Hæstiréttur íslands

Mál nr. 437/1998


Lykilorð

  • Umferðarlög
  • Bifreið
  • Ölvunarakstur
  • Blóðsýni


                                                        

Fimmtudaginn 4. mars 1999.

Nr. 437/1998.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Kristþóri Breiðfjörð Haukssyni

(Sigurður Jónsson hrl.)

Umferðarlög. Bifreiðir. Ölvunarakstur. Blóðsýni.

K var ákærður fyrir ölvunarakstur. Niðurstöður rannsókna á alkóhólmagni í blóði K sýndu alkóhólmagn annars vegar 0,59‰ og hins vegar 0,58‰. Þegar reiknað var með 10% fráviki vegna hugsanlegrar ónákvæmni í mælingu var endanleg niðurstaða um alkóhól í blóði talin vera 0,53‰. Við rannsóknina var beitt nýrri aðferð við mælingu alkóhóls í blóði, en við eldri framkvæmd höfðu skekkjumörk verið talin meiri eða 0,10‰. Samkvæmt eldri aðferð hefði endanleg niðurstaða um áfengismagn í blóði ákærða orðið 0,49‰ og þar með undir lágmarki 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Talið var að ekki hefði verið sýnt fram á með viðhlítandi hætti að næg ástæða væri til þess að breyta frá fyrri dómafordæmum með því að leggja til grundvallar lægri vikmörk við greiningu blóðsýna en verið hefði. Ákæruvaldið var ekki talið hafa sannað að alkóhól í blóðsýni K hafi náð 0,50‰ og var K sýknaður.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar samkvæmt áfrýjun ákærða með stefnu 14. október 1998, og krefst staðfestingar héraðsdóms, þó þannig að ákvörðun saksóknar- og málsvarnarlauna sæti endurskoðun til jöfnunar.

Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að hann verði einungis dæmdur til að þola vægustu viðurlög sem lög leyfa.

I.

Ákærði var stöðvaður af lögreglu vegna gruns um að hann hefði ekið bifreið sinni of hratt á Suðurlandsvegi við Hellu fimmtudaginn 2. júlí 1998. Þegar lögreglumennirnir töluðu við hann fundu þeir mikla vínlykt og var hann beðinn að blása í öndunarsýnismæli. Niðurstaða mælisins staðfesti alkóhól í útöndunarlofti. Í framhaldi af því var ákærði fluttur á heilsugæslustöðina á Hellu, þar sem læknir tók honum blóðsýni til alkóhólgreiningar. Í héraðsdómi er lýst niðurstöðu Rannsóknastofu í lyfjafræði 14. júlí 1998, þar sem tvær mælingar úr blóðsýni ákærða sýndu alkóhólmagn annars vegar 0,59‰ og hins vegar 0,58‰. Þegar reiknað væri með 10% fráviki vegna hugsanlegrar ónákvæmni í mælingu var endanleg niðurstaða um alkóhól í blóði ákærða talin vera 0,53‰.  Í héraðsdómi er því ennfremur lýst, að þarna hafi verið beitt nýrri aðferð við að mæla alkóhól, og rakin eru að nokkru bréfaskipti rannsóknarstofunnar og ríkislögreglustjóra um breytt vinnubrögð við rannsókn blóðsýna og breytta framsetningu rannsóknarstofunnar á niðurstöðum sínum. Er ágreiningslaust að miðað við eldri framkvæmd hafi skekkjumörk í málinu verið talin meiri, eða 0,10‰ en ekki 10%, sem samkvæmt nýrri viðmiðun fól í sér  0,6‰ frávik. Hefði endanleg niðurstaða um áfengismagn í blóði ákærða því orðið 0,49‰ samkvæmt eldri aðferð og þar með undir lágmarki 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Krafa ákærða um sýknu er á því reist, að ósannað sé að hann hafi ekið umrætt sinn undir áhrifum áfengis. Ekki liggi fyrir nein vísindaleg rök sem réttlæti þær nýju forsendur, sem lagðar séu til grundvallar sakfellingu hans í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms. Leggja verði þá skyldu á herðar ákæruvaldsins að sýnt verði fram á með gildum vísindalegum rökum að réttmætt sé að notast við annað frávik í niðurstöðum alkóhólmælinga í blóði en það, sem til þessa hafi verið miðað við. Þá gagnrýnir hann sérstaklega þá aðferð rannsóknarstofunnar að telja meðaltal mælinganna vera hærri mælitöluna, þ.e. 0,59‰, en það eitt sé augljóslega andstætt reglum um að allur vafi skuli teljast ákærða í vil.

II.

Með ákvörðun Hæstaréttar 1. febrúar 1999 var lagt fyrir ákæruvaldið að afla skýringa Rannsóknastofu í lyfjafræði á breyttum vikmörkum (öryggismörkum) við ákvörðun á etanóli í blóði. Sérstaklega var óskað eftir umsögn um hvort aðferðir, sem nú er beitt, veiti nákvæmari niðurstöðu um alkóhól í blóði en eldri aðferðir. Með bréfi ríkissaksóknara 3. febrúar 1999 til rannsóknarstofunnar var óskað svara við fyrirspurninni.

Hinn 4. febrúar 1999 svaraði dr. Þorkell Jóhannesson bréfi þessu f.h. Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði/Lyfjafræðistofnunar. Bréfið er svohljóðandi:

„Meginreglan í vísindalegri vinnu er að láta í té hið besta mögulega mælingagildi og skilgreina trúverðugleika þess. Varðandi ákvörðun á etanóli er þetta upphaflega gert í ritgerð Jóhannesar Skaftasonar og Þorkels Jóhannessonar: Ákvarðanir á alkóhóli (etanóli) í blóði (Tímarit lögfræðinga 1975, 25, 1-13). Í þessari sömu ritgerð er þó tekið tillit til hagkvæmnisatriða og venju sem Hæstiréttur kom á með dómi sínum árið 1966.

Með bréfi dagsettu 27.2.1998 (fylgiskjal 1) víkur ríkislögreglustjóri að ósk um breytta skráningu mælingagilda þannig, að um „endanlega niðurstöðu“ sé að ræða. Með öðru bréfi, sem dagsett er 27.4.1998 (fylgiskjal 2), rekur ríkislögreglustjóri málið áfram. Með þessu bréfi fylgir tillaga til framsetningar niðurstöðutalna. Bréfi þessu svaraði svo Rannsóknastofan 12.5.1998 (fylgiskjal 3) og hafi þá í stórum dráttum fallist á beiðni ríkislögreglustjóra. Að undangengnum ítarlegum staðtölulegum útreikningum (Jakob Kristinsson, dósent og forstöðumaður réttarefnafræðideildar og Kristín Magnúsdóttir, forstöðumaður alkóhóldeildar) setti Rannsóknastofan fram endanlegar reglur að þessu lútandi í bréfi, sem dagsett er 27.5.1998 (fylgiskjal 4). Samkvæmt þessum vinnureglum á endanleg niðurstaða að tryggja, „að minni líkur en 1 á móti 1000 eru á því, að þéttni etanóls í blóði eða þvagi manns hefði getað verið minni.“

Rannsóknastofa í lyfjafræði varð þannig við tilmælum ríkislögreglustjóra um framsetningu niðurstöðutalna, þegar nægjanlega tryggt þótti að undangengnum ítarlegum staðtölulegum útreikningum, að aðferðin stæðist vísindalega gagnrýni.”

III.

Í dómum Hæstaréttar 1983, bls. 406 og 1988, bls. 346 var lagt til grundvallar, að ef þéttni alkóhóls í blóði væri meiri en 1‰ væru vikmörk frá miðtölugildi mest 10%, en ef þéttni alkóhóls í blóði væri 1‰ eða minni væri venja að telja vikmörk frá miðtölugildi 0,10‰. Í því efni var stuðst við álit dr. Þorkels Jóhannessonar.

 Eins og greint er hér að framan hafa nú verið teknar upp nýjar vinnureglur við að ákvarða alkóhól í blóði. Gerðar eru tvær sjálfstæðar mælingar í stað einnar áður og tekið meðaltal. Má helst ráða, að þessi breyting á vinnureglum sé talin réttlæta að vikmörk frá miðtölugildi séu nú ákvörðuð lægri en 0,10‰, sem fram til þessa hefur verið miðað við. Ekki er getið um breytingu á aðferð við að efnagreina blóðsýni (gasgreining á súlu). Séu þannig minni líkur en 1 á móti 1000 á því, að þéttni alkóhóls í blóði manns hefði getað verið minni.

Í framangreindum dómum Hæstaréttar lá fyrir álitsgerð dómkvaddra manna, sem töldu að það gerðist sjaldnar en í eitt skipti af 1000 að blóð með etanólinnihaldi, sem væri minna en 0,50‰, ákvarðist 0,58‰ við mælingu eða meira. Varð þó niðurstaða í fyrrnefnda dóminum, að ekki þótti rétt að hverfa frá þeirri venju að ætla vikmörk frá miðtölugildi 0,10‰. Var til þess vísað, að við mat á niðurstöðum alkóhólákvarðana í blóði hefði um langt skeið verið gert ráð fyrir, að möguleiki væri á nokkurri ónákvæmni, þannig að mæling gæti sýnt nokkru meira eða minna alkóhólinnihald en raunverulega væri í blóði. Í hinum síðarnefnda dómi var fylgt fordæmi þess fyrra.

Svo sem áður greinir var með ákvörðun Hæstaréttar 1. febrúar 1999 sérstaklega óskað eftir umsögn um hvort aðferðir, sem nú er beitt, veiti nákvæmari niðurstöðu um alkóhól í blóði en eldri aðferðir. Í umsögn rannsóknarstofunnar kom ekki fram skýrt svar við þessu. Eins og málið hefur verið lagt fyrir hefur ekki verið sýnt fram á með viðhlítandi hætti, að næg ástæða sé til að breyta frá fyrri dómafordæmum með því að leggja nú til grundvallar lægri vikmörk við greiningu blóðsýna en verið hefur. Hefur ákæruvaldið ekki sannað með framlögðum gögnum að alkóhól í blóðsýni því, sem ákærða var tekið, hafi náð 0,50‰. Verður ákærði því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Eftir þessum úrslitum skal greiða allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Kristþór Breiðfjörð Hauksson, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, Sigurðar Sigurjónssonar héraðsdómslögmanns, 45.000 krónur, og skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.

Héraðsdómur Suðurlands 18. september 1998.

Ár 1998, föstudaginn 18. september er í Héraðsdómi Suðurlands í máli S-57/1998: Ákæruvaldið gegn Kristþóri Haukssyni kveðinn upp svohljóðandi dómur

                Mál þetta var höfðað með ákæru sýslumannsins á Hvolsvelli 9. ágúst sl. á hendur Kristþóri Haukssyni, kt. 281236-2459, Laufskálum 13, Hellu.

                Ákærða er gefið að sök brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, „…með því að hafa, fimmtudaginn 2. júlí 1998, ekið bifreiðinni R-21190 undir áhrifum áfengis frá Móeiðarhvoli í Hvolhreppi vestur Suðurlandsveg, þar til lögregla stöðvaði aksturinn við Langasand á Hellu.”

                Ákæruvald krefst refsingar, sviptingar ökuréttar og greiðslu saksóknarlauna auk alls annars sakarkostnaðar.

                Verjandi ákærða krefst sýknu, til vara vægustu refsingar.

                Ekki er ágreiningur um að ákærði ók umrætt sinn eins og lýst er í ákæru. Í skýrslu hjá lögreglu er ákærði staðfesti fyrir dómi segir hann að hann hafi drukkið pilsner skömmu fyrir aksturinn og ekki fundið til áfengisáhrifa.

                Tekið var blóðsýni úr ákærða og í niðurstöðu Rannsóknarstofu í lyfjafræði sem dagsett er 14. júlí segir að niðurstöður mælingar 1 hafi verið 0,59‰ og mælingar 2 hafi verið 0,58‰. Rannsóknarstofan telur meðaltal vera 0,59‰ og reiknar með fráviki 0,06‰ þannig að endanleg niðurstaða sé 0,53‰.

                Jafnframt tók lögregla af ákærða öndunarsýni og á S-D2 mæli sýndi það 000,55.

                Um allangt skeið hefur verið stuðst við það í réttarframkvæmd að nákvæmni mælingar á alkóhólmagni í blóði væri ekki meiri en svo að þegar sönnunargildi niðurstaðna er metið hefur verið dregin lína við að skekkjumörk séu almennt 10%, þó aldrei lægri en 0,1‰. Miðað við þessa framkvæmd hefði ekki komið til þess að mál þetta hefði verið höfðað, þar sem ekki hefur verið talið sannað að áfengismagn í blóði sé yfir mörkum nema niðurstaða mælingar sé 0,6‰ eða hærri.

                Í máli þessu hafa verið lögð fram bréf sem skýra nokkuð breytt vinnubrögð við meðferð og rannsókn blóðsýna og breytta framsetningu Rannsóknastofu í lyfjafræði á niðurstöðum sínum.

                Í bréfi Ríkislögreglustjóra til Rannsóknastofunnar, dags. 27. apríl 1998, eru skýrðar breytingar á formi beiðna um alkóhólrannsókn. Samkvæmt því skyldi Rannsóknastofan framvegis gefa upp tvær mælingar og meðaltal þeirra. Jafnframt skyldi hún tilgreina reiknað frávik og síðan endanlega niðurstöðu.

                Í svarbréfi Rannsóknastofunnar, dags. 12. maí 1998, er tekið fram að hvor mæling um sig muni byggjast á tveimur sjálfstæðum ákvörðunum og því sé meðaltalið tekið af fjórum ákvörðunum. Frávik muni verða reiknað af meðaltalinu, hugsanlega muni verða tilgreind tvö frávik.

                Með bréfi 27. maí 1998 áréttaði Rannsóknastofan að reiknað frávik eða öryggismörk við ákvörðun á etanóli í blóði og þvagi yrði 10% af meðaltali mælinga 1 og 2 að 1,50‰, en yrði 0,15‰ af meðaltali mælinga 1 og 2 frá 1,51‰ og að 3,15‰. Þá segir í þessu bréfi að endanleg niðurstaða þannig fengin merki, að minni líkur en 1 á móti 1.000 séu á því að þéttni etanóls í blóði eða þvagi hefði getað verið minni en þar greinir.

                Samkvæmt framansögðu verður nú að byggja á því að með hinni varfærnu niðurstöðu Rannsóknastofu í lyfjafræði sé fram komin nægileg sönnun um að ákærði hafi umrætt sinn verið undir áhrifum áfengis í þeim mæli að akstur hans hafi falið í sér brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Verður að ákvarða honum viðurlög samkvæmt því. Er þetta og í samræmi við niðurstöðu sem greind er um öndunarsýni af ákærða.

                Ákærði hefur tvívegis verið sakfelldur fyrir ölvunarakstur. 27. desember 1989 gekkst hann undir sekt og 12 mánaða ökuleyfissviptingu og 16. nóvember 1993 gekkst hann undir sekt og tveggja ára ökuleyfissviptingu. Í samræmi við dómaframkvæmd verður ákærði nú dæmdur til að sæta varðhaldi í 30 daga og sviptur ökurétti ævilangt. Þá ber honum að greiða allan sakarkostnað. Saksóknarlaun verða ákveðin kr. 30.000, en málsvarnarlaun kr. 45.000.

                Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

                Ákærði, Kristþór Hauksson, sæti varðhaldi 30 daga.

                Ákærði skal sviptur ökurétti ævilangt.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.á.m. saksóknarlaun til ríkissjóðs, kr. 30.000, og málsvarnarlaun verjanda síns, kr. 45.000.