Hæstiréttur íslands

Mál nr. 136/2011


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Varanleg örorka
  • Tímabundin örorka


                                     

Fimmtudaginn 24. nóvember 2011.

Nr. 136/2011.

Helgi Lars Jóhannsson

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl)

gegn

B.G. Bílakringlunni ehf. og

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

Skaðabætur. Bifreiðar. Líkamstjón. Varanleg örorka. Tímabundin örorka.

H krafðist bóta vegna varanlegrar og tímabundinnar örorku úr hendi B ehf. og V hf. vegna slyss er hann varð fyrir 28. nóvember 1998 er bifreið sem hann var farþegi í valt en H var þá liðlega 15 ára gamall. Féllst Hæstiréttur á með héraðsdómi að meta yrði bætur vegna varanlegrar örorku H eftir reglum þágildandi 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Taldi Hæstiréttur að greinin yrði ekki skýrð svo að hún tæki fortakslaust til allra þeirra sem ekki hefðu náð 18 ára aldri á slysdegi. Á hinn bóginn yrði að líta til þess að H var rétt liðlega 15 ára gamall er hann slasaðist en hafði ekki hafið störf á almennum vinnumarkaði. Að þessu gættu var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu B ehf. og V hf. af kröfu um frekari bætur vegna varanlegrar örorku. Þá var ekki talið að H hefði sýnt fram á að raunverulegt tekjutap hans hefði verið meira en sem næmi þeirri fjárhæð sem V ehf. hafði þegar greitt honum vegna tímabundins atvinnutjóns.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. mars 2011. Hann krefst þess aðallega að stefndu verði dæmdir til þess að greiða sér óskipt 10.811.472 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. nóvember 2004 til greiðsludags, en til vara með 2% ársvöxtum frá 27. nóvember 2004 til 8. júlí 2009 og dráttarvöxtum eins og að framan greinir frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann 9.262.784 króna en að því frágengnu 2.272.780 króna, í báðum tilvikum með sömu vöxtum og að framan greinir. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfu áfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Stefndu hafa ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti og kemst því krafa þeirra um málskostnað í héraði ekki að fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi gerir kröfu um bætur úr hendi stefndu vegna slyss er hann varð fyrir 28. nóvember 1998 þegar bifreið sem hann var farþegi í valt. Höfðaði hann mál á hendur stefndu 21. nóvember 2008 án tilgreiningar á fjárhæð kröfu samkvæmt heimild í d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Á þeim tíma var óvíst um fjárhæð kröfunnar en rjúfa þurfti fyrningu hennar með málsókninni. Að fenginni matsgerð dómkvaddra manna 8. júní 2009 lagði áfrýjandi fram endanlega kröfugerð sína.

Aðilar deila ekki um bótaskyldu stefndu, heldur um fjárhæð bóta vegna varanlegrar og tímabundinnar örorku áfrýjanda. Í héraði var einnig deilt um þjáningabætur til handa áfrýjanda, en stefndu undu niðurstöðu héraðsdóms um þær og hefur áfrýjanda verið greiddur sá hluti kröfunnar. Þá er ágreiningur um upphafstíma dráttarvaxta, komi til þess að fallist verði á kröfu áfrýjanda.

Eins og greinir í héraðsdómi fer um ákvörðun bóta áfrýjanda eftir ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og þau voru áður en þeim var breytt með lögum nr. 37/1999. Samkvæmt 8. gr. fyrrgreindu laganna skyldi ákvarða á grundvelli miskastigs bætur vegna varanlegrar örorku til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýttu vinnugetu sína þannig að þeir höfðu engar eða takmarkaðar vinnutekjur. Fallist er á með áfrýjanda að greinin verði ekki skýrð svo að hún taki forstakslaust til allra þeirra sem ekki höfðu náð 18 ára aldri á slysdegi. Á hinn bóginn ber að líta til þess að áfrýjandi var rétt liðlega 15 ára er hann slasaðist. Hann var á skólaskyldualdri og stundaði nám í grunnskóla þótt hann hefði einnig unnið í hlutastörfum með námi og verið í sveit að sumarlagi. Af þeim sökum hafði hann ekki hafið störf á almennum vinnumarkaði. Samkvæmt þessu verður fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að meta verði varanlega örorku áfrýjanda eftir reglum 8. gr. þágildandi skaðabótalaga. Þá verður niðurstaða héraðsdóms um tímabundið atvinnutjón áfrýjanda staðfest með vísan til forsendna hans. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Helga Lars Jóhannssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 500.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 9. nóvember sl., er höfðað 21. nóvember 2008.

Stefnandi er Helgi Lars Jóhannsson, Hringbraut 87, Keflavík.

Stefndu eru B.G. Bílakringlan ehf., Grófinni 7-8, Keflavík og Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 11.049.472 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2004 til greiðsludags og málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

Til vara er krafist greiðslu skaðabóta að fjárhæð 2.510.780 krónur  auk fyrrnefndra vaxta og málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

Til þrautavara er krafist greiðslu skaðabóta að mati héraðsdóms auk fyrrnefndra vaxta og málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins,  en til vara að dómkröfur stefnanda verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Málavextir

Málsatvik eru þau að 28. nóvember 1998 var stefnandi farþegi í bifreið stefnda B.G. Bílakringlunnar ehf., VV-991, sem ekið var vestur Reykja­nes­braut.  Var VV-991 skylduvátryggð hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf.  Vestan við afleggjarann til Grindavíkur reyndi  ökumaður  VV-991 að aka fram úr bifreiðaröð en missti bifreiðina út af veginum þegar  hann  varð að beygja  út á vinstri vegaröxl undan bifreið sem kom úr gagnstæðri átt.  Fór VV-991 tvær veltur.  Við slysið hlaut stefnandi áverka á háls og  bak. Um bótaábyrgð stefndu  á  slysi stefnanda er ekki ágreiningur. Öfluðu aðilar sameiginlega matsgerðar læknanna Sigurjóns Sigurðssonar og Guðmundar Björnssonar um  afleiðingar  slyssins.  Í matsgerð þeirra, dags. 17. sept. 2002, kemur fram að stefnandi hafi auk líkamlegra ein­kenna frá hálsi og baki uppfyllt greiningarskilmerki um [...] að mati tauga­sál­fræðings, og að stefnandi hafi þegar á árinu 2000 verið orðinn nokkuð [...].  Segir m.a. í matsgerðinni að afleiðingar slyssins hafi haft slæm áhrif á andlega heilsu stefnanda og alla frítímastarfsemi.  Sé tekið mið af því við mat á miska stefnanda að lífsgæði hans hafi minnkað.  Mátu læknarnir stefnanda 35% varanlegan miska af völdum slyssins, en höfðu mismunandi skoðanir á varanlega örorku. Taldi Sigurjón varanlega örorku stefnanda hæfilega metna 35%  en Guðmundur  25%.   Þá töldu þeir tímabil þjáninga vera frá slysdegi til áramóta 2000/2001 og tímabil tímabundins atvinnutjóns vera frá miðjum júní 1999 til áramóta 2000/2001.

Stefnandi var 15 ára að aldri á slysadegi, 28. nóvember 1998.  Var hann nemandi í grunnskóla.  Lauk hann grunnskólanum vorið 1999.  Hafði honum gengið bóklegt nám illa vegna lesblindu.  Hann hafði byrjað að  vinna sumarstörf 13 ára við að skera úr netum og vinna í fiski.  Þá hafði hann reynt fyrir sér í sumarvinnu í pípulögnum eftir 8. og 9. bekk.  Hafði hann hugleitt að vinna við pípulagnir í framtíðinni.  Sumarið 1999 þoldi hann illa að vinna slíkt starf vegna  einkenna eftir slysið.  Vann hann hjá Byko frá vori 2000 til desember sama ár en hætti þar sem starfið reyndist honum of erfitt. Eftir áramótin 2000/2001 hóf stefnandi nám í Iðnskólanum í hönnun.  Var hann í því námi er fyrrnefnt miska- og örorkumat var gert 17. sept. 2002 og hafði áform um að klára það nám og vinna við  hönnun í framtíðinni.

Í matsgerð læknanna Kristins Tómassonar og Torfa Magnússonar, í kafla um atvinnusögu, kemur fram að sumarið 2001 fór stefnandi á sjó á línubát en entist aðeins tvo mánuði í því starfi vegna höfuðverkja og stirðleika í baki. Hjá Ratsjárstofnun vann hann sumarið 2001 og 2002. Eftir það varð hann atvinnulaus en var í íhlaupavinnu við að skera af netum þangað til hann fór til Noregs í mars 2003. Þar vann hann sem kokkur á veitingastað fram í september 2003. Hætti í því starfi þar sem honum fannst það of lýjandi og erfitt fyrir hann að standa. Eftir vinnuna í Noregi fór stefnandi að vinna í Fríhöfninni í Keflavík til loka árs 2005 við afgreiðslu á kassa. Í janúar árið 2006 hóf hann störf í mötuneyti, eldaði matinn og ók honum síðan út. Þar hætti hann 2008 vegna fjárhagsvandræða hjá vinnuveitanda hans. Stefnandi var atvinnulaus þar til í mars 2009 en fór þá að vinna í Gallerí kjöt.

Hinn 27. desember 2002 gerði stefndi, VÍS, upp slys stefnanda.  Var byggt á matsgerð læknanna Sigurjóns Sigurðssonar og Guðmundar Björnssonar við bóta­uppgjörið.  Vegna  ungs aldurs stefnanda  á slysdegi og stöðu hans sem nemanda byggði stefndi ákvörðun skaðabóta til hans fyrir varanlega örorku á 8. gr. skaðabótalaga. Voru bætur fyrir varanlega örorku því ákvarðaðar á grundvelli miskastigs, sbr. 4. gr. skaðabótalaga. Þá var bætt áætlað tímabundið atvinnutjón frá 26. júní til 31. ágúst 1999 og greiddar þjáningabætur sem stefndi telur langt umfram hámark. Stefn­andi tók við bótun­um með fyrirvara um alla þætti uppgjörsins nema varan­legan miska.  Taldi stefnandi að bætur fyrir varanlega örorku ættu að gerast upp eftir 5.-7. gr. skaðabótalaga. og meta viðmiðunartekjur sérstak­lega, sbr. 2. mgr. 7. gr.  Vildi stefnandi í því efni miða við meðal­tekjur iðnaðarmanna.  Þá hafði stefnandi gert  hærri kröfur vegna þjáninga og tímabundins tekjutjóns en VÍS bætti fyrir þá kröfuliði.

Stefnandi taldi einkenni sín fara heldur versnandi eftir að matið 17. september 2002 fór fram.  Á árinu 2007 leitaði hann til læknanna Marinós P. Hafstein og Sigurðar Ásgeirs Kristinssonar vegna háls- og bakeinkenna sinna. Í nóvember 2008 skoðaði Ingólfur Sveinsson geð­læknir stefnanda með tilliti til geðeinkenna.  Segir geðlæknirinn stefnanda hafa fengið [...], en koma vel fyrir hvað varðar andlegan status og hann sé ekki þunglyndur.  Ætli læknirinn að hitta stefnanda aftur til að freista þess að hreinsa burtu [...], sem bagi stefnanda verulega.

Hinn 27. febrúar 2009 voru að beiðni stefnanda dómkvaddir þeir Kristinn Tómasson geðlæknir og Torfi Magnússon taugalæknir, til mats á varan­legum miska og varanlegri örorku stefnanda af völdum slyssins.  Í  mats­gerð þeirra, dags. 8. júní 2009, er haft eftir stefnanda, að hann hafi skánað mikið frá 18-19 ára aldri hvað varðar þunglyndið. Það hafi hætt að vera til vandræða í kringum áramótin 2007/2008  og sé nánast horfið.  Kvað stefnandi hálsverki vera langverstu einkenni sín.  Mátu hinir dóm­kvöddu læknar varanlegan miska stefnanda af völdum slyssins 35%, þar af 20% vegna líkamlegra einkenna og 15% vegna geð­ein­kenna.   Er skoðun matsmanna sú að þótt þunglyndi stefnanda hafi létt sé það til þess fallið að endurtaka sig síðar á lífsleiðinni verði hann fyrir verulegu álagi.  Þá mátu matsmennirnir varanlega örorku stefnanda 40%.

Til stuðnings þeirri niðurstöðu gera matsmenn öðrum þræði ráð fyrir að stefnandi hefði lokið námi í pípulögnum eða sambærilegu iðnnámi, ef slysið hefði ekki orðið, og bera laun hans á tímabilinu 2000-2008 saman við meðaltal launa iðnaðarmanna og verkamanna á sama tímabili.  Segir í matsgerðinni að í ljósi nokkurrar óvissu um hvort stefnandi myndi ljúka námi í pípulögnum eða sambærilegu iðnnámi vegna námsörðugleika, sem hann bjó við fyrir slysið, þyki matsmönnum eðlilegt að taka meðaltal af þessum tveimur ferlum.

Með birtingu stefnu 21. nóvember 2008, til að rjúfa fyrningu á skaðabóta­kröfu sinni vegna umferðslyssins krafðist stefnandi skaðabóta úr hendi stefndu án þess að tilgreina bótafjárhæð.  Í kjölfar matsgerðar þeirra Kristins og Torfa, eða hinn 19. nóvember 2009,  lagði  stefnandi  fram í málinu sundurliðaðar bótakröfur ásamt rökstuðningi.  Krefst stefnandi til viðbótar þegar uppgerðum bótum frekari bóta vegna tíma­bundins atvinnutjóns, sbr. 2. gr. skbl., frekari þjáningabóta  sbr. 3. gr. skbl. og frekari bóta fyrir varanlega örorku, sbr. 5.-7. gr. skbl.  Nemur aðalkrafa stefnanda samtals 11.049.472 krónum en varakrafa 2.510.780 krónum

Málsátæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveðst reisa málssókn sína á 1. mgr. 88. gr., 91. gr. og 95. gr., sbr. 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Bíll stefnda, B.G. Bílakringlunnar ehf., hafi verið tryggður lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. Krafa um skaðabætur sé byggð á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Ekki sé ágreiningur um grundvöll bótaskyldu, enda hafi stefndi viðurkennt bótaábyrgð á slysinu.

Stefnandi bendir á að í matsgerð Kristins Tómassonar geðlæknis og Torfa Magnússonar taugalæknis sé félags- og atvinnusaga stefnanda rakin ítarlega. Þar komi fram að stefnanda hafi gengið mjög illa í skóla og hafi ekki náð grunnskólaprófi. Stefnanda hafi heldur ekki tekist að halda áfram námi í Iðnskólanum í Hafnarfirði vegna þess að námið gekk illa í öllum bóklegum greinum, verst í lestri og stafsetningu, sem bendi til lesblindu. Þá hafi slysið og afleiðingar þess einnig dregið úr námsárangri hans eins og lesa megi í báðum matsgerðunum.

Stefnandi hafi ungur byrjað að vinna sem verkamaður, einkum sem aðstoðarmaður við pípulagnir, enda verkmaður góður þó að námsgeta á bókina sé lakari.

Árið 1998 sé hann þannig með launatekjur alla mánuði ársins samtals 815.214 krónur sem séu full árslaun 15 ára verkamanns, um 65% af meðallaunum fullvinnandi verkamanna það ár. Árið 1999 séu árslaun 874.988 krónur þrátt fyrir að stefnandi sé þá með skerta vinnugetu vegna afleiðinga umferðarslyssins og árið 2000 séu árslaun hans 1.291.444 krónur.

Í matsgerð lýsi matsmenn umferðarslysinu 28. nóvember 1998, hversu áreksturinn var harður og hve alvarlegar afleiðingar hans séu fyrir stefnanda. Alvarleg hryggmeiðsli, hálsbrot sem ekki greindist fyrr en hálfu ári eftir slysið, þrýstingur á mænu, máttleysi í hægri hönd og stöðugt versnandi heilsufar bæði andlega og líkamlega. Þá lýsi matsmenn núverandi einkennum stefnanda og erfiðleikum hans við líkamsbeitingu og hreyfingar. Einnig árangurslausum tilraunum stefnanda til náms í iðnhönnun, úrræðis sem hann hafi reynt að grípa til þegar ljóst hafi orðið hversu vinnugeta hans til líkamlegra krefjandi vinnu, svo sem verkamannavinnu, sé mikið skert.

Niðurstaða dómkvaddra matsmanna sé sú að varanlegur miski Helga vegna líkamlegra og andlegra afleiðinga slyssins sé 35%, þar af 20% vegna líkamlegra einkenna og 15% vegna geðeinkenna. Í fyrra mati Guðmundar Björnssonar og Sigurjóns Sigurðssonar sem lagt hafi verið til grundvallar greiðslu bóta þann 27. desember 2002 hafi miski Helga verið metinn 35% vegna líkamlegra einkenna eingöngu. 15% miski vegna geðeinkenna sé því óbættur.

Varanleg örorka Helga sé metin 40% og taki dómkvaddir matsmenn mið af erfiðisvinnu, iðnaðar- eða verkamannavinnu við það mat sitt, sjá ítarlegan rökstuðning og töflur á bls. 17-18 í matsgerð. Þessu mati hafi stefndu ekki mótmælt.

Deila stefnanda við stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., hafi frá upphafi fyrst og fremst snúist um hvort greiða eigi honum bætur fyrir varanlega örorku samkvæmt mati á tapaðri vinnugetu hans eftir meginreglu 5.-7. gr. skaðabótalaga eða hvort notast þurfi við ófjárhagslegt miskamat samkvæmt 4. gr. skaðabótalaganna og reiknireglu 8. gr. laganna.

Þessi ágreiningur komi strax fram í kröfubréfi lögmanns stefnanda, dags. 27. nóvember 2002, þar sem krafa hans um skaðabætur samkvæmt meginreglu 5. sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sé rækilega rökstudd.

Ekki hafi stefndi, Vátryggingafélag Íslands, fallist á þær röksemdir heldur hafi félagið greitt stefnanda skaðabætur hinn 27. desember 2002 þar sem bætur til hans fyrir varanlega örorku voru ákvarðaðar samkvæmt mati á miska. Vísað sé til 8. greinar skaðabótalaga og „ungs aldurs“ stefnanda en röksemdum í kröfubréfi ekki svarað.

Lögmaður stefnanda hafi tekið við bótagreiðslunni með fyrirvara um alla þætti hennar nema varanlegan miska.

Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína á sömu rökum og fram koma í fyrrnefndu kröfubréfi hans frá 27. nóvember 2002, rökum sem ekki hafi verið hrundið.

Í meginreglu 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga segi berum orðum að valdi líkamstjón varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna eigi tjónþoli rétt á bótum fyrir varanlega örorku. Hafi einhver vafi verið á því að stefnandi hafi uppfyllt þessi skilyrði greinarinnar um bætur fyrir varanlega örorku í árslok 2002, sé enginn vafi á því nú 7 árum síðar að þau skilyrði séu uppfyllt.

Stefnandi hafi takmarkað tjón sitt eftir fremsta megni, reynt að mennta sig, farið úr erfiðisvinnu í léttari vinnu og farið í ný störf þegar þau fyrri reyndust honum um megn. Þrátt fyrir þetta hafi geta hans til að afla vinnutekna þau 11 ár sem liðin séu frá slysinu aðeins verið um helmingur af tekjum í þeim störfum sem ætla má að hefðu verið framtíðarstörf Helga ef slysið hefði ekki átt sér stað, verkamannavinnu eða vinnu iðnaðarmanns.

Sé miðað við lægri launin, laun verkamanna, sé vinnutekjutap stefnanda af völdum umferðarslyssins þessi 9 ár þegar orðið 12.210.971 króna. Heildarbætur frá stefnda fyrir varanlega örorku, þ.e. greiðsla á vinnutekjutapi Helga út alla starfsævi hans hafi numið 3.203.182 krónum. Með þeirri greiðslu telji stefndi tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku hans fullbætt til 67 ára aldurs.

Stefnandi telji réttilega að beita eigi 7. grein skaðabótalaga við útreikning á skaðabótum vegna varanlegrar örorku hans.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eins og lögin hljóðuðu þegar stefnandi slasaðist, skyldi miða útreikning skaðabóta við „heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjón varð“.

Stefnandi hafi slasast 28. nóvember 1998 og samkvæmt staðgreiðsluyfirliti 1997 og 1998 hafi laun hans mánuðina desember 1997 til og með nóvember 1998 numið 836.958 krónum, en stefnandi hafi þá unnið verkamannastörf þrátt fyrir ungan aldur. Þess vegna geti skaðabætur til stefnanda vegna varanlegrar örorku hans aldrei tekið mið af lægri fjárhæð en þessari, auk vísitöluhækkunar.

Stefnandi telji þó rétt að beita 2. mgr. 7. greinar skaðabótalaga um tjónið. Í tilfelli hans eigi þetta ákvæði við vegna þess hve ungur hann var á slysdegi og laun hans þess vegna lág, eða unglingataxti, bætur hans eigi hins vegar að standa undir vinnutekjutapi út alla starfsævina. Í greininni segi að árslaun skuli „meta sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuhögum“.

Meðallaun verkamanna séu því eina raunhæfa viðmiðunin um bætur til stefnanda vegna varanlegrar örorku hans út starfsævina, ekki unglingataxtinn árið 1998.

Á uppgjörsblaði stefnda frá 27. desember 2002 komi fram að greiðsla vegna varanlegrar örorku stefnanda, vinnutekjutap hans út starfsævina, vegna umferðarslyssins, sé reiknuð út samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga. Með þeim útreikningi nemi bætur heilum 3.203.182 krónum eins og áður segi, sem sé fjarstæðukennd niðurstaða, enda dugi sú fjárhæð naumast nema til að bæta tekjutap stefnanda í 2 ár.

8. grein skaðabótalaga sé undantekning frá fyrrnefndum meginreglum laganna um ákvörðun og útreikning bóta fyrir varanlega örorku og eigi einungis við ef engin úrræði eru tiltæk svo reikna megi út bætur samkvæmt meginreglunni. 8. greinin segi að bætur til barna og þeirra tjónþola sem nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafi engar eða takmarkaðar tekjur skuli ákvarða á grundvelli miskastigs. Greinin eigi þannig fyrst og fremst við um fólk sem ekki hafi vinnutekjur vegna veikinda, örorku eða aldurs, en nýti samt vinnugetu sína t.d. til heimilisstarfa eða eigi einhverja möguleika á því að geta aflað vinnutekna síðar. Þess vegna styðjist hún við mat á ófjárhagslegu tjóni, miska, við útreikning greiðslu fyrir varanlega örorku. Henni sé einungis beitt ef ekki sé hægt að sanna fjártjón. Greinin eigi alls ekki við tjónþola í þeirri stöðu sem stefnandi sé. Hann hafi verið á vinnumarkaði á slysdegi í svo gott sem fullu starfi sem verkamaður þrátt fyrir ungan aldur og enn í grunnskóla, enda hafi námið greinilega setið á hakanum eins og rakið sé í báðum matsgerðum.

Samkvæmt venjulegri íslenskri málnotkun hafi stefnandi ekki verið barn, heldur unglingur, 15 ára unglingur, þegar hann slasaðist. Allt að einu hafi hann ekki verið barn eða tjónþoli sem hafi ekki marktækar vinnutekjur í merkingu 8. gr. skaðabótalaga. Greinin eigi ekki við um stefnanda og stöðu hans á slysdegi eða síðar. Hann sé kornungur verkamaður sem hafi haft 836.958 krónur í árslaun síðustu 12 mánuði fyrir umferðarslysið sem hafi gert út af við framtíðaráform hans og skert vinnugetu hans um tæpan helming. Þá hafi hann unnið alla mánuði ársins, bara mismikið, en ekki aðeins um sumarið.

Miðað við að laun stefnanda hafi verið 450 krónur á tímann þessa 12 mánuði, en það eru laun hans vorið 1999, hafi hann unnið samtals l.860 vinnustundir þetta ár, 155 vinnustundir á hverjum mánuði eða 39,5 vinnustundir í viku ef gert sé ráð fyrir 25 daga sumarleyfi. Það sé full dagvinna verkamanns þótt ungur sé að árum.

8. grein skaðabótalaga eigi því engan veginn við um útreikning á vinnutekjutapi Helga vegna 40% varanlegrar örorku í 52 ár frá 15 ára aldri til 67 ára aldurs. Tjón hans sé sannað og þegar staðreynd fyrir árin 2000-2008, það er 12.210.971 króna svo sem áður sé rakið.

Þær lögskýringar sem hér sé beitt um 5., 7. og 8. grein skaðabótalaga eigi sér stað í greinargerð með lögunum.

Fjárhæð bótakröfu

Krafa um greiðslu þjáningabóta og tímabundins atvinnutjóns byggist á matsgerð læknanna Sigurjóns Sigurðssonar og Guðmundar Björnssonar frá 17. september 2002. Þeir hafi metið tímabil þjáningabóta 764 daga, 718.160 krónur, en stefndi hafi skorið þær bætur niður í bætur fyrir 526 daga, 494.080, krónur svo sem sjá megi á uppgjörsblaði félagsins. Ógreiddir séu því 238 dagar og sé krafist greiðslu þeirra miðað við vísitölu nóvember 2004 eða 238.000 króna.

Krafa um greiðslu tímabundins atvinnutjóns að fjárhæð 2.769.878 krónur sé útreiknuð, sundurliðuð og rökstudd í kröfubréfi 27. nóvember 2002. Tímabilið 18 og hálfur mánuður frá júní 1999 byggir á fyrrnefndu mati. Frá útreiknaðri fjárhæð dragist tekjur Helga samkvæmt staðgreiðsluyfirliti þessa mánuði, 1.291.444 krónur árið 2000 og 590.820 krónur júní til desember 1999 þ.m.t. greiðsla stefnda inn á tímabundið atvinnutjón, 154.502 krónur. Eftirstöðvarnar séu 887.614 krónur.

Krafa vegna varanlegrar örorku sé aðallega byggð á meðallaunum verkamanna árið 2004 samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands en þá hafi stefnandi verið 21 árs gamall og hefði þá verið farinn að afla fullra meðallauna verkamanns ef hann hefði ekki slasast. Mánaðarlaunin séu 258.000 krónur að viðbættu 6% lífeyrissjóðsframlagi eða samtals 273.480 krónur, þ.e. 3.281.760 krónur í árslaun. Krafa vegna varanlegrar örorku sé því 3.281.760 x 10 x 40% = 13.127.040 krónur. Frá kröfunni dragist greiðsla stefnda, 3.203.182 krónur. Eftirstöðvar 9.923.858 krónur.

Varakrafa vegna varanlegrar örorku sé byggð á launum stefnanda 12 mánuði fyrir slys, 836.958 krónur, að viðbættum 6%, framreiknað með lánskjaravísitölu frá slysdegi til nóvember 2004 samkvæmt 2. mgr. 15. gr. þágildandi skaðabótalaga, 1.147.087 x 10 x 40% = 4.588.348 - 3.203.182 krónur. Eftirstöðvar 1.385.166 krónur

Aðalkrafan sundurliðist því svo:

1.  Þjáningabætur

238.000 kr.

2.  Eftirstöðvar tímabundins atvinnutjóns

887.614 kr

3.  Eftirstöðvar bóta fyrir varanlega örorku

9.923.858 kr.

Samtals

11.049.472 kr.

                  

Til vara sé krafist greiðslu eftirstöðva tímabundins atvinnutjóns, 238.000 krónur, þjáningabóta, 887.614 krónur, og varanlegrar örorku, 1.385.166 krónur, samkvæmt ofanrituðu, samtals 2.510.780 króna.

Dráttarvaxta sé krafist frá því 4 árum fyrir þingfestingu málsins, en kröfubréf hafi verið sent stefnda 27. nóvember 2002.

Málsástæður stefndu og lagarök

Sýknukrafa stefndu er byggð á því að með þegar uppgerðum skaðabótum til stefnanda sé tjón hans að fullu bætt samkvæmt skaða­bótalögum og eigi hann ekki lögvarinn rétt til frekari bóta úr hendi stefndu. Því til stuðnings bendi stefndu á eftirfarandi:

Um kröfu stefnanda fyrir tímabundið atvinnutjón

Þessi kröfuliður sé áætlaður og miðast við að stefnandi hefði verið í fullu starfi á meðallaunum verkamanna frá miðjum júní 1999 til áramóta 2000/2001, þ.e. meðan tímabundinnar óvinnufærni gætti að mati læknanna Sigurjóns og Guðmundar eða í samtals átján og hálfan mánuð.  Að viðbættu 6% framlagi vinnuveitanda í lífeyrisjóð  reikni stefnandi sér þannig samtals 2.769.878 krónur í ætlaðar vinnutekjur á tímabilinu.  Frá þeirri fjárhæð dragi hann síðan raunverulegar vinnutekjur sínar á tímabilinu, samtals 1.882.264 krónur, þ.m.t. bótagreiðslu stefnda fyrir tímabundið tekju­tap, 154.502 krónur á tímabilinu 26. júní til 31. ágúst 1999 og krefji stefndu um mismuninn, 887.614 krónur, sem óbætt tímabundið atvinnutjón.

Þessi aðferðafræði fái ekki staðist og beri alfarið að hafna þessum kröfulið.    margstaðfest í dómum Hæstaréttar að aðeins beri að bæta sannað  raunverulegt tímabundið  atvinnutjón en ekki áætlað.  Sé ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir frekara tímabundnu atvinnutjóni vegna slyssins en stefndu  hafi þegar bætt.

Sé hér á að líta að stefnandi hafi verið við störf á öllu tímabilinu frá júní 1999 til desember 2000, samkvæmt matsgerð og staðgreiðsluseðlum, eða á sama tímabili og hann sé talinn óvinnufær að mati þeirra Sigurjóns og Guðmundar.  Sé alls ósannað, að stefnandi hefði unnið meira og á hærri launum á þessu tímabili, þótt slysið hefði ekki orðið.  Liggi og ekkert fyrir um það hve mikil sú vinna hefði  þá orðið, hjá hverjum og á hvaða kaupi.  Það fái engan veginn staðist, í  ljósi hins unga aldurs stefnanda, að hann hefði á þessum tíma unnið á við fullorðinn mann og verið á kaupi svarandi til meðallauna verkamanna eins og kröfugerð hans miðast við.  Sé þannig enginn grundvöllur til að verða við þessum kröfulið.

Um kröfu stefnanda  til  þjáningabóta

Stefnandi krefjist samkvæmt þessum kröfulið þjáningabóta í 764 daga eða frá slysdegi þann 28. nóvember 1998 til ármóta 2000/2001 samkvæmt mati þeirra Sigurjóns og Guðmundar.  Sé miðað við 940 krónur á dag.  Nemi krafan  þannig  718.160 krónum.  Stefndu hafi bætt samkvæmt þessum kröfulið  hámark þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga, eða 270.000 krónur,  auk 224.080 króna til viðbótar, sem hafi svarað helmingi kröfu stefnanda umfram hámark.  Þjáningabætur hafi þannig numið samtals 494.080 krónum , sem svari  þjáningabótum í 526 daga eða í 17 mánuði.  Hafi þar verið vel í lagt.  Stefnandi krefjist hins vegar mismunarins,  224.080 króna,  auk vísitölubóta miðað við vísitölu í nóvember  2004, eða þannig samtals 238.000 króna í viðbótarþjáningabætur.

Ekki séu skilyrði til frekari þjáningabóta en stefndu hafi þegar bætt.  Beri því einnig að hafna þessum kröfulið. Í því sambandi athugist að það sé skilyrði þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga að tjónþoli sé veikur á tímabilinu, en tjónþoli teljist ekki vera veikur í skilningi ákvæðisins meðan hann stundar vinnu eða nám.  Hafi það verið staðfest í dómum Hæstaréttar.  Stefnandi hafi verið í grunnskóla, þegar hann varð fyrir slysinu í nóvember 1998.  Þá hafi hann verið í vinnu frá  júní 1999 til desember 2000 og síðan aftur í skóla frá ársbyrjun 2001. Stefnandi hafi því verið við nám og störf á því sama tímabili og hann krefjist þjáningabóta fyrir og því hafi hann ekki verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga.  Sé ósannað að lagaskilyrði séu til frekari þjáningabóta en stefndi VÍS hafi  þegar bætt og beri alfarið að hafna þessum kröfulið.

Um kröfu stefnanda til bóta fyrir varanlega örorku

Stefnandi krefjist bóta samkvæmt þessum lið á grundvelli  5.-7. gr. skaðabóta­laga.  Vilji hann að árslaun verði ákveðin sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, og að miðað verði við meðallaun verkamanna árið 2004 eða 258.000 krónur á mánuði. Nemi árslaunaviðmiðun stefnanda að viðbættu 6% líf­­eyris­sjóðsframlagi vinnuveitanda þannig 3.281.760 krónum. Nemi  bóta­krafan fyrir varanlega örorku 13.127.040 krónum (3.281.760 x 10 x 40%).  Frá fjárhæðinni dragi stefnandi  bæturnar frá stefnda VÍS fyrir varanlega örorku, 3.281.760 krónur og krefji stefndu um mismuninn, 9.923.858 krónur. 

Af hálfu stefndu er því mótmælt að skilyrði séu til að greiða stefnanda bætur fyrir varanlega örorku á grundvelli  5.-7. gr. skaðabótalaga heldur  beri stefnanda bætur á grundvelli miskastigs,  sbr. 1. mgr. 8. gr.  skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og byggt hafi verið á við bótauppgjörið þar sem stefnandi hafi verið barn í skilningi 1. mgr. 8. gr. skaða­­bóta­laga, þegar slysið varð.   Eigi stefnandi því ekki rétt til frekari bóta fyrir varanlega örorku.  Þessu til stuðnings  bendi  stefndu á eftirfarandi:

Stefnandi hafi aðeins verið 15 ára að aldri á slysdegi og því barn í lagaskilningi, en einstaklingar yngri en 18 ára teljist almennt í lögum til barna og sama sé að segja um hugtakið barn í 1. mgr. 8. gr. skaðabótalaga. 

Þannig teljist einstaklingar yngri en 18 ára til barna samkvæmt 1. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 20. nóvember 1989 um réttindi barnsins. Í lögum um umboðsmann barna nr. 83/1994 sé einnig með hugtakinu barn átt við einstakling allt að 18 ára aldri, sbr. 1. gr. laganna.  Í barnaverndarlögum gildi það sama, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1992, sbr. 1. gr. laga nr. 160/1998, sbr. 3. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.  Í barnalögum nr. 20/1992 sé og gert  ráð fyrir því að einstaklingar yngri en 18 ára teljist til barna, sbr. 13. gr. um lok framfærsluskyldu og sbr. 29. gr. um lok forsjár­réttar og forsjárskyldu, sbr. nú 28. og 61. gr. l. 76/2003, þegar barn verður sjálfráða, sem er við 18 ára aldur samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997.  Barnalífeyrir samkvæmt 14. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993, sbr. nú 20. gr. laga nr. 100/2007, miðist og við einstaklinga allt að 18 ára aldri.  Sama gildi um mæðra- og feðralaun, sbr. 2. gr. laga um bætur fyrir félagslega aðstoð nr. 118/1993, sbr. nú 2. gr. l. nr. 99/2007. Ungmenni séu hins vegar ein­staklingar á aldrinum 18-20 ára, sbr. 1. gr. laganna. 

Með hugtakinu börn í 1. mgr. 8. gr. dönsku skaðabótalaganna nr. 228/1984 (EAL), sem hafi verið fyrirmynd 1. mgr. 8. gr. hinna  íslensku skaðabótalaga nr. 50/1993, sé líka átt við persónur undir 18 ára aldri, sjá Erstatnings- ansvarsloven med kommentarer, 5. útg. 1999, bls. 202.  Beri hér allt að sama brunni.  Sé því nærtækast að skýra hugtakið börn í 1. mgr. 8. gr. hinna íslensku skaðabótalaga nr. 50/1993  á sama veg, enda ekkert í lögskýringargögnum með skaðabótalögunum, sem bendi í aðra átt, eða í lögræðislögunum eða öðrum lögum.  Í 14. gr. skaðabótalaga um bætur til barna vegna missis framfæranda sé og átt við einstaklinga til 18 ára aldurs. 

Að framangreindu virtu standi öll rök til þess að skýra hugtakið barn í 1. mgr. 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þannig að átt sé við persónur undir 18 ára aldri.  Þá athugast í þessu sambandi að tekið sé sérstaklega fram í athugasemdum með  8. gr. í frumvarpinu til laga nr. 50/1993  að bætur til  barna „ber að ákveða eftir 8. gr. hvort sem þau hafa vinnutekjur eða ekki“.  Skipti því engu máli hér að stefnandi, sem aðeins var 15 ára að aldri á slysdegi og enn í grunnskóla, hafði aflað sér tekna með sumar­vinnu fyrir slysið.  Beri í þessu efni að miða við stöðuna eins og hún var á slysdegi. Sé og ósannað að stefnandi hafi verið búinn að marka sér framtíðar starfsvettvang er slysið varð, enda sé þess ekki að vænta þegar litið sé til hins unga aldurs hans. Skorti þannig lagaskilyrði til að verða við kröfu stefnanda um frekari bætur fyrir varanlega örorku.

Verði ekki á það fallist og stefnandi verði talinn eiga rétt á bótum á grundvelli 5.-7. gr. skaðabótalaga í stað bóta á grundvelli miskastigs, sbr. 1. mgr. 8. gr., þá byggi stefndu á því að við ákvörðun bóta beri að miða við raunverulegar vinnutekjur stefnanda sjálfs síðustu 12 mánuði fyrir slysið en ella við meðallaun ófaglærðra verkamanna á því sama tímabili. 

Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé mótmælt en réttur til dráttarvaxta hafi í fyrsta lagi stofnast mánuði eftir framlagningu sundurliðaðrar kröfugerð­ar stefnanda þann 19. nóvember  2009  á grundvelli matsgerðar þeirra Kristins og Torfa frá 8. júní 2009, en fyrr varð ekki tekin afstaða til kröfu stefnanda eins og hún liggur nú fyrir, sbr. 9. gr.

vaxtalaga nr. 38/2001.

Niðurstaða

Ekki er í máli þessu deilt um bótaskyldu heldur einungis bótafjárhæð. Eins og rakið hefur verið fór bótauppgjör fram hinn 27. desember 2002. Þar sem stefnandi var ekki sáttur við uppgjörið tók hann við greiddum bótum með fyrirvara. Hefur hann höfðað mál þetta á hendur stefndu til greiðslu frekari bóta en hann fékk með uppgjörinu 27. desember 2007. Krefst hann þjáningabóta að fjárhæð 238.000 krónur, bóta vegna tímabundins atvinnutjóns, 887.614 krónur, og bóta fyrir varanlega örorku að fjárhæð 9.923.858 krónur eða samtals 11.049.472 króna.

Lög nr. 37/1999 um breytingu á skaðabótalögum nr. 50/1993 tóku gildi 1. maí 1999. Í 15. gr. laga nr. 37/1999 segir að lögin eigi við um skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem verði rakið til bótaskylds atviks eftir gildistöku laganna. Stefnandi lenti í slysi 28. nóvember 1998. Um ákvörðun bóta honum til handa gilda því lög nr. 50/1993 eins og þau voru fyrir lagabreytinguna 1999.

Tímabundið tekjutap

Í 2. gr. laga nr. 5/1993 segir að bætur fyrir atvinnutjón skuli ákveða fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli geti hafið vinnu að nýju eða þar til ekki er að vænta frekari baka. Samkvæmt matsgerð læknanna Sigurjóns Sigurðssonar og Guðmundar Björnssonar er við mat á tímabundnu atvinnutjóni miðað við að þegar slysið átti sér stað var stefnandi enn í skóla. Hann hætti í skólanum vorið 1999 en eftir það hóf hann störf við pípulagnir en gafst upp á því sumarið 1999 og vann ekkert frá því um mitt sumar 1999 þar til hann hóf störf hjá Byko vorið 2000. Um það leyti sem hann hætti vinnu sumarið 1999 uppgötvaðist að um væri að ræða brot á hálslið ásamt liðhlaupi. Þar með breyttist meðferðin og var honum ráðlagt að vinna ekki þar til hann væri orðinn gróinn á hálsi og talið að það tæki hálft ár eða fram yfir áramótin 2000/2001. Telja matsmenn því að tímabundið atvinnutjón sé þann tíma eða frá miðjum júní 1999 til áramóta 2000/2001.

Við ákvörðun bóta vegna tímabundins tekjutaps ber að taka mið af raunverulegu tekjutapi tjónþola. Fyrir liggur að stefnandi var 15 ára er slysið varð. Hann var  í skóla en vann með náminu. Gögn um nákvæmar launatekjur hans fyrir slysið liggja ekki fyrir. Stefndi VÍS greiddi stefnanda áætlað tímabundið tekjutjón vegna tímabilsins 26. júní til 31. ágúst 1999, 154.502 krónur. Þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að raunverulegt tekjutap hans hafi verið meira en því nemur. Er  þessari kröfu hans því hafnað.              

Þjáningabætur

Samkvæmt matsgerð telst tímabil þjáninga vera frá slysdegi til áramóta 2000/2001 þar af engin rúmlega. Er þetta tímabil 764 dagar. Stefndi VÍS greiddi stefnanda þjáningabætur fyrir 526 daga. Telur stefnandi því að ógreiddir séu því 238 dagar og krefst bóta fyrir þá að fjárhæð 238.000 krónur.

Í matsgerð kemur fram að eftir að skóla lauk vorið 1999 hóf stefnandi störf við pípulagnir en gafst upp á þeim af heilsufarsástæðum um sumarið. Þá kom í ljós að um væri að ræða brot á hálslið ásamt liðhlaupi og hafi honum verið ráðlagt að vinna ekki þar til hann væri orðinn gróinn á hálsi. Var talið að það tæki hálft ár. Í áverkavottorði Gunnars B. Gunnarssonar læknis, dags. 14. október 2000, segir að stefnandi hafi leitað á slysamóttöku 31. júlí 2000, Í vottorðinu segir að hann sé verulega slæmur í hálsi þrátt fyrir að röntgenmyndir sýni viss teikn um að liðirnir gætu gróið saman. Í ljósi þessa ber að fallast á að stefnandi hafi verið veikur í skilningi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1993 til áramóta 2000/2001 þrátt fyrir að hann hafi stundað nám og reynt að stunda vinnu að einhverju leyti á þessu tímabili. Ber því að fallast á kröfu hans um þjáningabætur.

Bætur vegna varanlegrar örorku

Ágreiningur aðila um varanlega örorku lýtur að því hvort við uppgjör bóta hafi átt að styðjast við 5.-7. gr. skaðabótalaganna eins og stefnandi heldur fram eða við 1. mgr. 8. gr. laganna og meta varanlega örorku á grundvelli miskastigs eins og gert var við uppgjörið 27. desember 2002.

Í 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaganna sem í gildi voru á umræddum tíma segir að bætur vegna varanlegrar örorku skuli meta til fjárhæðar sem nemi 7,5 földum árslaunum tjónaþola, sbr. 7. gr., margfölduðum með örorkustigi, sbr. 3. mgr. 5. gr.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skulu árslaun teljast vera heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjónið varð. Samkvæmt 2. mgr. skulu árslaun þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuhögum. Í athugasemdum með frumvarpi laganna segir m.a. í umfjöllun um 7. gr. laganna: „Um tjónþola , sem ekki fá laun í tengslum við nám, fer eftir ákvæðum 8. gr. frumvarpsins. Þar eru sérstakar reglur um útreikning bóta til barna, unglinga í skóla og þeirra sem vinna heimilisstörf. Þörf er á þeim vegna þess að ekki er unnt að miða við árslaun þegar þessir tjónþolar eiga hlut að máli.“

Í 8. grein skaðabótalaganna segir að bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafi engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skuli ákvarða á grundvelli miskastigs samkvæmt 4. gr. Bætur skuli ákveðnar sem hundraðshluti af bótum fyrir varanlegan miska eftir reglum 1.-4. málsl. 1. mgr. 4. gr.

Í athugasemdum með lagafrumvarpinu segir um 8. gr. að í þessari grein séu reglur um ákvörðun bóta til þjónþola sem nýti starfsgetu sína þannig að í mörgum tilvikum sé ekki um neinar atvinnutekjur að ræða og þess vegna sé ekki unnt að nota árslaun til þess að ákveða bætur samkvæmt 6. og 7. gr. Þar segir einnig: „Þegar draga skal mörkin milli 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. verður almennt að telja að 2. mgr. 7. gr. verði beitt um þann sem vinnur minna en hálft starf utan heimilis. Reglum 8. gr. skal beitt um ungt námsfólk þótt það afli tekna í vinnu með námi og án tillits til tekna af þess konar vinnu, svo framarlega sem nemandinn stundar í reynd nám með eðlilegum hætti.“

Stefnandi var 15 ára gamall og á síðasta ári í grunnskólanámi þegar hann varð fyrir slysinu. Stefnandi aflaði sér atvinnutekna með náminu. Laun fyrir þá vinnu tengdust ekki námi hans. Samkvæmt þeim lagaákvæðum er í gildi voru á þeim tíma er slysið varð, og rakin eru hér að framan, ber, um bætur til stefnanda, að fara eftir 1. mgr. 8. gr. laga nr. 50/1993.

Samkvæmt lokauppgjöri, dags. 27. desember 2002, var miðað við að varanlegur miski væri 35% og er það í samræmi við matsgerð dómkvaddra matsmanna. Við uppgjör bótanna voru bætur vegna varanlegrar örorku ákvarðaðar á grundvelli miskastigs í samræmi við 1. mgr. 8 gr. skaðabótalaganna. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að honum beri hærri bætur vegna varanlegrar örorku en hann fékk greiddar í samræmi við uppgjörið frá 2002.

Samkvæmt framansögðu ber stefndu að greiða stefnanda 238.000 krónur í þjáningabætur en stefndu skulu vera sýkn af kröfu um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns og kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku.

Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 27. nóvember 2004. Við uppgjörið er fram fór á árinu 2007 lágu fyrir öll gögn varðandi rétt stefnanda til þjáningabóta. Krafa stefnanda verður því tekin til greina eins og hún er fram sett. Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 500.000 krónur, og útlagður kostnaður, 643.200 krónur, eða samtals 1.143.200 krónur greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, BG Bílakringlan ehf. og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði in solidum stefnanda, Helga Lars Jóhannssyni, 238.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2004 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 500.000 krónur, og útlagður kostnaður, 643.200 krónur, eða samtals 1.143.200 krónur, greiðist úr ríkissjóði.