Hæstiréttur íslands

Mál nr. 250/2009


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 14. janúar 2010. 

Nr. 250/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir

vararíkissaksóknari)

gegn

Jens R. Kane

(Brynjar Níelsson hrl.)

Líkamsárás. Skilorð. Skaðabætur.

J var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa ráðist á A inni á baðherbergi íbúðarinnar, þar sem A dvaldi á heimili hans, tekið hana þar hálstaki og slegið höfði hennar í vegg, slegið hana margsinnis í líkamann á herbergisgangi íbúðarinnar, þannig að hún féll við og þá sparkað í hana liggjandi, allt með þeim afleiðingum að hún tognaði á hálsi og hlaut ýmsa áverka. Talið var sannað, þrátt fyrir neitun J, að hann hefði gerst sekur um líkamsárás á A umrædda nótt. Þá var J sakfelldur fyrir að hafa tekið A hálstaki. Hann var hins vegar sýknaður af því að hafa slegið höfði hennar í vegg, enda þótti ekkert styðja þetta atriði ákærunnar nema framburður A og gegn neitun J var þetta talið ósannað. Framburður A um að ákærði hefði slegið hana og sparkað í hana studdist við læknisvottorð og ljósmyndir og sannað þótti, þrátt fyrir neitun J, að hann hefði gerst sekur um það. Var því talið sannað að J hefði veitt A þá áverka sem í ákæru greindi og varðaði háttsemi hans við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var J dæmdur í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða A 400.000 krónur í bætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. maí 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en refsing hans þyngd.

A, sem fékk dæmdar skaðabætur úr hendi ákærða með hinum áfrýjaða dómi, hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður að líta svo á að hún krefjist þess að héraðsdómur verði staðfestur að því er varðar kröfu hennar.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að honum verði ekki gerð refsing eða hún milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Jens R. Kane, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 438.138 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2009

I

Málið, sem dómtekið var 12. mars sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 8. júlí 2007 á hendur „Jens R. Kane, kt. 281266-5359, Tröllateigi 21, Mosfellsbæ, fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 23. janúar 2007, að Tröllateig 21 í Mosfellsbæ, ráðist á A, [...], inni á baðherbergi íbúðarinnar, þar sem A dvaldi á heimili hans, og tekið hana þar hálstaki og slegið höfði hennar í vegg, svo slegið hana margsinnis í líkamann á herbergisgangi íbúðarinnar, þannig að hún féll við og þá sparkað í hana liggjandi, allt með þeim afleiðingum að hún tognaði á hálsi og hlaut roða sitt hvoru megin á hálsi, eymsli um brjóstkassa, hrufl og marbletti um ofanverðan brjóstkassa, upp á herðar og út á hægri öxl, eymsli á hægra herðablaði, eymsli um brjósthrygg, sár á hægra hné og eymsli á aftanvert hægra læri.

                Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

                Í málinu gerir nefnd A þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða henni bætur að fjárhæð 500.000 krónur. Gerð er krafa um dráttarvexti á höfuðstól kröfunnar frá 23. janúar til greiðsludags svo og greiðslu frekari kostnaðar vegna gagnaöflunar og rökstuðnings ef þörf krefur.  Þá er gerður fyrirvari um breytta kröfugerð ef í ljós kemur frekara tjón hjá brotaþola en nú liggur fyrir.“

Ákærði neitar sök og krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins. Hann krefst þess að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

II

                Aðfaranótt þriðjudagsins 23. janúar 2007 var lögreglan kvödd að Tröllateigi 21 í Mosfellsbæ.  Þetta er fjórbýlishús og hafði lögreglan fengið upplýsingar um að mikið gengi á í einni íbúðinni. Á vettvangi hitti lögreglan B sem sagði framangreindan brotaþola vera í íbúð sinni, en hún er á jarðhæð hússins við hlið íbúðar ákærða.  Í viðræðum við lögreglumenn skýrði brotaþoli svo frá að ákærði hefði verið að neyta áfengis í íbúðinni og haldið því áfram á bar.  Þangað hefði hún komið til hans og þau síðan farið heim og farið að horfa á sjónvarpið.  Eftir það hefði hún sofnað, en ákærði vakið hana um einum og hálfum tíma síðar og sagt henni að fara úr íbúðinni.  Brotaþoli sagði honum að það myndi hún gera um morguninn. Ákærði hefði þá rifið í slopp hennar og síðan hefðu hafist átök sem hefðu borist inn í barnaherbergi. Hefði ákærði bæði barið hana og sparkað í hana og haldið því áfram eftir að þau fóru inn á baðherbergi, en þar hefði hann tekið hana föstu kverkataki.  Að lokum hefði hann hent henni út úr íbúðinni.

                Framangreind B kvað C, nágrannakonu sína, sem býr í íbúð fyrir ofan sig, hafa hringt og spurt hvort hún heyrði ekki lætin. C sagðist hafa heyrt konu öskra somebody call police.  B opnaði dyr og sá þá brotaþola sitja í tröppum fyrir utan húsið.

                Lögreglumenn ræddu við ákærða og var hann áberandi ölvaður.  Hann var með 2-3 húðrispur á hægri handlegg við olnboga, rispu við hægri augnkrók, á nefbroddi og nokkrar á vinstri kinn.  Hann sagði lögreglumönnum að hann og brotaþoli hefðu deilt og hefði hann viljað að hún færi.  Ákærði kvaðst ekki hafa slegið brotaþola og ekkert hafa gert henni, en hún hlaupið að opnum glugga og öskrað á hjálp.  Hann hefði aðeins sett hendur utan um hana og reynt að ýta henni frá glugganum.

                Lögreglan flutti brotaþola á slysadeild og síðan í Kvennaathvarfið. Í vottorði slysadeildar segir að brotaþoli hafi gefið þær upplýsingar að hún hefði orðið fyrir árás drukkins sambýlismanns sem hafi tekið hana kyrkingartaki og henni finnist hún hafa misst meðvitund í fáeinar sekúndur.  „Þá segir hún að hann hafi kýlt hana hér og hvar um líkama og þá sér í lagi um ofanvert bak.  Hún neitar óþægindum við að anda djúpt eða hósta og neitar kviðverkjum. Þá segist hún hafa fengið spark í hægra læri og hægri hendi og einnig mun hann hafa hrint henni þannig að hún féll við og fékk sár á hægra hné.  Við skoðun má sjá roðasvæði sitt hvoru megin á hálsinum sem gæti mögulega verið eftir kverkatak.  Það eru svolítil eymsli um brjóstkassa og það sést töluvert af smáhrufli og nýlegum marblettum hér og þar um brjóstkassa ofanverðan og herðar svo og út á hægri öxlina.  Þá eru eymsli um hægra herðablað.  Loks eru eymsli um brjósthrygg eða á langvöðvum þeim sem liggja meðfram hryggnum. Á hægri fótlegg er svolítið sár framan yfir hnénu.  Þá eru nokkur eymsli sem þreifast yfir aftanverðu hægra læri.  Greining sem sjúklingur fær eru dreifðir yfirborðsáverkar og tognun um brjósthrygg. Tognun á hálsvöðvum.“

                Á slysadeild voru teknar ljósmyndir af brotaþola og einnig voru teknar myndir af henni í miðstöð áfallahjálpar 1. febrúar 2007.  Eru þessar myndir meðal gagna málsins.  Þá eru og meðal gagna málsins myndir sem ákærði tók af sér og sýna áverka á honum.

                Ákærði leitaði til slysadeildar 28. janúar 2007 vegna áverka sem hann sagðist hafa fengið í heimahúsi 21. janúar.  Þá hafi ráðist á hann kona með höggum, klóri og bitum og brotið gleraugu hans.  Um áverkamerki á honum segir:  „Í fyrsta lagi má telja mar utanvert við hægri olnboga sem sjúklingur segir vera tilkomið eftir að hann bar hendi fyrir sig til að bera af sér högg og telur jafnvel að hann hafi verið bitinn við hægri olnboga.  Þarna má sjá allstórt mar sem búið er að síga til á þessum dögum sem að liðnir eru frá atburðinum.  Þá er sjúklingur með annað mar sem er við hægri úlnlið innanverðan og segir hann að það sé eftir samskonar tilvik þ.e.a.s. hann var að bera fyrir andlitið til að verja sig höggi.  Þetta mar við úlnliðinn er allstórt og væntanlega búið að renna til líka eins og blóð gerir undir húð og er ekki talið að það gefi sanna mynd af stærð blettanna að fara að mæla þá við þessa komu.  Við skoðun á andliti eru tvær rispur á vinstri kinn og teygja sig frá efri vörinni og út á kinnina og eru láréttar, er þetta u.þ.b. 1-1½ cm hvor á lengd.  Síðan er rispa utanvert við hægri augnkrók.  Loks skal telja alllanga rispu utanvert á vinstri framhandlegg og er hún um 5-6 cm á lengd.“

III

                Við aðalmeðferð bar ákærði að umrædda nótt hefðu hann og brotaþoli verið á heimili hans, en þar hefði hún dvalið í tvær vikur þótt sambandi þeirra hefði verið lokið.  Hann kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis, en ekki mikið.  Ákærði kvaðst hafa horft á sjónvarp en síðan fært sig inn í eldhús og setið þar þegar brotaþoli vaknaði og kom fram til að fá sér vatnsglas.  Einhver orðaskipti urðu milli þeirra, en síðan fór brotaþoli inn í svefnherbergi hans, en ekki inn í herbergi dóttur hans þar sem hún annars gisti.  Ákærði kvaðst hafa farið á eftir henni og beðið hana að fara og átt við að hún ætti að fara í hitt herbergið.  Hún var þá komin undir sæng og hafi hún sagt honum að fara að sofa og ekki vera með leiðindi.  Þá kvaðst hann hafa flett af henni sænginni og ítrekað við hana að fara og síðan farið sjálfur fram og hún á eftir.  Þegar hann var kominn fram á gang kvaðst hann hafa litið við og þá hafi brotaþoli ráðist á hann og krafsað í hann með handleggjunum, en hún hefði ekki sagt neitt.  Hann kvaðst hafa tekið á móti og lagt handlegg utan um hana í augnablik og snúið henni við, en þá hefði hún bitið hann í handlegginn.  Þá sleppti hann henni og fór hún þá inn í herbergi dóttur hans.  Næst heyrði hann einhvern skarkala inni í herberginu og glugga opnaðan og heyrði hana kalla á hjálp og að kallað yrði á lögreglu.  Hann fór inn í herbergið og þar kom til ryskinga með þeim.  Brotaþoli reif meðal annars af honum gleraugun sem hann fann svo brotin daginn eftir.  Brotaþoli fór síðan út úr herberginu og fram á baðherbergi og læsti sig þar inni.  Hann kvaðst hafa beðið hana um að opna og þegar hún gerði það ekki kvaðst hann hafa reynt að opna dyrnar með verkfærum, en þegar það tókst ekki kvaðst hann hafa brotið hana upp.  Þar inni sat brotaþoli á klósettinu, en fór fram þegar hann kom inn.  Hún fór í síma og hringdi í einhvern og sagði að verið væri að lemja sig, en ákærði kvaðst hafa sagt henni að vera ekki að ljúga.  Eftir þetta kvað ákærði að hafi orðið spennufall, hún hefði farið og skipt um föt og farið út, en hann sest inn í eldhús og reynt að átta sig á því hvað hefði gerst.  Hann kvaðst hafa farið á eftir henni út og spurt hana hvort hún ætlaði ekki að pakka og fara.  Hún kvaðst hafa neitað því og hann þá farið inn aftur.  Skömmu síðar kom lögreglan. 

                Ákærði neitaði að hafa slegið brotaþola eða sparkað í hana og ekki hafa slegið höfði hennar við vegg.  Hann kvaðst ekki vilja kalla takið sem hann tók hana hálstak, enda hefði hendi hans farið neðar en hálsinn.  Sýndi hann takið í dóminum og var það eins og hann hefði tekið neðan við hálsinn, ofan við brjóstin. 

                Ákærði kvaðst hafa kynnst brotaþola þegar þau unnu bæði við flug milli Suður-Ameríku og Tenerife í mars 2006.  Ákærði kvaðst hafa heimsótt hana í Venezúela í júní og síðan kom brotaþoli til landsins í september og bjó með ákærða fram í nóvember sama ár.  Þá kom til átaka milli þeirra og fór brotaþoli af heimili hans og bjó hjá kunningjum hér á landi fram að jólum, en brotaþoli bjó hjá honum frá 20. til 28. desember er ákærði kvaðst hafa vísað henni á dyr.  Ákærði kvað brotaþola hafa komið til sín 12. janúar og hann leyft henni að vera.  Ákærði kvað samband þeirra fyrst hafa verið ástarsamband en síðar breyttist það í vinasamband.  Ákærði kvaðst vera 187 cm á hæð.  Hann kvaðst hafa leitað til slysadeildar vegna áverka sem hann fékk 23. janúar, en misritast hafi í vottorðinu að það hafi verið 21. janúar.

                Brotaþoli bar að hafa komið til landsins í september 2006 með ákærða sem var unnusti hennar.  Ætlunin var að þau myndu giftast og ætlaði hún að setjast hér að.  Þau hafi byrjað að undirbúa giftingu, meðal annars með því að leita til lögmanns vegna gerðar kaupmála.  Í sambandi þeirra komu upp erfiðleikar og beitti ákærði hana ofbeldi.  Hún kvaðst hafa flutt frá honum, en komið aftur og verið með ákærða um jólin og svo komið aftur.  Kvöldið fyrir nóttina sem atburðir þeir urðu, sem eru tilefni málsins, var ákærði heima að neyta áfengis og horfa á sjónvarpið.  Hún kvaðst hafa drukkið eitt glas með honum.  Á milli tíu og ellefu fór hann á bar og sendi henni smáskilaboð um að koma til sín og gerði hún það.  Þegar barnum var lokað fóru þau heim og hann fór að horfa á sjónvarpið og hélt áfram áfengisneyslu, en hún kvaðst hafa farið í rúmið.  Um klukkan hálfþrjú um nóttina kvaðst hún hafa vaknað og farið fram í eldhús og var ákærði þá að kasta upp.  Hún kvaðst hafa boðið fram hjálp sína en hann vildi ekki þiggja hana og fór hún þá aftur inn í rúm.  Ákærði kom á eftir henni og lyfti sænginni af henni og spurði hvað myndi gerast ef hann segði hana vera heimska.  Hún kvaðst hafa svarað því til að það myndi svo sem ekkert gerast.  Hann hélt áfram að kalla hana heimska og kvaðst hún þá hafa farið úr rúminu en hann hefði þá sagt að hann vildi að hún færi og fór hún þá inn í barnaherbergi og ákærði á eftir og þar fór hann að taka á henni og rífa í hár hennar og handleggi.  Brotaþoli kvaðst hafa haldið í rúmið en ákærði tekið í það og rykkt því til.  Hann opnaði gluggann og sagði henni að kalla á hjálp og gerði hún það, æpti á hjálp og bað um að einhver kallaði á lögregluna.  Þar á eftir reif hann í hár hennar og ýtti henni upp að veggnum, en hún hljóp út úr herberginu og inn á baðherbergi og læsti að sér, en það var eina herbergið sem hægt var að læsa.  Hún kvað ákærða hafa brotið upp hurðina og gripið í handlegg sér og löðrungað sig.  Hann hefði gripið um háls henni báðum höndum og slegið sér utan í vegginn.  Hún kvaðst hafa hætt að anda, en hann hefði haldið áfram að slá hana þar til hún féll í gólfið.  Það næsta sem hún mundi var að hún var hálf í baðkarinu og ákærði var að sparka í bakhluta hennar og mjaðmir.  Einnig hafi hann sparkað í hana liggjandi.  Hún kvaðst hafa reynt að ýta við honum og tókst að komast út úr baðherberginu.  Hún fann farsíma sinn og reyndi að hringja í lögregluna, en ákærði greip í fót hennar og hrinti henni og traðkaði með fæti sínum á öxl hennar.  Brotaþoli kvaðst hafa reynt að verjast og bæði klórað og bitið ákærða.  Meðan á þessu stóð var brotaþoli ekki klædd öðru en baðslopp.  Eftir að hún var komin út úr húsinu var hún í gallabuxum en hún kvaðst ekki vita hvenær hún fór í þær.

                Brotaþoli kvaðst muna til að hafa hlaupið út úr húsinu en ákærði orðið eftir.  Þegar það rann upp fyrir honum að hún var með farsímann hafi hann hlaupið á eftir henni og slegið til hennar, en henni tókst að víkja sér undan.  Hann sneri síðan við inn í húsið eftir að hafa æpt á hana.  Skömmu síðar hafi grannkona hleypt henni inn til sín og sagt sér að hringt hefði verið á lögregluna.  Lögreglan kom og flutti hana á slysadeild þar sem meðal annars voru teknar myndir af henni og síðar í Kvennaathvarfið.  Einnig voru teknar myndir af henni síðar.  Brotaþoli kvaðst vera 170 cm og hafa vegið 63 kg á þessum tíma.  Aðspurð kvað hún alla áverka á sér hafa verið vegna högga og sparka ákærða, hún hafi ekki fallið utan í húsgögn eða dyrastafi.  Áverkarnir sem sjást á myndunum séu allir afleiðingar af árás ákærða á hana.  Hún kvaðst enn hafa verki í hálsi sem afleiðingu af árásinni og eins hefði hún verk í mjóbaki.  Þá kvaðst hún ganga til sálfræðings í Venezúela til að takast á við afleiðingarnar.

                Hlynur Þorsteinsson læknir ritaði vottorðin um brotaþola og ákærða sem reifuð voru hér að framan.  Hann staðfesti vottorðin og bar að áverkar brotaþola hefðu verið áberandi og þess vegna voru þeir myndaðir af hjúkrunarfræðingi.  Hlynur kvaðst ekki hafa hitt brotaþola eftir þetta og ekki haft afskipti af myndatöku síðar, en hann bar að marblettir gætu komið fram síðar á líkama, hugsanlega eftir 6-7 daga.  Áverka á hálsi brotaþola kvað hann geta verið eftir hálstak og eins gætu föt hafa herst að húðinni og nuddast við hana.  Áverka brotaþola kvað hann geta verið eftir högg eða spörk og eins gætu þeir verið eftir fall utan í hluti eða annað. 

                B býr að Tröllateigi 21 og bar að umrædda nótt hefði hún verið vakin af nágrannakonu sinni.  B kvaðst hafa opnað útihurðina og þar hefði brotaþoli staðið lítið klædd, en hún hefði ekki barið að dyrum.  Brotaþoli kom inn til hennar og beið þar eftir lögreglu.  Ekkert töluðu þær saman en brotaþoli var greinilega í áfalli, eiginlega frosin.  B kvaðst ekki hafa hitt ákærða þetta kvöld.  Þau þekktust sem nágrannar og svo ynnu þau bæði við flug, en hún kvaðst aðeins tvisvar sinnum hafa flogið með honum.  Þá bar B að brotaþoli hefði reynt að fá sig með sér á fund yfirmanna Icelandair til að skýra frá málinu, en hún hefði ekki viljað það. 

                C býr að Tröllateigi 21 og kvaðst hafa vaknað umrædda nótt við að dóttir hennar vaknaði og fór fram.  Hún kvaðst þá hafa heyrt mikil óhljóð og köll.  Hún kvaðst hafa heyrt öskrað af öllum kröftum á ensku á hjálp og beðið um að kallað yrði á lögreglu.  Hún hringdi á lögregluna og beið á línunni þar til hún sá að lögreglan var komin.  Þegar lögreglan var komin kvaðst hún hafa hringt í B.  C kvaðst ekki hafa farið út og hvorki séð ákærða né brotaþola.  Hún kvaðst áður, í október eða nóvember, hafa orðið vör við læti í húsinu og vissi því að hávaðinn núna tengdist íbúð ákærða.  Vegna þessara fyrri atburða kvaðst hún núna hafa ákveðið að gera eitthvað og þess vegna hringt í lögregluna. 

                D býr að Tröllateigi 16.  Hún varð ekki vitni að atburðum þeim sem þetta mál fjallar um, en hún þekkti brotaþola og vissi af átökum ákærða og brotaþola 17. nóvember 2006.  Hún kvaðst ekki hafa haft samskipti við brotaþola eftir atburðinn 23. janúar 2007. 

                Martha Sandholt Haraldsdóttir lögreglumaður vann frumskýrsluna sem vitnað var til í II. kafla og staðfesti hún hana.  Hún kvað brotaþola hafa verið í mikilli geðshræringu, haltrað og verið með áverka.  Martha kvaðst hins vegar ekki hafa rætt við ákærða, en séð hann og hefði hann verið með skrámur og ölvaður. 

                Margrét Sigríður Blöndal hjúkrunarfræðingur við áfallamiðstöð Landspítala staðfesti að hún hefði tekið myndir af brotaþola 1. febrúar 2007, en henni hefði verið vísað til sín af slysadeild.  Tilgangurinn með að taka myndirnar var að sýna ummerki um áverka sem oft komi fram síðar, til dæmis marblettir.  Þegar brotaþoli kom til Margrétar leið henni illa vegna atburðarins.  Brotaþoli skýrði Margréti frá því að ákærði hefði ráðist á hana með höggum og spörkum og áverkarnir væru vegna þessa.

IV

                Þrátt fyrir að ákærði neiti sök hefur hann kannast við að til átaka hafi komið milli hans og brotaþola á heimili hans umrædda nótt.  Ákærða og brotaþola ber nokkuð saman um upphaf þeirra, en þeim ber hins vegar í milli um hversu mikil þau voru og hverjar afleiðingarnar voru.  Ljóst er þó af læknisvottorðum og myndum að þau báru bæði áverka eftir viðureignina.

                Hér að framan var rakinn framburður brotaþola um að ákærði hefði ráðist á hana.  Þessi framburður hennar fær stuðning í framburði vitnanna B og Mörthu sem báru um ástand brotaþola.  Hann fær og stuðning í framburði C sem heyrði brotaþola kalla á hjálp.  Framburður þessara þriggja vitna styður frásögn brotaþola um að ákærði hafi ráðist á hana og hún komist undan honum og út úr húsinu.  Eftir að brotaþoli komst út úr húsi ákærða fór hún til B og var þar uns lögreglan flutti hana á slysadeild.  Vottorð læknis og myndir sem teknar voru þar sýna þá áverka sem hún bar og getur enginn annar en ákærði hafa veitt henni þá.  Myndir sem teknar voru síðar í áfallamiðstöð Landspítalans sýna stóra marbletti á brotaþola og bar hún að þeir væru vegna högga og sparka ákærða.  Framburður læknis og hjúkrunarfræðings styður framburð brotaþola um að áverkarnir stafi af árás ákærða, en þau báru að það gæti tekið nokkra daga fyrir mar að koma fram sem yfirborðsáverka. 

Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að sannað sé, þrátt fyrir neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um líkamsárás á brotaþola umrædda nótt.  Brotaþoli ber að hann hafi tekið sig hálstaki, en sjálfur segist hann hafa lagt handlegginn utan um hana.  Tak það sem hann sýndi í dóminum og áverkar sem sjást á myndum af brotaþola benda hins vegar til þess að hann hafi tekið hana hálstaki eins og hann er ákærður fyrir og verður hann sakfelldur fyrir það.  Ákærði hefur neitað að hafa slegið höfði brotaþola í vegg.  Ekkert styður þetta atriði ákærunnar nema framburður brotaþola og gegn neitun ákærða er þetta ósannað og verður hann sýknaður af þessu atriði ákærunnar.  Framburður brotaþola um að ákærði hafi slegið hana og sparkað í hana styðst við læknisvottorð og ljósmyndir og telur dómurinn sannað, þrátt fyrir neitun hans, að hann hafi gerst sekur um það.  Samkvæmt öllu framanrituðu er sannað að ákærði veitti brotaþola þá áverka sem í ákæru greinir.  Brot ákærða er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

Ákærði hefur borið því við að kæra brotaþola sé sett fram af illvilja og tilgangur hennar hafi verið að koma honum úr starfi.  Þá hafi og vakað fyrir henni að afla sér samúðar hér á landi og greiða þannig fyrir landvistarleyfi.  Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárás á brotaþola samkvæmt ákærunni að einu atriði frátöldu.  Hvað brotaþoli kann að hafa aðhafst gagnvart ákærða í kjölfar árásarinnar er úrlausn málsins óviðkomandi og verður ekki frekar fjallað um það. 

Ákærði hefur hreint sakavottorð.  Refsing hans er hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði en fresta skal fullnustu hennar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins fyrir ákærða haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Krafa brotaþola um skaðabætur byggist á 26. gr. skaðabótalaga.  Með vísun til þess sem að framan var rakið um áverka á henni eru bætur til hennar hæfilega ákveðnar 400.000 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.  Það athugast að ákærða var birt bótakrafan 25. apríl 2007 og miðast upphaf dráttarvaxta við það þegar 30 dagar eru liðnir frá þeim degi.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola eins og greinir í dómsorði.  Varðandi annan sakarkostnað skal þess getið að málið var upphaflega dæmt 14. desember 2007.  Hæstiréttur ómerkti þann dóm 18. desember 2008 og var dómsformanni úthlutað málinu 7. janúar 2009.  Á sakarkostnaðaryfirliti sem sækjandi lagði fram við upphaf aðalmeðferðar kemur fram kostnaður við læknisvottorð að fjárhæð 25.700 krónur.  Annar kostnaður er vegna ferðar brotaþola hingað til lands, en hún er búsett í Venezúela.  Með hliðsjón af afdrifum fyrri dóms í málinu er ekki eðlilegt að ákærði verði látinn greiða kostnað af komu brotaþola til landsins, en hún kom hingað gagngert til að bera vitni í málinu.  Þessi kostnaður skal því greiddur úr ríkissjóði.

Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg, dómsformaður, Ásgeir Magnússon og Sigríður Ólafsdóttir.

Dómsorð

                Ákærði, Jens R. Kane, sæti fangelsi í 4 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins fyrir honum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

                Ákærði greiði A 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. janúar 2007 til 25. maí sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði 25.700 krónur í sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns Brynjars Níelssonar hrl., 334.656 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gríms Sigurðarsonar hdl., 139.440 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.  Annar sakarkostnaður skal greiddur úr ríkissjóði.