Hæstiréttur íslands
Mál nr. 92/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Bráðabirgðaforsjá
- Umgengni
- Meðlag
|
|
Fimmtudaginn 18. mars 2004. |
|
Nr. 92/2004. |
M(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn K(Helgi Birgisson hrl.) |
Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá. Umgengnisréttur. Meðlag.
M og K deildu um forsjá tveggja barna þeirra til bráðabirgða, umgengni við þau og um greiðslu meðlags. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að óumdeilt væri að báðir foreldrarnir væru hæfir til að fara með forsjá barnanna og hefðu tekið virkan þátt í umönnun og uppeldi þeirra. K hefði hins vegar yfir helmingi stærri íbúð yfir að ráða en M auk þess sem hún væri í vel launuðu starfi. Var fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að K hefði forsjá barnanna til bráðabirgða, um skyldu M til að greiða meðlag með þeim og um umgengnisrétt hans við þau.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. og 16. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2004, þar sem skorið var úr ágreiningi aðilanna varðandi forsjá tveggja barna þeirra til bráðabirgða, umgengni við þau og um greiðslu meðlags. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess aðallega að honum verði falin forsjá barnanna til bráðabirgða og að umgengni varnaraðila við þau verði „aðra hverja helgi frá miðvikudagssíðdegi eftir skóla/leikskóla til mánudagsmorguns.“ Hann krefst þess jafnframt að varnaraðili verði dæmd til að greiða honum meðlag með börnunum frá uppsögu dóms Hæstaréttar, sem sé jafnhátt og barnalífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins. Til vara krefst sóknaraðili þess að honum verði falin forsjá eldra barnsins til bráðabirgða og að umgengnisréttur þess málsaðila, sem fer ekki með forsjá barns, verði þá með sama hætti og lýst var í aðalkröfu auk þess sem varnaraðili verði dæmd til að greiða honum meðlag með eldra barninu. Að því frágengnu krefst sóknaraðili þess að ákvæði í hinum kærða úrskurði um umgengnisrétt verði breytt og sóknaraðila ákveðinn umgengnisréttur með sama hætti og fram kemur varðandi varnaraðila í aðalkröfu. Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins hófu aðilarnir sambúð á árinu 1993 og gengu í hjúskap 1996. Sama ár fæddist eldra barn þeirra og hið yngra 1999. Sambúðinni lauk í ágúst 2003 og flutti sóknaraðili þá af heimilinu, sem var í A. Sóknaraðili býr nú í því sveitarfélagi, en varnaraðili flutti til B í desember 2003. Ágreiningur aðilanna um forsjá barna þeirra er til úrlausnar fyrir dómstólum, en í máli þessu var fyrir héraðsdómi skorið úr til bráðabirgða um forsjá þeirra, umgengnisrétt og greiðslu meðlags. Var varnaraðila úrskurðuð forsjá beggja barnanna til bráðabirgða og sóknaraðila gert að greiða henni meðlag með þeim. Umgengnisréttur sóknaraðila við börnin var ákveðinn þannig að hann skyldi fá þau til sín aðra hvora helgi frá föstudegi til sunnudagskvölds.
Óumdeilt er að báðir foreldrarnir eru hæfir til að fara með forsjá barnanna og hafa tekið virkan þátt í umönnun og uppeldi þeirra. Bæði viðurkenna hæfni hins að þessu leyti, en greinir á með því að hvort um sig telur sinn hlut hafa verið meiri en hins við umönnun barnanna. Fram er komið að varnaraðili hefur yfir rúmlega helmingi stærri íbúð að ráða en sóknaraðili, en íbúð hins síðarnefnda mun vera ósamþykkt og aðeins um 50 fermetrar að stærð. Að þessu leyti eru aðstæður hans til að hafa börnin augljóslega mun lakari en varnaraðila. Varnaraðili er í vel launuðu starfi og ekkert er fram komið um að tengsl hennar við börnin séu ekki náin og traust. Verður að þessu virtu staðfest niðurstaða héraðsdóms um forsjá barnanna til bráðabirgða og um skyldu sóknaraðila til að greiða meðlag með þeim. Að teknu tilliti til aldurs barnanna og aðstæðna að öðru leyti eru ekki efni til að aðskilja þau líkt og krafist er til vara af hálfu sóknaraðila. Í ljósi þess að börnin eru nú að aðlagast nýju umhverfi er ekki heldur alveg næg ástæða til að breyta niðurstöðu héraðsdóms um umgengnisrétt sóknaraðila við þau. Í málatilbúnaði sóknaraðila fyrir Hæstarétti var að því fundið að héraðsdómari hafi ekki ákveðið sérstaklega hvernig tilhögun á umgengni hans við börnin skyldi hagað um páska 2004. Með því að nánari skýringar liggja ekki fyrir og kröfugerð sóknaraðila í málinu gefur ekki færi á að kveða sérstaklega á um þetta atriði kemur það ekki til frekari álita. Samkvæmt öllu framanröktu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2004.
I
Sóknaraðili er K.
Varnaraðili er M.
Mál þetta var þingfest 28. janúar sl. en það barst dóminum með bréfi sóknaraðila 15. janúar sl.
Aðilar gengu í hjúskap 1996 en slitu samvistir [...] ágúst sl. Hjónaskilnaðarmál þeirra er ófrágengið. Þau eiga saman drenginn X, sem fæddur er [...] 1996 og stúlkuna Z, sem fædd er [...] 1999. Sóknaraðili hefur höfðað mál fyrir dóminum og krefst þess að henni verði fengin forsjá barnanna. Varnaraðili hefur tekið til varna og gerir sömu kröfur. Í þessu máli krefjast aðilar þess, hvor um sig, að sér verði, á grundvelli 35. gr. barnalaga nr. 76/2003, falin bráðabirgðaforsjá barnanna. Þá krefjast þau meðlags með börnunum úr hendi hins og að úrskurðað verði um umgengnisrétt þess, er ekki fær forsjána til bráðabirgða. Þá krefjast þau málskostnaðar, hvort um sig úr hendi hins.
II
Fyrst eftir að aðilar slitu samvistir bjó sóknaraðili í fyrrum sameiginlegri íbúð þeirra en varnaraðili annars staðar. Varnaraðili flutti síðan í íbúð í sama húsi og sóknaraðili. Í framhaldi af því flutti sóknaraðili á núverandi heimili. Aðilar fara enn sameiginlega með forsjá barnanna og skipta þeim á milli sín þannig að hvort þeirra hefur þau viku í senn og er skiptidagur á miðvikudögum. Drengurinn er í skóla í A og stúlkan á leikskóla í bænum. Fái sóknaraðili forsjá þeirra til bráðabirgða hyggst hún hafa börnin í sömu skólum til vors en flytja þau í hverfisskóla í B næsta haust. Varnaraðili hyggur ekki á breytingar, fái hann forsjána.
III
Af gögnum málsins, þar með töldum skýrslum aðila, verður ekki annað ráðið en þau hafi bæði tekið virkan þátt í uppeldi barnanna og séu bæði hæf til þess að annast þau og fara með forsjána. Báru þau hvort öðru þá sögu að hinn væri hæfur uppalandi. Aðilar stunda bæði vinnu, sóknaraðili er yfirmaður í fyrirtæki en varnaraðili rekur starfsemi heima hjá sér. Hvort um sig hefur allgóð laun, sóknaraðili þó hærri. Þá býr sóknaraðili í mun stærri íbúð en varnaraðili. Hvorugt hefur tekið upp sambúð að nýju.
Börnin, sem hér um ræðir, eru ung að aldri. Á þeim aldri þurfa börn meir á móður sinni að halda en föður. Ekkert annað er komið fram í málinu en sóknaraðili sé vel hæf til að fara með forsjá þeirra, a.m.k. til bráðabirgða, og búi við góðar aðstæður. Hún á því að geta því búið börnunum gott heimili og öruggt skjól. Ekki skiptir máli þótt það sé í allt öðru umhverfi en börnin hafa alist upp við, enda eru börn á þessum aldri fljót að aðlagast nýjum aðstæðum og kynnast nýjum félögum.
Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að börnunum sé fyrir bestu, eins og á stendur, að sóknaraðili fari með forsjá þeirra til bráðabirgða. Varnaraðili skal greiða sóknaraðila meðlag með börnunum frá uppkvaðningu úrskurðar að telja, er skal vera jafnhátt og barnalífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins. Varnaraðili á rétt á að fá börnin til sín annan hvern föstudag, í fyrsta sinn föstudaginn 13. febrúar nk., og sækja þau úr skóla og leikskóla þegar starfstíma þar lýkur, og hafa þau hjá sér til kl. 19.00 sunnudaginn næsta á eftir en skal þá koma þeim til sóknaraðila. Við þessa ákvörðun er miðað við að sem minnst röskun verði á högum barnanna á virkum dögum vikunnar. Eftir núgildandi samkomulagi aðila hefði varnaraðili átt að fá börnin til sín næstkomandi miðvikudag og er upphafstími umgengni hans við það miðaður.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Sóknaraðili, K, skal til bráðabirgða fara með forsjá barna hennar og varnaraðila, M, þeirra X og Z.
Varnaraðili á rétt á að fá börnin til sín annan hvern föstudag, í fyrsta sinn föstudaginn 13. febrúar nk., og sækja þau úr skóla og leikskóla þegar starfstíma þar lýkur, og hafa þau hjá sér til kl. 19.00 sunnudaginn næsta á eftir en skal þá koma þeim til sóknaraðila.
Varnaraðili skal greiða sóknaraðila meðlag með börnunum frá uppkvaðningu úrskurðar að telja, er skal vera jafnhátt og barnalífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins.
Málskostnaður fellur niður.