Hæstiréttur íslands
Mál nr. 388/2015
Lykilorð
- Ómerking
- Heimvísun
- Meðdómsmaður
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Karl Axelsson hæstaréttardómari og Hjördís Björk Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júní 2015. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda. Þá krefst hann þess að gagnafrýjandi verði dæmdur til þess að endurgreiða sér 16.669.667 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. nóvember 2013 til greiðsludags og að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda gagnáfrýjanda vegna tjóns sem aðaláfrýjandi telur sig hafa orðið fyrir vegna vanefnda gagnáfrýjanda á verksamningi þeirra, dagsettum 7. og 8. mars 2012. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 19. ágúst 2015. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara krefst hann þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 13.270.778 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. janúar 2013 til greiðsludags. Að því frágengnu krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi gerðu aðilar málsins með sér samninga sem dagsettir eru 7. og 8. mars 2012 þar sem gagnáfrýjandi tók að sér annars vegar að hanna og forrita nýja vefsíðu fyrir aðaláfrýjanda og hins vegar að sinna fyrir hann mánaðarlegri vefumsjónarþjónustu. Í kostnaðaráætlun fyrrnefnda samningsins var gert ráð fyrir því að aðaláfrýjandi þyrfti að greiða 4.782.116 krónur, án tillits til virðisaukaskatts, fyrir hönnun og forritun vefsíðunnar. Sá fyrirvari var þó gerður í samningnum að stór óvissuþáttur við hönnunina væri vefþjónustusamskipti við bókunarvél aðaláfrýjanda. Gagnáfrýjandi heldur því fram að þessi vinna hafi verið mun umfangsmeiri en hann taldi í upphafi vegna atriða sem nánar eru rakin í hinum áfrýjaða dómi. Samkvæmt gögnum málsins hefur aðaláfrýjandi þegar greitt 16.669.667 krónur fyrir hönnun vefsíðunnar og í máli þessu gerir gagnáfrýjandi kröfu um að aðaláfrýjandi greiði sér til viðbótar 13.270.778 krónur að höfuðstól.
Að beiðni aðaláfrýjanda var við meðferð málsins í héraði dómkvaddur matsmaður til þess að meta meðal annars hvort það teldist eðlilegt að greiða 29.940.445 krónur fyrir hönnun vefsíðu af því tagi sem gagnáfrýjandi útbjó fyrir aðaláfrýjanda samkvæmt verksamningi aðila. Í matsgerð hins dómkvadda manns 18. mars 2014, sbr. og viðauka við matsgerðina 30. maí sama ár, var komist að þeirri niðurstöðu að kostnaðurinn væri eðlilegur og samrýmdist almennum venjum í vefsíðugerð. Var þessi niðurstaða matsmannsins efnislega lögð til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi, að því undanskildu að ekki var fallist á greiðsluskyldu aðaláfrýjanda vegna fjögurra reikninga sem gefnir voru út eftir að vinnu við vefsíðuna lauk 25. júní 2013.
Eftir að héraðsdómur gekk hefur aðaláfrýjandi aflað tveggja matsgerða til viðbótar. Annars vegar er um að ræða yfirmatsgerð þar sem metin eru á ný atriði sem komu til skoðunar í áðurnefndri matsgerð frá 18. mars 2014. Hins vegar matsgerð þar sem meðal annars er spurt um hvort upprunaleg kostnaðaráætlun gagnáfrýjanda hafi verið raunhæf og hvort afhending veflausnar í skilningi verksamningsins hafi farið fram. Dómkvaddir voru tveir menn til þess að vinna báðar matsgerðir og skiluðu þeir þeim 7. ágúst 2015. Í yfirmatsgerð er meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að „efri mörk“ hæfilegs endurgjalds til gagnáfrýjanda fyrir hönnun vefsíðunnar hafi verið 15 til 18 milljón krónur.
Aðaláfrýjandi heldur því fram að reikningar gagnáfrýjanda hafi ekki verið í samræmi við það verk sem unnið var. Telur hann fjölda vinnustunda langt umfram það sem eðlilegt verði talið miðað við umfang verksins. Hvað þetta atriði varðar sérstaklega ber mikið í milli þeirra matsgerða sem liggja fyrir í málinu.
Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið er ljóst að embættisdómara er ófært að fjalla um þær málsástæður sem uppi eru hafðar í málinu á grunni almennrar þekkingar sinnar, menntunar eða lagaþekkingar. Þar sem þörf er á sérkunnáttu til þess að leysa úr málsástæðum aðila verður að kveðja til sérfróða meðdómsmenn samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að leggja mat á gögn málsins og spyrja þá sérfróðu menn sem unnið hafa matsgerðir í því. Þar sem það hefur ekki verið gert verður að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.
Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. ágúst 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 1. júlí 2014, var höfðað með stefnu sem þingfest var þann 1. október 2013 af Hugsmiðjunni ehf., Snorrabraut 56, 105 Reykjavík, á hendur Iceland Excursions Allrahanda ehf., Klettagörðum 4, 104 Reykjavík. Með gagnstefnu sem þingfest var 5. nóvember 2013 höfðaði aðalstefndi gagnsakarmál gegn aðalstefnanda.
I.
Aðalstefnandi gerir þær dómkröfur að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða aðalstefnanda 13.270.778 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga vaxtalaga nr. 38/2001 af 39.533 kr. frá 1.1.2013 til 1.3.2013, af 79.067 kr. frá 1.3.2013 til 30.4.2013, af 4.460.893 kr. frá 30.4.2013 til 1.5.2013, af 4.504.191 kr. frá 1.5.2013 til 1.6.2013, af 4.552.509 kr. frá 1.6.2013 til 1.7.2013, af 4.600.832 kr. frá 1.7.2013 til 28.8.2013, af 13.270.778 kr. frá 28.8.2013 til greiðsludags.
Þá krefst aðalstefnandi þess að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða aðalstefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, sem lagður verði fram undir rekstri málsins.
Aðalstefndi krefst sýknu af öllum kröfum aðalstefnanda. Þá krefst aðalstefndi þess að aðalstefnandi verði dæmdur til að greiða aðalstefnda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.
Í gagnsök gerir gagnstefnandi þá kröfu að gagnstefndi verði dæmdur til að endurgreiða gagnstefnanda innborganir samkvæmt samningi, 16.669.667 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 frá 29. nóvember 2013 til greiðsludags.
Þá krefst gagnstefnandi þess að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda gagnstefnda vegna tjóns sem gagnstefnandi hefur beðið vegna vanefnda gagnstefnda á verksamningi aðila, dags. 7. og 8. mars 2012.
Þá krefst gagnstefnandi þess að gagnstefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins og að gagnsök verði sameinuð aðalsök.
Gagnstefndi gerir eftirtaldar dómkröfur í gagnsök:
-
Að verða sýknaður af kröfu gagnstefnanda um endurgreiðslu innborgana skv. samningi.
-
Að vísað verði frá kröfu gagnstefnanda um að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda gagnstefnda vegna meints tjóns gagnstefnanda vegna verksamnings aðila.
-
Verði ekki fallist á ofangreinda frávísunarkröfu er þess krafist til vara að því verði hafnað að viðurkennd sé með dómi skaðabótaskylda gagnstefnda vegna meints tjóns gagnstefnanda vegna verksamnings aðila.
-
Enn fremur krefst gagnstefndi málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda í samræmi við framlagða tímaskýrslu eða að mati dómsins, verði tímaskýrsla ekki lögð fram.
II.
Málsatvik
Aðalstefnandi er veffyrirtæki sem veitir þjónustu við hönnun og forritun á vefum fyrir fyrirtæki og stofnanir. Þá leigir aðalstefnandi viðskiptavinum sínum vefumsjónarkerfi sitt Eplica, sem gerir notendum kleift að reka og viðhalda vefsíðum sínum. Enn fremur veitir aðalstefnandi viðskiptavinum sínum hýsingarþjónustu, sem felst í því að vefir viðskiptavina eru vistaðir á netþjónum sem stefnandi á og rekur.
Kröfur sínar byggir aðalstefnandi á 18 reikningum sem eru eftirfarandi:
Nr. Útgáfudagur Gjalddagi Fjárhæð
1. 01.01.2013 01.01.2013 39.533,00
2. 01.03.2013 01.03.2013 39.534,00
3. 30.04.2013 30.04.2013 1.178.609,00
4. 30.04.2013 30.04.2013 18.962,00
5. 30.04.2013 30.04.2013 209.147,00
6. 30.04.2013 30.04.2013 1.710.816,00
7. 30.04.2013 30.04.2013 18.962,00
8. 30.04.2013 30.04.2013 342.163,00
9. 30.04.2013 30.04.2013 223.404,00
10. 30.04.2013 30.04.2013 679.763,00
11. 01.05.2013 01.05.2013 43.298,00
12. 01.06.2013 01.06.2013 48.318,00
13. 01.07.2013 01.07.2013 48.323,00
14. 28.08.2013 28.08.2013 2.998.653,00
15. 28.08.2013 28.08.2013 700.559,00
16. 28.08.2013 28.08.2013 19.829,00
17. 28.08.2013 28.08.2013 4.805.360,00
18. 28.08.2013 28.08.2013 145.545,00
Aðalstefndi er ferðaþjónustufyrirtæki sem rekur ferðaskrifstofu og fólksflutningabifreiðar og býður meðal annars upp á dagsferðir fyrir erlenda ferðamenn. Þá rekur aðalstefndi áætlunarbifreiðar sem annast akstur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins selur ferðir og afþreyingu fyrir almenna neytendur og býður ýmsar styttri og lengri ferðir hér á landi, m.a. í gegnum vefsíðu sína, http://www.icelandexcursions.is.
Þann 18. ágúst 2011 sendi starfsmaður aðalstefnda tölvupóst til aðalstefnanda þar sem fram kom að aðalstefndi væri að skoða vefumsjónarkerfi, viðkomandi hefði unnið með eldri útgáfu af Eplica og óskaði eftir grunnverði á kerfinu, hönnun á nýju útliti og yfirfærslu á „contents“. Þann 1. nóvember 2011 sendi aðalstefnandi aðalstefnda gróft kostnaðarmat sem laut að kostnaði við hönnun og uppsetningu á nýjum vef fyrir aðalstefnda og héldu starfsmenn aðalstefnanda kynningu á Eplica kerfinu fyrir lykilstarfsmenn aðalstefnda.
Aðilar funduðu síðan og ákveðið var í nóvember 2011 að aðalstefnandi ynni tillögu að uppröðun forsíðu á vef aðalstefnda, sem og síðunum sem sneru að sölu á dagsferðum. Þessi vinna laut að útlitshönnun og þarfagreiningu fyrir vef aðalstefnda. Greiningarvinna fór fram hjá aðalstefnanda og vegna þessarar vinnu greiddi aðalstefndi 275.869 kr.
Í byrjun janúar 2012 óskað aðalstefndi eftir því að aðalstefnandi gerði tímaáætlun fyrir tenginu nýrrar vefsíðu við bókunarkerfi aðalstefnda og var stefnda send uppfærð kostnaðaráætlun í tölvupósti þann 18. janúar sama ár. Í þessum tölvupósti kom fram að aðalstefnandi teldi stóra óvissuþáttinn vera vefþjónustusamskiptin við bókunarvél en útfærslan á þeim væri þess eðlis að frekar erfitt væri fyrir starfsmenn hans að áætla vinnu við þær þar sem ekki væru til svokallaðar WSDL-lýsingar eða skjölun. Eina leiðin til að prófa þær væri að byrja á að forrita á móti þeim til að prófa þær. Þar sem aðalstefnandi taldi ómögulegt að kynna sér innviði bókunarvélarinnar með öðrum hætti óskaði hann eftir skilgreiningu á veðþjónustum vegna tenginga við bókunarvél. Bókunarkerfi stefnda var svokallað „Ticket“ kerfi sem hannað var af sænskum aðila, Tommy Wiberg. Þessi aðili, sem veitti aðalstefnda bókunarþjónustu, upplýsti aðalstefnanda um að ekki væru til skilgreiningar á virkni bókunarvélarinnar og hún byði ekki upp á prufusvæði til að gera aðilum kleift að forrita á móti henni.
Í tölvupósti forsvarsmanns aðalstefnanda til forsvarsmanns aðalstefnda þann 25. janúar 2012 segir:
Hæ Erla. Þetta hjálpar eflaust eitthvað en það er ekki augljóst á þessari stundu hversu mikið þetta kemur að gagni eða hversu mikinn tíma þetta sparar. En það er alla vega komið á hreint að skjölunin er ekki til og hann ætlar ekki að leggja í þá vinnu :)
Þetta er eflaust einn af ókostum þess að eiga við svona einyrkja. En eins og ég nefndi, þá erum við svo sem ekki óvanir svona vinnubrögðum og getum aðlagað okkur að þeim eini gallinn er sá að við getum ekki fastneglt tilboðið í þennan verkhluta.
Þann 31. janúar 2012 svaraði forsvarsmaður aðalstefnda ofangreindu erindi með svohljóðandi tölvupósti:
Ok við ætlum að funda í dag og taka ákvörðun en ég geri mér fulla grein fyrir því að þessi liður er ekki fastur í tilboðinu. Sendi þér niðurstöðurnar á eftir, gætum við hafist handa sem fyrst við að byrja á glæsilegum nýjum vef?
Þann 1. mars 2012 sendi forsvarsmaður aðalstefnda tölvupóst þar sem hann tilkynnir stefnanda að ákveðið hafi verið að ganga til samninga við hann og óskaði eftir drögum að samningi til yfirlestrar. Þann 19. mars 2012 var haldinn fundur á starfsstöð aðalstefnanda þar sem farið var yfir samningsdrög.
Þann 21. mars 2012 var haldinn fundur með forsvarsmönnum aðalstefnanda og aðalstefnda ásamt Tommy Wiberg, sem var í forsvari fyrir rekstraraðila bókunarvélarinnar sem aðalstefndi notaði og eini starfsmaður þess félags. Tommy kom gagngert hingað til lands á vegum aðalstefnda vegna bókunarvélarinnar. Eftir fundinn varð ljóst að taka þyrfti forritunarmál vegna bókunarvélarinnar til sérstakrar skoðunar.
Þann 3. maí 2012 sendir Erla Vignisdóttir, forsvarsmaður aðalstefnda, póst til forsvarsmanns aðalstefnanda, þar sem óskað er eftir fundi til að ganga frá samningi og öðrum formsatriðum.
Verksamningur og þjónustusamningur voru síðan undirritaðir milli aðalstefnanda og aðalstefnda. Margeir Ingólfsson, verkefnastjóri hjá aðalstefnanda og stjórnarmaður, ritaði undir samningana fyrir hönd aðalstefnanda og Guðrún Þórisdóttir, stjórnarmaður aðalstefnda, ritaði undir samningana fyrir hönd aðalstefnda. Samningarnir eru dagsettir 7. og 8. mars 2012 en aðalstefnandi kveður undirritun hafi farið fram þann 11. maí 2012 og tölvuskeyti milli aðila benda til þess að dagsetningar á samningunum séu ekki réttar. Verkefnastjóri hjá aðalstefnda og tengiliður vegna verksins var Erla Vignisdóttir. Verkefnastjóri hjá aðalstefnanda og tengiliður vegna verksins var Margeir Ingólfsson. Samkomulagið fól í sér að aðalstefnandi tók annars vegar að sér að hanna og forrita nýja vefsíðu fyrir stefnda og hins vegar mánaðarlega vefumsjónarþjónustu.
Í samningnum var kostnaðaráætlun, þar sem taldir voru upp helstu vinnuliðir í tengslum við verkið. Sá fyrirvari var gerður af hálfu aðalstefnanda að stóri óvissuþátturinn í verkinu væri vefþjónustusamskipti við bókunarvél aðalstefnda. Þau væru þess eðlis að erfitt væri fyrir aðalstefnanda að áætla nákvæmlega vinnu við þau þar sem ekki væru til svokallaðar WSDL-lýsingar á vefþjónustunni og því væri eina leiðin fyrir aðalstefnanda sú að byrja að forrita á móti þeim til að prófa þær. Það gæti orðið til þess að kostnaðurinn við þann lið gæti orðið hærri eða lægri en gert væri ráð fyrir í samningnum.
Samkvæmt kostnaðaráætlun skyldi vinna við vefsíðugerðina taka 383 klukkustundir á tímagjaldinu 14.200 krónur og 10 klukkustundir á tímagjaldinu 12.200 krónur, samtals 5.560.600 krónur, án vsk. Að auki var samið um að veittur skyldi yrði 14% afsláttur þannig að til greiðslu kæmu 4.782.116 krónur, án vsk. eða 6.001.556 krónur auk 30.014 króna á mánuði. Áætlaðar voru 176 klukkustundir af framangreindum 393 klukkustundum í vinnu við vefþjónustusamskipti við bókunarvél aðalstefnda. Greiðslufyrirkomulag samkvæmt samningnum var þannig að 30% af tilboði skyldu greiðast við undirskrift samnings, 40% þegar hönnun yrði afhent og 30% við afhendingu veflausnar. Öll aukaverk skyldu rukkuð samkvæmt verðskrá aðalstefnanda. Þá var aðalstefnda gert að greiða fast gjald mánaðarlega vegna kerfisleigu, þjónustusamnings, vefhýsingar, DND-hýsingar, leitarvélar og áskriftargjalds. Ekki var kveðið á um það í samningi aðila hvenær verki skyldi lokið.
Þann 23. maí 2012 hófst vinna við verkið og stóð fyrsta lota verksins yfir til 20. ágúst 2012. Þann dag sendi forsvarsmaður aðalstefnda, Erla Vignisdóttir, forsvarsmanni aðalstefnanda tölvupóst og falaðist eftir upplýsingum um verkstöðu. Forsvarsmaður aðalstefnanda sendir svohljóðandi svar þann 21. ágúst 2012:
Vefuninni er lokið, uppsetning á hefðbundnum vefhlutum er langt komin og forritararnir eru byrjaðir á sinni vinnu. Þeir munu eflaust fljótlega kalla eftir einhverri hjálp frá Tommy.
Þann 24. október 2012 sendi Stefán Laxdal, starfsmaður aðalstefnanda, Erlu Vignisdóttur, póst með útlistun á verkáætlun og upplýsti um stöðu verksins.
Þann 12. nóvember 2012 sendi Stefán Laxdal framvinduskýrslu til Erlu Vignisdóttur vegna vinnu frá 1. til 11. nóvember, þann 19. nóvember 2012 framvinduskýrslu vegna vinnu í 46. viku ársins, þann 27. nóvember 2012 framvinduskýrslu vegna vinnu í 47. viku ársins, og þann 6. desember 2012 framvinduskýrslu vegna vinnu í 48. viku ársins.
Þann 6. desember 2012 tilkynnti Stefán Laxdal Erlu Vignisdóttur með tölvupósti að vefurinn væri tilbúinn til efnisinnsetningar og að ákveðinn starfsmaður aðalstefnanda myndi leiðbeina þeim við að setja upp ferðir og tengja þær.
Þann 3. janúar 2013 sendir Erla Vignisdóttir póst fyrir hönd aðalstefnda þar sem gerð var athugasemd við reikninga sem stemmdu ekki við tímaskýrslur sem lagðar höfðu verið fram. Um var að ræða mistök við reikningaútgáfu, þar sem tímatalning í skýrslum var gefin upp í hálfum stundum en í tímaskýrslum á reikningum var rukkað fyrir 2/3 úr klukkustund og leiðrétti aðalstefnandi umrædd mistök. Ekki voru gerðar aðrar athugasemdir af hálfu aðalstefnda við útgefna reikninga eða tímaskýrslur.
Í mars 2013 var Guðmundur Stefán Þorleifsson, forritari hjá aðalstefnanda, í sambandi við Tommy Wiberg vegna bókunarvélarinnar og Tommy sendi þann 8. mars 2013 tölvupóst til hans sem var svohljóðandi samkvæmt íslenskri þýðingu á honum:
„... hér virðist einhver misskilningur vera á ferðinni – þetta forritaviðmót er ekki opinbert forritaviðmót heldur aðeins innra forritaviðmót sem þú ert að nota sem við erum að nota til að knýja bókunarvefinn.
þar sem þetta er þróað fyrir viðskiptavininn fyrir mjög lítið fé og var hætt við áður en því var lokið geturðu ekki bara gert ráð fyrir að þetta sé birt opinbert viðmót!
Grayline hefur verið upplýst um þetta og núverandi kerfi tókst að laga sig að því nokkuð fljótt – en það tæki a.m.k. vikuvinnu að gera alvöru opinbert forritaviðmót sem gray line vill ekki, né heldur höfum við mannafla í þessum mánuði til þess.“
Tommy Wiberg sendi annan tölvupóst 18. mars 2013 og segir: „hey eins og ég hef sagt þér áður var þetta verkefni sem var hætt við áður en því lauk og er ekki með allt fíneríið sem þú vilt – ég held ég hafi skrifað það áður.“
Þann 20. mars 2013 sendi Stefán Laxdal framvinduskýrslu til Erlu Vignisdóttur vegna vinnu í mars 2013 og þann 17. apríl 2013 vegna vinnu í 14. og 15. viku ársins.
Þann 12. og 21. mars 2012 voru haldnir fundir um stöðu málsins á starfsstöð aðalstefnda. Á hinum síðarnefnda fundi var farið yfir útgefna reikninga. Fundinn sátu Sigurdór Sigurðsson, fjármálastjóri aðalstefnda, og Margeir Ingólfsson fyrir hönd aðalstefnanda. Fjármálastjóri aðalstefnda hafði ekki verið viðstaddur fyrri fundi þar sem verkið var til umræðu og hafði heldur ekki tekið þátt í fyrri samskiptum við aðalstefnanda um verkframvindu. Var því farið yfir ástæður fyrir þeim aukakostnaði sem þegar hafði fallið til við vinnu við vefsíðu stefnda. Þann 4.til 9. apríl 2013 fóru fram samskipti um vangoldna reikninga sem aðalstefnandi hafði gefið út vegna verksins. Pétri Blöndal Gíslasyni var sent yfirlit yfir verkið og honum tilkynnt að allir vextir og dráttarvextir yrðu felldir niður ef vangoldnir reikningar yrðu greiddir, en umræddir reikningar voru ekki greiddir.
Í tölvupósti aðalstefnanda, dags. 21. júní 2013, til fjármálstjóra aðalstefnda segir að samkomulag hafi verið gert á síðasta fundi aðila um að aðalstefndi gerði upp útistandandi skuld því þá væru þeir nokkurn veginn á pari. Til að leysa málið hafi verið samið um að tímaverðið yrði 14.200 kr. í stað 15.800 kr. og gefinn yrði 30% afsláttur af því. Miðað við þennan dag væri vinna samkvæmt tímaskýrslum 1.677 klst. sem þýddi heildarkostnað upp á 16.669.380 kr., en til þessa hefði aðalstefndi aðeins greitt 13.077.154 kr. og eftirstöðvar væru því 3.592.226 kr. Allar tölur væru án virðisaukaskatts. Þá var skorað á aðalstefnda að greiða eins fljótt og auðið væri þar sem þetta fé skipti lítið fyrirtæki eins og aðalstefnanda mjög miklu máli. Sama daga svaraði fjármálstjóri aðalstefnda og kvað þetta langt frá þeirri niðurstöðu sem hann hélt að gengið hefði verið út frá. Daginn eftir sendur Pétur Blöndal Gíslason starfsmaður aðalstefnda, póst til aðalstefnanda og sagði þetta langt frá þeim skilningi sem hann hefði haft eftir síðasta fund.
Eftir 25. júní 2013 var vinna aðalstefnanda við vefsíðuna stöðvuð vegna vanefnda aðalstefnda. Þann 29. júlí 2013 var haldinn sáttafundur aðila þar sem farið var yfir málið og lagði aðalstefnandi til að aðalstefndi greiddi útistandandi reikninga ella yrði send greiðsluáskorun og aðalstefnandi myndi falla frá veittum afsláttum.
Þann 9. ágúst 2013 sendi aðalstefndi aðalstefnanda áskorun um samningsefndir og tók jafnframt fram að þeir efnisþættir sem unnir hefðu verið af aðalstefnanda og afhentir aðalstefnda hefðu ekki fullnægt þeim kröfum sem leiddi af samningi og eðli málsins. Þannig hafi efnisþættir verið gallaðir og aðalstefnda ónothæfir. Fyrir lægi að ekki hefði verið samið sérstaklega um það hvenær vefsíðan hefði átt að vera tilbúin, en ráða mætti af samskiptum aðila að stefnt yrði að því að hún yrði tilbúin til notkunar um mánaðamótin september/október 2012. Skorað var á aðalstefnanda að efna skyldu sína samkvæmt verksamningnum með afhendingu á nothæfri og gallalausri vefsíðu eigi síðan er 6. september 2013. Yrði aðalstefnandi ekki við þessari áskorun áskildi aðalstefndi sér allan rétt til að rifta verksamningnum og krefjast skaðabóta vegna alls þess tjóns sem vanefndir aðalstefnanda hefðu haft í för með sér.
Þann 5. september 2013 sendi lögmaður aðalstefnanda greiðsluáskorun og innheimtuviðvörun til aðalstefnda, þar sem skorað var á aðalstefnda að greiða vangoldna reikninga vegna verksins. Í innheimtubréfinu segir að alls sé vangoldin fjárhæð 9.497.9333 kr. með kostnaði, en höfuðstóll reikninga í vanskilum samtals 9.025.9565 kr. Greiðslufall hafi orðið af hálfu aðalstefnda þann 1. janúar 2012 en í þágu verksins hafi aðalstefnandi haldið verkinu áfram þrátt fyrir vanefndir í þeirri trú að aðalstefndi myndi bæta úr þeim. Þegar í ljós hafi komið að aðalstefndi hafi ekki brugðist með neinu móti við ítrekuðum innheimtuviðvörunum og greiðsluáskorunum hafi verið ljóst að aðalstefnandi gat ekki haldið áfram vinnu fyrr en aðalstefndi bætti úr vanefndum sínum. Þá var því mótmælt að aðalstefnandi hefði með nokkrum hætti vanefnt samninginn af sinni hálfu og hefði aðalstefnandi aldrei skuldbundið sig til að skila vefsíðunni um mánaðamótin september/október 2012. Þá hafi aðalstefndi fyrst sett fram þessar mótbárur sínar um að aðalstefnandi hefði ekki efnt samninginn eftir að aðalstefndi var krafinn um greiðslu á vangoldnum verksamningsgreiðslum.
Þann 9. september 2013 sendi lögmaður aðalstefnda yfirlýsingu um riftun verksamnings til aðalstefnanda. Mál þetta var síðan þingfest þann 1. október 2013 og gagnstefna var þingfest 5. nóvember 2013. Gagnsök var sameinuð aðalsök þann 27. nóvember 2013.
Þann 27. nóvember 2013 lagði lögmaður aðalstefnda fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns, en hún hljóðaði svo:
„Þess er óskað að matsmaður láti í té skriflegt og rökstutt álit um þau atriði sem tilgreind eru hér á eftir. Er þess óskað að við matið verði höfð hliðsjón af verksamningi aðila, framlögðum dómskjölum og góðum venjum við sambærilega vefsíðugerð.
Er þess óskað að matsmaður skoði og meti vefsíðu sem matsþoli útbjó fyrir matsbeiðanda og kanni eftirfarandi atriði með tilliti til þess hvort um galla sé að ræða, orsök þeirra og afleiðingar, leiðir til úrbóta og kostnað við úrbætur. Nánar tiltekið er óskað eftir því að matsmaður skoði eftirfarandi liði og meti:
- Gallar í vefsíðu
- Hvort uppsetning síðunnar, frágangur hennar og eftir atvikum annað sem skiptir máli sé fullnægjandi og í samræmi við hefðbundnar vefsíður aðila í sambærilegri atvinnustarfsemi og matsbeiðandi.
- Telji matsmaður síðunni ábótavant, þá meti hann hvaða leiðir séu til úrbóta og kostnað við þær.
- Tenging við bókunarvél
Hvort matsþola hafi tekist með fullnægjandi hætti að tengja vefsíðuna við bókunarvél matsbeiðanda svo unnt sé að panta ferðir með eðlilegum hætti þ.á.m. með spjaldtölvum og snjallsímum - Vinna í vefsíðunni
Hvort unnt sé að rekja hvort matsþoli hafi unnið að lagfæringum í vefsíðunni síðan að forsvarsmenn matsþola lýstu því yfir, á sáttafundi dags. 25. júní 2013, að þeir hygðust ekki vinna frekar í vefsíðunni án frekari greiðslna. Jafnframt hvenær unnið var síðast í vefsíðunni skv. fyrirliggjandi skrám. - Kostnaður vegna vefsíðugerðarinnar
- Hvort eðlilegt geti talist að greiða 29.940.445 krónur fyrir vefsíðu af því tagi sem matsþoli útbjó fyrir matsbeiðanda samkvæmt verksamningi aðila og hvort slíkt samrýmist almennum venjum í vefsíðugerð.
- Ef svarið við staflið a. er neikvætt, þá leggi matsmaður mat á það hvert sé eðlilegt og sanngjarnt verðmæti vefsíðunnar á því vinnslustigi og með þeirri virkni sem hún birtist matsmanninum.
Þess er óskað að matsmaður fjalli einnig um önnur atriði sem hann telur máli skipta í tengslum við framangreind atriði. Þess er óskað að matsmaður meti hver er ástæða fyrir göllum sé og hvað fór úrskeiðis.“
Aðalstefndi lagði jafnframt fram bókun þar sem fram kom að þann 12. nóvember 2013 hefði helsti samkeppnisaðili, Reykjavík Excursions – Kynnisferðir, opnað nýja heimasíðu sem útbúin hefði verið af aðalstefnanda. Þannig eigi fullyrðingar aðalstefnda, sem fram komi í greinargerð í gagnsök, um að sú vinna sem innt hafi verið af hendi fyrir aðalstefnda geti á engan hátt nýst aðalstefnanda við riftun, ekki við rök að styðjast. Lögmaður aðalstefnanda mótmælti bókuninni sem hann kvað vera nýja málsástæðu og óskaði eftir fresti til að kynna sér framkomin gögn. Aðalstefnandi lagði síðan fram bókun þann 11. desember 2013 þar sem hann mótmælti bókun stefnda frá 12. nóvember 2013 sem skriflegum málflutningi og nýrri málsástæðu. Aðalstefndi lagði jafnframt fram bókun þar sem hann gerði athugasemdir við beiðni aðalstefnda um dómkvaðningu matsmanns.
Þann 15. janúar 2014 var dómkvaddur matsmaður, skv. framangreindri matsbeiðni og til að framkvæma hið umbeðna mat, skipaður Ásmundur Bjarnason tölvunarfræðingur, forstöðumaður upplýsingasviðs Sjóvár.
Matsgerð dómkvadds matsmanns, dags. 18. mars 2014, var síðan lögð fram 15. apríl 2014 og voru niðurstöður matsmanns sem hér segir:
„Matsliður 1, Gallar í vefsíðu
Beiðni matsbeiðanda:
-
„Hvort uppsetning síðunnar, frágangur hennar og eftir atvikum annað sem skiptir máli sé fullnægjandi og í samræmi við hefðbundnar vefsíður aðila í sambærilegri atvinnustarfsemi og matsbeiðandi.
-
Telji matsmaður síðunni ábótavant, þá meti hann hvaða leiðir séu til úrbóta og kostnað við þær.“
Skv. gögnum málsins, þá er vinnu við vefsíðuna er ekki lokið, en vinna við vefsíðuna var stöðvuð af hálfu matsþola eftir 25. júní 2013.
Það er rétt að byrja á því að skýra út í hvaða stöðu verkefnið var á þeim tímapunkti m.v. sýn matsmanns. Matsmaður lítur svo á að búið hafi verið að afhenda verkkaupa vefinn til efnisinnsetningar og prófunar. Verkinu er hinsvegar ekki lokið, þ.e. ekki var búið að klára endanlega alla virkni vefsins og framkvæma allar prófanir. Á gögnum málsins verður ekki annað séð en að verkefnið hafi verið í eðlilegum farvegi, þ.e. prófanir stóðu yfir og vinna við lagfæringar á athugasemdum úr prófunum. Þá stóð einnig yfir vinna við efnisinnsetningu en í því felst m.a. innsetning á almennu efni, tengja saman ferðir og ítarefni milli vefsíðu og bókunarvélar ásamt nánari skilgreiningum. Skv. verkefnavef matsþola voru á þeim tímapunkti nokkrar útistandandi athugasemdir sem komið höfðu út úr prófunum. Verður ekki annað séð en að þær athugasemdir séu ennþá opnar og í fullu gildi m.v. stöðu verksins og virkni vefsins á þessum tímapunkti.
Mat á vefsíðunni fór þannig fram að fyrsta yfirferð fór fram á fundi 10. mars hjá matsþola og í framhaldinu fékk matsmaður aðgang að síðunni til að gera sjálfstæðar athuganir sem framkvæmdar voru 10. – 16. mars. Ein bókun var kláruð til enda með því að greiða með kreditkorti en þrátt fyrir að vefurinn eigi að keyra á móti bókunarvélinni í prófunarumhverfi, þá virðist öll kortameðhöndlun bókunarvélarinnar vera raunkeyrð, þ.e. pöntunin var raunverulega skuldfærð af viðkomandi kreditkorti. Öll sú virkni/vinnsla gekk hinsvegar athugasemdalaust og pöntunar- og greiðslukvittun skiluðu sér hratt og örugglega. Í ljósi þessa, var ekki látið reyna á frekari prófanir með kreditkortum, heldur stöðvað á greiðslusíðunni (e. Customer information & payment).
Vefsíðan lítur ágætlega út, það hefur greinilega verið lögð mikil vinna í hönnun og uppsetningu vefsíðunnar. Boðið er upp á skemmtilegar framsetningar á dagsferðum (Day tours) og pakkaferðum (Tour Packages) ásamt tengingum við Google Maps, umsögnum viðskiptavina, ítarlegri lýsingum á ferðum o.fl. Aðeins vantar þó upp á endanlega virkni vefsins en það er að mestu í samræmi við opnar athugasemdir á verkefnavef matsþola.
Það skal tekið fram að matsmanni var ekki alltaf ljóst hvers kyns var ef virkni reyndist ekki alveg sem skyldi, en þar gat verið um eitt af eftirtöldum atriðum til að dreifa :
- Vefun/forritun ekki alveg lokið eða ábótavant
- Efnisinnsetningu ábótavant, t.d. tengingar/skilgreiningar milli bókunarvélar og vefsíðu
- Prófunargögn mögulega of gömul í einhverjum tilfellum (frá 2013) og hafi því þannig áhrif á virkni/birtingu.
Niðurstaða:
-
Eins og fram kemur hér að ofan, þá er verkinu ekki lokið en vefsíðan lofar góðu. Staðan er því sú að vefsíðan virðist komin með alla helstu grunnvirkni og vefforritun virðist vera mjög langt komin.
Búið er að greiða úr flestum tæknilegum flækjum sem tengjast bókunarvélinni en það eru útstandandi atriði sem ekki hafa verið kláruð, eins og fyrr segir. Matsmanni þykir því ekki rétt að tala um galla í þessu sambandi, hér er um að ræða verkefni sem ekki er lokið. Matsmaður metur það svo að ef vefsíðan yrði fullkláruð m.v. þá virkni sem nú er fyrirliggjandi, þá myndi hún fyllilega standast samanburð við aðrar vefsíður aðila í sambærilegri atvinnustarfsemi og verkkaupi. -
Eðlilegasti kosturinn væri að taka upp þráðinn og klára verkefnið. Það virðist ekki vera langt í land eftir þótt matsmaður treysti sér ekki til að meta umfang þeirrar vinnu sem eftir er. Það sem þarf að þarf að klára mun krefjast vinnu frá bæði verksala og verkkaupa en í grófum dráttum er það eftirfarandi:
- Klára vinnu varðandi virkni á vefnum, slípa til vegna spjaldtölva og snjallsíma en önnur atriði eru flest skráð á verkefnavef matsþola.
- Klára vinna við efnisinnsetningu; t.d. tengja „activities“ við ferðir og klára tengja ferðir í bókunarvél við ítarupplýsingar á vefnum.
- Framkvæma formlegar lokaprófanir og lagfæringar sem þarf að framkvæma í framhaldi af því.
Matsliður 2: Tenging við bókunarvél
Beiðni
matsbeiðanda:
„Hvort matsþola hafi tekist með
fullnægjandi hætti að tengja vefsíðuna við bókunarvél matsbeiðanda svo unnt sé
að panta ferðir með eðlilegum hætti þ.á.m. með spjaldtölvum og snjallsímum.“
Þessi matsliður er nátengdur matslið 1 og ber að skoða í því samhengi.
Á fundi með matsþola þ. 10. mars s.l. kom fram að planið var að klára fyrst þann hluta sem snýr að borð- og fartölvum en eftir væri að slípa viðmótið betur til fyrir spjaldtölvur og snjallsíma; skala myndir og prófa/klára forritsköll en vefsíðan er hönnuð sem s.k. „snjall vefur“ sem á að aðlaga sig að ólíkum skjástærðum (e. responsive).
Niðurstaða:
Eins og fram kemur í matslið 1 hér fyrir ofan, þá er verkinu ekki lokið.
Almennt gekk þó ágætlega að finna ferðir og panta (greiðsluhluta að mestu
sleppt sbr. matslið 1) úr borð- og fartölvu en úr spjaldtölvu og snjallsíma
skalast vefsíðan ágætlega en ekki reyndist
hægt að klára pöntunina af fyrrgreindum ástæðum.
Matsliður 3: Vinna í vefsíðunni
Beiðni matsbeiðanda:
„Hvort unnt sé að rekja hvort matsþoli
hafi unnið að lagfæringum í vefsíðunni síðan að forsvarsmenn matsþola lýstu því
yfir, á sáttafundi dags. 25. júní 2013, að þeir hygðust ekki vinna frekar í
vefsíðunni án frekari greiðslna. Jafnframt hvenær unnið var síðast í vefsíðunni
skv. fyrirliggjandi skrám.“
Verkefnavefur matsþola (BaseCamp)
Á verkefnavefnum voru þrjár uppfærslur sem eiga sér stað eftir 25. júní sem
mögulega gátu bent til þess að unnið hafi verið í verkefninu eftir 25. júní. Á
fundi með matsþola þ. 10. mars upplýsti Guðmundur Þorvaldsson að þessi atriði
hefðu verið kláruð löngu áður en gleymst hafi að merkja þau sem
„completed“ eða lokuð.
Skoðun á tímaskráningum matsþola bendir til að a.m.k. tvö af þessum atriðum hafi verið unnin í maí 2013.
Aðrar uppfærslur á verkefnavefnum ganga að mestu leyti út á að taka hlutaðeigandi aðila úr viðkomandi athugasemd (assignment). Ástæðan er sú að verkefnavefurinn er notaður í fleiri verkefnum þar sem starfsmenn matsþola sjá allar athugasemdir sem skráðar eru á þá. Þegar stefndi í að einhver bið yrði á frekari vinnu í verkefninu fyrir matsbeiðanda, þá grípa menn til þess ráðs að taka athugasemdirnar (ígildi verkbeiðni) af sér til að þeir sjái eingöngu athugasemdir í verkefnum í vinnslu.
SVN (vefútgáfustjórnunarkerfi matsþola)
Matsþoli notar vefútgáfustjórnunarkerfi sem nefnist SVN til að halda utan um
allar hugbúnaðarbreytingar sem eru framkvæmdar. Þar voru tvær færslur skráðar
eftir 25. júní 2013. Á fundi með matsþola þ. 10. mars upplýsti Margeir
Ingólfsson og Atli Páll að þessar færslur stöfuðu frá almennum uppfærslum á SVN
útgáfustjórnunarkerfinu, þvert á öll verkefni. Matsmaður fékk að skoða þessar
færslur og það sem á baki þeim lá og var það staðfest í þeirri skoðun að skv.
útgáfustjórnunarkerfinu eru síðustu hugbúnaðarbreytingar á vefsíðunni frá 11.
júní 2013.
Tímaskráningar
Sundurliðaðar tímaskráningar eru hluti af dómsskjölum en þar verður ekki séð að
skráður hafi verið tími vegna vinnu við vefsíðuna eftir 25. júní 2013.
Niðurstaða:
Matsmaður getur ekki séð að matsþoli hafi unnið að lagfæringum í
vefsíðunni eftir 25. júní 2013.
Matsliður 4: Kostnaður vegna vefsíðugerðarinnar
Beiðni
matsbeiðanda:
„Kostnaður vegna vefsíðugerðarinnar
-
Hvort eðlilegt geti talist að greiða 29.940.445 krónur fyrir vefsíðu af því tagi sem matsþoli útbjó fyrir matsbeiðanda samkvæmt verksamningi aðila og hvort slíkt samrýmist almennum venjum í vefsíðugerð.
-
Ef svarið við staflið a. er neikvætt, þá leggi matsmaður mat á það hvert sé eðlilegt og sanngjarnt verðmæti vefsíðunnar á því vinnslustigi og með þeirri virkni sem hún birtist matsmanninum.“
Verkefnið sem hér um ræðir var tvíþætt. Annars vegar fólst það í hönnun, uppsetningu og forritun á vefsíðu fyrir matsbeiðanda. Hins vegar að samþætta bókunarvél matsbeiðanda við vefinn.
Kostnaður vegna vefsíðugerðar og samþættingu fellur nánast eingöngu til vegna vinnu. Það er einkum tvennt sem hefur áhrif á hækkun kostnaðar í slíkum verkefnum; aukaverk og ófyrirsjáanleg vinna.
Bókunarvél matsbeiðanda er ákveðin þungamiðja í öllu þessu verkefni, en mikil vinna í vefsíðunni fellur til vegna samþættingar við bókunarvélina. Eftirfarandi eru nokkur dæmi úr matsgögnum sem matsmaður telur geta valdið ófyrirsjáanlegri vinnu.
- Skjölun á vefþjónustum bókunarvélarinnar er mjög takmörkuð og ábótavant.
- Vefþjónustur bókunarvélarinnar skila „any object“ til baka og engin skjölun á skilagildum.
- Forritun krafðist þekkingu á „business lógík“ bókunarvélarinnar, þekkingu á gagnatöflum og hvernig þær tengdust (foreign keys), í raun var verið að skrifa beint ofan í töflur bókunarvélarinnar með mjög takmarkaðri villuprófun af hálfu bókunarvélarinnar. Þetta kallar á talsverða aukavinnu við að setja sig inn í innviði bókunarvélarinnar sem ekki ætti að þurfa.
- Það þarf að halda utan um „business lógík“ báðum megin; vefsíðan þarf að halda utan um innkaupakörfuna (e. suitcase), afsláttarútreikninga og þar með endanlega verðútreikninga. Þetta eru atriði sem eðlilegt hefði verið að láta bókunarvélinni eftir að halda utan um en matsþoli vann þessa vinnu vefsíðumegin.
- Pökkun inn í raunverulegar vefþjónustur sem eðlilegast hefði verið að gera í bókunarvélinni en á endanum var það matsþoli sem framkvæmdi þá vinnu.
Það er ekki annað að sjá en að matsbeiðandi sé vel upplýstur um öll þau vandamál og takmarkanir á bókunarvélinni sem upp koma í ferlinu en niðurstaðan virðist alltaf vera sú sama; að matsþoli haldi áfram vinnu við við forritun og samþættingu við bókunarvéli matsbeiðanda en bókunarvélin virðist ekki uppfylla „best practices“ varðandi högun og útfærslu.
Það er ljóst að vinna vegna samþættingar við bókunarvélina vegur mjög þungt í þessu verkefni. Hér að ofan hafa verið rakin nokkur af þeim atriðum sem valda því að vinnuþátturinn verður umtalsvert meiri en eðlilegt gæti talist, sem verður að skrifast að miklu leyti á högun og útfærslu bókunarvélarinnar. Það er einnig ljóst að matsþoli tekur að sér talsverða vinnu í verkefninu sem eðlilegra hefði verið að útfæra í bókunarvél matsbeiðanda.
Niðurstaða:
Matsmaður telur að kostnaður við hugbúnaðarverkefni af þessu tagi geti
auðveldlega farið úr böndunum.
Varðandi almennar venjur í vefsíðugerð, þá telur matsmaður að matsþoli hafa gert vel í því að halda matsbeiðanda vel upplýstum varðandi um framgang verkefnisins og þeim áskorunum sem matsþoli stóð frammi fyrir í verkefninu.
Ótölusettur matsliður almenns eðlis
Beiðni matsbeiðanda:
„Þess er óskað að matsmaður fjalli
einnig um önnur atriði sem hann telur máli skipta í tengslum við framangreind
atriði. Þess er óskað að matsmaður meti hver er ástæða fyrir göllum sé og hvað
fór úrskeiðis.“
Niðurstaða:
Matsmaður vísar til matsliða 1 og 4.“
Í sama þinghaldi og matsgerð lagði aðalstefndi fram bókun þar sem hann gerði athugasemdir við matsgerðina, matspurningum hefði ekki öllum verið svarað og svör ekki vel rökstudd og matsmann hafi skort þekkingu og kunnáttu til að meta það sem meta hafi átt.
Dómkvaddur matsmaður kom fyrir dóm þann 20. maí 2013 og urðu lögmenn aðila sammála um að matsmanni yrði falið að endurskoða matsgerð sína. Þann 30. maí var síðan lög fram ósk um endurmat á matsgerð. Í ósk um endurmat á matsgerð kemur fram að aðilar hafi komist að samkomulagi um að óska eftir endurmati á 4. lið matsbeiðnar til fyllingar því svari sem nú liggi fyrir og rétt sé að taka fram að orðalag spurningarinnar standi í samhengi við þann inngang sem sé að finna í matsbeiðni matsbeiðanda í 4. lið. Þess var óskað að matsmaður svaraði eftirfarandi spurningum:
-
Hvort eðlilegt geti talist að greiða 29.940.445 kr. fyrir þá vinnu sem matsþoli hefur unnið í þágu matsbeiðanda, skv. verksamningi, dags. 7. mars 2012 og hvort slíkt samrýmist almennum venjum í vefsíðugerð.
-
B – liðurinn spurningar standi óhaggaður eins og hann sé í upphaflegri matsbeiðni matsbeiðanda.
Í sama þinghaldi var lagður fram viðauki við matsgerðina, dags. 30. maí 2014. Í inngangi kemur fram að matsmaður vísi til nánari fyllingar fyrirliggjandi matsgerðar til skýrslu sinnar fyrir dóminum. Í kjölfar þeirrar skýrslugjafar hafi matsbeiðandi og matsþoli orðið sammála um að leggja fyrir matsmanninn að umorðaða matspurningu í a hluta 4. matsliðar en b hluti 4. matsliðar skal standa óhaggaður eins og hann sé í upphaflegri matsbeiðni. 4. matsliður hljóðar því svo:
„Kostnaður vegna vefsíðugerðarinnar
- Hvort eðlilegt geti talist að greiða kr. 29.940.445 fyrir þá vinnu sem matsþoli hefur unnið í þágu matsbeiðanda, skv. verksamningi dags. 7. mars 2012 og hvort slíkt samrýmist almennum venjum í vefsíðugerð.
- Ef svarið við staflið a. er neikvætt, þá leggi matsmaður mat á það hvert sé eðlilegt og sanngjarnt verðmæti vefsíðunnar á því vinnslustigi og með þeirri virkni sem hún birtist matsmanninum.“
Umfjöllun matsmanns:
Verkefnið sem hér um ræðir var tvíþætt. Annars vegar fólst það í hönnun, uppsetningu og forritun á vefsíðu fyrir matsbeiðanda. Hins vegar að samþætta bókunarvél matsbeiðanda við vefinn.
Kostnaður vegna vefsíðugerðar og samþættingu fellur nánast eingöngu til vegna vinnu. Það er einkum tvennt sem hefur áhrif á hækkun kostnaðar í slíkum verkefnum; aukaverk og ófyrirsjáanleg vinna.
Bókunarvél matsbeiðanda er ákveðin þungamiðja í öllu þessu verkefni, en mikil vinna í vefsíðunni fellur til vegna samþættingar við bókunarvélina. Eftirfarandi eru nokkur dæmi úr matsgögnum sem matsmaður telur að hafi beinlínis valdið ófyrirsjáanlegri vinnu.
- Skjölun á vefþjónustum bókunarvélarinnar er mjög takmörkuð og ábótavant.
- Vefþjónustur bókunarvélarinnar skila „any object“ til baka og engin skjölun á skilagildum.
- Forritun krafðist þekkingu á „business lógík“ bókunarvélarinnar, þekkingu á gagnatöflum og hvernig þær tengdust (foreign keys), í raun var verið að skrifa beint ofan í töflur bókunarvélarinnar með mjög takmarkaðri villuprófun af hálfu bókunarvélarinnar. Þetta kallar á talsverða aukavinnu við að setja sig inn í innviði bókunarvélarinnar sem ekki ætti að þurfa.
- Það þarf að halda utan um „business lógík“ báðum megin; vefsíðan þarf að halda utan um innkaupakörfuna (e. suitcase), afsláttarútreikninga og þar með endanlega verðútreikninga. Þetta eru atriði sem eðlilegt hefði verið að láta bókunarvélinni eftir að halda utan um en matsþoli vann þessa vinnu vefsíðumegin.
- Pökkun inn í raunverulegar vefþjónustur sem eðlilegast hefði verið að gera í bókunarvélinni en á endanum var það matsþoli sem framkvæmdi þá vinnu.
Það er ekki annað að sjá en að matsbeiðandi sé vel upplýstur um öll þau vandamál og takmarkanir á bókunarvélinni sem upp koma í ferlinu en niðurstaðan virðist alltaf vera sú sama; að matsþoli haldi áfram vinnu við við forritun og samþættingu við bókunarvéli matsbeiðanda en bókunarvélin virðist ekki uppfylla „best practices“ varðandi högun og útfærslu.
Það er ljóst að vinna vegna samþættingar við bókunarvélina vegur mjög þungt í þessu verkefni. Hér að ofan hafa verið rakin nokkur af þeim atriðum sem valda því að vinnuþátturinn verður umtalsvert meiri en eðlilegt gæti talist, sem verður að skrifast að miklu leyti á högun og útfærslu bókunarvélarinnar. Það er einnig ljóst að matsþoli tekur að sér talsverða vinnu í verkefninu sem eðlilegra hefði verið að útfæra í bókunarvél matsbeiðanda.
Þegar kemur að almennum venjum í vefsíðugerð, þá er viðskiptavinurinn í öndvegi og reynt að uppfylla allar óskir hans. Ekki er til neinn almennur verðmiði á vefsíðu en kostnaður vegna vefsíðugerðar (og þar með samþættingu við önnur kerfi sbr. bókunarvélina) fellur nánast eingöngu til vegna vinnu. Óvissuþættir tengdir bókunarvélinni eru margir en óvissunni er flaggað af matsþola allt frá greiningarfasa, í verksamningi (vísað til þess sem „Stóri óvissuþátturinn“) og svo ítrekað á meðan unnið var í verkefninu.
Niðurstaða:
Sé tekið tillit til allra ofangreindra atriða, þá telur matsmaður að
eðlilegt geti talist að greiða kr. 29.940.445 fyrir alla þá vinnu sem matsþoli
hefur unnið í þágu matsbeiðanda og að slíkt samrýmist almennum venjum í
vefsíðugerð.“
III.
Aðalstefnandi byggir málatilbúnað sinn fyrst og fremst á meginreglum kröfuréttar og samningaréttar og lögum um lausafjárkaup, nr. 50/2000. Aðalstefnandi og aðalstefndi hafi gert með sér samkomulag um að aðalstefnandi tæki annars vegar að sér að hanna og forrita nýja vefsíðu fyrir aðalstefnda og hins vegar um mánaðarlega vefumsjónarþjónustu.
Aðalstefnda hafi borið að greiða fyrir þá vinnu sem aðalstefnandi innti af henti í samræmi við verðtilboð sem gefið hafi verið í hverja unna klukkustund. Öll aukaverk skyldu þá innheimt skv. verðskrá aðalstefnanda. Þá hafi aðalstefnda borið að greiða fast gjald mánaðarlega vegna kerfisleigu, þjónustusamnings, vefhýsingar, DNS-hýsingar, leitarvélar og áskriftargjalds.
Í verksamningi aðila sé verkáætlun fyrir verkið, sem byggi á greiningarvinnu sem unnin hafi verið áður en samningurinn hafi verið undirritaður. Við þá verkáætlun hafi þó verið gerður sérstakur fyrirvari, en í verklýsingu verksamningsins segi:
Stóri óvissuþátturinn í þessu verkefni eru vefþjónustusamskiptin við bókunarvél verkkaupa en útfærslan á þeim er þess eðlis að frekar erfitt er fyrir okkur að áætla nákvæmt vinnu okkar við þær. Þar sem ekki eru til svokallaðar WSDL lýsingar á vefþjónustunum, þá er eina leiðin fyrir okkur að byrja að forrita á móti þeim til að prófa þær. Það gæti orðið til þess að kostnaðurinn við þann lið gæti annað hvort hækkað eða lækkað umfram þá áætlun sem þessi verksamningur byggir á.
Aðalstefnandi hafi upplýst aðalstefnda um þessa óvissu strax þegar viðræður hófust um verkið, nánar tiltekið á fundi aðila þann 18. janúar 2012. Allir liðir í verkáætlun aðalstefnanda, sem ekki ríkti óvissa um, hafi staðist svo til að öllu leyti. Viðbótarvinna hafi fallið til vegna verulegra vandkvæða við forritunarvinnu í tengslum við bókunarvél aðalstefnda. Ómögulegt hafi verið fyrir aðalstefnanda að gera sér grein fyrir umfangi þeirrar vinnu áður en verkið hófst. Á öllum stigum verksins hafi aðalstefndi verið upplýstur um verkframvindu. Þá hafi verið haldnir reglulegir fundir þar sem aðilar ræddu um verkið og þau vandamál sem stöfuðu af því að samþætta vefinn við bókunarvél stefnda. Á þessum fundum hafi aldrei komið fram óskir um að aðalstefnandi léti af frekari vinnu við verkið og ekki hafi heldur komið fram óskir um að gerðar yrðu breytingar á umfangi verksins. Þvert á móti hafi það alltaf verið niðurstaða fundanna og samskiptanna að halda verkinu áfram. Þá hafi verið ljóst að aðalstefndi hafi sjálfur verið meðvitaður um þá vankanta sem voru á bókunarvélinni, enda hafi Pétur Blöndal Gíslason, forsvarsmaður aðalstefnda, haft samband við forsvarsmann stefnanda og lýst yfir áhyggjum sínum af bókunarvélinni, m.a. með tilliti til þess hversu brothætt hún væri og hverjar afleiðingar það hefði fyrir rekstur aðalstefnda ef bókunarvélin virkaði ekki sem skyldi. Forsvarsmaður aðalstefnanda hafi stungið upp á því að fá hlutlausan og sérfróðan aðila til að taka bókunarvélina til skoðunar og leggja mat á áhættu aðalstefnda af því að reka og selja allar ferðir í gegnum þessa bókunarvél. Óskar Ingvarsson kerfisfræðingur hafi verið fenginn til verksins og hafi hann í kjölfarið átt fund með aðalstefnanda. Aðalstefndi hafi ekki breytt afstöðu sinni og verkið hafi haldið áfram.
Á meðan á verkinu hafi staðið, nánar tiltekið þann 1. janúar 2013, hafi orðið greiðslufall af hálfu aðalstefnda þegar verkreikningur nr. 20409, sem aðalstefnandi gaf út vegna verksins, hafi ekki verið greiddur. Í þágu verksins hafi aðalstefnandi þó haldið vinnu sinni áfram fyrst um sinn þrátt fyrir vanefndir aðalstefnda í þeirri trú að aðalstefndi bætti úr þeim við fyrsta tækifæri.
Aðalstefndi hafi heldur ekki greitt aðra reikninga sem gefnir voru út vegna verksins eftir þetta og greiðsluáskorunum hafi verið beint að honum vegna þessara vanefnda. Ekkert hafi orðið úr úrbótum aðalstefnda þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir þar að lútandi. Aðalstefnandi hafi þá neyðst til að leggja af vinnu við verkið til að komast hjá frekara tjóni vegna vanefndanna. Aðalstefnandi hafi þó þegar lokið verki sínu að mestu leyti og það eina sem hafi verið eftir hafi verið að aðalstefndi lyki sinni vinnu við efnisinnsetningu á vefinn. Í kjölfar þess eigi sér stað lokaprófanir og lagfæringar og loks sé opnað fyrir netumferð á vefinn. Aðalstefnandi og aðalstefndi hafi átt allnokkra fundi þar sem þeir hafi freistað þess að ná sáttum um uppgjör vangoldinna reikninga. Eftir að útséð hafi verið um að unnt væri að sætta málið, hafi aðalstefndi sent aðalstefnanda áskorun um skil á gallalausri og nothæfri vefsíðu.
Aðalstefnandi byggir á því að í samræmi við meginreglur kröfuréttar, geti aðalstefndi ekki gert kröfu um að aðalstefnandi vinni frekar að gerð vefsíðunnar þar sem hann hafi vanefnt skyldur sínar verulega með því að greiða ekki verkreikninga vegna þeirrar vinnu sem þegar hefur verið unnin í verkinu. Því hafi greiðsluáskorun beint að aðalstefnda í kjölfar þess að ofangreind áskorun barst. Í kjölfar greiðsluáskorunarinnar hafi borist yfirlýsing aðalstefnda um riftun verksamnings og hafi riftun byggst á því að aðalstefnandi hefði vanefnt skyldur sínar skv. verksamningi þar sem verkið hefði tafist og að þeir verkþættir sem afhentir hefðu verið væru haldnir verulegum göllum.
Í fyrsta lagi telur aðalstefnandi að það sæti furðu að andmæli við þeim verkþáttum sem höfðu verið afhentir var ekki teflt fram fyrr en aðalstefnandi hafði hafið löginnheimtu á hendur aðalstefnda vegna vangoldinna verkreikninga. Þeir verkþættir sem höfðu verið afhentir hafi þó á fyrri stigum verið látnir sæta prófun í gæðaprófunarferli sem aðalstefnandi geri á sinni vinnu og hafði aðalstefndi hvorki haft uppi andmæli við þeim verkþáttum á því stigi né heldur eftir að hafa fengið vefinn afhentan til efnisinnsetningar.
Í annan stað hafi aðalstefndi ekki að neinu leyti vikið að því í hverju hinn meinti galli á verkþáttum hafi falist, en það sé ljóst að á meðan vinnu við vefinn sé ekki lokið geti aðalstefndi ekki tekið hann til fullrar notkunar. Vinna við vefinn sé þó það langt komin að þegar hafi starfsmenn aðalstefnanda og aðalstefnda getað bókað ferðir í gegnum hann. Aðalstefnandi vísar í því samhengi til dskj. nr. 25. Þar megi sjá að starfsmaður aðalstefnda prófi bókunarferlið og fái staðfestingar um að bókanir í gegnum vefinn hafi farið í gegn. Umræddar prófanir hafi átt sér stað þann 15. júlí 2013.
Í þriðja lagi hafi aðalstefndi engar athugasemdir gert við þá reikninga sem út voru gefnir ef frá er talin athugasemd sem gerð hafi verið þann 3. janúar 2013 vegna mistaka við skuldfærslu á tímum sem síðan hafi verið leiðrétt. Mótbárur sem aðalstefndi ætli að bera fyrir sig vegna útgefinna reikninga hafi þurft að berast án tafar, sbr. 47. gr. laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000, að öðrum kosti sé aðalstefndi bundinn við efni þeirra. Ljóst sé að aðalstefndi hafi fylgst vel með þeim reikningum sem bárust, enda hafi strax verið gerð athugasemd þegar rangir reikningar voru sendir fyrir mistök. Sæti það furðu að ekki hafi verið gerð athugasemd við aðra reikninga hafi aðalstefndi raunverulega staðið í þeirri trú að þegar afhentir verkþættir væru haldnir galla.
Í fjórða lagi hafnar aðalstefndi því með öllu að hann hafi skuldbundið sig til að afhenda vefinn fyrir ákveðinn dag. Fyrir slíkri skuldbindingu sé hvorki að finna stoð í verksamningi aðila né í öðrum gögnum málsins. Þvert á móti hafi þeirri staðreynd ávallt verið haldið á lofti að ómögulegt væri að meta umfang verksins vegna óvissu varðandi bókunarvél aðalstefnda.
Með vísan til þess er að framan greini sé ljóst að þessi síðbúnu andmæli aðalstefnda séu afar ótrúverðug og virðist sett fram í þeim eina tilgangi að breiða yfir verulegar vanefndir hans sjálfs og drepa málinu á dreif.
Það sem sýni þó hvað best fram á hversu fráleitur þessi málatilbúnaður aðalstefnda sé, sé sú staðreynd að frá og með byrjun desember 2012 hefur aðalstefndi haft aðgang að vefnum, enda hafi hann fengið vefinn formlega afhentan til efnisinnsetningar þann 10. desember 2012 og vísar aðalstefnandi í þessu samhengi til tölvupósts sem Stefán Laxdal, verkefnastjóri hjá aðalstefnanda, hafi sent aðalstefnda þann 6. desember 2012, en þar segir, sbr. dskj. 11:
„Nú erum við kominn á þann stað að við getum veitt ykkur aðgang að vefnum til að setja inn efni. Fanney (cc) mun leiðbeina ykkur við að setja upp ferðir og tengja þær.
Það sem er eftir í forritun er að ganga frá bókunarferlinu en sú vinna er langt kominn. Sendu Fanneyu línu eða sláðu á þráðinn til hennar og þið finnið tíma sem hentar til að fara yfir þessa þætti.“
Eftir að vefurinn hafi verið afhentur hafa starfsmenn aðalstefnda unnið við efnisinnsetningu á honum án þess að nokkur athugasemd væri gerð við gæði vefjarins. Þó hefðu starfsmenn aðalstefnda átt að verða þess áskynja strax á fyrstu dögunum þegar þeir tóku við vefnum til efnisinnsetningar að hann væri haldinn galla, eins og aðalstefndi haldi fram. Aðalstefnandi byggir á því að hann geti ekki verið látinn bera hallann af því að verkið varð umfangsmeira en aðilar málsins höfðu ætlað í upphafi. Um þá óvissu hafi aðalstefndi verið meðvitaður áður en gengið hafi verið til samninga eins og glögglega megi greina í tölvupósti sem Erla Vignisdóttir sendi þann 31. janúar 2012. Þann 26. janúar 2012 hafði starfsmaður aðalstefnanda sent tölvupóst vegna vandkvæða við að áætla þann tímafjölda sem lægi í að samþætta nýjan vef að bókunarvél aðalstefnda. Umræddum pósti hafi Erla svarað með svohljóðandi skeyti:
„Ok við ætlum að funda í dag og taka ákvörðun en ég geri mér fulla grein fyrir því að þessi liður er ekki fastur í tilboðinu. Sendi þér niðurstöðurnar á eftir, gætum við hafist handa sem fyrst við að byrja á glæsilegum nýjum vef?“
Aðalstefnandi vísar til þess að aðalstefndi hafi hvenær sem var getað óskað þess að látið yrði af frekari vinnu við vefinn, en það var aldrei gert. Að öðru leyti vísar aðalstefnandi til útgefinna verkreikninga kröfum sínum til stuðnings.
Um varnarþing vísar aðalstefnandi einkum til 4. gr. 33. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
Þá vísar aðalstefndi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í 45. og 51. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Þá er enn fremur vísað til ólögfestra meginreglna verktakaréttar, sem og laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936.
Kröfu um dráttarvexti byggir aðalstefnandi á 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
Málskostnaðarkrafa aðalstefnanda byggir á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
Í gagnsök vísar aðalstefnandi til þess að í greinargerð aðalstefnda í aðalsök og í gagnstefnu sé hvorki á því byggt að endurgjald það sem aðalstefnandi krefjist fyrir þá vinnu sem hann hafi innt af hendi í verkinu sé ósanngjarnt né að það sé ekki í samræmi við það sem aðilar höfðu samið um. Þá sé heldur ekki á því byggt að þær tímaskýrslur eða verkreikningar sem aðalstefnandi hafi gefið út séu rangir. Verði því að ætla að aðalstefndi sætti sig við efni umræddra skjala að öllu leyti.
Aðalstefnandi byggir kröfugerð sína á neðangreindum málsástæðum:
Frávísunarkrafa
Aðalstefnandi vísar til þess að aðalstefndi krefjist viðurkenningar á skaðabótaskyldu aðalstefnanda, skv. dómkröfu í ii) lið í gagnstefnu. Heimild til þess sé í 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hafi í dómum Hæstaréttar Íslands verið skýrður svo, að sá sem höfði mál til viðurkenningar skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og geri grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik málsins, sbr. t.d. hrd. 68/2010, hrd. 698/2009 og hrd.117/2009.
Aðalstefndi virðist byggja á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna missis hagnaðar og kostnaðar af vinnu starfsmanna og útlagðs kostnaðar, en hann leggi hins vegar engin gögn fram kröfu sinni til stuðnings. Krafa aðalstefnda að því er varði missi hagnaðar byggi á forsendum sem séu algerlega úr lausu lofti gripnar. Þannig fái sú fullyrðing hans um rekstrarafkomu félagsins ekki stoð í neinum gögnum. Þá verði ekki heldur annað séð en að áætlanir aðalstefnda um 5% vöxt félagsins í kjölfar þess að hann uppfæri vefsíðu sína hljóti að teljast fjarstæðukenndar. Þá verði ekki séð með hvaða hætti kostnaður vegna vinnu starfsmanna aðalstefnda geti talist tjón í skilningi skaðabóta- og eða kauparéttar, enda sé aðalstefndi bundinn af því að greiða starfsmönnum sínum mánaðarlega laun í samræmi við kjarasamninga eða ráðningarsamninga sem hann hafi gert við þá. Sú skylda sé óháð því hvort starfsmennirnir séu að vinna að uppfærslu á vefsíðu aðalstefnda eða að öðrum verkum. Enn fremur sé ósannað að aðalstefndi hafi lagt í einhvern kostnað vegna verkefnisins enda sé engum reikningnum til að dreifa þar að lútandi.
Þá sé á því byggt í útreikningum að aðalstefndi eigi rétt á bótum vegna missis hagnaðar en ekki framlegðar. Í því felist að aðalstefnda hefði verið unnt að bæta við 13.368 farþegum í ferðir sínar á tímabilinu 1. október 2012 til 9. september 2013, án þess að þurfa að fara í fjárfestingar. Með réttu verði því að taka mið af framlegð af hverjum seldum miða fremur en hagnaði af hverjum miða án fjármagnsliða. Af ofangreindu megi ráða að krafa aðalstefnda sé með öllu vanreifuð, enda ekki gerð fyllilega grein fyrir því að aðalstefndi hafi orðið fyrir tjóni né því í hverju það tjón sé fólgið. Þá skortir enn fremur að gerð sé grein fyrir því með hvaða hætti tengsl séu milli téðra þátta og atvika máls. Verður því að vísa kröfu aðalstefnda frá dómi.
Sýknukrafa - riftun
Aðalstefnandi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að aðalstefnda sé ekki heimilt að rifta verksamningi með vísan til þess að verkið hafi tafist. Aðalstefnandi hafði ekki skuldbundið sig til þess að skila verkinu á ákveðnum tíma. Þvert á móti hafi ávallt verið gerður sá fyrirvari að ómögulegt væri að fastsetja umfang verksins vegna þeirrar óvissu sem uppi hafi verið um forritunarþátt þess. Þá hafi aðalstefnanda verið ómögulegt að hefja forritunarvinnuna fyrr en honum hafði verið veittur aðgangur að forritunargátt hjá þjónustuveitanda bókunarvélarinnar. Það hafi ekki gerst fyrr en í september 2012. Þannig hafi aðalstefnanda verið ómögulegt að ljúka verkinu um haustið 2012. Það hafi ekki verið á forræði aðalstefnanda að hafa áhrif á það hvenær aðgangur var veittur að forritunargátt þjónustuveitanda aðalstefnda, enda lúti það að samskiptum aðalstefnda og viðsemjanda hans og hafi verið aðalstefnanda óviðkomandi.
Þá megi ráða af lestri yfirlitsblaðs yfir tímaskráningar verksins að frá 13. mars 2012 til loka ársins hafi verkið fyrst og fremst verið unnið af hönnuðum og vefforriturum. Þeir starfsmenn aðalstefnanda sem sinni þeim verkþáttum séu fyrst og fremst Jóna Dögg Sveinbjörnsdóttir og Valur Sverrisson. Eftir að forritarar hafi fengið aðgang að forritunargáttinni hafi vinna þeirra við verkið hafist eins og ráða megi af tímaskráningum. Þeir forritarar sem taki þá að mestu leyti við verkinu séu Guðmundur Stefán Þorvaldsson, Atli Páll Hafsteinsson og Freyr Sævarsson, sem allir vinni á forritunarsviði aðalstefnanda.
Í árslok hafi aðalstefnandi því að mestu leyti lokið þeim verkþáttum sem hann hafði forræði á, þ.e. greiningu, hönnun og vefforritun. Eins og rakið sé í stefnu hafi það síðan komið í ljós, þegar vinna við forritun á móti bókunarvél aðalstefnda hófst, að bókunarvél aðalstefnda hafi ekki uppfyllt almenna staðla sem gildi í þessum geira. Það hafi í raun verið upplýst af hálfu þjónustuveitanda að þróun og forritun bókunarvélarinnar væri ekki einu sinni lokið. Þannig segi í samskiptum milli Guðmundar Stefáns Þorvaldssonar og Tommi Wiberg, sem sé þjónustuveitandinn, að bókunarvélin hafi verið unnin með afar naumum fjárveitingum. Þá hafi vinnu hennar verið hætt áður en hún hafi verið fullkláruð. Enn fremur segi að ekki standi til að fjárfesta í því að ljúka við smíði bókunarvélarinnar.
Aðalstefnandi vísar til yfirlits yfir verkreikninga sem fram komi í málavaxtalýsingu í greinargerð en á yfirlitinu megi glögglega ráða að aðalstefndi hafi nánast allan samningstíma verið í vanefnd með verksamningsgreiðslur sínar, með því annars vegar að greiða verkreikninga allt að þremur mánuðum eftir eindaga og fjórum mánuðum eftir gjalddaga, sem og að greiða ekki útgefna verkreikninga. Þegar aðalstefndi hafi sent aðalstefnanda áskorun um að ljúka verkinu hafði aðalstefndi þegar vanefnt samningsskyldur sínar svo verulega að aðalstefnandi gat ekki unnið frekar í verkinu án verulegrar hættu á að frekara tjón gæti skapast fyrir hann. Þannig sé rétt að halda því til haga að á degi áskorunarinnar hafði aðalstefndi þegar verið í vanefnd við verksamning í um hálft ár, enda hafði hann ekki greitt verkreikning sem útgefinn var þann 1. janúar 2013 og hafnað öllum sáttaumleitunum um uppgjör vangoldinna reikninga með afslætti.
Þannig verði ekki séð að samningsaðili sem hafi allan samningstímann vanefnt samningskyldur sínar til að inna af hendi verksamningsgreiðslur geti reist rétt sinn á 2. mgr. 25. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Auk þess sé vefsíðan sem mál þetta fjalli um útbúin sérstaklega fyrir aðalstefnda og er því hafnað að meintur greiðsludráttur raski tilgangi aðalstefnda fyrir kaupunum verulega, enda sé hann alltaf bundinn af því að ráðast í sömu vinnu þegar hann ræðst í að uppfæra vefsíðu sína, sbr. 26. gr. laga um lausafjárkaup. Þá væri aðalstefnanda ómögulegt að ráðstafa söluhlutnum á annan hátt ef kaupunum yrði rift. Vefsíðan sé sérsniðin og sérhönnuð í samræmi við þarfir og óskir aðalstefnda. Sú vinna myndi ónýtast að öllu leyti ef kaupum yrðu rift. Þá hafi meginvinna starfsmanna aðalstefnanda snúið að því að samþætta hinn sérhannaða vef að hinni ófullbúnu bókunarvél aðalstefnda og sú vinna myndi einnig ónýtast að öllu leyti ef kaupum yrði rift. Þegar ofangreint sé virt megi ráða að riftun á kaupum sé ekki tæk, hvorki á grundvelli 25. gr. laga um lausafjárkaup né á meginreglum kröfu- og/eða samningaréttar.
Sýknukrafa/galli
Eins og rakið sé í greinargerð í aðalsök sé mikill ólíkindablær á málatilbúnaði aðalstefnda að því er varði þá meintu galla sem hann telji vera á verki aðalstefnanda. Þessum málsástæðum sé ekki teflt fram fyrr en aðalstefnandi hafði tilkynnt aðalstefnda á fundi, dags. 29. júlí 2013, að hann teldi sig óbundinn af því að veita aðalstefnda afslætti af útseldum tímum ef aðalstefndi bætti ekki úr vanefnd sinni, eins og rakið sé í málavaxtalýsingu aðalstefnda. Það skuli áréttað að á þeim tíma hafði aðalstefndi verið meira og minna í vanefnd við verksamning aðila frá upphafi samningssambandsins, auk þess sem þá var gjaldfallinn ógreiddur verkreikningur sem hafi verið u.þ.b. hálfsárs gamall. Þá vísar aðalstefnandi til þess að á öllum verkreikningum sem út hafi verið gefnir vegna verksins segi að athugasemdir við útgefna reikninga skuli vera gerðar innan 20 daga frá gjalddaga ellegar teljist þeir samþykktir. Aðalstefndi hafi aldrei gert athugasemdir við útgefna reikninga.
Það veki athygli að á tímabilinu 10. maí til 23. maí 2013 greiði aðalstefndi 7 verkreikninga, alls að fjárhæð 3.078.655 kr. Þessir verkreikningar hafi verið greiddir án athugasemda og fyrirvara. Ekki verði hjá því komist að geta þess að eðli verksins sem unnið hafi verið fyrir aðalstefnda sé þannig að allir þeir verkþættir sem unnir hafi verið við frá upphafi verksins séu samþættir á lokastigi verksins. Þannig séu það síðustu verk aðalstefnanda í verkinu sem miða að því að tryggja fulla virkni allra þeirra lausna sem hafi verið smíðaðar og fulla virkni vefsíðunnar. Augljóslega geti síðan verið óvirk þrátt fyrir að þegar hafi allir verkþættir verið að fullu unnir, enda hafi þeir þá ekki verið réttilega tengdir saman.
Aðalstefnandi hafnar því hins vegar að verkþættir séu haldnir galla, heldur séu allir verkþættir sem afhentir hafi verið í samræmi við allar kröfur sem gera megi til slíkra verkþátta. Ástæða þess að vefsíðan sýni ekki fulla virkni sé að aðalstefnandi hafi ekki átt þess kost að ljúka vinnu við verkið þar sem aðalstefndi hafði ekki greitt gjaldfallna verkreikninga svo mánuðum skipti.
Þrátt fyrir þessa verulegu vanefnd aðalstefnda hafi verkinu verið að mestu lokið, enda megi ráða af dskj. 25 að prófanir aðalstefnanda á kerfin, sem átt hafi sér stað þann 15. júlí 2013, hafi reynst árangursríkar og sýnt fram á virkni þeirra lausna sem aðalstefnandi hafði unnið eins og rakið sé í stefnu í aðalsök. Þannig sé þeirri fullyrðingu sem fram komi í gagnstefnu, að verkþættir aðalstefnanda hafi ekki virkað með bókunarvél aðalstefnda, hafnað sem rangri og ósannaðri. Þá virðist vera látið í það skína í greinargerð aðalstefnda að aðalstefnanda sem sérfróðum aðila við vefhönnun og -forritun bæri að þekkja bókunarvél þá sem aðalstefndi notaðist við, þar sem hún sé notuð af fjölmörgum aðilum á samgöngumarkaði. Þessu sé með öllu hafnað. Hið rétta er að sá aðili sem hafi séð aðalstefnda fyrir bókunarvél hafi ekki upplýst aðalstefnanda fyrr en þann 8. mars 2013 að bókunarvél hans væri í raun ekki fullbúin lausn. Af því megi ráða að sá þáttur í verkinu sem með sönnu megi halda fram að sé haldinn galla sé bókunarvél aðalstefnda. Enn fremur sé vélin ekki stöðluð lausn, heldur lausn sem sérsniðin hafi verið í samræmi við kröfur aðalstefnda í áranna rás. Það sé aðeins einn aðili á samgöngumarkaði hér á landi sem hafi notast við bókunarvél frá þjónustuveitanda aðalstefnda, en það sé flugfélagið WOW-air. Það sé hins vegar ekki sama bókunarvél og aðalstefndi noti þar sem hans lausn sé sérsniðin fyrir hann og hefur flugfélagið enn fremur látið af notkun bókunarvélarinnar.
Aðalstefnandi vísar til þess að um leið og hann hafi orðið þess áskynja að bókunarvél aðalstefnda væri haldin þessum verulegu göllum og borið þess merki að vera ekki fullbúin lausn, hafi hann ráðlagt aðalstefnda að innleiða bókunarvél Bókunar ehf. Aðalstefnandi þekkti vel til innviða hennar og vissi að þar var á ferðinni vel smíðuð lausn sem væri fullbúin og að engin vandkvæði yrðu við að samtengja nýjan vef við þá lausn. Þetta hafi aðalstefnandi ráðlagt aðalstefnda löngu áður en lagt var í þann mikla tilkostnað að samþætta bókunarvél aðalstefnda við hinn nýja vef. Aðalstefndi hafi hins vegar kosið að fara ekki að þessari ráðgjöf aðalstefnanda og verði hann að bera hallann af því að hafa ekki farið að ráðgjöf, vitandi að um væri að ræða ráðgjöf sérfróðs aðila á þessu sviði.
Í ljósi þessa verði ekki með nokkru móti séð að verkið eða söluhlutur séu haldin galla í skilning 17. gr. laga um lausafjárkaup. Þá verði að ætla að hið stórfellda tómlæti aðalstefnda við að bera fyrir sig hina meintu galla valdi því að honum verði ekki stætt á því að bera fyrir sig þessa málsástæðu svo löngu eftir afhendingu verkþáttanna.
Höfnun á kröfu um viðurkenningu bótaskyldu
Að því gefnu að ekki sé fallist á frávísun á viðurkenningarkröfu aðalstefnda byggir aðalstefnandi á því að hafna beri kröfu aðalstefnda um að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda aðalstefnanda vegna meints tjóns aðalstefnda vegna verksamnings aðila. Í ljósi þess sem rakið hafi verið sé ljóst að aðalstefnandi sé ekki bótaskyldur gagnvart aðalstefnda í skilningi 27. gr. laga um lausafjárkaup. Þá sé því hafnað að verkið eða einstakir þættir þess séu haldnir galla og því sé enn fremur hafnað að dráttur hafi orðið á afhendingu verksins enda hafi aðalstefnandi ekki verið skuldbundinn til að afhenda verkið á fyrir fram ákveðnum tíma.
Jafnvel þó að tekið væri undir málatilbúnað aðalstefnda, og talið að hann hefði mátt eiga lögmætar væntingar um að vinnu við vefinn hefði verið lokið, sé ljóst að bótaskylda geti aldrei verið til staðar ef tafir á afhendingu stafa af hindrunum sem aðalstefnandi fékk ekki ráðið við eða ekki er með sanngirni unnt að ætlast til að hann hafi haft í huga við samningsgerð eða getað komist hjá eða sigrast á afleiðingum þeirra.
Í fyrsta lagi hafi ástæður tafanna ekki verið á forræði aðalstefnanda, heldur aðalstefnda, eða eftir atvikum þeim aðila sem veitti aðalstefnda þjónustu við bókunarvél hans.
Í öðru lagi sé ljóst af öllum gögnum er lúti að undanfara samnings að aðalstefnandi hafði haft þessa hindrun í huga allt frá upphafi samningaviðræðna.
Í tölvupósti forsvarsmanns aðalstefnanda til forsvarsmanns aðalstefnda þann 26. janúar 2012 hafi Margeir St. Ingólfsson, forsvarsmaður aðalstefnanda, ritað:
„Hæ Erla. Þetta hjálpar eflaust eitthvað en það er ekki augljóst á þessari stundu hversu mikið þetta kemur að gagni eða hversu mikinn tíma þetta sparar. En það er alla vega komið á hreint að skjölunin er ekki til og hann ætlar ekki að leggja í þá vinnu :)
Þetta er eflaust einn af ókostum þess að eiga við svona einyrkja. En eins og ég nefndi, þá erum við svo sem ekki óvanir svona vinnubrögðum og getum aðlagað okkur að þeim eini gallinn er sá að við getum ekki fastneglt tilboðið í þennan verkhluta.“
Þessu hafi Erla Vignisdóttir, forsvarsmaður aðalstefnda, þann 31. janúar 2012 svarað forsvarsmanni aðalstefnanda varðandi ofangreint erindi með svohljóðandi tölvupósti:
„Ok við ætlum að funda í dag og taka ákvörðun en ég geri mér fulla grein fyrir því að þessi liður er ekki fastur í tilboðinu. Sendi þér niðurstöðurnar á eftir, gætum við hafist handa sem fyrst við að byrja á glæsilegum nýjum vef?“
Af þessu megi ráða að ekki aðeins hafi aðalstefnandi hindrunina í huga, heldur lýsti hann áhyggjum sínum fyrir samningsgerð og hafi þannig gert aðalstefnda kleift að taka afstöðu til hennar sem hann og hafi gert í kjölfar funda stjórnenda félagsins.
Í þriðja lagi sé það ljóst að hvorki aðalstefnandi né aðalstefndi áttu kost á að komast hjá afleiðingum hennar nema með því að notast við aðra bókunarvél eins og aðalstefnandi hafði í raun lagt til og aðalstefndi hafnaði. Með því að aðalstefndi tók þá ákvörðun að halda sig við þá bókunarvél sem hann hafi notað fólst í því ákvörðun um að samþætta virkni hennar við nýja vefsíðu. Gildi einu hvort hann hefði leitað til aðalstefnanda, þjónustuveitanda bókunarvélarinnar eða hvaða þriðja aðila sem væri, það hefði ávallt þurft að leggja í þá vinnu að samþætta bókunarvél við nýjan vef. Þannig má ráða að ekkert bótaskylt tjón hafi hlotist í skilningi laga um lausafjárkaup. Þvert á móti verði að ætla að þessi fjárfesting sé nokkuð hófsöm sé til þess litið að aðalstefndi hafi gert ráð fyrir 5% vexti vegna hennar. Jafnvel þó að komist yrði að þeirri niðurstöðu að verkið væri haldið galla í samræmi við sjónarmið aðalstefnda sé kröfugerð hans svo verulega vanreifuð að ekki sé unnt að fallast á hana eins og hún sé fram sett.
Í fyrsta lagi sé einkum verið að krefjast bóta vegna óbeins tjóns, en 27. gr. laga um lausafjárkaup undanskilji óbeint tjón að öllu leyti, sbr. 4. mgr. ákvæðisins. Í öðru lagi sé krafan ekki studd neinum haldbærum gögnum öðrum en óraunhæfum áætlunum aðalstefnda um vöxt rekstrar sem ekki verði séð að eigi sér nokkra stoð í raunveruleikanum. Í þriðja lagi sé hvergi vikið að því til hvaða aðgerða aðalstefndi hafi gripið til þess að lágmarka tjón sitt. Afar ótrúverðugt sé að aðalstefndi sitji aðgerðalaus meðan 5% veltuaukning, sem hann byggi á að sé honum rétt innan seilingar, fari forgörðum. Hver einasti rekstraraðili sem taki á sínum rekstri af ábyrgð hefði fyrir löngu verið búinn að grípa til aðgerða til að tryggja þau viðskipti, sér í lagi þegar ljóst sé að það mun taka tíma að koma nýrri vefsíðu í loftið.
Með vísan til þess er að framan greinir hafnar aðalstefnandi kröfu aðalstefnda um að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda aðalstefnanda vegna meints tjóns aðalstefnda vegna verksamnings aðila.
Umfang tjóns og dráttarvextir
Aðalstefnandi byggir á því að hvort sem aðalstefndi reisi bótarétt sinn á greiðsludrætti, sbr. 27. gr. laga um lausafjárkaup eða á galla söluhlutar, sbr. 40. gr. sömu laga, takmarkist bótaréttur aðalstefnda við beint tjón af þeim sökum, sbr. 1. mgr. 67. gr. laganna. Þannig undanskilji 4. mgr. 27. gr. berum orðum óbeint tjón vegna greiðsludráttar og enn fremur segi í 2. mgr. 40 gr. að 1. mgr. ákvæðisins taki ekki til óbeins tjóns í skilningi 2. mgr. 67. gr. laganna. Af því megi ráða að bótaskylda aðalstefnanda gæti hvorki tekið til tjóns vegna tapaðs hagnaðar, sbr. c-lið 2. mgr. 67. gr. laganna, né kostnaðar af launagreiðslum starfsmanna.
Þá hafnar aðalstefnandi því að rétt sé að reikna dráttarvexti frá 29. nóvember 2013 eins og krafist sé í gagnstefnu enda aðeins unnt að reikna dráttarvexti frá uppkvaðningu dóms.
Varðandi lagarök vísar aðalstefnandi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í 45. og 51. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Þá sé enn fremur vísað til ólögfestra meginreglna verktakaréttar sem og laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936.
Málskostnaðarkröfu byggir aðalstefnandi á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
IV.
Í aðalsök byggir aðalstefndi kröfu sína um sýknu á því í fyrsta lagi að verksamningnum hafi verið rift með lögmætum hætti vegna verulegra vanefnda aðalstefnanda og af þeirri ástæðu beri aðalstefnda ekki að inna frekari greiðslur af hendi. Í öðru lagi byggir hann hana á þeim grundvelli að aðalstefndi hafi nú þegar innt af hendi svo verulega hátt gjald að það sé komið langt út fyrir umsamda kostnaðaráætlun á grundvelli verksamnings aðila.
Aðalstefndi byggir kröfu sína um sýknu á því í fyrsta lagi að verksamningnum hafi verið rift og þannig hafi frekari greiðsluskylda fallið niður. Aðalstefndi hafi rift verksamningnum þann 9. september 2013 og krafist þess að greiðslur myndu ganga til baka. Aðalstefndi telur ljóst að skilyrðum riftunar hafi verið fullnægt með vísan til tafa á afhendingu vefsvæðisins og þeirra galla er hafi komið í ljós við vinnu á vefsvæðinu.
Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. lkpl. sé kaupanda heimilt að rifta kaupum þegar greiðsludráttur hafi í för með sér verulegar vanefndir. Líkt og rakið hafi verið í málsatvikum hafi ekki sérstaklega verið samið um hvenær afhending vefsíðunnar átti að fara fram. Hins vegar megi ráða af samskiptum aðila að stefnt hafi verið að því að vefurinn færi í loftið í lok september 2012, sbr. dskj. nr. 30. Af því leiði að væntingar aðalstefnda hafi staðið til þess að vefsíðan yrði tilbúin haustið 2012. Í kostnaðaráætlun verksamningsins hafi verið gert ráð fyrir því að samtals yrðu unnar 393 vinnustundir í verkinu, flestar á tímagjaldinu 14.200 krónur. Aðalstefndi hafi nú þegar greitt 16.669.667 krónur á sama tímagjaldi og hefur aðalstefnandi því unnið samtals um það bil 751 vinnustund meira en gert var ráð fyrir í upphafi.
Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. lkpl. sé unnt að rifta kaupum ef seljandi afhendir ekki söluhlut og efndir dragast fram yfir sanngjarnan viðbótarfrest sem kaupandi setji. Með bréfi, dags. 9. ágúst 2013, skoraði aðalstefndi á aðalstefnanda að inna skyldur sínar samkvæmt verksamningnum af hendi innan eins mánaðar. Aðalstefnandi hafi látið hjá líða að inna skyldur sínar af hendi og eftir stendur að verkinu er ólokið um það bil ári eftir að stefnt var að lokum þess. Af 26. gr. lkpl. leiði að aðalstefndi geti einungis rift kaupum þegar greiðsludráttur hefur raskað tilgangi með kaupunum verulega. Aðalstefndi telur einsýnt að því efnisskilyrði ákvæðisins sé fullnægt enda sé ljóst að tafirnar á afhendingu hafi valdið aðalstefnda verulegu óhagræði og tjóni. Þannig hafi aðalstefndi orðið fyrir miklu tekjutapi á því tímabili sem vefsíðan hefur verið í bígerð enda sé meirihluti pantana aðalstefnda framkvæmdur á vefsíðu fyrirtækisins. Helsta sölutímabil aðalstefnda sé frá vori fram á haust, en tafir aðalstefnanda á að skila af sér vefsíðunni hafi verið það verulegar að aðalstefndi hafi orðið af miklum tekjum á árinu 2013. Samkvæmt framangreindu sé ljóst að tilgangur aðalstefnda með kaupunum hafi raskast svo verulega að það heimilar honum riftun samningsins. Þá sé annað efnisskilyrði 26. gr. lkpl., um að seljandi geti ráðstafað söluhlut án verulegs tjóns, einnig uppfyllt enda fáist aðalstefnandi við heimasíðugerð og ætti því hæglega að geta nýtt unna vinnu við önnur verk, auk þess sem telja verður að skilyrðið horfi öðruvísi við rafrænum hugverkum en söluhlutum í efnislegu formi.
Skilyrði riftunar: Gallar á söluhlut
Aðalstefndi byggir sýknukröfu sína öðrum þræði á því að þeir verkþættir sem aðalstefnandi hafi lokið vinnu við séu haldnir svo verulegum göllum að það hafi heimilað aðalstefnda riftun verksamningsins. Þannig fullnægi verkþættirnir ekki þeim kröfum sem leiði af samningi og séu gallaðir í skilningi 17. gr. lkpl. Gallarnir séu að meginstefnu til fólgnir í því að þeir verkþættir sem aðalstefndi hafi fengið að skoða virki ekki með því bókunarkerfi sem aðalstefndi notast við. Þá séu að auki ýmsar tengingar á vefsvæðinu sjálfu sem virki ekki sem skyldi. Af því leiði að verkþættirnir séu aðalstefnda ónothæfir. Samkvæmt 1. mgr. 39. gr. lkpl. geti kaupandi rift kaupum ef meta má galla til verulegra vanefnda. Af 2. mgr. 39. gr. leiði að kaupandi geti rift kaupum eftir að sanngjarn frestur hafi verið veittur til úrbóta. Aðalstefndi hafi staðið í þeirri trú við samningsgerðina að aðalstefnandi væri sérfróður aðili á sviði hönnunar vefsíðna og þannig væri það á forræði aðalstefnanda að koma auga á þá erfiðleika og hindranir sem kynnu að verða við vefsíðugerðina.
Aðalstefndi bendir á að fram hafi farið greiningarvinna af hálfu aðalstefnanda í desember 2011 til þess að honum væri unnt að átta sig á þeim efnisþáttum sem að málinu kæmu. Meðan á vinnu hafi staðið hafi aðalstefnandi kvartað yfir því að eiga í vandræðum með bókunarkerfið „Ticket“ jafnvel þótt honum hefði verið kunnugt um að nefnt bókunarkerfi væri í notkun hjá aðalstefnda þegar hann tók verkið að sér og þrátt fyrir veitta aðstoð hönnunaraðila bókunarkerfisins, Tommy Wiberg. Rétt sé að taka fram að bókunarkerfið sé í notkun hjá fjölmörgum aðilum á samgöngumarkaði á Íslandi og ætti því að vera sérfróðum aðilum í vefsíðugerð vel kunnugt. Þrátt fyrir framangreint hafi aðalstefnandi ekki getað ráðið fram úr framangreindu sem leitt hefur til þess að verkið hefur tafist úr hófi fram ásamt því að tilbúnir verkþættir séu gallaðir og hafi ekki búið yfir þeirri virkni sem ætlast sé til af þeim.
Að framangreindu virtu sé ljóst að skilyrðum riftunar sé fullnægt enda hafi vanefndir aðalstefnanda verið gífurlega íþyngjandi fyrir aðalstefnda. Þannig hafi aðalstefnandi fyrirgert rétti sínum til frekara endurgjalds á grundvelli samningsins þar sem vanefndir aðalstefnanda hafi orsakað að aðalstefndi hafi engra annarra kosta átt völ en að rifta samningnum til þess að takmarka tjón sitt af fremsta megni. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Um nánari umfjöllun um skilyrði riftunar og eðli vanefndanna vísar aðalstefndi til gagnstefnu sem aðalstefndi hyggst höfða á hendur aðalstefnanda.
Í öðru lagi byggir aðalstefndi kröfu sína um sýknu á því að aðalstefndi hafi nú þegar innt af hendi svo verulega hátt gjald að það sé komið langt út fyrir umsamda kostnaðaráætlun á grundvelli verksamnings aðila. Af þeirri ástæðu telur aðalstefndi ósanngjarnt að krefjast frekari greiðslna á grundvelli samningsins og því sé aðalstefndi óskuldbundinn af frekari kröfum aðalstefnanda.
Í málavaxtalýsingu aðalstefnda sé rakið að samkvæmt kostnaðaráætlun skyldi vinna við vefsíðugerðina taka 383 klukkustundir á tímagjaldinu 14.200 krónur og 10 klukkustundir á tímagjaldinu 12.200 krónur, samtals 5.560.600 krónur, án vsk. Að auki hafi verið samið um að veittur skyldi 14% afsláttur þannig að til greiðslu kæmu 4.782.116 krónur, án vsk., eða 6.001.556 krónur, með vsk. Þá hafi verið áætlaðar 176 klukkustundir af framangreindum 393 klukkustundum í vinnu við vefþjónustusamskipti við bókunarvél aðalstefnda.
Meðan á vinnu stóð hafi aðalstefndi gert óformlegar athugasemdir við þann gífurlega kostnað sem hann þurfti að bera en svör aðalstefnanda hafi ávallt verið þau sömu, að einungis væri örlítil vinna eftir af verkinu. Af þeirri ástæðu taldi aðalstefndi sig nauðbeygðan að halda áfram að greiða til þess að ljúka verkinu enda væri mikill kostnaður fólginn í því að slíta viðskiptunum og þurfa að hefja framkvæmdir að nýju hjá öðru fyrirtæki.
Aðalstefndi hafi í góðri trú reitt fram 16.669.667 krónur í von um að fá afhenta nothæfa vefsíðu sem starfsemi aðalstefnda grundvallist á. Þrátt fyrir að hafa greitt ríflega 10.000.000 króna umfram kostnaðaráætlun krefjist aðalstefnandi þess að stefndi greiði til viðbótar 13.270.778 krónur. Slík ráðagerð geti ekki staðist á grundvelli almennra sjónarmiða kauparéttar um að hönd selji hendi og um sanngjarnt kaupverð, sbr. 10. og 45. gr. lkpl. né á grundvelli 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936 (sml.). Meginregla kauparéttar sé sú að hönd selji hendi. Aðalstefnda hafi því verið óskylt að inna af hendi frekari greiðslur en þær sem óskað var eftir nema gegn því að fá endurgjaldið, þ.e. nothæfa vefsíðu, afhent. Líkt og komið hafi fram hafi aðalstefndi innt af hendi margfalt umsamið kaupverð samkvæmt kostnaðaráætlun án þess að fá afhenta nothæfa vefsíðu. Þannig geti aðalstefnda ekki verið skylt að inna af hendi frekari greiðslur án nokkurrar vissu fyrir því að vefsíðan verði afhent samstundis. Þá standist það ekki samkvæmt 45. gr. lkpl. að sanngjarnt kaupverð fyrir vefsíðu sem aðalstefnandi hafi upplýst aðalstefnda um að kostaði u.þ.b. 6.000.000 króna geti nú kostað aðalstefnda 29.940.445 krónur (=16.669.667+13.270.778). Þannig séu kröfur aðalstefnanda svo verulega úr hófi að ekki teljist sanngjarnt að bera þær fyrir sig né teljist það samrýmast góðri viðskiptavenju, sbr. 36. gr. samningalaga.
Þá gerir aðalstefndi alvarlega athugasemd við dómkröfur aðalstefnanda með vísan til þeirrar fjárhæðar sem stefndi sé krafinn um með hliðsjón af áðursendu innheimtubréfi og fyrri samskiptum aðila. Á sáttafundi aðila þann 29. júlí 2013 hafi aðalstefnandi greint aðalstefnda frá meintum skuldum aðalstefnda sem numið hafi án afslátta u.þ.b. 9.000.000 króna. Nokkru síðar, eða þann 5. september 2013, hafi aðalstefnandi sent aðalstefnda innheimtubréf þar sem greint hafi verið frá því að vangoldin fjárhæð væri samtals 9.497.933 krónur. Samkvæmt stefnu krefjist aðalstefnandi nú 13.270.778 króna. Þannig veki það furðu aðalstefnda að meint vangoldin greiðsluskylda félagsins hafi hækkað um sem nemur 3.772.845 krónum á innan við mánuði. Að auki gerir aðalstefndi athugasemd við útgáfudaga þeirra reikninga sem liggi að baki kröfum aðalstefnanda. Þannig séu útgefnir reikningar af hálfu aðalstefnanda í ágúst 2013 samtals 8.669.946 krónur þegar vinna við vefsíðugerðina hafi verið löngu hætt. Þessum málatilbúnaði og kröfugerð sé mótmælt með vísan til meginreglna kauparéttar um sanngjarnt kaupverð og 36. gr. sml.
Að öllu framangreindu virtu telur aðalstefndi einsýnt að hann sé óskuldbundinn af kröfum aðalstefnanda, í fyrsta lagi á þeim grundvelli að hann hafi rift verksamningi aðila og í öðru lagi vegna þess að hann hafi nú þegar innt af hendi svo verulega hátt gjald að það sé komið langt út fyrir umsamda kostnaðaráætlun á grundvelli verksamnings aðilanna.
Til stuðnings kröfum sínum vísar aðalstefndi til almennra reglna kaupa-, kröfu-, samninga- og skaðabótaréttar. Þá vísar hann til laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000, laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936 og meginreglna laga um þjónustukaup nr. 42/2000. Málskostnaðarkröfu reisir aðalstefndi á 129. gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
Í gagnsök byggir aðalstefndi á því að aðalstefnandi hafi vanefnt verulega verksamning þann sem aðalstefnandi gerði við aðalstefnda og sé skaðabótaskyldur gagnvart aðalstefnda vegna þess tjóns sem aðalstefndi hafi orðið fyrir vegna vanefnda hans. Aðalstefndi byggir kröfur sínar í gagnsök á eftirfarandi málsástæðum.
Aðalstefndi byggir á því í fyrsta lagi að verkið hafi tafist svo verulega að honum hafi verið heimilt að rifta verksamningnum. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. lkpl. sé kaupanda heimilt að rifta kaupum þegar greiðsludráttur hafi í för með sér verulegar vanefndir. Líkt og rakið hafi verið í málsatvikum hafi ekki verið samið sérstaklega um hvenær afhending vefsíðunnar hafi átt að fara fram. Hins vegar má ráða af samskiptum aðila að stefnt hafi verið að því að vefurinn færi í loftið í lok september 2012. Af því leiði að væntingar aðalstefnda hafi staðið til þess að vefsíðan yrði tilbúin haustið 2012. Í kostnaðaráætlun verksamningsins var gert ráð fyrir því að samtals yrðu unnar 393 vinnustundir í verkinu, flestar á tímagjaldinu 14.200 krónur. Aðalstefndi hefur nú þegar greitt 16.669.667 krónur á sama tímagjaldi og hafi aðalstefnandi því unnið samtals um það bil 751 vinnustund meira en gert var ráð fyrir í upphafi. Þá sé rétt að ítreka að verkinu sé ekki lokið og aðalstefnandi hafi tilkynnt sér að hann skuldaði aðalstefnanda 9.497.933 krónur sem eðlilegt sé að álykta að stafi af enn frekari vinnustundum við verkið. Meintar vangoldnar greiðslur hafi síðan hækkað í 13.270.778 krónur samkvæmt stefnu í aðalsök. Þrátt fyrir að ekki hafi verið samið sérstaklega um afhendingu vefsíðunnar verði að leggja til grundvallar eðlilegar væntingar aðalstefnda til þess hvenær verkinu yrði lokið. Aðalstefnda sé ljóst að um kostnaðaráætlun hafi verið að ræða þar sem einungis var áætlaður tímafjöldi við verkið. Hins vegar hafi aðalstefndi hvorki mátt gera ráð fyrir né sjá fyrir að unnar vinnustundir myndu þrefaldast með tilheyrandi töfum á afhendingu vefsíðunnar.
Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. lkpl. sé unnt að rifta kaupum ef seljandi afhendir ekki söluhlut og efndir dragast fram yfir sanngjarnan viðbótarfrest sem kaupandi setur. Með bréfi, dags. 9. ágúst 2013, hafi aðalstefndi skorað á aðastefnanda að inna skyldur sínar samkvæmt verksamningnum af hendi innan eins mánaðar. Aðalstefnandi hafi látið hjá líða að inna skyldur sínar af hendi og eftir standi að verkinu sé ólokið um það bil ári eftir að stefnt hafi verið að lokum þess.
Af 26. gr. lkpl. leiði að aðalstefndi geti einungis rift kaupum hafi greiðsludráttur raskað tilgangi með kaupunum verulega. Aðalstefndi telur einsýnt að því efnisskilyrði ákvæðisins sé fullnægt enda sé ljóst að tafir á afhendingu hafi valdið sér verulegu óhagræði og tjóni. Þannig hafi aðalstefndi orðið fyrir miklu tekjutapi á því tímabili sem vefsíðan hafi verið í bígerð enda sé meirihluti pantana aðalstefnda framkvæmdur á vefsíðu fyrirtækisins. Helsta sölutímabil aðalstefnda sé frá vori fram á haust, en tafir aðalstefnanda á að skila af sér vefsíðunni hafi verið það verulegar að aðalstefndi hafi orðið af miklum tekjum á árinu 2013. Samkvæmt framangreindu sé ljóst að tilgangur aðalstefnda með kaupunum hafi raskast svo verulega að það heimili honum riftun samningsins. Þá sé annað efnisskilyrði 26. gr. lkpl., um að seljandi geti ráðstafað söluhlut án verulegs tjóns, einnig uppfyllt enda fáist aðalstefnandi við heimasíðugerð og ætti því hæglega að geta nýtt unna vinnu við önnur verk, auk þess sem telja verði að skilyrðið horfi öðruvísi við rafrænum hugverkum en söluhlutum í efnislegu formi.
Í öðru lagi byggir aðalstefndi á því að þeir verkþættir sem aðalstefnandi hafi lokið vinnu við séu haldnir svo verulegum göllum að þeir heimili gagnstefnanda riftun verksamningsins. Þannig fullnægi verkþættirnir ekki þeim kröfum sem leiði af samningi og séu gallaðir í skilningi 17. gr. lkpl. Gallarnir séu að meginstefnu til fólgnir í því að þeir verkþættir sem aðalstefndi hafi fengið að skoða virki ekki með því bókunarkerfi sem aðalstefndi notist við. Þá séu að auki ýmsar tengingar á vefsvæðinu sjálfu sem virki ekki sem skyldi. Af því leiði að verkþættirnir séu aðalstefnda ónothæfir. Samkvæmt 1. mgr. 39. gr. lkpl. geti kaupandi rift kaupum ef meta má galla til verulegra vanefnda. Af 2. mgr. 39. gr. leiði að kaupandi geti rift kaupum eftir að sanngjarn frestur hefur verið veittur til úrbóta. Aðalstefndi hafi staðið í þeirri trú við samningsgerðina að aðalstefnandi væri sérfróður aðili á sviði hönnunar vefsíða og þannig væri það á forræði aðalstefnanda að koma auga á þá erfiðleika og hindranir sem kynnu að verða við vefsíðugerðina. Rétt sé að ítreka að fram hafi farið greiningarvinna af hálfu aðalstefnanda í desember 2011 til þess að honum væri unnt að átta sig á þeim efnisþáttum sem að málinu komu. Meðan á vinnu hafi staðið hafi aðalstefnandi kvartað undan því að eiga í vandræðum með bókunarkerfið „Ticket“ jafnvel þótt honum hefði verið kunnugt um að nefnt bókunarkerfi væri í notkun hjá aðalstefnda þegar hann tók verkið að sér og þrátt fyrir veitta aðstoð hönnunaraðila bókunarkerfisins, Tommy Wiberg. Rétt sé að taka fram að bókunarkerfið sé í notkun hjá fjölmörgum aðilum á samgöngumarkaði á Íslandi og ætti því að vera sérfróðum aðilum í vefsíðugerð nokkuð kunnugt. Þrátt fyrir framangreint hafi aðalstefnandi ekki getað ráðið fram úr framangreindu sem leitt hafi til þess að verkið hafi tafist úr hófi fram ásamt því að tilbúnir verkþættir séu gallaðir og hafi ekki búið yfir þeirri virkni sem ætlast sé til af þeim.
Að framangreindu virtu sé ljóst að skilyrðum riftunar sé fullnægt enda hafi vanefndir aðalstefnanda verið gífurlega íþyngjandi fyrir aðalstefnda. Aðalstefndi hafi greitt rúmlega 10.000.000 króna umfram áætlað verð. Ætluð skuld aðalstefnda sé samkvæmt stefnu aðalstefnanda í aðalsök 13.270.778 krónur, þrátt fyrir að verkinu sé ekki lokið og þeir verkþættir, sem að mati aðalstefnanda séu tilbúnir, séu gallaðir í skilningi lkpl. Þá hafi afhending verksins tafist um rúmlega ár frá því að stefnt var að afhendingu vefsíðunnar. Vanefndir aðalstefnanda á aðalskyldum samkvæmt verksamningnum hafi raskað hagsmunum aðalstefnda svo verulega að þær heimili aðalstefnda riftun samningsins. Á þeim grundvelli krefjist aðalstefndi þess að honum verði endurgreiddar allar innborganir sem framkvæmdar hafi verið af hálfu hans, alls 16.669.667 krónur, enda feli staðfesting riftunar í sér að skyldur aðila til þess að efna samninginn falli niður og að staða aðalstefnda verði sú sama og ef enginn samningur hefði verið gerður. Af því leiði að aðalstefnandi verði skuldbundinn til þess að endurgreiða aðalstefnda greiddar innborganir sem raktar hafa verið í málsatvikum. Með sama hætti falli aðalstefndi frá þeirri kröfu sinni að aðalstefnandi efni verksamninginn og afhendi aðalstefnda vefsíðu líkt og samið hafi verið um.
Þá byggir aðalstefndi á því í þriðja lagi að vanefndir aðalstefnanda hafi bakað aðalstefnanda bótaskyldu á grundvelli 27. og 40. gr. lkpl. og gerir því kröfu um að viðurkennd verði skaðabótaskylda aðalstefnanda. Samkvæmt 5. mgr. 27. gr. og 3. mgr. 40. gr. lkpl. geti kaupandi krafist skaðabóta ef greiðsludrátt, galla eða tjón má rekja til mistaka eða vanrækslu af hálfu seljanda. Aðalstefndi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda aðalstefnanda vegna tapaðs hagnaðar og útlagðs kostnaðar aðalstefnda frá því að verksamningurinn var undirritaður. Aðalstefndi leggur áherslu á að aðalstefnandi gefi sig út fyrir að vera sérfróður aðili við vefsíðugerð hér á landi og beri þar af leiðandi ábyrgð eftir því. Aðalstefnandi hafi framkvæmt greiningarvinnu í desember 2011 og hafi mátt, eftir hana, vera ljóst hve viðamikið verkefnið væri. Aðalstefndi hafi verið í góðri trú um að sú kostnaðar- og tímaáætlun sem lögð hafi verið fram af aðalstefnanda væri áreiðanleg og myndi ekki skeika nema innan eðlilegra marka. Þá hafi aðalstefndi einnig verið í góðri trú um að tilbúnir verkþættir myndu sýna eðlilega virkni og vera aðalstefnda nothæfir. Aðalstefnandi hafi brugðist skyldum sínum með tvenns konar hætti. Annars vegar með verulegum afhendingardrætti og hins vegar með því að afhenda verkþætti haldna verulegum göllum. Slík háttsemi verði ekki skilin öðruvísi en svo að tjóni aðalstefnda sé valdið af starfsmönnum aðalstefnanda og stafi ekki af hindrun sem þeir fengu ekki ráðið við, gátu ekki með sanngirni haft í huga við samningsgerð eða hafi getað komist hjá, eða sigrast á afleiðingum hennar. Verði að telja að starfsmenn aðalstefnanda hafi gert mistök eða sýnt af sér vanrækslu við vinnu við verkið í skilningi framangreindra lagaákvæða.
Tjón aðalstefnda sé að mestu leyti fólgið í töpuðum hagnaði og útlögðum kostnaði meðan á vinnu hefur staðið. Útreikningur tapaðs hagnaðar grundvallast á þeirri staðreynd að á tímabilinu 1. október 2012 (þegar aðalstefndi gerði ráð fyrir að vefsvæðið yrði tilbúið til notkunar) til 9. september 2013 (þegar aðalstefndi rifti verksamningnum) hafi farþegar á vegum aðalstefnda verið alls 267.363. Samkvæmt hóflegri áætlun hafi aðalstefndi gert ráð fyrir 5% aukningu í sölu þegar ný heimasíða færi í loftið eða sem nemi 13.368 farþegum aukalega, meðal annars vegna þess að vefsvæðið hafi átt að henta snjallsímum og spjaldtölvum betur. Sé tekið mið af meðalverði, 4.500 krónum fyrir ferð hjá aðalstefnda, þá nemi heildartekjutap 60.126.675 krónum. Samkvæmt ársreikningi félagsins árið 2012 sé rekstrarafkoma án fjármagnsliða 8,35% sem geri þá tapaðan hagnað af viðbótarsölu 5.023.084 krónur. Útlagður kostnaður aðalstefnda vegna vinnu eigin starfsmanna við innsetningar og umsjón verkefnisins nemi 3.921.455 krónum. Þar til viðbótar sé greiddur kostnaður vegna aðstoðar Tommy Wiberg, alls 2.184 evrur sem á miðgengi Seðlabanka Íslands, dags. 19. september 2013, nemi alls 353.349 krónum. Samtals sé tapaður hagnaður og útlagður kostnaður aðalstefnda því að minnsta kosti 9.297.886 krónur, en aðalstefndi áskilji sér rétt til þess að afla mats dómkvadds matsmanns til þess að leiða nánar í ljós umfang tjónsins verði fallist á viðurkenningarkröfu aðalstefnda.
Verði ekki fallist á kröfur aðalstefnda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu á grundvelli 5. mgr. 27. gr. og 3. mgr. 40. gr. lkpl., byggir aðalstefndi viðurkenningarkröfu sína á grundvelli 1. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 40. gr. lkpl.
Til stuðnings kröfum sínum vísar aðalstefndi til almennra reglna kröfu-, samninga- og skaðabótaréttar. Þá er vísað til laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000, og meginreglna laga um þjónustukaup, nr. 42/2000. Kröfur aðalstefnda um dráttarvexti eru byggðar á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Viðurkenningarkrafa aðalstefnda er gerð með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Um heimild til höfðunar gagnstefnu vísast til 28. gr. sömu laga. Málskostnaðarkrafa er reist á 129. gr. og 130. gr. sömu laga.
Niðurstaða
Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrirsvarsmenn aðila og starfsmenn aðila vitnaskýrslur auk Ásmundar Bjarnasonar dómkvadds matsmanns sem staðfesti matsgerð sína og viðauka við hana. Ekki er þó ástæða til að rekja sérstaklega það sem fram kom við skýrslugjöf þessara aðila að öðru leyti en því að vikið verður að einstökum atriðum í rökstuðningi fyrir niðurstöðu dómsins eftir því sem þörf þykir.
Í máli þessu byggir aðalstefnandi málatilbúnað sinn aðallega á því að hann hafi í einu og öllu staðið við verksamning milli aðila þar sem hann tók annars vegar að sér að hanna og forrita nýja vefsíðu fyrir aðalstefnda og hins vegar að annast mánaðarlega vefumsjónarþjónustu auk samþættingar við bókunarvél aðalstefnda. Ekki hafi verið samið um að aðalstefnandi afhenti vefinn fyrir ákveðinn dag. Ljóst hafi verið frá upphafi að vandkvæði við forritunarvinnu í tengslum við bókunarvél aðalstefnda væri stór óvissuþáttur og ómögulegt hafi verið fyrir aðalstefnanda að gera sér grein fyrir umfangi þeirrar vinnu. Þetta hafi aðalstefndi verið meðvitaður um frá upphafi. Allir liðir í verkáætlun aðalstefnda að öðru leyti hafi staðist. Aðalstefnda hafi reglulega verið sendar framvinduskýrslur varðandi verkstöðu og hafi hann ekki hreyft mótmælum við reikningum eða óskað eftir því að stefndi hyrfi frá verkinu. Á öllum reikningum hafi verið tekið fram að athugasemdir bæri að gera innan 20 daga annars teldust reikningarnir samþykktir. Ekki hafi tekist að klára verkið endanlega vegna verulegra vanefnda aðalstefnda á að greiða fyrir vinnu aðalstefnanda í samræmi við verksamninginn. Þá mótmælir hann því að skilyrði til riftunar verksamnings aðila séu fyrir hendi. Við aðalmeðferð vísaði aðalstefnandi til matsgerðar og viðauka við matsgerð dómkvadds matsmanns kröfum sínum til stuðnings en henni hefði ekki verið hrundið.
Aðalstefndi byggir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að hann hafi rift verksamningi aðila þann 9. september 2013 og krafist þess að greiðslur sínar gengju til baka. Þannig hafi frekari greiðsluskylda sín fallið niður og þá hafi hann höfðað mál í gagnsök og krafist endurgreiðslunnar. Þá hafi aðalstefndi ekki mótmælt riftun. Í öðru lagi byggir aðalstefndi á því að hann hafi þegar innt af hendi verulega hátt endurgjald, eða 16.669.667 krónur, fyrir vinnu aðalstefnanda og sé hann með því kominn langt út fyrir umsamda kostnaðaráætlun á grundvelli verksamnings aðila. Þá mótmælir hann reikningum sem gefnir hafi verið út í ágúst 2013 eftir að vinna hafði verið stöðvuð við verkið.
Varðandi skilyrði riftunar vísar aðalstefndi til þess að þótt ekki hafi sérstaklega verð samið um hvenær afhending færi fram megi ráða af samskiptum aðila að stefnt hafi verið að því að vefurinn færi í loftið í lok september 2012. Með bréfi 9. ágúst hafi hann skorað á aðalstefnanda að inna skyldur sínar af hendi innan eins mánaðar. Aðalstefnandi hafi látið hjá líða að efna skyldur sínar. Þá hafi afgreiðsludráttur aðalstefnanda valdið sér verulegu óhagræði og tjóni, sbr. 26. gr. lkpl. Þá byggir aðalstefndi á því að þeir verkþættir sem aðalstefnandi hafi lokið vinnu við séu haldnir svo verulegum göllum að það hafi heimilað stefnda riftun verksamningsins, sbr. 1. gr. lkpl., gallarnir hafi verið verulegir og sanngjarn frestur hafi verið veittur til úrbóta.
Í verksamningi milli aðila er ekki kveðið á um það að vefinn skuli afhenda fyrir ákveðinn dag. Í verksamningi aðila er tekið fram af hálfu aðalstefnanda að stóri óvissuþátturinn í verkefninu séu vefþjónustusamskiptin við bókunarvél verkkaupa en útfærslan á þeim sé með þeim hætti að erfitt sé fyrir hann að áætla nákvæmlega vinnu við þau og rekur hann í hverju þessi vandkvæði séu fólgin. Þetta geti orðið til þess að kostnaðurinn við þennan lið geti annaðhvort hækkað eða lækkað umfram þá áætlun sem verksamningur byggi á. Verkefni aðalstefnanda fólst annars vegar í hönnun, uppsetningu og forritun á vefsíðu fyrir matsbeiðanda og hins vegar í að samþætta bókunarvél matsbeiðanda við vefinn. Af samskiptum aðila sem fram koma í gögnum málsins, bæði áður en samningurinn var gerður og eins eftir að hann var undirritaður og vinna hófst við verkið, verður ráðið að aðalstefndi hafi verið vel upplýstur um þá vankanta sem voru á bókunarvélinni. Bókunarkerfi aðalstefnda var svokallað „Ticket“ kerfi sem hannað var af sænskum aðila, Tommy Wiberg. Þessi aðili, sem veitti aðalstefnda bókunarþjónustu, upplýsti aðalstefnanda um að ekki væru til skilgreiningar á virkni bókunarvélarinnar og hún byði ekki upp á prufusvæði til að gera aðilum kleift að forrita á móti henni.
Varðandi þennan óvissuþátt þá svaraði fyrirsvarsmaður aðalstefnda með tölvupósti þann 31. janúar 2012 til aðalstefnanda og kvaðst gera sér fulla grein fyrir því að liðurinn varðandi vefþjónustusamskiptin við bókunarvélinu væri „ekki fastur liður í tilboðinu“. Þá liggur einnig fyrir að starfsmaður aðalstefnda, Pétur Blöndal Gíslason kerfisstjóri, sem gaf vitnaskýrslu við aðalmeðferð málsins, fékk nefndan Tommy Wiberg til fundar við sig og starfsmann aðalstefnanda vegna þessara vandkvæða með bókunarvélina.
Tveir forritarar hjá aðalstefnanda, Guðmundur Stefán Þorvaldsson og Atli Páll Hafsteinsson, gáfu vitnaskýrslur við aðalmeðferð og lýstu vanköntum á bókunarvélinni og vandkvæðum við að vinna á móti bókunarvélinni.
Í mars 2013 var Guðmundur Stefán Þorleifsson forritari hjá aðalstefnanda í sambandi við Tommy Wiberg vegna bókunarvélarinnar og Tommy sendi þann 8. mars 2013 tölvupóst og staðfesti að forritaviðmót bókunarvélarinnar væri ekki opinbert forritaviðmót, það hefði verið þróað fyrir lítið fé og ekki verið klárað og aðalstefndi hefði verið upplýstur um þetta. Tommy Wiberg sendi annan tölvupóst 18. mars 2013 til Guðmundar Stefáns og segir í honum samkvæmt íslenskri þýðingu sem lögð var fram: „hey eins og ég hef sagt þér áður var þetta verkefni sem var hætt við áður en því lauk og er ekki með allt fíneríið sem þú vilt – ég held ég hafi skrifað það áður.“
Stefán Laxdal Aðalsteinsson verkefnastjóri gaf vitnaskýrslu við aðalmeðferð og kvaðst hafa átt frumkvæði að því í apríl 2013 að stöðva vinnu við forritunarvinnuna gagnvart bókunarvélinni þar sem ekki hafi verið til prufuumhverfi til að prófa hugbúnað og ófært væri að forrita ofan í lifandi gögn sem verið væri að vinna í annars staðar. Í framhaldi af þessu hafi verið útbúinn prufuvefþjónn sem forriturum aðalstefnanda hafi verið veittur aðgangur að og þá verið haldið áfram með verkið. Hann kvaðst hafa sent verkkaupa reglulega framvinduskýrslu um stöðu verksins og aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við stöðu eða reikninga utan einu sinni þar sem hann hafi í kjölfarið leiðrétt afslátt á reikningi. Þetta kemur einnig fram í gögnum málsins.
Í tölvupósti þann 6. desember 2012 tilkynnti Stefán Laxdal Aðalsteinsson, verkefnastjóri aðalstefnanda, fyrirsvarsmanni aðalstefnda að vinna við vefinn væri komin á það stig að aðalstefndi gæti farið að setja efni inn á vefinn.
Í matsgerð dómkvadds matsmanns, Ásmundar Bjarnasonar tölvunarfræðings, sem staðfesti matsgerð sína og viðauka við hana við aðalmeðferð, kemur fram að skv. gögnum málsins sé vinnu við vefsíðuna ekki lokið, en vinna við vefsíðuna hafi verið stöðvuð af hálfu matsþola eftir 25. júní 2013. Matsmaður líti svo á að búið hafi verið að afhenda verkkaupa vefinn til efnisinnsetningar og prófunar. Verkinu hafi hins vegar ekki verið endanlega lokið, þ.e. ekki var búið að klára endanlega alla virkni vefsins og framkvæma allar prófanir. Af gögnum málsins verður ekki annað séð en að verkefnið hafi verið í eðlilegum farvegi. Matsmaður kvaðst hafa gert sjálfstæðar athuganir, ein bókun hafi verið kláruð til enda með því að greiða með kreditkorti, en þrátt fyrir að vefinn hafi átt að keyra á móti bókunarvélinni í prófunarumhverfi, hafi svo virst sem öll kortameðhöndlun bókunarvélarinnar hafi verið raunkeyrð, þ.e. pöntunin hafi raunverulega verið skuldfærð af viðkomandi kreditkorti. Öll sú virkni/vinnsla hafi hins vegar gengið athugasemdalaust og pöntunar- og greiðslukvittun hafi skilað sér hratt og örugglega. Vefsíðan líti ágætlega út, mikil vinna hafi greinilega verið lögð í hönnun og uppsetningu vefsíðunnar, hún sé komin með alla helstu grunnvirkni, vefforritun virðist vera mjög langt komin og búið sé að greiða úr flestum tæknilegum flækjum sem tengist bókunarvélinni. Matsmanni þyki því ekki rétt að tala um galla í þessu sambandi, hér sé um að ræða verkefni sem ekki sé lokið. Matsmaður metur það svo að ef vefsíðan yrði fullkláruð m.v. þá virkni sem nú er fyrirliggjandi, þá myndi hún fyllilega standast samanburð við aðrar vefsíður aðila í sambærilegri atvinnustarfsemi og verkkaupi. Matsmaður kvað það að halda ekki áfram með vinnu við vefinn vera eins og að hætta í maraþonhlaupi þegar menn sjái markið.
Matsmaður segir í viðauka við matsgerð að bókunarvél aðalstefnda hafi verið þungamiðjan í verkefni aðalstefnanda, mikil vinna hafi fallið til í vefsíðunni vegna samþættingar við bókunarvélina og telur hann upp atriði sem hann álítur að hafi beinlínis valdið ófyrirsjáanlegri vinnu.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður ekki fallist á það með aðalstefnda að aðalstefnandi hafi vanefnt skyldur sínar verulega með töfum á afhendingu vefsvæðisins, sbr. 1. mgr. 25. gr. lkpl. þar sem ekki var í samningi aðila mælt fyrir um hvenær verki yrði skilað og tafir á verkinu verða fyrst og fremst raktar til bókarvélar aðalstefnda. Niðurstöðu dómkvadds matsmanns þetta varðandi hefur ekki verið hnekkt. Aðalstefndi var upplýstur um gang verksins á öllum stigum og gerði ekki athugasemdir við stöðu verksins eða reikninga fyrr en aðalstefnandi hafði hafið innheimtuaðgerðir vegna vanefnda aðalstefnda sem fyrir liggur að voru verulegar, en allir útgefnir reikningar á árinu 2013 voru ógreiddir. Þrátt fyrir greiðslufyrirkomulag sem mælt var fyrir um í verksamningi verður ekki annað sé en að samkomulag hafi verið um að reikningar væru gefnir út eftir því sem verki miðaði. Aðalstefnandi hélt þrátt fyrir vanefndir á greiðslum áfram vinnu við verkið í trausti þess að reikningarnir yrðu greiddir. Þegar aðalstefndi, með bréfi 9. september 2013, veitti aðalstefnanda mánaðarfrest til að ljúka verkinu var þegar ljóst að verkið hafði verið stöðvað vegna vanefnda aðalstefnda og hann ekki bætt úr þeim vanefndum. Hafna verður því að grundvöllur riftunar verði byggður á því að aðalstefnandi hafi ekki brugðist við þessari áskorun eins og málum var komið.
Aðalstefndi byggir einnig kröfu sína um riftun á því að þeir verkþættir sem gagnstefndi hafi lokið vinnu við séu haldnir svo verulegum göllum að þeir heimili honum riftun verksamningsins. Aðalstefnda hefur ekki tekist sönnun um að vefsíðan sé haldin þeim göllum sem hann heldur fram og hann gerði ekki athugasemdir fyrr en eftir að vinna hafði verið stöðvuð vegna vanefnda hans. Matsmaður sem dómkvaddur var skv. beiðni aðalstefnda segir í niðurstöðum sínum, sem raktar voru hér að framan, að ekki sé hægt að tala um að vefsíðan sé haldin göllum, verkinu sé ekki verið lokið. Vefsíðan sé þó komin með alla helstu grunnvirkni og hann hafi gert prófanir á henni. Þessari niðurstöðu dómkvadds matsmanns hefur ekki verið hnekkt og verður hún lögð til grundvallar þetta varðandi þar sem ekki var farið fram á yfirmat.
Varðandi þau rök sem aðalstefndi færir fyrir sýknukröfu sinni að hann hafi þegar innt af hendi svo verulega hátt gjald fyrir verkið að það sé komið langt fram yfir umsamda kostnaðaráætlun þá vísar hann til þess að þá fjárhæð sem hann hafi þegar greitt hafi hann greitt í von um að fá afhenta nothæfa vefsíðu sem starfsemi hans grundvallaðist á. Aðalstefndi gerði ekki athugasemdir við útgefna reikninga fyrr en eftir að aðalstefnandi fór í innheimtuaðgerðir vegna vanskila aðalstefnda og vinna við verk hafði verið stöðvuð. Hann gerir hins vegar athugasemdir við þá reikninga samtals að fjárhæð 8.669.946 kr. sem gefnir hafi verið út löngu eftir að verk hafi verið stöðvað.
Í ósk um endurmat á matsgerð komu aðilar sér saman um að leggja fyrir dómkvaddan matsmann umorðaða matsspurningu í a-hluta 4. matsliðar og spurningin var: „Hvort eðlilegt geti talist að greiða kr. 29.940.445 fyrir þá vinnu sem matsþoli hefur unnið í þágu matsbeiðanda, skv. verksamningi 7. mars 2012 og hvort slíkt samrýmist almennum venjum í vefsíðugerð“ Þessi tala er samtala þess sem aðalstefndi hafði greitt að viðbættum höfuðstól í dómkröfu aðalstefnanda í aðalsök. Matsmaður rakti eins og fram hefur komið dæmi úr matsgögnum sem hann taldi að hafi beinlínis valdið ófyrirsjáanlegri vinnu sem tengdust bókunarvél aðalstefnda. Matsmaður telur að þau atriði sem valdi því að vinnuþátturinn verði umtalsvert meiri en eðlilegt geti talist verði að skrifast að miklu leyti á högun og útfærslu bókunarvélarinnar. Þá sé ljóst að matsþoli hafi tekið að sér talsverða vinnu í verkefninu sem eðlilegra hefði verið að útfæra í bókunarvél matsbeiðanda. Óvissuþættir tengdir bókunarvélinni séu margir en óvissunni sé flaggað af matsþola allt frá greiningarfasa, í verksamningi og svo ítrekað á meðan unnið hafi verið í verkefninu. Með tilliti til þessara atriða var það niðurstaða matsmanns að eðlilegt geti talist að greiða 29.940.445 kr. fyrir alla þá vinnu sem matsþoli hafi unnið í þágu matsbeiðanda og að slíkt samrýmist almennum venjum í vefsíðugerð.
Þó að niðurstaða matsmanns sé afdráttarlaus varðandi það að eðlilegt geti talist að þessa fjárhæð fyrir alla vinnu aðalstefnanda fyrir aðalstefnda, þá þá er í kröfugerð aðalstefnanda byggt á fjórum reikningum sem gefnir voru út 28. ágúst 2013 löngu eftir að vinna hafði verið stöðvuð við verkið. Af tímaskýrslum sem framlagðar eru í málinu verður ekki ráðið að eftir fund aðila 25. júní 2013 hafi aðalstefnandi unnið frekar við verkið. Eitt af þeim atriðum sem óskað var eftir að dómkvaddur matsmaður svaraði í framangreindri matsbeiðni var: „Hvort unnt sé að rekja hvort matsþoli hafi unnið að lagfæringum í vefsíðunni síðan forsvarsmenn matsþola lýstu því yfir, á sáttafundi dags. 25. júní 2013 að þeir hygðust ekki vinna frekar í vefsíðunni án frekari greiðslna. Jafnframt hvenær unnið var síðast í vefsíðunni skv. fyrirliggjandi skrám.“
Í matsgerð dómkvadds matsmanns kemur fram að matsþoli noti vefútgáfustjórnunarkerfi til að halda utan um allar hugbúnaðarbreytingar sem framkvæmdar séu. Matsmaður hafi farið yfir færslur og það sem að baki þeim hafi legið og staðfest hafi verið í þeirri skoðun að samkvæmt útgáfustjórnunarkerfinu væru síðustu hugbúnaðarbreytingar á vefsíðunni frá 11. júní 2013. Þá verði ekki séð af tímaskráningum í dómskjölum að skráðir séu tímar vegna vinnu við vefsíðuna eftir 25. júní 2013. Niðurstaða hans var að ekki verði séð að matsþoli hafi unnið að lagfæringu á vefsíðunni eftir 25. júní 2013.
Þrátt fyrir þá niðurstöðu dómkvadds matsmanns að eðlilegt geti talist að greiða 29.940.445 kr. fyrir alla þá vinnu sem matsþoli hafi unnið í þágu matsbeiðanda verður ekki litið fram hjá þeirri niðurstöðu matsmanns að ekki hafi verið unnið að lagfæringum á vefsíðunni eftir 25. júní 2013. Þessi niðurstaða dómkvadds matsmanns verður lögð til grundvallar þar sem henni hefur ekki verið hrundið. Þetta er einnig í samræmi við tímaskýrslur sem liggja fyrir í málinu. Ekki er því hægt að fallast á að aðalstefnda beri að greiða fjóra reikninga útgefna þann 28. ágúst 2013 að fjárhæð 700.559 kr., 19.829 kr., 4.805.360 kr. og 145.545 kr. þar sem ekkert liggur fyrir um vinnu aðalstefnanda í ágúst 2013 eða eftir 25. júní 2013. Þá eru dómkröfur aðalstefnanda ekki í samræmi við greiðsluáskorun og innheimtuviðvörun dags. 5. september 2013. Að öllu ofanskráðu athuguðu og virtu ber aðalstefnda að greiða aðalstefnanda dómkröfur í aðalsök að frádregnum ofangreindum reikningum sem eru samtals að fjárhæð 5.671.293 kr. eða samtals dómkröfur að höfuðstól 7.599.485 krónur.
Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ekki fallist á kröfur aðalstefnda í gagnsök um endurgreiðslu innborgana samkvæmt samningi 16.669.667 með dráttarvöxtum samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu frá 29. nóvember 2013 til greiðsludags og að viðurkennd verði skaðabótaskylda gagnstefnda vegna vanefnda á verksamningi aðila dags. 7. og 8. mars 2012. Ber því að sýkna aðalstefnanda af þessu kröfum í gagnsök.
Með hliðsjón af þessari niðurstöðu ber að dæma aðalstefnda til að greiða aðalstefnanda málskostnað eins og kveðið er á um í dómsorði.
Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist umfram frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Aðilar eru sammála dómara um að ekki sé þörf á endurflutningi.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Aðalstefndi, Iceland Excursion Allrahanda ehf., greiði aðalstefnanda, Hugsmiðjunni ehf., 7.599.485 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga vaxtalaga nr. 38/2001 af 39.533 kr. frá 1.1.2013 til 1.3.2013, af 79.067 kr. frá 1.3.2013 til 30.4.2013, af 4.460.893 kr. frá 30.4.2013 til 1.5.2013, af 4.504.191 kr. frá 1.5.2013 til 1.6.2013, af 4.552.509 kr. frá 1.6.2013 til 1.7.2013,af 4.600.832 kr. frá 1.7.2013 til 28.8.2013 og af 7.599.485 krónur frá þeim tíma til greiðsludags.
Aðalstefnandi er sýkn af kröfum aðalstefnda í gagnsök.
Aðalstefndi greiði aðalstefnanda 1.800.000 kr. í málskostnað.