Hæstiréttur íslands
Mál nr. 244/2003
Lykilorð
- Eftirlaun
- Lífeyrissjóður
- Verðtrygging
|
|
Fimmtudaginn 26. febrúar 2004. |
|
Nr. 244/2003. |
Sigurður Örn Einarsson (Gísli Baldur Garðarsson hrl.) gegn Seðlabanka Íslands og Lífeyrissjóði bankamanna (Jakob R. Möller hrl.) |
Eftirlaun. Lífeyrissjóður. Verðtrygging.
S hafði starfað um áratuga skeið hjá SÍ þegar hann lét af störfum 31. mars 1998 og hóf töku eftirlauna. Ný reglugerð um eftirlaunasjóð starfsmanna SÍ og LÍ hafði tekið gildi 31. desember 1997. Taldi S að reglugerðin hefði skert eftirlaunarétt hans þar sem hætt var að miða fjárhæð eftirlauna við svokallaða eftirmannsreglu en þess í stað teknar upp verðbætur miðaðar við vísitölu neysluverðs. Krafðist hann þess að sér yrði bættur sá skaði, sem hin nýja skipan leiddi af sér. Beindi hann kröfunni aðallega að SÍ en til vara að SÍ og L sameiginlega og byggði á að eftirmannsreglan hefði verið hluti af starfskjörum hans hjá SÍ og hann ætti rétt á að fá greitt samkvæmt reglunni eða með öðrum hætti, sem ekki skerti réttindi hans. Taldi hann og að við setningu reglugerðarinnar hefði ekki verið gætt réttra málsmeðferðarreglna og hún hefði því ekki gildi gagnvart honum. Ekki var talið í ljós leitt að SÍ hefði lofað S að lífeyrir hans yrði greiddur með þessum hætti og að jafnvel þótt talið yrði að um ígildi loforðs hefði verið að ræða hafi skuldbinding SÍ verið leidd af reglum L og hefði því ekki getað verið um annað og meira en reglur lífeyrissjóðsins kvæðu á um á hverjum tíma. Taldist SÍ því ekki hafa bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart S. Með vísan til fyrri dóma Hæstaréttar var ekki talið að sú málsmeðferð sem L hafi viðhaft við breytingu reglugerðarinnar hefði verið ólögmæt og var því einnig hafnað kröfu S á hendur SÍ og L sameiginlega.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. júní 2003 og krefst þess aðallega að stefndi Seðlabanki Íslands, en til vara stefndu Seðlabanki Íslands og Lífeyrissjóður bankamanna sameiginlega, greiði sér 2.600.940 krónur auk dráttarvaxta frá 2. mars 2002 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem í héraðsdómi greinir lét áfrýjandi af störfum hjá stefnda Seðlabanka Íslands 31. mars 1998 eftir liðlega fjögurra áratuga starf og hóf töku eftirlauna frá þeim tíma. Hann hafði í bréfi sínu til stefndu og fleiri 12. desember 1997 gert áskilnað vegna nýrrar reglugerðar um eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbanka Íslands og Seðlabanka Íslands, sem tók gildi 31. desember 1997, um að nokkur atriði hennar, svo sem niðurfelling ábyrgðar vinnuveitanda á skuldbindingum sjóðsins og breyting á viðmiðun eftirlauna frá eftirmannsreglu til vísitölu neysluverðs, gætu leitt til skerðingar eftirlauna hans miðað við þágildandi reglugerð sjóðsins frá 1988. Kvað hann að við slíkt yrði ekki unað. Reisir hann kröfur sínar í málinu meðal annars á þessum sjónarmiðum og heldur því eindregið fram að hvarf frá eftirmannsreglunni hefði því aðeins verið heimilt að tryggt hefði verið að tjón hefði ekki af hlotist. Í málflutningi fyrir Hæstarétti hafa stefndu fallið frá málsástæðu sinni um tómlæti af hans hálfu.
Áfrýjandi beinir kröfu sinni í fyrsta lagi að stefnda Seðlabanka Íslands á þeim forsendum að samningssamband hafi verið milli þeirra um starfskjör, þar á meðal um eftirlaun. Honum hafi verið lofað góðum lífeyriskjörum og hann hafi unnið sér inn lífeyrisréttindi samkvæmt reglugerðum sem kváðu á um eftirmannsregluna og þess vegna átt rétt á því að fá greitt samkvæmt reglunni eða með öðrum hætti sem ekki skerti réttindi hans.
Fallast ber á með héraðsdómi að ekki sé í ljós leitt að áfrýjanda hafi af stefnda Seðlabanka Íslands verið lofað að lífeyrir hans yrði samkvæmt svokallaðri eftirmannsreglu, sem í gildi var samkvæmt reglugerðum lífeyrissjóðsins frá 1960 til 1997. Jafnvel þótt talið væri að um ígildi loforðs þessa efnis hafi verið að ræða var skuldbinding Seðlabankans leidd af reglum lífeyrissjóðsins og gat því ekki verið um annað og meira en það sem reglugerð lífeyrissjóðsins kvað á um á hverjum tíma. Er því á engan hátt sýnt að stefndi Seðlabanki Íslands hafi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart áfrýjanda.
Til vara beinir áfrýjandi kröfu sinni að Seðlabanka Íslands og Lífeyrissjóði bankamanna sameiginlega á þeim forsendum að sú málsmeðferð sem lífeyrissjóðurinn viðhafði við breytingar á reglugerðinni á fundum í janúar og júní 1997 hafi verið ólögmæt. Um lögmæti þessarar breytingar var dæmt í dómum réttarins 25. janúar 2001 í málum nr. 249/2000 og 250/2000.
Vegna þessa og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Rétt er að hver aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2003.
I
Mál þetta, sem dómtekið var í dag að loknum munnlegum málflutningi hafði verið flutt og dómtekið hinn 20. janúar sl., en var endurupptekið og flutt að nýju í dag. Málið var höfðað fyrir dómþinginu af Sigurði Erni Einarssyni, kt. 060835-3579, Sóltúni 13, Reykjavík, á hendur Seðlabanka Íslands, kt. 560269-4129, Kalkofnsvegi 1, Reykjavík, og Lífeyrissjóði bankamanna, kt. 510169-4259, Suðurlandsbraut 24, Reykjavík, með stefnu birtri hinn 2. mars 2002 og þingfestri hinn 5. mars 2002.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefnda, Seðlabanka Íslands, verði gert að greiða honum 2.600.940 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt vaxtalögum af eftirgreindum fjárhæðum:
kr. 38.756 frá 1. janúar 1999 til 1. febrúar 1999
kr. 99.897 frá 1. febrúar 1999 til 1. mars 1999
kr. 161.724 frá 1. mars 1999 til 1. apríl 1999
kr. 221.944 frá 1. apríl 1999 til 1. maí 1999
kr. 280.479 frá 1. maí 1999 til 1. júní 1999
kr. 337.497 frá 1. júní 1999 til 1. júlí 1999
kr. 393.106 frá 1. júlí 1999 til 1. ágúst 1999
kr. 447.535 frá 1. ágúst 1999 til 1. september 1999
kr. 500.785 frá 1. september 1999 til 1. október 1999
kr. 551.338 frá 1. október 1999 til 1. nóvember 1999
kr. 599.364 frá 1. nóvember 1999 til 1. desember 1999
kr. 695.416 frá 1. desember 1999 til 1. janúar 2000
kr. 755.343 frá 1. janúar 2000 til 1. febrúar 2000
kr. 812.743 frá 1. febrúar 2000 til 1. mars 2000
kr. 871.154 frá 1. mars 2000 til 1. apríl 2000
kr. 927.037 frá 1. apríl 2000 til 1. maí 2000
kr. 980.898 frá 1. maí 2000 til 1. júní 2000
kr. 1.033.411 frá 1. júní 2000 til 1. júlí 2000
kr. 1.084.744 frá 1. júlí 2000 til 1. ágúst 2000
kr. 1.134.392 frá 1. ágúst 2000 til 1. september 2000
kr. 1.185.725 frá 1. september 2000 til 1. október 2000
kr. 1.236.384 frá 1. október 2000 til 1. nóvember 2000
kr. 1.283.673 frá 1. nóvember 2000 til desember 2000
kr. 1.376.229 frá 1. desember 2000 til 1. janúar 2001
kr. 1.528.668 frá 1. janúar 2001 til 1. febrúar 2001
kr. 1.680.601 frá 1. febrúar 2001 til 1. mars 2001
kr. 1.831.860 frá 1. mars 2001 til 1. apríl 2001
kr. 1.981.097 frá 1. apríl 2001 til 1. maí 2001
kr. 2.126.121 frá 1. maí 2001 til 1. júní 2001
kr. 2.192.010 frá 1. júní 2001 til 1. júlí 2001
kr. 2.326.755 frá 1. júlí 2001 til 1. ágúst 2001
kr. 2.458.804 frá 1. ágúst 2001 til 1. september 2001
kr. 2.589.673 frá 1. september 2001 til 1. október 2001
kr. 2.718.183 frá 1. október 2001 til 1. nóvember 2001
kr. 2.844.334 frá 1. nóvember 2001 til 1. desember 2001
kr. 2.600.940 frá 1. desember 2001 til þingfestingardags, en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags og að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn hinn 1. janúar 2000, og síðan árlega eftir það. Einnig krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, Seðlabanka Íslands, að skaðlausu, að
mati dómsins, og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess, að stefnandi hafi ekki frádráttarrétt á móti virðisaukaskatti, sem hann þurfi að greiða af málskostnaði.
Til vara krefst stefnandi þess, að stefndu, Seðlabanki Íslands og Lífeyrissjóður bankamanna, verði gert að greiða honum, in solidum, 2.600.940 krónur, auk vaxta og dráttarvaxta svo sem greinir í aðalkröfu, auk málskostnaðar að skaðlausu, að mati dómsins, og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess, að stefnandi hafi ekki frádráttarrétt á móti virðisaukaskatti, sem hann þurfi að greiða af málskostnaði.
Dómkröfur aðalstefnda og varastefnda eru þær, að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til þess að greiða þeim málskostnað, að mati dómsins, að teknu tilliti til skyldu þeirra til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
II
Stefnandi hóf störf í Landsbanka Íslands 18. maí 1954 og fluttist til Seðlabanka Íslands við stofnun hans í september 1957. Hóf hann að greiða í lífeyrissjóð til Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbanka Íslands hinn 6. ágúst 1955 og greiddi í lífeyrissjóð til 31. mars 1998, er hann lét af störfum. Á þeim tíma hafði stefnandi áunnið sér réttindi, sem nú eru viðurkennd 85% eftirlaun.
Stefndi, Seðlabanki Íslands, var stofnaður með lögum nr. 33/1957, en þá var Landsbanka Íslands skipt í Seðlabanka Íslands og viðskiptabanka. Með lögum nr. 10/1961 varð Seðlabanki Íslands sérstök stofnun. Nú gilda lög nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands.
Stefndi, Lífeyrissjóður bankamanna, var áður Eftirlaunasjóður starfsmanna Landsbanka Íslands, sem stofnaður var með lögum nr. 10/1928, um Landsbanka Íslands. Lög nr. 10/1961 og 11/1961, tóku gildi 29. mars 1961, varð sjóðurinn sjálfseignarstofnun. Nafni sjóðsins hefur verið breytt nokkrum sinnum frá því að sjóðurinn hét Eftirlaunasjóður starfsmanna Landsbanka Íslands, allt fram til þess að sjóðurinn nefndist Lífeyrissjóður bankamanna. Allt frá stofnun sjóðsins og fram til þess að reglugerð nr. 669/1997 tók gildi, var stjórn sjóðsins skipuð tveimur fulltrúum bankans/anna og einum fulltrúa sjóðfélaga. Nú er stjórnin skipuð sex fulltrúum, þremur fulltrúum aðildarfyrirtækja og þremur fulltrúum sjóðfélaga. Heimild til breytinga á reglugerð ugerð nr. 669/1997 var sett, í höndum bankaráðs og stjórnar aðildarfyrirtækja, en jafnframt skyldi leita álits sjóðfélaga áður en breyting tæki gildi. Með reglugerðinni frá 1997 var því breytt á þann veg, að fundur sjóðfélaga tæki ákvörðun um breytingar, er taka skyldu gildi með staðfestingu bankaráðs og stjórna aðildarfyrirtækja.
Eftirfarandi grein hefur verið gerð fyrir reglugerðum sjóðsins, sem nú heitir, Lífeyrissjóðs bankamanna, og breytingum sem gerðar hafa verið á þeim. Eftirtaldar reglugerðir hafi gilt um sjóðinn:
1. Reglugerð fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbanka Íslands frá 1. janúar 1929.
2. Reglugerð um Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbanka Íslands frá 1. apríl 1948.
3. Reglugerð um eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans frá 1. janúar 1960.
4. Reglugerð um eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans frá 1. júlí 1970.
5. Reglugerð um eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans frá 1. janúar 1978.
6. Reglugerð um eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans frá 1. janúar 1982.
7. Reglugerð um eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans frá 1. janúar 1988.
8. Reglugerð um Lífeyrissjóð bankastarfsmanna nr. 669/1997.
Reglugerðinni frá 1997 hefur síðan nokkrum sinnum verið breytt og hún endurútgefin, og nú eru í gildi Samþykktir fyrir Lífeyrissjóð bankamanna, gerðar 7. maí 2001 og staðfestar af fjármálaráðuneytinu hinn 9. júlí 2001, er þær tóku gildi.
Er stefnandi hóf að greiða iðgjöld í lífeyrissjóð var í gildi reglugerð um Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbanka Íslands, dagsett 14. desember 1928, og var þar kveðið á um, að eftirlaun starfsmanna skyldu miðast við meðallaun hans síðustu 5 árin. Í þessari reglugerð var ekki gert ráð fyrir verðtryggingu eftirlauna.
Breyting var gerð á þessu fyrirkomulagi með endurskoðaðri reglugerð, sem samþykkt var hinn 4. febrúar 1960. Breytingin var m.a. í þá veru, að upphæð eftirlauna skyldi hækka í samræmi við almennar hækkanir á launum bankamanna. Breyting var enn gerð árið 1965, og þá kveðið á um, að miða skyldi greiðslu eftirlauna við launaflokk sjóðsfélaga seinasta starfsár hans í staðinn fyrir meðaltal seinustu fimm ára.
Breyting var enn gerð á eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbanka og Seðlabanka, með reglugerð, dagsettri 12. maí 1978. Var þar kveðið á um, að eftirlaun skyldu nema ákveðnum hundraðshluta af launum þeim, sem á hverjum tíma fylgdu starfi því, sem sjóðsfélagi gengdi síðast. Samskonar ákvæði var í reglugerðum um eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans frá 1982 og 1988.
Samkvæmt fyrstu reglugerðinni og fram til setningar reglugerðarinnar nr. 669/1997, báru aðildarfyrirtæki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins, þar til eignir hans nægðu fyrir skuldbindingum hans. Fyrir gildistöku þeirrar reglugerðar fór fram tryggingafræðileg úttekt á skuldbindingum sjóðsins og greiddu aðildarfyrirtæki hans inn í sjóðinn við árslok 1997 það, sem á vantaði, til þess að eignir hans nægðu fyrir skuldbindingum hans. Er sjóðurinn nú sjálfstæður og ber einn ábyrgð á skuldbindingum sínum.
Umdeild reglugerð nr. 669/1997 tók gildi hinn 1. janúr 1998, eða skömmu áður en stefnandi lét af störfum sínum hjá stefnda, Seðlabanka Íslands.
III
Stefnandi byggir á því, að á árunum 1960 til 1997 hafi eftirmannsregla verið virk hjá eftirlaunasjóðnum. Reglan hafi verið í gildi í 37 ár og náð að festast í sessi. Ljóst sé því, að næstum alla starfsævi stefnanda hafi reglan verið í gildi og allan þann tíma hluti umsaminna starfskjara stefnanda. Hann hafi því með réttu mátt búast við því, að fá greiddan lífeyri samkvæmt þeirri reglu, þegar hann færi á eftirlaun.
Fráhvarf frá þessari reglu hafi því aðeins verið heimil, að tryggt hefði verið, að það hefði ekki í för með sér tjón fyrir hann eða aðra þá, sem skyldaðir hafi verið til þess að greiða í sjóðinn, og verið í góðri trú, allan tímann, að þeir fengju greiddan lífeyri á grundvelli reglunnar. Í hæstaréttardómi nr. 249/2000 komi fram í rökstuðningi héraðsdómara, að stefnandi í því máli hafi ekki lagt fram gögn því til stuðnings, að afnám eftirmannsreglunnar muni sannanlega skerða réttindi hans frá því, sem þau hafi verið, samkvæmt fyrri reglugerð, og ekki hafi þótt rétt að leggja sönnunarbyrði á stefndu fyrir hinu gagnstæða. Undir þetta sjónarmið hafi Hæstiréttur tekið í dómi sínum. Stefnandi heldur því fram, að með gagnályktun frá þessari niðurstöðu verði breytingarnar á reglugerðinni óskuldbindandi gagnvart honum, sem grundvöllur endanlegs uppgjörs, með því að sönnun liggi fyrir um tjón hans.
Bjarni Þórðarson, tryggingastærðfræðingur, hafi reiknað út höfuðstólsverðmæti lífeyrisréttinda stefnanda í janúar 2002. Uppreiknaður höfuðstóll lífeyrisréttinda stefnanda hafi verið 68.037.000 krónur, samkvæmt gildandi reglugerð, þar sem núvirðing lífeyrisréttinda miðist við 3,5% vexti. Hins vegar sé uppreiknaður höfuðstóll lífeyrisréttindanna 105.164.000 krónur miðað við eftirmannsregluna og núvirðing lífeyrisins miðuð við 2% vexti, en 95.512.000 krónur, ef núverðing sé miðuð við 3% vexti. Hlutfallstala vaxta sé ákvörðuð í 19. gr. reglugerðar nr. 391/1998, sbr. reglugerð nr. 742/1998.
Stefnandi hafi fengið 16.185.229 krónur greiddar úr Lífeyrissjóði bankamanna frá 1. apríl 1998 til loka árs 2001. Þessi tala sé miðuð við heildarlaun, án orlofs, en orlof sé reiknað með fyrir árið 2001. Ef eftirlaun stefnanda hefðu miðast við eftirmannsregluna væri staða hans mun betri. Eftirmaður stefnanda í starfi hafi haft 22.101.385 krónur í heildarlaun á sama tímabili. Stefnandi hafi unnið sér rétt til 85% af 22.101.385 krónum, sem sé 18.786.169 krónur, sem stefnandi hafi átt að fá sem eftirlaun. Mismunurinn á milli eftirlauna samkvæmt nýju reglugerðinni og eftirmannsreglunni sé því 2.600.940 krónur, sem sé það augljósa tjón, sem breytingin á reglugerðinni hafi haft í för með sér fyrir stefnanda, þennan tíma. Dómkrafan sé sett fram með það að leiðarljósi, að verði tjónið viðurkennt fyrir dómi, leiði það til endurskoðunar á reglugerðinni.
Stefnandi kveður það vera nánast algilda reglu, að laun þróist að jafnaði a.m.k. 1-2% örar á ári en verðlag. Þessi regla sé kölluð regla hagvaxtar og framleiðni. Upplýsingar Þjóðhagsstofnunar um OECD-löndin sýni að á árunum frá 1973 til 2001 hafi orðið 47,4% hlutfallsmunur í löndunum á launum á mann í atvinnulífi gagnvart verðlagi landsframleiðslu. Ef eingöngu sé litið til Íslands, sjáist, að á sama tímabili hafi orðið 70,2% hlutfallsmunur á launum manna í atvinnulífi gagnvart verðlagi landsframleiðslu. Þessi staðreynd þýði, að yfirgnæfandi líkur séu á því, að stefnandi muni halda áfram að verða fyrir tjóni. Líkurnar séu hafnar yfir allan skynsamlegan vafa. Bótakrafan sé þó aðeins miðuð við sannað tjón, sem þegar sé orðið, en ekki það tjón sem verða muni í framtíðinni, að óbreyttu.
Stefnandi kveðst byggja aðalkröfu sína á hendur stefnda, Seðlabanka Íslands, á því, að samningssamband hafi verið á milli hans og Seðlabankans um starfskjör, þ.ám. eftirlaun. Samningssambandið feli það í sér, að stefnda, Seðlabankanum, beri að efna þau loforð sem hann hafi gefið starfsmönnum sínum við ráðningu og á starfstíma þeirra. Stefndi hafi flaggað góðum lífeyrisréttindum við ráðningu á starfsmönnum til að fá þá til liðs við sig og halda þeim í vinnu. Góður lífeyrir hafi verið hluti af starfskjörum stefnda, Seðlabankans, og hafi launakjör ávallt tekið mið af því, að lífeyrisréttindin væru hagstæðari en ýmissa annarra starfsstétta. Seðlabankinn hafi því í mörg ár notað framúrskarandi lífeyrisréttindi sem ástæðu til að greiða starfsmönnum sínum lægri laun.
Stefnandi kveðst hafa orðið að vera í Eftirlaunasjóðnum, þegar hann hafi ráðið sig til starfa hjá stefnda, Seðlabankanum, Meirihluti stjórnar sjóðsins hafi frá upphafi verið skipaður af bönkunum. Þannig hafi bankarnir skipað tvo stjórnarmenn af þremur og hafi sá háttur verið viðhafður allt til ársins 1997. Starfsmenn stefnda, Seðlabankans, sem komið hafi að stjórn sjóðsins, hafi gjörþekkt gildi loforða forsvarsmanna bankans um launaviðmiðanir eftirlauna. Hefði þeim því með réttu borið að leggjast gegn breytingum á reglugerðinni, er leitt hafi til kjaraskerðingar lífeyrisþega.
Stefnandi byggir á því, að breytingin á reglugerðinni hafi sannanlega haft í för með sér skerðingu á áunnum lífeyrisréttindum stefnanda. Seðlabankinn hafi staðið að breytingum á reglugerðinni, þótt ljóst hafi mátt vera, að þær breytingar hefðu í för með sér skerðingu á réttindum, sem vernduð væru af stjórnarskránni. Forsvarsmenn stefnda, Seðlabankans, hafi haldið uppi áróðri fyrir breytingunum í fréttablöðum starfsmanna. Stefndi, Seðlabankinn, hafi því verið mjög tengdur við breytinguna á reglugerðinni og beri á henni ábyrgð gagnvart stefnanda.
Meginreglan sé sú, að sjóðsfélagar ávinni sér rétt til lífeyris í samræmi við þær reglur, sem sjóðurinn starfi eftir á hverjum tíma. Þessi meginregla komi m.a. fram í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 249/2000. Stefnandi hafi unnið sér inn lífeyrisréttindi samkvæmt reglugerðum, sem kveðið hafi á um eftirmannsreglu og áunnið sér rétt til að fá greitt samkvæmt reglunni, eða með öðrum hætti, sem skerði ekki réttindi hans.
Stefnandi byggir á því, að stefndi, Seðlabankinn, beri ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins hvað varði lífeyrisrétt stefnanda. Fyrir liggi samkomulag, þar sem stefndi, Seðlabankinn, hafi skuldbundið sig til þess að gera upp skuld sína við Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans. Ábyrgð stefnda, Seðlabankans, og þar með óbeint ríkisins, sé enn til staðar gagnvart eldri skuldbindingum, ef forsendur uppgjörsins breytist. Fram að breytingunni 1997 hafi lífeyrissjóðurinn verið á ábyrgð ríkisins.
Varakröfu sína byggir stefnandi á því, að sú málsmeðferð, sem stefndi, Lífeyrissjóður bankamanna, hafi viðhaft við breytingar á reglugerðinni, hafi verið ólögmæt. Í fyrrgreindum hæstaréttardómi, sé málsmeðferðin átalin, en þó ekki talinn slíkur galli á henni, að ákvæði reglugerðarinnar væri óskuldbindandi gagnvart aðila þess máls. Stefnandi byggir á því, að annmarkar á málsmeðferðinni hafi verið meiri en fram komi í ofangreindum hæstaréttardómi. Stefnandi kveðst hafa fengið send gögn til sín um fyrirhugaðar breytingar, en þau hafi ekki borið það með sér á nokkurn hátt, að í breytingunum fælist skerðing á réttindum stefnanda, svo nokkru næmi. En jafnvel þó litið yrði til þeirrar óverulegu skerðingar, sem lesa megi úr gögnunum, hefði andstaða stefnanda við þær skipt litlu máli. Meirihluti fundarmanna á fundinum, sem tekið hafi ákvörðun um breytinguna, hafi verið starfsmenn Landsbankans, en þeim hafi verið boðin önnur kjör. Þá sé til þess að líta, að stórum hluta þeirra, sem verið hafi á sömu skoðun og stefnandi og hefðu beitt sér gegn breytingunum vegna eigin hagsmuna, hafi verið haldið í myrkri um fyrirhugaðar breytingar fram á síðustu stundu. Þess beri að geta, að stefndi, Lífeyrissjóður bankamanna, hafi aldrei gert tilraun til þess að vara óvirka sjóðsfélaga við því, að réttindi þeirra myndu skerðast við breytinguna.
Þá skipti máli, að mati stefnanda, að hagsmunir starfsmanna Seðlabanka og Landsbanka hafi verið mjög ólíkir. Verið hafi verið að einkavæða Landsbankann og hafi samþykkt breyting á Eftirlaunasjóðnum verið liður í því. Ljóst hafi verið, að starfsmenn Landsbankans myndu fá hærri laun í kjölfar einkavæðingar og því myndu lífeyrisverðmæti þeirra hækka við það. Einnig hafi það legið fyrir, að starfsmenn Landsbankans fengju einnig sérkjör í hlutafjárútboði. Landsbankinn hafi útskýrt sérkjörin á þá leið, að þau væru liður í heildarskipulagi á breytingu bankans í hlutafélag, og breytingu á lífeyriskerfi starfsmanna. Það sé því staðreynd, að starfsmenn Landsbankans hafi fengið þessi sérkjör vegna breytinga á lífeyriskerfinu. Grundvallarforsenda fyrir öllum þessum kjarabótum hafi verið að starfsmenn Landsbankans samþykktu breytingarnar á reglugerðinni. Þeir hafi því setið við allt annað borð heldur en aðrir sjóðsfélagar og haft af því töluverðan hag, að samþykkja, e.t.v. án þess að gera sér ljóst, að réttindi starfsfólks Seðlabanka og fyrrverandi starfsfólks Landsbankans yrðu skert.
Í fyrrgreindu hæstaréttarmáli hafi ekki verið sýnt fram á, að umrædd breyting fæli í sér skerðingu á réttindum sjóðsfélaga, og sé í dóminum á því byggt. Ekki sé því óeðlilegt að beita gagnályktun þannig, að ef sýnt sé fram á, að ákvörðunin, sem byggi á gölluðu málsmeðferðinni, hafi leitt til tjóns, þá þurfi að beita strangari mati á lögmæti málsmeðferðarinnar. Gífulegir annmarkar hafi verið á málsmeðferðinni við setningu reglugerðarinnar. Í umræddum dómi sé að sjá, að stefndi, Lífeyrissjóður bankamanna, hafi komist upp með þessa annmarka á þeirri forsendu, að ekkert hafi staðið í þágildandi reglugerð um fyrirkomulag breytinga á reglugerðinni. Það sjónarmið geti ekki átt við, þegar sýnt sé fram á, að allar viðurkenndar meginreglur, sem almennt séu taldar gilda um fundi, þar sem ákvarðanir séu teknar, hafi verið virtar að vettugi. Umræður um breytingar á reglugerðinni hafi farið fram á fundi, sem haldinn hafi verið 29. janúar 1997 og á framhaldsfundi, sem haldinn hafi verið 19. júní 1997, þar sem tekin hafi verið ákvörðun um breytingar. Fyrri fundurinn hafi eingöngu verið auglýstur á starfsstöðvum aðildarfélaga stefnda, Lífeyrissjóðs bankamanna. Í umræddum dómi komi fram, að ekki liggi fyrir, hvernig hafi verið boðað til þessa fundar né hversu margir hafi sótt hann. Verði því að telja mikinn vafa leika á um lögmæti fundarins. Fjallað hafi verið um fyrirhugaðar breytingar á reglugerðinni á fundinum. Í lokin hafi verið borin fram og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum tillaga, um að fundinum yrði frestað, þar til sjóðfélgar hefðu fengið í hendur samanburðarútreikning á áhrifum þeirra breytinga á réttindum sjóðfélaga, sem breytingar á reglugerðinni hefðu í för með sér. Framhaldsfundur sé, eðli máls samkvæmt, framhald á sama fundi, en ekki sjálfstæður fundur. Burt séð frá boðuninni á framhaldsfundinn, sé alveg ljóst, að boðunin á fyrri fundinn hafi verið í molum og stórum hluta sjóðfélaga hafi ekki verið gefinn kostur á að mæta á fundinn. Öllum sjóðfélögum hafi því einungis verið gefinn kostur á að mæta á framhaldsfundinn, en sá fundur hafi verið auglýstur í Morgunblaðinu.
Eftir fyrri fundinn hafi einungis starfandi sjóðfélögum verið sendur samanburðarútreikningur. Starfandi sjóðfélagar, þ.e. þeir sjóðfélagar, sem greitt hafi í sjóðinn á þessum tíma, hafi verið u.þ.b. 1400 af 5200 sjóðfélögum. Þess beri að geta, að þeir sjóðfélagar, sem ekki hafi verið virkir, hafi haft einna mestra hagsmuna að gæta, þar sem breytingin hafi falið í sér mikla skerðingu á útborguðum lífeyri. Fram komi í hæstaréttardómi, að stefndi, Lífeyrissjóður bankamanna, hafi lýst því yfir við málareksturinn, að ástæða þess að óvirkum sjóðfélögum hafi ekki verið send tilkynning, hafi verið að engin breyting hafi orðið á réttindum þeirra. Þessi fullyrðing stefnda, Lífeyrissjóðs bankamanna, sé röng. Breyting á reglugerðinni hafi orðið til þess, að réttindi óvirkra og sumra virkra sjóðfélaga hafi verið skert verulega. Það, að senda ekki óvirkum sjóðfélögum tilkynningu, hafi því verið röng ákvörðun, byggð á röngum forsendum. Hún hafi vafalítið haft þau áhrif, að óvirkir sjóðfélagar hafi síður mætt til fundarins. Þeir hafi engar upplýsingar haft í höndunum og ekki getað séð, hvað í vændum væri. Þrátt fyrir, að einstaka óvirkir sjóðfélagar hafi mætt á framhaldsfundinn, hafi þeir ekki haft sömu gögn og aðrir til að meta stöðuna. Þessir starfsmenn, þ.e. fyrrverandi starfsmenn Landsbankans og Seðlabanka, sem hafi hafið töku eftirlauna, myndu hins vegar finna mest fyrir skerðingunni. Þeir hafi ekki fengið þær stórfelldu kjarabætur, í formi launahækkana og hlutafjártilboða, sem starfsmenn Landsbankanns hafi fengið. Það sé því ljóst, að mikill meirihluti þeirra, sem hefðu haft beinan hag af því að fella umrædda breytingu, hafi ekki verið upplýstur sem skyldi.
Stefnandi kveðst hins vegar hafa fengið umræddan samanburðarreikning, sem afhentur hafi verið milli funda, en hann sé beinlínis villandi, þar sem þar komi fram að lítill eða enginn munur sé á milli greiðslukerfa. Munurinn, sem þar sé birtur, á milli greiðslukerfa, sé 1-2%, en raunverulegur munur milli útgreiddra eftirlauna og eftirlauna, sem stefnanda hafi borið, sé fjárhæð stefnukröfu, sem sé 16% þeirrar fjárhæðar, sem stefnandi hafi fengið greidda á tæplega fjögurra ára tímabili. Upplýsingarnar, sem komi þar fram hafi ekki gefið tilefni til þess, að stefnandi hefði álitið að réttindi hans væru verulega í hættu.
Munurinn á milli boðunar á fyrri fundinn og framhaldsfundinn sé verulegur, og hafi ekki verið skýrður. Þrátt fyrir, að í auglýsingunni um framhaldsfundinn hafi verið minnst á það, að breytingar á reglugerð væru til afgreiðslu, telur stefnandi, að þar hefði átt að koma fram, með afgerandi hætti, hvers kyns breytingarnar væru. Í umræðum á framhaldsfundi hafi fyrst komið fram, að réttindi sjóðfélaga kynnu að skerðast. Í fundargerð komi fram, að stjórnarmaður í stefnda, hafi svarað spurningum fundarmanna, hvers vegna laun væru ekki tengd launavísitölu í stað neysluvísitölu, og einnig hvort þetta hefði ekki í för með sér skerðingu á réttindum, þannig, að launaviðmiðun myndi líklegast gefa hærri eftirlaun en verðlagsviðmiðun. Álitamálið á fundinum hafi því fyrst og fremst verið um það, hvor vísitalan væri sjóðfélögum hagfelldari. Hafi stjórnarmaðurinn og fullyrt, að tekið hefði verið tillit til þessa munar, sem verða kynni, og að mismunurinn yrði notaður til að bæta réttindi á öðrum sviðum, t.d. örorkulífeyri og „jöfnun á réttindaávinnslu”. Stefnandi mótmælir þessu og telur jafnframt þessi sjónarmið, fyrir breytingunum, vera ólögmæt og ómálefnaleg, þar sem viðurkennt sé, að markmið þeirra sé m.a. að rýra réttindi ákveðinna sjóðfélaga til hagsbóta fyrir aðra. Slík grundvallarbreyting hljóti að krefjast atkvæða allra sjóðfélaga, því, eins og fram komi í áðurgreindum hæstaréttardómi, þá beri eftirlaunasjóðurinn svip sérstakrar sameignar. Ljóst sé, að ef um sérstaka sameign sé að ræða, hefði þurft atkvæði allra eigenda til að breyta reglunum. Einnig bendir stefnandi á, að forsvarsmenn sjóðsins hafi ítrekað gefið yfirlýsingar um breytingarnar, sem beinlínis hafi verið rangar og til þess fallnar að villa um fyrir þeim sjóðfélögum, sem á fundinum hafi verið, sem og í fréttablöðum Seðlabankans.
Stefnandi byggir á því, að þó svo Hæstiréttur hafi í dómi sínum talið breytinguna gilda, hafi áfrýjandi í því máli ekki sýnt fram á, með óyggjandi hætti, að réttindi hans skertust verulega við breytinguna. Ákvörðunin um breytinguna hafi haft íþyngjandi afleiðingar á stjórnarskrárvarin réttindi stefnanda. Því hafi stefnda, Lífeyrissjóði bankamanna, borið að viðhafa sérstaklega vandaða málsmeðferð í alla staði, ef á annað borð yrði talið, að fundurinn væri bær um ákvarðanatöku í málinu.
Varakröfu sína byggir stefnandi ennfremur á því, að enginn vafi leiki á um, að lífeyrisréttindi séu eignarréttindi í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar, svo sem því ákvæði hafi verið breytt með 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, eins og viðurkennt sé í margnefndum dómi Hæstaréttar. Í dóminum komi fram, að óumdeilt sé, að ekki hafi verið staðið að breytingum á reglugerð sjóðsins með þeim hætti, sem tilskilið sé í stjórnarskrá, og því hafi þar eingöngu verið deilt um, hvort breytingin á greiðsluaðferð bryti í bága við stjórnarskrána.
Enginn vafi leiki á því, að umrædd breyting á reglugerðinni hafi í raun breytt eftirlaunaréttindum stefnanda í sjóðnum. Reglugerðarbreytingin hafi valdið honum tjóni, og muni að líkindum skerða eftirlaunaréttindi hans framvegis frá því, sem þau hafi verið fyrir breytinguna. Breytingin rýri áunnin réttindi, sem séu varin af stjórnarskránni. Breytingarnar séu andstæðar lögum og hljóti stjórnarskráin að vernda stefnanda fyrir slíkum breytingum.
Rök stefnda, Lífeyrissjóðsins, að það sé vandkvæðum bundið í framkvæmd að miða við eftirmannsregluna, séu haldlítil, þar sem sjóðurinn hafi starfað í áratugi samkvæmt eftirmannsreglunni, og án vandkvæða. Einnig bendir stefnandi á, að lífeyrissjóðnum sé í lófa lagið að tryggja annað viðmið, sem nái hliðstæðum markmiðum, þ.e. að mæla í senn áhrif verðlagsbreytinga og launaskriðs.
Þrátt fyrir að breytingin hafi, de jura, gengið jafnt yfir alla sjóðfélaga, hafi ekki reyndin verið sú, eins og áður hafi verið lýst. Starfandi starfsmenn Landsbankans hafi, de facto, grætt á breytingunum á meðan starfandi starfsmenn Seðlabankans og óvirkir starfsmenn beggja bankanna hafi tapað áunnum réttindum. Þá hafi legið í augum uppi, að tillagan yrði samþykkt, þar sem starfsmenn Landsbankans hafi verið mun fleiri. Um hafi verið að ræða stjórnarskrárvarin eignarréttindi, sem viðkomandi sjóðfélagar hafi unnið sér inn, sumir alla ævi, svo sem stefnandi, og geti hópur fólks ekki skert þann rétt, í eigin þágu, með einfaldri atkvæðagreiðslu.
Hafa verði hugfast, að skylduaðild hafi verið að lífeyrissjóðnum, og því hafi stefnandi ekki haft nokkurt val. Þegar athafnafrelsi borgaranna sé skert og þeir skyldaðir til að verja fjármunum sínum í eitthvað ákveðið, hljóti þeir að geta gert þá kröfu, að áunnin réttindi þeirra séu ekki skert afturvirkt. Ef talið verði heimilt að breyta leikreglunum á þennan hátt í krafti meirihluta, þannig að stjórnarskrárvarin eignarréttindi manna skerðist, séu allar forsendur fyrir samtryggingarsjóðum brostnar.
Stefnandi kveðst beina varakröfu sinni einnig að stefnda, Seðlabanka Íslands, með vísan til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 249/2000. Dómurinn hafi þar komist að þeirri niðurstöðu, að þar sem Seðlabanki Íslands sé ríkisbanki bæri íslenska ríkið óbeina ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Stefndi, Seðlabanki Íslands, beri því einnig ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins.
Um lagarök vísar stefnandi til 72. gr. stjórnarskrárinnar og almennra reglna skaðabótaréttarins.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Kröfu um vexti og vaxtavexti byggir stefnandi á IV. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. II. og III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
IV
Aðalstefndi, Seðlabanki Íslands, byggir sýknukröfu sína á því, að hann beri ekki ábyrgð á neinu því atviki, sem valdið geti skaðbótaskyldu hans gagnvart stefnanda. Varastefndi byggir sýknukröfu sína á sömu rökum og aðalstefndi, eftir því sem við eigi, en byggir einnig á því, að engar málsástæður, sem stefnandi færi fram fyrir varakröfu geti leitt til skaðabótaskyldu varastefnda auk þess, sem þegar hafi verið dæmt um lögmæti málsmeðferðar við breytingar á reglugerð varastefnda.
Stefnandi hafi ekki gert athugasemdir við útreikning á réttindum sínum, sem reiknuð hafi verið út eins og þau voru miðað við laun eftirmanns hans miðað við 31. desember 1997, áður en reglugerð nr. 669/1997 tók gildi.
Byggja stefndu á því, að hin svokallaða „eftirmannsregla” hafi verið verðmælir, til þess ætluð, að lífeyrisréttindi héldu verðgildi sínu á tíma mikillar verðbólgu. Breyting á einum verðmæli í annan jafngildan hafi verið talin stjórnvöldum heimil, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni réttarins frá 1991, bls. 348. Eigi þetta enn frekar við, þegar um sé að ræða ákvarðanir aðila, sem lúti einkarétti, og hafi sjálfir tekið ákvörðunina, eins og hér hátti til. Hafi á þetta reynt í dómi Hæstaréttar frá 25. janúar 2001, í málinu nr. 249/2000, þar sem hafnað hafi verið kröfu sjóðsfélaga í varastefnda, að breytingar reglugerðarinnar frá svokallaðri eftirmannsreglu til verðtryggingar lífeyrisréttinda samkvæmt vísitölu neysluverðs væru óskuldbindandi gagnvart honum.
Stefndu byggja á því, að almenn efnahagsleg rök hafi verið fyrir breytingu verðmælis. Lífeyrissjóðir ávaxti fé sjóðsfélaga m.a. með kaupum á skuldabréfum á almennum fjármálamarkaði. Séu slík skuldabréf verðtryggð sé það almennt samkvæmt vísitölu neysluverðs, en ekki þekkist, að þau séu verðtryggð, samkvæmt launavísitölu. Af þessu leiði, að til þess að skuldbindingar lífeyrissjóðs standist á við mögulega ávöxtun, geti lífeyrissjóður ekki tekið þá áhættu, að skuldbindingar hans breytist eftir öðrum verðmæli en eignir hans, sem skapa myndi verulega óvissu fyrir þá, sem lífeyris njóti, og leiða til tíðra breytinga á réttindum lífeyrisþega, til þess að jafna mun skuldbindinga og eigna samkvæmt ávöxtun. Slík rýrnun lífeyrisréttinda, sem nauðsynleg væri af lagaskyldu, væri augljóslega mjög óhagkvæm fyrir lífeyrisþega.
Stefndu byggja á því, að lagaleg rök séu fyrir notkun vísitölu neysluverðs, sem verðmæli. Í 2. mgr. 14. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, sé beinlínis mælt fyrir um, að mánaðarlegur lífeyrir skuli verðtryggður og breytast til samræmis við breytingu á vísitölu neysluverðs. Stefnandi þurfi að fá viðurkennt með dómi, að þessi grein sé ógild, til þess að skaðabótaskylda að lögum stofnist. Það hafi stefnandi ekki gert. Starfsheimildir varastefnda séu bundnar því, að hann fari eftir tilvitnuðum lögum. Varastefndi hafi, fyrir breytinguna með reglugerð nr. 669/1997, verið sjálfstæð stofnun með eigin stjórn og hafi eignir hans átt að nægja fyrir skuldbindingum hans og bakábyrgð aðildarfyrirtækja hafi einungis verið uns eignir varastefnda sjálfs nægðu fyrir skuldbindingum hans. Stefnandi haldi því fram, að greiðslur frá aðildarfyrirtækjum, sem átt hafi sér stað eftir gildistöku fyrrgreindrar reglugerðar, til þess að fullnægja skyldu aðildarfyrirtækjanna, hafi ekki nægt til þess. Af þessu sé ljóst, að skaðabótaskylda aðalstefnanda geti ekki hafa skapast við það, að reglugerð lífeyrissjóðs, sem starfsmenn hans hafi verið félagar í, færi að almennum lögum um starfsemi lífeyrissjóða.
Stefndu byggja og á því, að framlagðir útreikningar stefnanda séu ómarktækir sem sönnun fyrir tjóni hans, þar sem í 5. gr. reglugerðarinnar, um uppgjör sjóðsins, komi fram, að leiði rannsókn tryggingafræðings í ljós misræmi á milli eigna og skuldbindinga sjóðsins, sé skylt að breyta áunnum lífeyrisréttindum sjóðsfélaga. Eigi þetta jafnt við um það, þegar skuldbindingar hafi aukist umfram hlutfall eigna og hið gagnstæða. Ákvæðið sé í samræmi við 39. gr. laga nr. 129/1997.
Stefndu telja engri furðu gegna, að yfirmenn aðalstefnda, hafi, eins og það sé orðað í stefnu, „flaggað góðum lífeyriskjörum”, þar sem þau séu og hafi verið mun betri en almennt gerist. Enginn vafi sé, að starfsmenn aðalstefnda hafi notið góðra lífeyriskjara vegna starfa sinna við bankann, sem verið hafi mun betri, en kjör annarra stofnanna og fyrirtækja, jafnvel þótt miðað sé við þau kjör, sem góð teljist eftir þær meginbreytingar, sem orðið hafi á almennum lífeyrisréttindum í kjölfar kjarasamninga á árinu 1969, löggjafar um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og nú síðast laga nr. 129/1997. Sjáist þetta e.t.v. best af því, að við breytinguna á Lífeyrissjóði bankamanna hafi aðildarfyrirtækin þurft að greiða nokkra milljarða króna, sem verið hafi uppsafnaður halli, sem myndast hafi af því, að iðgjöld, sem starfsmenn hafi sjálfir greitt, og greidd hafi verið vegna þeirra, hafi ekki dugað til að standa undir lífeyrisskuldbindingum, sem orðið hafi til hjá þáverandi Eftirlaunasjóði. Ennfremur séu iðgjöld aðildarfyrirtækja Lífeyrissjóðs bankamanna vegna starfsmanna til þess að standa undir skuldbindingum vegna þeirra, 14,4% af launum á móti 4% iðgjalds starfsmanna. Almenn iðgjöld vinnuveitenda í aðra lífeyrissjóði séu hins vegar ekki nema 6%. Þessi munur sé vegna verulegra meiri réttinda, sem stefnandi njóti.
Stefndu telja, að samkvæmt lögum nr. 91/1991, hefði eðileg aðferð við að sýna fram á tjón stefnanda verið með öflun matsgerðar sérfróðs matsmanns eða sérfróðra matsmanna, til þess að leiða líkur að því, að frumforsenda kröfu hans stæðist, þ.e.a.s. að þá sé óhjákvæmilegt, að laun eftirmanns muni hækka umfram verðtryggingu samkvæmt neysluvísitölu. Álitsgerð og úrvinnsla manns, sem sé í sömu stöðu og stefnandi gagnvart stefndu, uppfylli ekki kröfur réttarfarslaga um sjálfstæð sönnunargögn og verði því ekki lögð til grundvallar við ákvörðun á hugsanlegu tjóni stefnanda. Sama sé að segja um framlagðan útreikning tryggingafræðings, sem byggi á sömu forsendum og fyrrgreind álitsgerð, og hvorki aðalstefndi né varastefndi hafi átt kost á að koma á framfæri athugasemdum við.
Stefndu byggja sýknukröfu sína af varakröfu á því, að málsmeðferð við breytingu reglna varastefnda hafi verið málefnaleg og hafi verið fjallað um aðferðir við breytingar á reglugerð varastefnda og lögmæti hennar í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 250/2000. Halda stefndu því fram, að um allar málsástæður stefnanda, sem byggist á ólögmæti fundanna og ólögmætri meðferð tillagna, hafi þegar verið dæmt og sé útkljáð mál. Þá verði að hafa í huga, að sú fjárhæð sem starfsmönnum Landsbanka Íslands hafi síðar staðið til boða að kaupa fyrir hlutabréf hafi einungis numið 250.000 krónum að nafnverði og á genginu 1,285 eða 321.250 krónur að kaupverði. Þá hafi breytingar á reglunum verið almennar og ekki komið harðar niður á einum hópi starfsmanna aðildarfyrirtækja fremur en öðrum, jafnvel þó að litið yrði svo á, að þær hafi verið gerðar vegna fyrirhugaðrar breytingar á félagsformi Landsbankans. Þó vera megi, að starfsmenn Seðlabanka Íslands hafi ekki verið sama sinnis og starfsmenn Landsbanka Íslands, verði þeir að una því, að ákvarðanir teknar á lögmætan hátt á lögmætum fundi í lífeyrissjóði, sem hvorir tveggja hafi verið félagar í, bindi þá, þótt þeir hafi verið ósammála ákvörðunum og verið í minnihluta, en valdi hvorki ólögmæti né skaðabótaskyldu. Einnig verði að hafa í huga, að meðan breytingarferlið hafi staðið yfir, hafi stefnandi enn verið starfsmaður stefnda, Seðlabanka Íslands, og hafi því haft fullt tilefni og aðstöðu til þess að fylgjast með breytingarferlinu og hvers kyns tillögum, sem fram voru komnar. Báðir sjóðsfélagsfundirnir, sem haldnir hafi verið í janúar og júlí 1997, hafi verið auglýstir á vinnustað stefnanda og umræður um breytinguna hafi farið fram í fréttabréfi stefnda, Seðlabankans.
Einnig byggja stefndu á tómlæti stefnanda. Stefnandi hafi ekki látið af störfum sínum fyrr en 31. mars 1998, en ekki gert athugsemdir við áhrif breytinga á verðmæli lífeyrisréttinda sinna, þótt hann hafi þá átt að hafa haft allar upplýsingar í höndum. Þetta tómlæti stefnanda valdi því, að jafnvel þótt hann hefði átt skaðabótakröfu, hefði sú krafa hans glatast með því að hafa hana ekki uppi við starfslok, eða gera aðra kröfu, sem hefði gert hann jafnsettan með tilliti til þeirrar kröfu, sem hann hafi nú uppi.
Stefndu mótmæla því, að dráttarvextir verði lagðir á fyrr en við uppsögu dóms í málinu og byggja á 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnað byggja stefndu á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Eins og að framan greinir lét stefnandi af störfum sínum hjá stefnda, Seðlabankanum, hinn 31. mars 1998, en þá hafði hann greitt í Lífeyrissjóð bankamanna frá árinu 1955. Er stefnandi lét af störfum var í gildi reglugerð um Lífeyrissjóð bankamanna nr. 669/1997, er tók gildi hinn 31. desember 1997. Ágreiningur máls þessa lýtur að réttindum stefnanda til lífeyrisgreiðslna eftir breytingar, sem gerðar voru á skipulagi stefnda, lífeyrissjóðsins, og tóku gildi fyrrgreindan dag.
Stefnandi byggir aðalkröfu sína, á hendur stefnda, Seðlabanka Íslands, á því, að samningssamband hafi verið á milli hans og Seðlabankans um starfskjör, þ.á m. eftirlaun og beri stefnda, Seðlabankanum, að efna það loforð, sem stefnanda hafi verið gefið. Starfsmenn stefnda, Seðlabankans, sem komið hafi að stjórn sjóðsins, hafi gjörþekkt gildi loforða forsvarsmanna bankans um launaviðmiðanir eftirlauna. Hafi þeim því borið að leggjast gegn þeim breytingum á reglugerðinni, er leitt hafi til kjaraskerðingar lífeyrisþega. Þeim starfmönnum stefnda, Seðlabankans, hafi mátt vera ljóst, að breytingar á reglugerðinni, sem orðið hafi, hefðu í för með sér skerðingu á réttindum, sem vernduð væru af stjórnarskránni. Stefndi, Seðlabankinn, hafi því verið mjög tengdur við breytinguna á reglugerðinni og beri á henni ábyrgð gagnvart stefnanda.
Hvorki verður af gögnum málsins né af framburði þeirra, sem gáfu skýrslu fyrir dómi, séð, að stefnanda hafi verið lofað því, sérstaklega, við ráðningu til starfans eða síðar, að lífeyrir hans yrði reiknaður með þeim hætti, sem kveðið var á um, að gert skyldi í reglum lífeyrissjóðsins fyrir breytinguna 1997. Hefur ekkert komið fram annað, en að stefnanda hafi verið lofað greiðslu lífeyris samkvæmt réttindum er hann ávann sér í lífeyrissjóði með framlagi sínu og framlagi stefnda, sem upplýst er, að var umfram það, sem venjulegt er, að vinnuveitandi inni af hendi, og samkvæmt reglum sjóðsins.
Stefndi, Lífeyrissjóður bankamanna, er samtryggingarsjóður, sem rekinn er sem sjálfseignarstofnun. Eins og fram hefur komið hafa gilt um sjóðinn reglugerðir, sem staðfestar hafa verið af fjármálaráðuneytinu. Fyrir gildistöku reglugerðarinnar nr. 669/1997 gilti um sjóð þennan reglugerð og útlánareglur frá 1988 fyrir eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans. Fyrir skipulagsbreytingarnar báru aðildarfyrirtæki sjóðsins ábyrgð á skuldbindingum hans í hlutfalli við aðild þeirra að sjóðnum. Við breytingarnar skuldbundu þau sig til að gera upp skuldir sínar við sjóðinn. Tók það loforð til allra skuldbindinga sjóðsins, eins og þær voru reiknaðar við breytingarnar, en eftir þær var að því stefnt, að ábyrgð aðildarfyrirtækjanna félli niður. Áttu eignir sjóðsins eftir það uppgjör að nægja fyrir skuldbindingum hans.
Í dómi Hæstaréttar frá 25. janúar 2001 í málinu nr. 249/2000, var fjallað um skipulagsbreytingar þær, sem urðu í lok árs 1997. Er þar sagt, að vanda hefði mátt betur undirbúning og framkvæmd skipulagsbreytinganna, en þær verði ekki ógiltar af þeim sökum. Stefnandi byggir á því, að annmarkar á málsmeðferðinni hafi verið meiri, en fram hafi komið í fyrrgreindum hæstaréttardómi. Þrátt fyrir þessa fullyrðingu stefnanda verður ekki séð, að tilhögun og undirbúningur fyrrgreindra skipulagsbreytinga hafi verið með öðrum hætti en þar er lýst og annmarkar á málmeðferðinni meiri, en þegar hafi komið fram og lýst er í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 249/2000. Þá verður ekki séð, að sú fullyrðing stefnanda, að hagsmunir starfsmanna Seðlabankans og Landsbankans hafi verið ólíkir og að starfsmenn Landsbankans hafi haft af því hag umfram starfsmenn Seðlabankans og fyrrverandi starfsmenn Landsbankans, að samþykkja breytingu á reglugerðinni, leiði til þess, að ógilda beri skipulagsbreytingar sjóðsins, sem taldar hafa verið gerðar á réttmætan hátt, þannig að gilt sé og dæmt hefur verið um með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar.
Stefnandi byggir og á því, að þar sem umræddar breytingar á skipulagi sjóðsins hafi falið í sér skerðingu á réttindum hans, séu breytingarnar ekki skuldbindandi gagnvart honum, þar sem í ljósi þess hefði þurft að vanda málsmeðferðina enn betur. Stefnandi hefur lagt fram útreikning tryggingastærðfræðings á því, að réttindi hans samkvæmt eftirmannsreglu, sem óumdeilt er, að gilti mestan hluta þess tíma, sem stefnandi greiddi iðgjöld í lífeyrissjóðinn, hefðu leitt til þess, að greiddur lífeyrir til hans þann tíma, sem hann hefur fengið greiddan lífeyri úr sjóðnum, hefði orðið hærri, sem nemur stefnufjárhæð. Samkvæmt því hefur stefnandi sýnt fram á, að lífeyrisgreiðslur til hans þann tíma, sem hann hefur þegið lífeyri úr sjóðnum, eru lægri með þeirri aðferð, sem nú er í gildi, að verðtryggja réttindi sjóðsfélaga miðað við vísitölu neysluverðs heldur, en ef eftirmannsreglunni væri beitt, eins og reglur sjóðsins kváðu á um mestan þann tíma, sem stefnandi greiddi í sjóðinn.
Réttur sá, sem stefnandi hafði áunnið sér, er breytingin varð á sjóðnum, nýtur verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, svo sem því var breytt með 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Hins vegar ber að líta til þess, að stefndi, Lífeyrissjóður bankamanna, er samtryggingarsjóður, og stefnandi hafði ekki hafið töku lífeyris fyrr en eftir að reglugerðin frá 1997 hafði tekið gildi. Í rökstuðningi héraðsdóms, sem fallist var á með dómi Hæstaréttar í margnefndu máli, kemur fram, að umrædd breyting á reglugerðinni feli í sér breytingu á aðferð til að verðtryggja rétt sjóðfélaga en breyti í raun ekki þeim eftirlaunaréttindum, sem þeir áttu í sjóðnum. Í dóminum, er fallist á, að málefnaleg rök standi til þess að taka upp annað verðtryggingarkerfi en eftirmannsregluna. Svo sem rakið hefur verið hér að ofan og dæmt hefur verið um með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 249/2000, um gildi reglugerðarinnar, ber að miða við það, að þar sem um samtryggingarsjóð sé að ræða, beri að fara eins með réttindi allra sjóðfélaga, sem eins hafi staðið á um. Þar sem undirbúningur og framkvæmd skipulagsbreytinganna í lok árs 1997 hefur ekki verið talin leiða til þess, að þær verði ógiltar af þeim sökum og ekki liggur annað fyrir, en að breyting sú, sem varð á aðferð við að verðtryggja réttindi sjóðfélaga þegar farið var að miða við vísitölu neysluverðs hafi verið lögmæt, var skerðing óvirkra lífeyrisréttinda sjóðfélaga, svo sem hún birtist í áðurnefndri reglugerð, og stefnandi hefur látið reikna, heimil gagnvart stefnanda.
Með vísan til alls framanritaðs ber því að sýkna bæði aðalstefnda, Seðlabanka Íslands og varastefnda, Lífeyrissjóð bankamanna, af öllum kröfum stefnanda.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt, að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.
Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndu, Seðlabanki Íslands, og Lífeyrissjóður bankamanna, eru sýkn af kröfum stefnanda, Sigurðar Arnar Einarssonar.
Málskostnaður fellur niður.