Hæstiréttur íslands

Mál nr. 424/2007


Lykilorð

  • Húsbrot
  • Líkamsárás
  • Skilorð


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. desember 2007.

Nr. 424/2007.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari)

gegn

Valdimar Trausta Ágeirssyni

(Guðmundur Ágústsson hdl.)

 

Húsbrot. Líkamsárás. Skilorð.

Tveir hundar, annar í eigu V, bitu nokkur lömb til dauða og voru í kjölfar þess skotnir. Er V kom til að sækja hræ af hundi sínum veittist hann með ofbeldi að eigendum fjárins, sem drepið hafði verið. Var hann sakfelldur fyrir líkamsárás í tvígang gegn A, sem taldist í báðum tilvikum varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og einu sinni gegn E með því að hrinda henni þannig að hún féll í jörðina með þeim afleiðingum að hún hlaut brot á efri hluta sköflungsbeins og tognun og eymsli á miðlægu hliðarbandi í hné. Taldist síðastgreind árás varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlag. V var hins vegar sýknaður af þeim þætti ákæru er varðaði húsbrot á heimili F og G. Refsing V þótti hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi skilorðsbundið til tveggja ára.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. júlí 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd.

Ákærði krefst sýknu af III. ákærulið en að héraðsdómur verði staðfestur að öðru leyti en hvað varðar ákvörðun refsingar fyrir brot samkvæmt II. ákærulið. Hann krefst þess að honum verði ekki gerð sérstök refsing í máli þessu.

I.

Svo sem nánar greinir í héraðsdómi var A, bóndi að B í C-hreppi, staddur á D að kvöldi 15. júní 2006. Hann hringdi heim til E konu sinnar til þess að segja henni að heimkoma hans myndi dragast. Hún sagði honum þá að þegar hún hafi komið úr fjárhúsunum skömmu áður hafi hún heyrt mikið jarm og ókyrrð í fénu sunnan við tún. Hún hafi gengið að og heyrt þá hund gelta og séð hvar hann var að hamast í fénu. Hún hafi flýtt sér heim og gert mági sínum F viðvart. Hann er refaskytta sveitarinnar og býr einnig í B ásamt konu sinni G, en þar er tvíbýli. Með kíki hafi E og séð annan hund á sömu slóðum. A flýtti sér heim og hitti konu sína og óku þau suður fyrir tún. Hún taldi sig þekkja annan hundinn, hann væri frá H 2 og hún hefði hringt þangað og sagt frá atburðinum.

Þegar komið var suður fyrir tún hittu þau F, sem þá hafði náð að fella báða hundana. Hann hafði fundið fimm nýdrepin lömb til viðbótar við eitt sem E hafði þegar fundið. Mikil ókyrrð var í fénu og mörg lömb virtust undanvillt. Þau fóru saman um næsta nágrenni og fundu fjögur lömb verulega blóðug á lærum, greinilega bitin. Síðar kom í ljós að hundarnir höfðu drepið samtals fimmtán lömb. Þau ákváðu að gera lögreglu viðvart og óska aðstoðar hennar. Lögreglan kom á staðinn og tók skýrslu. Að svo búnu var þess óskað að hún tilkynnti hundsdrápið að H 1. Lögreglumaður fór þangað og hitti þar fyrir húsfreyjuna og skýrði málið fyrir henni. Ákærði kom að B með syni sínum síðar um kvöldið. Íbúðarhús F og G er neðar en íbúðarhús A og E, og eru nærri 100 metrar á milli. Um kl. 22.30 urðu A og E vör við bíl sem ekið var eftir heimreiðinni og þóttust þau þekkja þar bíl frá H 1. Honum var ekið að húsi F. F hafði skömmu áður komið heim og sagt konu sinni hvað gerst hafði, læst húsinu og farið í sturtu. G heyrði bankað á þvottahúsdyrnar og fór til dyra. Þegar hún lauk upp var þar ákærði sem að sögn hennar ruddist inn og spurði hvar F væri. G kvaðst ekki hafa viljað að hann ryddist inn á F í sturtunni og því sagt að hann væri ekki heima, en ákærði ekki sagst trúa því. Kvað G að eftir nokkra pústra hafi hún náð að ýta ákærða út og skella í lás.

Þá fór ákærði að húsi A og E. A fór til dyra og stóð innan við þröskuldinn, sá að sonur ákærða stóð niðri á hlaði en ákærði gekk upp tröppurnar. A kvað ákærða þá hafa viðhaft tiltekin fúkyrði um B-menn. A hafi hváð við og ákærði þá endurtekið orð sín. Eftir nokkur frekari orðaskipti lagði ákærði hendur á A, svo sem nánar er lýst í héraðsdómi. Þar er og ítarleg lýsing á því sem gerðist í framhaldi um kvöldið.

II.

Ákærði er sakaður um að hafa brotið gegn heimilisfólki að B í fyrsta lagi með húsbroti hjá F og G, þá líkamsárás á A á tröppum og fyrir framan hús hans, því næst fyrir að hrinda E þegar verksummerki eftir dýrbítana voru skoðuð, og loks fyrir að veitast aftur að A í framhaldi af árásinni á E, allt eins og nánar greinir í ákæru.

G hefur lýst því að þegar hún heyrði barið að dyrum hafi hún tekið úr lás til að opna en þá hafi ákærði hrundið hurðinni upp og ruðst inn með látum, mjög æstur, og spurt um F. Hún hafi sagt að hann væri ekki heima og hún vissi ekki hvar hann væri. Ákærði hafi ætlað lengra inn en hún hafi hindrað hann. Hann hafi viðhaft mörg niðrandi ummæli um íbúa í B og þeim kæmi ekki við hvað hundar hans gerðu, það væri ekki þeirra mál. Hann hafi tekið tvisvar eða þrisvar í öxl henni og ýtt við henni. Hann hafi farið einu sinni út fyrir dyrnar og hún þá reynt að skella aftur en hann sett fótinn fyrir og komið aftur inn en svo hafi hún náð að setja hann út öðru sinni og þá skellt hurðinni aftur. Vegna æsingsins hafi ákærði verið ógnvekjandi. Ákærði viðurkennir að hafa tekið í húninn og ætlað inn án þess að banka en hurðin hafi verið læst og hann þá bankað. G hafi komið til dyra og hann farið inn og spurt um F og hún sagt að hann væri ekki heima, en ákærði hafi rengt hana. Sonur G og F var þarna með henni en hann gaf ekki skýrslu í málinu. Þegar þetta er virt verður að fallast á með héraðsdómi að gegn neitun ákærða sé ekki nægilega sannað að hann hafi framið húsbrot samkvæmt 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður niðurstaða héraðsdóms um þennan ákærulið því staðfest.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða í öðrum og þriðja ákærulið. Í fjórða ákærulið er ákærði sakaður um að hafa veist að A og skellt honum í jörðina. Ekki er gert að skilyrði að áverkar hljótist af árás til þess að hún verði felld undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Með framburði vitna þeirra er í héraðsdómi greinir er nægilega í ljós leitt að ákærði hafi framið þann verknað sem lýst er í þessum ákærulið og verður hann því sakfelldur fyrir hann.

 Ekki verður fallist á með héraðsdómi að atvik séu með þeim hætti að líta megi við ákvörðun refsingar til niðurlagsákvæðis 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga. Ákærði veittist með offorsi og ofbeldi að nágrönnum sínum. Með hliðsjón af framangreindu og forsendum héraðsdóms að öðru leyti þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Með hliðsjón af þessum málsúrslitum verður ákærða gert að greiða allan sakarkostnað málsins í héraði og áfrýjunarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans á báðum dómstigum, sem ákveðin eru í einu lagi að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Valdimar Trausti Ásgeirsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og áfrýjunarkostnað, samtals 536.998 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns, samtals 448.200 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 20. júní 2007.

A

Mál þetta, sem þingfest var 7. febrúar 2007 og dómtekið 10. maí sl., er höfðað af lögreglustjóranum á D með ákæru dagsettri 21. desember 2006 á hendur Valdimari Trausta Ásgeirssyni, fæddum 21. apríl 1965, til heimilis að H 1, D, ,,fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum:

I

Fyrir húsbrot, með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 15. júní 2006, um kl. 22:30, ruðst inn í íbúðarhús F, [KT.] og G, [kt.], að B í C-hreppi, D, og haft þar í hótunum við heimilisfólk.

Telst þetta varða við 231. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 123. gr. l nr. 82/1998.

II

Fyrir líkamsárás, með því að hafa að kvöldi sama dags, upp úr kl. 22:30, veist að A, [kt.], við íbúðarhús hans að B í C-hreppi, D, og þrifið í skyrtu hans, þar sem hann stóð í dyragættinni að húsinu, og dregið hann með sér niður steintröppur, yfir trépall og fram á hlað þar sem hann lagðist með annað hnéð yfir brjóstkassa hans.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

III

Fyrir líkamsárás, með því að hafa skömmu seinna sama kvöld, þegar ákærði skoðaði verksummerki eftir tvo hunda sem skotnir voru eftir að hafa bitið lömb til ólífis, sunnan fyrir túnin að bænum B, veist að E, [kt.] og hrint henni svo að hún féll í jörðina með þeim afleiðingum að hún hlaut brot á efri hluta sköflungsbeins og tognun og eymsli á miðlægu hliðarbandi í hné.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 11. gr. l. nr. 20/1981 og 111. gr. nr. 82/1998.

IV

Fyrir líkamsárás, með því að hafa í framhaldi af síðastgreindri líkamsárás, veist aftur að A, sunnan fyrir túnin á bænum B, og skellt honum í jörðina en afleiðingar líkamsárása ákærða á A voru þær að hann hlaut þreifieymsli við viðbein hægra megin og hruflsár á hægra hné auk þess sem hann marðist og hlaut lítilsháttar rispur á vinstra herðablaði.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

B

Málavextir

             Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar á D var hinn 15. júní 2006 óskað eftir því að lögreglan kæmi að býlinu B í C-hreppi vegna dýrbíta. Í B er tvíbýli og þar búa ásamt eiginkonum sínum bræðurnir F og A. Á vettvangi var lögreglu vísað á tvo dauða hunda sem F kvaðst hafa skotið. Lögreglumanninum var sagt að hundarnir væru frá bæjunum H 1 og H 2 en hundarnir voru sagðir valdir að dauða nokkurra lamba. Á staðnum var þess óskað að lögreglumaðurinn tilkynnti ákærða um atburðinn. Lögreglumaðurinn fór á heimili ákærða og hitti þar fyrir húsfreyju og skýrði málið fyrir henni. Nokkru síðar hafði A samband við lögreglu og lét vita af heimsókn ákærða til þeirra bræðra. Í frumskýrslu lögreglu er lýsing atburða höfð eftir A og þar kemur fram að ákærði hafi ruðst inn á heimili F og síðan hafi hann komið á heimili A og m.a. dregið A niður tröppur fyrir utan húsið. Hann hafi heimtað að fá hund sinn afhentan og A hafi farið með ákærða og vísað honum á hundinn. Ákærði hafi síðan ráðist að E, eiginkonu A, og síðar einnig aftur að A. Í skýrslunni er tekið fram að A ætli að leggja fram kæru á hendur ákærða vegna þessa.

             Hinn 25. júní 2006 komu A og E á lögreglustöðina á D í þeim tilgangi að leggja fram kæru á hendur ákærða jafnframt því sem þau áskildu sér rétt til fébóta úr hendi ákærða. Við komuna á lögreglustöðina lögðu þau hjónin fram það sem þau kalla ,,Greinargerð vegna atburða sem urðu í B 15. júní 2006.“ Formleg lögregluskýrsla var ekki tekin af þeim hjónum, hvorki í þetta sinn né síðar. Ákærði mætti samkvæmt boðun til skýrslutöku hjá lögreglu hinn 20. júlí 2006. Honum var kynnt sakarefnið sem líkamsárás gagnvart hjónunum A og E. Hann kaus að tjá sig ekki um málið.

             Gylfi Þormar læknir ritaði vottorð varðandi E. Í vottorðinu kemur fram að E hafi leitað til læknisins hinn 16. júní 2006. Þá hafi hún stungið við með vinstra fæti og haltrað. Við þreifingu hafi komið fram eymsli um hnélið en þó sýnu mest yfir miðlægu hliðarliðbandi. Krossbönd hafi virst heil. Tekin hafi verið röntgenmynd en engin brot hafi sést. Hinn 22. júní kom E aftur til læknisins og var þá frekar á batavegi. Við skoðun hafi hún enn verið með eymsli yfir hliðarliðbandi en engin merki hafi verið um rof á liðböndum og hreyfiferill hafi verið nánast eðlilegur. Viku síðar hafi E enn verið á batavegi en þó með verki umhverfis liðband og því hafi verið ákveðið að gera segulómmynd af hnénu á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Í vottorði sínu tekur læknirinn beint upp svohljóðandi svar sjúkrahússins á Akureyri:  ,,Teknar eru hefðbundnar myndaraðir án gadolinum styrkingar. Talsverðar hásignalbreytingar í beinmerg/beinmar í öllum condylus lateralis femoris. Það má sjá niðurpressað brot aftantil í laterala tibiacondyl ca 2x2.5 cm að stærð og er brotflasinn niðurpressaður um 1-2 mm. Það er aukið vökvamagn í lið sem leggst upp í suparapatellar bursu. Báðir meniscar heilir. Fremra og aftara krossband heil. Hliðarbönd heil. Diffuse hásignalbreytingar/mar í mjúkvefjum pariarticulert. Mælt með TS rannsókn af hné til frekari glöggvunar.“ Í svari röntgendeildar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri vegna tölvusneiðmyndar af hné segir svo: ,,Eins og sást af nýlegri segulómrannsókn er vompressions fraktura aftan til á latera tibia condyl. Svæðið er 2x1 cm að stærð og pressað niður um 2-3 mm. Þetta copmpressionssvæði er rétt yfir fibulahausnum. Það má sjá smábrot fragment alveg í jaðri svæðisins posteriort. Önnur áverkamerki greinast ekki.“ Það er síðan niðurstaða læknisins að E hafi við áverkann hlotið brot á efri hluta sköflungsbeins og tognun á miðlægu hliðarliðbandi.

             Sami læknir ritaði vottorð um áverka A sem leitaði til hans 16. júní 2006. Í vottorði læknisins kemur fram að A hafi lýst því að hann hafi verið með stöðugan verk hægra megin um ofanverðan brjóstkassa og leiði verk aftur í herðablað sömu megin. Verkurinn aukist við djúpa öndun og þá hafi hann tak við hreyfingar á öxl. Sýnilegum áverkum A lýsir læknirinn þannig að hann hafi verið með nýlegt hrufl og lítilsháttar rispur með roða á vinstra herðablaði á um 6x7 cm svæði. Hruflsár hliðlægt á hægra hné í hæð við nærenda dálkbeins 1-2 cm að stærð. Þreifieymsli í brjóstkassa í miðviðbeinslínu hægra megin rétt neðan geirvörtu. Óbein eymsli leiða þangað við þrýsting á brjóstkassa og öndun en lungnahlustun hafi verið hrein. Í vottorðinu kemur fram að ekki sé hægt að útiloka sprungu í rifbeini en þó sé ekki hægt að fullyrða að svo hafi verið. Við síðari komu lýsti A marbletti á rasskinn hægra megin sem ekki var kominn fram við fyrstu skoðun.

C

             Framburður fyrir dómi.

Ákærði kvaðst hafa komið að B ásamt syni sínum að kvöldi 15. júní 2006 í þeim tilgangi að sækja hund í hans eigu sem hafði verið drepinn. Hann bar að lögreglan hefði greint frá því hvers vegna hundurinn var drepinn en þessi hundur hefði aldrei áður sýnt af sér neina háttsemi í þessa átt. Ákærði kvaðst hafa farið að heimili F og bankað þar upp á. G, eiginkonan F, hafi komið til dyra og opnað og hann hafi farið inn í anddyrið. Ákærði kvað G ekki hafa amast við því að hann stigi inn fyrir dyrnar. G hafi sagt að F væri ekki heima en hann hafi vitað betur, enda séð til hans skömmu áður. Ákærði neitaði því alfarið að til einhverra átaka hafi komið milli sín og G. Eftir þetta hafi hann farið að heimili A þar sem hann hafi ekki fengið upplýsingar um það hvar hundurinn var hjá F. Ákærði kvaðst ekki hafa viljað láta hundinn liggja dauðan á víðavangi um nóttina.

Ákærði játaði skýlaust háttsemi þá sem greinir í II. tölulið ákæru. Hann kvaðst hafa komið heim til A og hitt hann á tröppunum og spurt um hundinn en A hafi þá sagt honum að það stæði ekki til að afhenda honum hundinn. Hann hafi spurt A hvers vegna ekki var talað við hann eða hans fólk þannig að þau hefðu einhverja möguleika á að stoppa hundana og hvort ekki hefði mátt hrekja þá heim í stað þess að skjóta þá. A hafi þá byrjað niðrandi ræðuhöld og sagt að hann væri í fullum rétti með að skjóta hundana. Ákærði bar að við þetta hafi fokið í sig og hann hafi þá tekið í skyrtu A og dregið hann eins og lýst er í ákærunni.

Eftir þau átök sem lýst er í ákærulið II hafi A fallist á að koma með honum og sækja hundinn en í fyrstu hafi hann ekki viljað gera það. Þegar þeir komu að hundunum hafi þeir séð nokkur dauð lömb. E, eiginkona A, hafi verið mjög æst og látið ófriðlega, hún hafi hvatt þá feðga mjög til að horfa á dauðu lömbin jafnframt því sem hún hafi ,,hrifsað eitthvað í strákinn og skipað honum að horfa á þetta“ eins og ákærði komst að orði. Ákærði kvaðst ekki hafa séð neinn tilgang í því að drengurinn væri að horfa á dauð lömb. Ákærði kvaðst hafa sagt E að hann sæi ekki sérstakan tilgang í því að strákurinn horfði á lömbin þar sem skaðinn væri skeður. Ákærði kvaðst hafa verið reiður á þessum tímapunkti þar sem ljóst hafi verið að hundurinn hafi verið skotinn oftar en einu sinni og greinilega af löngu færi. Auk þess hafi það valdið nokkrum harmi á heimili hans að búið var að skjóta heimilishundinn. Ákærði neitaði alfarið að hafa ráðist að E á þessum tíma og taldi að hún hefði dottið í þýfinu sem þarna var en það hafi ekki verið af hans völdum, enda hafi hann ekki snert hana eða A, bónda hennar, á þessum tíma. Ákærði kvaðst hafa séð 6 dauð lömb en hann hafi greitt bætur sem svara til helmings andvirðis 15 lamba, enda verið krafinn um það, en hann einungis átt annan hundinn.

             Vitnið F kvaðst hafa skotið hundana tvo af tiltölulega stuttu færi og hæft þá strax en það hafi verið E, mágkona hans, sem lét hann vita af atburðinum. Meðan hann var á svæðinu hafi fleira fólk komið að, meðal annars drengur frá H 2 og faðir hans, og þá hafi E, mágkona hans, einnig komið og síðar A, bróðir hans. Vitnið kvaðst hafa látið A það eftir að ákveða hvað gert yrði í málinu þar sem hann hafi átt nánast allt féð sem þarna var. Í framhaldi af þessu hafi lögreglumaður komið á vettvang. Vitnið kvaðst hafa farið heim til sín eftir þetta og kona hans og sonur hafi tjáð honum að ákærði hefði komið meðan hann var í sturtu. Þau hafi sagt honum hvað gerðist þegar ákærði kom en hann hafi ekki orðið var við komu ákærða. Vitnið bar að kona hans hafi sagt honum að ákærði hefði barið hressilega að dyrum og hún opnað og þá hafi ákærði ruðst inn. Vitnið kvaðst ekki vita hvers vegna eiginkona hans ákvað að segja að hann væri ekki heima þegar ákærða bar að garði.

Vitnið G bar að nokkru eftir að hún frétti af því að hundar hefðu farið í fé á bænum hafi ákærði komið að heimili hennar og knúið dyra. Hún hafi farið til dyra og um leið og hún opnaði dyrnar hafi ákærði hrint hurðinni upp, ruðst inn og spurt um F. Hún hafi sagt ákærða að hann væri ekki heima en hann hafi verið í sturtu og hún hafi ekki viljað að ákærði færi til hans. Vitnið bar að ákærði hafi verið mjög æstur og farið ófögrum orðum um ábúendur á B en henni hafi orðið bilt við. Vitnið bar að ákærði hefði komið óboðinn inn í forstofuna og ætlað sér lengra inn í húsið en hún hafi komið í veg fyrir það. Vitnið kvaðst ítrekað hafa sagt ákærða að bóndi hennar væri ekki heima í von um að hann myndi hverfa á braut og það hafi hann gert, en áður en hann gerði það hafi hann tvisvar til þrisvar sinnum tekið í öxlina á henni og ýtt við henni. Vitnið bar að sonur ákærða hefði verið með honum í för og hann hafi einnig komið inn í húsið. Þá kvað hún son sinn einnig hafa verið þarna.

Vitnið A kvaðst hafa verið á D þegar hundarnir fóru í féð. Þegar hann kom heim hafi verið búið að finna nokkur dauð lömb og nokkur særð. Hann kvaðst hafa haft samband við lögreglu til þess að gefa skýrslu um málið. Vitnið bar að eftir að lögreglan hafi verið farin af vettvangi hafi ákærði komið að heimili hans. Vitnið kvaðst ekki muna vel orðaskipti við ákærða á tröppunum fyrir framan heimili vitnisins en hann bar að ákærði hefði verið mjög æstur. Vitnið sagði að hann hafi alltaf verið tilbúinn að vísa ákærða á hundinn en hvort hann var búinn að því áður en ákærði réðst að honum mundi vitnið ekki en taldi þó að hann hefði verið búinn að segja ákærða að hundurinn væri ekki heima hjá honum. Þá lýsti vitnið því sem fellur undir ákærulið II. Hann kvaðst hafa hlotið eymsl við árás ákærða. Vitnið kvaðst aldrei hafa staðið í vegi fyrir því að ákærði fengi hundinn sinn afhentan og eftir árás ákærða hafi hann ásamt eiginkonu sinni farið með ákærða suður fyrir tún og vísað honum á hundana. Vitnið bar að E, eiginkona sín, hafi hvatt ákærða mjög með hvössum rómi en án stóryrða til að horfa líka á lömbin. Ákærði hafi brugðist mjög illa við þessu. Hann hafi hent frá sér hundinum sem hann var með í fanginu og hlaupið á E og hrint henni. Við þetta hafi E dottið aftur fyrir sig og til vinstri hliðar. Vitnið kvaðst þá hafa sennilega sagt við ákærða að hann væri skítlegt lítilmenni en þá hafi ákærði ráðist að honum. Vitnið bar að hann hafi verið viðbúinn árásinni og hann hafi því staðið aðeins á móti ákærða en þegar hann fann mikinn verk í síðunni hafi hann leyft ákærða að leggja sig niður. Þessi árás hafi ekki orðið honum að meini því hann hafi ekki meiðst neitt við hana umfram það sem áður var. Eftir þetta hafi ákærði farið af vettvangi og sonur hans með honum en hann hafi verið þarna allan tímann en ekki haft sig mikið í frammi. Vitnið kvaðst hafa haft samband við lögreglu símleiðis eftir þetta og daginn eftir hafi þau hjón leitað til læknis. Vitnið kvaðst hafa jafnað sig nokkuð fljótt af þeim meiðslum sem hann varð fyrir en hann hafi verið með marbletti víða um líkamann og hugsanlega brákað rifbein. Vitnið bar að ekki hafi verið sérstakir kærleikar milli sín og ákærða fyrir þennan atburð. Ákærði hafði kvartað undan því að fé vitnisins hefði farið í túnið hjá honum.

             Vitnið E kvað ákærða hafa komið að heimili hennar umrætt kvöld. A, eiginmaður hennar, hafi farið til dyra en hún hafi séð milli stafs og hurðar að bóndi hennar lá flatur fyrir utan en hún hafi ekki farið út meðan ákærði réðist að A. Eftir átökin hafi A beðið hana um að koma með sér og ákærða suður fyrir tún en ákærði hafði beðið um að fá hund sinn afhentan. Vitnið bar að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að afhenda ákærða hundinn. Vitnið greindi frá því að þegar þau komu á staðinn þar sem lömbin og hundarnir voru hafi ýmis orð gengið á milli þeirra en hún hafi á þessum tíma verið orðin æst og það hafi ákærði líka verið. Sonur ákærða hafi verið með honum í för og hann hafi viljað taka báða hundana og þau hjón hafi ekki staðið í vegi fyrir því. Vitnið kvað ákærða hafa tekið annan hundinn í fangið en allt í einu hafi hann hent hundinum og rokið að henni og sett höndina framan á hana og hrint henni í þúfurnar. Hún kvaðst hafa staðið á fætur en verið með verki í vinstra hné. A hafi þá haft einhver orð við ákærða um að hann réðist að konu og þá hafi ákærði snúið sér að honum og sett hann milli þúfna líka. Vitnið kvað ákærða hvorki hafa slegið hana né A. Hún sagðist hafa farið til læknis daginn eftir atvikið og í framhaldi af því hafi hún farið í sjúkraþjálfun en þrátt fyrir það sé hún enn aum í hnénu.

Vitnið I lýsti því að hann hafi ásamt föður sínum komið að heimili G og F og bankað upp á. G hafi komið til dyra ásamt syni sínum og þá hafi faðir hans spurt hvort F væri heima en þeim hafi verið sagt að svo væri ekki. Vitnið bar að nokkur orðaskipti hafi átt sér stað en þeir hafi staðið í dyragættinni. Eftir þetta hafi þeir haldið að heimili A og E en hann mundi ekki hvort annað þeirra eða þau bæði komu til dyra. A hafi ekki viljað afhenda þeim hræin af hundunum og þá hafi faðir hans þrifið í A og togað hann niður tröppurnar og í framhaldi af því sett hnéð ofan á A og sagt honum að afhenda hræin af hundunum og þá hafi A samþykkt það. Eftir þetta hafi þeir farið út í móa þangað sem hundarnir voru og dauðu lömbin. Að sögn vitnisins var æsingur í fólki á þessum tíma og ófögur orð gengu á milli. E hafi verið með einhverja stæla og gengið utan í föður hans og hann hafi þá ýtt henni frá án þess að hún félli í jörðina en vitnið kvaðst ekki hafa séð nein átök þarna í móanum.

             Vitnið Gylfi Þormar læknir kvað E hafa leitað til sín vegna verkja í vinstra fæti. Hann hafi skoðað hana og þá hafi hún verið með eymsli við hnjáliðinn. Á röntgenmynd hafi ekki sést nein brot. Hann hafi ákveðið að senda hana til frekari skoðunar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og þá hafi komið í ljós breytingar bæði í vefjum umhverfis liðinn og brot í sköflungsbeininu. Vitnið staðfesti vottorð sitt og taldi áverka þá sem þar er lýst vel geta samrýmst því að E hafi fallið aftur fyrir sig eða til hliðar þannig að í raun hafi neðri hluti fótleggjar setið eftir meðan búkurinn hafi fallið til hliðar. Við það hafi getað myndast ankannalegt álag þannig að lærleggsbeinið hafi gengið niður á sköflungsbeinið og brotið út úr efri hluta sköflungsbeinsins, en áverka sem þennan sé ekki unnt að kalla neitt annað en beinbrot. Við þennan áverka hafi komið óeðlilega mikið tog á liðbandið sem valdi tognun á því. Vitnið bar að ekki væri hægt að útiloka að beinbrotið hafi orðið á þeim tíma sem leið milli þess sem hann skoðaði E í fyrsta og annað sinn.

             Vitnið staðfesti einnig vottorð sem hann ritaði varðandi A.

D

Niðurstaða

             Ákærða er í fyrsta lagi gefið að sök að hafa ruðst inn í íbúðarhús F og G. Ákærði hefur staðfastlega neitað sök varðandi þennan þátt ákærunnar. Ákærði hefur viðurkennt að hafa stigið inn í anddyri hússins en neitar alfarið að hafa ruðst þar inn. Í málinu eru ekki önnur gögn sem styðja sakfellingu en framburður vitnisins G. Samkvæmt gögnum málsins var sonur G og F með henni þegar hún fór til dyra og upplýstist það strax og þau gáfu skýrslu hjá lögreglu en af honum hefur ekki verið tekin skýrsla við rannsókn málsins. Gegn staðfastri neitun ákærða verður hann ekki sakfelldur fyrir þennan lið ákærunnar.

             Ákærði hefur játað háttsemi þá sem lýst er í öðrum lið ákærunnar. Játning hans er í samræmi við gögn málsins og er háttsemi hans réttilega færð til refsiákvæða í ákæru og er hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem þar er lýst.

             Í þriðja lið ákærunnar er ákærða gefið að sök að hafa veist að E og hrint henni þannig að hún féll í jörðina með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru. Framburður ákærða og vitna er rakinn hér að framan. Af framburði þeirra verður ráðið að nokkur orðaskipti áttu sér stað milli ákærða og sonar hans annars vegar og hjónanna E og A hins vegar. Fullyrða má að þessi samskipti hafi ekki verið á vinsamlegum nótum, enda var slíkt óhugsandi miðað við það sem á undan var gengið. Ákærði hefur staðfastlega neitað sök varðandi þennan ákærulið. Vitnin E og A hafa bæði lýst því að ákærði hafi hrint E og hún fallið til jarðar. Þá hefur vitnið I, sonur ákærða, einnig borið að ákærði hafi ýtt við E þótt hann hafi ekki séð hana falla til jarðar. Í málinu liggur fyrir ítarlegt vottorð Gylfa Þormar læknis. Af því má ráða að E hefur orðið fyrir nokkrum áverkum. Þegar horft er til framburðar E, A og I, vottorðs Gylfa Þormar og annarra gagna málsins þykir ekki óvarlegt að sakfella ákærða fyrir þá háttsemi sem lýst er í þriðja lið ákærunnar. Brotið er í ákæru réttilega heimfært til refsiákvæða.

             Í fjórða lið ákærunnar er ákærða gefið að sök að hafa veist að A fyrir sunnan túnin að bænum B og skellt honum í jörðina. Ákæran er þannig fram sett að meiðslunum sem A varð fyrir er lýst í einu lagi í lok fjórða liðar ákæru. Er því ekki greint á milli þeirra áverka sem hann kann að hafa orðið fyrir við árásina sem lýst er í öðrum lið ákærunnar og þeirra áverka sem kunna að hafa komið til við þá árás sem lýst er í fjórða lið ákæru. Áður er þess getið að ákærði hefur játað háttsemi þá sem lýst er í öðrum lið ákærunnar. Af framburði vitna verður varla annað ráðið en ákærði hafi veist að A fyrir sunnan túnin að B. Framburður vitnanna verður þó varla skilinn á annan hátt en þann að ákærði hafi lagt A í jörðina í þetta sinn. Þegar tekið er mið af þeim átökum sem áður höfðu orðið milli ákærða og A heima við íbúðarhúsið að B er afar líklegt að A hafi hlotið alla þá áverka sem lýst er í vottorði læknis og vísað er til í ákæru við þá árás. Verður hann því sýknaður af þessum lið ákærunnar.

             Ákærði hefur einu sinni áður sætt refsingu en hann var á árinu 1999 dæmdur í eins mánaðar fangelsi skilorðsbundið til tveggja ára fyrir brot gegn 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og fyrir ölvun við akstur. Að teknu tilliti til 71. gr. nefndra hegningarlaga hefur brot þetta ekki áhrif á niðurstöðu máls þessa. Þá má horfa til niðurlagsákvæðis 3. mgr. 218. gr. b. nefndra hegningarlaga varðandi ákærulið III. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í einn mánuð en fullnustu refsingarinnar skal frestað og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

             Með hliðsjón af því að ákærði hefur verið sýknaður af tveimur ákæruliðum og því að hann hefur frá upphafi meðferðar málsins fyrir dómi játað sök varðandi einn lið ákærunnar þykir rétt að hann greiði helming sakarkostnaðar. Samkvæmt yfirliti rannsóknara nam sakarkostnaður við rannsókn málsins 26.500 krónum. Málsvarnarlaun verjanda ákærða, Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns, þykja hæfilega ákveðin 199.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Loks telst ferðakostnaður verjanda að fjárhæð 33.320 krónur til sakarkostnaðar.

             Af hálfu ákæruvalds sótti málið Björn Hrafnkelsson, fulltrúi lögreglustjórans á D.

             Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómarans.

DÓMSORÐ

             Ákærði, Valdimar Trausti Ásgeirsson, sæti fangelsi í einn mánuð en fullnustu refsingarinnar er frestað og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

             Ákærði greiði helming 259.020 króna sakarkostnaðar, þar með talin 199.200 króna málsvarnarlaun Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns. Málsvarnarlaun innifela virðisaukaskatt.