Hæstiréttur íslands
Mál nr. 370/2005
Lykilorð
- Bifreið
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Sakarskipting
|
|
Fimmtudaginn 26. janúar 2006. |
|
Nr. 370/2005. |
Gunnar Gunnarsson(Kristinn Hallgrímsson hrl.) gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Ólöfu Skúladóttur (Kristín Edwald hrl.) |
Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Sakarskipting.
G varð fyrir bifreið er hann gekk yfir Pósthússtræti í Reykjavík og meiddist á hægra hné. Hvorki var ágreiningur um afleiðingar slyssins né að tjón G hafi hlotist af notkun bifreiðarinnar í merkingu 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga. G krafðist þess að fá tjón sitt bætt að fullu en stefndu töldu hann hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og skyldi því bera þriðjung tjónsins sjálfur. Lýsingar G á tildrögum slyssins voru afar óglöggar og alls ekki í innbyrðis samræmi. Ökumaður og farþegi bifreiðarinnar báru að framendi hennar hafi verið kominn framhjá G er hann hafi slagað eða dottið og rekist við það í vinstri hliðarspegil bifreiðarinnar. Var samræmi í meginatriðum í framburði þeirra að þessu leyti, sem samræmdist einnig áverkum G, og var framburður þeirra um þetta atriði lagður til grundvallar. Talið var að G hafi sýnt af sér gáleysi, er hann nýtti sér ekki nærlægar gangbrautir og gekk yfir götuna talandi í farsíma og án þess að huga að aðvífandi umferð. Þessi hegðan hans var þó ekki talin hafa vikið svo frá því sem talist gæti forsvaranlegt eða venjulegt að gáleysi hans teldist stórkostlegt. G hafði neytt áfengis er slysið varð en kvaðst ekki hafa verið mikið ölvaður. Engin vissa var um ölvunarstig G og varð þegar af þeirri ástæðu ekki fullyrt um orsakasamband milli áfengisneyslu hans og þess að hann féll á bifreiðina. Þá voru engin önnur efni til að telja það honum til stórkostlegs gáleysis að falla utan í hlið bifreiðarinnar og átti hann rétt á að fá tjón sitt bætt að fullu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. ágúst 2005. Hann krefst þess að stefndu verði óskipt dæmd til að greiða sér 1.363.320 krónur með 4,5% ársvöxtum af 250.238 krónum frá 7. apríl 2000 til 1. desember sama ár og af 1.363.320 krónum frá þeim degi til 19. desember 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
I.
Áfrýjandi var á ferð fótgangandi klukkan rúmlega tvö aðfaranótt föstudagsins 7. apríl 2000 vestur yfir Pósthússtræti í Reykjavík, norðan gatnamóta þess og Hafnarstrætis, er hann varð fyrir bifreiðinni ZT 707 sem ekið var austur Hafnarstræti og beygt norður Pósthússtræti. Stefnda Ólöf var eigandi bifreiðarinnar, sbr. 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum, og var bifreiðin tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf., sbr. 91. gr. og 1. mgr. 95. gr. sömu laga. Áfrýjandi varð við slysið fyrir meiðslum á hægra hné og er hvorki ágreiningur um tímabundnar og varanlegar afleiðingar þess fyrir áfrýjanda né að tjón hans hafi hlotist af notkun bifreiðarinnar í merkingu 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Áfrýjandi krefst þess að stefndu bæti sér tjón sitt að fullu. Stefndu halda því hins vegar fram að áfrýjandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í umrætt sinn og eigi því, sbr 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga, að bera hluta tjóns síns sjálfur. Sé hæfilegt að hann beri þriðjung tjónsins og beri því að sýkna stefndu, þar sem þau hafi þegar greitt honum tvo þriðju hluta þess. Áfrýjandi hefur fyrir Hæstarétti fallið frá kröfu um að meta skuli árslaun hans sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999, við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku. Er því ekki lengur tölulegur ágreiningur með aðilum.
II.
Aðila greinir á um nánari tildrög slyssins. Í stefnu er atvikum lýst svo að þegar áfrýjandi hafi á leið sinni vestur yfir Pósthússtræti orðið bifreiðarinnar var hafi hann reynt að víkja sér undan henni. Litlu hafi munað að það tækist „því að einungis vinstri hliðarspegill bifreiðarinnar skall utan í hægra hné“ áfrýjanda. Áfrýjandi gaf ekki skýrslu um slysið hjá lögreglu. Í álitsgerð örorkunefndar er haft eftir áfrýjanda að hann hafi verið að tala í farsíma á leið sinni yfir götuna. Hafi hægra framhorn bifreiðarinnar rekist á hægra hné sitt. Hafi hann verið undir áhrifum áfengis en ekki mikið drukkinn. Í skýrslu áfrýjanda fyrir héraðsdómi kvað hann bíl hafa komið frá vinstri er hann var að fara yfir götuna og ekið „á löppina“ á sér meðan hann var „bara í skrefinu frá bílnum.“ Hann kvaðst ekki hafa verið búinn að taka eftir bílnum. Hafi hann verið búinn að drekka áfengi en ekki verið mikið ölvaður. Lýsingar áfrýjanda á tildrögum slyssins eru samkvæmt framansögðu afar óglöggar og alls ekki í innbyrðis samræmi.
Skýrslur félaga áfrýjanda, sem fór á undan honum yfir götuna, veita ekki nánari upplýsingar um atvik að þessu leyti. Fyrir héraðsdómi kvað hann þá félaga hafa verið drukkna en „ekkert út úr heiminum.“
Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir ökumanni bifreiðarinnar skömmu eftir slysið að hún hafi ekið mjög hægt og veitt áfrýjanda athygli er hann gekk út á akbrautina. Kvað hún áfrýjanda hafa verið að tala í síma og hafi hann „slafrað“ um og gengið á vinstri hlið ökutækisins og lent með hægri mjöðm á hliðarspegli og skekkt hann. Hafi hún flautað á hann skömmu áður en þetta gerðist. Í frumskýrslu segir að áfrýjandi hafi verið „áberandi ölvaður.“ Hinn 1. mars 2001 gaf ökumaður skýrslu hjá lögreglu. Kvaðst hún hafa ekið mjög hægt, séð til ferða áfrýjanda og flautað á hann. Hann hafi haldið áfram og verið kominn framhjá bílnum. Hafi henni fundist „hann vera sloppinn við bílinn.“ Hafi hann þá rekist utan í bílinn og við það hafi hliðarspegill fallið upp að hurðinni. Hún kvað áfrýjanda hafa verið mjög ölvaðan og slagað um götuna. Fyrir héraðsdómi bar ökumaðurinn að þegar hún beygði norður Pósthússtræti hafi áfrýjandi komið gangandi þvert yfir götuna. Hún hafi nánast stöðvað bílinn. Hafi áfrýjandi, sem verið hafi áberandi ölvaður, verið þarna „kjagandi“ fram fyrir bílinn. Þegar hann hafi verið kominn framhjá hafi hann dottið á hliðarspegilinn á bílnum. Hafi hún haldið að áfrýjandi væri sloppinn við bílinn þegar hann hafi fallið á spegilinn.
Vinkona ökumannsins var farþegi í bílnum er slysið varð. Í lögregluskýrslu 2. mars 2001 var haft eftir henni að hún hafi séð áfrýjanda slaga út á götuna og í veg fyrir bílinn er hann beygði norður Pósthússtræti. Hafi ökumaður flautað og áfrýjandi virst stoppa augnablik en síðan haldið áfram og verið kominn framhjá bílnum. Er hann hafi verið við hlið bílsins hafi verið eins og hann félli afturábak og utan í vinstri hlið hans. Við það hafi áfrýjandi rekist í hliðarspegilinn sem hafi lagst upp að hurðinni. Hún sagði að áfrýjandi hafi verið „blindfullur að sjá.“ Fyrir héraðsdómi bar farþeginn að þegar áfrýjandi hafi „kjagað“ fram fyrir bílinn hafi hann í rauninni verið alveg stopp. Nánar aðspurð kvaðst hún ekki alveg viss um að svo hafi verið, en bíllinn hafi verið á mjög litlum hraða. Áfrýjandi hafi svo lagst á hliðarspegilinn þannig að hann hafi fallið saman. Kvað hún áfrýjanda hafa verið verulega ölvaðan og mjög valtan á fótum.
Eins og hér að framan er rakið telja ökumaður og farþegi bifreiðarinnar að framendi hennar hafi verið kominn framhjá áfrýjanda er hann hafi slagað eða dottið og rekist við það í vinstri hliðarspegil bifreiðarinnar. Er samræmi í meginatriðum í framburði þeirra að þessu leyti. Getur þessi framburður samrýmst því að áfrýjandi hafi við það að rekast á vinstri hlið bifreiðarinnar orðið fyrir áverka á hægra hné. Þegar litið er þessa og að lítið verður ráðið um málsatvik af skýrslum áfrýjanda verður framburður ökumanns og farþega um þetta atriði lagður til grundvallar.
III.
Ljóst er að áfrýjandi sýndi af sér gáleysi er hann nýtti sér ekki nærlægar gangbrautir og gekk yfir Pósthússtræti talandi í farsíma og án þess að huga að aðvífandi umferð. Ekki verður þó talið þessi hegðan hans hafi vikið svo frá því sem talist getur forsvaranlegt eða venjulegt að gáleysi hans teljist stórkostlegt.
Eins og að framan er rakið verður við það miðað að áfrýjandi hafi fallið á vinstri hlið bifreiðarinnar eftir að hann var komin fram fyrir hana og á meðan henni var ekið framhjá honum norður Pósthússtræti. Ljóst er að áfrýjandi hafði neytt áfengis er slysið varð. Engin mæling fór fram á áfengismagni í blóði hans umrætt sinn. Áfrýjandi kveðst eins og að framan er rakið ekki hafa verið mikið ölvaður. Þegar af þeirri ástæðu að engin vissa er um ölvunarstig áfrýjanda verður ekki fullyrt um orsakasamband milli áfengisneyslu hans og þess að hann féll á bifreiðina. Eru engin önnur efni til að telja það honum til stórkostlegs gáleysis að falla utan í hlið bifreiðarinnar sem virðist hafa verið ekið mjög nærri honum er hann féll. Á hann því rétt á að fá tjón sitt bætt að fullu og verður krafa hans tekin til greina.
Stefndu verða dæmd til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Ólöf Skúladóttir, greiði óskipt áfrýjanda, Gunnari Gunnarssyni, 1.363.320 krónur með 4,5% ársvöxtum af 250.238 krónum frá 7. apríl 2000 til 1. desember sama ár og af 1.363.320 krónum frá þeim degi til 19. desember 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndu greiði óskipt áfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 25. apríl sl. er höfðað með stefnu birtri 8. september sl.
Stefnandi er Gunnar Gunnarsson, Melgötu 12, Grenivík.
Stefndu eru Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík og Ólöf Skúladóttir, Aðalstræti 9, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda skaðabætur in solidum að fjárhæð 2.389.775 krónur ásamt vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, af 250.238 krónum frá 7. apríl 2000 til 1. desember 2000 en af 2.389.775 krónum frá þeim degi til 19. desember 2002,- og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar in solidum úr hendi stefndu.
Stefnandi lýsir málavöxtum svo að hann hafi verið fótgangandi um miðbæ Reykjavíkur þann 7. apríl 2000 þegar bifreið hafi verið ekið á hann með þeim afleiðingum að hann slasaðist á hné. Slysið hafi borið að með þeim hætti að vitnið Guðmundur Richard Guðmundsson, sem var með stefnanda hafi gengið vestur yfir Pósthússtræti um klukkan 2 að morgni. Stefnandi hafi gengið á eftir Guðmundi yfir götuna. Eftir að stefnandi hefði hafið göngu sína yfir götuna hafi bifreiðin ZT-707, sem Lára Gró Blöndal Sigurðardóttur ók, komið aðvífandi á allnokkurri ferð og beygt til vinstri á gatnamótum Hafnarstrætis og Pósthússtrætis. Þegar stefnandi hafi orðið var við að bifreiðin væri á leið í átt að honum hafi hann reynt að víkja sér undan henni. Litlu hafi munað að það tækist því að einungis vinstri hliðarspegill bifreiðarinnar hafi skollið utan í hægra hné stefnanda.
Stefnandi kveðst strax hafa fundið til mikils sársauka og fljótlega hnigið niður vegna áverkans. Bifreiðinni hafi verið ekið af vettvangi en Guðmundur elt hana uppi þar sem hún hefði staðnæmst á gatnaljósum á gatnamótum Tryggvagötu og Geirsgötu. Hafi Guðmundur bankað í hægri hliðarrúðu bifreiðarinnar sem hafi þá verið ekið af stað og á brott. Guðmundur hafi þá hringt á lögregluna sem kallað hafi eftir sjúkrabifreið og var stefnandi fluttur á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur.
Stefnandi slasaðist á hné og þurfti m.a. að gangast undir aðgerð vegna þess.
Stefnandi hafi verið að gera sér glaðan dag þegar slysið átti sér stað eins og algengt sé. Hann hafi drukkið lítið eitt af áfengi um kvöldið en ekki verið undir miklum áhrifum áfengis þó eflaust hafi mátt merkja að hann hafi neytt áfengis fyrr um kvöldið. Slysið verði ekki með neinum hætti rakið til óvarkárni eða ölvunar stefnanda.
Bifreiðin ZT-707 var skráð eign stefndu Ólafar Skúladóttur og var ábyrgðartryggð hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og hafi stefnandi því leitað eftir bótum hjá tryggingafélaginu. Að mati örorkunefndar, sbr. álitsgerð dags. 10. desember 2002, er varanlegur miski stefnanda vegna slyssins 10% og varanleg örorka 10%, en stöðugleikatímapunktur var talinn vera 1. desember 2000.
Þann 12. desember gerði stefnandi kröfu um bætur úr hendi stefnda Sjóvá-Almennra trygginga hf., og féllst stefndi á að greiða fullar bætur, sbr. uppgjör, dags. 19. desember 2002, að undanskildum þriðjungi vegna meintrar eigin sakar stefnanda auk þess sem tekjuviðmið var mun lægra en stefnandi taldi eðlilegt. Gerð er grein fyrir höfnun stefnda, Sjóvá Almennra trygginga hf., á skyldu til að greiða þriðjung bótanna og að miðað verði við annað en meðaltal launatekna síðustu 3 ár fyrir slysið í símbréfi dags. 19. desember 2002, sbr. dskj. nr. 21. Samkvæmt uppgjörinu greiddi stefndi stefnanda samtals 3.203.977 krónur vegna slyssins, þ.m.t. lögmannsþóknun. Stefnandi féllst á framangreint uppgjör en gerði þó fyrirvara um að hann áskildi sér rétt til að sækja bótarétt sinn vegna framangreindra atriða, sem fyrirvari var gerður við, fyrir dómstólum, sbr. skaðabótakvittun.
Stefnandi skaut málinu til tjónanefndar vátryggingafélaganna sem staðfesti þá niðurstöðu tryggingafélagsins að rétt væri að stefnandi bæri um þriðjung tjónsins vegna eigin sakar.
Stefnandi telur að bætur fyrir varanlega örorku hafi ekki verið að fullu greiddar af hálfu stefndu og því sé nauðsynlegt að höfða mál þetta.
MÁLSÁSTÆÐUR
Af hálfu stefnanda eru dómkröfur á því byggðar að samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 88. gr. skuli sá sem ber ábyrgð á skráningarskyldu ökutæki bæta það tjón sem hlýst af notkun þess enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns. Samkvæmt 90. gr. umferðarlaga skuli skráður eða skráningarskyldur eigandi (umráðamaður) vélknúins ökutækis bera ábyrgð á því og sé fébótaskyldur samkvæmt 88. gr. og 89. gr. laganna. Þá kveði 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga svo á að greiðsla á bótakröfu vegna tjóns, sem hlýst af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis, skuli vera tryggð með ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem sé viðurkennt og skráð af dómsmálaráðherra. Stefnda, Ólöf Skúladóttir, hafi verið eigandi ökutækisins ZT-707 á tjónsdegi en ökumaður ökutækisins, Lára Gró Blöndal Sigurðardóttir, valdið tjónsatburði. Ökutækið ZT-707 hafi verið vátryggt hjá stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Stefnandi eigi því rétt til greiðslu úr framangreindri tryggingu. Dómkröfur stefnanda byggjast á því að stefndu beri að greiða stefnanda fullar skaðabætur vegna tjóns sem hann varð fyrir vegna umferðarslyss þann 7. apríl 2000, sbr. I. kafli laga nr. 50/1993 með síðari breytingum, sbr. einkum 1. gr. þeirra. Samkvæmt framanrituðu beinist kröfur stefnanda að stefndu, Ólöfu Skúladóttur, sem eiganda ökutækisins ZT-707 við tjónsatburð en kröfur stefnanda á hendur stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., beinist að félaginu sem vátryggjanda bifreiðarinnar við tjónsatburð.
Á því er byggt að áverka, m.a. á hægra hné, sé að rekja til áðurnefnds tjónsatburðar svo og óþægindi sem af hafi hlotist. Samkvæmt því séu stefndu bótaskyldir í samræmi við það sem að framan greinir. Ótvírætt sé að orsakatengsl séu á milli tjónsatburðar þann 7. apríl 2000 og meiðsla stefnanda.
Leggja beri niðurstöðu Örorkunefndar til grundvallar útreikningi skaðabóta. Dómkröfurnar byggist á því að Örorkunefnd hafi metið örorku stefnanda, sem afleiðingu tjónsatburðar þann 7. apríl 2000, sem varanlegan miska 10% og varanlega örorku 10%. Álitsgerð Örorkunefndar hafi að geyma viðhlítandi sönnun á tjóni stefnanda og beri stefndu að greiða stefnanda fullar skaðbætur í samræmi við ákvæði laga nr. 50/1993. Þá beri að leggja tekjuviðmið þau sem stefnandi byggir á til grundvallar við útreikning á varanlegri örorku stefnanda.
Í málinu liggi fyrir að bifreið hafi verið ekið á stefnanda. Eigi stefnandi því skýlausan rétt á fullum bótum vegna ábyrðartryggingar bifreiðarinnar.
Umdeilt er hvort rekja megi slysið að einhverju leyti til eigin sakar stefnanda. Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., telji að stefnandi eigi sjálfur sök á slysinu að þriðjungi til en stefnandi hafnar því hins vegar að hann eigi nokkra sök á slysinu. Eigin sök tjónþola geti leitt til skerðingar bótaréttar en sönnunarbyrðina um að eigin sök sé fyrir hendi hvíli alfarið á stefndu í þessu máli.
Sönnun um eigin sök liggi ekki fyrir. Einu gögnin sem bent gætu til gáleysis stefnanda þegar slysið varð séu framburður ökumanns bifreiðarinnar og vinkonu hennar sem verið hafi með ökumanni í bifreiðinni. Telja verði ótækt að taka nokkurt mark á framburði þessara aðila í málinu þar sem til umfjöllunar hafi verið hugsanleg brot ökumanns á umferðarlögum og geti framburður hennar og vinkonu hennar því vart talist hlutlaus um atvik máls. Stangist framburður vinkvennanna auk þess á við lýsingu stefnanda og vitnisins, Guðmundar Richards Guðmundssonar, en ekki sé hægt að ráða af framburði þeirra að um neitt gáleysi hafi verið að ræða af hálfu stefnanda. Sé því augljóst að framburður vinkvennanna sé fjarri því að vera tæk sönnun fyrir gáleysi stefnanda.
Varðandi meinta ölvun stefnanda þegar slysið átti sér stað telur stefnandi að um sé að ræða atriði sem sé málinu óviðkomandi. Ölvun ein og sér firri menn ekki bótarétti og ekki sé hægt að jafna saman ölvun og gáleysi í ákveðnu tilfelli. Ekki sé um neina hlutlæga reglu að ræða í íslenskum rétti sem mæli svo fyrir að ef gengið sé yfir götu undir áhrifum áfengis megi keyra á viðkomandi án þess að greiða fullar bætur fyrir. Þannig sé ekki hægt að leiða líkur að gáleysi vegfaranda út frá meintri ölvun hans.
Þrátt fyrir að stefnandi telji áfengisáhrif samkvæmt framansögðu meintu gáleysi óviðkomandi sé rétt að benda á að stefnandi var ekki undir miklum áhrifum áfengis. Ekki liggi fyrir nein gögn um áfengisinnihald í blóði stefnanda þegar slysið átti sér stað. Ekki sé hægt að ákvarða ölvun stefnanda út frá ágiskunum utanaðkomandi manna sem ekki þekktu hann, en alkunna sé að þeir sem nánir séu tilteknum manni séu best til þess fallnir að meta hvort og hversu mikið viðkomandi er ölvaður, fyrir utan viðkomandi sjálfan. Stefnandi hefur fullyrt að hafa ekki verið undir miklum áhrifum áfengis þegar slysið varð og verður sú staðhæfing ekki hrakin, nema óyggjandi gögn liggi fyrir.
Slysið hafi samkvæmt framansögðu ekki verið afleiðing ógætni stefnanda. Telur stefnandi að slysið megi að öllu leyti rekja til þess að ökumaður bifreiðarinnar sem ók á hann, Lára Gró Blöndal Sigurðardóttir, hafi ekki virt svohljóðandi ákvæði 26. gr. umferðarlaga nr. 50/1987:
„Ökumaður, sem mætir eða ekur fram hjá gangandi vegfaranda, skal gefa honum tíma til að víkja til hliðar og veita honum nægilegt rými á veginum.”
Vert sé að geta þess að jafnvel þó að ekki verði fallist á ofangreindar röksemdir og talið að stefnandi hafi sýnt af sér gáleysi þegar ekið var á hann, nægi það ekki til þess að heimilt sé að skerða bætur hans. Í 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga segir að bætur fyrir líkamstjón megi lækka ef sá sem varð fyrir tjóni var meðvaldur að tjóninu af stórkostlegu gáleysi. Mun meira þurfi til að fallist sé á stórkostlegt gáleysi en gáleysi almennt í skaðabótarétti. Réttarframkvæmd sýni að afar mikið þurfi til að koma svo fallist sé á að um stórkostlegt gáleysi hafi verið að ræða og þurfi nánast að hafa verið um ásetning að ræða. Augljóst sé að ekki hafi verið um stórkostlegt gáleysi að ræða í tilviki stefnanda.
Af framangreindu leiði að ósannað sé með öllu að slys stefnanda þann 7. apríl 2000 sé að nokkru leyti hans eigin sök og hafi grundvöll brostið fyrir því hjá stefnanda að hafna þriðjungi bótaskyldu vegna slyssins.
Í skaðabótakröfu stefnanda frá 12. desember 2002 sé byggt á árslaunaviðmiði að fjárhæð 3.849.484 krónur. Byggt sé á meðallaunum þriggja ára fyrir slysið með þeirri undantekningu að ekki séu notuð árslaun árið 1997 heldur laun ársins 1996. Ástæða þess sé að árslaun það ár séu afbrigðilega lág og því notaðar tekjur ársins á undan. Tekjur stefnanda fyrir slysið gefi ekki rétta mynd af tjóni hans til framtíðar, nema með þessum frábrigðum þó þau séu samt í lægra lagi miðað við tekjur hans í dag og eftir slysið. Um þetta vísar stefnandi til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999, þar sem fram komi að árslaun skuli metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Framangreint árslaunaviðmið sé fengið með því að taka meðaltal tekna stefnda, framreiknaða miðað við launavísitölu til stöðugleikatímapunkts 1. desember 2000.
Aðstæður stefnanda árið 1997 hafi verið mjög sérstakar að því leyti að hann hafi ekki getað tekið þátt á vinnumarkaði á sama hátt og árin á undan og eftir. Fjarvera stefnanda frá vinnumarkaði þetta árið skýrist að miklu leyti af óvinnufærni hans og þjáningum vegna áverka á vinstri öxl og hægra megin á brjóstkassa. Stefnandi hafi verið óvinnufær veturinn 1996-1997 vegna verkja í öxlinni og gengist undir aðgerð um vorið svo sem fram komi á læknisvottorði Ragnars Loga Magnasonar, dags. 3. ágúst 2004, og Ágústs Karlssonar bæklunarskurðlæknis, dags. 12. desember 1996, og afriti úr læknadagbók. Auk framangreinds heilsubrests hafi stefnandi þjáðst af áfengissýki og hafi m.a. tvisvar þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna sjúkdómsins árið 1997, sbr. læknisvottorð dags. 3.ágúst 2004. Ljóst sé af gögnum málsins að stefnandi hafi verið óvenju heilsulítill árið 1997. Möguleikar hans til tekjuöflunar það ár hafi því verið mun minni en önnur ár. Sé þetta í beinu samræmi við skattframtöl stefnanda sem sýni að tekjur hafi verið mun lægri þetta ár en eðlilegt geti talist og sé enga aðra skýringu að finna en óvinnufærni stefnanda vegna framangreindra kvilla. Jafnvel þó talið yrði að stefnandi hefði getað aflað meiri tekna þetta árið verði að telja verulega ósanngjarnt að miða við árið 1997 við útreikning tekjuviðmiðs.
Verði ekki fallist á árslaunaviðmið stefnanda er þess krafist að tekið verði tilhlýðilegt tillit til ofangreindra atriða og annað lægra launaviðmið verði notað að mati réttarins.
Um kröfugerð stefnanda segir að höfuðstóll dómkröfu stefnanda sé 2.389.775 krónur og sundurliðist þannig að í fyrsta lagi sé um að ræða skaðabætur fyrir 10% varanlega örorku skv. 5. og 6. gr. skaðabótalaga. Miðað sé við stuðulinn 11,341 þar sem stefnandi hafi veirð 36 ára og 132 daga gamall á stöðugleikatímapunkti þann 1. desember 2000. Árslaunaviðmiðið sé, eins og áður segir, 3.849.484 krónur og er það fengið með því að taka meðaltal tekna stefnanda framreiknuð árin 1996, 1998 og 1999 miðað við launavísitölu til stöðugleikatímamarks. Miðað við þessar forsendur eigi bætur fyrir varanlega örorku að nema 4.365.700 krónum ásamt vöxtum. Stefnda, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., hafi þegar greitt 2.226.163 krónur vegna varanlegrar örorku. Standi því eftir 2.139.537 krónur ásamt vöxtum.
Í öðru lagi eigi bætur fyrir 10% varanlegan miska að nema 538.350 krónum skv. kröfugerð stefnanda. Stefnda, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., hafi þegar greitt 358.918 krónur vegna þessa liðar og standi því eftir 179.432 krónur ásamt vöxtum.
Í þriðja lagi eigi þjáningabætur vegna slyssins að nema 219.960 krónum. Stefnda, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., hafi þegar greitt 149.154 krónur vegna þessa liðar og standi því eftir 70.806 krónur ásamt vöxtum.
|
Þjáningabætur |
kr. 70.806.- |
|
Miskabætur |
kr. 179.432.- |
|
Bætur fyrir varanlega örorku |
kr. 2.139.537.- |
|
Samtals |
kr. 2.389.775.- |
Verði ekki fallist á þá málsástæðu að stefnandi beri ekki ábyrgð á þriðjungi tjóns síns og einungis fallist á tekjuviðmið stefnanda reiknast stefnanda til að honum hefði borið 2.910.467 krónur í bætur vegna varanlegrar örorku. Stefnda, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., hafi þegar greitt 2.226.163 og í því tilfelli standi þá eftir 684.304 krónur (2910.467-2.226.163=684.304) ásamt vöxtum.
Verði fallist á það með stefnanda að hann beri enga ábyrgð á tjóni sínu sjálfur, en hins vegar ekki fallist á að miða eigi við annað tekjuviðmið en stefnda Sjóvá Almennar tryggingar hf. nota, reiknast stefnanda til að honum beri 70.806 krónur ásamt vöxtum vegna ógreiddra þjáningabóta, 179.432 krónur ásamt vöxtum vegna ógreidds varanlegs miska og 1.113.082 krónur ásamt vöxtum vegna ógreiddrar varanlegrar örorku, eða samtals 1.363.320 krónur ásamt vöxtum.
|
Þjáningabætur |
kr. 70.806.- |
|
Miskabætur |
kr. 179.432.- |
|
Bætur fyrir varanlega örorku |
kr. 1.113.082.- |
|
Samtals |
kr. 1.363.320.- |
Stefndu krefjast þess aðallega að verða sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.
Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði felldur niður.
Ekki sé ágreiningur um bótaskyldu stefndu sem nemi 2/3 hlutum tjóns stefnanda og að leggja beri til grundvallar að stefnandi hafi orðið fyrir 10% varanlegri örorku og 10% varanlegum miska vegna slyssins. Byggja stefndu hins vegar á því að með þegar greiddum bótum hafi tjón stefnanda verið bætt að fullu.
Stefndu byggja á því að stefnandi hafi verið meðvaldur að tjóni sínu af stórkostlegu gáleysi og eigi af þeim sökum að bera 1/3 hluta tjóns síns sjálfur, sbr. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Stefndu mótmæla því sem röngu og ósönnuðu að bifreið stefndu, Ólafar, hafi verið ekið á stefnanda með þeim hætti sem lýst er í stefnu. Óumdeilt sé að stefnandi hafi verið að ganga í vestur yfir Pósthússtræti og að ökumaðurinn beygði til vinstri inn Pósthússtrætið og ók í norður. Af göngustefnu stefnanda og akstursstefnu bifreiðarinnar verði þær ályktanir meðal annars dregnar að stefnandi hafi verið kominn yfir götuna, eins og ökumaður og farþegi hafa sagt, en ekki að stefnandi hafi enn verið hinum megin við götuna, eins og vinur hans hefur haldið fram. Að öðrum kosti hefði stefnandi lent á hægri hlið bifreiðarinnar. Í öðru lagi sé fráleitt að stefnandi hafi verið að víkja sér undan bifreiðinni og þannig hafi hægra hné hans lent í vinstri hliðarspegli bifreiðarinnar. Til að þessi frásögn gæti staðist hefði stefnandi, sem var ölvaður og talaði í síma, þurft að snúa sér í hálfhring og lyfta síðan hægri fætinum upp. Lýsingar ökumanns og farþega eru miklum mun sennilegri og trúverðugari, þ.e.a.s. að stefnandi hafi verið kominn yfir götuna en síðan misst jafnvægið og fallið afturábak á bifreiðina eða gengið á hana. Í þriðja lagi renni þetta styrkum stoðum undir frásagnir ökumanns og farþega um að bifreiðinni hafi verið ekið mjög hægt, að ökumaðurinn hafi flautað á stefnanda til aðvörunar og að stefnanda hafi verið hleypt yfir götuna.
Byggja stefndu á því að rekja megi tjón stefnanda að mestu leyti til óaðgæslu hans og ölvunar í umrætt sinn.
Af gögnum málsins verði ráðið að stefnandi hafi verið mjög ölvaður er slysið varð. Því til stuðnings vísast til skýrslu vitnisins Odds Ólafssonar lögreglumanns þar sem fram komi að stefnandi hafi verið áberandi ölvaður. Hafi það sama komið fram hjá ökumanni og farþega bifreiðar stefndu, sbr. framburði þeirra hér fyrir dómi. Þá komi fram í stefnu að „eflaust hafi mátt merkja að [stefnandi] hafi neytt áfengis fyrr um kvöldið".
Að öllu framangreindu virtu telja stefndu fullsannað að stefnandi hafi sökum ölvunar sinnar misst jafnvægið og fallið á bifreið stefndu eða gengið á hana. Séu þannig bein orsakatengsl milli ölvunar stefnanda og slyssins.
Jafnframt byggja stefndu á því að stefnandi hafi mátt gera sér grein fyrir hættunni sem athæfi hans olli bæði honum sjálfum og öðrum. Hafi stefnandi ekki farið að 12. gr. umferðarlaga og með því lagt bæði sjálfan sig og aðra í hættu.
Því er mótmælt að ökumaðurinn hafi ekið gáleysislega í umrætt sinn og brotið gegn 26. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ökumaðurinn hafi gætt ýtrustu varkárni og hagað akstri sínum í samræmi við aðstæður. Hann hafi ekið á lítilli ferð, flautað á stefnanda til aðvörunar og hleypt honum yfir götuna. Verði ekki séð með hvaða hætti ökumaðurinn hefði getað afstýrt slysinu.
Stefndu byggja á því að árslaunaviðmið stefnanda skuli ákvarðað á grundvelli meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrði séu til að beita undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. laganna og ákvarða þannig árslaun stefnanda í samræmi við tekjur hans á árunum 1996, 1998 og 1999 í stað áranna 1997-1999. Í fyrsta lagi sé ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga undantekningarregla frá meginreglu 1. mgr. 7. gr. laganna. Ákvæðið beri því að skýra þröngt. Í öðru lagi skuli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga aðeins beitt þegar meta þurfi árslaun tjónþola sérstaklega vegna óvenjulegra aðstæðna, t.d. ef breytingar hafi orðið á tekjum eða atvinnuhögum, og ætla má að annar mælikvarði en heildarvinnutekjur á næstliðnum árum fyrir slysdag sé réttari á líklegar framtíðartekjur. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að slíkar breytingar hafi átt sér stað hjá stefnanda. Í þriðja lagi er bent á að með lögum nr. 37/1999 um breyting á skaðabótalögum nr. 50/1993 var gerð sú breyting að miða við meðaltekjur síðustu þriggja almanaksára í stað þess að miða við meðaltekjur síðasta jafnlengdarárs eins og áður var gert. Almennt megi gera ráð fyrir að sveiflur í tekjum jafnist út á svo löngu tímabili og þannig gefi meðaltekjur á þessu þriggja ára tímabili rétta mynd af líklegum framtíðartekjum tjónþola. Í fjórða lagi standist skýringar stefnanda á lægri árslaunum árið 1997 ekki. Fjarvera hans frá vinnumarkaði skýrist annars vegar af óvinnufærni hans og þjáningum vegna áverka á vinstri öxl og hægra megin á brjóstkassa og hins vegar af því að hann hafi tvívegis þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna áfengissýki það ár. Framangreindar skýringar stangast á við yfirlýsingar stefnanda fyrir örorkunefnd, sbr. matsgerð hennar. Þar segi stefnandi í 2. kafla um fyrra heilsufar, að hann hafi almennt verið frískur um ævina og kveðist t.a.m. hafa verið frískur í stoðkerfi og hafi ekki lent í neinum alvarlegum slysum að frátöldu því sem hér um ræðir. Þá komi þar fram hjá stefnanda að hann hafi átt við áfengisvanda að stríða frá því að hann skildi árið 1996 og í nokkra mánuði þar á eftir. Hann hafi síðan farið í meðferð hjá SÁÁ 1997 og verið edrú í tvö ár og eftir það hafi áfengi ekki verið vandamál. Í læknisvottorði Ágústs Karlssonar komi fram að 10. mars 1997 hafi stefnandi átt sér meira en árssögu um óþægindi frá vinstri öxl. Samkvæmt því hefðu umrædd óþægindi líka átt að hafa áhrif á tekjuöflun stefnanda allt árið 1996. Það verði þó ekki ráðið af skattframtali stefnanda 1997 fyrir tekjuárið 1996 og sé ekki byggt á því í stefnu. Þar segi aftur á móti að stefnandi hafi verði óvinnufær veturinn 1996-1997 vegna verkja í öxlinni, sbr. einnig læknisvottorð Ragnars Loga Marteinssonar. Að framangreindu virtu sé vandséð að umrædd óþægindi, sem höfðu engin áhrif á tekjuöflun stefnanda árið 1996, hafi getað valdið verulegri lækkun árslauna árið 1997.
Varðandi áfengissýki stefnanda skuli tekið fram að í læknisvottorði Valgerðar Rúnarsdóttur segi að stefnandi hafi innritast á sjúkrahúsið Vog í 9 daga í febrúar 1997 og 3 daga í mars sama ár vegna sjúkdóms. Sé þá væntanlega um að ræða áfengissýki eins og stefnandi haldi fram. Þó veki athygli að sama dag og stefnandi var innritaður í síðara skiptið inn á sjúkrahúsið Vog gekkst hann undir aðgerð vegna óþæginda í öxl. Telji dómurinn sannað að áfengissýki stefnanda hafi átt þátt í fjarveru stefnanda af vinnumarkaði árið 1997, byggja stefndu á því að það réttlæti ekki frávik frá meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Sé þá haft í huga að stefnandi hafi þjáðst af sjúkdómnum frá árinu 1996, hafi innritast á sjúkrahúsið Vog oftar en einu sinni af þeim sökum, en samt ekki látið af áfengisneyslu. Minnt sé á að stefnandi hafi verið áberandi ölvaður þegar hann varð fyrir slysi því sem hér um ræðir árið 2000. Byggja stefndu á því að stefnandi sé ekki laus við sjúkdóminn og því ekki hægt að fullyrða að sjúkdómurinn muni ekki hafa áhrif á tekjuöflun stefnanda í framtíðinni, líkt og árið 1997.
Að öllu framangreindu virtu telja stefndu að stefnandi hafi ekki sannað að annar mælikvarði en sá sem 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga mælir fyrir um sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans.
Verði ekki fallist á aðalkröfu um sýknu gera stefndu varakröfu um lækkun bóta á grundvelli eigin sakar stefnanda og ef ekki sé fallist á það með stefndu að stefnandi skuli bera 1/3 hluta tjóns síns sjálfur, byggja stefndu á því að stefnandi skuli a.m.k. bera einhvern minni hluta tjónsins. Um þetta vísast til þeirra röksemda sem fram eru færðar til stuðnings aðalkröfu hér að framan, eftir því sem við á. Verði ekki fallist á að árslaunaviðmið við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku skuli ákvörðuð á grundvelli meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga heldur á grundvelli undantekningarreglu 2. mgr. greinarinnar, byggja stefndu á því að miða beri við mun lægri árslaun en stefnandi krefst. Um þetta vísast til þeirra röksemda sem fram eru færðar til stuðnings aðalkröfu hér að framan, eftir því sem við á.
Loks er upphafstíma dráttarvaxta mótmælt.
Um lagarök vísa stefndu einkum til reglna skaðabótaréttar um sönnunarbyrði, eigin sök tjónþola og gáleysi, auk skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, og umferðarlaga nr. 50/1987.
Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
NIÐURSTAÐA
Stefnandi lýsti atvikum svo fyrir dómi að hann, ásamt vitninu Guðmundi Richard Guðmundsyni, hafi verið að ganga yfir Pósthússtrætið, Guðmundur á undan en stefnandi á eftir. Bíll hafi komið frá vinstri og ekið á fót stefnanda „meðan ég er í skrefinu frá bílnum”. Stefnandi kvaðst ekki hafa tekið eftir bílnum. Aðspurður kvaðst hann hafa verið búinn að neyta áfengis en ekki hafa verið mikið ölvaður. Vitnið Guðmundur Richard Guðmundsson sá bílinn koma og beygja til vinstri. Hann hafi verið fyrir aftan bílinn sem hafi lent á stefnanda. Bíllinn hafi ekki verið á mikilli ferð. Vitnið hljóp á eftir bílnum sem stansaði ekki og ók af stað á grænu ljósi. Vitnið kvað þá stefnanda báða hafa verið drukkna en þó ekkert út úr heiminum eins og vitnið orðaði það.
Vitnið, Lára Gró Blöndal Sigurðardóttir, kvaðst hafa verið að aka Hafnarstrætið og verið á rúntinum eins og hún orðaði það. Hún hafi séð í fjarlægð mann sem hafi verið mikið ölvaður og kjagað. Er hún hafi tekið vinstri beygju inn í Pósthússtrætið hafi hann komið labbandi þvert yfir götuna, áberandi ölvaður og kjagað fram fyrir bílinn og dottið á hann. Hún hafi stoppað. Hún man ekki hvort hún flautaði en man að hann var að tala í síma áður en hann labbaði yfir götuna.
Aðstæður á vettvangi eru þannig að gangbraut er yfir Hafnarstrætið beggja vegna við Pósthússtræti og enn fremur er gangbraut yfir Pósthússtrætið sunnanvert á gatnamótunum. Við utanverða gangstéttarbrún Pósthússtrætis að austanverðu, við veitingastaðinn Hornið, þaðan sem stefnandi og vitnið Guðmundur komu, eru grindur væntanlega til þess að hamla umferð gangandi vegfarenda um Pósthússtrætið en ekki merkt gangbraut eins og á tveimur stöðum í Hafnarstræti og einnig í Pósthússtræti. Þá er gangbraut yfir Pósthússtrætið norðanvert skammt frá slysstað. Stefnandi átti þannig þess kost að fara yfir Pósthússtrætið um merkta gangbraut með því að fara yfir Hafnarstræti til suðurs um merkta gangbraut, þaðan vestur yfir Pósthússtræti um merkta gangbraut eða fara yfir Pósthússtrætið norðanvert um merkta gangbraut. Allt að einu kaus hann að fara þvert yfir götuna um svæði sem er ætlað bifreiðaumferð fyrst og fremst. Þá kom fram hjá stefnanda sjálfum og öllum vitnum að stefnandi var undir áhrifum áfengis og samkvæmt framburði vitnisins Odds Ólafssonar, sem á þeim tíma er slysið varð hafði verið 22 ár í lögreglunni, var hann áberandi ölvaður og vitnin Lára og Ása kváðu hann hafa kjagað um. Stefnandi bar að hann hefði verið að tala í farsíma er hann lagði af stað út á götuna og að hann hefði ekki orðið bifreiðarinnar var fyrr en slysið varð. Dómari telur að það hafi verið stórkostlegt gáleysi af stefnanda að vaða út á götuna eins og hann gerði í umrætt sinn við ofangreindar aðstæður og hlýtur hann að bera nokkra sök á tjóni sínu og er fallist á það með stefndu að hann verði að bera 1/3 tjóns síns sjálfur.
Kemur þá til úrlausnar hvort efni séu til þess að beita ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við ákvörðun árslauna stefnanda hér.
Í gögnum málsins kemur fram að stefnandi hafði dvalið á sjúkrahúsinu Vogi 3. febrúar 1997 til 11. febrúar sama árs og dagana 10. til 12. mars sama árs. Þá kemur fram að stefnandi fór í aðgerð á vinstri öxl 10. mars 1997 og samkvæmt vottorði læknis þess sem aðgerðina gerði skyldi hann hvíla sig í nokkra daga með handlegginn en síðan stunda sjúkraþjálfun með tilteknum hætti eftir 3-4 vikur. Tekjur stefnanda árið 1997 voru að miklum mun lægri en árið 1996 og árin 1998 og 1999. Ekki verður sú ályktun dregin af þeim upplýsingum um heilsufar stefnanda á árinu 1997 sem frammi liggja í málinu að tekjumunur þessi verði skýrður eingöngu með því að heilsufar hans hafi verið þannig að til álita komi að beita ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga hér. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á það með stefnanda að efni séu til þess að meta árslaun hans samkvæmt fyrrgreindu ákvæði.
Samkvæmt öllu framangreindu verða stefndu sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Málskostnaður fellur niður.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Ólöf Skúladóttir, skulu sýkn af öllum kröfum stefnanda, Gunnars Gunnarssonar.
Málskostnaður fellur niður.