró þeirra yrði raskað á fósturheimilinu þar sem þau hefðu náð góðu jafnvægi og tekið miklum framförum í þroska að mati fagaðila. Yrði að telja, með hliðsjón af fyrirliggjandi sérfræðigögnum, að of mikil áhætta væri tekin gagnvart þroska og líðan barnanna með ófyrirséðum afleiðingum ef systkinin færu aftur í umsjá foreldra sinna við óbreyttar aðstæður.

IV.

Sóknaraðili vísar til þess varðandi málavexti að málið hafi verið í vinnslu hjá varnaraðila frá því í október 2007, en þau afskipti hafi hafist vegna tilkynninga um vanrækslu gagnvart börnunum. Hafi börnin verið sendi í kennslu- og greiningarvistun en komið aftur heim í lok árs 2007. Þau hafi svo verið send aftur í vistun í febrúar 2008, með samþykki sóknaraðila. Á þeim tímapunkti hafi sóknaraðili staðið í skilnaði við barnsmóður sína og talsverðar deilur verið þeirra í milli. Eftir að tilkynning hafi borist frá leikskóla barnanna sumarið 2009, um að börnin lýstu ofbeldi heima hjá móður sinni, hafi „farið að hrynja inn“ tilkynningar um sóknaraðila. Í ljós hafi komið að allavega sumar þessara tilkynninga hafi verið sendar inn að beiðni móður og verið tilhæfulausar með öllu. Haustið 2010 hafi svo verið tilkynnt að móðir barnanna hefði beitt dótturina ofbeldi. Hafi telpan farið í Barnahús og skýrt þar frá því að móðirin hefði beitt hana líkamlegu ofbeldi. Drengurinn hefði og lýst ofbeldi móður sinnar. Ekki sé lengur til staðar það ósætti á milli foreldranna sem varnaraðili hafi byggt aðgerðir sínar á. Foreldrarnir séu bæði sammála um að tími sé kominn til að börnin komi aftur heim til sín. Í raun sé eina deilumálið hvar lögheimili barnanna skuli vera. Deila foreldra um lögheimili og forsjá barna sé að öllu jöfnu leyst án aðkomu barnaverndaryfirvalda og sé ekkert sem bendi til að sóknaraðili og barnsmóðir hans geti ekki leyst úr þeim ágreiningi. Eftir að börnin hafi verið vistuð utan heimilis í september 2010 hafi sóknaraðili farið í viðtal til sálfræðings og farið til geðlæknis. Hann hafi og stuðst við ráðleggingar tengdamóður sinnar, sem starfi sem leikskólakennari, farið í fjölskylduráðgjöf til M sálfræðings auk þess að vera tilbúinn til áframhaldandi meðferðar hjá sálfræðingi og að fara á uppeldisnámskeið hjá SOS.

Sóknaraðili kveðst byggja á þeirri meginreglu barnaverndarlaga nr. 80/2002, sem sé skýrlega greind í 7. mgr. 4. gr. laganna, að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Þau skuli jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru vægara móti. Jafnframt sé á því byggt að skilyrði 27. gr. barnaverndarlaga hafi ekki verið fyrir hendi þegar hinn kærði úrskurður hafi verið kveðinn upp þar sem ekki hafi verið reynd önnur og vægari úrræði sem tiltekin séu í 24. gr., sbr. 23. gr. laganna. Þá brjóti úrskurður barnaverndarnefndar í bága við 8. gr. mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveði á um friðhelgi fjölskyldu og heimils og segi að opinberum stjórnvöldum beri að stuðla að því að sameina fjölskyldur en ekki sundra þeim.

Markmið barnaverndarlaga sé að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og það almenna sjónarmið að hagsmunir barna séu alla jafna best tryggðir með því að þau alist upp hjá foreldrum sínum. Sé það í samræmi við almenna meðalhófsreglu, sbr. 7. mgr. 4. gr. greindra laga. Sé almenna reglan því sú að stefna beri að því að vistun barna utan heimilis vari í sem skemmstan tíma og að barn snúi aftur til foreldra sinna, sbr. 1. mgr. 25. gr. laganna. Þá sé það meginregla í íslenskum rétti að barni sé fyrir bestu að alast upp hjá kynforeldrum sínum. Fari báðir kynforeldrarnir með forsjá barnanna en lögheimili þeirra sé hjá sóknaraðila. Forsjá megi almennt greina í þrjá þætti, þ.e. rétt foreldra til að ráða persónulegum högum barns, skyldu foreldra til að annast barn sitt og rétt barnsins til forsjár foreldra sinna.

Í 4. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 komi fram að foreldrar hafi rúma heimild til að ákveða hvers konar uppeldi börn þeirra fái. Heimild þessi sé í raun í samræmi við grundvallarreglur um friðhelgi einkalífs. Í 71. gr. stjórnarskrárinnar sé friðhelgi fjölskyldunnar staðfest. Með ákvæðinu sé tryggð sú grundvallarregla að fjölskyldan fái að búa saman, foreldrar fái að annast uppeldi barna sinna án utanaðkomandi afskipta. Grundvallarreglan um friðhelgi fjölskyldunnar eigi sér einnig lagastoð í 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Foreldrum sé ekki einungis tryggður réttur til að ráða persónulegum högum barna sinna heldur sé þeim það einnig skylt, sbr. 4. mgr. 28. gr. laga nr. 76/2003, og í 5. mgr. sömu greinar sé tekið fram að barn eigi rétt á forsjá foreldra sinna uns það verði sjálfráða. Af þessu verði ráðið að meginreglan sé sú að foreldrar skuli fara með sameiginlega forsjá barna sinna og ráða yfir högum þeirra en þessari reglu séu sett takmörk með hagsmuni barnsins í huga. Hins vegar beri að gæta að því að hagur barnsins geti oft verið sá að búa hjá foreldri þrátt fyrir misfellur á aðbúnaði þess að einhverju marki. Varnaraðili virðist vilja vista börnin varanlega utan heimilis, og þar með taka hina sameiginlegu forsjá af foreldrunum, sökum þess að þeir hafi átt í örðugleikum með samskipti sín í milli. Foreldrarnir séu báðir sammála því að samskipti þeirra hafi batnað til muna. Þeir hafi hist án utanaðkomandi aðila og getað rætt saman án nokkurra vandkvæða. Þá hafi báðir foreldrarnir samþykkt að hitt foreldrið geti fengið ríkulega umgengni við börnin. Bendi þetta tvennt eindregið til þess að samskiptavandi foreldranna sé ekki lengur eins mikill og varnaraðili vilji vera láta.

Í 1. mgr. 18. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem samþykktur hafi verið á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989 og öðlast gildi gagnvart Íslandi hinn 27. nóvember 1992, komi fram sú meginregla að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska. Þá sé í 5. gr. samningsins fjallað um að aðildarríkin skuli virða ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra til að veita barninu tilhlýðilega leiðsögn og handleiðslu í samræmi við þroska þess. Í raun skuli afskiptum hins opinbera haldið í lágmarki. Í 9. gr. samningsins sé svo áréttað að barn skuli ekki skilið frá foreldrum sínum nema að aðskilnaður sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins, en svo sé ekki í þessu máli. Báðir foreldrarnir hafi tekið sig á og samskipti þeirra tekið stórstígum framförum. Bendi ekkert til að það sé andstætt hagsmunum barnanna að þau dveljist hjá föður sínum. Af fyrirliggjandi sálfræðimati F sálfræðings, dags. 19. maí 2010, megi ráða að grunnþörfum barnanna sé vel sinnt, togstreita sé ekki farin að koma niður á þeim og að foreldrarnir þurfi að geta rætt saman um það sem snúi að börnunum. Foreldrarnir hafi gefið um það yfirlýsingu á síðasta fundi varnaraðila að þau geti nú talað saman. Þá komi fram í fyrirliggjandi yfirlýsingum leikskóla sem börnin hafi dvalið á að líkamleg umhirða þeirra væri til fyrirmyndar. Auðvelt væri að ná til foreldra þeirra ef á þyrfti að halda og að staða barnanna, bæði námslega og þroskalega séð, hafi verið góð.

Börnin hafi farið í þroskamat, bæði á árinu 2008 og síðan í maí 2010. Í matinu 2008 hafi komið í ljós að þroski þeirra og hegðun væri aldurssvarandi og í seinna matinu hafi þau reynst bæði vel fyrir ofan viðmiðunarmörk þroskamatsins. Af þessum mötum sé ekki hægt að sjá annað en að börnin hafi verið eðlilega þroskuð áður en þau fóru í fóstur og að ekki sé hægt annað en að álíta sem svo að þau hefðu tekið þann sama þroskakipp, sem sálfræðingur sóknaraðila fullyrði að þau hafi tekið á síðasta ári, hefðu þau dvalið heima hjá sér.

Varðandi tengslamat sem P hafi framkvæmt sé á það bent að það hafi verið framkvæmt á þrjá mismunandi og nánar tilgreinda vegu sem geti hafa skekkt niðurstöður þess.  Slíkt tengslamat þurfi að framkvæma á sama máta hjá öllum aðilum eigi það að vera fullkomlega marktækt.

Varnaraðili þurfi að hafa í huga meðalhófsregluna áður en hann taki svo íþyngjandi ákvörðun sem um varanlega vistun utan heimilis, gagnvart bæði börnum og foreldrum. Sé meðalhófsregluna að finna í 7. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga og í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sóknaraðili sinni börnunum vel. Hann snerti varla áfengi og engin óregla sé á heimili hans. Heimilið sé hreint og börnin hafi allt til alls. Þau séu föðmuð reglulega og þeim sé sýnd ástúð og kærleiki. Hafi sóknaraðili og eiginkona hans tekið sig verulega á með uppeldið og hafi jafnframt skráð sig á uppeldisnámskeið SOS um uppeldi barna. Þá hafi þau mætt til sálfræðings og séu reiðubúin að halda því áfram. Sóknaraðili sé því vel hæfur til að bera ábyrgð á og sinna uppeldisskyldum sínum gagnvart börnun sínum.

V.

Varnaraðili kveðst mótmæla sem ósönnuðum og röngum þeim málsástæðum sóknaraðila að meðalhófs hafi ekki verið gætt við meðferð málsins og að hægt hafi verið að ná markmiði varnaraðila með vægara úrræði, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Fyrir liggi að varnaraðili hafi boðið sóknaraðila upp á fjölmörg stuðningsúrræði, á borð við sálfræðiviðtöl og uppeldisráðgjöf, með engum árangri. Þá hafi sóknaraðili ekki nýtt sér nema að takmörkuðu leyti ráðgjöf sem í boði hafi verið til að bæta samskipti sín við móður barnanna og hafi eiginkona sóknaraðila alfarið hafnað því að þiggja stuðningsúrræði eða undirgangast mat með tilliti til forsjárhæfni. Ekkert bendi til að sóknaraðili ráði við þá ábyrgð sem fylgi því að ala önn fyrir börnum og veita þeim það öryggi og uppeldi sem æskilegt og nauðsynlegt sé, enda viðist sóknaraðila skorta algerlega innsýn í eigin vanda sem og vanda og þarfir barnanna.

Í 27. gr. barnaverndarlaga séu ákvæði um heimildir barnaverndarnefndar til að úrskurða um vistun barns utan heimilis í þeim tilvikum þegar ekki liggi fyrir samþykki foreldris og/eða barns sem náð hafi 15 ára aldri. Gert sé ráð fyrir að uppfyllt séu sömu skilyrði og getið sé um í 1. mgr. 26. gr. laganna, þ.e. að úrræði skv. 24. og 25. gr. hafi ekki skilað árangri eða eftir atvikum að barnaverndarnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi. Ljóst sé af framlögðum gögnum að börnin uni sér mjög vel á fósturheimilinu og hafi náð að mynda sterk tengsl við fósturforeldra sína. Jafnframt uni þau sér mjög vel á leikskólanum. Starfsmenn varnaraðila hafi stigið varfærnislega til jarðar í máli sóknaraðila og hafi fjölmörgum stuðningsúrræðum verið beitt með það að markmiði að tryggja hagsmuni barnanna og styðja sóknaraðila í foreldrahlutverki sínu. Foreldrarnir hafi undirgengist sálfræðilegt mat m.t.t. forsjárhæfni þeirra á árinu 2008 og aftur á árinu 2010. Hafi niðurstaða matsins verið sú að forsjárhæfni þeirra væri vegna ósættis þeirra í milli. Hafi það verið mat sálfræðingsins að ólíklegt væri að foreldrarnir gætu unnið úr ósætti sínu og hafi hann lagt áherslu á slæmar afleiðingar hinna slæmu samskipta þeirra gagnvart börnunum. Varnaraðili hafi reynt til þrautar að ná samstarfi við sóknaraðila. Þannig hafi foreldrarnir undirritað á annan tug áætlana um meðferð máls, sem allar hafi miðað að því að styrkja þau í uppeldishlutverki sínu, og þau hafi í tvígang farið í greiningar- og kennsluvistun á Vistheimili barna. Þá hafi þau undirgengist tvö forsjármöt og hafi niðurstaða þeirra beggja í meginatriðum verið sú að ef þau gætu lagt ágreining sinn til hliðar teldust þau hæf til að sinna foreldraskyldum sínum. Það hafi hins vegar enn ekki tekist og ef eitthvað sé hafi deilur þeirra aukist jafnt og þétt. Þau hafi fengið sálfræðilega þjónustu og hafi niðurstaða þeirrar vinnu verið sú að engar forsendur væru fyrir áframhaldandi vinnu þar sem hvorugt foreldrið kærði sig um samskipti við hitt. Sóknaraðili hafi fengið stuðning og ráðgjöf svo hann geti betur unnið sem forsjáraðili barna sinna en á grundvelli fjölmargra tilkynninga og gagna málsins í heild sinni virðist sem það hafi ekki borið ásættanlegan árangur og sé ekki fyrirsjáanlegt að stöðugleiki verði í lífi barnanna í umsjá foreldra sinna.

Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar komi fram að í lögum skuli börnum tryggð sú vernd og umönnun sem þau þarfnist og þrátt fyrir að friðhelgi fjölskyldulífs sé varin með 71. gr. stjórnarskrárinnar hafi stjórnarskrárgjafinn heimilað að sú friðhelgi sé takmörkuð með lögum beri brýna nauðsyn til vegna réttinda annarra. Það hafi löggjafinn gert með setningu barnaverndarlaganna, sbr. m.a. 1. og 2. gr. þeirra laga. Sú ákvörðun sem fram komi í úrskurði varnaraðila sé í samræmi við 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga en þar segi að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu. Hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Þá sé varnaraðili einvörðungu að fara að lagaskyldu, en skv. 1. tl. 12. gr. barnaverndarlaga sé hlutverk barnaverndarnefndar að kanna aðbúnað, hátterni og uppeldisskilyrði barna og meta sem fyrst þarfir þeirra sem ætla má að búi við óviðunandi aðstæður, sæti illri meðferð eða eigi í alvarlegum félagslegum erfiðleikum. Þá skuli barnaverndarnefndir skv. 2. tl. sömu greinar beita þeim úrræðum samkvæmt barnaverndarlögum til verndar börnum sem best eigi við hverju sinni og heppilegust þyki til að tryggja hagsmuni og velferð þeirra.

Á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga í málinu, og margra tilkynninga þar sem áhyggjum sé lýst af velferð barnanna í umsjá beggja foreldra, sé það mat varnaraðila að sóknaraðilar hafi ekki gegnt forsjárskyldum sínum líkt og lögin geri ráð fyrir. Ljóst sé að taki sóknaraðili ekki á sínum málum af fullri alvöru teljist hann vart hæfur til að annast börn sín eins og barnaverndarlög nr. 80/2002 geri ráð fyrir. Að mati varnaraðila hafi verið leitast við að beita eins vægum úrræðum gagnvart sóknaraðila og unnt hafi verið hverju sinni. Þar sem samþykki sóknaraðila skorti fyrir vistun utan heimilis hafi þótt nauðsynlegt, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, að úrskurða um að börnin skyldu vistuð á heimili á vegum varnaraðila í tvo mánuði frá 4. október 2011 að telja.

VI.

Með dómi Hæstaréttar, sem kveðinn var upp hinn 22. júní 2011 í málinu nr. 374/2011, var staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á að sömu börn og hér um ræðir skyldu vistuð utan heimilis sóknaraðila í sex mánuði, til 22. september sl. Kom fram í forsendum Hæstaréttar að af gögnum yrði ráðið að fyrir hendi hefði verið nægilegt tilefni skv. b-lið 1. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga til að ráðstafa börnunum tímabundið í fóstur með úrskurði varnaraðila 21. september 2010 og dómsátt 8. desember sama ár. Þá hefði ekki verið hnekkt því mati varnaraðila í úrskurði hans 22. mars 2011 að árangur hefði ekki náðst í samræmi við áætlun varnaraðila um meðferð málsins og uppeldisfærni foreldranna hefði ekki styrkst nægilega til að það þjónaði best hagsmunum barnanna að fara aftur í umsjón þeirra. Þá væri það enn frekar til styrktar niðurstöðu dómsins að samkvæmt gögnum hefði sóknaraðili hvorki fengist til að samþykkja nýja áætlun varnaraðila um meðferð máls, þar sem meðal annars væri gert ráð fyrir að núverandi eiginkona hans gengist undir mat á forsjárhæfni, né að þiggja sáttameðferð hjá fjölskyldumeðferðarfræðingi.

Fyrir liggur að sóknaraðili og eiginkona hans hafa ekki verið reiðubúin að staðfesta meðferðferðaráætlun sem lögð var fyrir þau til samþykktar á fundi Barnaverndar Reykjavíkur hinn 31. maí 2011. Hins vegar lýsti eiginkonan sig reiðubúna á fundinum til að gangast undir sálfræðimat, með tilliti til uppeldishæfni, en dró það samþykki sitt síðar til baka. Fyrir liggur og að sóknaraðili hefur á síðustu mánuðum farið í viðtöl til tveggja sálfræðinga í tengslum við umræddar deilur um forsjárhæfni og vistun barnanna. Í skýrslu annars þeirra, dags. 13. júlí 2011, kom fram að ljóst væri að sóknaraðili hefði lítinn áhuga haft á að vinna með eitthvað í sínu fari. Væri það og hans mat að samskipti foreldra skiptu sköpum fyrir vellíðan og þroska barna. Ef það væri rétt að börnin hefðu liðið fyrir samskipti foreldranna, og að mikill munur sæist á hegðun þeirra og líðan eftir að fóstur hófst, teldi hann að börnunum væri betur borgið í fóstri á meðan foreldrarnir neituðu að vinna saman og sóknaraðili neitaði að horfast í augu við sína eigin vankanta. Þá kom fram það álit sálfræðingsins að áframhaldandi viðtalsvinna með sóknaraðila væri ekki vænleg þar sem hún væri gegn vilja hans. Í skýrslu hins sálfræðingsins, dags. 18. ágúst 2011, var tiltekið að vinna hans hefði afmarkast við samskipti kynforeldranna. Kom þar meðal annars fram að innsæi foreldranna í hluta þeirra forsendna sem yllu því að börnin væru vistuð utan heimilis væri takmarkað og að þau áttuðu sig ekki á hve núverandi samskipti væru neikvæð fyrir þroska og velferð barnanna. Var jafnframt lýst takmarkaðri getu foreldranna til að greina á milli eigin vilja og þarfa barnanna, ósveigjanleika sóknaraðila og flöktandi tilfinningalífi móður. Var loks sú ályktun dregin að foreldrarnir gætu átt í samskiptum varðandi börnin svo fremi sem mörk væru skýr, samskiptaleiðir skilgreindar og þau nytu stuðnings þangað til þau hefðu náð aukinni hæfni í samskiptum. Óljóst væri hins vegar hvort þau samskipti myndu taka mið af þörfum barnanna eða vera í þágu langana, vilja og þarfa foreldranna. Áhættuþátturinn einkenndist af blöndu þeirra nánar tilgreindra óvægnu samskipta og skertri getu til að greina á milli langana sinna og þarfa barnanna. Yki þessi blanda líkur á að börnin myndu bera skaða af í þeirri baráttu kynforeldranna að fá sitt fram. Þá kom fram í fyrirliggjandi tengslamati sálfræðings, dags. 26. ágúst 2011, að tengsl barnanna við fósturfjölskyldu sína væru jákvæð en tengsl þeirra við sóknaraðila væru fremur hlutlaus eða jafnvel blandin ótta og óöryggi í tilviki drengsins. Þá væru tengsl drengsins við móður sína góð en hlutlaus gagnvart stjúpmóður. Tengsl telpunnar við móður væru hins vegar hlutlaus og bæru vott um ákveðið óöryggi en væru góð gagnvart stjúpmóður.

Þegar framangreint og önnur gögn málsins eru virt verður ekki talið að hnekkt hafi verið því mati varnaraðila í úrskurði hans hinn 4. október 2011 að það þjóni ekki hagsmunum barnanna að ró þeirra verði raskað á fósturheimilinu og að of mikil áhætta verði tekin gagnvart þroska þeirra og líðan með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fari þau aftur í umsjá foreldra sinna við óbreyttar aðstæður. Verður hvorki fallist á með sóknaraðila að varnaraðili hafi, eins og hér háttar, getað beitt vægari úrræðum við ákvarðanatöku sína, og brotið þannig gegn stjórnsýslulögum eða barnaverndarlögum, né að úrskurður hans brjóti í bága við alþjóðlega mannréttindasáttmála sem leiða eigi til ógildingar hans. Verður því staðfest sú niðurstaða varnaraðila að fullnægt hafi verið skilyrðum a-liðs 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 til að ráðstafa börnunum tímabundið í fóstur, eins og nánar segir í úrskurði hans. 

Samkvæmt þessu er hafnað kröfu sóknaraðila um að felldur verði úr gildi úrskurður varnaraðila frá 4. október 2011 og fallist á kröfu varnaraðilans um að heimilt sé að vista börn sóknaraðila á heimili á vegum varnaraðila í tvo mánuði frá 4. október 2011 að telja.

Af hálfu varnaraðila er ekki krafist málskostnaðar.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Leifs Runólfssonar héraðsdómslögmanns, 400.000 krónur.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Staðfestur er úrskurður varnaraðila, barnaverndarnefndar Reykjavíkur, frá 4. október 2011 um að B og C skuli vistuð á heimili á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði frá og með 4. október 2011 að telja.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Leifs Runólfssonar héraðsdómslögmanns, 400.000 krónur.