Hæstiréttur íslands

Mál nr. 163/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Mánudaginn 21. mars 2011.

Nr. 163/2011.

Ákæruvaldið

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. mars 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. apríl 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 15. apríl 2011 kl. 16.

Í greinargerð kemur fram að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur R-122/2011 sem kveðinn hafi verið upp 16. febrúar sl. hafi kærða X verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála til dagsins í dag kl. 16.00. Kært hafi verið til Hæstaréttar sem staðfest hafi úrskurðinn með dómi nr. 105/2011 þann 25. febrúar sl.

Lögreglustjórinn hafi höfðað mál á hendur kærða fyrir samtals ellefu mál með tveimur ákærum, dagsettum 14. desember 2010 og 15. mars 2011, sjá nánari lýsingu að neðan. Þar af  séu 7 þjófnaðir með innbrotum auk gripdeildar og vörslur fíkniefna. Ákærurnar hafi verið sameinaðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og hafi mál nr. S-886/2010 verið þingfest í dag. Ákærði hafi játað hluta brotanna þ.á.m. þrjú þjófnaðarmál, gripdeild og vörslur fíkniefna við skýrslutöku lögreglu, en neitað sök í fjórum þjófnaðarmálum við skýrslutöku hjá lögreglu. Í þeim málum þar sem kærði hafi neitað sök hafi ýmist fingraför sem fundust á vettvangi verið samkennd við hann eða lögreglumenn þekkt hann af upptökum öryggismyndavéla staðanna.

Mál nr. 007-2011-8140.

Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna með vísan til a.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 frá 9. til 16. febrúar sl. vegna þessa máls.

Fyrir þjófnað og fíkniefnalagabrot, með því að hafa, aðfararnótt þriðjudagsins 9. febrúar 2011, ásamt Y, brotist inn í veitingastaðinn [...] við [...], Reykjavík, og í tveimur ferðum stolið þaðan áfengi og humri, samtals að verðmæti kr. 151.520, er fannst í bifreið sem kærði og Y voru í. Einnig á sama tíma verið með 5,82 gr amfetamín og 0,11 gr maríjúana í vörslum sínum. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði viðurkennt brotin.

Mál 007-2011-7473

Fyrir þjófnað, með því að hafa, föstudaginn 5. febrúar 2011, brotið sér leið inn í veitingastaðnum [...] á [...], með því að brjóta rúðu á útidyrahurð ásamt óþekktum aðila og stolið 19.000 kr. í reiðufé og 9 áfengisflöskum. Lögreglumenn þekki kærða af upptökum úr öryggismyndavél staðarins. Kærði hafi við skýrslutöku neitað sök. 

Mál 007-2011-6777

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því hafa, þriðjudaginn 2. febrúar 2011, haft í vörslum sínum 2,35 gr. amfetamín og 2,90 gr. maríjúana á veitingastaðnum [...] á [...] og reynt að fela það bak við spilakassa þegar lögregla hafði afskipti af honum. Kærði hafi við skýrslutöku viðurkennt brotið.

Mál 007-2011-525

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, sunnudaginn 3. janúar, haft í vörslum sínum 17,18 gr. af amfetamíni er fannst við leit á lögreglustöð. Kærði hafi játað sök.

Mál 007-2010-85803

Fyrir þjófnað, með því að hafa, þriðjudaginn 28. desember 2010, spennt upp þakglugga á veitingastaðnum [...] á [...], farið inn í auðgunarskyni og stolið nokkrum áfengisflöskum og brotið sér leið út um hurð. Lögreglumenn þekki kærða á upptökum úr öryggismyndavélum staðarins en kærði neiti sök.

Mál 007-2010-81544

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, fimmtudaginn 9. desember 2010, haft í vörslum sínum 0,58 gr af amfetamíni er fannst við leit á lögreglustöð. Kærði hafi játað sök.

Mál 007-2010-80366

Fyrir þjófnað, með því að hafa, sunnudaginn 5. desember 2010, brotist inn í verslunina [...] við [...], með því að spenna upp glugga og stolið þaðan 18-25.000 kr. í skiptimynt. Fingraför hafi náðst af tölvuskjá sem innbrotsþjófurinn hafði átt við og hafi þau verið samkennd við X. Kærði neiti sök í skýrslutöku lögreglu.

Mál 007-2010-75297

Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 14. nóvember 2010, brotist inn í íbúð á 2. hæð [...], með því að brjóta rúðu í hurð og þannig farið inn. Stolið flatskjá, sjónvarpsflakkara, fartölvu, Ipod, útvarpi, DVD diskum o.fl.  Fingrafar hafi fundist á bolla í húsinu sem hafi verið sannreynt eftir X. Kærði hafi við skýrslutöku hjá lögreglu neitað sök.

Mál 007-2010-60685

Fyrir þjófnað, með því að hafa, aðfararnótt mánudagsins 20. september 2010, brotið rúðu á veitingastaðnum [...] á [...] og farið inn í auðgunarskyni og stolið þaðan 20.000 kr. úr peningakassa sem þar var. Kærði hafi við skýrslutöku hjá lögreglu játað ofangreint brot.

Mál 007-2010-58634

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, aðfararnótt laugardagsins 11. september 2010, á veitingastaðnum [...] á [...] haft í vörslum sínum 1,21 g af maríjúana, sem kærði var með í sígarettupakka. Kærði hafi við skýrslutöku hjá lögreglu játað vörslur efnisins.

Mál 007-2010-40501

Fyrir þjófnað og gripdeild, með því að hafa, miðvikudaginn 23. júní 2010, á bifreiðarstæði við [...] í Kópavogi farið heimildarlaust inn í bifreiðina [...] og stolið vasaljósi, vasahníf, sólgleraugum og smápeningum að heildarverðmæti 5.000 kr., jafnframt fyrir að hafa tekið reiðhjól ófrjálsri hendi sem hafi staðið við bílskúrshurð að [...], en kærði hafi verið á umræddu reiðhjóli þegar lögregla hafði afskipti af honum. Kærði hafi við skýrslutöku hjá lögreglu játað að hafa stolið umræddum hlutum úr bifreiðinni og að hafa tekið reiðhjólið ófrjálsri hendi.

Kærði eigi að baki langan sakaferil allt frá árinu 1983 með fjölda dóma vegna auðgunar- og fíkniefnabrota samtals um fjórtán ára fangelsi. Kærði hafi síðast verið dæmdur í 8 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember 2010 fyrir fjölda þjófnaðar- og fíkniefnabrota. Sá dómur sæti nú áfrýjun til Hæstaréttar. Kærði hafi lokið afplánun vegna 10 mánaða dóms Hæstaréttar nr. 597/2009 fyrir peningafals í byrjun apríl 2010 og sé grunur um að hann hafi hafið brotastarfsemi fáum vikum eftir að hann losnaði úr fangelsi og að brot hans séu samfelld frá þeim tíma.

 Með vísan til brotaferils kærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan málum hans sé ekki lokið. 

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Eins og að framan er rakið voru tvær ákærur þingfestar í dag, þar sem ákærði, X, er borinn sökum um sjö þjófnaði, þar sem brotist hafi verið inn í verslanir, veitingastaði, íbúð og bifreið, auk gripdeildar og vörslur fíkniefna, á tímabilinu frá júní 2010 til febrúar 2011. Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 25. febrúar 2011 í máli nr. 105/2011 var fallist á að uppfyllt væri skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, þar ætla mætti að ákærði myndi halda áfram brotum meðan máli hans væri ekki lokið. Ekkert er fram komið í málinu sem breytir þessu mati réttarins. Með hliðsjón af framangreindu er fallist á að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með vísan til 1. mgr. 97. gr. sömu laga verður gæsluvarðhaldinu markaður sá tími sem greinir í úrskurðarorði.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákærði, X, kt. [...], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. apríl 2011 kl. 16.00.