Hæstiréttur íslands
Mál nr. 249/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Miðvikudaginn 27. apríl 2011. |
|
|
Nr. 249/2011. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 29. apríl 2011 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Fallist er á með sóknaraðila að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing er lögð við. Rannsókn málsins er á frumstigi og verður því fallist á með sóknaraðila að uppfyllt teljist skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 2011.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], [...], Reykjavík, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 29. apríl 2011, kl. 16.00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögreglan hafi verið kölluð á neyðarmóttöku slysadeildar Landsspítala í gærkvöldi vegna þolanda, A, kt. [...], sem þar hafi verið í skoðun vegna meintrar nauðgunar. Samkvæmt frásögn hennar höfðu tveir menn nauðgað henni aðfaranótt 22. apríl á heimili hennar að [...] í Reykjavík. Samkvæmt frásögn brotaþola var hún að skemmta sér aðfaranótt 22. apríl sl. ásamt kærða X og vinkonu sinni B og hafi þau verið í miðbæ Reykjavíkur og farið á nokkra skemmtistaði. Síðan hafi þau farið heim til kæranda að [...] og setið þar á spjalli. Síðan hafi B farið að sofa en þau haldið áfram að spjalla. Skömmu síðar hafi meðkærði Y komið að [...], en samkvæmt frásögn brotaþola séu þau vinir. Í kjölfarið hafi brotaþoli farið að sofa og hafi meðkærði Y farið inn í herbergi ásamt brotaþolanum og skipað kærða X að koma með sér inn í herbergið og þar hafi meðkærði haft í hótunum við brotaþola og haft við hana samfarir með ofbeldi og hafi þeir tveir skipst á að hafa við brotaþola samfarir og munnmök. Samkvæmt frásögn brotaþola hafi meðkærði Y neytt hana til munnmaka við kærða og hafi meðkærði jafnframt haft samfarir við brotaþola. Hún hafi verið hrædd og tekið þá ákvörðun að berjast ekki á móti til að hljóta ekki skaða af. Eftir um hálftíma hafi meðkærði Y hætt samræði og gengið út úr herberginu og hafi hann skipað kærða X um að halda áfram að eiga samræði við brotaþola sem hann gerði í stutta stund. Hafi kærði síðan hætt fljótlega. Hafi þá meðkærði Y haft í frammi hótanir við brotaþola um að berja hana þegar hún kvaðst ekki hafa viljað þetta. Meðkærði hafi yfirgefið heimili brotaþola milli klukkan 06.00 og 07.00, en kærði X hafi yfirgefið vettvang aðeins síðar. Kvaðst brotaþoli hafa talað við B sem hafi verið sofandi í öðru herbergi og sagt henni frá atvikum. Í kjölfarið hafi hún farið heim til systur sinnar og síðan í framhaldinu á slysa- og bráðadeild Landsspítala til skoðunar ásamt móður sinni. Við skoðun læknis hafi brotaþoli sagst finna til í hálsi, brjóstum og innanverðu læri og hafi læknir upplýst lögreglu um áverka á brjósti á brotaþola.
Kærði X hafi verið handtekinn í nótt kl. 01.10. Samkvæmt skýrslu sem tekin hafi verið af kærða viðurkennir hann samfarir og munnmök við brotaþola en kveðst ekki hafa haft sáðlát, en hann kvað meðkærða hafa verið ógnandi og beitt brotaþola ofbeldislegri hegðun og verið mjög harkalegur í aðförum m.a. annars klipið í brjóst brotaþola og stjórnað aðförunum í einu og öllu. Kærði kvað að brotþoli hafi verið grátandi og snöktandi eftir þessar aðfarir.
Fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið brot í félagi sem geti varðað allt að 16 ára fangelsisrefsingu ef sök sannist. Rannsókn málsins sé á frumstigi og telji lögregla ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, m.a. eigi eftir að yfirheyra meðkærða aftur og taka skýrslu af kærða aftur og sé brýnt að þeir geti ekki haft áhrif hvor á annan með því að ræða saman. Jafnframt á eftir að taka frekari skýrslur af vitnum. Mál þetta sé enn á því stigi að hætt sé við að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus.
Ætlað brot teljist varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá verði ekki hjá því litið að um mjög grófa atlögu tveggja manna gegn brotaþola sé að ræða, sem framin hafi verið á sársaukafullan og meiðandi hátt. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Fram er kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem varðað getur við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn því ákvæði getur varðað allt að 16 ára fangelsi, ef sök sannast. Grunur leikur á því að brotið hafi kærði framið í félagi við annan mann og eykur það á alvarleika þess, jafnvel þótt margt bendi til að þáttur kærða og meðkærða sé ekki sá sami í meintu broti gegn brotaþola. Ætla má að kærði muni torvelda rannsókn málsins, gangi hann laus, en enn á eftir að yfirheyra vitni og taka frekari skýrslur af kærða og meðkærða. Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna verður fallist á að skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt til þess að fallast megi á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald yfir kærða. Þá verður fallist á kröfu hans á grundvelli b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærða, X, kt. [...], er gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 29. apríl 2011, kl. 16.00. Kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
.