Hæstiréttur íslands

Mál nr. 144/2002


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Riftun
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 24. október 2002.

Nr. 144/2002.

Eignarhaldsfélag Hörpu hf.

(Ólafur Gústafsson hrl.)

gegn

Kristni Guðmundssyni

(Hanna Lára Helgadóttir hrl.)

 

Ráðningarsamningur. Riftun. Skaðabætur.

E hf. keypti allt hlutafé K og fjölskyldu hans í fyrirtækinu K ehf. Sama dag og gengið var frá kaupunum gerði E hf. ráðningarsamning við K. Samkvæmt honum var K ráðinn til tímabundinna ráðgjafarstarfa í tvö ár en ekkert uppsagnarákvæði var í samningnum. Rúmum sjö mánuðum síðar rifti E hf. ráðningarsamningnum. Í bréfi E hf. til K þar sem riftuninni var lýst yfir kom fram að tilefni hennar væru mjög verulegar og alvarlegar vanefndir K og fjölskyldu hans á kaupsamningi aðila í ljósi rangra og villandi upplýsinga um verðmæti hlutafjár í K ehf. fyrir kaup E hf. á félaginu. K krafðist skaðabóta vegna riftunar á ráðningarsamningnum. Tekið var fram að með dómi réttarins í máli nr. 143/2002 hefði verið staðfest niðurstaða héraðsdóms um að K hefði hvorki vanrækt upplýsingaskyldu sína né sýnt af sér aðra saknæma háttsemi við gerð kaupsamningsins. Bar því að miða við að E hf. hefði rift ráðningarsamningi við K án lögmætrar ástæðu. Var E hf. dæmt til að greiða K skaðabætur vegna ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningi aðila.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. mars 2002 og krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara lækkunar kröfu hans og að málskostnaður falli þá niður.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara, að málskostnaður verði látinn niður falla.

Með dómi réttarins í dag í máli nr. 143/2002, sem höfðað var af áfrýjanda gegn stefnda, eiginkonu hans og börnum vegna kaupsamnings 5. maí 2000, var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að stefndi hefði hvorki vanrækt upplýsingaskyldu sína né sýnt af sér aðra saknæma háttsemi við gerð samningsins. Svo sem í héraðsdómi greinir ber við það að miða að áfrýjandi hafi rift ráðningarsamningi við stefnda, sem gerður var sama dag og kaupsamningurinn, án lögmætrar ástæðu. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en dráttarvexti.

Áfrýjandi hefur mótmælt því að krafa stefnda geti borið dráttarvexti vegna ókomins tíma. Eins og kröfugerð stefnda er háttað verða dráttarvextir ekki dæmdir fyrr en frá þeim tíma sem ráðningarsamningur hans átti að renna út, sem var 1. maí 2002.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að dráttarvextir reiknast frá 1. maí 2002 til greiðsludags.

Áfrýjandi, Eignarhaldsfélag Hörpu hf., greiði stefnda, Kristni Guðmundssyni, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykja­­­ness 25. janúar 2002.

Málið var höfðað 8. febrúar 2001 og dómtekið 10. janúar 2002.  Stefnandi er Kristinn Guðmunds­son, kt. 240639-4679, til heimilis að Vatnsnesvegi 24, Keflavík.  Stefndi er Harpa hf., kt. 600169-2629, Stórhöfða 44, Reykjavík, en félagið heitir nú Eignarhaldsfélag Hörpu hf., með sömu kennitölu og stjórnarstöð, eftir nafnbreytingu 1. september 2001.

Málið er rekið til heimtu skaðabóta vegna riftunar á ráðningarsamningi.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum krónur 5.500.494 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af krónum 277.933 frá 1. nóvember 2000 til 30. nóvember 2000, af krónum 586.040 frá 1. desember 2000 til 31. desember 2000, af krónum 872.311 frá 1. janúar 2001 til 11. janúar 2001 og af krónum 5.500.494 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttar­vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt máls­­kostnaðarreikningi.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfu stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins.  Til vara er þess krafist að dómkrafan verði stórlega lækkuð og að máls­kostnaður verði felldur niður.

I.

Með kaupsamningi 5. maí 2000 keypti stefndi eða nánar til tekið allir níu hlut­hafar í stefnda allt hlutafé stefnanda og fjölskyldu hans í einkahlutafélaginu Kristni Guð­mundssyni & Co., en félagið hafði um áratuga skeið rekið bygginga- og málningar­­vöru­verslunina Dropann í Keflavík undir stjórn stefnanda, auk þess að hafa með höndum verktöku og aðra þjónustu á því sviði.  Við kaupin lágu meðal annars fyrir árs­­reikningar félagsins og fylgi­gögn úr bók­haldi, þar á meðal vöru­talningar­­bækur vegna uppgjörs í árslok 1999.  Í óendur­skoðuðum árs­­reikningi félagsins 1999 frá 10. febrúar 2000, sem áritaður er af Guðmundi Kjartans­­syni lög­giltum endur­skoðanda hjá Deloitte & Touche hf., kemur fram að tap af rekstri félagsins hafi numið rúmlega 5.400.000 krónum, á móti ríflega 5.700.000 króna tapi árið á undan.  Eignir félagsins voru metnar á rúm­lega 50.700.000 krónur; þar af voru við­skiptakröfur að fjárhæð tæpar 12.000.000 króna og vörubirgðir að verðmæti tæp­lega 23.500.000 krónur samkvæmt vöru­talningar­bókum, en í árs­reikningnum voru birgðir sagðar metnar á kostnaðar­­verði.  Skuldir félagsins námu tæplega 43.300.000 krónum og var bókfært eigið fé því ríflega 7.400.000 krónur.  Kaupverð hlutafjárins var 10.000.000 krónur.  Samhliða kaupunum var stefnandi ráðinn með skriflegum ráðningarsamningi í tíma­bundið starf ráðgjafa fyrir hina nýju eigendur, frá 1. maí 2000 til 30. apríl 2002, einkum í því skyni að tryggja yfirfærslu við­skipta­vildar hins selda félags til kaupenda, sem sameinuðu félagið við stefnda, Hörpu hf., hinn 27. nóvember 2000.  Þann dag fram­­seldu kaupendur hlutafjárins öll réttindi sín og skyldur samkvæmt samningunum tveimur til stefnda, en á þeim grunni telst stefndi fara með aðild í málinu; einnig eftir nafn­breytingu í Eignarhaldsfélag Hörpu hf.

Eftir kaupin reis ágreiningur annars vegar um verðmæti vöru­­birgðanna, sem stefndi taldi að seljendur hefðu ofmetið um krónur 6.257.416 í vöru­talningarbókum og hins vegar um það hvort seljendur bæru einnig ábyrgð á því að í árs­reikningi félagsins 1999 hefði ekki verið getið um ógreiddar orlofs­skuld­bindingar að fjár­hæð krónur 452.499.  Fór svo að stefndi rifti ráðningarsamningi við stefnanda og höfðaði mál á hendur honum og fjölskyldu hans til heimtu skaðabóta eða afsláttar á þeim grunni að hinu selda hefði verið áfátt í skilningi kauparéttar, en áður hafði stefnandi höfðað mál þetta á hendur stefnda til greiðslu skaðabóta vegna ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningnum.  Með dómi uppkveðnum 28. desember 2001, í máli réttarins nr. E-1644/2001, voru stefnandi, eiginkona hans og fjögur börn þeirra dæmd til að greiða bætur vegna hins ógreidda orlofs, en sýknuð af kröfu stefnda vegna ofmats á vöru­birgðum félagsins, meðal annars á þeim grunni að þau hefðu hvorki vanrækt upp­lýsingaskyldu sína gagnvart stefnda varðandi mat á vörubirgðum félagsins né heldur sýnt af sér aðra saknæma háttsemi því tengdu.  Koma þau ágreiningsefni því ekki til frekari skoðunar af hálfu dómsins, nema að því leyti sem nauðsynlegt kann að þykja til að skera úr um það hvort stefnda hafi verið heimilt, án bótaskyldu, að rifta nefndum ráðningarsamningi við stefnanda.  Við úrlausn þess álitaefnis er óhjá­kvæmi­legt að rekja í stuttu máli aðdraganda að ráðningar­samningnum og hvað aðilum fór á milli í því sambandi.

II.

Stefnandi og eiginkona hans Jónína Gunnarsdóttir voru aðaleigendur í Kristni Guðmundssyni & Co. ehf., með tæplega 96% hlut í félaginu.  Snemma árs 2000 ákváðu þau í samráði við börn sín að selja allt hlutafé í félaginu og þar með rekstur Dropans, en stefnandi var farinn að reskjast og hafði átt við heilsuleysi að stríða um nokkurt skeið.  Var í því skyni rætt við málningar­heild­sala, sem félagið hafði átt mest við­skipti við gegnum árin; Slipp­félagið, Málningu ehf. og stefnda, Hörpu hf.  Varð úr að Helgi Magnús­son fram­kvæmdastjóri og hluthafi í stefnda og Jón Bjarni Gunnars­­son fjár­mála­­stjóri stefnda héldu fund með fulltrúum fjöl­skyldunnar um miðjan mars 2000, með kaup á félaginu í huga.  Eftir skoðun á vörulager í eigu félagsins og könnun vöru­talningar­bóka, ársreikninga og annarra bókhaldsgagna gerði stefndi eða nánar til tekið hluthafarnir níu í stefnda hinn 6. apríl 2000 kaup­til­boð í hlutaféð er nam krónum 10.000.000.  Í tilboðinu, sem undir­ritað er af Helga og Jóni Bjarna, fyrir hönd tilboðsgjafa, segir að það sé meðal annars gert með eftirfarandi fyrir­­­­­­vörum: 

1.

Að viðunandi trygging fáist fyrir áframhaldandi viðskiptum við Kefla­víkur­verktaka og aðra á Keflavíkurflugvelli á svipuðum nótum og verið hefur.

2.

Að samningar náist við stefnanda um áfram­haldandi tak­markað starf næstu tvö árin hjá nýjum eigendum til að tryggja yfirfærslu á við­skipta­vild.

3.

Að firmaheitið Dropinn yfirfærist til nýrra eigenda.

 

Í tilboðinu, sem samþykkt var samdægurs, eru að auki ákvæði um að stefnandi og fjölskylda hans heiti því að leggja sig alla fram um að vernda við­skiptavild félagsins og verslunarinnar Dropans og aðstoða kaupendur við að halda henni.  Enn fremur, að þau heiti því að fara ekki í sam­keppni við kaupendur eða aðstoða sam­keppnis­aðila á nokkurn hátt næstu fimm árin.

Með kaupsamningi 5. maí 2000 var endanlega gengið frá kaupum hluthafanna í stefnda á hlutafénu í Kristni Guðmunds­syni & Co. ehf. fyrir 10.000.000 króna og yfir­tóku þeir öll réttindi og skyldur er því fylgdu frá og með 1. janúar 2000.  Í samningnum eru samsvarandi ákvæði um að stefnandi og fjölskylda hans heiti því að vernda eftir mætti við­skipta­­vild félagsins og verslunarinnar Dropans og að fara ekki í sam­­­keppni við kaupendur eða aðstoða sam­keppnis­aðila með neinum hætti næstu fimm árin. 

Sama dag gerðu nýir eigendur félagsins hinn umþrætta ráðningarsamning við stefnanda.  Samkvæmt honum var stefnandi ráðinn til tímabundinna ráðgjafastarfa frá 1. maí 2000 til 30. apríl 2002, en frá sama tíma skyldu eldri samningar falla úr gildi.  Í samningnum voru ekki uppsagnarákvæði.  Megin starfssvið stefnanda skyldi vera að tryggja yfir­færslu viðskiptavildar félagsins til stefnda, með sér­stakri áherslu á sam­skipti við Kefla­­víkurverktaka og aðra mikil­væga við­skiptavini á Kefla­­víkur­flug­velli og annars staðar.  Laun hans voru ákveðin, sem heildarlaun, krónur 250.000 á mánuði, með daglegan vinnu­­tíma sex til átta klukkustundir og heimild til að vera í orlofi allt að fjóra mánuði á ári.  Um önnur réttindi og skyldur færi eftir ákvæðum kjarasamnings Verslunar­­manna­­­félags Reykjavíkur (VR) og Sam­taka atvinnu­­­lífsins (SA).  Þá var í samningnum ákvæði um að stefnandi skuldbindi sig til að hefja ekki störf hjá sam­keppnisaðila innan fimm ára eftir að hann hætti störfum í þágu félagsins, nema með skrif­legu sam­þykki.

Óumdeilt er að stefnandi hafi frá upphafi ráðningartímans rækt störf sín af sam­visku­semi og í samræmi við ráðningar­samninginn, en drjúgur starfstími mun hafa farið í almenn stjórnunar- og verslunarstörf í Dropanum.  Einnig liggur fyrir að hann hafi á annatímum unnið lengri vinnudag en honum bar skylda til samkvæmt samningnum og að stefndi hafi því samþykkt að hann tæki árlega orlof umfram fjóra mánuði, sem því næmi, sbr. bréf stefnda til stefnanda frá 21. júlí 2000.  

III.

Stefndi segir að síðsumars 2000 hafi hluthafar sínir gerst órólegir út af rekstrar­­stöðu hins keypta félags.  Því hefði verið ráðist í milli­upp­gjör miðað við fyrstu átta mánuði ársins.  Sú vinna hefði hafist í byrjun september og niðurstöður legið fyrir í október 2000.  Samkvæmt milliuppgjörinu hefði tap af reglu­legri starfsemi félagsins fyrir skatta á fyrstu átta mánuðum ársins verið 16.773.000 krónur og hefði tapið legið að miklu leyti í ofreiknuðu birgðaverðmæti samkvæmt ársreikningi félagsins 1999.  Í ljósi þessa hefði ekki verið talinn grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri félagsins og verslunarinnar Dropans í óbreyttri mynd.  Því hefði verið gripið til ýmissa björgunar­aðgerða, svo sem að segja upp öllum starfsmönnum nema tveimur í októberlok 2000, en í framhaldi hefði versluninni verið lokað tímabundið um jólin og hún opnuð að nýju um miðjan janúar 2001, í minna húsnæði og í breyttri mynd, undir nafninu Hörpu málningarverslun.  Einnig hefði komið í ljós á haustmánuðum 2000 að í árs­reikningi félagsins 1999 hefði ekki verið tekið tillit til ógreiddra orlofsskuldbindinga vegna áunnins orlofs starfs­manna. 

IV.

Með bréfi dagsettu 7. nóvember 2000 var fyrst vakið formlega máls á því við stefnanda og eiginkonu hans að stefndi teldi vörubirgðir félagsins hafa verið ofmetnar í árslok 1999.  Var því til stuðnings vísað til framangreinds milliuppgjörs, sem leitt hefði í ljós að við birgða­mat hjá félaginu hefði ekki verið stuðst við rétt inn­kaupsverð vara og að gamlar og úreltar vörur hefðu verið metnar sem fullgildar vörur.  Segir í bréfinu að stefnanda og öðrum eigendum félagsins á þeim tíma hafi verið eða mátt vera þetta ljóst og því væri óskað eftir við­ræðum við þau hjónin vegna málsins í byrjun desember, en þá yrðu þau stödd á landinu eftir orlofsdvöl erlendis.  Þá segir í niður­lagi bréfsins að þar sem ráðningarsamningurinn við stefnanda hafi verið gerður í beinum tengslum við gerð áður nefnds kaupsamnings og á þeim forsendum að réttar upp­lýsingar hefðu legið fyrir við kaupin, hafi stefndi ákveðið að fresta frekari launa­greiðslum til stefnanda, uns málið hafi verið til lykta leitt.  Var í því sambandi einnig vísað til ákvæða kaupsamningsins, meðal annars um persónulega ábyrgð seljenda á óvæntum kröfum, sem upp kynnu að koma og ekki væru tilgreindar í ársreikningi félagsins 1999, þar með töldum vaxtakröfum frá birgjum.

Atferli stefnda var mótmælt í bréfi lögmanns stefnanda frá 22. nóvember 2000 og skorað á stefnda að greiða án tafar gjaldfallin laun.  Vegna orlofsdvalar stefnanda erlendis var því jafnframt lýst yfir að ekki yrði, að svo stöddu, fjallað um ætlaðar ávirðingar tengdar birgðamati félagsins, en á það bent að atferli stefnda yrði ekki rétt­lætt með tilvísun til umrædds kaupsamnings.

Stefndi ítrekaði fyrri athugasemdir í bréfi sínu til stefnanda 14. desember 2000 og í bréfi frá 21. sama mánaðar lýsti hann yfir riftun ráðningarsamningsins.  Segir í því bréfi að tilefni riftunarinnar séu mjög verulegar og alvarlegar vanefndir stefnanda og fjölskyldu hans á títtnefndum kaup­samningi, í ljósi rangra og villandi upplýsinga um verðmæti hlutafjár í Kristni Guð­munds­syni & Co. fyrir kaup stefnda á félaginu. 

Með bréfi lögmanns stefnanda frá 11. janúar 2001 var framangreindum ávirðingum í garð stefnanda mótmælt.  Enn fremur var því mótmælt að stefnandi hefði á nokkurn hátt brotið gegn ráðningarsamningnum, enda væri því ekki haldið fram af hálfu stefnda.  Jafnframt var ábyrgð lýst á hendur stefnda vegna ólögmætrar riftunar ráðningarsamningsins og gerð krafa um 4.750.000 króna skaðabætur, eða sem svaraði fjárhæð ógreiddra launa í nítján mánuði fyrir október 2000 til og með apríl 2002, auk dráttarvaxta.  Í framhaldi var mál þetta síðan höfðað.  

V.

Fyrir dómi kom fram að stefnandi, sem er lærður málari, hefði ekki unnið launuð störf frá riftun ráðningarsamningsins og sjálfur ekki leitað sér að annarri vinnu eftir það.  Hins vegar hefði Slipp­félagið boðið honum tímabundið starf í fimm mánuði sumarið 2001 við sumarmarkað með málningarvörur í Reykjanesbæ.  Eins hefði Húsa­­smiðjan hf. leitað til hans í kringum páska 2001 og boðið honum stjórnunarstöðu í málningardeild sinni.  Að sögn stefnanda hefði hann hafnað báðum til­boðunum, enda talið sig vera bundinn af samkeppnisákvæði í ráðningarsamningnum og hlið­stæðu ákvæði í kaupsamningnum frá 5. maí 2000.  Helgi Magnússon stað­festi fyrir dómi að stefnandi hefði ekki leitað eftir samþykki stefnda fyrir því að ráða sig til vinnu hjá öðrum atvinnurekanda í kjölfar riftunar á ráðningarsamningnum, en sagði slíkt myndu hafa verið auðsótt mál, enda hefði stefndi litið svo á að samningurinn væri fallinn úr gildi.   

VI.

Stefnandi byggir kröfugerð sína einkum á því að hann hafi gert tímabundinn ráðningar­­samning við stefnda, frá 1. maí 2000 til 30. apríl 2002, og hafi verið ætlun hans að vinna út samningstímabilið.  Af hálfu stefnda hafi ekkert komið fram um að hann hafi brotið af sér í starfi eða á nokkurn hátt vanrækt starfsskyldur sínar.  Í raun hafi stefnandi skilað meira vinnuframlagi á árinu 2000, en gert hafi verið ráð fyrir sam­kvæmt ráðningarsamningnum, en engu að síður hafi stefndi stöðvað launa­greiðslur til hans 1. nóvember 2000 og rift samningnum ein­hliða 21. desember sama ár.  Af mála­til­búnaði stefnda verði helst ráðið að riftunin hafi verið byggð á því að ráðningar­samningurinn hafi verið hluti af heildarsamningi um kaup stefnda á hlutafé í Kristni Guðmundssyni & Co. ehf. og að stefnandi hafi gefið vísvitandi rangar og villandi upplýsingar við sölu hlutafjárins, sem hafi verið forsenda fyrir kaupunum.  Slíkum aðdróttunum vísar stefnandi alfarið á bug og mótmælir því að litið verði á samningana sem eina heild.  Jafnframt bendir stefnandi á að hann geti ekki borið ábyrgð á því ef stefndi eða hluthafar í stefnda hafa ekki kynnt sér fyrirliggjandi upp­lýsingar um stöðu félagsins áður en kaupin voru gerð, en öll tiltæk bókhaldsgögn hafi verið lögð fyrir kaupendur hlutafjárins, þar á meðal ársreikningar félagsins, vöru­talningar­bækur og yfir­­lit yfir sölu hvers mánaðar, auk þess sem Helga Magnússyni fram­­kvæmdastjóra stefnda hafi verið sýndur vörulager félagsins og honum kynnt hvernig staðið hefði verið að birgðatalningu í árslok 1999.  Riftun ráðningar­samningsins hafi því verið með öllu ólögmæt og verði stefndi af þeim sökum að svara stefnanda skaðabótum er nemi fullum launum, ásamt orlofsuppbót, desember­upp­bót og lífeyrissjóðsframlagi atvinnurekanda, allt sam­kvæmt efni ráðningar­samningsins og kjara­­samningi milli VR og SA.  Kröfunni til stuðnings vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttar og reglna samningaréttar um efndir samninga, auk ákvæða laga nr. 30/1987 um orlof og laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starf­semi lífeyrissjóða.

Stefnandi sundurliðar bótakröfuna og rökstyður frekar með svofelldum hætti:

1.

Bætur fyrir vangoldin laun samkvæmt ráðningarsamningi (krónur 250.000) frá og með nóvember 2000 til 30. apríl 2002, auk hækkunar á mánaðarlaunum miðað við grein 1.2.1. í kjarasamningi VR og SA, þ.e. 3,9% hækkun frá 1. maí 2000 (krónur 259.750) og 3% hækkun frá 1. janúar 2001 (krónur 267.543) og 3% hækkun frá 1. janúar 2002 (krónur 275.569) eða samtals krónur 4.832.292.

2.

Orlofsuppbót samkvæmt grein 1.4.2. í kjarasamningi VR og SA, frá 1. maí 2001 krónur 9.400 og frá 1. maí 2002 krónur 15.000 eða samtals krónur 24.400.

3.

Desemberuppbót samkvæmt grein 1.4.1. í kjarasamningnum, fyrir árið 2000 krónur 28.200, fyrir árið 2001 krónur 40.000 og fyrir árið 2002 krónur 13.333 eða samtals krónur 81.533.

4.

Lífeyrissjóðsframlag, 6%, er reiknist af launum fyrir hvern mánuð, en stefnandi hafi greitt í Lífeyrissjóðinn Einingu, sbr. grein 10.3. í títt­nefndum kjarasamningi, svo og 1% viðbótarframlag sam­kvæmt grein 10.3.5. í kjarasamningnum eða samtals krónur 344.744.

5.

Bætur fyrir vinnu umfram ráðningarsamning er nemi krónum 203.294 að viðbættu 7% lífeyrissjóðsframlagi atvinnurekanda af þeirri fjárhæð eða sam­­tals krónur 217.525.

 

Stefnandi krefst auk þess dráttarvaxta er reiknist frá gjalddaga hverrar launa­greiðslu til 11. janúar 2001, þegar formleg bótakrafa hafi verið verið lögð fram, en frá þeim degi er krafist dráttarvaxta af allri fjárhæðinni til greiðsludags.

VII.

Stefndi reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að vegna saknæmrar fram­komu stefnanda við gerð ráðningarsamningsins 5. maí 2000 hafi stefnda verið heimil ein­hliða riftun samningsins.  Byggir stefndi hér einkum á því að ­samningurinn hafi verið gerður samhliða kaupsamningi um alla hluti í Kristni Guðmundssyni & Co. ehf. og séu samningarnir í raun ein heild.  Hvorugur samninganna hefði verið gerður, ef fyrir hefði legið, það sem stefndi telji nú sannað, að stefnandi hafi sem framkvæmda­stjóri og annar aðaleigandi félagsins lagt fram rangar og villandi upplýsingar við kaup­samnings­gerðina, en þær hafi verið ákvörðunarástæða fyrir gerð beggja samninga af hálfu stefnda.  Með nefndri framkomu stefnanda hafi hann ekki sýnt stefnda þann trúnað, sem treysta mátti í ráðningarsambandi atvinnurekanda og launþega og því hafi stefnda verið heimilt að rifta ráðningarsamningnum einhliða og bótalaust; jafnvel þótt ekki verði fallist á að um saknæma háttsemi hafi verið að ræða.  Þessu til stuðnings vísar stefndi til meginreglna kröfuréttar og vinnuréttar um réttar­áhrif vegna rangrar upp­lýsinga­gjafar við samningsgerð, sbr. einkum 30. gr. laga nr. 7/1936 um samnings­gerð, umboð og ógilda löggerninga.  Þá bendir hann á álitsgerð Benónís Torfa Eggerts­sonar lög­gilts endur­skoðanda frá 25. mars 2001 og vitnisburðar hans fyrir dómi, sem stað­reyni að orlofsskuldbindingar félagsins hafi verið vanmetnar og vöru­birgðir félagsins ofmetnar um að minnsta kosti samtals krónur 2.760.141 og að öllum líkindum um krónur 6.709.915.  Í sömu álits­gerð komi einnig fram að vörusala hjá félaginu á árunum 1998, 1999 og 2000 hafi verið mjög svipuð milli ára, en vöru­notkunin hafi verið mun meiri árið 2000 eða 93,6% sem hlutfall af vörusölu ársins; á móti 75,6% og 72,2% árin 1998 og 1999.  Tap félagsins árin 1998 og 1999 hafi verið rúmar 5.000.000 króna hvort ár, en tap á árinu 2000 hafi numið rúmlega 37.000.000 króna þegar búið sé að fá fram raunveru­legt verðmæti vörubirgða félagsins.  Telur stefndi að þetta skýrist fyrst og fremst af því að vöru­birgðirnar hafi verið verulega ofmetnar í ársreikningi félagsins 1999, en á því beri stefnandi ábyrgð.

Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að víkja megi ráðningar­samningnum til hliðar í heild sinni með vísan til 36. gr. samningalaga, þar sem telja verði bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af stefnanda að bera hann fyrir sig þegar í ljós hafi komið að fjárhagslegar forsendur fyrir gerð samningsins hafi reynst mun verri en ráð hefði verið fyrir gert.  Báðir samningarnir hafi leitt til stór­fellds tjóns fyrir stefnda og hafi stefnanda verið fullkunnugt um það.  Beri í því sam­bandi að líta til þess að ráðningar­samningurinn hafi verið gerður til tveggja ára, án gagn­­kvæms uppsagnarfrests, en það beri vott um það mikla traust sem stefndi hafi sýnt stefnanda og síðar hafi komið í ljós að ekki hafi verið grundvöllur fyrir.

Til stuðnings varakröfu sinni bendir stefndi í fyrsta lagi á það að vegna brostinna eða verulegra breyttra forsendna hafi honum verið heimilt að slíta eða segja upp ráðningarsamningi við stefnanda með almennum uppsagnarfresti samkvæmt lögum eða kjarasamningi, sem aldrei væri lengri en þrír mánuðir.  Því til stuðnings að öðru leyti vísar stefndi til málsástæðna sinna í aðalkröfu.

Í annan stað vísar stefndi til ákvæða 36. gr. samningalaga og byggir á því að verði ráðningarsamningnum ekki vikið til hliðar í heild sinni þá beri að víkja honum til hliðar að hluta eða breyta honum, vegna atvika er síðar hafi komið til, þannig að stefndi verði ekki bundinn af samningnum umfram það sem gildi um ótímabundna ráðningarsamninga.  Samkvæmt því hafi stefnda verið heimilt að slíta samningnum eða segja honum upp með venjulegum uppsagnarfresti, sem ekki teljist lengri en þrír mánuðir.  Þessu til frekari stuðnings vísar stefndi til umfjöllunar í aðalkröfu um téða laga­­grein.  

Loks byggir stefndi varakröfu sína á því að taka beri tillit til þess að stefnandi krefjist skaðabóta vegna launa í átján mánuði, en þar af sé um að ræða laun í sextán mánuði eftir að ráðningarsambandi málsaðila hafi verið formlega slitið.  Gera verði þá kröfu til stefnanda, sérstaklega eins og hér standi á, að hann afli sér annars starfs á þeim tíma sem hann krefur stefnda um laun og því geti stefnandi ekki krafist launa allan samningstímann.  Bendir stefndi hér á að stefnanda hafi boðist að minnsta kosti tvö störf; hjá Slippfélaginu og Húsasmiðjunni hf., sem hann hafi hafnað.  Þá beri að líta til þess hagræðis í kröfugerð stefnanda, sem felist í því að hann hafi verið leystur undan starfsskyldum hjá stefnda, en það eigi að koma til lækkunar á bótakröfu hans samkvæmt viðurkenndum lagasjónarmiðum í vinnurétti, sbr. einnig 36. gr. samninga­laga.   

Stefndi mótmælir sérstaklega kröfu stefnanda um bætur vegna vinnu umfram ákvæði í ráðningarsamningi, en sú krafa sé órökstudd og hafi fyrst verið gerð í þing­haldi 21. janúar 2002.  Teljist hún því of seint fram komin.  Einnig mótmælir stefndi hækkun á kröfugerð stefnanda, í sama þinghaldi, að því er varðar bætur vegna orlofs­upp­bótar og desemberuppbótar, en stefnandi verði að teljast bundinn af fjárhæð þeirra kröfuliða samkvæmt stefnu.  Þá mótmælir stefndi kröfu um bætur er taki til lífeyris­sjóðs­framlags atvinnu­rekanda, með vísan til dómvenju og ákvæða laga nr. 129/1997 um skyldu­tryggingu lífeyris­réttinda og starfsemi lífeyrissjóða, einkum 7. gr., en stefnandi eigi ekki aðild að slíkri kröfu og því verði hún ekki tekin til greina, sbr. einnig hrd. 1998:2049.  Stefndi mótmælir enn fremur dráttarvaxtakröfu stefnanda og heldur því fram að taka beri tillit til þess við ákvörðun dráttarvaxta að stefnandi krefjist greiðslna vegna ókomins tíma og því geti hann ekki krafist dráttarvaxta af allri fjárhæðinni frá þeim degi sem gert er í stefnu, sbr. einkum 1. mgr. 9. gr. og 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. hliðstæð ákvæði í núgildandi lögum nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu.  Loks mótmælir stefndi málskostnaðarkröfu stefnanda sem allt of hárri, en við ákvörðun málskostnaðar til stefnanda, komi til hennar á annað borð, beri að taka tillit til málskostnaðarákvörðunar í máli réttarins nr. E-1644/2001. 

VIII.

Eins og rakið er í niðurstöðu dóms uppkveðins 28. desember 2001 í máli réttarins nr. E-1644/2001: Eignarhaldsfélag Hörpu hf. gegn Kristni Guðmundssyni o.fl., sem skipaður var sömu dómendum og dæma mál þetta, var því slegið föstu að stefnandi máls þessa, Kristinn Guðmundsson, hefði hvorki vanrækt upplýsingaskyldu sína né heldur sýnt af sér aðra saknæma háttsemi fyrir gerð kaupsamnings við stefnda eða hluthafa í stefnda hinn 5. maí 2000, að því leyti er varðaði mat á verðmæti vöru­birgða Kristins Guðmundssonar & Co. ehf. og færslu í ársreikning félagsins 1999.  Er sá dómur bindandi um úrslit sama sakarefnis í máli þessu, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og hefur fullt sönnunargildi um þau málsatvik, sem í honum greinir, sbr. 4. mgr. 116. gr. laganna, þar til hið gagnstæða er sannað.  Er ekkert nýtt fram komið í málinu, sem hnekkir sönnunargildi fyrri dóms að þessu leyti.  Ber því við það að miða að stefndi hafi rift umræddum ráðningarsamningi við stefnanda frá 5. maí 2000 án lögmætrar ástæðu, en hvorki verður fallist á að stefnandi hafi brotið gegn trúnaðarskyldu gagnvart stefnda samkvæmt ráðningarsamningnum né heldur að fyrir hendi séu þær ástæður að réttlætt geti einhliða riftun samningsins á grund­velli 30. eða 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda lög­gerninga.  Þá verður ráðningarsamningnum ekki rift eða honum vikið til hliðar í heild á þeim grunni að stefnandi hafi vanrækt eða brotið gegn starfsskyldum sínum sam­kvæmt samningnum, enda ekki á því byggt af hálfu stefnda.  Loks verður ekki fallist á þá málsástæðu stefnda til stuðnings aðalkröfu sinni að sú staðreynd að ráðningar­samningurinn hafi verið gerður án uppsagnarákvæðis af hálfu samningsaðila eigi að leiða til ógildis hans, enda verður ekki fram hjá því horft að stefndi var ráðandi aðilinn við nefnda samningsgerð, sem og við gerð áður nefnds kaupsamnings, og var í lófa lagið að setja inn í ráðningarsamninginn upp­sagnar­ákvæði við gerð hans, ef honum hefði boðið svo við að horfa. 

Niðurstaða dómsins í máli nr. E-1644/2001 varðandi bótaskyldu stefnanda, eigin­­konu hans og fjögurra barna vegna vanrækslu á því að upplýsa stefnda um ógreiddar orlofsskuldbindingar einkahlutafélagsins, að fjár­hæð krónur 452.499, getur ein sér ekki heimilað stefnda einhliða riftun ráðningarsamningsins við stefnanda, en í því máli voru fyrrum eigendur félagsins dæmdir til greiðslu bóta á grundvelli ákvæðis í kaup­samningi um að seljendur tækju persónulega ábyrgð á óvæntum kröfum, sem upp kynnu að koma eftir gerð samningsins og ekki væru til­færðar í ársreikningi félagsins 1999.

Kemur þá til álita hvort fallast beri á varakröfu stefnda, með þeim rök­stuðningi sem fram kemur í kafla VII. hér að framan.  Með vísan til þess er áður segir um stöðu málsaðila við gerð ráðningarsamningsins og þeirra upplýsinga er lágu fyrir við gerð hans og gerð títtnefnds kaupsamnings sama dag verður að telja að stefndi hafi tekið á sig áhættuna á því að þær forsendur væru fyrir hendi við gerð samninganna, sem hann byggði samningsgerðina á, en dómurinn tekur undir þau sjónar­mið stefnda að skýra verði efni samninganna með hliðsjón af hvor öðrum að því er varðar réttarstöðu stefnanda.  Ber í því sambandi að líta til ákvæðis í kauptilboði stefnda frá 6. apríl 2000, þar sem sá fyrirvari er gerður fyrir kaupum á hlutafé í félaginu að samningar náist við stefnanda um áframhaldandi takmarkað starf hjá stefnda í tvö ár til að tryggja yfirfærslu á viðskiptavild félagsins til stefnda.  Telur dómurinn umræddan fyrirvara sýna, svo ekki verði um villst, að stefndi hafi átt frum­kvæði að því að stefnandi var ráðinn til tímabundinna starfa í tvö ár frá 1. maí 2000 til 30. apríl 2002 og verður því samningsákvæði ekki vikið til hliðar eða breytt þrátt fyrir að stefndi telji nú að forsendur sínar hafi brugðist fyrir gerð samninganna tveggja.  Þá telur dómurinn að ekki verði lögð sú skylda á stefnanda að hann aflaði sér launaðrar vinnu annars staðar á greindu tímabili, þrátt fyrir riftun á ráðningarsamningnum, enda var stefnandi áfram bundinn af áður nefndu samkeppnisákvæði í kaupsamningi milli aðila, en samkvæmt því ákvæði skuldbatt stefnandi sig til að vernda eftir mætti við­skipta­­­vild hins selda félags og fara ekki í sam­­keppni við stefnda eða aðstoða sam­keppnis­aðila hans með neinum hætti í fimm ár frá gerð kaupsamningsins.  Ber að líta á höfnun hans á atvinnutilboðum frá Slippfélaginu og Húsasmiðjunni hf. í því ljósi og breytir engu í því sambandi ákvæði 2. mgr. 37. gr. samningalaga, sem stefndi vísaði til við munnlegan flutning málsins.  Enn fremur þykir mega horfa til þess að stefnandi var rúm­lega sextugur að aldri við gerð kaup­samningsins, búsettur á Suðurnesjum og átti eðli máls samkvæmt fárra kosta völ í atvinnuleit, sem lærður málari á því markaðs­­svæði.  Loks verður ekki fallist á að stefnanda hafi verið búið sérstakt hag­ræði með því að vera leystur undan ráðningar­samningi sínum og starfsskyldum gagn­vart stefnda með þeim hætti sem gert var, nema síður sé, og hníga hvorki lagarök né ólögfest laga­sjónar­mið í vinnurétti til þeirrar niðurstöðu að lækka megi fjárhæð bóta­kröfu hans á slíkum grunni.

Samkvæmt framansögðu er það álit dómsins að stefndi eigi að greiða stefnanda skaðabætur vegna ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningi aðila frá 5. maí 2000. 

Verður nú tekin afstaða til einstakra kröfuliða í bótakröfu stefnanda, í þeirri röð sem fram kemur í kafla VI. að framan, en endanleg fjárhæð bótakröfunnar styðst við sundurliðun kröfugerðar á dómskjali nr. 30 í málinu, sem stefnandi lagði fram í þing­­haldi 21. janúar 2002.  Í henni fólst breyting á kröfugerð stefnanda; bæði frá því sem greinir í stefnu og kröfugerð þeirri, sem lögð var fram af hálfu stefnanda í upp­hafi aðalmeðferðar 10. janúar 2002.  Er áður vikið að mótmælum stefnda við hinni breyttu kröfugerð, en þeim verða gerð nánari skil við umfjöllun um hvern einstakan kröfu­lið hér á eftir. 

Um lið 1.  Bætur vegna vangoldinna launa.

Samkvæmt framangreindum málsúrslitum er fallist á kröfu stefnanda um bætur vegna vangoldinna launa í átján mánuði, frá og með nóvember 2000 til og með apríl 2002, eins og hún er sett fram.  Nemur sú fjárhæð samtals krónum 4.832.292.

Um lið 2.  Bætur er samsvari orlofsuppbót.

Samkvæmt tilvitnuðum kjarasamningi milli VR og SA, grein 1.4.2., mun orlofs­upp­bót, sem greiðast átti frá 1. maí 2001 hafa verið krónur 15.000 og frá 1. maí 2002 krónur 15.300, sbr. breyting á kjarasamningnum frá 7. mars 2001.  Í stefnu er krafist 9.600 króna vegna fyrra tímabilsins og 9.900 króna vegna hins síðara.  Þeirri kröfu­gerð var breytt á dómþingi 21. janúar 2002 og krafist 9.400 króna vegna fyrra tímabilsins og 15.000 króna vegna hins síðara.  Með hliðsjón af málsúrslitum ber að dæma stefnanda bætur í stað orlofsuppbótar fyrir 1. maí 2001 er nemi hinni lægri fjár­hæð, þ.e. krónur 9.400.  Gegn mótmælum stefnda og með vísan til 1. mgr. 111. gr. laga um meðferð einkamála verða bætur í stað orlofsuppbótar frá 1. maí 2002 bundnar við þá fjárhæð er greinir í stefnu, þ.e. krónur 9.900.  Ber því að dæma stefnanda samtals krónur 19.300 vegna þessa kröfuliðar.

Um lið 3.  Bætur er samsvari desemberuppbót.

Samkvæmt stefnu krefst stefnandi hér fjárhæðar er nemur hálfri desember­upp­bót fyrir árið 2000 eða 14.100 króna, sbr. grein 1.4.1. í kjarasamningi VR og SA.  Í endan­legri kröfugerð er hins vegar krafist bóta er nemi krónum 28.200.  Gegn mót­mælum stefnda er stefnandi bundinn af upphaflegri kröfufjárhæð, sbr. 1. mgr. 111. gr. framangreindra laga og verður krafan þannig tekin til greina.  Þá er í stefnu krafist 29.000 króna vegna desemberuppbótar á árinu 2001.  Samkvæmt breyting á téðum kjara­samningi frá 7. mars 2001 mun rétt fjár­hæð uppbótarinnar vera 40.000 krónur og hækkaði stefnandi kröfuna því til samræmis á dómþingi 21. janúar 2002.  Er sú breyting einnig of seint fram komin og verður því ekki tekin til greina gegn mót­mælum stefnda.  Ber því að dæma stefnanda hina lægri fjárhæð.  Loks krafðist stefnandi 15.000 króna í stefnu vegna desember­uppbótar á árinu 2002.  Þá kröfu lækkaði stefnandi á aðalmeðferðardegi 10. janúar 2002 í 5.000 krónur, en fjárhæð hennar var reiknuð sem 5/12 hlutar af desemberuppbót þess árs.  Samkvæmt samningsbundinni hækkun desemberuppbótar á því ári nam rétt fjárhæð desember­upp­bótar hins vegar krónum 41.000, en á þeim grunni hækkaði stefnandi kröfuna á ný í þinghaldi 21. janúar 2002 og krefst nú endanlega bóta er samsvari 4/12 hlutum af 41.000 krónum eða 13.333 króna.  Gegn mótmælum stefnda þykir stefnandi að þessu leyti bundinn af kröfu­gerð sinni frá 10. janúar 2002, sbr. 1. mgr. 111. gr. fyrrnefndra laga.  Rétt þykir að nefna hér, að 4/12 hlutar af 41.000 krónum samsvara í raun 13.666 krónum.  Sam­kvæmt framan­sögðu verða stefnanda dæmdar bætur vegna þessa kröfu­liðar krónur 14.100 + 29.000 + 5.000 eða samtals krónur 48.100.

Um lið 4.  Bætur er samsvari lífeyrissjóðsframlagi atvinnurekanda.

Stefnandi krefst hér bóta að fjárhæð krónur 344.744 er samsvari viðurkenndu 6% lífeyrissjóðsframlagi atvinnu­rekanda, sbr. grein 10.3. í títtnefndum kjarasamningi, sem og 1% viðbótar­fram­­lagi samkvæmt grein 10.3.5., en stefnandi hafi greitt í Líf­eyris­sjóðinn Einingu.  Varnir stefnda gegn nefndri kröfu eru hvorki á því byggðar að grund­völlur hennar og fjár­hæð sé röng né heldur er dregið í efa að lífeyrisréttindi stefnanda skerðist sem fjárhæð bótakröfunnar nemur ef ekki verður af greiðslu iðgjalda til líf­eyrissjóðsins vegna tímabilsins frá 1. nóvember 2000 til og með 30. apríl 2002.  Verður því fallist á með stefnanda að tjón hans vegna hinnar ólögmætu riftunar ráðningarsamningsins geti ekki talist að fullu bætt nema tekið verði tillit til þessa kröfuliðar, sbr. til dæmis hæstaréttardómur uppkveðinn 20. janúar 2000 í máli réttarins nr. 284/1999.  Ber því að dæma stefnda til greiðslu á framangreindri fjárhæð.

Um lið 5.  Bætur fyrir vinnu umfram ráðningarsamning.

Krafa þessi var fyrst sett fram í þinghaldi 21. janúar 2001.  Eins og rakið er í kafla II. að framan er viðurkennt af hálfu stefnda að daglegur vinnutími stefnanda hafi orðið lengri á annatímum en ráðgert hafði verið í ráðningarsamningi aðila og að honum hafi sökum þessa verið heimilað að lengja orlofstíma sinn umfram þá fjóra mánuði, sem kveðið var á um í samningnum.  Hins vegar liggur ekkert fyrir um fjölda slíkra vinnustunda, enda var málið ekki sótt á þeim grunni við aðalmeðferð 10. janúar 2002 og gat stefndi því ekki tekið til varna gegn kröfunni.  Með hliðsjón af því og með vísan til 1. mgr. 111. gr. laga um meðferð einkamála kemst hin nýja krafa ekki að í málinu gegn mótmælum stefnda.  Verður þessi liður bótakröfunnar því ekki tekinn til greina. 

Heildarbætur vegna hinnar ólögmætu riftunar ráðningarsamningsins ákvarðast þannig krónur 5.244.436.  Við ákvörðun dráttarvaxta af kröfunni verður ekki fram hjá því horft að kröfugerð stefnanda hefur tekið breytingum allt frá því bóta var fyrst krafist 11. janúar 2001 og fram til 21. janúar 2002, en þá var málið endurupptekið vegna óskýrleika í kröfugerðinni og ófullnægjandi rökstuðnings fyrir einstökum kröfu­­liðum.  Við þingfestingu málsins 14. febrúar 2001 lá þó endanlega fyrir hver væri krafa stefnanda vegna vangoldinna mánaðarlauna samkvæmt kröfulið nr. 1. að framan og hefur fjárhæð annarra viðurkenndra kröfuliða nr. 2.-4. verið meira og minna miðuð við framsetningu í stefnu.  Þykir því rétt með vísan til 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. nú 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu, að kveða svo á um að hin dæmda skaðabótakrafa beri dráttarvexti frá 14. mars 2001 til greiðsludags.

Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála skal sá er tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum máls­kostnað.  Frá þessu má víkja ef veruleg vafaatriði eru í máli eða ef aðili vinnur mál að nokkru og tapar því að nokkru eða ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað, sbr. 3. mgr. 130. gr.  Má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu. 

Með hliðsjón af framangreindum ákvæðum og ­úrslitum í máli þessu er ljóst að stefnandi hefur fengið kröfum sínum framgengt að verulegu leyti og verður því til samræmis að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.

Dómur þessi er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara og Ómari Kristjánssyni og Sverri Ingólfssyni lög­giltum endurskoðendum.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Eignar­­halds­félag Hörpu hf., greiði stefnanda, Kristni Guðmundssyni, krónur 5.244.436 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. mars 2001 til 1. júlí 2001, en með dráttar­vöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. 

Stefndi greiði stefnanda krónur 250.000 í málskostnað.