Hæstiréttur íslands

Mál nr. 20/2018

Diana P. Rostan Viurrarena (sjálf)
gegn
Landsbankanum hf. (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem máli D á hendur L hf. var vísað frá Landsrétti sökum þess að kæra barst ekki fyrr en að liðnum kærufresti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. september 2018 en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 29. ágúst 2018 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá Landsrétti. Kæruheimild er í 5. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar, en til vara að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2018 „verði endurskoðaður og uppboðið verði lýst ógilt eins og allar þær afleiðingar og aðgerðir sem á eftir fylgdu. Að kröfur Landsbankans sé hafnað í heild sinni þar sem kröfurnar eru fyrndar. Að skulda kröfur Landsbankans ef þær eru til, verði skuldajafnað með reikningum Pelkó ehf. sem voru í vörslu Landsbankans, sem bankinn skilaði ekki, og leiddi til gjaldþrots á því sama. Að viðurkenna skaðabætur, og tjón eins og vátryggingafélagsskuldbinding. Eða gera dóminn ógildan samkvæmt lög 151/2010 gr. 2/mgr.e (XIV) sem breyta lögum 38/2001 kafla XIV (mál eins og þetta verður að vera lokið 16. júní 2018).“

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Landsréttar 29. ágúst 2018.

Landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Ásmundur Helgason og Ragnheiður Harðardóttir kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1. Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 7. ágúst 2018, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2018, í málinu nr. A-44/2018, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sóknaraðili yrði með beinni aðfarargerð borin út úr fasteign varnaraðila að Miklubraut 90 í Reykjavík. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, um aðför.

2. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Landsrétti.

Niðurstaða

3. Í 84. gr. laga nr. 90/1989 er að finna ákvæði um málskot úrskurða sem kveðnir eru upp samkvæmt lögunum. Í lokamálslið 4. mgr. greinarinnar segir að um kærufresti, kæruna sjálfa og meðferð hennar í héraði og fyrir Landsrétti gildi sömu reglur og um kæru í almennu einkamáli.

4. Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Reykjavíkur var sótt þing af hálfu málsaðila við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar 26. júní 2018. Er kæra barst héraðsdómi 7. ágúst 2018 var því liðinn tveggja vikna kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 144. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Verður málinu því vísað frá Landsrétti.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá Landsrétti.