Hæstiréttur íslands

Mál nr. 815/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Gæsluvarðhaldskröfu hafnað
  • Farbann
  • Framsal sakamanns


Mánudaginn 23. desember 2013.

Nr. 815/2013.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)

gegn

X

(Guðmundur Jónsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95 gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhaldskröfu hafnað. Farbann. Framsal sakamanna.

Hafnað var kröfu um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þess í stað var X látinn sæta farbanni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2013 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en honum þess í stað bönnuð brottför af landinu allt til mánudagsins 6. janúar 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 6. janúar 2014 klukkan 16.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með úrskurði héraðsdóms 18. nóvember 2013 var hafnað kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en hann úrskurðaður þess í stað í farbann til 16. desember sama ár. Sá úrskurður var ekki kærður til Hæstaréttar. Að því virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti sem ákveðin verður eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Guðmundar Jónssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2013.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krefst þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að, X, kt. [...], skuli sæta gæsluvarðhaldi allt mánudagsins 6. janúar 2014  kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgar-svæðinu hafi, með bréfi ríkissaksóknara, borist framsalsbeiðni, dags. 29. nóvember sl., frá ríkissaksóknara Litháens og með henni sé óskað eftir framsali varnaraðila vegna gruns um refsiverða háttsemi. Sé hann grunaður um manndráp, með því að hafa ásamt hópi annarra manna að kvöldi 5. janúar 2009 ráðist með vopnum og ofbeldi að A, sem þeir töldu sig eiga sökótt við, en varnaraðili og samverkamenn hans hafi elt A uppi, einn samverkamaður gripið um fót hans þegar hann hafi reynt að klifra yfir girðingu, með þeim afleiðingum að hann hafi fallið, varnaraðili hafi slegið hann í fótlegg með trélurk þar sem hann hafi legið, tveir samverkamenn slegið hann með málmstöngum í handleggi og höfuð og þrír samverkamenn skotið hann a.m.k. fjórum sinnum í höfuð og líkama með loftbyssum og skammbyssu, með þeim afleiðingum að A hafi hlotið alvarlega áverka og látist þann 12. janúar 2009.

Fram komi í beiðninni að varnaraðili hafi brotið gegn þvingunarráðstöfunum sem hann hafi sætt vegna málsins, þ.e. farbanni og tilkynningarskyldu, og leynst yfirvöldum. Því hafi verið lýst eftir honum og 20. júlí 2010 hafi dómari gefið út handtökuskipun á hendur honum. Sé handtökuskipunin meðfylgjandi framsals-beiðninni og þar komi fram rökstuðningur fyrir henni, m.a. að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um sérstaklega alvarlegt brot. Þá megi ætla að hann sé að leynast yfirvöldum og að hann muni fremja ný afbrot.

Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að varnaraðili verið handtekinn 18. nóvember sl. og hann  gefið skýrslu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar hafi hann kveðið gögn málsins eiga við sig og að hann kannist jafnframt við að hafa verið á vettvangi og þá vopnaður barefli, en neiti sök að öðru leyti. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hafi varnaraðila verið gert að sæta farbanni til dagsins í dag.  

Á því er byggt af hálfu sóknaraðila að varnaraðili, sem er litháískur ríkisborgari, hafi takmörkuð tengsl við land og þjóð og því sé hætta á því að hann kunni að koma sér úr landi og þannig undan málsmeðferð lögregluyfirvalda. Til að tryggja nærveru varnaraðila meðan framsalsmál hans sé til meðferðar hjá íslenskum stjórn­völdum og með hliðsjón af alvarleika sakargiftanna og þess að hann hafi yfirgefið Litháen þrátt fyrir að vera í farbanni, krefst sóknaraðili að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi með vísan til 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, og b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. 

Af hálfu varnaraðila er þess aðallega krafist að kröfu lögreglustjórans verði hafnað, en til vara að gripið verði til vægari úrræða.

Niðurstaða:

                Varnaraðili er litháískur ríkisborgari en hefur dvalið hér á landi frá árinu 2010. Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi stundar varnaraðili atvinnu hér á landi auk þess sem fjölskylda hans býr nú á Íslandi. Eftir sem áður verður að líta svo á að tengsl varnaraðila við Ísland séu ekki svo sterk að unnt sé að útiloka að hann muni reyna að koma sér úr landi til að forða sér undan lögreglurannsókn vegna framsalsbeiðni litháískra yfirvalda. Í því ljósi og að teknu tilliti til þess alvarlega brots sem varnaraðili er grunaður um aðild að verður á það fallist að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt.

Varnaraðila var með úrskurði 18. nóvember sl. gert að sæta farbanni til dagsins í dag. Frá þeim tíma hefur varnaraðli sinnt tilkynningarskyldu sinni hjá lögreglu og ekki sýnt neina tilburði til að leynast. Með hliðsjón af þessu og að teknu tilliti til þeirra tengsla sem varnaraðili hefur við Ísland þykir ekki nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi, enda verður að ætla að unnt sé að tryggja nærveru hans meðan á rannsókn málsins stendur með því að hann sæti farbanni, sbr. 100. gr. laga nr. 88/2008 og 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Verður varnaraðila því bönnuð brottför af landinu eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Sóknaraðili hefur ekki gert varakröfu um farbann um ótiltekinn eða nánar tilgreindan tíma. Því er rétt að marka farbanninu sama tíma og gæsluvarðhaldskröfu sóknaraðila.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Varnaraðila, X, kt. [...], er bönnuð brottför af landinu allt til mánudagsins 6. janúar 2014 kl. 16:00.