Hæstiréttur íslands

Mál nr. 487/2016

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
Maria Pena (Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Erlendur dómur
  • Ítrekun
  • Játningarmál

Reifun

M var sakfelld fyrir brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa staðið að innflutningi á samtals 746,96 g af kókaíni til landsins. Til refsimildunar var litið til þess að M hafði játað brot sitt skýlaust fyrir dómi og ekki hefði verið sýnt fram á að hún hefði komið að skipulagningu eða fjármögnun innflutningsins. Á hinn bóginn var það virt henni til refsiþyngingar að um umtalsvert magn af sterku fíkniefni var að ræða. Þá hafði hún hlotið dóm erlendis sem hafði ítrekunaráhrif eftir 2. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1940. Var refsing M ákveðin fangelsi í tuttugu mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. júní 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærða krefst þess að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð.

Fyrir Hæstarétti er einungis til endurskoðunar ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærðu fyrir brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem hún gekkst skýlaust við fyrir dómi og laut að innflutningi á 746,96 g af kókaíni til landsins 24. febrúar 2016. Við ákvörðun refsingar má eins og í hinum áfrýjaða dómi líta til ákvæða 1., 3., 5. og 6. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, en ekki á hér við 9. töluliður 1. mgr. 74. gr. laganna, enda sagði ákærða ekki af sjálfsdáðum til brots síns. Þá hefur ákærða gerst hér sek um ítrekað brot, sbr. 8. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga, en dómur, sem hún hlaut erlendis og getið er í hinum áfrýjaða dómi, hefur hér áhrif eftir 2. mgr. 71. gr. sömu laga. Að þessu öllu virtu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest á þann hátt, sem í dómsorði greinir.

Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að til frádráttar refsingu ákærðu, Maria Pena, kemur gæsluvarðhald, sem hún hefur sætt frá 25. febrúar 2016.

Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 635.091 krónu, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 14. júní 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 23. maí sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 13. maí 2016, á hendur Maríu Pena, fæddri 1. júní 1972, hollenskum ríkisborgara, en með dvalarstað í fangelsinu á Akureyri;

„fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 24. febrúar 2016, staðið að innflutningi á samtals 746,96 g af kókaíni, sem hafi að meðaltali 53% styrkleika, ætluðum til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.  Fíkniefnin flutti ákærða til Íslands, sem farþegi með flugi FI-[...] frá Amsterdam í Hollandi til Keflavíkurflugvallar, falin í nærbuxum og líkama hennar í 76 pakkningum.

Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, sbr. 1. gr. laga nr. 32/2001.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá er þess krafist að framangreind fíkniefni, 746,96 g af kókaíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.“

Björgvin Halldór Björnsson hdl., skipaður verjandi ákærðu, krefst þess að hún verði dæmd til vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist hennar frá 25. febrúar sl. verði dregin frá með fullri dagatölu.  Þá krefst verjandinn að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði og þ.m.t. málsvarnarlaun og ferðakostnaður hans við alla meðferð málsins.

I

Samkvæmt rannsóknargögnum stöðvuðu tollverðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar ákærðu þann 24. febrúar sl., kl. 17:02, en hún var þá að koma með flugi frá Amsterdam í Hollandi.  Vegna grunsemda um að ákærða hefði fíkniefni meðferðis var hún handtekin af lögreglu, en við leit á henni innanklæða fundust 4,12 grömm af ætluðu kókaíni.  Í framhaldi af þessu var ákærða færð á heilbrigðisstofnun og kom þá í ljós að hún var með talsvert magn af aðskotahlutum innvortis.  Vegna rannsóknarhagsmuna var ákærða úrskurðuð í gæsluvarðhald þann 25. febrúar sl.  Samkvæmt gögnum skilaði ákærða á næstu dögum af sér yfir 70 pakkningum sem innihéldu alls 742,84 grömm af ætluðu kókaíni.  Samtals hafði ákærði því meðferðis 746,96 grömm af ætluðu kókaíni.

Í málinu liggur m.a. fyrir matsgerð frá Rannsóknarstofu í lyfja og eiturefnafræði Háskóla Íslands, sem dagsett er 30 mars 2016, vegna rannsóknar á innihaldi umræddra pakkninga og þá m.a. með tilliti til styrkleika efnisins.  Segir í matsgerðinni að alls hafi verið rannsökuð fimmtán sýni, sem hafi innihaldið kókaín á bilinu 41-69% að styrk, öll að mestu í formi kókaínklóríðs.  Segir að meðalstyrkur kókaíns í sýnunum hafi verið 53%.  Í matsgerðinni segir að neyslustyrkur fíkniefna geti verið breytilegur frá einu landi til annars, frá ári til árs og jafnvel milli borga í sama landi, en hann hafi ekki verið rannsakaður sérstaklega hérlendis.  Þá segir að í útreikningum hafi verið gengið út frá tölum um neyslustyrkleika kókaíns í Danmörku, en hann hafi að meðaltali verið 30% á landsvísu árið 2014.  Að þessu sögðu er staðhæft að úr 742,84, grömmum af dufti sem innihaldi 53% kókaín sé samkvæmt framangreindum forsendum hægt að búa til 1.312 grömm af efni sem væri 30% að styrk, að gefnum þeim forsendum að efnið sé þynnt með óvirku efni og ekkert fari til spillis í þeirri aðgerð.

Við rannsókn lögreglu var ákærða tvívegis yfirheyrð um sakarefnið, í fyrra sinnið þann 25. febrúar sl., en í síðara sinnið 4. mars sl.

Eins og fyrr sagði var ákærðu með dómsúrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi, fyrst þann 25. febrúar 2016.  Síðan hefur gæsluvarðhald ákærðu ítrekað verið framlengt og allt til þessa dags.

II

Hér fyrir dómi hefur ákærða skýlaust játað sakargiftir samkvæmt ákæru.  Ákærða staðfesti efni framangreindra yfirheyrsluskýrslna hjá lögreglu, en þar kom m.a. fram að hún hefði flutt fyrrnefnd fíkniefni til landsins gegn loforði um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar.

Þar sem játning ákærðu er í samræmi við rannsóknargögn lögreglu þykir nægilega sannað að hún hafi gerst sek um þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Mál þetta var rekið með hliðsjón af 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008.

III

Ákærða, sem er 44 ára, hefur samkvæmt sakavottorði ákæruvalds ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi hér á landi svo kunnugt sé.  Af hálfu fulltrúa ákæruvalds var lagður fyrir dóminn dómur Hæstaréttar Parísarborgar frá 6. júlí 2012, en þar kemur m.a. fram að ákærða var sakfelld fyrir samverknað fyrir að hafa 9. og 10. nóvember 2010 verið með í vörslum sínum yfir 20 kílógrömm af kókaíni með miklum styrkleika.  Með nefndum dómi var ákærða dæmd til fjögurra ára refsivistar, en jafnframt var henni bannað að koma á franskt yfirráðasvæði í 10 ár.

Í máli þessu hefur ákærða verið sakfelld fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, en með því hefur hún brotið gegn 173. a. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. mgr. laga nr. 64, 1974, sbr. 1. gr. laga nr. 32, 2001.  1. málsgrein lagagreinarinnar hljóðar svo: „Hver, sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni lætur mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni eða afhendir þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt, skal sæta fangelsi allt að tólf árum.“  Þá hljóðar 2. mgr. lagagreinarinnar svo: „Sömu refsingu skal sá sæta, sem gegn ákvæðum nefndra laga framleiðir, býr til, flytur inn, flytur út, kaupir, lætur af hendi, tekur við eða hefur í vörslum sínum ávana- og fíkninefni í því skyni að afhenda þau á þann hátt, sem greint er í fyrstu málsgrein.

Við ákvörðun refsingar verður litið til lýstrar háttsemi ákærðu og að um verulegt magn af sterku fíkniefni var að ræða, sbr. m.a. ákvæði 1., 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Þá verður samkvæmt 2. mgr. 71. gr. hegningarlaganna hinn franski dómur látinn hafa ítrekunaráhrif á brot það sem hér er fjallað um. Til refsimildunar verður litið til skýlausrar játningar ákærðu við alla meðferð málsins, sbr. að því leyti 9. tl. 1. mgr. 74. gr. hegningarlaganna, en einnig þykir mega horfa til 5. tl. 1. mgr. 70. gr. laganna, sbr. dskj. nr. 8.  Loks þykir ekki sýnt fram á annað en að ákærða hafi verið svokallað burðardýr, og að hún hafi þannig ekki komið að skipulagningu eða fjármögnun innflutningsins.

Að öllu ofangreindu virtu þykir refsing ákærðu eftir atvikum hæfilega ákveðin tuttugu mánaða fangelsi.  Rétt þykir að gæsluvarðhald sem ákærða hefur sætt frá 25. febrúar 2016 að telja komi til frádráttar refsingunni með fullri dagatölu.

Ákærða sæti upptöku á 746,96 grömmum af kókaíni, sem lögregla lagð hald á og tilgreint er í ákæru.

Í ljósi málsúrslita ber að dæma ákærðu til að greiða sakarkostnað málsins.  Er um að ræða útlagðan kostnað lögreglu að fjárhæð 1.097.554 krónur.  Þá verður ákærða dæmd til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, en einnig ber að líta til starfa hans við lögreglurannsókn málsins, en þau ákvarðast að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og segir í dómsorði.  Einnig skal ákærða greiða útlagðan ferðakostnað verjandans, eins og nánar segir í dómsorði.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Ákærða, María Pena, sæti tuttugu mánaða fangelsi og kemur gæsluvarðhald sem hún hefur setið í frá 29. febrúar 2016 til frádráttar refsingunni með fullri dagatölu.

Ákærða sæti upptöku á 746,96 grömmum af kókaíni.

Ákærða greiði allan sakarkostnað 2.060.979 krónur, en þar eru meðtalin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hennar, Björgvins Halldórs Björnssonar, héraðsdómslögmanns, 920.700 krónur svo og 42.725 krónur vegna ferðakostnaðar hans.