Hæstiréttur íslands
Mál nr. 354/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Hæfi dómara
|
|
Þriðjudaginn 3. júní 2014. |
|
Nr. 354/2014. |
Jörgen
Þór Þráinsson (sjálfur) gegn Íslandsbanka
hf. (enginn) |
Kærumál. Hæfi dómara.
Staðfestur
var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu J um að allir dómarar við
Héraðsdóm Reykjavíkur vikju sæti í máli Í hf. á hendur honum.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. maí 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að allir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur vikju sæti í máli varnaraðila á hendur honum. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og fyrrgreind krafa hans tekin til greina.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til þess sem rakið er í hinum kærða úrskurði eru engin efni til að verða við kröfu sóknaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2.
maí 2014.
Þetta
ágreiningsmál var þingfest 9. apríl sl. Sóknaraðili er Íslandsbanki hf.,
Kirkjusandi 2, Reykjavík, en varnaraðili er Jörgen Þór Þráinsson, Kirkjustétt
36, Reykjavík.
Í
þinghaldi 30. apríl sl. krafðist varnaraðili þess að allir dómarar við
Héraðsdóm Reykjavíkur vikju sæti. Lögmaður sóknaraðila mótmælti kröfunni.
Varnaraðila, sem flytur mál sitt sjálfur, og lögmanni sóknaraðila var í
þinghaldinu gefinn kostur á að tjá sig um þessa kröfu varnaraðila og var málið
að því loknu tekið til úrskurðar um kröfuna.
Málsástæður
og lagarök aðila
Varnaraðili
vísar til þess að hann hafi sent dómstólaráði erindi í tengslum við málflutning
í öðru máli milli sömu aðila vegna ljósmynda á veggjum dómhúss Héraðsdóms
Reykjavíkur af Íslandsbanka, og krafist þess að umræddar myndir yrðu teknar
niður. Ráðið hafi vísað varnaraðila á dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur.
Dómstjórinn hafi svarað erindi varnaraðila og hafnað kröfu hans um að taka
umræddar myndir niður. Varnaraðili byggir á því að afstaða dómstjóra Héraðsdóms
Reykjavíkur gæti haft áhrif á aðra dómara við dómstólinn, og vísar í því
sambandi til úrskurðar varadómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr.
E-1001/2014. Auk þess finnist varnaraðila forsaga og dómsathafnir í síðasta
dómþingi furðulegar, en í aðdraganda þess þinghalds hafi starfsmaður dómsins
sent varnaraðila tölvuskeyti þar sem fram komi að frekari læknisvottorð yrðu
ekki tekin gild. Varnaraðili sé ekki að reyna að tefja þetta mál með þessari
kröfu. Hann vísar til þess að annað mál sé í gangi milli sömu aðila fyrir
Héraðsdómi Reykjavíkur, nr. E-854/2011. Sættir hafi verið reyndar í því máli,
en ekki tekist. Mögulegar tafir í því máli séu báðum aðilum að kenna.
Lögmaður
sóknaraðila byggir á því að krafa sóknaraðila sé til þess eins að tefja þetta
mál. Varnaraðili hafi tafið annað mál milli sömu aðila. Þá tengist myndir á
veggjum dómhúss Héraðsdóms Reykjavíkur af Íslandsbanka ekkert hlutleysi
dómsins.
Niðurstaða
Krafa
varnaraðila um að allir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur víki sæti er ekki
reist á sérstökum tölulið í 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem
hefur að geyma reglur um sérstakt hæfi dómara til að fara með mál hverju sinni.
Af skriflegri beiðni varnaraðila um að allir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur
víki sæti, sem hann hefur vísað í til rökstuðnings kröfunni, má þó ætla að hann
telji að fyrir hendi séu önnur atvik eða aðstæður sem séu til þess fallnar að
draga óhlutdrægni allra dómara við dómstólinn með réttu í efa, sbr. g-lið 5.
gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla
kveður dómstjóri í einu lagi upp úrskurð um að dómarar víki allir sæti
í máli, fullnægi enginn dómari við héraðsdómstól sérstökum hæfisskilyrðum
til að fara með mál.
Varnaraðili mætti ekki til þinghalds
9. apríl sl. en tilkynnti um forföll vegna veikinda og sendi dóminum
læknisvottorð. Starfsmaður dómsins sendi varnaraðila boðun til nýs þinghalds
með tölvuskeyti 9. apríl sl. og tók þá m.a. fram að frekari læknisvottorð yrðu
ekki tekin gild í málinu. Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, var með málið
til meðferðar á þeim tíma og er setning hans út runnin. Núverandi dómari
málsins, Ingimundur Einarsson dómstjóri, tók við meðferð þess 30. apríl sl. en
hafði engin afskipti haft af málinu til þess dags. Það sem fram kemur í þessu
tölvuskeyti er því ekki til þess fallið að draga óhlutdrægni dómarans með réttu
í efa, enda er hann óbundinn af mati fyrri dómara, sbr. g-lið 5. gr. laga nr.
91/1991. Hið sama á við um aðra dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur
sendi varnaraðila tölvuskeyti 13. febrúar 2013 í tilefni af kröfu varnaraðila
um að teknar yrðu niður ljósmyndir af Íslandsbanka á 2. og 4. hæð dómhúss
Héraðsdóms Reykjavíkur. Dómstjóri hafnaði kröfunni. Í tölvuskeyti hans kemur
m.a. fram að ljósmyndir sem prýði veggi hússins séu í eigu Ljósmyndasafns
Reykjavíkur og sé ekki annað vitað en að þær hafi verið þar frá því Héraðsdómur
Reykjavíkur hóf starfsemi í húsinu árið 1992. Ljósmyndunum sé ætlað að varpa
ljósi á sögu borgarinnar og þróun byggðar í næsta nágrenni við dómhúsið. Ekki
verði með nokkru móti fallist á að þessar ljósmyndir geti falið í sér áróður
fyrir Íslandsbanka hf., sóknaraðila þessa máls, enda sé sóknaraðili fjarri því
hinn sami og var á árinu 1905, þótt hann beri sama nafn. Því síður verði tekið
undir þá skoðun að með ljósmyndunum sé með einhverju móti brotið í bága við
jafnræðisreglur eða ákvæði stjórnarskrárinnar. Með þessu tölvuskeyti tók
dómstjóri enga afstöðu til þess ágreinings sem fjallað er um í þessu máli, eða
til aðila málsins. Efni þessa tölvuskeytis er því ekki til þess fallið að draga
óhlutdrægni dómstjóra eða annarra dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur með réttu í
efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991.
Ekki verður séð að neinar aðrar
aðstæður, sem upp eru taldar í a- til f-lið 5. gr. laga nr. 91/1991, séu fyrir
hendi í máli þessu. Kröfu varnaraðila er því hafnað.
Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kröfu varnaraðila, Jörgens Þórs Þráinssonar, um að allir dómarar við
Héraðsdóm Reykjavíkur víki sæti, er hafnað.