Hæstiréttur íslands
Mál nr. 78/2002
Lykilorð
- Verksamningur
- Riftun
- Gagnkrafa
- Vanreifun
|
|
Fimmtudaginn 19. september 2002. |
|
Nr. 78/2002. |
Rafmagnsverkstæði Birgis ehf. (Othar Örn Petersen hrl.) gegn Nóntindi ehf. (Steingrímur Þormóðsson hrl.) |
Verksamningur. Riftun. Gagnkrafa. Vanreifun.
RB hafði samið við Landsvirkjun um að annast jarðvinnu og gerð undirstaða fyrir aðveitustöð í Borgarfirði. Leitaði RB síðan til N um að gera tilboð sem undirverktaki í verkþætti sem lutu að jarðvinnu. Eftir að verkið var hafið risu deilur milli aðilanna um hvort samningur hefði tekist milli þeirra um verkliðina „aðflutt grús“ og „aðflutt brotið steinefni“, sem leiddu til þess að N hvarf frá verkinu óloknu og krafðist síðar greiðslu samkvæmt tímagjaldi fyrir það sem unnið hafði verið af verkinu. Af dagskýrslum N mátti sjá að hann hafði sjálfur litið svo á að ósamkomulag væri um þessa liði. Gegn mótmælum N var ósannað að RB hafi með afhendingu tilboðsblaðs, þar sem einingarverð þriggja verkliða höfðu verið færð inn, eða með öðru móti, látið í ljós að hann leitaði eingöngu eftir tilboði N í þessa þrjá liði. Var því litið svo á að RB hafi með afhendingu tilboðsblaðsins skorað á N að gera tilboð í alla verkþætti sem á blaðinu greindi. Framsetning þeirra verkliða á blaðinu sem vörðuðu grús og aðflutt brotið steinefni, voru ekki talin hafa gefið N sem reyndum verktaka tilefni til að ætla að RB leitaði eingöngu eftir tilboði hans í akstur með þessi efni, en tilboð N í þessa verkliði varðaði aðeins akstur. Þar sem tilboð N var þannig ekki í samræmi við það sem hann mátti ætla að RB leitaði eftir, var ekki talið að hann hafi getað gefið sér að RB hefði samþykkt þennan hluta þess. Var fallist á með RB að samningur hafi ekki komist á um að N annaðist umræddan akstur með grús og brotið steinefni. Því var ekki litið svo á að N hafi haft réttmæta ástæðu til að hverfa frá óloknu verki í þágu RB, svo sem hann hafði gert á þeirri forsendu að RB hefði vanefnt þennan þátt samningsins. Krafa N um tímagjald fyrir það, sem hann vann af verkinu, hafði eingöngu verið reist á ætluðum vanefndum RB og kom því ekki til frekari álita í málinu. Var N talinn eiga tilkall til verklauna í samræmi við tilboð sitt til RB.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. febrúar 2002. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð frá því, sem dæmt var í héraði, og falli þá málskostnaður niður.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins samþykkti Landsvirkjun 8. júní 2001 tilboð, sem áfrýjandi hafði gert í jarðvinnu og gerð undirstaða fyrir aðveitustöð á Brennimel í Borgarfirði. Um sömu mundir leitaði áfrýjandi til stefnda um að gera tilboð sem undirverktaki í verkþætti, sem lutu að jarðvinnu. Gerði áfrýjandi þetta með því að afhenda stefnda ljósrit blaðs úr útboðsgögnum frá Landsvirkjun, sem ætlað var fyrir sundurliðun tilboðs í einstaka verkliði. Á blaðinu komu fram alls fimm verkliðir. Þrír þeirra voru jafnframt greindir í undirliði, þar sem magntölur voru tilteknar, og liðirnir þannig samtals tíu. Var ráðgert að verktaki færði á blaðið einingarverð og tilboðsfjárhæð á grundvelli þeirra. Þegar stefndi fékk þetta blað í hendur hafði áfrýjandi þegar fyllt inn í viðeigandi reiti einingarverð og tilboðsfjárhæð fyrir þrjá undirliði, sem voru gröftur á lausu jarðefni, viðbótarverð fyrir gröft á föstu jarðefni og „útjöfnun eða tippun“ á þessum efnum. Í fyrstnefnda liðnum var einingarverðið tiltekið 120 krónur fyrir hvern rúmmetra af samtals 3.220 m3, í öðrum liðnum 3.200 krónur fyrir hvern af alls 100 m3, en í þeim þriðja 80 krónur fyrir hvern rúmmetra, en í heild áttu þeir að verða 3.220. Aðilana greinir á um ástæðu þess að áfrýjandi hafi á þennan hátt fært einingarverð á blaðið. Kveðst áfrýjandi hafa gert þetta á grundvelli útreiknings á kostnaði sínum af því að vinna þessa verkþætti sjálfur og hafi hann ekki ætlast til þess að stefndi gerði tilboð í aðra verkliði. Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að áfrýjandi hafi látið í veðri vaka að þetta væru fjárhæðirnar, sem hann fengi greiddar fyrir verkliðina frá Landsvirkjun, og einskis getið um að tilboð ætti aðeins að ná til þeirra.
Stefndi gerði áfrýjanda tilboð með því að fylla út samtals átta liði vegna jarðvinnu á því blaði, sem að framan greinir, og senda það til áfrýjanda. Bauðst stefndi með þessu til að taka að sér gröft á lausum jarðefnum fyrir 100 krónur á hvern rúmmetra, gröft á föstum jarðefnum fyrir 3.000 króna viðbótarverð á hvern rúmmetra og „útjöfnun eða tippun“ fyrir 60 krónur á hvern rúmmetra. Auk þessa gerði stefndi áfrýjanda tilboð í alla þrjá undirliði í verkliðnum „jarðvinna við jarðskaut og spennujöfnun“, sem stefndi bauðst til að ljúka fyrir 151.500 krónur. Einnig gerði stefndi tilboð í undirliðinn „aðflutt grús“, sem átti alls að verða 2.500 m3 og hann bauðst til að annast fyrir 580 krónur á hvern rúmmetra, og undirliðinn „aðflutt brotið steinefni 10-36 mm“, alls 470 m3, sem hann bauð sama einingarverð í. Áfrýjandi kveðst hafa gert stefnda ljóst að hann hafi þegar fengið lægra boð í undirliðina, sem lutu að aðfluttri grús og brotnu steinefni, og hafi hann því aðeins tekið tilboði stefnda í aðra liði, sem að framan greinir. Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að áfrýjandi hafi brugðist við tilboði sínu með því einu að fela sér að hefjast þegar handa við verkið. Óumdeilt er að stefndi kannaði staðhætti á verkstað 9. júní 2001 í tengslum við gerð tilboðs síns, svo og að hann hafi flutt þangað gröfu 11. sama mánaðar og hafið vinnu við verkið tveimur dögum síðar. Skriflegur verksamningur var ekki gerður milli aðilanna. Í málatilbúnaði sínum kveðst hvor þeirra hafa krafist þess að slíkur samningur yrði gerður, en vanrækslu gagnaðilans verði kennt um að ekki hafi orðið af því.
Í framhaldi af þeim atvikum, sem að framan greinir, kom til skoðanaskipta milli aðilanna um þá verkliði, sem stefndi hafði gert tilboð í og vörðuðu aðflutta grús og aðflutt brotið steinefni. Um þetta var getið í dagskýrslum um verkið, sem verkstjóri í þjónustu stefnda færði, meðal annars í skýrslu fyrir 15. júní 2001, þar sem sagði að framkvæmdastjóri stefnda, Fannar Eyfjörð Skjaldarson, „ræddi lítillega um aksturinn þar sem hann bauð 580 krónur í m3“ en framkvæmdastjóri áfrýjanda „neitaði“. Þeim síðastnefnda hafi þá verið tjáð að „jarðvegsskipti væru ein heild og væri annar liðurinn lágur bætti annar hinn upp.“ Í dagskýrslu fyrir 16. júní 2001 sagði meðal annars eftirfarandi: „Bíll frá Akranesi flutti nokkrar ferðir af möl. Fannar mótmælti. Ósamkomulag ennþá um verð.“ Einnig var þess getið í dagskýrslu 18. sama mánaðar að enn væri tekist á um verð. Ágreiningur milli aðilanna um hvort stefndi ætti að vinna þessa verkþætti leiddi til þess að hann hvarf 20. júní 2001 frá verkinu óloknu. Hann gerði áfrýjanda síðan reikning 22. sama mánaðar vegna þess hluta verksins, sem hann hafði annast. Í reikningi þessum, sem var alls að fjárhæð 1.227.383 krónur, var lagt til grundvallar að áfrýjanda bæri að greiða stefnda tímagjald fyrir vinnu starfsmanna stefnda og notkun á tækjum hans við verkið. Áfrýjandi mótmælti reikningnum með bréfi 4. júlí 2001, þar sem hann bauð jafnframt stefnda að „ljúka þeim liðum í fyrri hluta verksins sem samkomulag varð um, á einingaverðum sem samkomulag var um, með þeim lagfæringum þó sem verkkaupi ... var tilbúinn að gera til hækkunar, lagfæringar sem búið var að ræða í millum aðila, - eða senda ella nýjan reikning með upphæðum sem eru heldur nær þeim tölum er um getur í tilboði hans í verkið.“ Stefndi varð ekki við þessu og höfðaði málið með stefnu 15. ágúst 2001 til heimtu á fjárhæð fyrrnefnds reiknings.
Í málinu hefur áfrýjandi lagt fram verksamning, sem hann gerði 14. júlí 2001 við Plúsvélar ehf., en þar tók það félag að sér gröft og tilfærslu á lausu efni við aðveitustöðina á Brennimel fyrir 250 krónur á hvern rúmmetra og fleygun á klöpp fyrir 3.350 krónur á rúmmetra. Með samningi þessum mun áfrýjandi hafa falið Plúsvélum ehf. að vinna það, sem stefndi átti ólokið við fyrrgreinda verkliði við gröft á lausum jarðefnum, gröft á föstum jarðefnum gegn viðbótarverði og „útjöfnun eða tippun“ þegar hann hvarf frá verkinu. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi lagði áfrýjandi fram útreikning á þeim kostnaði, sem hann hafi orðið að bera vegna þessara verkliða, í samanburði við þau verklaun, sem stefndi hefði getað krafist fyrir þá samkvæmt tilboði sínu. Kemur þar fram að stefndi hafi alls grafið 1.258 m3 af lausu efni og 6 m3 af föstu, en fyrir þetta hafi honum borið að fá 328.676 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Nýr verktaki hafi grafið 1.180 m3 af lausu efni og 208,8 m3 af föstu, eða alls 1.389 m3, auk þess að fleyga umrædda 208,8 m3 af föstu efni. Fyrir þetta hafi áfrýjanda borið að greiða 250 krónur fyrir gröft á hverjum rúmmetra eða samtals 347.250 krónur fyrir 1.389 m3. Þá hafi honum borið að greiða 3.350 krónur fyrir fleygun á hverjum rúmmetra úr klöpp eða alls 699.480 krónur fyrir 208,8 m3. Að viðbættum virðisaukaskatti, 256.449 krónum, hafi kostnaður af því að ljúka verkinu numið 1.303.179 krónum. Hefði stefndi annast verkið hefði áfrýjandi á hinn bóginn þurft að greiða 120 krónur fyrir gröft á hverjum rúmmetra, eða 166.680 krónur fyrir 1.389 m3, og 3.200 krónur fyrir fleygun á hverjum rúmmetra úr klöpp, eða 668.160 krónur fyrir 208,8 m3. Virðisaukaskattur af þessum fjárhæðum hefði numið 204.536 krónum og heildarverð fyrir verkið þannig orðið 1.039.376 krónur. Brotthlaup stefnda frá verkinu hafi þannig aukið kostnað áfrýjanda af verkinu um 263.803 krónur. Inneign stefnda vegna þess, sem hann vann af verkinu, hafi sem áður segir verið 328.676 krónur samkvæmt útreikningi áfrýjanda. Að frádregnum fyrrnefndum kostnaðarauka áfrýjanda, 263.803 krónum, taldi hann stefnda eiga inni hjá sér 64.873 krónur. Þá fjárhæð greiddi áfrýjandi stefnda 24. október 2001 og taldi sig þar með hafa lokið uppgjöri fyrir það, sem stefndi vann af verkinu. Krafðist áfrýjandi á þeim grunni sýknu af kröfu stefnda fyrir héraðsdómi.
Fyrir Hæstarétti lagði áfrýjandi fram nýjan útreikning á þeim kostnaði, sem hann telur brotthvarf stefnda frá verkinu hafa bakað sér. Sá útreikningur er samhljóða þeim, sem áður er lýst, að því er varðar þann kostnað, sem áfrýjandi kveðst hafa orðið að bera vegna vinnu nýs verktaka við að ljúka verkinu. Á hinn bóginn er í þessum útreikningi miðað við stefndi hefði fengið greiddar 100 krónur fyrir gröft á hverjum rúmmetra af jarðefnum, en ekki 120 krónur, svo sem miðað var við í fyrri útreikningnum. Þá er í nýrri útreikningnum lagt til grundvallar að stefnda hefðu borið 3.000 krónur fyrir fleygun á hverjum rúmmetra úr klöpp, en ekki 3.200 krónur eins og í þeim fyrri. Til viðbótar þessu ætlar áfrýjandi hins vegar í nýrri útreikningnum greiðslu til stefnda á 60 krónum fyrir hvern rúmmetra af jarðefnum út af „útjöfnun eða tippun“, en ekki var gert ráð fyrir þeim lið í fyrri útreikningnum. Telur áfrýjandi samkvæmt þessu í nýrri útreikningnum að stefndi hefði fengið samtals 1.056.557 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti ef hann hefði lokið við það, sem eftir stóð af umræddum verkliðum þegar hann hvarf frá verkinu. Kostnaðarauki áfrýjanda vegna starfa nýs verktaka hafi þannig orðið 246.622 krónur. Í nýrri útreikningnum kemst áfrýjandi að þeirri niðurstöðu að inneign stefnda hjá sér vegna þess, sem hann vann af verkinu, hafi numið 220.240 krónum, en ekki 328.676 krónum, eins og miðað var við í fyrri útreikningnum. Á þeim grunni taldi áfrýjandi við málflutning fyrir Hæstarétti að tjón sitt af brotthvarfi stefnda frá verkinu hafi orðið 26.382 krónum hærra en verklaun úr sinni hendi til stefnda ættu að nema, en útreikninginn, sem lagður var fram í héraði og áður er lýst, kvað áfrýjandi sig hafa reist á mistökum að því er varðaði einingarverð í þeim verkþáttum, sem stefndi vann við.
II.
Eins og málið liggur fyrir verður að miða við að áfrýjandi hafi átt frumkvæði að viðskiptum aðilanna með því að afhenda stefnda áðurnefnt blað, sem ætlað var til útfyllingar á tilboði um einingarverð fyrir nánar tilgreinda verkþætti í jarðvinnu við aðveitustöð Landsvirkjunar á Brennimel. Áfrýjandi hafði þá sem fyrr segir fært inn á blaðið einingarverð fyrir þrjá verkliði. Gegn mótmælum stefnda er ósannað að áfrýjandi hafi með þessu eða öðru móti látið í ljós að hann leitaði eingöngu eftir tilboði stefnda í þessa þrjá liði. Verður því að líta svo á að áfrýjandi hafi á þennan hátt skorað á stefnda að gera sér tilboð í alla þá verkþætti, sem á blaðinu greindi.
Stefndi brást sem áður segir við þessu með því að gera tilboð um einingarverð fyrir átta af þeim tíu verkliðum, sem getið var á blaðinu. Í málatilbúnaði áfrýjanda er byggt á því að samningur hafi komist á milli hans og stefnda um sex af þessum átta liðum, en undanskildir hafi verið tveir verkþættir, vegna aðflutnings á grús og brotnu steinefni. Gegn mótmælum stefnda hefur áfrýjandi ekki sannað að hann hafi munnlega tekið af tvímæli um þetta, svo sem hann heldur fram í málinu, en fyrir því verður hann að bera sönnunarbyrði eins og aðdragandinn að tilboðsgerð stefnda var samkvæmt framansögðu. Til þess verður á hinn bóginn að líta að fyrir liggur í málinu að áfrýjandi tók ekki að sér gagnvart Landsvirkjun það eitt að flytja grús og brotið steinefni að Brennimel, heldur einnig að útvega þessi efni á sinn kostnað, svo og að ganga frá þeim á verkstað. Framsetning þeirra verkliða á umræddu blaði, sem vörðuðu aðflutta grús og aðflutt brotið steinefni, gátu ekki gefið stefnda sem reyndum verktaka tilefni til að ætla að áfrýjandi leitaði eingöngu eftir tilboði hans í akstur með þessi efni. Að virtum málatilbúnaði stefnda og að gættu því, sem fram kom í dagskýrslu hans um framvindu verksins 15. júní 2001 og áður er tekið orðrétt upp, verður að leggja til grundvallar að tilboð hans hafi í þessum atriðum samt sem áður eingöngu tekið til aksturs. Með því að tilboð stefnda var ekki að þessu leyti í samræmi við það, sem hann varð að ætla að áfrýjandi leitaði eftir, gat stefndi ekki á áðurgreindum grundvelli einum gefið sér að áfrýjandi hefði samþykkt þennan hluta tilboðs hans. Verður heldur ekki annað ráðið af orðalagi áðurnefndrar dagskýrslu stefnda vegna 15. júní 2001 en að hann hafi sjálfur litið svo á að tilboðið hafi ekki að þessu leyti verið samþykkt af áfrýjanda, enda sagði þar að framkvæmdastjóri stefnda „bauð“ áfrýjanda þá að aka með jarðefni þessi fyrir sama verð og áður var komið fram í skriflegu tilboði hans. Að öllu þessu virtu verður að fallast á með áfrýjanda að samningur hafi ekki komist á um að stefndi annaðist umræddan akstur með grús og brotið steinefni, en eins og málið liggur fyrir Hæstarétti deila aðilarnir ekki um að samningur hafi verið gerður milli þeirra um aðra verkliði, sem tilboð stefnda tók til.
Samkvæmt framangreindu verður ekki litið svo á að stefndi hafi haft réttmæta ástæðu til að hverfa frá óloknu verki í þágu áfrýjanda, svo sem hann gerði 20. júní 2001 á þeirri forsendu að áfrýjandi hefði vanefnt þann þátt í samningi þeirra, sem varðaði aðflutta grús og aðflutt brotið steinefni. Með því að krafa stefnda um greiðslu tímagjalds fyrir það, sem hann vann af verkinu, hefur í málatilbúnaði hans verið reist á því einu að honum hafi verið heimilt að hætta vinnu við verkið vegna þessara vanefnda áfrýjanda og forsendur þar með brostið fyrir verklaunum eftir tilboði stefnda, getur krafa hans samkvæmt reikningi, sem gerður var á þeim grunni, ekki komið frekar til álita í málinu. Óheimilt brotthvarf stefnda frá verkinu fær því hins vegar ekki breytt að hann átti tilkall til verklauna í samræmi við tilboð sitt til áfrýjanda fyrir það, sem unnið var af verkinu, svo sem áfrýjandi hefur viðurkennt með áðurgreindum útreikningum, sem hann lagði fram í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi hefur ekki mótmælt upplýsingum, sem fram komu í þessum útreikningum um stöðu verksins þegar hann hvarf frá því, en sem fyrr segir hafði hann samkvæmt þeim lokið þá við að grafa upp 1.258 m3 af lausu jarðefni og 6 m3 af föstu, eða samtals 1.264 m3, sem aðilarnir sömdu um að hann myndi annast fyrir 100 krónur á hvern rúmmetra. Þá hafði hann fleygað 6 m3 af efni úr klöpp, en fyrir það báru honum 3.000 krónur á hvern rúmmetra samkvæmt samningi aðilanna. Þessa 1.264 m3 hafði stefndi fært á svokallaðan tipp eða jafnað úr efninu, en samið var um að hann fengi 60 krónur fyrir hvern rúmmetra, sem þannig væri gengið frá. Fyrir allt þetta átti stefndi þannig tilkall til verklauna að fjárhæð 220.240 krónur, auk virðisaukaskatts, 53.959 krónur, eða alls 274.199 krónur.
Áfrýjandi krefst sem áður segir sýknu af kröfu stefnda með því að tjón hans af ólögmætu brotthvarfi stefnda frá verkinu nemi hærri fjárhæð en framangreindum verklaunum, eftir atvikum að teknu tilliti til fyrrnefndrar greiðslu á 64.873 krónum, sem áfrýjandi innti af hendi eftir að stefndi höfðaði málið. Þessi gagnkrafa áfrýjanda er ekki studd öðrum gögnum en áðurgreindum verksamningi hans við Plúsvélar ehf. frá 14. júlí 2001, svo og frásögn hans í útreikningunum, sem fyrr er getið, um það magn jarðefna, sem sá verktaki gróf upp og fleygaði úr klöpp á verkstað. Liggur þannig ekkert frekar fyrir um mælingar á þessum jarðefnum eða uppgjör áfrýjanda við umrætt félag. Gegn mótmælum stefnda nægja fram komin gögn ekki til að fella efnisdóm á þessa gagnkröfu áfrýjanda, sem verður því að hafna.
Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda vangoldin verklaun að fjárhæð 274.199 krónur. Stefndi krafði ekki áfrýjanda fyrir málshöfðun um greiðslu á þeim grunni, sem niðurstaða um kröfu hans er hér reist á. Af þeim sökum og með vísan til 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu verða stefnda ekki dæmdir dráttarvextir af kröfunni fyrr en frá þeim degi, sem málið var höfðað, en til frádráttar framangreindu kemur innborgun áfrýjanda til stefnda 24. október 2001, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Svo sem áður er getið beindi áfrýjandi því til stefnda í bréfi 4. júlí 2001 að gera nýjan reikning fyrir verklaunum, sem yrði í samræmi við tilboð stefnda í þá verkþætti, sem hann leysti af hendi. Að því gættu og með tilliti til niðurstöðu málsins er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af því í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Rafmagnsverkstæði Birgis ehf., greiði stefnda, Nóntindi ehf., 274.199 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. ágúst 2001 til greiðsludags, allt að frádregnum 64.873 krónum, sem áfrýjandi greiddi stefnda 24. október sama árs.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 21. desember 2001.
I.
Mál þetta sem dómtekið var 26. nóvember síðastliðinn hefur Nóntindur ehf, Ásum, Búðardal, höfðað 27. ágúst sl. á hendur Rafmagnsverkstæði Birgis ehf., Dofrabergi 1, Hafnarfirði.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda 1.227.383 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 4. júlí 2001 til greiðsludags. Þá er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól kröfu á 12 mánaða fresti, fyrst þann 4. júlí 2002.
Stefnda krefst aðallega sýknu af dómkröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara krefst stefnda þess að dómkröfur verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
II.
Landsvirkjun hf. stendur fyrir byggingu aðveitustöðvar að Brennimel í Melasveit í Borgarfirði. Stefnda hafði tekið að sér verk fyrir Landsvirkjun hf. við framkvæmdirnar. Stefnda bauð stefnanda að gera tilboð í ákveðna verkþætti sem undirvertaki og sendi honum tilboðsblað með neðangreindum verkliðum. Á blaðið hafði fyrirsvarsmaður stefnda ritað með penna verð í verkliði í kafla IV.3.3 og kafla IV.3.5:
|
Verkliður |
Magn |
Ein.verð |
Upphæð |
IV.3.3 Gröftur |
|
|
|
|
Laus |
3220 m³ |
120 kr. |
384.000 kr. |
|
Fastur viðbótarverð |
100 m³ |
3200 kr. |
320.000 kr. |
|
IV.3.4 Jarðvinna við jarðskaut og spennujöfnun |
|
|
|
|
30 cm djúpur skurður f. spennujöfnun |
200 m |
|
|
|
50 cm djúpur skurður f. spennujöfnun |
200 m |
|
|
|
80 cm djúpur skurður f. jarðskaut |
325 m |
|
|
IV.3.5 Fylling og frágangur |
|
|
|
|
Uppgrafið / og útjöfnun eða tippun |
3220 m³ |
80 kr. |
257.600 kr. |
|
.Aðflutt grús |
2500 m³ |
|
|
|
Aðflutt brotið steinefni 10-36 mm |
470 m³ |
|
|
|
Samtals |
|
|
964.000 kr. |
|
|
|
vsk |
236.180 kr. |
|
Samtals |
|
|
1.200.180 kr. |
Forsvarsmaður stefnda bar fyrir dómi að hann hefði ritað þessi verð til þess að gefa stefnanda til kynna þau verð sem hann var tilbúinn að greiða fyrir þessa verkliði. Um væri að ræða kostnaðarverð hefði hann unnið verkið sjálfur.
Stefnandi óskaði eftir því að fá að gera tilboð í alla verkþætti, þ.e. IV.3.3 IV.3.4 og IV.3.5. Forsvarsmaður stefnda kvaðst hafa tjáð stefnanda að hann væri með mjög gott verð í verklið IV.3.5, en það mætti líta á tölur í þessa liði frá stefnanda. Það lá jafnframt fyrir að stefnda hafði ekki aðgang að efnisnámu, en ef stefnandi gæti verið lægri í akstri ætti stefnda eftir að kanna hvort efni fengist keypt án aksturs frá einhverjum efnisnámueiganda. Það varð því úr að stefnandi bauð í alla verkþættina og lækkaði það verð sem stefnda hafði áður boðið stefnanda. Fyrir dómi bar fyrirsvarsmaður stefnanda að hann hafi litið svo á að þau verð sem fyrirsvarsmaður stefnda var búinn að rita á tilboðsblaðið hafi verið þau verð sem hann fengi greidd frá Landsvirkjun hf. Hann hafi því talið að hann yrði að bjóða lægri verð í þá verkliði. Gerði hann því stefnda eftirfarandi tilboð í símbréfi:
|
Verkliður |
Magn |
Ein.verð |
Upphæð |
IV.3.3 Gröftur |
|
|
|
Laus |
3220 m³ |
100 kr. |
322.000 kr. |
Fastur viðbótarverð |
100 m³ |
3000 kr. |
300.000 kr. |
Samtals |
|
|
622.000 kr. |
IV.3.4 Jarðvinna við jarðskaut og spennujöfnun |
|
|
|
30 cm djúpur skurður f. spennujöfnun |
200 m |
70 kr. |
14.000 kr. |
50 cm djúpur skurður f. spennujöfnun |
200 m |
200 kr. |
40.000 kr. |
80 cm djúpur skurður f. jarðskaut |
325 m |
300 kr. |
97.500 kr. |
Samtals |
|
|
151.500 kr. |
|
|
|
|
|
IV.3.5 Fylling og frágangur |
|
|
|
Uppgrafið / og útjöfnun eða tippun |
3220 m³ |
60 kr. |
193.200 kr. |
Aðflutt grús |
2500 m³ |
580 kr. |
1.450.000 kr. |
Aðflutt brotið steinefni 10-36 mm |
470 m³ |
580 kr. |
272.600 kr. |
Samtals |
|
|
1.915.800 kr. |
|
|
|
|
|
Samtala liða 3.3, 3.4 og 3.5 |
|
|
2.689.300 kr. |
|
|
|
vsk |
658.878 kr. |
Samtals |
|
|
3.348.178 kr. |
Framkvæmdastjóri stefnda þvertekur fyrir að hafa sagt það verð sem hann ritaði á tilboðsblaðið vera það verð sem hann fengi frá Landsvirkjun hf. Lagður hefur verið fram samningur stefnda við Landsvirkjun hf. sem er eftirfarandi:
Verkliður |
Magn |
Ein.verð |
Upphæð |
IV.3.3 Gröftur |
3220 m³ |
500 kr. |
1.610.000 kr. |
Laus |
100 m³ |
4500 kr. |
450.000 kr. |
Fastur viðbótarverð |
|
|
|
IV.3.4 Jarðvinna við jarðskaut og spennujöfnun |
|
|
|
30 cm djúpur skurður f. spennujöfnun |
200 m |
300 kr. |
60.000 kr. |
50 cm djúpur skurður f. spennujöfnun |
200 m |
400 kr. |
80.000 kr. |
80 cm djúpur skurður f. jarðskaut |
325 m |
500 kr. |
162.500 kr. |
IV.3.5 Fylling og frágangur |
|
|
|
Uppgrafið / og útjöfnun eða tippun |
3220 m³ |
400 kr. |
1.288.200 kr. |
Aðflutt grús |
2500 m³ |
650 kr. |
1.625.000 kr. |
Aðflutt brotið steinefni 10-36 mm |
470 m³ |
1500 kr. |
705.000 kr. |
Þegar stefnda fékk uppgefin verð stefnanda fyrir alla verkþættina kom í ljós að einingaverð fyrir liði 2 og 3 í verkliði IV.3.5 voru verulega hærri en tilboð frá Þorgeiri og Helga ehf. en þeir buðu í þá þætti verksins 1. júní 2001.
Forsvarsmaður stefnda kvaðst hafa tjáð forsvarsmanni stefnanda munnlega að hann gæti ekki tekið tilboði hans, að því er varðaði liði 2 og 3 í verklið IV.3.5 þar sem hann væri með mun lægri verði frá Þorgeiri og Helga ehf. Forsvarsmaður stefnanda heldur því fram að forsvarsmaður stefnda hafi engu síður hvatt hann til að koma og byrja á verkinu og þeir myndu leysa málið á grundvelli tilboðsins.
Skriflegur samningur var ekki undirritaður. Báðir málsaðilar bera að þeir hafi óskað eftir því við hinn málsaðilann að gengið yrði frá skriflegum samningi, en það hafi farist fyrir og kennir hvor öðrum um það.
Ágreiningslaust er að framkvæmdastjóri stefnanda kom á verkstað og kynnti sér aðstæður 9. júní 2001. Grafa var flutt á verkstað 11. sama mánaðar og stefnandi hóf verkið 13. júní 2001 með því að taka upp úr grunni. Samkvæmt dagskýrslum sem verkstjóri stefnanda færði og eru undirritaðar af eftirlitsmanni Landsvirkjunar hf. sést að stefnandi forfærir efni úr grunni með vélum 15. og 16. júní. Á dagskýrslu fyrir 15. júní kemur fram að framkvæmdastjóri stefnanda og framkvæmdastjóri stefnda hafi rætt um tilboðið. Ræddu þeir um 580 kr. einingaverð fyrir akstur jarðefna en framkvæmdastjóri stefnda hafi ekki fallist á það. Hafi stefnda verið tjáð að stefnandi liti svo á að jarðvegsskipti væru ein heild þar sem einn liður bætti annan upp.
Þann 16. júní kemur fram að bíll frá Akranesi [þ.e. frá Þorgeiri og Helga ehf.] hafi flutt nokkrar ferðir af möl og hafi stefnandi mótmælt þessu. Að auki segir að enn sé ósamkomulag um verð.
Fyrir dómi kom fram að þennan sama dag hafi vörubifreið bilað hjá stefnanda og hafi framkvæmdastjóri stefnanda unnið að viðgerð hans á staðnum. Barði Ólafsson starfsmaður hjá stefnda hugðist nota tækifærið og freista þess að ganga frá samningnum. Hafi forsvarsmaður stefnanda sagt að hann yrði fyrst að gera við bílinn og svo skyldu þeir ræða samninginn. Það hafi ekki gengið eftir því forsvarsmaður stefnanda hafi farið af verkstað án þess að ræða við starfsmann stefnda og ekki komið aftur. Fyrir dómi kannaðist forsvarsmaður stefnanda ekki við það að starfsmaður stefnda hafi rætt við hann um samninginn.
Dagana 17. og 18. júní var haldið áfram að vinna við verkið með þremur mönnum, gröfu, ýtu og vörubíl. Í framburði verkstjóra stefnanda, Völundar Þorsteins Hermóðssonar, fyrir dómi kom fram að hann stöðvaði vinnuna um hádegi 18. júní því augljóst væri að stefnandi tapaði peningum hvern einasta dag ef einungis ætti að vinna við uppgröftinn. Eftir um það bil tveggja klukkustunda vinnustöðvun hafi framkvæmdastjóri stefnda komið og beðið verkstjórann að halda verkinu áfram en verkstjórinn hafi neitað því. Framkvæmdastjóri stefnda hafi hringt í framkvæmdastjóra stefnanda. Í framhaldi af því símtali bað framkvæmdastjóri stefnanda verkstjórann að halda verkinu áfram.
Fyrir dómi bar framkvæmdastjóri stefnanda að í þessu símtali eftir hádegi 18. júní hefði framkvæmdastjóri stefnda þrábeðið hann að halda verkinu áfram þar sem rafstraumur hefði verið tekinn af streng hjá verkstað og hleypa ætti rafmagninu á einum eða tveimur dögum síðar. Verkinu yrði því að ljúka fyrir þann tíma. Í þessu sama símtali hafi framkvæmdastjóri stefnda sagt að þeir hlytu að ná samkomulagi um akstursliðina tvo en hann taldi 580 kr. heldur hátt einingaverð. Framkvæmdastjóri stefnanda hafi fallist á að lækka tilboðið um 80 kr. Framkvæmdastjóri stefnda hafi gefið í skyn að þeir myndu ná samkomulagi um 500 kr. fyrir eininguna. Af þessum sökum hafi framkvæmdastjóri stefnanda hringt í verkstjóra sinn og beðið hann að halda verkinu áfram.
Fyrir dómi kannaðist hvorki framkvæmdastjóri stefnda né starfsmaður hans, Barði Ólafsson, við það að verkið hafi verið stöðvað um hádegisbil þann 18. júní. Framkvæmdastjóri stefnda kannaðist heldur ekki við að hann hafi hringt í framkvæmdastjóra stefnanda þennan dag. Þessarar vinnustöðvunar er ekki getið í dagskýrslu.
Verkið er unnið áfram 19. júní með þremur mönnum með gröfu, ýtu og bíl samkvæmt dagskýrslu. Þann 20. júní vinna þrír menn hver í 13 og 1/2 klukkustund samkvæmt dagskýrslu með gröfu og ýtu.
Að sögn framkvæmdastjóra stefnanda krafðist hann þess þann 20. júní að gerður yrði skriflegur samningur á grundvelli tilboðsins sem stefnandi hafði gert í verkið. Það hafi framkvæmdastjóri stefnda ekki viljað samþykkja. Hann hafi sagt að hann myndi aldrei samþykkja þau einingaverð sem tilgreind voru í tilboði stefnanda fyrir akstur á aðfluttu efni í verklið IV.3.5. Forsvarsmaður stefnanda bar fyrir dómi að hann hefði sagt að forsvarsmanni stefnda að hann færi frá verkinu ef tilboð hans yrði ekki samþykkt. Jafnframt yrði stefnda krafið um verklaun á grundvelli tímakaups véla og manna. Stefnandi fór frá verkinu 20. júní 2001, þar sem ekki var skrifað undir verksamning.
Framkvæmdastjóri stefnda kveður það rangt að framkvæmdastjóri stefnanda hafi tjáð honum að stefnandi færi frá verkinu yrði ekki ritað undir verksamning. Framkvæmdastjóri stefnda mótmælir því einnig að framkvæmdastjóri stefnanda hafi sagt honum að yrði ekki skrifað undir samning yrði stefndi krafinn um greiðslu á grundvelli tímakaups, véla og manna.
Eftir að stefnandi hætti verkinu sendi hann stefnda reikning dagsettan 22. júní þar sem stefndi er krafinn um greiðslu á grundvelli tímakaups. Með bréfi dagsettu 4. júlí endursendi stefnda stefnanda reikninginn og í meðfylgjandi bréfi er stefnanda „boðið að ganga til leiks að nýju og ljúka þeim liðum í fyrri hluta verksins sem samkomulag varð um, á einingaverðum sem samkomulag varð um, með þeim lagfæringum þó sem verkkaupi (RB) var tilbúinn að gera til hækkunar, lagfæringar sem búið var að ræða millum aðila, - eða senda ella nýjan reikning með upphæðum sem eru heldur nær þeim tölum er um getur í tilboði hans í verkið, enda þær tölur forsenda þess að Nóntindur ehf. byrjaði að vinna sem undirverktaki við framkvæmdirnar að Brennimel.”
Fyrir dómi skýrði framkvæmdastjóri stefnanda setninguna „...á einingaverðum sem samkomulag varð um, með þeim lagfæringum þó sem verkkaupi (RB) var tilbúinn að gera til hækkunar...” þannig að átt væri við það verð sem hann hafði ritað á tilboðsblaðið í upphafi.
Þann 14. júlí gerði stefnda skriflegan samning við annan verktaka um að ljúka verkinu. Samkvæmt þeim samningi greiddi stefnda 250 kr. fyrir m³ af uppgrefti á lausu og föstu efni. Viðbótarverð fyrir fleigun á klöpp nam 3.350 kr. fyrir m³.
Að sögn stefnda tók fyrirtækið Þorgeir og Helgi ehf. að sér akstur á aðfluttu efni á grundvelli þess tilboðs sem þeir sendu stefnda 1. júní sl. en ekki hafi verið gerður við þá samningur.
Lagt hefur verið fram í málinu yfirlit frá stefnda yfir það efnismagn sem stefnandi hafði grafið upp þegar hann hætti vinnu við verkið:
Gröftur
|
Laust efni |
1180,2 m³ |
|
Fast efni losað |
208,8 m³ |
|
Samtals |
1389,0 m³ |
Á þessu yfirliti kemur ekki fram hversu miklu magni hafði verið útjafnað á tipp.
Á grundvelli þessa yfirlits reiknaði stefnda út það verð sem greiða skyldi stefnanda miðað við það einingaverð sem stefnandi hafði ritað inn í liðinn IV.3.3 á tilboðsblaðið áður en forsvarsmaður stefnda sendi það til stefnanda. Niðurstaða útreiknings stefnda er að skuld þess við stefnanda nemi 64.873 krónum en þá hefur verið dregið frá það tjón sem stefnda telur stefnanda hafa valdið sér með brotthlaupi sínu frá verki. Þessa fjárhæð greiddi stefnda inn á reikning stefnanda 24. október sl.
III.
Völundur Þorsteinn Hermóðsson, verkstjóri hjá stefnanda, bar fyrir dómi að framkvæmdastjóri stefnanda hefði hringt til hans í byrjun júní og sagt að útlit væri fyrir að hann færi í jarðvegsskipti að Brennimel. Vitnið bar að framkvæmdastjóri stefnanda taldi þá frágengið að stefnandi tæki allt verkið að sér. Að sögn vitnisins sé það algengast að einn verktaki taki að sér alla jarðvegsvinnuna í svona tilvikum.
Þann 15. júní mætti vitnið til vinnu að Brennimel. Þann dag verði vitninu ljóst að eitthvað sé málum blandið með samninginn. Þann 18. júní tók vitnið þá ákvörðun um að stöðva verkið vegna þess að vitninu fannst „þetta tómt bull.” Stefnandi væri greinilega að tapa peningum hvern einasta dag. Það væru bara peningaleg útgjöld fólgin í því að taka einungis einn verkþáttinn sem skilaði ekki „nokkrum sköpuðum hlut”. Þar sem stefnandi risi ekki undir þeim útgjöldum stöðvaði vitnið verkið. Samkvæmt samantekt stefnda yfir það endurgjald sem stefnanda beri fyrir unnið verk eigi stefnandi að fá greiddar 328.000 krónur. Vitnið geti sannað að peningalegur kostnaður stefnanda við þessa vinnu sé 921.000 krónur. Komi þar til flutningur véla, kaup manna, olía, uppihald og akstur einkabíls en ekki leiga fyrir vélar. Augljóst sé að verktaki taki ekki að sér verk sem hann þurfi að borga 600.000 krónur með.
Að sögn vitnisins fólst ósamkomulag fyrirsvarsmanna stefnanda og stefnda í því að framkvæmdastjóri stefnda vildi ekki standa við greiðslu á 580 kr. á m³ fyrir akstur á aðfluttu efni. Þessi ágreiningur kom strax fram 15. júní. Vitnið taldi stefnanda hafa farið inn í þetta verk á fölskum forsendum „þegar ekki fylgir með allur pakkinn.”
Vitnið bar að stefnandi hafi aldrei verið boðaður til úttektar á því hversu mikið magn grafið var upp og flutt á tipp. Vitnið kvaðst hafa spurt eftir því undir lok verksins hversu mikið væri búið að grafa og hafi honum verið gefið upp svipað magn og kemur fram í skjali frá stefnda. Vitnið sagðist ekki hafa ástæðu til að bera brigður á mælingu stefnda. Á því yfirliti komi þó ekki fram akstur á tipp.
Vitnið sagðist líta svo á að uppgrefti á efni hlyti að fylgja tippun. Því væri ekki hægt að aðskilja fyrsta lið í IV.3.5 frá fyrsta lið í IV.3.3.
Vegna atburðanna 16. júní sagði vitnið að það hafi verið samkomulag með aðilum að reyna til þrautar með 580 kr. einingaverð. Það hafi hinsvegar legið svo á að fá efni niður í „fundamentið” og því hafi bíllinn frá Akranesi ekið efni í það.
Að sögn vitnisins athugaði eftirlitsmaður Landsvirkjunar sína dagbók áður en hún undirritaði dagskýrslurnar.
Barði Ólafsson, starfsmaður hjá stefnda, bar fyrir dómi að hann og Birgir Ólafsson, framkvæmdastjóri stefnda, hefðu samið samningsdrögin í sameiningu sem hafa verið lögð fram. Vitnið hafi afhent Birgi útprent af drögunum í því skyni að hann símsendi drögin til framkvæmdastjóra stefnanda. Vitnið kvaðst ekki vita betur en að það hafi verið gert. Hann minnti að þeir hefðu samið drögin 8. júní 2001. Vitnið bar ennfremur að framkvæmdastjóra stefnanda hafi verið tjáð þegar þeir fengu tilboð hans símsent að tölurnar í liðunum aðflutt grús og steinefni væru allt of háar.
Að mati vitnisins náðist samkomulag með aðilum um liðina IV.3.3, IV.3.4 og fyrsta lið IV.3.5 en stefnanda hafi verið gert ljóst bæði áður og eftir að hann gerði tilboðið að tilboð hans í akstur á aðfluttri grús og aðflutt brotið steinefni væri of hátt.
IV.
Í málflutningi fyrir dómi byggði stefnandi á öðrum málsástæðum en hann gerði í stefnu og var því ekki mótmælt af hálfu stefnda.
Stefnandi byggir á því að náðst hafi munnlegur samningur um öll þau einingaverð sem tilgreind eru á því skjali sem framkvæmdastjóri stefnanda símsendi til framkvæmdastjóra stefnda. Fram hafi komið í málflutningi að framkvæmdastjóri stefnda gerði ráð fyrir því að stefnandi ynni verkliði IV.3.5 en hafi ekki sætt sig við að þeir yrðu unnir á 580 kr. m³.
Framkvæmdastjóri stefnanda hafi sent framkvæmdastjóra stefnda tölurnar á tilboðsblaðinu sem ákveðið tilboð. Þessu tilboði hafi ekki verið hafnað þegar stefnandi hafi hafist handa við verkið. Stefnda byggi einnig á þessu tilboði en telji að ekki hafi náðst samkomulag um akstursliðina.
Stefnandi byggir ennfremur á því að það sé venja að sá verktaki sem taki að sér jarðvinnu taki verkið í heild. Haldi stefnda því fram að þessu sé öðruvísi farið hvíli sönnunarbyrðin um það á honum.
Stefnandi byggir ennfremur á því að honum hafi verið rétt að hverfa frá verkinu vegna brostinna forsendna. Forsenda þess lága verðs sem hann bauð í verkliði VI.3.3, VI.3.4 og fyrsta verklið VI.3.5 hafi verið að hann fengi að vinna við aðflutning á jarðefni á því verði sem hann bauð. Þar sem stefnda hafi ekki viljað standa við þetta hafi forsendur fyrir því að stefnandi gæti unnið verkið verið brostnar. Kostnaðurinn við að koma með tæki og mannskap á staðinn hafi verið of hár miðað við endurgjaldið sem hann fengi, fengi hann ekki að vinna samkvæmt tilboðinu í akstursliðina. Stefnandi hafi því farið frá verkinu þegar stefnda hafnaði því.
Stefnandi byggir á því að stefnda hafi óskað eftir vinnu hans og stefnandi hafi hafið vinnu á grundvelli samnings sem hafi komist á þegar tilboð hans var samþykkt.
Stefnandi byggir einnig á því að atvik málsins séu þannig vaxin að stefnda hafi sönnunarbyrðina um það að samningur hafi aðeins tekist um ákveðna liði en ekki aðra. Þetta verk sé það lítið að það sé óeðlilegt að jarðvinnuverktaki taki ekki að sér alla verkliðina og sérstaklega sé óeðlilegt að hann taki bara að sér einn af þeim liðum sem tilgreindir séu í IV.3.5.
Þar sem stefnda hafi neitað stefnanda að vinna verkið samkvæmt þeim samningi sem gerður hafi verið við stefnanda hafi stefnanda verið rétt að gera reikning á hið stefnda félag og byggja hann á þeirri tímavinnu sem skráð er á verkið, bæði fyrir menn og vélar.
Á því sé byggt að eftirlitsmaður Landsvirkjunar hf. hafi kvittað á dagskýrslur stefnanda og sé því ekki deilt um það hvaða verk hafi verið unnin af stefnanda. Aðeins sé ágreiningur um hver verklaunin eigi að vera fyrir unnin verk. Til samræmis við gjaldskrá stefnanda sundurliðar stefnandi kröfu sína með eftirfarandi hætti:
|
“Flutningur á beltagröfu, 151 km x 350 |
kr. 52.850 |
|
Beltagrafa, 70 t á kr. 6000 tíminn |
kr. 420.000 |
|
Mannakaup, 176,5 t á kr. 2000 tíminn |
kr. 353.000 |
|
Jarðýta, 29 t á kr. 2500 tíminn |
kr. 72.500 |
|
Vörubíll, 23 t á kr. 2500 tíminn |
kr. 57.500 |
|
Fleygur, 2 t á kr. 5000 tíminn |
kr. 10.000 |
|
Leiga á vatnsdælu, 1 t á kr. 10.000 tíminn |
kr. 10.000 |
|
Leiga á jarðvegsþjöppu 1 t á 10.000 tíminn |
kr. 10.000 |
|
|
|
|
Samtals |
kr. 985.850 |
|
með virðisaukaskatti |
kr. 1.227.383” |
Stefnandi byggir einnig á því að þegar hann hafi komið að verkinu hafi hið stefnda félag þegar gert samning við aðalverkkaupa um verkið og ekki haft tök á því að inna af hendi þá verkþætti sem stefnandi hafi gert tilboð í. Stefnandi hafi því ekki getað tafið verkið á nokkurn hátt, heldur þvert á móti flýtt fyrir hinu stefnda félagi, sem hafi notið verka stefnanda á fullkominn hátt.
Stefnandi styður kröfur sínar við meginreglur verktakaréttar um réttlát verklaun fyrir unnin verk, samkvæmt lögjöfnun frá 5. gr. þágildandi kaupalaga Þá vísar stefnandi til meginreglna verktakaréttar um réttarstöðu eftirlitsmanns aðalverkkaupa og réttaráhrif gerða hans. Einnig er vísað til þeirrar meginreglu að verksamningar af þeirri stærðargráðu sem um er deilt séu skriflegir. Að lokum er vísað til reglna kröfuréttarins um brostnar forsendur.
V.
Stefnda telur sannað að ekki hafi komist á bindandi samningur á grundvelli tilboðs stefnanda. Stefnda byggir sýknukröfu sína á því að það sé vanrækslu stefnanda að kenna að ekki hafi verið skrifað undir samning og ábyrgðarleysi af hans hálfu að hefja verk án þess að fyrir liggi samningur.
Stefnda telur stefnanda ekki hafa sýnt fram á að það sé almenn venja í jarðvegsvinnu að aðskilja ekki verkþætti og mótmælir því að brugðið sé út af almennri reglu um sönnun, að sá sem haldi fram staðhæfingu beri sönnunarbyrðina fyrir henni.
Stefnda mótmælir því að verkið sem vinna átti að Brennimel sé talið smáverk. Komið hafi í ljós að umfang verksins reyndist meira en upphaflega var gert ráð fyrir. Fasti gröfturinn hafi aukist um helming og lausi gröfturinn um 1000 m³.
Sýknukrafa stefnda byggir á því að það hafi komist á bindandi samningur um alla þætti aðra en aðflutning á grús og föstu jarðefni. Ekki sé óeðlileg að náðst hafi samkomulag um fyrsta verkliðinn í IV.3.5 „Uppgrafið / og útjöfnun eða tippun” þar sem sá hluti sé nátengdur því verki að grafa upp lausan og fastan jarðveg. Aðflutningur á grús og brotnu steinefni feli það í sér að aka þurfi lengri leið og það þurfi að hafa aðgang að grúsarnámu. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi haft aðgang að grúsarnámu eða að hann hafi gert það að skilyrði að stefnda myndi að auki útvega efnið.
Til sönnunar fullyrðingu sinni um það að komist hafi á samningur um aðra liði en akstur á aðfluttu efni vísar stefnda til dagskýrslna þar sem fram komi að ekki sé ágreiningur með aðilum um annað en einingaverð fyrir þá liði. Ennfremur beri samningsuppkast frá 8. júní sl. það sama með sér.
Stefnda lítur svo á að það hafi gert stefnanda tilboð með þeim tölum sem það færði inn á tilboðsblaðið áður áður en það var sent stefnanda. Viðbætur og breytingar stefnanda beri að skoða sem nýtt tilboð.
Fram komi í aðilaskýrslu Birgis Ólafssonar og vitnaskýrslu Barða Ólafssonar að stefnda hafi frá upphafi hafnað tilboði stefnanda í akstur á aðfluttu efni. Aldrei hafi verið gert ráð fyrir því að stefnandi ynni verkið gegn 580 kr. einingaverði.
Stefnda telur ósannað að forsenda fyrir tilboði stefnanda hafi verið að það næði upp lágu einingaverði á uppgrefti með háu einingaverði á akstri á aðfluttu efni. Fram hafi komið í samtali framkvæmdastjóra stefnanda við framkvæmdastjóra stefnda að stefnda hafi þegar fengið lágt verð í þennan lið og sé tilboð Þorgeirs og Helga hf. sönnun þess. Að ósk framkvæmdastjóra stefnanda hafi framkvæmdastjóri stefnda heimilað honum að gera tilboð í alla verkþætti. Tilboð stefnanda hafi ekki verið viðunandi og því ekki tekið.
Stefnda mótmælir því að einingaverð sem komi fram í samningi Landsvirkjunar hf og stefnda hafi þýðingu í þessu máli. Ennfremur sé ósannað að framkvæmdastjóri stefnda hafi sagt framkvæmdastjóra stefnanda að það verð sem hann hafi fært inn á tilboðsblaðið væri það verð sem stefnda fengi greidd af Landsvirkjun hf.
Þar sem málatilbúnaður stefnanda byggist á tímagjaldi verði að benda sérstaklega á það að undirritun eftirlitsmanns Landsvirkjunar hf. staðfesti aðeins að stefnandi hafi verið við vinnu á ofangreindum dögum.
Stefnda vísar til þess að í útboðsverkum sé aldrei miðað við tímagjald.Stefnda byggir á því að honum hafi aldrei verið tilkynnt að hann yrði krafinn um greiðslu á grundvelli tímagjalds gengi hann ekki til samninga um verkliðina akstur á aðfluttu efni. Ef stefnda hefði verið tilkynnt um þetta hefði það annast eftirlit með verkinu með hliðsjón af því.
Stefnda vísar til þess að stefnandi hafi ekki skrifað undir samning við stefnda en hafi þó ekki gert athugasemdir við efni hans. Einhliða óskir stefnanda um viðbætur við samninginn eftir að samkomulag hafi náðst með aðilum og eftir að verk var hafið á verkstað geti ekki réttlætt að stefnandi hafi ekki viljað undirrita samning um það samkomulag sem þeir hafi þegar náð.
Á því er byggt af hálfu stefnda að það hafi að öllu leyti staðið við samningsskyldur sínar í samræmi við samning aðila.
Þar sem sannað sé að kominn hafi verið á samningur með aðilum sé bersýnilega ósanngjarnt að krefja stefnda um greiðslu fyrir unnið verk á grundvelli tímagjalds. Stefnda telur sig hafa greitt það sem stefnanda ber og verði því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Stefnda mótmælir því að brotthlaup stefnanda frá verkinu hafi ekki tafið verkið og að þátttaka stefnanda í verkinu hafi flýtt fyrir verklokum. Stefnda hafi ekki tekist að fá annan verktaka fyrr en þremur vikum síðar og hafi jafnframt þurft að greiða mun hærra verð.
Varakrafa stefnda um stórfellda lækkun á stefnukröfum er miðuð við, að stefnandi geti hvað sem öðru líður ekki átt rétt til greiðslu krafna nema að litlum hluta. Við mat í því efni verði litið til þess, að stefnandi vanefndi samningsskyldur sínar með því að fara frá óloknu verki eftir að hafa verið einungis sjö daga á verkstað. Þá sé ljóst að stefnandi eigi ekki rétt á greiðslu á tímagjaldi, þar sem slík krafa sé í algeru ósamræmi við samning aðila og almennar reglur varðandi verklaun á grundvelli útboðs. Ennfremur verði að telja það á ábyrgð stefnanda að hefja verk, án þess að fyrir lægi skriflegur samningur um verkið og af þeim sökum geti stefnandi ekki átt rétt nema til hluta stefnukrafna.
Af hálfu stefnda er mótmælt kröfu stefnanda um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi. Verði að líta til þess að stefnandi hafi fyrst haft uppi kröfu sínar gagnvart stefnda með bréfi lögmanns stefnanda og reikningi stefnanda. Sáttatilraunum stefnda hafi alfarið verið hafnað og mál höfðað án þess að stefnda hafi verið mögulegt að leysa ágreiningsefnið.
Stefnda styður kröfur sínar við reglur verktakaréttar um efndir in natura, skyldur verktaka og meginreglur um greiðslu verkkaups. Ennfremur styður stefnda kröfur sínar við aðrar almennar reglur verktaka-, samninga- og kröfuréttar, þ. á m. regluna um skuldbindingargildi samninga, regluna um skuldajöfnuð og 36. gr. samningalaga. Um málskostnað er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 og til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á málskostnað.
VI.
Í þessu máli er deilt um það hvort komist hafi á samningur milli málsaðila á grundvelli tilboðs sem stefnandi sendi stefnda.
Dóminum þykir nægjanlega í ljós leitt að stefnandi bauð í verkið í heild og það hafi verið forsenda þess að hann tæki verkið að sér. Þar sem stefnda vildi ekki ganga að tilboði stefnanda í heild verður litið svo á að samningur hafði ekki tekist milli málsaðila, er stefnandi hóf verkið. Stefnda hefur því ekki sannað að samningur hafi komist á með aðilum einvörðungu um hluta verksins.
Stefnandi hefur krafist greiðslu fyrir þá vinnu sem hann innti af hendi á grundvelli reiknings sem miðar við tímagjald. Reikningurinn byggir á dagskýrslum sem verkstjóri hans hélt á verktímanum.
Ekki þykir sanngjarnt að miða endurgjald fyrir það verk sem stefnandi innti af hendi við það einingaverð sem hann bauð í þá liði sem hann hafði unnið þegar hann fór frá verkinu þar sem forsenda þess einingaverðs var að hann fengi allt verkið þ.e.a.s. að einingaverðið fyrir akstur á aðfluttu efni næði upp því heildarverði sem hann þurfti að fá vegna þeirra útgjalda sem fylgdu verkinu.
Eins og hér stendur á telur dómurinn að hið stefnda félag verði að bera hallann af því að heimila stefnanda að hefja verkið án þess að samningur hafi tekist. Af því leiðir að framlagður reikningur stefnanda fyrir þá vinnu sem hann innti af hendi fyrir stefnda verður lagður til grundvallar við úrlausn málsins, enda hefur ekki af hálfu stefnda verið sýnt fram á að tímaskýrslur stefnanda séu á einhvern hátt óeðlilegar og er þá meðal annars haft til hliðsjónar þau verð er stefnda samdi við annan verktaka til þess að ljúka verkinu. Þá ber á það að líta að eftirlitsmaður Landsvirkjunar hf staðfesti viðverustundir manna og véla stefnanda.
Samkvæmt því sem hér að ofan hefur verið rakið er niðurstaðan sú að dómkrafa stefnanda er tekin til greina, en til frádráttar kemur kr. 64.873 sem stefnda greiddi stefnanda 24. október 2001 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eins og nánar greinir í dómsorði.
Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda dæmd til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.
Ólöf Pétursdóttir, dómstjóri, kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Stefnda Rafmagnsverkstæði Birgis ehf., greiði stefnanda Nóntindi ehf., kr. 1.227.383 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. júlí 2001 til 24. október 2001, en frá þeim degi af kr. 1.162.510 til greiðsludags og 400.000 í málskostnað.