Hæstiréttur íslands
Mál nr. 4/2004
Lykilorð
- Líkamstjón
- Örorka
- Slysatrygging
- Kjarasamningur
- Vátryggingarsamningur
- Gjafsókn
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Miðvikudaginn 19. maí 2004. |
|
Nr. 4/2004. |
Sesselja Steinarsdóttir(Guðni Á Haraldsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Líkamstjón. Örorka. Slysatrygging. Kjarasamningur. Vátryggingasamningur. Gjafsókn. Frávísun máls frá héraðsdómi.
S reisti kröfur sínar um bætur úr slysatryggingu samkvæmt kjarasamningi ríkisins og Sjúkraliðafélags Íslands á því, að við útreikning bóta úr slysatryggingunni bæri að leggja til grundvallar mat dómkvaddra matsmanna á 100% varanlegri örorku eftir 5. gr. skaðabótalaga, en ekki 40% varanlegum miska, svo sem gert hafði verið. Talið var að þetta ágreiningsefni væri um túlkun á kjarasamningi og reglum um skilmála slysatrygginga ríkisstarfsmanna og því lögfræðilegs eðlis og kallaði ekki á sérfróða meðdómendur. Varð krafa S um ómerkingu því ekki reist á þeim grundvelli. Var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að með orðalaginu varanleg örorka í fyrrnefndum kjarasamningi og reglum, hafi verið vísað til læknisfræðilegrar örorku í þeim skilningi sem lagður var til grundvallar fyrir gildistöku skaðabótalaga. Þá var fallist á þau rök S að varanleg örorka hennar yrði ekki réttilega metin með mati á varanlegum miska eftir 4. gr. skaðabótalaga. Í héraði hafi ekki verið lagt fram mat dómkvaddra manna um læknisfræðilega örorku S, eins og slík örorka var metin fyrir gildistöku skaðabótalaga, og ekki úr þessu bætt fyrir Hæstarétti með viðbótarmati sem lagt var fram. Vegna þessa var málið talið hafa verið svo vanreifað eins og það var lagt fyrir héraðsdóm, að ekki hefði átt að leggja á það dóm. Var málinu því sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. janúar 2004 og krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur og málsmeðferð í héraði frá aðalmeðferð verði ómerkt og að málinu verði vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara krefst hún þess að stefndi greiði sér 8.749.705 krónur með nánar tilgreindum vöxtum frá 16. júlí 1999 til greiðsludags. Hún krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður þá látinn niður falla.
Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt viðbótarmatsgjörð dagsetta 17. mars 2004, sömu matsmanna og skiluðu mati 16. júní 1999, svo sem greinir í héraðsdómi.
Kröfu sína um ómerkingu og heimvísun málsins reisir áfrýjandi á því að héraðsdóm hafi þurft að skipa sérfróðum meðdómendum, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Svo sem í héraðsdómi er ítarlega rakið var krafa áfrýjanda á því reist að við útreikning bóta úr slysatryggingu samkvæmt kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og íslenska ríkisins bæri að leggja til grundvallar mat dómkvaddra matsmanna á 100% varanlegri örorku eftir 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en ekki 40% varanlegum miska. Þetta ágreiningsefni er um túlkun á kjarasamningi og reglum nr. 30/1990 um skilmála slysatrygginga ríkisstarfsmanna og því lögfræðilegs eðlis og kallaði ekki á sérfróða meðdómendur. Verður krafa áfrýjanda um ómerkingu ekki reist á þessum grundvelli.
Í forsendum héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu, að ekki væru efni til annars en að leggja til grundvallar að með orðalaginu varanleg örorka í framangreindum kjarasamningi og reglum nr. 30/1990, sem voru hluti hans, hafi verið vísað til læknisfræðilegrar örorku í þeim skilningi sem lagður var til grundvallar greiðslu bóta vegna örorkutjóna samkvæmt eldra rétti og því um annars konar bótaviðmið að ræða en það sem nefnt er varanleg örorka í skaðabótalögum. Á þetta ber að fallast, sbr. til hliðsjónar dóma réttarins 26. september 1996 í máli nr. 490/1994, 15. nóvember 2001 í máli nr. 215/2001 og 13. nóvember 2003 í máli nr. 193/2003. Áfrýjandi hefur reist málatilbúnað sinn á því að varanleg örorka hennar verði ekki réttilega metin með mati á varanlegum miska eftir 4. gr. skaðabótalaga, sem falli ekki í öllum tilvikum saman við mat á áðurnefndri læknisfræðilegri örorku. Er á þetta fallist, sbr. fyrrnefndan dóm réttarins 15. nóvember 2001. Í héraði var ekki lagt fram mat dómkvaddra manna um læknisfræðilega örorku áfrýjanda eins og slík örorka var metin fyrir gildistöku skaðabótalaga 1. júlí 1993 og ekki hefur verið úr þessu bætt fyrir Hæstarétti með áðurnefndu viðbótarmati. Vegna þessa verður að telja málið hafa verið svo vanreifað eins og það var lagt fyrir héraðsdóm að dómur hafi ekki orðið á það lagður. Verður því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2003.
Málið var höfðað 30. október 2002, þingfest 7. nóvember 2002 og dómtekið 19. september 2003.
Stefnandi er Sesselja Steinarsdóttir, kt. 061050-4399, Skólatúni 4, Bessastaðahreppi.
Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða henni 8.749.705 krónur, með dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 16. júlí 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnda tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda. Til vara að stefnukröfurnar verði lækkaðar og málskostnaður verði í því tilviki felldur niður.
Óumdeild málsatvik og helstu ágreiningsefni
Stefnandi lenti í alvarlegu umferðarslysi 27. nóvember 1995. Hún sat sem farþegi í framsæti bifreiðar er annarri bifreið var ekið á mikilli ferð inn í þá hlið bifreiðarinnar sem stefnandi sat við. Mikið högg kom á bifreiðina og skall stefnandi með höfuðið í hlið hennar. Vankaðist hún við höggið og fann strax fyrir sárum verkjum í höfði, hálsi, herðum og baki.
Smám saman fóru alvarlegri afleiðingar slyssins að gera vart við sig hjá stefnanda. Hún fór að finna fyrir krömpum í vinstri útlimum líkamans, auk þess sem sjóntruflanir, lestrar og skriftarerfiðleikar og minnisleysi fóru að gera vart við sig.
Stefnandi er stöðugt þjökuð af miklum verkjum í höfði, hálsi, herðum og baki sem aukast við allt álag. Hún er með stöðugan og vaxandi verk frá vinstri líkamshlið og fær oft ósjálfráðar hreyfingar í vinstri útlimi. Sjóntruflanir, lestrar- og skriftarerfiðleikar og minnisleysi eru enn til staðar. Stefnandi hefur neyðst til að hætta vinnu og að stunda dans, útivist og ferðalög í tómstundum.
Stefnandi er sjúkraliði og var í fullu starfi á Sólvangi í Hafnarfirði er slysið átti sér stað. Hún var á leið heim frá vinnu er hún lenti í slysinu og var því tryggð slysatryggingu samkvæmt kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og ríkissjóðs, sem er að stofni til frá árinu 1992. Í 7. gr. samningsins er fjallað um tryggingar starfsmanna og segir í grein 7.1.1 að starfsmenn skuli slysatryggðir fyrir dauða eða vegna varanlegrar örorku. Um nánari skilmála tryggingarinnar er vísað til reglna nr. 30/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum, vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglnanna tekur trygging samkvæmt þeim til slysa sem sá sem tryggður er verður fyrir í starfi sínu eða á eðlilegri leið frá heimili til vinnustaðar síns og frá vinnustað til heimilis. Í 10. gr. þessara reglna er fjallað um bætur fyrir varanlega örorku.
Stefnandi lét dómkveðja matsmenn til þess að meta afleiðingar slyssins og skiluðu matsmennirnir Haukur Hjaltason læknir og Magnús Thoroddsen hrl. matsgerð 16. júní 1999. Niðurstaða þeirra var sú að varanlegur miski stefnanda vegna slyssins væri 40% en varanleg örorka 100%. Á grundvelli matsins fékk stefnandi greiddar úr ríkissjóði 2. júlí 1999 slysatryggingabætur vegna umferðarslyssins, samkvæmt framangreindri tryggingu. Bótagreiðslan miðaðist við 40% varanlegan miska og var að fjárhæð 2.830.795 krónur.
Með bréfi lögmanns BSRB, dagsettu 10. september 2001, til embættis ríkislögmanns var leitað eftir afstöðu til þess að læknisfræðileg örorka stefnanda yrði endurmetin. Af hálfu embættis ríkislögmanns var ekki fallist á að efni væru til endurmats þar sem í læknisvottorði er fylgdi erindinu væri lýst sömu einkennum og í eldra vottorði er legið hafði til grundvallar mati dómkvaddra matsmanna á varanlegum miska.
Lögmaður stefnanda sendi ríkislögmanni bréf 19. nóvember 2001 þar sem þess var krafist að við útreikning bóta vegna slyssins yrði tekið mið af varanlegri örorku stefnanda en ekki varanlegum miska hennar og mismunur þess sem hún hefði þegar fengið og þess sem hún ætti rétt á, yrði greiddur henni. Ríkislögmaður leitaði umsagnar fjármálaráðuneytisins vegna kröfu stefnanda og fylgdi umsögnin svari ríkislögmanns, dagsettu 21. janúar 2002. Hafnaði ríkislögmaður kröfum stefnanda og kvaðst túlka kjarasamning Sjúkraliðafélags Íslands, sem og reglur nr. 30/1990, á þann veg að miða ætti útreikning bóta við varanlegan miska en ekki varanlega örorku.
Af hálfu stefnanda hefur verið haldið fast við kröfuna en henni verið hafnað af hálfu stefnda og hefur stefnandi því höfðað mál þetta.
Málsástæður og lagarök málsaðila
Af hálfu stefnanda er á því byggt að við útreikning bóta samkvæmt slysatryggingarákvæðum í kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og ríkissjóðs, sbr. reglur nr. 30/1990, beri að taka mið af varanlegri örorku stefnanda, eins og hún hafi verið metin af dómkvöddum matsmönnum, en ekki varanlegum miska, eins og ríkislögmaður hafi gert er stefnanda hafi verið greiddar bætur úr tryggingunni.
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að í grein 7.1.1 í kjarasamningi sjúkraliða og ríkisins, sem hafi verið í gildi er stefnandi hafi lent í slysinu, segi orðrétt: „Starfsmenn skulu slysatryggðir allan sólarhringinn fyrir dauða eða vegna varanlegrar örorku." Í grein 7.1.3 sé fjallað um fjárhæðir bóta vegna varanlegrar örorku og segi þar orðrétt: „Tryggingarfjárhæðir vegna varanlegrar örorku eru: ..."
Bent er á að í 1. mgr. 2. gr. reglna nr. 30/1990, sem gildi um umrædda tryggingu samkvæmt kjarasamningnum, sé að finna samsvarandi reglu og í grein 7.1.1 í kjarasamningnum, en þar segi að starfsmenn skuli slysatryggðir fyrir dauða eða vegna varanlegrar örorku. Í 2. mgr. 4. gr. reglnanna segi að bætur greiðist aðeins ef sá sem tryggður sé deyi eða missi varanlega starfsorku sína að nokkru eða öllu leyti og í 10. gr. þeirra er fjallað um bætur vegna varanlegrar örorku.
Kjarasamningur sjúkraliða og ríkisins, sem og reglur nr. 30/1990, mæli því fyrir um bætur fyrir varanlega örorku. Varanleg örorka stefnanda hafi verið metin 100%, sbr. matsgerð dómkvaddra matsmanna, dags. 16. júní 1999, og því eigi bætur samkvæmt slysatryggingunni að samsvara bótum fyrir 100% varanlega örorku.
Þá er vísað til þess af hálfu stefnanda að í 3. mgr. 10. gr. reglna nr. 30/1990 sé birt örorkutafla, þ.e. tafla með upplýsingum um hvernig meta skuli ákveðið líkamstjón til örorkustiga, og skuli við örorkumat samkvæmt reglunum hafa hliðsjón af umræddri töflu. Samkvæmt því sé ekki skylt að lesa örorkustigið beint af töflunni, enda ekki alltaf hægt heldur skuli sjálfstætt mat skuli lagt á varanlega örorku hins slasaða eins og gert hafi verið í máli stefnanda.
Því er haldið fram að mat á varanlegum miska tjónþola samkvæmt skaðabótalögum falli að mörgu leyti saman við mat á læknisfræðilegri örorku en þó sé langur vegur frá að þessar tvær matsaðferðir séu eins að öllu leyti. Þannig nái hugtakið varanlegur miski til annarra þátta en læknisfræðileg örorka. Sé 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 t.d. ætlað að bæta óþægindi, lýti og óprýði sem áður hafi verið bætt með miskabótum á grundvelli 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hins vegar segi í 10. gr., nánar tiltekið mgr. 3.9, í reglum nr. 30/1990: „Slys sem einungis valda lýti, eru ekki bótaskyld." Sé þetta skýrt dæmi um mun á mati á læknisfræðilegri örorku samkvæmt reglum 30/1990 annars vegar og miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga hins vegar.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að með gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993 hafi verið horfið frá læknisfræðilegu örorkumati við mat á örorku tjónþola og tekinn upp tvenns konar mælikvarði á örorku, fjárhagsleg örorka samkvæmt 5. gr. laganna og miski samkvæmt 4. gr. Ákvæði kjarasamninga, sem gerðir hafi verið eftir gildistöku laganna, verði að skýra og túlka með hliðsjón af ákvæðum laganna og þeim hugtökum sem þar hafi verið lögfest. Í lögunum sé gerður skýr greinarmunur á bótum fyrir varanlega örorku annars vegar og varanlegan miska hins vegar og því sé ekki heimilt að gera upp bætur vegna varanlegrar örorku samkvæmt kjarasamningnum eftir mati á varanlegum miska stefnanda. Að mati stefnanda hefði þurft að taka sérstaklega fram í kjarasamningnum frá árinu 1995 ef með hugtakinu „varanleg örorka" væri átt við annað en varanlega örorku eins og hún sé skilgreind í skaðabótalögunum. Þessi skýring eigi sér stoð í 1. mgr. 27. gr. skaðabótalaga.
Af hálfu stefnanda er jafnframt byggt á því að ákvæði kjarasamnings sjúkraliða og ríkisins miði að því að bæta mönnum þá skerðingu sem verði á starfsorku þeirra. Slíkar bætur sé ekki unnt að gera upp á grundvelli mats á varanlegum miska, sem m.a. sé ætlað að taka tillit til lýta, óþæginda og óprýði, óháð starfsgetu. Þegar varanleg örorka samkvæmt reglum nr. 30/1990 sé metin, beri að styðjast við fjárhagslega örorku, sem mæli skerðingu á starfsgetu. Engin haldbær rök hafi verið færð fyrir því að með áður tilvitnuðu orðalagi kjarasamnings sjúkraliða og ríkisins um bætur fyrir varanlega örorku geti verið átt við miskabætur. Því komi ekki til álita að beita mati á varanlegum miska stefnanda til uppgjörs bóta samkvæmt slysatryggingunni.
Loks er því haldið fram af hálfu stefnanda að hugtakið varanleg örorka hafi fengið lögákveðna merkingu, sem sé fjárhagsleg örorka, þ.e. skert geta til að afla sér vinnutekna. Hafi sú merking orðanna verið staðfest af Hæstarétti, sbr. dóm í málinu nr. 215/2001 frá 15. nóvember 2001. Því beri að miða við fyrirliggjandi mat á varanlegri örorku stefnanda við greiðslu bóta úr slysatryggingu samkvæmt kjarasamningnum.
Varðandi útreikning bótakröfu er miðað við að hámarksbætur vegna varanlegrar örorku, samkvæmt kjarasamningi sjúkraliða og ríkisins, sbr. 10. gr. reglna nr. 30/1990, séu 7.544.300 krónur. Sú fjárhæð sé vísitölutryggð en við uppgjör bóta skuli að hámarki framreikna fjárhæðina í þrjú ár frá slysdegi, sbr. 11. gr. reglnanna. Stefnandi hafi slasast 27. nóvember 1995, en 27. nóvember árið 1998, þremur árum eftir slysdag, hafi bætur fyrir 100% varanlega örorku numið 11.580.500 krónum.
Mat dómkvaddra matsmanna á varanlegri örorku stefnanda hafi legið fyrir 16. júní 1999 en ríkislögmaður greitt stefnanda bætur 2. júlí 1999, sem tekið hafi mið af varanlegum miska hennar en ekki varanlegri örorku. Þær bætur hafi numið 2.830.795 krónum og því krefjist stefnandi greiðslu á mismuninum, eða 8.749.705 krónum.
Stefnandi krefst þess að fá greidda dráttarvexti af fjárhæðinni frá 16. júlí 1999, en þá hafi verið liðinn mánuður frá því að matsgerð lá fyrir, sbr. 15. gr. þágildandi vaxtalaga nr. 25/1987.
Af hálfu stefnda er kröfum stefnanda um að bætur til hennar miðist við metna 100% varanlega örorku samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vísað á bug.
Bent er á að ágreiningsefni máls þessa varði hópslysatryggingar launþega á sviði einkavátrygginga, samkvæmt IV. kafla laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga. Slíkar tryggingar feli í sér skyldu til að greiða fyrirframákveðna fjárhæð við vátryggingaratburð, í samræmi við samning (skilmála) sem vátryggingartaki geri við vátryggingafélag, án tillits til þess hvort meira eða minna fjártjón hljótist af. Reglur nr. 30. og nr. 31. frá 16. janúar 1990 um skilmála slysatrygginga ríkisstarfsmanna séu almennir skilmálar á því sviði, sbr. 2. gr. þeirra.
Í kjölfar setningar reglna um skilmála nr. 30 og 31/1990 hafi flest stéttarfélög ríkisstarfsmanna samið um breytingar á ákvæðum kjarasamninga sinna um slysatryggingar. Starfsmannafélag ríkisstofnana hafi samið um slíkar breytingar strax í febrúar 1990 en á þeim tíma hafi sjúkraliðar verið innan vébanda þess félags. Sjúkraliðafélag Íslands hafi orðið stéttarfélag ári síðar og gert sinn fyrsta kjarasamning við ríkið í árslok 1992. Sami slysatryggingarkaflinn hafi verið í þeim samningi og verið hafði í samningi við SFR og vísað um skilmála trygginga til reglna 30 og 31/1990, sbr. grein 7.1.1. Engar breytingar hafi verið gerðar á slysatryggingakafla kjarasamnings Sjúkraliðafélags Íslands eftir þann tíma. Engin krafa hafi heldur komið fram í eftirfarandi kjarasamningsgerð á árunum 1993, 1995, 1997 og 2001 um að hverfa frá viðmiðun við læknisfræðilegt mat á varanlegri örorku en taka í þess stað upp viðmiðun við mat á varanlegri örorku í skilningi 5. gr. skaðabótalaga, er taki mið af fjárhagslegri örorku tjónþola byggðu á einstaklingsbundnu mati á aðstæðum hans.
Af hálfu stefnda er því ennfremur haldið fram að engum samningi sé til að dreifa milli ríkisins og Sjúkraliðafélags Íslands er stefnandi geti stutt kröfur sínar við. Þá felist ekki í ákvæðum skaðabótalaga að breytt hafi verið, eða að skylt hafi verið að breyta gildandi slysatryggingasamningum á sviði einkavátrygginga hvað varðar grundvöll örorkumats sem kveðið sé á um í þeim samningum.
Stefndi telur rétt launþega til bóta ráðast af þeim skilmálum sem gildandi séu samkvæmt kjarasamningi þegar vátryggingaratburð beri að höndum. Skýr lagafyrirmæli þurfi að koma til ef leggja eigi aðra skilmála eða viðmiðunarfárhæðir til grundvallar við uppgjör bóta úr slysatryggingunni en mælt sé fyrir um í kjarasamningnum. Aðilum kjarasamnings sé í sjálfsvald sett, hvort þeir semji um breytingar á gildandi ákvæðum kjarasamningsins, hvort heldur varðandi tryggingafjárhæðir eða skilmála. Slys stefnanda hafi borið að höndum 27. nóvember 1995 og bótakrafa hennar úr slysatryggingu samkvæmt kjarasamningi hafi því stofnast á grundvelli þágildandi ákvæða í kjarasamningi og skilmála um trygginguna.
Stefndi byggir á því að í skilmálum um hópslysatryggingu launþega sé örorkumatsgrundvöllur í öllum tilvikum hinn sami, þ.e. læknisfræðilegt mat. Kröfugerð stefnanda feli hins vegar í sér að byggt verði á allt öðrum grundvelli við mat á örorku en gilt hafi og fylgt hafi verið í framkvæmd frá öndverðu af hálfu ríkisins svo og við uppgjör slysatrygginga hjá tryggingafélögum vegna slysatrygginga almennt og slysatrygginga samkvæmt kjarasamningum.
Við læknisfræðilegt örorkumat sé stuðst við örorkumatstöflur þar sem ýmsar tegundir líkamsspjalla og örkumla séu metnar sérstaklega til örorkustigs í hundraðshlutum. Sams konar áverka skuli í öllum tilvikum meta til sama hundraðshluta án tillits til starfs eða menntunar tjónþola og án þess að líta til þess hver áhrif örorkan hafi á getu til að afla vinnutekna.
Í skilmálum slysatrygginga ríkisstarfsmanna komi skýrt fram að örorku samkvæmt þeirri tryggingu skuli ákvarða samkvæmt þeim reglum er gildi um framkvæmd læknisfræðilegs örorkumats og sé í þeim að finna örorkumatstöflu og önnur ákvæði er undirstriki þann grundvöll örorkumatsins, sbr. 10. gr. reglna nr. 30 og 31/1990, og að því leyti hafi engin breyting orðið við setningu þeirra. Frá öndverðu hafi verið út frá því gengið að sú slysatrygging, sem kjarasamningar kvæðu á um, væri summutrygging þar sem örorkan væri í öllum tilvikum ákvörðuð út frá læknisfræðilegu mati og á engan hátt bæri að líta til áhrifa meiðsla í heild á tekjuöflunargetu viðkomandi með vinnu. Hafa tryggingafélög og ríkissjóður greitt bætur úr slysatryggingu launþega á grundvelli metinnar læknisfræðilegrar örorku eða stuðst við fyrirliggjandi mat á varanlegum miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga eins og gert hafi verið í tilviki stefnanda. Slíkt mat feli ávallt í sér mat á læknisfræðilegri örorku er byggi á örorkumatstöflu settri af örorkunefnd samkvæmt 3. mgr. 10. gr. sbr. 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga. Slíkt mat geti innifalið aðra röskun og þannig í einstaka tilfellum falið í hærra mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku en ella væri.
Þeim sjónarmiðum stefnanda að með setningu skaðabótalaga hafi hugtakið varanleg örorka fengið lögákveðna merkingu sem fjárhagsleg örorka en ekki læknisfræðileg örorka er eindregið vísað á bug og ekki fallist á að rangur skilningur á hugtakinu varanleg örorka í 10. gr. reglna nr. 30/1990 hafi verið lagður til grundvallar bótauppgjöri til stefnanda. Vísað er til Hrd. 1996 bls. 2598 í því sambandi en þar hafi verið skorið úr um það að við ákvörðun bóta skyldi örorka ákvörðuð út frá læknisfræðilegu mati en ekki tengjast fjárhagslegum afleiðingum slyss. Síðari dómar Hæstaréttar haggi í engu fordæmisgildi þessa dóms.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi hafi réttilega fengið greiddar bætur miðað við 40% varanlega örorku. Krafa hans um uppgjör miðað við 100% örorku byggi ekki á örorkumatsgrundvelli sem eigi stoð í skilmálum slysatryggingar samkvæmt kjarasamningnum og beri því að sýkna af öllum kröfum stefnanda. Upphafstíma dráttarvaxta er sérstaklega mótmælt.
Niðurstaða
Óumdeilt er í máli þessu að þegar stefnandi varð fyrir slysi því sem mál þetta er sprottið af starfaði hún sem sjúkraliði á Sólvangi í Hafnarfirði og var á leið heim til sín frá vinnu. Hún naut við þessar aðstæður slysatryggingar, samkvæmt kjarasamningi ríkisins og Sjúkraliðafélags Íslands, sem hún var félagsmaður í.
Sá kjarasamningur sem lagður er fram í málinu gilti frá 1. október til 28. febrúar 1993. Í 7. kafla hans voru ákvæði um slysatryggingar. Í grein 7.1.1. segir að starfsmenn skyldu slysatryggðir allan sólarhringinn fyrir dauða eða vegna varanlegrar örorku. Um skilmála tryggingar vegna slysa starfsmanna í starfi, sem óumdeilt er að hér eigi við, gilda reglur, settar af fjármálaráðherra, nr. 31/1990, um skilmála slysatrygginga ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi. Í grein 7.1.3 er mælt fyrir um tryggingarfjárhæð vegna varanlegrar örorku vegna slyss í starfi sé 4.513.100 krónur og að bætur greiðist í hlutfalli við tryggingarfjárhæð, þó þannig að hvert örorkustig frá 26-50% vegur tvöfalt og hvert örorkustig frá 51-100 þrefalt.
Óumdeilt er að framangreind kjarasamningsákvæði voru enn í gildi þegar stefnandi varð fyrir slysinu 27. nóvember 1995 og sömu ákvæði um slysatryggingar er að finna í framlögðum kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóð o.fl. aðila, sem undirritaður var 30. ágúst 1997 og gilti frá 1. ágúst 1997 til 31. október 2000.
Í framangreindum reglum, nr. 30/1990, kom fram að þeir væru slysatryggðir samkvæmt reglunum sem féllu undir kjarasamninga, sem hefðu að geyma ákvæði um slysatryggingu í samræmi við reglurnar. Í 10. gr. reglnanna segir að um bætur vegna varanlegrar örorku greiðist í hlutfalli við tryggingarfjárhæðina eftir tilteknum reglum og vísað til vísitölubindingar. Þá er mælt fyrir um að við ákvörðun örorku skuli fylgja nánar tilgreindum reglum. Til hliðsjónar við örorkumat skuli hafa töflu yfir örorku vegna tiltekinna líkamstjóna sem er að finna í lið 3.1 í 10. gr.
Fyrir liggur að þegar framangreindar reglur nr. 30/1990 voru settar, og framangreind tilvísun til reglnanna tekin upp í kjarasamning Sjúkraliðafélags Íslands, höfðu skaðabótalög nr. 50/1993 ekki tekið gildi. Fram til gildistöku skaðabótalaganna 1. júlí 1993 höfðu bætur fyrir skerðingu á ætluðum framtíðartekjum vegna örorku hins vegar verið grundvallaðar á örorkumötum sem tóku mið af læknisfræðilegri örorku.
Í skaðabótalögum nr. 50/1993 er hugtakið varanleg örorka, samkvæmt 5. gr., notað um varanlega skerðingu á getu til að afla vinnutekna en þegar slíkt tjón er metið skal, samkvæmt 2. mgr. 5. gr., líta til þeirra kosta sem tjónþoli á til að afla sér tekna með vinnu sem sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við. Í 4. gr. laga nr. 50/1993 er kveðið á um að við ákvörðun á fjárhæð bóta vegna varanlegs miska, skuli litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns eru frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það veldur í lífi tjónþola.
Í athugasemdum með 5. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að skaðabótalögum nr. 50/1993 sagði svo um muninn á bótum eftir 4. og 5. gr.:
„Sá grundvallarmunur er
á 4. og 5. gr. að hin síðarnefnda varðar bætur fyrir fjártjón, en sú fyrrnefnda
bætur vegna ófjárhagslegra afleiðinga líkamstjóns.
Bætur eftir 5. gr. greiðast ekki nema eigi sé lengur að vænta frekari bata
eftir tjónsatvik og að fyrir liggi að geta tjónþola til þess að afla sér tekna
með vinnu sé varanlega skert. Mat á því fer eftir fjárhagslegum mælikvarða.
Samkvæmt þessu hefur það ekki sjálfstæð áhrif á rétt tjónþola til bóta hve miklar
afleiðingar líkamstjóns hans eru metnar eftir hreinum læknisfræðilegum
mælikvarða, sbr. þó sérreglu um börn o.fl. í 8. gr. Hins vegar skal fara eftir
læknisfræðilegum sjónarmiðum þegar fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska er
ákveðin.
Það sem ræður úrslitum við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku samkvæmt þessari grein er hvort tjónþoli tapar tekjum til frambúðar.
Í 2. mgr. segir í almennum orðum við hvað eigi að miða þegar tjón vegna varanlegrar örorku er metið. Annars vegar verður að meta hvaða atvinnutækifæri tjónþoli hefði átt ef hann hefði ekki orðið fyrir tjóni og hins vegar atvinnutækifæri eftir líkamstjón. Í því skyni verður hverju sinni að afla upplýsinga um atvinnu hans og tekjur fyrir og eftir tjónsatvik. Að því er varðar atvinnutækifæri eftir það skal vakin athygli á því að í 2. mgr. er berum orðum vikið að því að líta skuli til þess hvort ætla megi að tjónþoli eigi kost á vinnu sem sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við. Við slíkt sanngirnismat koma einkum til álita andlegir og líkamlegir hæfileikar tjónþola, verkkunnátta hans, menntun og aldur."
Samkvæmt framangreindu er ljóst að varanleg örorka er skilgreind í 5. gr. skaðabótalaga á allt annan hátt en verið hafði fyrir gildistöku þeirra. Með ákvæðinu var horfið frá læknisfræðilegri örorku sem viðmiði og þess í stað miðað við svokallaða fjárhagslega örorku.
Samkvæmt 28. gr. skaðabótalaga eiga þau við um skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem verður eftir gildistöku þeirra. Lögin taka því ekki beinlínis til samningsbundinnar slysatryggingar eins og þeirrar sem um ræðir í þessu máli.
Enda þótt stefnandi hafi orðið fyrir umræddu slysi eftir gildistöku laga nr. 50/1993 giltu um umrædda slysatryggingu ákvæði sem komið höfðu inn í kjarasamning fyrir gildistöku laganna og höfðu að geyma tilvísanir til reglna sem settar voru á árinu 1990. Samkvæmt framansögðu eru ekki efni til annars en að leggja til grundvallar að með orðalaginu varanleg örorka í framangreindum reglum og kjarasamningi hafi verið vísað til læknisfræðilegrar örorku í þeim skilningi sem lagður var til grundvallar greiðslu bóta vegna örorkutjóna samkvæmt eldra rétti og því um annars konar bótaviðmið að ræða en það sem nefnt er varanleg örorka í lögum nr. 50/1993.
Af hálfu stefnanda hefur ekki verið sýnt fram á að stéttarfélag hennar hafi samið um það við fjármálaráðuneytið í kjarasamningum eða á annan hátt að hugtakið varanleg örorka í umræddu slysatryggingarákvæði fengi nýtt efnisinntak til samræmis við 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá verður heldur ekki talið að með gildistöku laga nr. 50/1993 hafi sú skilgreining á varanlegri örorku sem þar er að finna sjálfkrafa breytt efnisinntaki orðasambandsins í umræddum kjarasamningi en dómafordæmi þykja ekki benda í þá átt.
Samkvæmt því verður að miða við það að þegar stefnandi varð fyrir umræddu slysi 27. nóvember 1995 hafi við mat á varanlegri örorku samkvæmt framangreindum kjarasamningi borið að miða við læknisfræðilega örorku eins og hana skyldi ákvarða samkvæmt 10. gr. reglna nr. 30/1991.
Fyrir liggur að stefnandi lét dómkveðja tvo matsmenn 26. mars 1999, þá Hauk Hjaltason heila- og taugasjúkdómalækni og Magnús Thoroddsen hrl., til að meta varanlegan miska og varanlega og tímabundna örorku hennar vegna umferðarslyssins 27. nóvember 1995. Í niðurstöðu þeirra sagði svo um mat á varanlegum miska: „Þegar litið er til þeirra lífsgæða sem Sesselja fer á mis við, verkja hennar og hreyfitruflunar, sem lýst er hér að framan, og slysið hefur valdið henni, metum við varanlegan miska hennar 40%." Af spurningum til matsmanna og rökstuðningi þeirra fyrir niðurstöðu er ljóst að þeir lögðu skilgreiningar 4. og 5. gr. skaðabótalaga á varanlegum miska og varanlegri örorku til grundvallar niðurstöðu sinni.
Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi því sem varð að skaðabótalögum sagði svo um mat á varanlegum miska:
„Meginreglan um ákvörðun bóta fyrir varanlegan miska er í 1. mgr. þessarar greinar. Samkvæmt henni skal við ákvörðunina líta til þess hvert eðli og umfang líkamstjónsins er frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og erfiðleika sem afleiðingar tjónsatviks valda í lífi tjónþola.
Ákvörðun bótafjárhæðar fer fram á grundvelli miskastigs. Örorkunefnd, sbr. 10. gr., skal semja töflur þar sem algengustu tegundir varanlegs miska eru látnar jafngilda tilteknum hundraðshlutum hliðstætt því sem gerist í örorkutöflum sem nú eru notaðar við örorkumat í skaðabótamálum og slysatryggingum. Við gerð taflnanna skal lagt til grundvallar að tiltekinn varanlegur miski bitni jafnþungt á hverjum þeim sem fyrir henni verður þannig að sami áverki eða sams konar líkamsspjöll leiði að jafnaði til sama miskastigs. Töflurnar eiga því að sýna ,,læknisfræðilega`` orkuskerðingu eða miska, en ekki skerðingu á getu til að afla tekna."
Með hliðsjón af framangreindum athugasemdum verður að leggja til grundvallar að mat á varanlegum miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga feli einkum í sér mat á læknisfræðilegri örorku þó að einnig beri að líta til erfiðleika sem afleiðingar tjónsatviks valda í lífi tjónþola. Slíkt mat er því byggt á svipuðum grunni og það mat á varanlegri örorku sem leggja skal til grundvallar útreikningi bóta úr umræddri slysatryggingu, samkvæmt þeim kjarasamningi sem stefnandi byggir kröfu sína á og reglum nr. 30/1990.
Mat á varanlegri örorku stefnanda í þeirri merkingu sem orðasambandið hefur samkvæmt kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og framangreindum reglum nr. 30/1990 liggur ekki fyrir. Ljóst er hins vegar að stefndi greiddi stefnanda bætur miðað við að læknisfræðileg örorka hennar, eða varanleg örorka í framangreindum skilningi, væri 40% og lagði þar til grundvallar þá við niðurstöðu mats á varanlegum miska stefnanda.
Af framangreindum samanburði á forsendum mats á varanlegum miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 annars vegar og mats á varanlegri örorku samkvæmt ólögfestum eldri réttarreglum hins vegar, og með hliðsjón af fyrirliggjandi mati dómkvaddra matsmanna á varanlegum miska stefnanda, verður ekki séð að á stefnanda hafi verið hallað með því að leggja umrætt mat á varanlegum miska til grundvallar við útreikninga á örorkubótum til hennar samkvæmt ákvæði um slysatryggingar í þágildandi kjarasamningi.
Samkvæmt framangreindu verður fallist á með stefnda að stefnandi hafi fengið greiddar fullar bætur frá stefnda 2. júlí 1999. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Með hliðsjón af atvikum málsins og óskýrri hugtakanotkun í umræddum kjarasamningi, sem stefndi ekki síður en stéttarfélag stefnanda þykir bera ábyrgð á, þykir rétt að hvor aðili greiði sinn kostnað af málinu.
Af hálfu stefnanda flutti málið Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl. en Guðrún Margrét Árnadóttir hrl. af hálfu stefnda.
Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Sesselju Steinarsdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.