Hæstiréttur íslands

Mál nr. 137/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof
  • Fullnusta refsingar


Miðvikudaginn 12

 

Miðvikudaginn 12. mars 2008.

Nr. 137/2008.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi)

gegn

X

(Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.)

 

Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X, sem veitt hafði verið reynslulausn, skyldi á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga afplána 360 daga eftirstöðvar refsingar, sem hann hafði hlotið með dómi Hæstaréttar 28. apríl 2005, enda taldist kominn fram sterkur grunur um að X hefði framið fíkniefnalagabrot sem varðað gæti allt að 12 ára fangelsi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2008, þar sem varnaraðila var gert að afplána 360 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem hann fékk reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 26. ágúst 2007. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. 

Með dómi Hæstaréttar 28. apríl 2005 í máli nr. 16/2005 var varnaraðili dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar, en með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 26. ágúst 2007 var honum veitt reynslulausn á 360 daga eftirstöðvum refsingarinnar. Fallist er á með sóknaraðila að varnaraðili sé undir sterkum grun um að hafa framið fíkniefnabrot, sem varðað getur allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, afpláni 360 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem hann hlaut með dómi Hæstaréttar 28. apríl 2005.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2008.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005 að X, [kt. og heimilisfang], verði með úrskurði gert að afplána 360 daga eftirstöðvar reynslulausnar dóms Hæstaréttar frá 28. apríl 2005, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun ríkisins þann 26. ágúst 2007.

Af hálfu kærða er þess krafist að kröfunni verði hafnað.

Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um stórfellt brot á lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að um nokkurt skeið hafi staðið yfir rannsókn á innflutningi á um 4.639,5 g af amfetamíni og 594,70 g af kókaíni sem fundist hafi við eftirlit lögreglu og tollgæslu í bifreið á vegum hraðflutningafyrirtækisins UPS á Keflavíkurflugvelli þann 15. nóvember sl. Í þágu rannsóknar málsins hafi lögreglan handtekið þann 23. og 24. janúar sl. þá A og B og C, sem allir hafi verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Þeim A og B hafi nú verið sleppt úr haldi en C sitji enn í gæsluvarðhaldi. Þann 30. janúar sl. hafi lögreglan handtekið kærða X og hafi hann setið í gæsluvarðhaldi frá 31. janúar sl. vegna sterks gruns lögreglu um að vera viðriðinn innflutning fíkniefnanna hingað til landsins. Rannsókn málsins sé í fullum gangi og miði henni áfram. Unnið sé að rannsókn málsins í samvinnu við erlend lögregluyfirvöld og m.a. sé beðið eftir upplýsingum erlendis frá varðandi þann samskiptamáta sem notaður hafi verið við skipulag innflutningsins hingað til landsins. Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að innflutningur með þessum hætti hafi staðið yfir a.m.k. frá vormánuðum 2005. Telur lögreglan að töluvert mikið magn fíkniefna hafi komið til landsins með þessum hætti. Hafi lögreglan unnið að því að rannsaka tölvubúnað sem haldlagður hafi verið og jafnframt að vinna úr banka- og símagögnum sem aflað hafi verið. Sem stendur hafi ekki öll gögn borist erlendis frá enda rannsókn málsins nokkuð umfangsmikil.

Lögreglan telur kærða vera undir sterkum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti. Hann hafi setið í gæsluvarðhaldi frá 31. janúar sl. Lögreglan telur að kærði tengist fjármögnun brotsins, skipulagningu og móttöku fíkniefnanna. Talið sé að um mjög mikið magn hættulegra fíkniefna sé að ræða. Þyki því brot hans mjög alvarlegt. Kærði hafi neitað aðild að málinu. Lögreglu finnist hins vegar framburður hans mjög ótrúverðugur og hafi hann orðið margsaga um einstök atvik málsins. Lögreglan vísi til framburða annarra sakborninga og vitna í málinu. Þá hafi lögreglan unnið að rannsókn á fjármálum kærða en sú vinna hafi þegar leitt í ljós að kærði eigi fjölda eigna sem hann hafi skráð á annað fólk í því skyni að blekkja yfirvöld. Hann hafi hins vegar ekki viljað tjá sig um fjárhag sinn og eignastöðu í yfirheyrslum. Þá vísar lögreglan til þess að kærði hafi aðfaranótt 15. febrúar sl. strokið úr haldi lögreglu en fundist í heimahúsi síðar sama dag.

Að öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með lögreglustjóra að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi framið afbrot sem þung fangelsisrefsing er lögð við. Dómurinn telur að skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga sé uppfyllt og með vísan til þess fellst dómurinn á þá kröfu að varnaraðili skuli afplána 360 daga eftirstöðvar reynslulausnar sem honum var veitt með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 26. ágúst 2007.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákærða, X, er gert að afplána 360 daga eftirstöðvar reynslulausnar sem honum var veitt með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 26. ágúst 2007.