Hæstiréttur íslands
Mál nr. 638/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 30. september 2014. |
|
Nr. 638/2014.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Saga Ýrr Jónsdóttir hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. september 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 3. október 2014 klukkan 16 og einangrun á meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og að honum verði ekki gert að sæta einangrun á meðan á því stendur.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2014.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 3. október nk. kl. 16. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögregla hafi veri kölluð að [...] í [...] um kl. 4:24 í nótt vegna hnífaárásar. Þegar lögregla kom á vettvang hafi kærði verið þar í tökum dyravarða sem sögðu hann vera gerandann í málinu. Hafi dyravörður framvísað hnífi sem hann kvað kærða hafa borið. Brotaþoli, A hafi verið fluttur á slysadeild. Samkvæmt læknisvottorði hafi hann hlotið stungusár í kviðvegg. Virtist sem hnífurinn hafi gengið inn í kviðarholið en ekki sært líffæri. Samkvæmt vottorði var um alvarlega árás að ræða sem hefði getað valdið lífshættulegum blæðingum.
Í frásögn brotaþola komi fram að hann hafi hitt kærða í [...] en hann kannist við hann frá fyrri tíð. Þeir hafi byrjað að tala saman, en kærði hafi síðar slegið hann í andlitið og síðan farið vasa og tekið upp rauðan hníf, kýlt hann aftur og síðan farið með hægri hendina í magann á brotþola. Brotaþoli kveðst ekki hafa áttað sig á því að hann hafi verið stunginn fyrr en fór að blæða.
Vitni á vettvangi, B, vinur brotaþola, mun hafa lýst því að til átaka hafi komið milli hans og kærða í [...] sem hafi endað með því að kærði hafi tekið upp hníf og stungið brotaþola.
Kærði mun hafa viðurkennt að hafa hitt brotaþola í nótt og kýlt hann í andlitið, en hann neiti að haft hníf meðferðis og neiti að hafa stungið brotaþola. Hann hafi ekki gefið neinar skýringar á því af hverju brotaþoli var stunginn með hníf.
Kærði er undir rökstuddum grunaður um alvarlega líkamsárás með hníf. Rannsókn málsins er á frumstigi og eftir er að taka frekari skýrslu af kærða og brotaþola og eftir atvikum vitnum og gera tæknirannsókn. Að mati lögreglu megi ætla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að ræða við vitni og hafa áhrif á framburð þeirra. Rannsókn málsins er því á viðkvæmu stigi og er afar brýnt að krafa lögreglustjóra verði tekin til greina.
Brot það sem kærði er grunaður um er sérstaklega alvarlegt og er talið geta varðað við 211. gr. sbr. 20. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20,1981 og 111. gr. laga nr. 82,1998, en slíkt brot getur varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til 2. mgr. 95. gr. og 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008.
Það er því nauðsynlegt með vísan til alls framanritaðs og gagna málsins að öðru leyti að kærða verði með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008 gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 3. október nk. kl. 16.00 og til að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga.
Niðurstaða:
Að mati dómsins er fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi í nótt stungið mann með hnífi. Ætlað brot varðar við 211. gr. sbr. 20. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningalaga. Rannsókn málsins er á frumstigi og þykir því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að fyrirbyggja að hann torveldi rannsókn málsins, sbr. a liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Jafnframt þykir nauðsynlegt af sömu ástæðu að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Verður því fallist á kröfur lögreglu eins og greinir í úrskurðarorði.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 3. október nk. kl. 16. Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.