Hæstiréttur íslands
Mál nr. 245/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
- Skuldabréf
|
|
Þriðjudaginn 24. ágúst 1999. |
|
Nr. 245/1999. |
Leó E. Löve (sjálfur) gegn Samvinnusjóði Íslands hf. (Jónatan Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Innsetningargerð. Skuldabréf.
L krafðist innsetningar í umráð skuldabréfs sem hann hafði gefið út til S vegna kaupa á bifreið frá B. Talið var, að þótt S kynni að hafa brostið heimild til að greiða B andvirði bréfsins, hefði L ekki sýnt nægilega með þeim hætti, sem um ræðir í 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, að hann ætti rétt á að fá skuldabréfið í hendur. Var úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu L staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júní 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að veðskuldabréf að fjárhæð 2.188.754 krónur, sem hann gaf út til varnaraðila 23. febrúar 1998, yrði tekið úr vörslum varnaraðila með beinni aðfarargerð og fengið honum í hendur. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að krafa hans um aðfarargerð nái fram að ganga, svo og að varnaraðila verði gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknararðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði gaf sóknaraðili út fyrrnefnt veðskuldabréf vegna láns til kaupa á bifreiðinni TF 918 af BT-bílum ehf. Í umsókn um lánið til varnaraðila, sem var undirrituð af sóknaraðila og fyrirsvarsmanni BT-bíla ehf., kom fram að umsókn væri því háð að gengið hafi verið frá kaupum á bifreið. Var þar ráðgert að bifreiðin yrði veðsett til tryggingar skuld við varnaraðila, svo og að umsækjanda bæri að vátryggja bifreiðina með ákveðnum hætti og að skorður væru settar við sölu hennar. Í málinu er óumdeilt að sóknaraðili hafi fengið afsal fyrir bifreiðinni TF 918, en varnaraðili greitt BT-bílum ehf. andvirði skuldabréfsins. Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðila hafi verið óheimilt að greiða BT-bílum ehf. þetta andvirði. Hefur hann af þessum sökum mótmælt greiðsluskyldu samkvæmt skuldabréfinu og krefst nú að fá það afhent.
Þótt varnaraðila kunni að hafa brostið heimild til að greiða BT-bílum ehf. áðurnefnt andvirði skuldabréfs hefur sóknaraðili ekki sýnt nægilega með þeim hætti, sem um ræðir í 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989, að hann eigi rétt á að fá skuldabréfið í hendur. Þegar af þessari ástæðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest um annað en málskostnað, en rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 1999.
Málsaðilar eru:
Gerðarbeiðandi er Leó E. Löve, kt. 250348-2909, Klapparstíg 1, Reykjavík.
Gerðarþoli er Samvinnusjóður Íslands hf., kt. 691282-0629, Sigtúni 42, Reykjavík.
Eftirleiðis verður vísað til málsaðila, sem sóknaraðila og varnaraðila.
Málið barst Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 29. apríl sl. með bréfi sóknaraðila, Leós E. Löve dags. sama dag. Það var tekið til úrskurðar að afloknum munnlegum málflutningi, sem fram fór hinn 19. maí sl.
Dómkröfur:
Dómkröfur sóknaraðila eru þær, að veðskuldabréf að fjárhæð kr. 2.188.754, útgefið af sóknaraðila hinn 23 febrúar 1998 þar sem varnaraðili er kröfuhafi, verði tekið með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila og fengið sóknaraðila. Þá gerir sóknaraðili kröfu málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.
Dómkröfur varnaraðila eru þær, að kröfu sóknaraðila um innsetningu í veðskuldabréf hans verði hafnað, svo og málskostnaðarkröfu sóknaraðila. Auk þess gerir varnaraðili kröfu til þess, að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.
Málavextir:
Fyrirtækið BT-bílar ehf. flutti inn notaða bifreið af gerðinni Crysler Intrepid, árgerð 1995, sem virðist hafa komið til landsins um áramótin 1997/1998. Með ódagsettu bréfi var óskað eftir bílaláni hjá varnaraðila að fjárhæð kr. 2.188.754. Sóknaraðili og BT-bílar undirrituðu lánsumsóknina. Í texta umsóknarinnar segir: „Umsókn þessi er bindandi fyrir umsækjanda enda hafi hann einnig gengið frá kaupunum við viðkomandi seljanda. Umsóknin er fyrst bindandi fyrir Samvinnusjóð Íslands hf. þegar leyfisnúmer hefur verið gefið og umsækjandi undirritað skuldabréfið.“ Sóknaraðila keypti bifreiðina af BT-bílum ehf. með sölutilkynningu, sem dagsett er 23. febrúar 1998. Afsal liggur ekki fyrir í málinu. Sóknaraðili gaf út og undirritaði sama dag skuldabréf að fjárhæð kr. 2.188.754. Varnaraðili er þar tilgreindur sem kröfuhafi. Framangreind bifreið var veðsett varnaraðila með 1. veðrétti, en auk þess gekkst Jón Guðmundsson, kt. 20042-2539, í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldinni. Seljandi bifreiðarinnar afhenti varnaraðila skuldabréfið og fékk andvirði þess greitt.
Ráða má af gögnum málsins, að skömmu eftir greiðslu varnaraðila til seljanda bifreiðarinnar hafi sóknaraðili mótmælt afgreiðslu varnaraðila, en ekki liggur fyrir hvort þau mótmæli hafi beinst að seljanda bifreiðarinnar eða varnaraðila. Fyrir liggur bréf seljanda dags. 27. mars 1998, þar sem lýst er yfir riftun á sölu bifreiðarinnar og seljandi greiði varnaraðila lán það, sem á bifreiðinni hvíldi. Þessu hafnaði sóknaraðili. Einnig er því haldið fram af hálfu varnaraðila, að sóknaraðila hafi verið boðin sú fyrirgreiðsla umfram skyldu til lausnar málsins, að hann afsalaði umræddri bifreið til varnaraðila gegn því að krafan samkvæmt skuldabréfinu yrði felld niður. Þessu hafi sóknaraðili hafnað.
Sóknaraðili greiddi ekki umsamdar afborganir af bréfinu, sem gjaldféllu mánaðarlega, fyrst 2. apríl 1998. Þetta varð til þess, að varnaraðili sendi sóknaraðila greiðsluáskorun dags. 29. desember 1998, þar sem skuldabréfið var gjaldfellt og skorað á sóknaraðila að greiða skuldina, ella yrði krafist nauðungarsölu á bifreiðinni TF-918, sem veðsett hafði verið með 1. veðrétti til tryggingar skuldinni. Sóknaraðili sinnti í engu greiðsluáskorun varnaraðila og því krafðist varnaraðili uppboðs á bifreiðinni með bréfi til Sýslumannsins í Reykjavík dags. 22. janúar sl. Málið var tekið fyrir hjá sýslumanni 26. mars sl. Þar mótmælti sóknaraðili því, að nauðungarsalan næði fram að ganga á þeirri forsendu, að andvirði skuldabréfsins, sem uppboðskrafa varnaraðila byggðist á, hefði verið greitt röngum aðila. Sá starfsmaður sýslumanns, sem annaðist meðferð málsins, ákvað að stöðva nauðungarsöluna með vísan til mótmæla sóknaraðila (varnaraðila í því máli) og þeirra gagna, sem lögð voru fram af hans hálfu hjá sýslumanni. Lögmaður varnaraðila (sóknaraðila hjá sýslumanni) lýsti því þar yfir, að ákvörðun sýslumanns um að stöðva nauðungarsölu bifreiðarinnar yrði skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur. Ekki stóð hann við það fyrirheit og því hefur sóknaraðili krafist innsetningar í skuldabréf það, sem hér kemur við sögu og áður er lýst.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila:
Sóknaraðili byggir á því, að hann hafi gefið út umrætt veðskuldabréf í tengslum við viðskipti og hafi hvorki veitt umboð til móttöku andvirðis þess né gefið varnaraðila heimild til útborgunar þess. Starfsmenn varnaraðila hafi heimildarlaust greitt andvirði lánsins út til þriðja aðila. Sóknaraðili hafi fengið upplýsingar um ráðstöfunina fáum dögum eftir útgáfu skuldabréfins og gert þegar í stað athugasemdir við hana. Hann hafi hins vegar ekkert aðhafst í málinu, fyrr en varnaraðili hafi hafið innheimtutilraunir, þar sem legið hafi fyrir, að hugsanlegt væri að ná fram leiðréttingu hinnar röngu ráðstöfunar. Sóknaraðili vísar til þess, að sýslumaðurinn í Reykjavík hafi fallist á sjónarmið sín og ákveðið að stöðva framgang nauðungarsölunnar á hinni veðsettu bifreið. Þá hafi Fjármálaeftirlitið tekið í sama streng, en sóknaraðili hafi kært framgöngu varnaraðila í málinu þangað. Í svarbréfi þess segi m.a.: „Fjármálaeftirlitið hefur lokið athugun sinni á máli þessu. Að mati þess mátti Samvinnusjóður ætla að umrædd ráðstöfun hafi verið í samræmi við samkomulag yðar við seljanda bifreiðarinnar. Fjármálaeftirlitið telur þó að sjóðnum hafi borið að ganga úr skugga um að svo hafi verið eða afla samþykkis yðar vegna umræddrar ráðstöfunar á andvirði lánsins.“
Að mati sóknaraðila sé ljóst, að hann eigi að fá umrætt veðskuldabréf í sínar hendur, þar sem hann hafi aldrei fengið andvirði þess, sem hafi verið og hljóti ávallt að vera forsenda viðskipta af þessu tagi, nema um annað sé sérstaklega samið.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðili greinir frá því, að BT- bílar ehf. hafi sótt um bílalán f.h. sóknaraðila í febrúar 1998, eins og málskjöl staðfesti. Lánið hafi verið hlutfallslega hátt með 54 afborgunum með veði í eldri bíl og því hafi það skilyrði verið sett, að Jón Guðmundsson gengi í sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu. BT-bílar ehf. hafi annast alla framkvæmd við lánveitinguna og m.a. látið starfsmenn varnaraðila útbúa umrætt skuldabréf og fylgiskjöl þess. BT-bílar ehf. hafi gengist fyrir því, að Jón og sóknaraðili undirrituðu skuldabréfið farið með það til þinglýsingar, sótt það að þinglýsingu lokinni og afhent varnaraðila frumrit þess. Við afhendingu bréfsins hafi þess verið óskað, að andvirði þess yrði lagt inn á reikning BT-bíla ehf., seljanda bílsins, og hafi það verið gert, eins og venjulegt sé í viðskiptum af þessu tagi. Fyrirsvarsmenn BT-bíla ehf. fullyrði, að þetta hafi verið í fullu samræmi við samning félagsins við sóknaraðila. Þetta komi skýrt fram í afsali til sóknaraðila, sem einhverra hluta vegna hafi kosið að leggja það ekki fram í málinu. Í aprílbyrjun síðast árs hafi sóknaraðili fyrst haldið því fram við starfsmenn varnaraðila, að hann hefði átt að fá lánið greitt sér og hann síðan ætlað að greiða seljendum andvirði bílsins. Seljandi bifreiðarinnar hafi lýst því yfir þá og nú, að hann sé ósammála þessari fullyrðingu sóknaraðila og bendir á, að ekki hefði verið unnt að veðsetja bifreiðina, án þess að lántakandinn væri skráður eigandi hennar. Sóknaraðili geti ekki bæði fengið afsal fyrir bifreiðinni og andvirði lánsins. Ef svo hefði verið, hefði seljandinn ekkert í höndum, enda fari þessi fullyrðing og skilningur sóknaraðila í bága við venjur í bílaviðskiptum og sé andstæður þörfum viðskiptalífsins.
Varnaraðili byggir á því, að réttur sóknaraðila sé fallinn niður fyrir tómlæti og aðgerðarleysi, hafi hann einhvern tímann verið fyrir hendi, sem reyndar sé mótmælt. Varnaraðili kveðst í einu og öllu hafa fylgt gildandi og reglum um afgreiðslu svonefndra bílalána í samskiptum sínum við sóknaraðila. Líti sóknaraðili svo á, að á hann hafi verið hallað, beri honum að sækja rétt sinn á hendur viðsemjanda sínum BT-bílum ehf.
Varnaraðili heldur því fram, að sóknaraðili hafi hafnað tilboðum bæði frá seljanda bifreiðarinnar og varnaraðila sjálfum, um það að umræddri bifreið yrði afsalað, annað hvort til seljanda, sem yfirtæki áhvílandi lán, eða til varnaraðila sjálfs, sem í því tilviki felldi niður skuldina samkvæmt skuldabréfinu. Bæði þessi tilboð hafi verið boðin fram til lausnar málsins umfram skyldu, en sóknaraðili hafnað þeim báðum og vísað til þess, að viðskiptin við BT-bíla ehf. hafi verið liður í kaupum fjölmargra bifreiða, sem ráðgert hafi verið að flytja inn frá Kanada og endurselja hérlendis með hagnaði.
Þá mótmælir varnaraðili því, að skilyrði til innsetningar séu fyrir hendi á grundvelli 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, enda fari því fjarri að réttur sóknaraðila sé svo skýr að jafna megi til þess að dómur hafi gengið um kröfuna. Sóknaraðili hafi hingað til gert kröfu til þess að fá andvirði skuldabréfins greitt á þeirri forsendu að hann ætti til þess skýlausan rétt, en geri nú kröfu til þess að fá skuldabréfið afhent.
Vrnaraðili bendir á það til stuðnings kröfum sínum, að eðililegt hafi verið, eins og á stóð, að andvirði umrædds láns væri greitt til BT-bíla ehf. Félagið hafi verið seljandi bifreiðarinnar TF-918 en sóknaraðili kaupandi hennar. Þá hafi félagið annast öll samskipti við varnaraðila og haldi því fram, að það hafi haft fullt umboð til þess. Það hafi haft umrætt frumrit skuldabréfsins undir höndum, undirritað og vottað. Handhöfn skuldabréfsins ein og sér hafi veitt starfsmönnum varnaraðila rétt til að greiða seljanda bifreiðarinnar andvirði lánsins. Skuldabréfið hafi að geyma skriflega, einhliða og óskilyrta viljayfirlýsingu sóknaraðila um að greiða handhafa þess peningagreiðslu, eins og þar sé nánar útlistað. Hinar almennu reglum um viðskiptabréf gildi um skuldabréfið og því beri að hafna kröfu sóknaraðila í máli þessu.
Varnaraðili vísar til stuðnings kröfu sínum til ákvæða aðfararlaga nr. 90/1989 og greinargerða með þeim lögum, einkum 78. og 83. gr. laganna.
Forsendur og niðurstaða:
Skilyrði þess, að 78. gr. aðfararlaga verði beitt, felast í því, að þeim, sem kallar til réttar samkvæmt lagaákvæðinu, sé með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda, sem hann tjáir sig eiga og telur svo ljós, að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum, sem aflað verður skv. 83. gr. laganna. Í niðurlagsákvæði 1. mgr. 83 gr. segir, að vitnaleiðslur og mats- og skoðunargerðir skulu að jafnaði ekki fara fram.
Lagagreinar þessar hafa verið skýrðar á þann hátt að réttur krefjanda skuli vera svo skýr og ótvíræður að eigi þurfi að eiga sér stað sönnunarfærsla með líkum hætti og í venjulegu einkamáli. Ekki er gert ráð fyrir að vitni séu leidd, eða skýrslur utanaðkomandi aðila s.s. mats- eða skoðunarmanna lagðar fyrir dóminn. Í greinargerð með frumvarpi til aðfararlaga, segir m.a. svo um skýringu 83. gr. laganna að því er sönnunarfærslu varðar:
„Að þeim fresti loknum (þ.e. skammur frestur til greinargerðar málsaðila og gagnaöflunar, innskot dómara) ber að flytja mál munnlega, ef réttarsátt tekst ekki milli málsaðila, en bann er lagt við öflun vitnaskýrslna og mats- og skoðunargerða“. Þetta sjónarmið undirstrikar það viðhorf, að framlögð gögn verða ein og sér lögð til grundvallar niðurstöðu úrskurðar.
Í máli því sem hér er til úrlausnar, liggur fyrir, að andvirði skuldabréfs þess, sem sóknaraðili gerir kröfu til að fá afhent sér með beinni aðfarargerð, var greitt til BT-bíla ehf. sem seldu sóknaraðila bifreið þá, sem áður er lýst.
Ágreiningur málsaðila snýr aftur á móti að því, hvort varnaraðila hafi verið heimilt að greiða lánið seljanda bifreiðarinnar.
Fyrir liggur í málinu ávísun, dags. 30. október 1997, frá BT-bílum ehf. sem sóknaraðili byggir á og vísar til um grandsemi varnaraðila. Ávísunin er svohljóðandi: „Á næstu dögum mun fyrirtækið Bílar og Tæki kt. 540696-2769, Sóltúni 24, 105 Rvk flytja inn bifreiðar sem fjámagnaðar verð m.a. með lánum frá lánafyrirtækjum (t.d. Samvinnusjóði Íslands h/f. Hér með er ávísað til hr. Jóns Guðmundssonar kt. 200442+2539, fyrstu 1.700.000- Skrifað einmilljónogsjöhundruð þúsund 00/100 sem tiltækar verða af framansögðum ástæðum. Ávísun þessi er óafturkallanleg nema með samþykki fyrrgreinds Jóns Guðmundssonar“ Neðanmáls á skjalið er rituð eftirfarandi yfirlýsing: „Samvinnusjóður Íslands hf. mun ekki fjármagna ofangreind bifreiðaviðskipti. 06.11.97 f.h. Samvinnusjóðs Íslands hf. Linda Bentsdóttir.“
Einnig hefur verið lögð fram í málinu yfirlýsing frá BT-bílum ehf., þar sem því er haldið fram að framganga félagsins hafi verið í fullu samræmi við umsamin greiðslumáta milli þess og sóknaraðila og aldrei hafi verið til annars ætlast en félagið, sem seljandi umræddrar bifreiðar, fengi söluverð hennar greitt af andvirði lánsins, sem varnaraðili veitti sóknaraðila til kaupanna.
Þegar öll gögn málsins eru virt og m.a. litið annars vegar til framangreindrar ávísunar, sem er frá árinu 1997 og hins vegar til fyrirliggjandi yfirlýsingar BT-bíla ehf. þykir ljóst, að verulegur vafi leikur á því, að sóknaraðili eigi þann rétt til skuldabréfs þess, sem hann kallar eftir og krefst afhendingar á úr hendi varnaraðila. Úr því fæst ekki skorið nema með ítarlegri sönnunarfærslu, en heimilt er að viðhafa í málum, sem rekin eru á grundvelli 78. gr., sbr. 83 gr. aðfararlaga nr. 90/1989.
Því ber að hafna kröfu sóknaraðila um það, að veðskuldabréf að fjárhæð kr. 2.188.754, útgefið af sóknaraðila hinn 23 febrúar 1998 þar sem varnaraðili er kröfuhafi, verði tekið með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila og fengið honum í hendur.
Með vísan til 1. tl. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal sóknaraðili greiða varnaraðila málskostnað, sem ákveðst kr. 40.000, þar með talinn virðisaukaskattur.
Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Leós E. Löve, um það, að veðskuldabréf að fjárhæð kr. 2.188.754, útgefið af sóknaraðila hinn 23. febrúar 1998 þar sem varnaraðili, Samvinnusjóður Íslands hf. er kröfuhafi, verði tekið með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila og fengið honum í hendur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kr. 40.000 í málskostnað.