Hæstiréttur íslands

Mál nr. 59/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Garðar Steinn Ólafsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald

Reifun

X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 4. mgr., sbr. 5. mgr. 105., gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Davíð Þór Björgvinsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. janúar 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 10. febrúar 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að „Hæstiréttur hafni gæsluvarðhaldi“, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í 1. mgr. 67. gr. stjórnarskráinnar segir að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum.  Í f. lið 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, er gert ráð fyrir að heimilt sé að svipta mann frelsi sem vísa á úr landi.  Í 4. mgr. 105. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga segir að beri nauðsyn til, í því skyni að tryggja framkvæmd ákvörðunar, sé heimilt að handtaka útlending og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt lögum um meðferð sakamála eftir því sem við á. Þá segir í 5. mgr. 105. gr. sömu laga að gæsla skuli ekki ákveðin lengur en í tvær vikur og að gæslutíma megi því aðeins framlengja að útlendingurinn fari ekki sjálfviljugur úr landi og líkur séu á að hann muni annars koma sér undan framkvæmd ákvörðunar, sbr. 104. gr. laganna. Megi þá framlengja frestinn í allt að tvær vikur en þó ekki oftar en tvisvar. 

Uppfyllt eru skilyrði 4. mgr., sbr. 5. mgr., 105. gr. laga nr. 80/2016 til þess að sóknaraðili sæti gæsluvarðhaldi eins og krafist er. Verður niðurstaða héraðsdóms því staðfest.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda sóknaraðila, Garðars Steins Ólafssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2017

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...] verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 10. febrúar 2017 kl. 16:00.

         Í greinargerð lögreglu kemur fram að bakgrunnur málsins sé sá að þann 12. febrúar sl. hafi Útlendingastofnun tekið ákvörðun um að réttur kærða til dvalar á landinu hafi verið felldur niður og hafi sú ákvörðun verið staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 28. júlí sl.

         Þann 14. desember sl. hafi ákvörðun Ríkislögreglustjóra verið birt fyrir kærða í samræmi við 33. gr. a. útlendingalaga um að honum yrði gert skylt að mæta á lögreglustöðina á Hverfisgötu 113 í Rvk. klukkan 14:00 á hverjum virkum degi næstu 30 daga frá birtingu ákvörðunarinnar.

         Fyrir liggi að kærði hafi aðeins tilkynnt sig einu sinni hjá lögreglu, þ.e. þann 15. desember. Eftir það hafi kærði aldrei komið aftur á lögreglustöðina til að sinna tilkynningarskyldunni.

         Þann 30. desember sl. hafi kærði svo verið handtekinn, grunaður um stórfellda líkamsárás, með því að hafa slegið annan mann í andlitið með hækju og ítrekað slegið hann hnefahöggum í andlitið.

         Kærði hafi síðan verið  úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli 33. gr. a. laga um útlendinga nr. 96/2002 með úrskurði héraðsdóms þann 31. desember til 13. janúar sl. Sá úrskurður hafi síðan verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 2/2017. Kærði hafi svo sætt áframhaldandi gæsluvarðhaldi samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 19. janúar sl. í máli nr. 32/2017.

         Kærða hafi nú verið birt bréf frá Útlendingastofnun um hugsanlega brottvísun og sé því mál hans enn til meðferðar hjá stofnuninni og því nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi til að tryggja framkvæmd ákvörðunar hennar.

         Með vísan til þess að kærði hafi í engu sinnt lögboðinni tilkynningarskyldu sem á honum hafi hvílt auk þess sem hann liggi undir rökstuddum grun um að hafa framið alvarlega líkamsárás verði að telja að skilyrði 4., sbr. 5. mgr. 105. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og sbr. áður 33. gr. a. laga um útlendinga nr. 96/2002 séu uppfyllt til að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að tryggja framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar. 

         Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 105. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og sbr. áður 33. gr. a. laga um útlendinga nr. 96/2002 og viðeigandi ákvæða laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða:

                Eins og rannsóknargögn málsins greina, og vikið er að í greinargerð sóknaraðila, hefur kærunefnd útlendingamála staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis að réttur varnaraðila til dvalar á Íslandi skuli felldur niður og hefur kærða auk þess nú verið birt bréf Útlendingastofnunar frá 19. janúar sl. um hugsanlega brottvísun.

                Hinn 14. desember sl. var birt fyrir varnaraðila ákvörðun Ríkislögreglustjóra um að honum væri skylt að tilkynna sig daglega á lögreglustöð næstu 30 daga. Sú ákvörðun var reist á heimild í 1. mgr. 33. gr. a í þágildandi útlendingalögum nr. 96/2002. Fyrir liggur að varnaraðili sinnti þessari skyldu  einungis einu sinni, þann 15. desember sl.

                Samkvæmt 105. gr. í núgildandi útlendingalögum nr. 80/2016 er tóku gildi 1. janúar sl. er heimilt að handtaka útlending og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt lögum um meðferð sakamála, eftir því sem við á, sé það nauðsynlegt til að tryggja framkvæmd ákvörðunar um að útlendingur yfirgefi landið.

                Varnaraðili var handtekinn 30. desember sl. grunaður um alvarlega líkamsárás. Samkvæmt rannsóknargögnum varð vitni að líkamsárásinni sem greindi lögreglu frá því að varnaraðili hefði lamið brotaþola ítrekað í andlitið með hækju. Dómari innti aðstoðarsaksóknara eftir því, við munnlegan málflutning um kröfu þá sem hér er til meðferðar, hvort krafa um gæsluvarðhald væri byggð að einhverju leyti á þessari líkamsárás sem varnaraðili er grunaður um. Því neitaði aðstoðarsaksóknari og kvað kröfuna einvörðungu reista á ákvæðum í útlendingalögum nr. 80/2016.

               Varnaraðili hefur nú setið í gæsluvarðhaldi frá 31. desember sl. Í fyrstu samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfestur var í Hæstarétti í málinu nr. 2/2017. Héraðsdómur byggði þar úrskurð sinn á 4. mgr. 33. gr. a., þágildandi útlendingalaga. Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn með vísan til c liðar 1. mgr. og 3. mgr. 115. gr. útlendingalaga nr. 80/2016 sbr. 3. og 4. mgr. 33. gr. eldri laga. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði því að framlengja gæsluvarðhald yfir varnaraðila með úrskurði 13. janúar sl., þar sem talið var að slík niðurstaða yrði ekki byggð á c. lið 1. mgr. 115. gr. laga nr. 80/2016. Hæstiréttur sneri þeirri niðurstöðu við í málinu nr. 32/2017 og taldi að uppfyllt væru skilyrði 4. mgr. sbr. 5. mgr. 115. gr. útlendingalaga.

                Ekki er gerður ágreiningur um að varnaraðili sinnti ekki lögboðinni tilkynningarskyldu sinni samkvæmt 33. gr. þágildandi laga eins og ríkislögreglustjóri hafði boðið honum að gera.

                Á hinn bóginn fær dómurinn í fljótu bragði vart séð af gögnum málsins, hvaða brýnu hagsmunir krefjist þess nú að jafn viðurhlutamiklu úrræði sé beitt í þessu máli; úrræði sem skerðir með jafn afdráttarlausum hætti ein mikilsverðustu mannréttindi sem einstaklingar njóta.

                Þannig eru ekki sjáanlegir rannsóknarhagsmunir í málinu sem kalla á að úrræðinu sé beitt. Sóknaraðili hefur jafnframt lýst því að það afbrot sem varnaraðili er grunaður um hafi hér engin áhrif, enda telur dómurinn að gæsluvarðhalds bæri þá að krefjast á öðrum grundvelli en þeim sem hér um ræðir.

                Útlendingastofnun hefur nýverið birt fyrir varnaraðila tilkynningu um hugsanlega brottvísun og endurkomubann. Engar upplýsingar liggja hins vegar fyrir í málinu nú sem fyrr, um það hvenær ákvörðun stofnunarinnar mun liggja fyrir og vitaskuld verður því heldur ekki slegið föstu hér hver niðurstaðan síðan verður. Því getur niðurstaðan hæglega orðið sú, miðað við málshraða sem til umræðu hefur verið í samfélaginu, þegar um málefni útlendinga ræðir, að eftir tveggja vikna áframhaldandi gæsluvarðhald, verði staða varnaraðila sem og eftirlits- og úrskurðaraðila hin sama, en gæsluvarðhaldsúrræðið yrði þá ekki lengur tiltækt sbr. 5. mgr. 105. gr. laga nr. 80/2016.

                Í þessu sambandi er áréttað að gæsluvarðhald undir þessum kringumstæðum er hér, líkt og endranær, og eðli máls samkvæmt, neyðarúrræði og einnig að um er að ræða heimildarákvæði sbr. orðalag þess. Því verða að liggja til grundvallar mjög veigamikil rök til að beita úrræðinu og fyrirsjáanlegt verður að vera, að beiting þess geti raunverulega leitt til þess að tilgangi stjórnvalda verði náð.

                Þá hefur að mati dómsins ekki verið rökstutt nægjanlega að meðalhófs hafi hér verið gætt, og vægari úrræðum beitt, sbr. til að mynda þeirra sem getið er í 1. mgr. 105. gr. laganna, fyrir utan úrræðis samkvæmt a. lið sem varnaraðili kaus að nýta sér ekki þrátt fyrir að ekki sé hægt að segja að þar hafi verið lagðar á hann miklar kvaðir.

                Aðstoðarsaksóknari útskýrði samkvæmt beiðni, við málflutning, að það sem fælist í því að tryggja framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar í málefnum varnaraðila, væri einkum að forða því að varnaraðili gæti farið huldu höfði þegar að ákvörðun lægi fyrir. Í því sambandi má benda á að varnaraðili hefur dvalið hér á landi um nokkurt skeið og engum mótmælum var hreyft við því sem haldið var fram í málflutningi af verjanda að engum vandkvæðum hefði verið bundið að finna varnaraðila þegar hann losnaði úr varðhaldi eftir uppkvaðningu síðasta úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur, fram til þess að Hæstiréttur sneri þeirri niðurstöðu við. 

                Þrátt fyrir framangreind sjónarmið þá telur dómurinn að ekki verði horft fram hjá því, að frá því að Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm í málinu nr. 32/2017, 19. janúar sl. hafa engar breytingar orðið í málinu, eða á högum varnaraðila, nema sú að Útlendingastofnun hefur nú birt varnaraðila framgreinda tilkynningu um hugsanlega brottvísun og endurkomubann. Því má til sanns vegar færa að frekari rök standi því til þess í dag en áður að varnaraðila verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi.

                Því verður fallist á kröfu sóknaraðila eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Með vísan til 38. gr. laga nr. 88/2008 á skipaður verjandi varnaraðila tilkall til þóknunar sem greiðist úr ríkissjóði og þykir hæfilega ákveðin 140.000 krónur.

                Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

X kt. [...] skal sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 10. febrúar 2017 kl. 16:00.

Þóknun verjanda varnaraðila, Garðars Steins Ólafssonar héraðsdómslögmanns, 140.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.