Hæstiréttur íslands

Mál nr. 21/2002


Lykilorð

  • Hótanir
  • Vopnalagabrot


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. apríl 2002.

Nr. 21/2002.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Sigurði Stefáni Almarssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Hótanir. Vopnalagabrot.

S var ákærður fyrir vopnalagabrot með því að hafa átt eftirlíkingu af skammbyssu án tilskilins leyfis, borið hana á almannafæri og ógnað T með henni. Vitni voru ekki til frásagnar um hvort S hefði hótað T. Gegn eindreginni neitun S og með vísan til 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 þótti ósannað að hann hefði gerst sekur um brot gegn 233. gr. laga nr. 19/1940 og var hann því sýknaður af ákæru fyrir það brot. Með hliðsjón af efni III. kafla vopnalaga nr. 16/1998, sem fjallar um meðferð skotvopna og skotfæra, var umrædd eftirlíking eðli máls samkvæmt ekki talin geta fallið undir ákvæði þess kafla, þrátt fyrir ákvæði g. liðar 1. mgr. 2. gr. laganna. Var S því einnig sýknaður af ákæru um brot gegn 12. og 21. gr. laga nr. 16/1998. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. janúar 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að refsing hans verði milduð.

Í málinu er ákærði sóttur til saka fyrir hótun og vopnalagabrot með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 31. desember 2000 átt eftirlíkingu af skammbyssu án tilskilins leyfis, borið hana á almannafæri fyrir utan Kaffi Stíg að Rauðarárstíg 33 í Reykjavík og þar við dyrnar, er Tryggvi Snorrason dyravörður synjaði honum um inngöngu, dregið hana upp og ógnað verðinum með henni.

Eins og nánar er lýst í héraðsdómi hefur Tryggvi Snorrason borið að ákærði, sem var að reyna að komast inn á veitingastaðinn, hafi dregið upp eftirlíkingu af byssu og ógnað sér með henni, þegar ákærða var meinaður aðgangur, en Tryggvi hafi náð að taka hana af ákærða. Kvaðst Tryggvi ekki hafa gert sér grein fyrir því fyrr en skömmu síðar að ekki var um að tefla raunverulega byssu. Benjamín Stefánsson, barþjónn á veitingastaðnum, skýrði frá því fyrir héraðsdómi að einu afskipti hans af málinu hafi verið þau að taka við byssunni úr hendi Tryggva og fara með hana inn á veitingastaðinn. Ekki kvaðst hann hafa séð hvað ákærða og dyraverðinum hafði þá farið á milli. Fyrir dóminn kom einnig til skýrslugjafar Þórður G. Bjarnason. Sagðist Þórður, sem ók fram hjá staðnum í þann mund sem átök ákærða og dyravarðarins stóðu yfir, hafa séð ákærða halda á byssu fyrir utan dyrnar og þá kallað lögreglu á vettvang. Að öðru leyti gat vitnið ekki borið um rás atburða. Framangreind tvö vitni eru samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, ekki til frásagnar um hvort ákærði hafi ógnað Tryggva og öðrum vitnum er ekki til að dreifa. Ákærði hefur frá upphafi staðfastlega neitað þessum sakargiftum. Gegn eindreginni neitun hans og með vísan til 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er ósannað að hann hafi gerst sekur um brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður hann því sýknaður af ákæru fyrir það brot.

Óumdeilt er í málinu að eftirlíking sú, sem ákærði er borinn sökum um að hafa ógnað með, er kveikjari í líki skammbyssu. Ákærða er auk framangreinds hegningarlagabrots gefið að sök að hafa gerst brotlegur gegn 12. gr. og 21. gr. vopnalaga nr. 16/1998, en þau ákvæði eru í III. kafla laganna, sem fjallar um meðferð skotvopna og skotfæra. Þegar litið er til efnis þeirra ákvæða, sem þessi kafli laganna tekur til, getur umrædd eftirlíking eðli máls samkvæmt ekki fallið undir þau, þrátt fyrir ákvæði g. liðar 1. mgr. 2. gr. laganna. Verður ákærði því einnig sýknaður af ákæru að því er þessi brot varðar, svo og af kröfu ákæruvaldsins um upptöku á eftirlíkingunni.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Sigurður Stefán Almarsson, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, samtals 150.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2001.

Mál þetta var höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 14. ágúst 2001, á hendur Sigurði Stefáni Almarssyni, kt. 300856-5519, Snorrabraut 33, Reykjavík.

Ákærði er talinn hafa gerst sekur um:  “... hótun og vopnalagabrot með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 31. desember 2000, átt eftirlíkingu af skammbyssu án tilskilins leyfis, borið hana á almannafæri fyrir utan Kaffi Stíg að Rauðarárstíg 33 í Reykjavík og þar við dyrnar, er honum hafði verið synjað um inngöngu af dyraverði, dregið hana upp og ógnað dyraverðinum, Tryggva Snorrasyni, kt. 231259-3849, með henni.

Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 21. gr., sbr. g-lið 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.”

Ákæruvald krefst refsingar, upptöku á framangreindri eftirlíkingu af skammbyssu og greiðslu alls sakarkostnaðar. 

Í ákæru var ennfremur krafist upptöku á eftirlíkingu af skammbyssu sem var í vörslum ákærða og lögregla lagði hald á 7. október 1999.  Fallið var frá þeirri kröfu við aðalmeðferð málsins. 

Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa verið fyrir utan Kaffi Stíg og ætlað að kveikja sér í sígarettu.  Hafi þá dyravörðurinn ráðist á sig og tekið í hendi þá sem hann hélt á kveikjaranum.  Kvað hann af og frá að hann hefði beint kveikjaranum að dyraverðinum.  Það hafi þá ekki gerst fyrr en dyravörðurinn hafði tekið í handlegginn á honum að byssan hafi ef til vill beinst að honum.  Jafnframt neitaði ákærði því að hann hefði verið að reyna að komast inn á staðinn.  Hann hefði ætlað að bíða eftir unnustu sinni og verið mjög rólegur. 

Tryggvi Snorrason gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins.  Hann kvaðst umrætt kvöld hafa verið dyravörður.  Ákærði hefði ætlað að fara inn, en vitnið kvaðst hafa stöðvað hann.  Hann hafi ýtt honum út.  Þá hafi ákærði dregið upp byssu og otað að vinstra gagnauga vitnisins og hótað lífláti.  Tryggvi kvaðst ekki hafa áttað sig á því að um eftirlíkingu af byssu var að ræða.  Hann hefði tekið hótunina alvarlega.  Tryggvi kvaðst síðan hafa tekið í byssuna og náð að snúa ákærða niður og taka af honum byssuna.  Hann kvaðst ekki hafa verið búinn að sjá byssuna fyrr en ákærði otaði henni að honum.  Hann hefði afhent hana öðrum starfsmanni veitingahússins.  Sá hefði sagt sér að byssan væri kveikjari en ekki vopn.

Benjamín Stefánsson gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann var barþjónn á veitingahúsinu.  Hann kvaðst hafa verið bakatil að ganga frá þegar kallað var á hann til að aðstoða Tryggva Snorrason.  Hann hafi ekki gert annað en að taka við byssunni af Tryggva, en fljótlega hafi lögregla komið á vettvang.  Hann sagði að Tryggvi hefði sagt sér að ákærði hefði otað að sér byssunni og hótað lífláti. 

Þórður G. Bjarnason, leigubifreiðarstjóri, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann hafði hringt til lögreglu og tilkynnt atvikið.  Hann kvaðst hafa séð mann  í útistöðum við dyraverðina og að hann hafi verið með byssu á lofti utan við dyrnar.  Vitnið taldi fráleitt að ákærði hefði einungis verið að kveikja sér í sígarettu. 

Umræddur kveikjari, sem er eftirlíking af byssu, var sýndur í réttinum.

Niðurstaða.

Með skýrum framburði Tryggva Snorrasonar, sem studdur er af skýrslum Þórðar G. Bjarnasonar og Benjamíns Stefánssonar, er fram komin lögfull sönnun fyrir því að ákærði hafi hótað Tryggva með kveikjara þeim sem hann hafði undir höndum og er eftirlíking af byssu.  Eftirlíking þessi er áþekk byssu að gerð og lögun og þarf að horfa á gripinn nokkra stund til að átta sig á því að um er að ræða eitthvað annað en skotvopn.  Með atlögu sinni að Tryggva hefur ákærði brotið gegn 233. gr. almennra hegningarlaga eins og í ákæru greinir. 

Hjá lögreglu kvaðst ákærði eiga kveikjarann, en fyrir dómi bar hann á annan veg.  Verður ekki lagður trúnaður á þennan breytta framburð og er brot hans gegn vopnalögum, sem felst í vörslum og handhöfn þessa grips, réttilega fært til refsiákvæða í ákæru. 

Ákærði á að baki langan sakaferil.  Hann var dæmdur til óskilorðsbundinnar refsivistar fyrst með dómi Sakadóms Reykjavíkur 28. ágúst 1974.  Hefur hann sætt viðurlögum reglulega síðan.  Nú ber samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga að ákveða honum hegningarauka við refsingu samkvæmt tveimur dómum, sem hvor um sig hljóðar um fangelsi í sex mánuði.  Eru það dómur Hæstaréttar 8. mars 2001, brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, og dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. janúar 2001, tilraun til þjófnaðar.  Er hæfilegt að ákærði sæti fangelsi í þrjá mánuði.  Þá skal umræddur gripur upptækur.  Loks ber að dæma ákærða til greiðslu sakarkostnaðar, þar á meðal þeirra málsvarnarlauna er í dómsorði greinir. 

Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

Ákærði, Sigurður Stefán Almarsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði. 

Framangreind eftirlíking af skammbyssu skal upptæk.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun Hilmars Ingimundarsonar, hæstréttarlögmanns, 60.000 krónur.