Hæstiréttur íslands
Mál nr. 484/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Flýtimeðferð
|
|
Mánudaginn 27. júlí 2015. |
|
Nr. 484/2015.
|
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Jón Sigurðsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (enginn) |
Kærumál. Flýtimeðferð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu F um að mál, sem félagið hugðist höfða á hendur Í og varðaði meðal annars bann við verkfalli F, sætti flýtimeðferð. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar á því reist að dómkröfur F væru að efni til þær sömu og í öðru máli sem dæmt hafði verið í héraði og áfrýjað til Hæstaréttar. Því væri hvorki brýn þörf á skjótri úrlausn málsins né hefði það almenna þýðingu í skilningi 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hæstiréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu og taldi að málið varðaði stórfellda hagsmuni F og brýn þörf væri á skjótri úrlausn þess, sbr. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Tekið var fram í því sambandi að ekki hefði þýðingu þótt kveðinn hefði verið upp héraðsdómur í sambærilegu máli og þeim dómi verið áfrýjað, enda ætti F ekki aðild að því. Dómur í því máli væri því ekki skuldbindandi fyrir aðila þessa máls hvorn gagnvart hinum. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að gefa út stefnu til flýtimeðferðar í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júlí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júlí 2015 þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um flýtimeðferð máls sem hann hyggst höfða gegn varnaraðila. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að gefa út stefnu til flýtimeðferðar í málinu.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði er önnur krafa sóknaraðila í fyrirhuguðu máli hans á hendur varnaraðila sú að honum sé, þrátt fyrir ákvæði laga nr. 31/2015 um kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, heimilt að efna til verkfalls í samræmi við ákvæði laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Beiðni sóknaraðila um flýtimeðferð málsins er meðal annars rökstudd með því að allar verkfallsaðgerðir hans séu óheimilar samkvæmt 1. gr. laga nr. 31/2015. Það gangi gegn hinum almenna verkfallsrétti er sóknaraðila sé játaður í stjórnarskrá. Þegar af þeirri ástæðu sé afar brýnt fyrir sóknaraðila og félagsmenn hans, sem starfa hjá varnaraðila, alls um 2100 talsins, að fá nú þegar skorið úr því fyrir dómstólum hvort þeim sé unnt að nýta stjórnarskrárvarinn verkfallsrétt sinn þrátt fyrir umrædda lagasetningu. Hagsmunir þeirra felist einnig í því að þeir geti í tengslum við yfirstandandi kjaradeilu knúið á um kröfur sínar með verkfallsaðgerðum.
Samkvæmt fyrri málslið 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 er það meðal skilyrða þess að unnt sé að krefjast flýtimeðferðar á máli að það varði verkfall eða aðrar aðgerðir sem tengjast vinnudeilu. Svo sem fram kemur í síðari málslið málsgreinarinnar getur aðili sem hyggst höfða slíkt mál óskað eftir því að málið sæti meðferð eftir ákvæðum XIX. kafla laganna ef brýn þörf er á skjótri úrlausn, enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni hans.
Ekki fer milli mála að mál það, sem sóknaraðili hyggst höfða gegn varnaraðila, fullnægir skilyrði fyrri málsliðar 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991. Með skírskotun til þeirra röksemda sóknaraðila fyrir beiðni sinni um flýtimeðferð, sem að framan greinir, verður jafnframt fallist á að honum sé brýn þörf á skjótri úrlausn málsins og það varði stórfellda hagsmuni hans og félagsmanna hans þannig að uppfyllt séu skilyrði síðari málsliðar málsgreinarinnar. Í því sambandi hefur ekki þýðingu þótt kveðinn hafi verið upp héraðsdómur í máli, sem Bandalag háskólamanna hefur höfðað gegn varnaraðila, og þeim dómi verið áfrýjað til Hæstaréttar þar sem sóknaraðili á ekki aðild að því. Af þeim sökum er dómur í því máli ekki skuldbindandi fyrir aðila þessa máls hvorn gagnvart hinum.
Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að gefa út stefnu til flýtimeðferðar í málinu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að gefa út stefnu til flýtimeðferðar í máli því sem sóknaraðili, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, hyggst höfða á hendur varnaraðila, íslenska ríkinu.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 20. júlí 2015.
I
Með bréfi 16. júlí 2015 fór Jón Sigurðsson hrl. þess á leit við dóminn að mál sem umbjóðandi hans, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Suðurlandsbraut 22, Reykjavík, hyggst höfða á hendur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, sæti flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með bréfi 17. júlí sl. synjaði dómstjóri beiðni sóknaraðila. Með tölvubréfi sama dag krafðist lögmaður sóknaraðila þess að kveðinn yrði upp úrskurður um synjunina, sbr. 3. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
II
Samkvæmt stefnu gerir sóknaraðili þær dómkröfur „að viðurkennt verði:
Að stefnanda sé, þrátt fyrir ákvæði 1. gr., 2. gr. og 3. gr. laga nr. 31/2015 um kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, heimilt að efna til verkfalls í samræmi við ákvæði laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Að kaup og kjör félagsmanna stefnanda sem starfa hjá stefnda verði ekki afráðin með ákvörðun gerðardóms samkvæmt lögum nr. 31/2015 um kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.“
Loks er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Í áðurnefndu bréfi lögmanns sóknaraðila kemur fram að með málshöfðuninni leiti umbjóðandi hans viðurkenningar á því gagnvart íslenska ríkinu að honum og félagsmönnum hans sé þrátt fyrir lög nr. 31/2015 heimilar verkfallsaðgerðir vegna félagsmanna sinna sem starfi hjá ríkinu, og að kaup og kjör þeirra félagsmanna verði ekki afráðin með ákvörðun gerðardóms. Þá segir þar eftirfarandi til stuðnings beiðni um flýtimeðferð málsins: „Þar sem til skipunar gerðardóms hafi komið, eru allar verkfallsaðgerðir umbj. míns óheimilar samkvæmt því sem fram kemur í 1. gr. laga nr. 31/2015, sem gengur gegn hinum almenna verkfallsrétti sem umbj. mínum er játaður í stjórnarskrá. Þegar af þeirri ástæðu er afar brýnt fyrir umbj. minn og félagsmenn hans sem starfa hjá ríkinu, alls um 2100 einstaklinga, að fá nú þegar úr því skorið fyrir dómstólum hvort þeim sé unnt að nýta stjórnarskrárvarinn verkfallsrétt sinn þrátt fyrir umrædda lagasetningu og hvort að samningsrétturinn hvíli ennþá hjá stéttarfélaginu. Hagsmunir umbj. míns felast einnig í því að þeir geti í tengslum við þá kjaradeilu sem nú er í gangi knúið á með kröfur sínar með beitingu verkfallsaðgerða og samið sjálft f.h. sinna félagsmanna um kaup og kjör þeirra. Varðar niðurstaða dómsmálsins af þeim sökum stórfellda hagsmuni umbj. míns og félagsmanna hans. Af sömu ástæðum er umbj. mínum mjög mikilsvert að sem fyrst fáist niðurstaða í dómsmálinu. Umbj. minn telur ennfremur að úrlausn um kröfur hans hafi almenna þýðingu, með hliðsjón af tilurð dómsmálsins og þeim kröfum sem leitað er úrlausnar um.“
Auk þessa er vísað til þess að dómstjóri hafi í júní sl. veitt heimild til flýtimeðferðar í máli Bandalags háskólamanna gegn íslenska ríkinu vegna sambærilegra krafna og í máli þessu. Því sé fordæmi fyrir því að veita skuli flýtimeðferð af sams konar tilefni.
III
Í 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, segir að aðili sem hyggst höfða mál vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds eða verkfalls, verkbanns eða annarra aðgerða sem tengjast vinnudeilu, og það færi ella eftir almennum reglum þeirra laga, geti óskað eftir því að málið sæti flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laganna. Skilyrði þess er að brýn þörf sé á skjótri úrlausn, enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni aðila. Við mat á því hvenær brýn þörf sé á skjótri úrlausn dómstóla og hvenær úrlausn hafi almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni, verður að líta til atvika hverju sinni. Þar sem umrætt ákvæði felur jafnframt í sér afbrigði frá almennum málsmeðferðarreglum einkamálalaga verður að skýra það þröngri lögskýringu.
Eins og vikið er að hér að ofan var í júnímánuði sl. fallist á beiðni Bandalags háskólamanna um að mál félagsins gegn íslenska ríkinu skyldi sæta flýtimeðferð fyrir dómstólnum, enda var í því tilviki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 fyrir þeirri málsmeðferð. Dómur í því máli, nr. E-2217/2015, var kveðinn upp 15. júlí sl. og var íslenska ríkið sýknað af kröfum Bandalags háskólamanna. Hefur Bandalag háskólamanna þegar áfrýjað málinu til Hæstaréttar.
Af stefnu sóknaraðila í máli því sem hér er til umfjöllunar verður ekki annað séð en að dómkröfur séu þar að efni til nákvæmlega hinar sömu og í tilvitnuðu máli Bandalags háskólamanna gegn íslenska ríkinu, nr. E-2217/2015, sem, eins og áður segir, var leitt til lykta með dómi héraðsdóms 15. júlí sl. Atvik eru og hin sömu, svo og allar helstu málsástæður. Að því virtu verður hvorki séð að brýn þörf sé á skjótri úrlausn dómsins né að sú úrlausn hafi, eins og atvikum er hér háttað, þá almennu þýðingu í skilningi 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 að rétt sé að verða kröfu sóknaraðila um flýtimeðferð. Eru því ekki fyrir hendi skilyrði til að mál þetta verði rekið sem flýtimeðferðarmál samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Beiðninni er því hafnað og synjað um útgáfu stefnu í málinu.
Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er beiðni um flýtimeðferð í fyrirhugðu dómsmáli Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga gegn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, og synjað um útgáfu stefnu í málinu.