Hæstiréttur íslands

Mál nr. 202/2004


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Laun
  • Sjómaður
  • Uppsögn
  • Kjarasamningur
  • Riftun


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004.

Nr. 202/2004.

Guðni Þór Gunnarsson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Burðarási hf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

 

Sjómenn. Ráðningarsamningur. Kjarasamningur. Laun. Uppsögn. Riftun.

G hóf störf sem vélstjóri á skipi Hf. E á árinu 1999. Gegndi hann því starfi uns skipið var selt til Frakklands. Var það afhent nýjum eigendum í Danmörku 25. september 2002 og fór áfrýjandi þangað með skipinu. Með bréfi 30. september sama árs var G sagt upp starfi sínu hjá Hf. E. Í máli sem G höfðaði á hendur Hf. E vegna þessa var deilt um hvort hann hafi verið ráðinn í skiprúm á umræddu skipi félagsins, en ekki ótilgreind skip þess svo og um fjárhæð launa á uppsagnarfresti. Talið var að sá, sem héldi því fram að ráðning sjómanns hafi verið miðuð við störf á ótgreindum skipum útgerðar, hefði sönnunarbyrði fyrir því. Hafi E hf. ekki tekist sú sönnun. Hafi ráðningu G því verið rift með sölu skipsins og afhendingu þess til erlends kaupanda, enda hafi Hf. E ekki sýnt fram á að G ætti kost á áframhaldandi starfi. Samkvæmt því eigi G rétt til bóta samkvæmt 25. gr. sjómannalaga, sem miðist við kaup fyrir fulla vinnu á öllum uppsagnarfrestinum, óháð því hvort vinnufyrirkomulag um borð hafi verið með öðrum hætti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. maí 2004. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 657.008 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi hóf störf sem vélstjóri á Lagarfossi 2. júní 1999. Skipið var í eigu Hf. Eimskipafélags Íslands, en mun hafa verið skráð í Antigua. Gegndi hann því starfi uns skipið var selt til Frakklands. Var það afhent nýjum eigendum í Danmörku 25. september 2002 og fór áfrýjandi þangað með skipinu. Með bréfi 30. september 2002, sem barst áfrýjanda 2. október sama árs, var honum sagt upp starfi sínu „hjá Hf. Eimskipafélagi Íslands með lög og samningsbundnum fyrirvara.“ Ágreiningslaust er að uppsagnarfrestur áfrýjanda var þrír mánuðir. Áfrýjandi fór eina ferð, frá 3. október 2002 til 31. sama mánaðar, sem vélstjóri á Skógafossi skipi félagsins en sinnti ekki frekari störfum fyrir það eftir að hann fékk uppsagnarbréfið.

Kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins og Vélstjórafélags Íslands um kaup og kjör yfirvélstjóra, vélstjóra og vélavarða á kaupskipum, sem öðlaðist gildi 1. nóvember 2000, gilti um kjör áfrýjanda. Með þessum kjarasamningi voru gerðar umfangsmiklar breytingar á launakerfi vélstjóra á kaupskipum. Samkvæmt 1. grein samningsins skyldu mánaðarlaun vélstjóra almennt miðast við 40 stunda vinnuviku. Ákvæði um fjárhæð mánaðarlauna vélstjóra og vélavarða voru í grein 1.3. Í grein 1.4.1. var kveðið á um að dagkaup fyrir hvern virkan lögskráningardag fengist með því að deila með 21,67 í mánaðarlaunin. Í grein 1.5. var fjallað um persónubundin laun, en samkvæmt því ákvæði skyldu útgerðarmaður eða yfirvélstjóri fjalla árlega um „markmiðstengda frammistöðu vélstjóra ...“ og í framhaldi af því um kaup og kjör viðkomandi vélstjóra þar sem meðal annars skyldi tekið tillit til árangurs, hæfni, starfsaldurs og ábyrgðar hans. Í grein 1.7. var fjallað um svonefnt fastlaunakerfi. Efnislega fólst í ákvæðinu að í stað þeirra fjölmörgu launaþátta sem áður mynduðu laun vélstjóra kæmi heildarlaun. Þá var við það miðað að í upphafi árs væri gert samkomulag milli útgerðar og vélstjóra um þann fjölda vinnudaga (sjódaga), sem áætlað væri að viðkomandi vélstjóri myndi vinna á komandi ári. Árslaun hvers vélstjóra voru síðan reiknuð sem margfeldi heildarlauna á dag og áætlaðs fjölda sjódaga. Þannig reiknuðum árslaunum skyldi síðan dreift jafnt á alla mánuði ársins án tillits til þess hversu marga daga vélstjóri vann í hverjum mánuði.

Meðal gagna málsins er „persónubundinn samningur“ áfrýjanda og Hf. Eimskipafélags Íslands 10. október 2000, sem virðist gerður í samræmi við grein 1.5. í framangreindum kjarasamningi. Þá er meðal gagna málsins ódagsett skjal, sem undirritað er af áfrýjanda, og ber yfirskriftina: „Drög að ákvæðum um laun.” Kemur þar fram að daglaun áfrýjanda á árinu 2002 séu 17.099 krónur og að miðað sé við 225 daga vinnuskil. Ekki er ágreiningur um að þetta skjal sé útfærsla gagnvart áfrýjanda á fyrrnefndu fastlaunaákvæði í grein 1.7. kjarasamningsins. Í samræmi við þetta greiddi Hf. Eimskipafélag Íslands áfrýjanda 320.613 krónur á hverjum mánuði ársins 2002. Áfrýjandi ritaði félaginu bréf 6. janúar 2003. Taldi hann það hafa vangreitt sér laun í uppsagnarfresti og gerði kröfu um það sem hann taldi á vanta. Þeirri kröfu hafnaði félagið með bréfi 22. sama mánaðar. Höfðaði áfrýjandi mál þetta 18. febrúar 2003. Áfrýjandi telur að Burðaráss hf. hafi tekið við réttindum og skyldum Hf. Eimskipafélags Íslands og taki því við aðild málsins af síðarnefnda félaginu. Stefndi  hefur ekki uppi kröfur vegna aðildar sinnar að málinu.

II.

Áfrýjandi reisir kröfu sína á því að hann hafi verið ráðinn til starfa sem vélstjóri á Lagarfossi en ekki á ótilgreindum skipum Hf. Eimskipafélags Íslands. Með sölu skipsins til Frakklands og afhendingu þess til nýrra eigenda 25. september 2002 hafi félagið vikið sér úr skiprúmi og eigi hann vegna þess rétt á bótum samkvæmt 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Bætur samkvæmt 25. gr. laganna feli í sér greiðslu á fullu kaupi í uppsagnarfresti, sem sé þrír mánuðir skv. 9. gr. þeirra. Skuli þær bætur samkvæmt dómvenju miðaðar við að áfrýjandi hafi unnið allan uppsagnarfrestinn. Fimm vélstjórar hafi gegnt þremur vélstjórastöðum um borð í Lagarfossi og hafi því verið skiptimannakerfi við vélavörslu á skipinu. Laun vélstjóra séu miðuð við vinnudaga eða lögskráningardaga þannig að þeir fái einungis greidd laun fyrir hvern unnin dag. Hafi nýir kjarasamningar árið 2000 engu breytt þar um. Í svonefndu fastlaunakerfi þeirra samninga felist einungis jöfn dreifing á greiðslum á mánuði ársins. Gerir áfrýjandi kröfu um að stefndi greiði sér laun fyrir alla 90 daga uppsagnarfrestsins, 17.099 krónur á dag, að frádregnum þeim greiðslum sem Hf. Eimskipafélag Íslands hefur þegar greitt vegna tímabilsins.

Stefndi telur að áfrýjandi hafi verið ráðinn sem vélstjóri hjá Hf. Eimskipafélagi Íslands en ekki í skiprúm á tilteknu skipi. Hafi sala Lagarfoss því ekki jafngilt brottvikningu áfrýjanda úr skiprúmi og ekki skapað bótaskyldu samkvæmt 25. gr. sjómannalaga. Um laun í uppsagnarfresti gildi því 27. gr., sbr. 9. gr. sjómannalaga. Með framangreindum kjarasamningi hafi verið komið á fastlaunakerfi hjá vélstjórum á kaupskipum. Samkvæmt því hafi áfrýjandi átt rétt á föstum mánaðarlaunum, sem ákveðin hafi verið með fyrrgreindum samningi 10. október 2000 og ódagsettum „drögum að ákvæðum um laun.“ Hafi félagið greitt honum þessi umsömdu laun á uppsagnarfrestinum að fullu. Þá bendir stefndi á að launakjör og launafyrirkomulag skipverja á kaupskipum sé gjörólíkt því sem gildi um fiskimenn. Hafi dómar í ágreiningsmálum milli útgerða og skipverja fiskiskipa því ekki fordæmisgildi í máli þessu.

III.

Í sjómannalögum er á því byggt að sjómenn séu ráðnir í tiltekið skiprúm. Hefur sá, sem heldur því fram að ráðning sjómanns hafi verið miðuð við störf á ótilgreindum skipum útgerðar, sönnunarbyrði fyrir því, sbr. dóm Hæstaréttar 1. febrúar 2001 í máli nr. 294/2000. Ekki verður séð að gerður hafi verið skriflegur ráðningarsamningur við áfrýjanda í upphafi ráðningar hans, sbr. 6. gr. sjómannalaga. Vegna útfærslu nýrra kjarasamninga var hins vegar gerður við hann framangreindur samningur 10. október 2000. Í honum er áfrýjandi titlaður „vélstjóri á M/S Lagarfossi“, en efnisákvæði samningsins taka ekki af skarið um hvort áfrýjandi var ráðinn í tiltekið skiprúm. Til stuðnings því að áfrýjandi hafi verið ráðinn á ótilgreind skip Hf. Eimskipafélags Íslands hefur stefndi bent á framangreint orðalag uppsagnarbréfsins 30. september 2002, störf áfrýjanda um borð í Skógafossi í október 2002 og það að fyrrgreindur kjarasamningur gerir ráð fyrir þeim möguleika að vélstjórar séu ekki ráðnir í tiltekið skiprúm. Ekki verður talið með þessu hafi stefnda tekist sönnun þess að áfrýjandi hafi verið ráðinn á ótilgreind skip félagsins og verður því lagt til grundvallar að áfrýjandi hafi verið ráðinn í skiprúm á Lagarfossi.

Með sölu skipsins til Frakklands og afhendingu þess til erlends kaupanda í september 2002 var ráðningu áfrýjanda rift, enda hefur ekki verið sýnt fram á að hann hafi átt kost á áframhaldandi starfi um borð. Hann á því rétt til bóta samkvæmt 25. gr. sjómannalaga. Aðila greinir á um, eins og að framan er rakið, hvers eðlis laun samkvæmt fyrrgreindum kjarasamningi eru. Af grein 1.7. í kjarasamningnum verður ekki betur séð en að vélstjórar á kaupskipum fái eftir sem áður einungis laun fyrir þá daga sem þeir vinna. Fyrir héraðsdómi voru þeir Helgi Laxdal, formaður Vélstjórafélags Íslands, og Haukur Már Stefánsson, forstöðumaður skipa- og tæknirekstrardeildar Hf. Eimskipafélags Íslands, beðnir að skýra hið nýja launakerfi. Voru þeir sammála um að í hinu nýja fyrirkomulagi hafi fyrst og fremst falist einföldun og jöfnun á greiðslutilhögun launa. Verður því ekki fallist á það með stefnda að með kjarasamningnum hafi verið komið á kerfi fastra mánaðarlauna hjá vélstjórum á kaupskipum. Með dómi Hæstaréttar í dómasafni 1990 á bls. 1246 var mörkuð sú stefna við skýringu á 25. gr. sjómannalaga að bætur skuli  miðast  við kaup viðkomandi sjómanns fyrir fulla vinnu á öllum uppsagnarfrestinum, óháð því hvort vinnufyrirkomulag um borð hafi verið með öðrum hætti. Hefur rétturinn fylgt því í síðari dómum, sbr. nú síðast dóm 28. október 2004 í máli nr. 210/2004. Verður ekki talið að unnt sé að beita annarri skýringu á þessu ákvæði gagnvart farmönnum en gert hefur verið þegar fiskimenn eiga í hlut. Þar sem ekki verður heldur fallist á varakröfu stefnda verður, í samræmi við það sem að framan er rakið, krafa áfrýjanda tekin til greina og stefndi dæmdur til að greiða honum 657.008 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Burðarás hf., greiði áfrýjanda, Guðna Þór Gunnarssyni, 657.008 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2003 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 400.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2004

I

             Mál þetta, sem dómtekið var hinn 18. febrúar sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Guðna Þór Gunnarssyni, Bergsmára 11, Kópavogi, á hendur Eimskipafélagi Íslands, Pósthússtræti 2, Reykjavík, með stefnu birtri hinn 18. febrúar 2003 og þingfestri hinn 20. febrúar sama ár.

             Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 657.008 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2003 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar, að skaðlausu, úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

             Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að stefnukrafan verði lækkuð verulega.  Stefndi krefst og málskostnaðar, að skaðlausu, úr hendi stefnanda.

II

             Málavextir eru þeir, að stefnandi hóf störf, sem vélstjóri, á ms. Lagarfossi 2. júní 1999 og gegndi þeim starfa til 2. október 2002.  Lagarfoss var í eigu og útgerð stefnda, en skipið var selt til Frakklands og afhent nýjum eigendum 25. september 2002.  Stefnandi sigldi með skipinu til Danmerkur, þar sem afhending þess fór fram, en kom heim til Íslands skömmu fyrir mánaðamótin september/október 2002.  Stefnandi kveður ráðningu sína hafa verið bundna við skipið, en því hefur stefndi mótmælt. 

             Stefnandi fór eina ferð með ms. Skógarfossi, sem gerður er út af stefnda, á uppsagnarfresti sínum hjá stefnda, tímabilið 3. október 2002 til 31. október 2002.

             Launakjör stefnanda í uppsagnarfresti voru miðuð við svokallað „jafnlaunakerfi”, þ.e. greidd laun að meðaltali á mánuði eftir að gert hafi verið ráð fyrir heildarfrítöku hans árið 2002.

             Stefnandi kveður ráðningarkjör sín hafa verið þau, að hann sinnti skipsstörfum á ms. Lagarfossi í 225 daga á ári.  Hann hafi því verið í fríi í 140 daga og þegið laun fyrir frídagana.  Heildarlaunum hans hafi hins vegar verið deilt janft niður á árið, þannig að mánaðarlaun hans yrðu ávallt þau sömu hvort sem hann hafi verið í fríi eða ekki.  Eftir að ráðningunni var slitið hélt stefndi áfram að greiða honum laun sem byggi á framangreindu „jafnlaunakerfi”.  Stefnandi telur sig hins vegar eiga rétt á „fullum launum” í uppsagnarfresti, launagreiðslum miðað við full vinnuafköst í uppsagnarfrestinum, en ekki að teknu tilliti til mögulegrar frítöku hans yfir árið.

             Með bréfi, dagsettu 6. janúar 2003, krafði stefnandi stefnda um vangreidd laun í uppsagnarfresti, að fjárhæð 802.007 krónur.  Eftir það, eða hinn 1. febrúar 2003, greiddi stefndi stefnanda 162.441 krónu, vegna vangreiddra launa til mánaðamóta september/október 2002.

             Með bréfi stefnda, dagsettu 22. janúar 2003, hafnaði stefnandi kröfum stefnda.

III

             Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að stefndi skuldi honum umstefnda fjárhæð vegna vangoldinna launa í uppsagnarfresti, tímabilið 1. október 2002 til 31. desember 2002.  Stefnanda hafi verið greidd 919.091 króna í laun vegna fyrrgreinds tímabils, en hann hafi átt rétt á 1.538.910 krónum í laun fyrir þennan tíma.  Mismunurinn, 619.819 krónur, séu því vangreidd laun.  Við þá fjárhæð bætist 6% vegna glataðra lífeyrisréttinda, eða 37.189 krónur.

             Stefnandi byggir á því, að við sölu á ms. Lagarfossi til Frakklands hafi ráðningu hans á skipinu verið rift, sbr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Stefnandi kveðst ekki sjálfur hafa lýst yfir riftun á skipsrúmssamningi sínum og hafa beðið átekta í nokkra daga eftir að afhending skipsins hafði farið fram.  Stefndi hafi hins vegar staðfest riftun skipsrúmssamningsins með uppsagnarbréfi dagsettu 30. september 2002, sem borist hafi stefnanda 2. október 2002.  Beri honum því laun til 2. janúar 2003, eða þremur mánuðum eftir að honum hafi verið kunngerð uppsögnin.

             Stefnandi byggir á því, að við útreikning launa í uppsagnarfresti, sem sé þrír mánuðir, samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga, verði að líta til 25. gr. sömu laga, sbr. og 1. mgr. 22. gr. laganna.  Ákvæði 25. gr. hafi verið túlkað svo að sjómaður eigi rétt til „fullra launa” í uppsagnarfrestinum, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni réttarins frá 1990, bls. 1246, þrátt fyrir að hann hafi sannanlega samið um tiltekið skiptimannakerfi við útgerðarmanninn.  Sjómennskan bjóði ekki upp á stanslausa vinnu allt árið með fimm vikna orlofi á hverju sumri eins og hjá launþegum sem starfi í landi.  Ljóst sé þó, að miða beri laun sjómanna í uppsagnarfresti við full vinnuafköst allan uppsagnartímann, burtséð frá því hvernig frítöku þeirra almennt sé háttað, eins og gert sé í nýlegum dómi Hæstaréttar í málinu nr.: 319/2002, en þar sé skýrt tekið fram að meðallaun skuli miðast við lögskráningardaga (vinnudaga), en ekki ráðningardaga (almanaksárið).  Beri því að miða við heildarlaun viðkomandi sjómanns á síðustu tólf mánuðum að hámarki en ella frá áramótum til ráðningarslita ef tímabilið sé að öðru leyti nógu langt.  Launakerfi stefnda feli í sér að árslaunum stefnanda sé deilt jafnt á hvern einasta mánuð ársins burtséð frá frítöku hans.  Stefnandi eigi rétt til fullra launa í uppsagnarfrestinum og verði þá að taka tillit til þeirra launa, sem honum beri, miðað við full vinnuafköst.  Árslaun stefnanda hafi numið 3.847.356 krónum miðað við 225 skráningardaga (vinnudaga) eða að meðaltali 17.009 krónum á dag.  Dagvinnulaunin séu margfölduð með 90 (uppsagnarfrestur samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga) og nemi því 1.538.910 krónum.  Til frádráttar þeirri fjárhæð komi þegar greidd laun í uppsagnarfrestinum, samtals 919.091 króna.

             Um lagarök vísar stefnandi til sjómannalaga nr. 35/1985, sérstaklega 1. gr., 6. gr., 9. gr., 22. gr., 25. gr. og 27. gr. laganna.

             Þá vísar stefnandi til hæstaréttardóma í málunum nr. : 284/1999, 251/1989, 126/1989, 187/1992, 319/2002, 189/2001, 457/2001 og 187/2001.

             Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

             Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

             Kröfu um virðisaukaskatt byggir stefnandi á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

IV

 

             Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því, að hann hafi þegar greitt stefnanda laun, sem hann eigi rétt á samkvæmt kjarasamningi vélstjóra á kaupskipum og sjómannalögum nr. 35/1985.

             Stefndi telur stefnanda byggja kröfugerð sína á því sem tíðkist meðal fiskimanna og útgerðar fiskiskipa.  Stefndi telur það hins vegar ekki eiga við um úrlausn þessa máls, þar sem byggt sé á ólíkum reglum og kjarasamningum.

             Stefndi mótmælir því, sem röngu og ósönnuðu, að stefnandi hafi verið ráðinn vélstjóri á ákveðið skip.  Stefnandi hafi verið ráðinn til starfa á skip stefnda eins og venja sé til hjá íslenskum kaupskipaútgerðum.  Ákvæði 7. kafla fyrrgreinds kjarasamnings byggi m.a. á þessu.  Stefnandi hafi gert fastlaunasamning við stefnanda, í samræmi við ákvæði 1. kafla kjarasamningsins.  Stefndi telur stefnanda rugla saman reglum og ákvæðum, sem gildi um fiskiskip og kaupskip.  Undirmenn á kaupskipum séu ráðnir á ákveðið skip, en yfirmenn til útgerða.  Annar háttur tíðkist á fiskiskipum, þar sem bæði undir- og yfirmenn séu ráðnir á ákveðið skip.

             Mótmælir stefndi því, að dómar um úrlausnir í ágreiningsmálum fiskimanna við útgerðir fiskiskipa hafi fordæmisgildi í þessu máli, þar sem ólíku sé saman að jafna.  Launakjör á kaupskipum líkist frekar launakjörum starfsmanna í landi en launakjörum fiskimanna.  Vélstjórar á kaupskipum fái ekki vaktafrí jafn reglulega og gerist í landi.  Þeir fái ekki frí um hverja helgi heldur safni fríunum saman, eins og fram komi í frídagaákvæðum 8. kafla.  Vinnuár þeirra byggist því í raun á 5 daga vinnuviku, sbr. ákvæði gr. 1.7.3 í kjarasamningnum.

             Laun vélstjóra á fiskiskipum séu grundvölluð á greiðslu aflahlutar eða kauptryggingar þegar ekkert fiskist.  Kjarasamningur vélstjóra á kaupskipum byggi hins vegar á ákveðnum mánaðarlaunum og viðbótargreiðslum fyrir tiltekin störf eða vinnu umfram ákveðinn tíma.  Á fiskiskipum sé hins vegar engin tímatalning þegar skip sé á veiðum heldur skipti áhöfn og útgerð með sér söluverðmæti aflans.  Ef ekkert aflist eða skip komist ekki á sjó greiði útgerðin kauptryggingu.

             Stefndi mótmælir því, að stefnandi hafi ekki fengið greidd laun fyrir 140 daga, sem hann hafi verið í fríi á árinu.  Stefnandi hafi fengið greidd laun alla 12 mánuði ársins.  Laun vélstjóra á kaupskipum séu byggð á skilum 5 daga vinnuviku að meðaltali, eins og tíðkist í landi.  Eins og lýst sé í fréttatilkynningu Vélstjórafélagsins hafi með samningum árið 2000 verið samið um nýtt launakerfi, sem byggi á heildarlaunum í stað þeirra fjölmörgu launaþátta, sem áður hafi myndað heildarlaun vélstjóra.

             Stefndi telur stefnukröfuna byggða á þeim misskilningi, að vélstjóri á kaupskipi fái einungis greidd laun fyrir lögskráða daga á skipi og sé því ruglað saman við launakerfi fiskimanna, sem taki launalaus frí.  Vélstjórar á kaupskipum séu í launuðum fríum.  Vinnuár þeirra sé 5 daga vinnuvika að meðaltali.  Hafi þeir því skilað vinnuárinu þegar þeir hafi verið lögskráðir á skip í 260 daga á ári (5 dagar x 52 vikur = 260 dagar), sem samsvari 365 dögum að frádregnum helgum (104 dagar), tyllidögum (11 dagar) og orlofi (24-30 dagar), samkvæmt 8. og 12. kafla kjarasamningsins.

             Stefndi krefst þess til vara, að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar, sem nemur 1/3 af kröfu hans, þar sem dómkrafa stefnanda miði við, að hann sé samfellt um borð í uppsagnarfresti, en ekki tekið tillit til „frítúra”, sbr. 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga.  Þá hafi stefnandi, við útreikning kröfu sinnar, ekki tekið tillit til greiðslu stefnda hinn 1. febrúar 2003.  Þá krefst stefndi þess að vextir verði ekki reiknaðir fyrr en frá þingfestingardegi.

             Um lagarök vísar stefndi til meginreglna vinnu- og samningaréttar, sjómannalaga nr. 38/1985, einkum 6. gr., 9. gr. og 28. gr. þeirra laga.  Þá byggir stefndi á kjarasamningi um kaup og kjör yfirvélstjóra, vélstjóra og vélavarða á kaupskipum milli Samtaka atvinnulífsins og Vélstjórafélags Íslands frá 1. nóvember 2000.

             Vaxtakröfu byggir stefndi á 5. gr. laga nr. 38/2001.

             Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

            

             Óumdeilt er milli aðila, að stefnanda var sagt upp störfum með bréfi dagsettu 30. september 2002 og bar þriggja mánaða uppsagnarfrestur.  Bar stefnanda því samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. 2. mgr. 9. gr. sömu laga, að fá greidd full laun í þrjá mánuði frá uppsagnardegi.  Ágreiningur málsins er hins vegar um það hver laun stefnanda hafi átt að vera í uppsagnarfrestinum.

Eins og áður hefur verið rakið hóf stefnandi störf hjá stefnda, sem vélstjóri í júní 1999 og gengdi þeim starfa til 2. október 2002.  Í málinu liggur ekki fyrir annar samningur milli aðila um störf stefnanda, en sá sem gerður var í tengslum við kjarasamning er gerður var milli samtaka atvinnulífsins og Vélstjórafélags Íslands um kaup og kjör yfirvélstjóra, vélstjóra og vélavarða á kaupskipum og gilti frá 1. nóvember 2000.  Er yfirskrift þess samnings „persónubundinn samningur”.  Eru aðilar sammála um það, að með þeim kjarasamningi hafi verið komið á eins konar fastlaunasamningum.  Hafi þar verið samið um nýtt launakerfi, sem byggði á heildarlaunum í stað þeirra fjölmörgu launaþátta sem áður mynduðu heildarlaun.  Samningur þessi kveður á um, að í upphafi árs sé gert samkomulag um fjölda sjódaga/vinnudaga viðkomandi vélstjóra á komandi ári.  Fjöldi þeirra sinnum laun fyrir unninn dag mynda árslaun, sem dreifast á alla mánuði ársins. 

Fyrir liggur að samkvæmt þessum kjarasamningi bar stefnanda 225 daga vinnuskil á sjó og í landi á ári.  Bar honum því að fá greiddar 320.613 krónur á mánuði árið 2002, sem hann og fékk, einnig í uppsagnarfresti.  Verður því ekki séð að með því að greiða stefnanda þau laun, sem hann átti rétt á, samkvæmt áðurgreindum útreikningi, hafi stefndi rýrt rétt hans.  Samkvæmt því lítur dómurinn svo á, að stefnandi hafi fengið greidd full laun í uppsagnarfresti.  Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

             Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

             Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

             Stefndi, Eimskipafélag Íslands hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Guðna Þórs Gunnarssonar.

          Málskostnaður fellur niður.