Hæstiréttur íslands
Mál nr. 724/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Gagnkrafa
- Riftun
- Kröfugerð
- Skuldajöfnuður
|
|
Fimmtudaginn 20. mars 2014. |
|
Nr. 724/2013.
|
Íbúðalánasjóður (Heiðar Ásberg Atlason hrl.) gegn ALMC hf. (Gísli Guðni Hall hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Gagnkrafa. Riftun. Kröfugerð. Skuldajöfnuður.
Í árslok 2007 og janúar 2008 festi Í kaup á skuldabréfum útgefnum af A hf. Skuldabréfin voru tengd við lánshæfi K hf. og urðu verðlaus að kalla eftir að F tók yfir stjórn K hf. í október 2008. Samkvæmt skilmálum skuldabréfanna féll greiðsluskylda A hf. vegna þeirra niður við atvik á borð við yfirtöku F á K hf. og hagnaðist A hf. því verulega á útgáfu og sölu skuldabréfanna, sem hann eftir atvikið þurfti ekki að greiða, en Í tapaði að sama marki fé. Í kjölfarið bar A hf. og Í þó saman um að greiðsluskylda A hf. hefði ekki fallið niður að öllu leyti, þótt þá greindi á um umfang hennar. Að undangengnum viðræðum Í og A hf. eftir fall K hf. gerðu þeir með sér samning 14. október 2008 sem fól í sér að A hf. skyldi kaupa fyrrgreind skuldabréf á nafnverði, en að auki skyldi A hf. kaupa tiltekin skuldabréf, svonefnd íbúðabréf, útgefin af Í auk þess sem Í skuldbatt sig til að leggja tiltekna fjárhæð inn á reikning hjá A hf. Við slit A hf. lýsti Í kröfum vegna síðastgreindrar innstæðu, vegna vaxtaskiptasamnings sem málsaðilar höfðu gert með sér og lýsti aukinheldur yfir skuldajöfnuði við kröfur sem A hf. kynni að eiga á hendur Í. Slitastjórn A hf. skipaði fyrstgreindum tveimur kröfum Í í réttindaröð við slitin sem almennum kröfum, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með bréfi til Í 4. maí 2010 lýsti A hf. yfir riftun á fyrrgreindum samningi þeirra 14. október 2008, með skírskotun til þess að hann hefði falið í sér eftirgjöf A hf. á hagsmunum tilgreindrar fjárhæðar, og skuldajafnaði þeirri fjárhæð við almennar kröfur Í sem viðurkenndar höfðu verið við slitin. Ágreiningi málsaðila um þessa gagnkröfu A hf. var vísað til úrlausnar héraðsdóms, sem rifti kaupum A hf. á skuldabréfunum af Í og viðurkenndi rétt A hf. til skuldajafnaðar við kröfu Í 4. maí 2010. Kærði Í úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar. Fyrir Hæstarétti hafði Í meðal annars uppi kröfu um frávísun málsins frá héraðsdómi á þeim grundvelli að kröfugerð A hf. um riftun samningsins 14. október 2008 væri áfátt og uppfyllti ekki skilyrði laga nr. 21/1991. Hæstiréttur tók undir það að tilgreindir annmarkar væru á kröfugerðinni en taldi að þrátt fyrir það hefði vörnum Í gegn kröfunni ekki orðið áfátt af þeim sökum. Hæstiréttur sló því næst föstu að A hf. hefði sýnt nægilega fram á að í samningnum 14. október 2008 hefði falist veruleg eftirgjöf hagsmuna af hans hálfu og að Í hefði hvorki freistað þess með matsgerð né öðrum fullnægjandi hætti að sanna að í samningnum hefði ekki falist gjöf í merkingu 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, sem A hf. reisti riftunarkröfu sína á. Talið var sannað að með gerð samningsins hefði það vakað fyrir A hf. að létta einhverju af því tapi sem Í varð fyrir er skuldabréfin urðu verðlaus, en í þeim löggerningi hefði falist að eignir A hf. hefðu skerst sem nam ætlaðri auðgun Í. Skírskotað var til þess að regla 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 væri hlutlæg riftunarregla og skipti því ekki máli, að öðru leyti en varðaði tilgang ráðstöfunarinnar, hver huglæg afstaða aðila hefði verið er ráðstöfunin var gerð. Þá var vísað til þess að ráðstöfunin hefði verið gerð á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag A hf. Að öllu virtu var fallist á að rifta ætti þeirri gjöf sem falist hefði í samningnum 14. október 2008. Loks vísaði Hæstiréttur til þess að ekki væri ágreiningur um að skuldajöfnuður ætti að fara fram ef fallist væri á riftunarkröfu A hf. og taldi að ekki væru skilyrði til að miða réttaráhrif skuldajafnaða við annað tímamark en 4. maí 2010, þegar riftun og skuldajöfnuði var lýst yfir af hálfu A hf.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Hrafn Bragason fyrrverandi hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. október 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2013 þar sem rift var kaupum varnaraðila 14. október 2008 á fjórum lánshæfistengdum skuldabréfum af sóknaraðila samtals að fjárhæð 9.786.139.600 krónur og viðurkenndur réttur varnaraðila til skuldajafnaðar við kröfu sóknaraðila að fjárhæð 2.720.955.706 krónur 4. maí 2010. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfum varnaraðila verði vísað frá dómi en ella hafnað. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna öllum lýstum kröfum sínum á hendur varnaraðila að fjárhæð 2.720.955.706 krónur miðað við 9. mars 2009. Þá krefst hann ,,bóta að fjárhæð kr. 2.720.955.706 samkvæmt 3. mgr. 100. gr. laga ... nr. 21/1991 og að viðmiðunardagsetning ... sé 9. mars 2009“ hafi varnaraðili ráðstafað eftir 9. mars 2009 viðskiptabréfum útgefnum af sóknaraðila. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 10. mars 2014.
I
Málsatvikum er lýst í stuttu máli í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir á málið rót sína að rekja til ágreinings um kröfu sóknaraðila, er hann lýsti 17. júlí 2009 við slit varnaraðila sem þá hét Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki hf. Krafa sóknaraðila var í tveimur liðum. Annars vegar lýsti hann sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, kröfu vegna innstæðu að fjárhæð 2.082.371.909 krónur sem hann átti hjá varnaraðila. Hins vegar lýsti hann sem almennri kröfu 473.674.250 krónum vegna vaxtaskiptasamnings, sem hann hafði gert við varnaraðila. Þá lýsti sóknaraðili yfir skuldajöfnuði við kröfur sem varnaraðili kynni að eiga á hendur honum vegna svonefndra íbúðabréfa, en þau hafði sóknaraðili gefið út. Slitastjórn varnaraðila féllst á að sóknaraðili ætti kröfu vegna innstæðu, en sú krafa var einungis viðurkennd sem almenn krafa. Þá féllst slitastjórnin einnig á kröfu vegna vaxtaskiptasamningsins.
Með bréfi varnaraðila 4. maí 2010 til sóknaraðila var upplýst að fram hefði farið sérstök athugun á lögskiptum aðila sem leiddu til samnings þeirra 14. október 2008 um kaup varnaraðila á skuldabréfum, sem tengd hafi verið við ,,gengi skuldabréfa Kaupþings banka hf.“ Í bréfinu sagði meðal annars svo: ,,Með samningi þessum keypti Straumur umrædd skuldabréf, sem ILS hafði fjárfest í, en þau voru vegna falls Kaupþings banka hf. orðin verðlítil. Kaupverð bréfanna var upphaflegt nafnverð þeirra. Á móti komu önnur atriði inn í uppgjörið sem drógu úr tapi Straums af þeim viðskiptum, sem voru einkum fólgin í lágum vöxtum á innstæður ILS hjá Straumi samkvæmt samningnum og lágt gengi skuldabréfa (HFF-bréfa) sem Straumur keypti af ILS. Slitastjórn telur að Straumur hafi í þessum samningi fallist á eftirgjöf gagnvart ILS“. Var í framhaldinu gerð grein fyrir því að kaupverð skuldabréfanna fjögurra hafi verið 9.786.139.600 krónur en frá því ætti að dragast ,,Gengisleiðrétting vegna keyptra HFF-bréfa“ 4.895.154.050 krónur og 648.331.749 krónur sem varnaraðili teldi svara til endurheimtuhlutfalls krafna á hendur Kaupþingi banka hf. í nóvember 2008. Riftunarkrafa varnaraðila samkvæmt þessu væri 4.242.654.236 krónur. Hafi samningurinn 14. október 2008 falið í sér eftirgjöf varnaraðila á hagsmunum, sem þeirri fjárhæð næmi. Síðar sagði í bréfinu: ,,Þessi eftirgjöf átti sér stað á tíma sem er innan 6 mánaða fyrir frestdag við slitameðferð Straums og er af þeirri ástæðu riftanleg samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Slitastjórn lýsir hér með yfir riftun á samningnum 14. október 2008 og skuldajafnar ofangreindri fjárhæð við viðurkenndar almennar kröfur“ sóknaraðila, sem þar með eyðist út. Í framhaldinu var útlistað hvaða kröfur sóknaraðila kæmu til skuldajafnaðar en það væri svonefnd búskrafa 164.909.477 krónur vegna ráðstöfunar varnaraðila á viðskiptabréfum sem sóknaraðili hafði gefið út, áðurnefndar tvær kröfur sem sóknaraðili hafði lýst við slit varnaraðila og hann fallist á sem almennar kröfur, en að við bættist inneign varnaraðila hjá sóknaraðila 61.782.981 króna. Samkvæmt því ætti varnaraðili að loknum skuldajöfnuði kröfu á sóknaraðila sem næmi 1.583.481.511 krónum.
Í úrskurði héraðsdóms er gerð grein fyrir upphaflegum kröfum sóknaraðila sem settar voru fram í greinargerð hans fyrir dómi og kröfum sem sóknaraðili gerði í svonefndri framhaldsgreinargerð er hann lagði fram eftir að varnaraðili hafði skilað greinargerð af sinni hálfu. Þar krafðist sóknaraðili frávísunar tveggja krafna, sem varnaraðili hafði gert í sinni greinargerð, en til vara krafðist hann þess að hafnað yrði riftun varnaraðila á samningi hans og sóknaraðila 14. október 2008. Frávísunarkröfunni var hafnað með úrskurði 27. apríl 2012. Í bókun sem sóknaraðili lagði fram í þinghaldi 12. febrúar 2013 lýsti hann því yfir að hann féllist á þá afstöðu varnaraðila að krafa hans vegna innstæðu hjá varnaraðila yrði samþykkt sem almenn krafa. Þá sagði í bókuninni: ,,Samhliða fellur sóknaraðili jafnframt frá öllum dómkröfum sínum í málinu.“ Auk þessa féll sóknaraðili frá mótmælum, sem hann setti fram í bréfi 5. ágúst 2009 en þau lutu að afstöðu varnaraðila til rétthæðar innlánskröfunnar og yfirlýsingu hans um riftun ráðstöfunar, sem áður er lýst. Krafðist sóknaraðili þess í bókuninni að málið yrði fellt niður þar sem forsendur þess væru brostnar með henni.
Varnaraðili andmælti því að málið yrði fellt niður og var kveðinn upp úrskurður um þann ágreining 13. maí 2013. Þeim úrskurði var skotið til Hæstaréttar, sem staðfesti niðurstöðuna 13. júní sama ár í máli nr. 371/2013. Í þeim dómi kemur fram að skilyrði hafi verið fyrir hendi samkvæmt 2. tölulið 173. gr. laga nr. 21/1991 til þess að varnaraðili hefði uppi gagnkröfu sína. Varnaraðili hafi lýst yfir skuldajöfnuði við kröfu sóknaraðila áður en ágreiningi þeirra var vísað til héraðsdóms og gagnkröfu um riftun hafi verið getið í bréfi hans til Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júlí 2010 þar sem beðið var um dómsmeðferð til úrlausnar ágreiningi aðila. Krafa varnaraðila hafi verið höfð uppi með skýrum hætti í greinargerð hans áður en sóknaraðili féll frá kröfu sinni. Þá haldi sóknaraðili fast við kröfur þær sem hann lýsti við slitin, þótt hann hafi fallist á að þær nytu stöðu í réttindaröð sem almennar kröfur. Væri krafa varnaraðila því réttilega borin undir dóm, sbr. 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991, sbr. og 2. tölulið 173. gr. laganna. Í dómi Hæstaréttar var á hinn bóginn ekki til úrlausnar að taka efnislega afstöðu til gagnkröfunnar.
Þegar málið var flutt í héraði 22. ágúst 2013 bókaði héraðsdómari kröfur aðila sem þá voru hafðar uppi í málinu. Hvorugur andmælti rétti hins til þess að hafa uppi þær kröfur, sem gerðar voru. Í samræmi við það er lýst í hinum kærða úrskurði ágreiningsefnum málsins og verður lagt til grundavallar að í því hafi falist skilningur aðila á bókun sóknaraðila, sem áður greinir, eftir að kröfu hans um niðurfellingu málsins hafði verið hafnað. Verður fallist á með héraðsdómi að málið sé þannig réttilega afmarkað.
II
Báðir aðilar krefjast frávísunar málsins. Sóknaraðili krefst frávísunar þess frá héraðsdómi en varnaraðili frá Hæstarétti.
Krafa varnaraðila um frávísun málsins frá Hæstarétti er reist á því að kröfu sóknaraðila um frávísun málsins frá héraðsdómi hafi verið hafnað með úrskurði 27. apríl 2012 sem ekki sé til endurskoðunar fyrir Hæstarétti, sbr. 1. mgr. 151. gr., sbr. og 4. mgr. 150. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Auk þess hafi sóknaraðili með bókun sinni 12. febrúar 2013 fallið frá öllum kröfum sínum í málinu. Krafa sóknaraðila um frávísun málsins frá héraðsdómi er annars vegar reist á því að samþykki hans hefði þurft til þess að reka málið eftir reglum XXIV. kafla laga nr. 21/1991 og hins vegar því, að kröfugerð varnaraðila um riftun sé háð þeim annmarka að hún samrýmist ekki eðli riftunar sem reist sé á reglum XX. kafla laganna.
Eins og að framan greinir hefur héraðsdómur við lýsingu á afmörkun ágreiningsefna málsins við flutning þess í héraði skýrt með réttum hætti þá yfirlýsingu sem fólst í bókun sóknaraðila 12. febrúar 2013. Að því gættu á sóknaraðili rétt á að fá leyst úr kröfu sinni um frávísun málsins á þeim grundvelli, sem lýst hefur verið. Verður því kröfu varnaraðila um frávísun málsins frá Hæstarétti hafnað.
Fyrri röksemd sóknaraðila fyrir frávísun er á því reist að það leiði af 1. mgr. 172. gr. laga nr. 21/1991 að samþykki hans hefði þurft til þess að reka málið samkvæmt reglum XXIV. kafla laganna. Þar sem það lá ekki fyrir hefði varnaraðila borið að sækja ætluð réttindi sín í einkamáli eftir almennum reglum. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 371/2013 var því slegið föstu að skilyrði 2. töluliðar 173. gr. laganna til að hafa uppi gagnkröfu í máli þessu væru fyrir hendi og að sú krafa væri réttilega fram borin, sbr. 4. mgr. 177. gr. þeirra. Ákvæði 1. mgr. 172. gr. tekur á hinn bóginn ekki til gagnkrafna, eins og hér eru hafðar uppi. Verður þessum rökum sóknaraðila fyrir frávísun málsins því hafnað.
Síðari röksemdin lýtur að því að það samrýmist ekki eðli riftunar, sem reist sé á einhverri þeirra reglna, sem er að finna í XX. kafla laga nr. 21/1991, að haga kröfugerð um riftun á þann veg sem varnaraðili geri. Hann krefjist þess að staðfest verði riftun á samningi hans og sóknaraðila 14. október 2008. Hvorki sé gerð krafa um riftun ráðstöfunar sem 131. gr. laganna taki til og kunni að felast í samningnum né annars konar ráðstöfunum sem lýstar séu riftanlegar samkvæmt öðrum ákvæðum þessa kafla laganna og varnaraðili hafi síðar vísað til.
Fallist er á með sóknaraðila að kröfugerð varnaraðila um riftun samrýmist ekki eðli riftunar sem heimiluð er í XX. kafla laga nr. 21/1991. Þar eru tilteknar ráðstafanir lýstar riftanlegar að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Riftunarheimildirnar lúta á hinn bóginn ekki að þeim löggerningum eða samningum sem notaðir eru til að framkvæma hinar riftanlegu ráðstafanir. Að réttu lagi hefði því krafa varnaraðila um riftun, sem upphaflega var einungis reist á 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, átt að beinast að því að rift yrði gjafa- eða örlætisgerningi sem falist hefði í samningi hans og sóknaraðila 14. október 2008. Af bréfi varnaraðila 4. maí 2010 þar sem lýst er yfir riftun ráðstöfunar, og gerð er grein fyrir að framan, fer ekki á milli mála að það sé sú ,,eftirgjöf á hagsmunum að fjárhæð 4.242.654.236 krónur“ sem fólst í samningnum sem hann telji riftanlega samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laganna. Það hefur því frá upphafi legið ljóst fyrir hver sé að mati varnaraðila hin riftanlega ráðstöfun þótt í máli þessu verði ekki skorið úr um uppgjör milli aðila. Þrátt fyrir að sá annmarki hafi verið á kröfugerð varnaraðila að þessu leyti, sem lýst hefur verið, þá hefur vörnum sóknaraðila gegn kröfunni ekki orðið áfátt af þeim sökum. Verður því fallist á með héraðsdómi að þessi annmarki á kröfugerð varnaraðila eigi ekki að leiða til frávísunar málsins frá dómi.
III
Krafa varnaraðila um riftun lýtur að þeirri eftirgjöf hagsmuna hans sem hann kveður hafa falist í samningnum 14. október 2008. Samningurinn var gerður eftir að fyrir lá að fjögur skuldabréf, sem varnaraðili hafði gefið út og sóknaraðili keypt og voru tengd við lánshæfi Kaupþings banka hf., urðu verðlaus að kalla eftir að Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn bankans 9. október 2008. Skilmálar skuldabréfanna, sem í flestum efnum voru samhljóða, fólu í sér að greiðsluskylda varnaraðila sem skuldara væri háð því að ekki kæmi til þess sem nefnt var ,,Credit Event“. Kæmi til slíks atviks báru skilmálar skuldabréfanna ásamt viðaukum með sér að greiðsluskylda útgefanda þeirra félli niður. Ekki er ágreiningur í málinu um að yfirtaka Fjármálaeftirlitsins á Kaupþingi banka hf. teljist ,,Credit Event“ í þessum skilningi. Með því að greiðsluskylda varnaraðila féll niður við þetta atvik lá fyrir að hann hafði hagnast verulega á útgáfu og sölu skuldabréfanna, sem hann eftir atvikið þurfti ekki að greiða. Sóknaraðili hafði að sama skapi tapað fé á þessu atviki. Báðir málsaðilar leggja þó til grundvallar að greiðsluskylda varnaraðila hafi ekki fallið niður að öllu leyti og hefur hann samkvæmt því talið að verðmæti skuldabréfanna, sem hann þyrfti að standa sóknaraðila skil á, næmi 6,625% af nafnverði þeirra sem varnaraðili kveður hafa verið ,,endurheimtuhlutfall“ krafna á Kaupþing banka hf. í nóvember 2008. Verðmæti þeirra nam því að hans áliti 648.331.749 krónum, en sóknaraðili kveður það hafa verið mun meira og farið vaxandi.
Í skýrslu fyrrverandi sviðsstjóra fjármálasviðs sóknaraðila fyrir dómi kvað hann sóknaraðila hafa haft samband við varnaraðila eftir fall Kaupþings banka hf. til að sjá hvað unnt væri að gera í málinu. Framkvæmdastjóri verðbréfasviðs varnaraðila á þeim tíma bar í sinni skýrslu að sóknaraðili hafi verið mikilvægur viðskiptavinur og því hafi verið vilji til þess að komast að samkomulagi því miklir hagsmunir hafi falist í því að tryggja fjármögnun varnaraðila, einkum á þessum tíma. Viðræður aðila leiddu til samningsins 14. október 2008. Meginefni hans var þríþætt. Í fyrsta lagi skyldi varnaraðili kaupa af sóknaraðila skuldabréfin fjögur á nafnverði þeirra 9.786.139.600 krónur og skuldbatt sóknaraðili sig til þess að leggja fjárhæðina inn á reikning hjá varnaraðila á kjörum, þar með talið binditíma, sem einnig var samið um. Í öðru lagi skyldi varnaraðili kaupa, miðað við tilgreindar forsendur, skuldabréf útgefin af sóknaraðila að nafnverði 8.000.000.000 krónur og átti hann að leggja kaupverðið inn á reikning hjá varnaraðila á umsömdum kjörum. Í þriðja lagi skyldi sóknaraðili leggja 2.000.000.000 krónur inn á reikning hjá varnaraðila og voru innlánskjörin einnig umsamin.
Að framan er gerð grein fyrir þeirri afstöðu varnaraðila að þeir hagsmunir sem hann hafi gefið eftir með samningi þessum, að teknu tilliti til þess að verðmæti skuldabréfanna sem hann keypti til baka hafi verið 6,625% af nafnverði þeirra, hafi numið 4.242.654.236 krónum. Sóknaraðili andmælir því og telur verðmæti hagsmunanna mun minna eða ekkert, enda verði að meta hagsmuni varnaraðila af samningnum í heild sinni. Varnaraðili hefur sýnt nægilega fram á að í samningnum hafi falist veruleg eftirgjöf hagsmuna af hans hálfu. Hann hefur á þeim grundvelli krafist riftunar á þeirri gjöf sem fólst í samningnum og reisir þá kröfu á 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili hefur hvorki freistað þess með matsgerð né með öðrum fullnægjandi hætti að sanna að í samningnum hafi ekki falist gjöf í skilningi síðastgreinds ákvæðis. Sannað er að það vakti fyrir varnaraðila að létta einhverju af því tapi sem sóknaraðili varð fyrir þegar skuldabréfin urðu verðlaus að kalla. Það felst einnig í því sem að framan greinir að eignir varnaraðila skertust sem nam ætlaðri auðgun sóknaraðila. Regla 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 er hlutlæg riftunarregla og skiptir því ekki máli, að öðru leyti en varðar tilgang ráðstöfunar, hver huglæg afstaða aðila var þegar ráðstöfunin var gerð. Hún fór fram á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag sem var 9. mars 2009. Samkvæmt framansögðu verður fallist á að rifta eigi þeirri gjöf sem fólst í samningnum 14. október 2008.
Endurgreiðslukrafa varnaraðila er einungis höfð uppi að því marki sem þörf er á til að ljúka með skuldajöfnuði kröfum þeim, sem sóknaraðili hefur lýst, og verður ekki dæmt um hana að öðru leyti. Ekki er ágreiningur um að skuldajöfnuður eigi að fara fram ef fallist er á riftunarkröfu varnaraðila. Aðila greinir á hinn bóginn á um við hvaða dag eigi að miða skuldajöfnuðinn. Í hinum kærða úrskurði er því lýst að sóknaraðili telji sig hafa hagsmuni af því að miðað sé við 9. mars 2009 vegna ætlaðs framsals varnaraðila á svonefndum íbúðabréfum, sem séu skuldabréf útgefin af sóknaraðila og varnaraðili hafi átt. Framsal þeirra eftir tilgreindan dag hafi farið í bága við 3. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili hefur tilgreint þau viðskiptabréf, útgefin af sóknaraðila, sem hann hefur framselt eftir þetta tímamark og viðurkennt að krafa sem nemur andvirði þeirra fái stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laganna. Samkvæmt þessu eru ekki skilyrði til að miða réttaráhrif skuldajafnaðar við annað tímamark en 4. maí 2010 þegar riftun og skuldajöfnuði var lýst yfir af hálfu varnaraðila.
Varakrafa sóknaraðila um bætur úr hendi varnaraðila er háð þeim fyrirvara að hinn síðarnefndi hafi ráðstafað viðskiptabréfum útgefnum af sóknaraðila, umfram það sem áður greinir. Slík krafa, sem háð er fyrirvara um atvik sem eru óljós eða óorðin, er ekki dómtæk og verður henni því vísað frá héraðsdómi.
Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir. Sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Rift er gjöf varnaraðila, ALMC hf., sem fólst í samningi hans 14. október 2008 við sóknaraðila, Íbúðalánasjóð.
Viðurkenndur er réttur varnaraðila til að skuldajafna endurgreiðslukröfu vegna riftunar við lýstar kröfur sóknaraðila við slit varnaraðila að fjárhæð 2.720.955.706 krónur miðað við 4. maí 2010.
Sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað samtals 3.000.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2013.
I
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, beindi slitastjórn varnaraðila til dómsins með bréfi sem barst héraðsdómi 27. júlí 2010. Var um heimild til að leita úrlausnar dómsins vísað til 171. gr. sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var þingfest 6. október 2010 og tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð 22. ágúst sl.
Sóknaraðili er Íbúðalánasjóður, Borgartúni 21, Reykjavík.
Varnaraðili er ALMC hf. (áður Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki hf.) Borgartúni 25, Reykjavík.
Upphaflega gerðu aðilar hvor um sig dómkröfur í nokkrum tölusettum liðum. Kröfur sóknaraðila voru í aðalatriðum þær að kröfur sem hann lýsti í slitabú varnaraðila yrðu að stærstum hluta samþykktar sem forgangskröfu auk þess sem hann gerði kröfu um að honum yrði heimilt að jafna út kröfum sem varnaraðili ætti á hendur honum. Varnaraðili krafðist þess á hinn bóginn að kröfurnar yrðu samþykktar sem almennar kröfur. Varnaraðili krafðist þess jafnframt að samningi aðila sem gerður var 14. október 2008 yrði rift og honum heimilað að jafna út lýstum kröfum sóknaraðila. Þá krafðist sóknaraðili þess með framhaldsgreinargerð að tveimur af dómkröfum varnaraðila yrði vísað frá dómi en þeirri kröfu hans var, með úrskurði dómsins uppkveðnum 27. apríl 2012, hafnað.
Í þinghaldi hinn 12. febrúar sl. lagði sóknaraðili fram bókun þar sem hann lýsti því yfir að hann féllist á afstöðu varnaraðila þess efnis að kröfur þær sem hann lýsti sem forgangskröfum við slit varnaraðila teljist almennar kröfur, samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. en ekki forgangskröfur samkvæmt 112. gr. sömu laga eins og hann hafði áður krafist. Samhliða féll sóknaraðili frá öllum kröfum sínum í málinu. Taldi sóknaraðili þetta leiða til þess að fella bæri málið niður og gerði hann slíka kröfu. Varnaraðili lýsti því á hinn bóginn yfir að hann féllist ekki á að málið yrði fellt niður. Í þinghaldi hinn 19. mars sl. tjáðu lögmenn aðila sig munnlega um ágreininginn og að því búnu var krafa sóknaraðila tekin til úrskurðar. Með úrskurði dómsins, uppkveðnum 13. maí sl. var kröfu sóknaraðila hafnað og var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands 13. júní sl.
II
Eins og málið liggur nú fyrir dóminum er til úrlausnar krafa varnaraðila um riftun á samningi aðila sem gerður var hinn 14. október 2008 með fyrirsögninni Repurchase of Credit Linked Notes and Purchase of Bonds. Einnig hvort varnaraðila hafi verið heimilt að jafna út kröfur sóknaraðila að fjárhæð samtals 2.720.995.706 krónur með skuldajöfnuði hinn 4. maí 2010. Sóknaraðili gerði við munnlegan flutning málsins þær kröfur riftunarkröfu varnaraðila verði hafnað, að viðurkenndur yrði réttur hans til skuldajöfnunar á öllum lýstum kröfum hans á hendur varnaraðila. Til vara krefst hann bóta eins og lýst er í c lið upphaflegrar kröfugerðar hans. Þá gera aðilar hvor um sig kröfu um málskostnað úr hendi gagnaðila síns og að við ákvörðun hans verði tekið tillit til virðisaukaskatts.
III
Málavextir
Hinn 11. maí 2009 skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka hf., sem nú ber nafn varnaraðila, slitastjórn. Slitastjórnin gaf út innköllun til skuldheimtumanna og rann kröfulýsingarfrestur út hinn 18. júlí 2009. Sóknaraðili lýsti, innan kröfulýsingarfrests, innlánskröfu að fjárhæð 2.183.858.564 krónur auk vaxtakröfu að fjárhæð 63.422.892 krónur. Kröfum þessum var lýst sem forgangskröfum. Auk þessa lýsti hann kröfu samkvæmt vaxtaskiptasamningi að fjárhæð 460.104.987 krónur sem almennri kröfu. Slitastjórn varnaraðila tók þá afstöðu til krafna sóknaraðila að þær bæri að samþykkja sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Ekki er lengur ágreiningur með aðilum um röðun krafna sóknaraðila í skuldaröð en sóknaraðili hefur með bókun, sem áður er getið, fallist á afstöðu slitastjórnarinnar.
Slitastjórn varnaraðila ritaði sóknaraðila bréf 6. apríl 2010 en í því var vísað til fyrri samskipta aðila, bréflegra og óformlegra funda, og tekið fram að slitastjórnin hafi óskað eftir sérstakri úttekt á lögskiptum aðila sem leitt hafi til samnings 14. október 2008 um kaup varnaraðila á lánshæfistengdum skuldabréfum. Athuguninni væri ekki lokið en áskilinn væri réttur til að hafa uppi frekari riftunarkröfur ef tilefni væri til þess. Jafnframt var tekið fram í bréfinu að riftunarkrafan næmi 4.242.654.236 krónum og lýst var yfir skuldajöfnuði við viðurkenndar almennar kröfur sóknaraðila.
Skuldabréfin sem liggja að baki samningi aðila frá 14. október 2008 voru eins og áður er nefnt lánshæfistengd, gjarnan nefnd Credit Linked Nots (CLN bréf) Sóknaraðili keypti í nóvember 2007 og janúar 2008 fjögur slík skuldabréf útgefin af varnaraðila, samtals að fjárhæð 9.786.139.600 krónur. Þegar skuldabréf er lánshæfistengt felur það í sér að kaupandi þeirra tekur í raun tvöfalda áhættu, þ.e. fyrir utan áhættuna af því að skuldari bréfsins geti ekki greitt það til baka er að auki tekin áhætta af því að þriðji aðili verði hugsanlega ógjaldfær. Á móti bera bréf þessarar gerðar gjarnan háa vexti. Bréf þau sem hér um ræðir voru tengd við lánshæfi Kaupþings banka hf. Fall Kaupþings banka hf. hinn 8. nóvember 2008 leiddi til þess að bréf útgefin af þeim banka féllu verulega í verði sem leiddi til verðfalls á þeim skuldabréfum sem sóknaraðili keypti af varnaraðila. Ekki virðist ágreiningur milli aðila um að við þennan atburð hafi skuldabréfin gjaldfallið. Vegna þeirrar stöðu sem upp var komin hafði sóknaraðili samband við varnaraðila í þeim tilgangi að leita leiða til lausnar á málinu. Aðilar skiptust á hugmyndum um það hvað best væri að gera í þeirri stöðu sem upp var komin, sem síðan leiddi til samnings hinn 14. október 2008 sem varnaraðili krefst nú riftunar á. Í aðalatriðum var niðurstaðan sú að varnaraðili keypti skuldabréfin til baka af sóknaraðila og greiddi fyrir höfuðstólsverðmæti þeirra. Andvirði kaupanna var lagt inn á reikning varnaraðila hjá Verðbréfaskráningu Íslands með nánar tilgreindum skilmálum um vexti og binditíma. Þá keypti varnaraðili íbúðabréf (HFF bréf) af sóknaraðila fyrir 8.000.000.000 króna. Til viðbótar lagði sóknaraðili 2.000.000.000 króna á reikning í eigu varnaraðila. Við endurkaup varnaraðila á skuldabréfunum voru þau úr gildi fallin enda hann útgefandi þeirra.
IV
Málsástæður og lagarök
Varnaraðili reisir kröfur sínar um riftun á samningi aðila á því að við endurkaup varnaraðila á skuldabréfunum, sem tengd voru gengi skuldabréfa sem Kaupþing banki hf. var útgefandi að, hafi varnaraðili greitt skuld við sóknaraðila samkvæmt skuldabréfum sem voru orðin nánast verðlaus vegna greiðsluþrots Kaupþings banka hf. Heldur varnaraðili því fram að viðskipti aðila hafi falið í sér gjafagerning af hálfu varnaraðila, þar sem umsamið endurgjald fyrir skuldabréfin hafi í reynd verið eftirgjöf til að bæta sóknaraðila tap sem hann ella hefði orði fyrir vegna viðskiptanna með skuldabréfin. Þar sem varnaraðili hafi orðið ógjaldfær skömmu eftir viðskiptin beri að líta svo á að eftirgjöf hagsmuna af þessu tagi sé gjöf í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
Þá heldur varnaraðili því fram að greiðsla fyrir skuldabréfin hafi farið fram með óvenjulegum greiðslueyri og fyrr en eðlilegt var og þá hafi verið samið um greiðslu fjárhæðar til sóknaraðila sem hafi skert greiðslugetu varnaraðila verulega. Af þessum sökum séu viðskiptin einnig riftanleg á grundvelli 1. mgr. 134. gr. nefndra laga nr. 21/1991, enda telur varnaraðili að greiðslan hafi alls ekki verið venjuleg eftir atvikum í skilningi lagaákvæðisins.
Varnaraðili reisir kröfu sína um riftun samningsins einnig á því að samningurinn hafi verið sóknaraðila til hagsbóta á ótilhlýðilegan hátt og á kostnað annarra kröfuhafa. Samningurinn hafi aukið skuldir varnaraðila og orðið til þess að eignir voru ekki til reiðu til greiðslu annarra krafna sem lýst var og þannig valdið öðrum kröfuhöfum tjóni. Í þessu sambandi bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi við samningsgerðina fengið stöðu innlánshafa en allir innlánshafar hafi fengið innlán sín greidd sem forgangskröfur í kjölfar yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á varnaraðila. Byggir varnaraðili af þessum sökum á því að samningurinn sé riftanlegur á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 og einnig vegna þess að á þeim tíma sem samningurinn var gerður hafi varnaraðili þegar verið orðinn ógjaldfær og af því hafi sóknaraðili vitað eða mátt vita. Af þessum sökum hafi samningurinn verið ótilhlýðilegur í skilningi nefndrar 141. gr.
Varnaraðili heldur því fram að ef riftunarkrafa hans verður tekin til greina eigi hann hærri kröfu á sóknaraðila en nemur fjárhæð lýstra krafna sóknaraðila. Í máli þessu sé ekki gerð krafa um greiðslu úr hendi sóknaraðila á grundvelli riftunarinnar, enda ekki samkomulag með aðilum málsins um að leysa úr öllum ágreiningi þeirra varðandi slíkt uppgjör í þessu máli. Aðilar deili ekki um fjárhæðir krafna sóknaraðila á hendur varnaraðila en verði riftunarkrafan tekin til greina blasi við að inneign varnaraðila hjá sóknaraðila sé til mikilla muna hærri en þær kröfur sem sóknaraðili lýsti í bú varnaraðila. Riftunarkrafan taki til viðskipta sem námu 9.786.139.600 krónum og þá fjárhæð hafi sóknaraðili fengið greidda. Telur varnaraðili að gagnkröfur sem sóknaraðili geti haft uppi gegn þeirri fjárkröfu séu langt frá þessari fjárhæð og því geti þær ekki takmarkað möguleika varnaraðila til skuldajöfnunar. Af þessum sökum krefst varnaraðili þess að honum verði, að því gefnu að riftunarkrafan verði tekin til greina, heimilað að beita skuldajöfnuði á móti kröfum sóknaraðila.
Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um riftun verði hafnað. Hann vísar til þess að varnaraðili hafi sent honum yfirlýsingu um riftun og greiðsluáskorun hinn 4. maí 2010. Þar komi fram að riftunin sé reist á 1. mgr. 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Yfirlýsing þessi sé ákvöð og hafi sem slík bindandi áhrif samkvæmt efni sínu frá þeim tíma sem hún var komin til sóknaraðila. Riftunaryfirlýsingin bindi varnaraðila og hann geti ekki einhliða fallið frá eða breytt þeirri afstöðu sem fram kemur í yfirlýsingunni. Af þessu leiði að varnaraðili geti ekki í máli þessu reist riftunarkröfu sína á 1. mgr. 134. gr. og 141. gr. nefndra laga nr. 21/1991, enda hljóði dómkrafa hans þannig að hann er að krefjast staðfestingar á riftun sem lýst var yfir 4. maí 2010. Sú yfirlýsing grundvallist eingöngu á 1. mgr. 131. gr. en varnaraðili hafi ekki beint yfirlýsingu um riftun til sóknaraðila með vísan til 1. mgr. 134. gr. eða 141. gr. laga 21/1991. Sóknaraðili byggir á því að riftunarkrafa varnaraðila verði því eingöngu reist á nefndri 1. mgr. 131. gr. en dómkrafa varnaraðila takmarkist við þá grein. Þetta leiði til þess að hafna verði kröfum sem sækja sér stoð í aðrar lagagreinar en hafa verði í huga að reglur um endurgreiðslu auðgunar eru ekki þær sömu hvað þetta varðar, sbr. 1. og 3. mgr. 142. gr. laga 21/1991.
Sóknaraðili bendir á að varnaraðili reisi riftunarkröfu sína á því að skilmálar samningsins frá 14. október 2008 hafi falið í sér gjafagerning af hálfu varnaraðila þar sem umsamið endurgjald fyrir umrædd skuldabréf hafi í reynd verið eftirgjöf til að bæta sóknaraðila tap sem hann hafði orðið fyrir í skuldabréfaviðskiptum. Sóknaraðili byggir á því að það að gefa eftir hagsmuni en fá aðra í staðinn feli í sér viðskipti eða kaup. Gjöf feli hins vegar í sér að gefa eftir hagsmuni og fá ekkert í staðinn. Hér sé ekki mögulegt að taka kaupin á bréfunum út fyrir sviga í þeim viðskiptum sem áttu sér stað með nefndum samningi og taka lítið sem ekkert tillit til annarra þátta viðskiptanna eða aðstæðna sem uppi voru. Slíkt feli í sér afbökun á viðskiptunum. Varnaraðili hafi að eigin frumkvæði keypt bréfin í þeim eina tilgangi að fá í staðinn afar hagstæða fjármögnun, enda hafi hann litið svo á að endurkaup bréfanna væru háð því skilyrði að sóknaraðili seldi varnaraðila tiltekin íbúðabréf og undirgengist samninga um bundin innlán sem voru á hagstæðum kjörum fyrir varnaraðila.
Sóknaraðili heldur því fram að það sé eitt af skilyrðum gjafar í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 að skuldari hafi viðhaft hina riftanlegu ráðstöfun í því skyni að gefa. Ráðstafanir, viðskiptalegs eðlis, sem ekki voru hugsaðar sem gjöf en reyndust síðar slæm viðskipti, séu ekki riftanlegar. Misræmi milli greiðslu og endurgjalds sé ekki endilega gjöf í skilningi títtnefndrar 1. mgr. 131. gr. Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðili hafi ekki lagt fram nein gögn sem styðja að það hafi verið ætlun varnaraðila að gefa sóknaraðila fé.
Sóknaraðili telur útilokað að með samningnum frá 14. október 2008 hafi varnaraðili ætlað sér að gefa sóknaraðila verðmæti, enda gæti slík háttsemi verið refsiverð. Varnaraðili hafi heldur ekki talið að svo væri heldur litið svo á að samningurinn hafi falið í sér lögmæt viðskipti. Erfitt sé að sjá hvers vegna varnaraðili hefði átt að hygla sóknaraðila sérstaklega með því að greiða honum skuld á sama tíma og hann var ógjaldfær eins og varnaraðili heldur fram.
Sóknaraðili hafnar því að greiðslan fyrir skuldabréfin hafi verið innt af hendi með óvenjulegum greiðslueyri líkt og varnaraðili heldur fram. Sóknaraðili segir það forsendu fyrir því að ákvæði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 eigi við að um sé að ræða greiðslu á skuld. Með greiðslu samkvæmt 1. mgr. 134. gr. sé átt við að þau verðmæti sem skuldarinn lætur af hendi gangi í raun til lækkunar eða fullrar greiðslu á skuld við kröfuhafa. Sjálfstæð viðskipti falli því ekki undir ákvæðið en með samningnum frá 14. október 2008 hafi átt sér stað sjálfstæð viðskipti enda gangi varnaraðili út frá því að svo hafi verið, sem sjá má af því að hann fjallar ítrekað um samninginn og uppgjör hans sem viðskipti í greinargerð sinni. Sóknaraðili heldur því fram að samningurinn hafi komist á að frumkvæði varnaraðila og fjármögnunarþörf hans hafi verið hvati þeirra. Endurkaup varnaraðila á skuldabréfunum voru því liður í öflun aukins fjármagns á hagstæðum kjörum en tilgangurinn hafi ekki verið að greiða skuld varnaraðila við sóknaraðila. Því séu viðskiptin ekki riftanleg á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili byggir á því að greiðslan sem kom fyrir skuldabréfin hafi verið í formi peninga sem teljist venjubundinn greiðslueyrir. Varnaraðili hafi í málinu ekki lagt fram nein göng sem styðji þá fullyrðingu hans að greiðslan hafi verið óvenjuleg. Varnaraðili hafi boðið sóknaraðila greiðslu í peningum fyrir gjalddaga skuldabréfanna en sú greiðsla hafi verið órjúfanlegur hluti þeirra viðskipta sem fólust í samningi aðila frá 14. október 2008. Af þeim sökum hafnar sóknaraðili því að greiðslan hafi verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var, enda sýni gögn málsins ekki að svo hafi verið.
Sóknaraðili heldur því fram að óumdeilt sé að greiðslugeta varnaraðila í formi lausafjár hafi styrkst verulega við gerð títtnefnds samnings en við gerð samningsins hafi varnaraðili fengið aukið lausafé. Því hafi samningurinn alls ekki skert greiðslugetu varnaraðila líkt og varnaraðili heldur fram. Þá heldur sóknaraðili því fram að varnaraðili hafi ekki lagt fram gögn sem styðji þá fullyrðingu að greiðslugeta varnaraðila hafi skerst við samninginn.
Sóknaraðili hafnar fullyrðingum varnaraðila í þá veru að sóknaraðili hafi verið ógjaldfær hinn 14. október 2008 og að sóknaraðili hafi vitað eða mátt vita að svo væri komið fyrir varnaraðila sem aftur leiði til þess að samningurinn teljist ótilhlýðilegur í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili heldur því fram að til þess að unnt sé að rifta ráðstöfun á grundvelli nefndrar lagagreinar þurfi að uppfylla öll sex skilyrði greinarinnar og svo sé ekki í máli þessu. Greiðslan hafi ekki verið ótilhlýðileg, enda hafi hún verið í samræmi við samning aðila frá 14. október 2008. Sá samningur hafi falið í sér að sóknaraðili veitti varnaraðila fjármögnun sem að öllum líkindum var hagstæðari fyrir varnaraðila en hann gat fengið annars staðar. Varnaraðili hafi metið það svo að það væri honum fyrir bestu að kaupa skuldabréfin til baka frekar en að leita eftir lausafé annars staðar. Greiðslan geti því ekki talist ótilhlýðileg enda byggð á lögmætum og eðlilegum sjónarmiðum og forsendum. Þá hafi varnaraðili ekki lagt fram nein gögn sem sýni að aðrir kröfuhafar hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa.
Sóknaraðili hafnar því alfarið að varnaraðili hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna uppgjörs á samningi aðila en það sé eitt þeirra skilyrða sem þurfi að uppfylla samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili hafi aldrei haft nein gögn í sínum fórum sem bentu til yfirvofandi ógjaldfærni varnaraðila né heldur upplýsingar um stöðu varnaraðila gagnvart öðrum kröfuhöfum. Hann ekki haft neinar upplýsingarum greiðslufærni sóknaraðila umfram það sem fram kom í opinberum gögnum. Engin tengsl séu á milli aðila sem gátu gert það að verkum að sóknaraðili hafi átt að vita um meinta ógjaldfærni varnaraðila eða að eitthvað óeðlilegt samkomulag sóknaraðila til hagsbóta gæti tekist með aðilum. Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðili hafi ekki á nokkurn hátt leitast við að skýra hvaða þættir bendi til að sóknaraðila hafi, á þeim degi sem samningurinn var gerður, mátt vera kunnugt um meinta ógjaldfærni varnaraðila og þær ástæður sem leitt gátu til þess að samningurinn væri ótilhlýðilegur. Fyrir þessum fullyrðingum beri varnaraðili sönnunarbyrði.
V
Niðurstaða
Áður er rakið að sóknaraðili keypti af varnaraðila fjögur lánshæfistengd skuldabréf í lok árs 2007 og byrjun árs 2008, samtals að verðmæti tæplega 10.000.000.000 króna. Í þessu tilfelli voru bréfin tengd lánshæfi Kaupþings banka hf. Háttaði því þannig til að við fall Kaupþings banka urðu bréfin verðlítil en varnaraðila bar eftir þann atburð ekki að endurgreiða sóknaraðila skuldabréfin samkvæmt efni þeirra heldur eingöngu verðmæti þeirra eftir fall Kaupþings banka hf. Varnaraðili miðar við að verðmæti bréfanna hafi verið 6,25% af höfuðstól en sú tala kom út úr uppboði með skuldatryggingaálag á Kaupþing banka hf. sem fram fór í nóvember 2008. Engin önnur gögn hafa verið lögð fram í málinu er varða verðmæti skuldatrygginga Kaupþings banka hf. eftir fall hans og verður því við það að miða. Samkvæmt þessu hefði varnaraðili eingöngu átt að greiða sóknaraðila um 662.500.000 krónur vegna bréfanna og tap sóknaraðila vegna þeirra því orðið rúmir 9.000.000.000 króna.
Títtnefndur samningur aðila frá 14. október 2008 felur í sér fleira en ákvæði um endurkaup varnaraðila á lánshæfistengdu skuldabréfunum á nafnverði. Í samningnum er mælt fyrir um að kaupverðinu skyldi ráðstafað á reikning varnaraðila hjá Verðbréfaskráningu Íslands. Þessu til viðbótar er ákvæði um að sóknaraðili selji varnaraðila íbúðabréf (HFF bréf í þremur flokkum) að nafnverði um 8.000.000.000. króna. Gögn málsins benda til þess að varnaraðili hafi gert ráð fyrir að hagnast um tæplega 4.900.000.000 króna á þeim viðskiptum. Andvirði þessara bréfa var lagt inn á reikning hjá varnaraðila. Loks sömdu aðilar um að þessu til viðbótar myndi sóknaraðili leggja inn á reikning hjá varnaraðila 2.000.000.000 króna. Samningurinn mælir síðan fyrir um vexti og binditíma innlánanna. Af öllu þessu má ráða að aðilar gera hinn 14. október 2008 með sér allvíðtækan samning.
Að framan er rakið hverjar af upphaflegum kröfum varnaraðila eru nú til úrlausnar en þær eru krafa hans um að staðfest verði riftun á samningi aðila dagsettum 14. október 2008 og að viðurkennd verði heimild hans til að jafna út kröfur sóknaraðila samtals að fjárhæð 2.720.955.706 krónur auk kröfu um málskostnað. Riftunarreglur laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eru þannig uppbyggðar að kveðið er á um að tilteknar ráðstafanir séu riftanlegar en ekki þeir löggerningar sem að baki hinni riftanlegu ráðstöfun liggja. Hefur því verið við það miðað að kröfugerð í riftunarmáli sem rekið er eftir ákvæðum nefndra laga geti ekki lotið að því að hnekkja þeim löggerningi sem notaður hefur verið til að framkvæma hina riftanlegu ráðstöfun heldur verði hún að beinast að því að ákveðinni ráðstöfun sé rift.
Krafa varnaraðila um riftun samningsins, sem samkvæmt orðanna hljóðan tekur til samningsins í heild, er því ekki í samræmi við þá reglu að krefjast skuli riftunar á ákveðinni ráðstöfun. Við meðferð málsins snéru málsástæður og lagarök beggja aðila einkum að riftun á endurkaupum sóknaraðila á lánshæfistengdu bréfunum, sem fjallað er um í samningi aðila, en aðrir þættir samningsins komu þar lítið við sögu að öðru leyti en því að sóknaraðili taldi að skoða yrði alla þætti samningsins og meta þau verðmæti sem sóknaraðili fékk með honum á móti þeim verðmætum sem hann kunni að hafa gefið eftir við endurkaupin á lánshæfistengdu bréfunum. Sóknaraðili hefur ekki gert athugasemdir við framsetningu kröfu varnaraðila heldur þvert á móti haldið fram málsástæðum sem að hans mati leiða til þess að ekki séu skilyrði til að rifta endurkaupunum. Að þessu sögðu þykir rétt að skýra kröfu varnaraðila þannig að hún beinist einungis að því að rifta endurkaupum varnaraðila á nefndum lánshæfistengdum bréfum.
Fyrir liggur að varnaraðili keypti títtnefnd lánshæfistengd skuldabréf af sóknaraðila á nafnverði. Augljóst er að kaupverðið var ekki í neinu samræmi við verðmæti bréfanna. Hins vegar eru ákvæði í samningi aðila sem leiða til þess að hagnaður sóknaraðila af sölunni var ekki eins mikill og kaupverðið gaf til kynna. Er þar einkum horft til sölu á svokölluðum HFF íbúðabréfum sem sóknaraðili virðist hafa selt varnaraðila á undirverði. Í gögnum málsins kemur fram að varnaraðili geri ráð fyrir að hagnast um 4.900.000.000 krónur á þeim viðskiptum. Að sama skapi virðist varnaraðili gera ráð fyrir að hagnast nokkuð vegna kjara sem voru á innlánum frá sóknaraðila. Í úttekt endurskoðunarskrifstofu sem fyrir liggur í málinu kemur fram að varnaraðili hafi reiknað með að hagnast um 1.000.000.000 króna vegna innlánanna. Ekki verður hjá því komist að taka tillit til þessa þegar skorið er úr um það hvort endurkaup varnaraðila á lánshæfistengdu bréfunum séu riftanleg. Þrátt fyrir að tekið sé tillit til þeirra hagsbóta sem varnaraðili hafði af samningnum er enn verulegur munur á þeim verðmætum sem hann greiddi fyrir bréfin og þeim verðmætum sem hann fékk frá sóknaraðila.
Samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. má krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Ákvæði þetta hefur verið skýrt þannig, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 457/2012, að undir það falli hver sú ráðstöfun sem rýri eignir þrotamanns og leiði til eignaaukningar hjá þeim sem nýtur góðs af henni, enda búi gjafatilgangur að baki ráðstöfuninni og hún falli ekki undir 3. mgr. sömu greinar sem tekur til venjulegra tækifærisgjafa o.fl. Undir örlætisgerninga í þessum skilningi geta fallið gagnkvæmir samningar eins og kaupsamningar ef umtalsverður munur er á greiðslu þrotamanns og því gagngjaldi sem hann hefur fengið í staðinn.
Vitnið Benedikt Gíslason, fyrrverandi framkvæmdastjóri verðbréfasviðs varnaraðila, bar fyrir dóminum að varnaraðili hefði keypt varnir vegna lánshæfistengdu skuldabréfanna. Fyrir varnaraðila hafi því vakað við samningsgerðina að endurheimta það tap sem hann hafði orðið fyrir vegna varnanna sem keyptar voru og tryggja sér lausafé. Tap varnaraðila vegna falls Kaupþings banka hf. hafi verið minna en áætlaðar endurheimtur af bréfunum og varnaraðili því í stakk búinn til að gera þetta samkomulag. Af þessu verður vart annað ráðið en að varnaraðili hafi gert sér grein fyrir því að hann var að gefa eftir verðmæti til sóknaraðila. Að virtu öllu því sem að framan er rakið telst sannað að sú ráðstöfun varnaraðila að kaupa til baka margnefnd skuldabréf hafi verið örlætisgerningur í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 og því þegar af þeirri ástæðu riftanleg.
Að fenginni þeirri niðurstöðu að rifta skuli endurkaupum varnaraðila á skuldabréfunum eru efni til að fallast á kröfu varnaraðila þess efnis að honum sé heimilt að jafna út lýstum kröfum sóknaraðila, enda einsýnt að kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila eru hærri en þær kröfur sem sóknaraðili lýsti í slitabú varnaraðila.
Í máli þessu verður ekki skorið úr um uppgjör aðila vegna riftunarinnar en úr ágreiningi sem um slíkt uppgjör kann að rísa verður þá skorið í öðru máli. Sóknaraðili krafðist þess við munnlegan flutning málsins að uppgjör á kröfum aðila bæri að miða við frestdag, 9. mars 2009, en ekki upphaf slitameðferðar, 22. apríl 2009. Taldi hann þetta skipta máli vegna framsals varnaraðila á íbúðabréfum sem leitt gæti til bótaskyldu varnaraðila eftir ákvæðum 3. mgr. 100. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Varnaraðili lýsti því yfir í greinargerð sinni til dómsins að við uppgjör vegna riftunarinnar skuli andvirði íbúðabréfa, sem varnaraðili átti við upphaf slitameðferðarinnar og hann framseldi síðar án þess að hugað væri að gagnkröfurétti sóknaraðila, koma til frádráttar kröfum varnaraðila á hendur sóknaraðila. Er því í raun ekki ágreiningur milli aðila um að við uppgjör skuli tekið tillit til þessa framsals og þá hugsanlegs bótaréttar sóknaraðila vegna þess. Er því óþarft að fjalla um þessa kröfu sóknaraðila sem ekki var mótmælt af hálfu varnaraðila.
Með hliðsjón af niðurstöðu málsins verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir, að teknu tilliti til umfangs málsins, hæfilega ákveðinn 3.500.000 króna og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Jón Elvar Guðmundsson héraðsdómslögmaður en af hálfu varnaraðila Ragnar Halldór Hall hæstaréttarlögmaður.
Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættum ákvæðum 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála.
Úrskurðarorð:
Rift er kaupum varnaraðila, hinn 14. október 2008, á fjórum lánshæfistengdum skuldabréfum af sóknaraðila fyrir samtals 9.786.139.600 krónur.
Viðurkenndur er réttur varnaraðila til að jafna út, með skuldajöfnuði, kröfum sóknaraðila að fjárhæð 2.720.955.706 krónur hinn 4. maí 2010.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 3.500.000 króna í málskostnað.