Hæstiréttur íslands

Mál nr. 219/2017

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
Abdi Rahman Ali (Unnar Steinn Bjarndal hrl.)

Lykilorð

  • Skjalabrot
  • Vegabréf
  • Refsiákvörðun

Reifun

A, sómalískur ríkisborgari, var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa við vegabréfaskoðun framvísað við lögreglu í blekkingarskyni vegabréfi í eigu annars manns. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að A hafði játað skýlaust brot sitt og ekkert lægi fyrir um að hann hefði áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 30 daga en gæsluvarðhaldsvist sem hann hafði sætt kom til frádráttar refsingunni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. mars 2017 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Abdi Rahman Ali, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 382.594 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Unnars Steins Bjarndal hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness, föstudaginn 17. mars 2017

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefinni í dag, á hendur Abdi Rahman Ali, fæddum 31. desember 1995, ríkisborgara í Sómalíu, „fyrir misnotkun skjals, með því að hafa laugardaginn 11. mars 2017, er ákærði var í vegabréfaskoðun í flugstöð Leifs Eiríkssonar, framvísað við lögreglu í blekkingarskyni, finnsku vegabréfi nr. [...] á nafni [...], fd. [...], með gildistíma frá 07.12.2015 til 07.12.2020.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Um málavaxtalýsingu er skírskotað til ákæru.

Ákærði játaði brot sitt skýlaust fyrir dóminum eins og því er lýst í ákæru. Þykir með játningu ákærða, sem á sér stoð í gögnum málsins, sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir og er brot ákærða rétt heimfært til refsiákvæða í ákærunni.

Fyrir liggur að tollayfirvöld höfðu afskipti af ákærða við vegabréfaskoðun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er ákærði var á leið til Toronto í Kanada. Framvísaði ákærði finnsku vegabréfi, en strax mun hafa vaknað sterkur grunur um að ákærði væri ekki lögmætur handhafi þess. Við frekari rannsókn á vegabréfinu var staðfest að það tilheyrði öðrum manni, en það hafði hvorki verið tilkynnt stolið né týnt. Í skýrslutöku hjá lögreglu 12. mars sl. kvaðst ákærði hafa flogið frá Helsinki til Stokkhólms, þar sem hann hefði dvalið í tvo daga, en þaðan hefði hann flogið til Íslands. Þá kom fram hjá ákærða að hann hefði sótt um hæli sem flóttamaður í Finnlandi í maí 2016, en umsókn hans hefði verið hafnað í október síðastliðnum. Fyrir liggur að ákærði hefur ekki sótt um hæli sem flóttamaður hér á landi. Ákærði gaf sig ekki fram við stjórnvöld við komu sína til landsins og hefur ekki fært gildar ástæður fyrir því að hafa ekki gert það eða fyrir ólöglegri komu sinni hingað til lands.

Samkvæmt framangreindu hefur ákærði haft viðkomu í a.m.k. tveimur löndum Evrópu á för sinni til Íslands og hafði hann dvalið í Finnlandi í tæpt ár áður en hann kom hingað til lands. Ákærði var því ekki að koma til landsins beint frá landsvæði þar sem lífi hans, heilsu eða frelsi var ógnað, sbr. 32. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, þannig að leiða eigi til refsileysis. Hefur ákærði því unnið sér til refsingar.

Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði hefur gengist við broti sínu og verið samvinnuþýður. Þá er litið til þess að ekkert liggur fyrir um það að ákærði hafi áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Með hliðsjón af framangreindu og áralangri dómaframkvæmd þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Til frádráttar refsingunni komi með fullri dagatölu gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 12. mars 2017.

Ákærði greiði í sakarkostnað þóknun skipaðs verjanda síns, Theodórs Kjartanssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri.

Dómsorð:

Ákærði, Abdi Rahman Ali, sæti fangelsi í 30 daga, en til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 12. mars 2017.

Ákærði greiði í sakarkostnað þóknun skipaðs verjanda síns, Theodórs Kjartanssonar hdl., 200.000 krónur.