Hæstiréttur íslands

Mál nr. 504/2010


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Sératkvæði


                                                        

Fimmtudaginn 7. apríl 2011.

Nr. 504/2010.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir

settur vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Páll Arnór Pálsson hrl.

Ólafur Rúnar Ólafsson hdl.)

(Árni Pálsson hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Sératkvæði.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa á tilteknu árabili haft í frammi kynferðislega háttsemi gagnvart A, sonardóttur sinni, og um leið notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegra annmarka.  Í héraðsdómi þótti hvorki sannað að X hefði reynt að hafa samræði við A né að hann hefði haft við hana munnmök. X var því sýknaður af ákæru um þau brot og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu með vísan til 2. og 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Hæstiréttur taldi einnig með hliðsjón af framburði A og bróður hennar að sýkna bæri X af ákæru um að hafa að minnsta kosti tvisvar sinnum káfað á kynfærum A. Vísað var til þess að framburður A hefði ekki verið stöðugur innbyrðis í skýrslutökum, hún hefði verið þráspurð um atvik og í sumum tilvikum hefðu spurningar verið leiðandi. Þá hefði A slegið úr og í um atvik. Þótti framburður bróður A að nokkru sama marki brenndur. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. ágúst 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu verði staðfest, en refsing ákærða þyngd.

Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms, en til vara sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að einkaréttarkröfu brotaþola verði vísað frá héraðsdómi. Að því frágengnu krefst hann að refsing verði milduð og fjárhæð einkaréttarkröfu lækkuð.

A krefst að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2008 til 19. desember 2009, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

I

Í málinu voru ákærða gefin að sök kynferðisbrot gegn sonardóttur sinni, fyrrnefndri A, fæddri [...] með því að hafa á árunum [...] til [...] haft í frammi nánar tilgreinda kynferðislega háttsemi og um leið notfært sér að hún hafi ekki getað spornað við verknaðinum sökum andlegra annmarka. Í ákæru var nánar gerð grein fyrir sakargiftunum í þremur stafliðum. Ákærði var sýknaður af b. og c. lið ákærunnar með hinum áfrýjaða dómi og unir ákæruvaldið við þá niðurstöðu. Í a. lið ákæru var ákærða gefið að sök að hafa á heimili sínu að [...] káfað þrisvar til fjórum sinnum á kynfærum stúlkunnar innanklæða og var þetta talið varða við 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Í hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir þennan verknað, þó þannig að þetta hafi gerst í tvö skipti. Ákæruvaldið krefst þess sem fyrr segir að þessi niðurstaða héraðsdóms verði staðfest.

II

Ákærði reisir kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms annars vegar á því að niðurstaða hans um sönnunargildi munnlegs framburðar brotaþola og annarra vitna sé röng en hins vegar að framburður vitna sé ekki nægilega staðfastur til að hafið sé yfir vafa að brot hafi verið framið. Hæstiréttur endurmetur ekki niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu fyrir réttinum, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ekki eru efni til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til meðferðar að nýju, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar, enda verður við efnisúrlausn málsins tekin afstaða til þess hvort framburður brotaþola og annarra vitna sé ásamt öðrum sönnunargögnum með þeim hætti að nægi til sakfellis ákærða.

III

Eins og fram kemur í héraðsdómi lagði [...] fram kæru á hendur ákærða 19. maí 2009 til lögreglu vegna ætlaðra kynferðisbrota hans gegn A en sama dag voru tekin viðtöl í Barnahúsi af henni og bræðrum hennar, B og C. Við lögreglurannsókn málsins voru ennfremur teknar 9. júní sama ár skýrslur af þeim systkinum fyrir dómi samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 og loks við aðalmeðferð málsins 10. júní 2010.

Í áðurnefndu viðtali 19. maí 2009 sagði A að ákærði hafi reynt að leita á hana þegar hún hafi gist á heimili hans og verið komin upp í rúm. Þetta hafi hann gert þegar hann hafi verið að segja henni sögur, en hún hafi haldið „sænginni mjög fast.“ Nánar spurð hvað hann hafi verið að gera sagði hún að hann hafi reynt að koma við sig að „neðan.“ Spurð hvort ákærði hafi reynt að gera eitthvað við hana „með munninum ... við kynfærin“ sagði hún að hann hafi „ekki náð því.“ Í skýrslu fyrir dómi við rannsókn málsins bar hún að ákærði hafi á áðurnefndu heimili sínu ætlað að koma við klofið á henni en hún hafi ekki leyft það og haldið sænginni fast „þannig að hann kæmist ekki með hendina.“ Í framhaldi af því var hún innt eftir því hvert hann hafi reynt að fara með höndina og svaraði hún þá: „Budduna“. Eftir það var hún þráspurð hvort honum hafi tekist þetta við annað tækifæri og svaraði hún því neitandi, en loks mun hún þó hafa kinkað kolli. Hún var í framhaldi af því spurð hvort hann hafi „alltaf komið við budduna þegar þú komst í, varst [...]“ og svaraði hún þá að hún hafi ekki viljað þetta og því farið að halda sænginni. Þessu næst var hún spurð hversu mörgum sinnum hann hafi komið við „budduna“ á henni og svaraði hún að það hafi verið þrisvar eða fjórum sinnum. Hún minntist þess ekki að hann hafi snert hana annars staðar á líkamanum. Við aðalmeðferð málsins sagði stúlkan að ákærði hafi reynt að koma við „pjölluna“ á sér þegar hún hafi verið í heimsókn hjá honum. Spurð hvort honum hafi einhvern tíma tekist það svaraði hún: „Nei, ég passaði, hélt sænginni alveg þétt.“ Þá var hún spurð hvort hann hafi reynt þetta oft og svaraði hún því játandi, hann hafi alltaf gert það þegar hann hafi verið að segja sögur. Nánar spurð hvar hann reyndi að setja höndina „inn undir“ sagði hún: „Þar sem pjallan var.“ Sagði hún að ákærði hafi reynt að fara undir sængina, en hún haldið sænginni. Enn var hún spurð hvort ákærða hafi tekist að koma við „pjölluna“ en hún neitaði því. Síðar í skýrslunni svaraði hún aðspurð að hún minntist þess ekki að ákærði hafi gert henni eitthvað fleira. Henni var bent á að hún hafi sagt í skýrslu sinni við rannsókn málsins að ákærða hafi tekist að snerta á henni kynfærin og sagði hún þá að það hafi verið í eitt skipti. Í kjölfar þess var henni sagt að hún hafi borið við þessa skýrslugjöf að hann hafi náð að snerta hana oftar en einu sinni og svaraði hún þá: „Tvisvar þrisvar.“ Hún svaraði játandi að hún væri viss um þetta, en aðspurð hvort hún myndi eftir tveimur þremur skiptum svaraði hún neitandi. Var hún þá spurð af hverju hún héldi að honum hafi „tekist þetta svona oft“ og sagði hún þá: „Allavegana tvisvar.“ Enn síðar í skýrslunni var stúlkunni kynnt að B bróðir hennar hafi skýrt svo frá að hún hafi sagt sér að ákærði hafi sleikt kynfæri hennar og kvaðst hún þá hafa sagt honum þetta. Spurð hvenær þetta hafi gerst sagði hún að það hafi verið í [...] og hafi ákærði oft reynt þetta en aðeins tekist í eitt skipti.

Framburður bræðra A er rakinn í héraðsdómi. Hvorugur þeirra hefur borið að þeir hafi séð ákærða káfa eða reyna að káfa á kynfærum stúlkunnar. B hefur hins vegar skýrt frá að ákærði hafi sleikt á henni kynfærin, en það hafi gerst í sumarbústað. C sagði í viðtalinu 19. maí 2009 að sér hafi stundum fundist ákærði „ætla bara að reyna að koma við hana og svona“ og hafi A beðið þá bræður að passa að þetta kæmi ekki fyrir. Aðspurður hvort ákærði hafi einhvern tíma komið við hana svaraði C: „Mig minnir að hann hafi gert það já, þegar maður er að fara að sofa, þegar hann var að koma inn og ætlaði að segja kannski sögu eða eitthvað ... þá nýtir hann kannski tækifærið að gera eitthvað svona.“ Í skýrslu fyrir dómi við rannsókn málsins kvaðst C hafa séð ákærða „snerta brjóstin“ á henni, en hann hafi „tekið eftir því og það hefur verið talað um það líka.“ Þetta hafi gerst í herbergi þar sem þau systkinin hafi gist á heimili ákærða þegar hann sagði þeim sögur. Ákærði hafi reynt „að þukla einhvers staðar á henni“ og hafi hann alla vega séð þetta einu sinni. Í skýrslu við aðalmeðferð málsins bar C að ákærði hafi verið dónalegur þegar þau systkinin hafi farið að sofa í umræddu herbergi. Ákærði hafi þá setið við hliðina á A og verið að færa sig nær henni og „þreifa svona á líkamanum hennar.“ Nánar spurður hvar það hafi verið sagði hann: „Lærunum og brjóstunum, held ég, minnir mig.“ Ítrekað spurður um hvar höndin á ákærða hafi þá verið og hvort hún hafi verið undir eða yfir sænginni sagðist hann minna að höndin hafi verið yfir sænginni og svaraði því játandi að ákærði hafi snert hana „í gegnum sængina“. Enn var C inntur eftir því hvar á líkamanum ákærði hafi snert hana og svaraði hann þá: „Mest á lærunum“. Hann var síðan spurður á ný hvort ákærði hafi verið með höndina yfir eða undir sænginni og við svo búið svaraði hann: „Hann var held ég bara svona meira undir, en hann gerði náttúrulega líka yfir sænginni.“ Að fengnu því svari var hann spurður á þessa leið: „Þannig að þú hefur séð höndina í rauninni eins og einhverja bungu undir sænginni þegar hann var undir sæng eða hvað?“ Þessu svaraði drengurinn játandi.

Fjölskipaður héraðsdómur hefur metið framburð A trúverðugan. Það fær því þó ekki breytt að ljóst er af því sem rakið hefur verið að frásögn hennar hefur verið á reiki um þá háttsemi sem ákærða er gefin að sök í a. lið ákæru og hefur framburður hennar tekið talsverðum breytingum frá einni skýrslu til annarrar. Að auki hefur framburður hennar ekki verið stöðugur innbyrðis í skýrslutökunum, einkum við aðalmeðferð málsins, enda hefur hún verið þráspurð um atvik og í sumum tilvikum hafa spurningarnar verið leiðandi. Þá hefur hún einnig slegið úr og í um önnur atvik, svo sem um það hvort ákærði hafi sleikt á henni kynfærin. Að framan eru raktar skýrslur bræðra hennar og er framburður C að nokkru sama marki brenndur, en vætti B styður ekki sakargiftir samkvæmt þeim ákærulið, sem hér er til meðferðar. Að þessu virtu verður gegn eindreginni neitun ákærða og með vísan til 108. gr. og 109. gr. laga nr. 88/2008 að sýkna hann af sakargiftum í máli þessu.

Samkvæmt 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 verður einkaréttarkröfu A vísað frá héraðsdómi.

Allur sakarkostnaður málsins í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærða og þóknun réttargæslumanna A, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, Ólafs Rúnars Ólafssonar héraðsdómslögmanns, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Arnbjargar Sigurðardóttur héraðsdómslögmanns, allt eins og ákveðið var í hinum áfrýjaða dómi, svo og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola fyrir Hæstarétti, Árna Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.

Sératkvæði

Garðars Gíslasonar

Svo sem nánar greinir í héraðsdómi kom upp grunur um [...] systkinanna A, B og C, sem greind höfðu verið með þroskaskerðingu og bjuggu hjá móður sinni [...]. [...] óskaði efir rannsóknarviðtölum í Barnahúsi vegna þessa, sem fram fóru 19. maí 2009. Með bréfi sama dag óskaði [...] eftir að [...] rannsakaði grun um kynferðisbrot gegn A. Í bréfinu var vísað til þess að í viðtalinu þá um daginn hafi hún greint frá því að faðir hennar hefði fyrir u.þ.b. [...] árum haft við hana kynmök nokkrum sinnum og einnig leitað á hana kynferðislega á annan hátt. Einnig, að slíkt hefði gert nafngreindur bróðir hans, svo og að faðir þeirra, afi hennar, ákærði í máli þessu, hafi sýnt henni ýmiss konar kynferðislega háttsemi. Í viðtalinu í Barnahúsi sagði brotaþoli að ákærði hefði reynt að koma við sig „að neðan“ þegar hún var 16 ára. Við lögreglurannsókn málsins voru ennfremur teknar skýrslur 9. júní sama ár af þeim systkinum fyrir dómi, svo og við aðalmeðferð málsins 10. júní 2010. Í skýrslu fyrir dómi 9. júní 2009 sagði brotaþoli að ákærði hefði ætlað að koma við klofið en hún ekki leyft það. Það hefði verið þegar þau voru [...] og hann verið að segja sögur, hún hefði bara haldið sænginni fast og B bróðir hennar hefði vitað af þessu. Þá var hún spurð af hverju hún hefði haldið fast í sængina og hún svaraði: „Þannig að hann kæmist ekki með hendina.“ Þá var hún spurð hvert hann hafi verið að reyna að fara með hendina og hún svaraði: „Þarna“. Þá var hún spurð hvað þessi staður héti og hún sagði: „Budduna“. Þá var spurt hvort hann hefði gert það en hún svaraði: „Nei, ég leyfði honum það ekki, ég hætti, ég vildi þetta ekki.“ Þá sagði spyrjandinn: „Nei, honum tókst það ekki þarna, en hefur hann gert það áður, komið við budduna?“ Bókað var að svar heyrðist ekki, en skipaðir verjendur allra þriggja kærðu voru viðstaddir og eru sakflytjendur sammála um að brotaþoli hafi svarað með því að kinka kolli. Nánar aðspurð sagði brotaþoli að þetta hefði verið [...], hann hefði alltaf gert þetta þá, þegar þau komu [..]. Hann hefði komið þrisvar til fjórum sinnum við budduna með höndunum. Í framburði brotaþola við aðalmeðferð málsins kom fram að ákærði hefði tvisvar sinnum snert kynfæri hennar þegar hún var á aldrinum 14 til 18 ára.

Svo sem rakið er í héraðsdómi bar móðir brotaþola að dóttir hennar hefði byrjað að segja henni frá málsatvikum þegar hún var á milli 16 og 17 ára. Hún hefði trúað barninu en ekki lagt fram kæru. Hún hefði talað við foreldra sína og einnig við félagsráðgjafa og ekki rofið nein samskipti við ákærða. Brotaþoli hefði sagt henni að oft þegar ákærði hefði verið að segja þeim systkinum sögur fyrir svefninn hefði hann farið undir sængina og þuklað á „pjöllunni“ á henni og brjóstunum, bæði á heimili ákærða [...] og í sumarbústað. Hún hefði verið farin að ríghalda í sængina til að hann kæmist ekki undir hana. Móðir brotaþola bar og að það hefði verið orðin kvöð fyrir stúlkuna að fara til afa og ömmu og henni hefði liðið illa, ástæðan væri þessi háttsemi ákærða. Hún sagði að brotaþoli vildi ekki ræða þetta mál og skammaðist sín greinilega fyrir þetta.

Í skýrslu G sálfræðings 24. febrúar 2010, sem reifuð er í héraðsdómi, segir að brotaþoli hafi helst ekki viljað ræða þessa atburði en þó fallist á að segja honum frá „málinu“ eins og hún hafi orðað það, en þurft að taka sér nokkur hlé vegna mikillar vanlíðunar. Í skýrslunni segir jafnframt að niðurstöður greindarprófs sýni viðmiðunargetu á [...] stigi hvað varði almennan skilning, orðskilning og myndun yfirhugtaka. Greind hennar væri ofarlega á stigi vægrar þroskahömlunar. Hún væri mjög kvíðin og döpur og hefði tilhneigingu til að einangra sig félagslega.

Fjölskipaður héraðsdómur hefur metið framburð brotaþola trúverðugan. Í hinum áfrýjaða dómi eru ítarlega reifaðar skýrslur sem gefnar voru í málinu, svo og önnur málsgögn sem varða a. lið ákærunnar. Með vísan til þess sem sagt hefur verið um tregðu brotaþola til að tala um þær sakargiftir sem bornar hafa verið á ákærða, svo og þess sem hér hefur verið rakið, er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að fullt samræmi hafi verið í framburði brotaþola í þeim þremur skýrslum sem hún gaf. Vegna þessa og með vísan til forsendna héraðsdóms í þessum ákærulið að öðru leyti ber að staðfesta dóminn um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til hegningarlaga.

Því ber að staðfesta héraðsdóm með vísan til forsendna hans og dæma ákærða til að greiða áfrýjunarkostnað málsins.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. júlí 2010.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var að aflokinni aðalmeðferð 21. júní sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 30. apríl 2010, á hendur X, kt. [...], [...], [...] „fyrir kynferðisbrot, gegn sonardóttur sinni, A, fæddri [...], með því að hafa á árunum [...] og [...], brotið gegn henni eins og að neðan greinir og við það m.a. notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegra annmarka sinna:

a)       Á ofangreindu heimili sínu káfað þrisvar til fjórum sinnum á kynfærum hennar innanklæða.

b)       Í bifreið sem staðsett var á [...], reynt einu sinni að hafa samræði við hana.

c)       Í sumarbústað á [...], einu sinni haft við hana munnmök.

Telst háttsemi ákærða samkvæmt a-lið varða við 2. mgr. 200. gr., samkvæmt b- og c-lið við 2. mgr. 200. gr. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 61/1007, sbr. áður 196. gr. laga nr. 19/1940 og einnig sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga hvað varðar b-lið.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkröfur:

Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. nóvember 2002 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.”

Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög framast heimila. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

Jafnframt krefst ákærði sýknu af einkaréttarkröfum, en til vara verulegrar lækkunar.

Loks er krafist hæfilegrar þóknunar að mati dómsins og í samræmi við framlagða vinnuskýrslu.

II.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dags. 19. maí 2009, lagði [...] [...] fram kæru, dagsetta sama dag, á hendur ákærða í máli þessu, Y og Z vegna ætlaðra brota þeirra gegn brotaþola og bræðrum hennar, þeim B og C. Í frumskýrslunni segir að fjölskyldutengsl hinna kærðu og ætlaðra brotaþola séu þau að ákærði sé föðurafi barnanna, Z faðir þeirra og Y föðurbróðir. Þá segir að grunur hafi vaknað um ætluð brot í í könnunarviðtali sem systkinin hafi farið í hjá starfsmanni Barnahúss þennan sama dag vegna gruns um [...]. Loks segir að börnin séu öll þroskaskert og skjólstæðingar [...] [...].

Í kæru [...] [...], dags. 19. maí 2009, segir að brotaþoli sé þroskaskert og búi ásamt yngri bræðrum sínum, B, fæddum [...] og C, fæddum [...], hjá móður sinni, D á [...]. Nýlega hafi komið upp grunur um kynferðislegt athæfi milli systkinanna, sem ákveðið hafi verið að kanna frekar með viðtali í Barnahúsi. Hafi þessi viðtöl farið fram nú í dag. Í viðtali við brotaþola, A, hafi hún greint frá því að faðir sinn, sem búsettur væri [...], hefði fyrir u.þ.b. [...] árum nokkrum sinnum haft við sig kynmök og einnig leitað á sig kynferðislega á annan hátt. Einnig að slíkt hefði gert föðurbróðir hennar, Y, einnig búsettur [...], svo og hefði ákærði, sem búsettur væri [...], sýnt henni ýmiskonar kynferðislega háttsemi, m.a. sleikt á henni kynfærin.

Í fyrrgreindu könnunarviðtali, sem E annaðist í Barnahúsi hinn 19. maí 2009, skýrði brotaþoli frá því að afi hennar hefði sagst ætla að fara í búð með hana og farið með hana í bílnum. Hann hefði ætlað að fara upp á hana en hún hefði stöðvað hann. Afi hennar hefði síðan keypt handa henni tímaritið Bleikt og blátt, en hún væri búin að henda blaðinu. Þetta hefði átt sér stað þegar hún var í heimsókn [...], sennilega [...]. Þá sagði hún að afi hennar hefði reynt að koma við hana að neðan þegar hann var að segja sögur, en hún hefði haldið sænginni mjög fast. Það hefði fyrst átt sér stað þegar hún var 16 ára. Þá sagði hún að afi hennar hefði reynt að setja typpið inn, en ekki náð því. Hún sagði að pabbi sinn og Y hefðu oftast gert eitthvað við hana, en líka afi hennar þegar hún hefði komið [...], en það hefði ekki verið oft. Pabbi hennar og Y hefðu komið með munninn við kynfæri hennar. Einnig hefði afi hennar gert það í sumarbústaðnum. Hún sagði að pabbi hennar, afi og Y hefðu sagt að þetta væri eðlilegt og að fólk gerði svona. Þeir hefðu jafnframt sagt henni að segja ekki frá þessu.

Í könnunarviðtali, sem fram fór sama dag í Barnahúsi, skýrði B frá því að X afi hefði sleikt A og það hefði gerst í bústað. Nánar aðspurður sagði hann: “Þá var hann að sleikja píkuna á henni og alveg upp brjóstin.” Sagðist hann halda að þetta hefði verið árið [...] í [...] ára afmælisveislu afa síns. Sagðist hann hafa verið að reyna að sofna þegar hann sá þetta, en sagðist ekki vita “hvort hann hefði stungið þessu inn” því hann hefði sofnað. Sagði hann að afi sinn hefði verið mjög drukkinn. A hefði tjáð honum að hún væri hrædd við afa sinn og beðið sig um að koma með svo að hún væri örugg þegar þau færu í sumarbústaðinn þar sem þetta hefði gerst. Sagði hann jafnframt að afi sinn hefði þuklað á A.

Í könnunarviðtali, sem fram fór sama dag í Barnahúsi, skýrði C frá því að þau systkinin væru oftast inni í sjónvarpsherbergi að skoða klám þegar mamma þeirra væri ekki heima. Hann sagði að afi sinn [...] hefði gefið A klámblað og sagt henni að fela það, en það væri langt síðan. Sagðist C halda að þá hefði A verið [...]-[...] ára. Hann sagði að hann héldi að afi sinn hefði ætlað að koma við hana og sagði að A hefði beðið þá bræður sína að passa sig svo að afi þeirra myndi ekki koma við hana. Sagði hann að sig minnti að afi þeirra hefði gert það og nýtt tækifærið þegar A var að fara að sofa.

Á meðal gagna málsins er bréf frá [...], dags. [...], til félagssviðs [...] og gefur þar að líta niðurstöður athugunar barnalæknis og sálfræðings á þroskastöðu brotaþola. Þar segir að prófun bendi til vægrar þroskahömlunar með mynstri [...]. Náms- og aðlögunarfærni sé í samræmi við þetta. Við endurteknar mælingar hafi greindarvísitölur farið lækkandi, en orsök þess sé óljós. Þá er lýst alvarlegum atferlis- og [...],[...] og [...]og [...].

Þá er á meðal gagna málsins skýrsla um athugun sálfræðings á B, dags. 20. apríl 2009. Þar kemur fram að frammistaða hans á þroskaprófi, sem mælir [...] hafi verið mjög slök. Í framlagðri skýrslu um athugun sálfræðings á C kemur og fram að frammistaða hans á greindarprófi hafi gefið til kynna [...].

Í málinu liggur frammi vottorð F, heilsugæslulæknis á [...], dags. 3. desember 2009. Þar segir m.a. að í [...] hafi brotaþoli verið lögð inn á sjúkrahús vegna [...]. Einnig að í gegnum tíðina hafi verið miklar kvartanir [...] og hafi hún komið á [...] í [...] vegna [...]. Rannsóknir á brotaþola hafi ekki leitt í ljós neitt óeðlilegt. Jafnframt kemur fram að læknirinn hafi rætt það við móður brotaþola í [...] hvort einkenni brotaþola gætu verið af sálrænum toga og að hún hafi einnig verið að velta því fyrir sér. Loks kemur fram að á brotaþola hafi verið gerð ófrjósemisaðgerð í [...].

Einnig er á meðal gagna málsins skýrsla G sálfræðings, dags. 24. febrúar 2010, um athugun hans á brotaþola. Sú athugun hafi verið gerð að beiðni lögreglu vegna ætlaðra kynferðisbrota gegn henni. Í skýrslunni segir að markmið með athugun sé einkum að framkvæma greindarmat á brotaþola og út frá því að álykta um getu hennar til að greina frá tímasetningum og fjölda þeirra atvika sem hún hefur upplifað í tengslum við ætluð kynferðisbrot.

Í skýrslunni segir að A sýni mikla vanlíðan þegar rætt sé við hana um meint kynferðisbrot af hálfu föður hennar, föðurbróður og föðurafa. Hún vilji helst ekki ræða þessa atburði, hnipri sig saman í sæti og hylji andlit sitt með hárinu. A fallist þó á að segja skýrsluhöfundi frá málinu, en þurfi að taka sér nokkurt hlé vegna mikillar vanlíðunar. Í skýrslunni segir að lýsing A á ætluðum kynferðisbrotum sé trúverðug í alla staði. Hún muni þessa atburði vel og segi föður sinn t.d. ekki hafa hætt að beita sig kynferðislegu ofbeldi fyrr en hann hafi „nælt“ sér í konu. Einnig hafi frændi hennar ítrekað misnotað hana kynferðislega á heimili sínu og að afi hennar hafi gert það sama en eingöngu „[...]“.

Í skýrslunni segir að niðurstöður greindarprófunar sýni heildarútkomu á stigi vægrar þroskahömlunar. Útkoma á öllum prófþáttum, bæði mállegum, verklegum og óyrtum sé marktækt undir meðallagi. Í skýrslunni segir að mállega greindartala samkvæmt prófun sé [...], verkleg [...] og á prófi í heild [...]. Til frekari glöggvunar á vitsmunalegri stöðu brotaþola hafi verið lagðir fyrir hana valdir mállegir þættir úr nýlega stöðluðu greindarprófi hér á landi fyrir börn og unglinga. Niðurstöður sýni viðmiðunargetu á [...] til [...] ára stigi hvað varði almennan skilning, orðskilning og myndun yfirhugtaka. Tilgáta um vitsmunaþroska á stigi vægrar þroskahömlunar sé þannig staðfest. Í lokakafla skýrslunnar, sem ber yfirskriftina, samantekt og álit, segir orðrétt:

„Niðurstöður greindarprófunar sýna greind ofarlega á stigi vægrar þorskahömlunar hjá A. Hún er mjög [...]. Eins og gera má ráð fyrir út frá þeirri fötlun, sem A á við að stríða, koma til dæmis fram erfiðleikar á sviði [...]. Þessir erfiðleikar teljast þó vægir miðað við þá sem eiga við þroskahömlun að stríða og koma alls ekki í veg fyrir að lýsing hennar á meintum kynferðisbrotum sé ótrúverðug. Sú mikla vanlíðan, sem hún sýnir vegna þessara atburða skýtur einnig stoðum undir framburð hennar.“

Þá hefur verið lagt fram í málinu vottorð H sálfræðings í Barnahúsi, dags. 8. júní 2010, um mat á líðan brotaþola, afleiðingum ætlaðs kynferðisbrots ákærða og framtíðarmeðferðarþörf. Er bréfið ritað í tilefni af beiðni ríkissaksóknara frá 26. maí 2010. Í lokakafla vottorðsins, sem ber yfirskriftina, samantekt og álit, kemur fram eftirfarandi:

„A hefur sótt 11 viðtöl til undirritaðs sálfræðings frá 20. ágúst til nú. Viðtölin hafa leitt í ljós fjölmörg vandamál sem þekkt eru á meðal barna og unglinga sem sætt hafa kynferðislegu ofbeldi í langan tíma. Stúlkan uppfyllir greiningarskilmerki þunglyndis og kvíða. Sjálfsmat hennar er lágt og skapsveiflur og tilhneiging til einangrunar valda henni erfiðleikum í félagslegum samskiptum. Stúlkan er orkulaus og fátt veitir henni ánægju. Hún virkar oft leið og sýnir sterka forðunarhegðun þegar ræða skal ætlað kynferðisbrot og afleiðingar þess. Einnig forðast stúlkan ákveðna staði og er hrædd við karlmenn. Lágt sjálfsmat og skortur á líkamsvitund er áberandi. Þegar stúlkunni hefur liðið sem verst hefur hún skaðað sjálfa sig, m.a. með því að skera í hendur og botnlangaskurð.

A ber afar neikvæðar tilfinningar til X afa síns og nefnir hann „Skrattann“. Á hún erfitt með að tala um kynferðisbrot það sem hún kveðst hafa sætt af hans hendi. Sýnir hún líkamleg kvíðaviðbrögð þegar talað er um ætlað brot.

Samkvæmt frásögn A komst hún í kynni við kynferðislega hegðun löngu áður en hún hafði þroska til að takast á við slíkt. Eins og kemur fram hér að ofan er þetta sérstaklega alvarlegt þegar horft er til vitsmunaþroska stúlkunnar. Þegar hefur komið í ljós að hún á erfitt með að gera sér grein fyrir hvað er eðlilegt í samskiptum og hvað ekki. Getur þetta leitt til langvinnra vandamála í samskiptum við aðra. Vegna þroskahömlunar er A nú þegar í áhættuhóp varðandi kynferðislegt ofbeldi. Vitað er að þegar einstaklingar verða fyrir kynferðisbroti á unga aldri aukast líkurnar á að vera aftur fyrir slíku. A telst því í miklum áhættuhóp varðandi frekari kynferðisbrot.

Meðal þátta sem veita forspá um afleiðingar kynferðislegs ofbeldis gegn börnum eru i) hversu lengi stóð ofbeldið yfir, ii) hversu alvarlegt var ofbeldið iii) hver voru tengsl geranda og þolanda. Í ljósi þess að A hefur greint frá kynferðislegu ofbeldi af hendi afa síns, fjölskyldumeðlimi sem börnum er eðlislægt að treysta, auk þess sem beint brot hefur verið endurtekið og yfir nokkurn tíma má ætla að afleiðingarnar séu alvarlegar og renna niðurstöður sjálfsmatskvarða og viðtala stoðum undir að svo sé.

Í viðtölum hefur reynst best að nota verkefni og mál sem ætlað er fyrir [...] ára börn. Skertur vitsmunaþroski A hefur haft töluverð áhrif á framgang meðferðar og má búast við að meðferð verði langvinn. Að auki eru líkur á því að stúlkan muni eiga erfitt með að nýta sér meðferð að fullu og því líklegt að erfitt muni reynast að vinna á ákveðnum afleiðingum brotsins.“

Í beiðni fjölskyldudeildar [...] um könnunarviðtal í Barnahúsi vegna systkinanna, dags. [...], af segir m.a. eftirfarandi um brotaþola:

„A hefur í gegnum tíðina verði að greina frá kynferðislegri áreitni sem hún á að hafa orðið fyrir. Frásagnir hennar hafa verið mjög ótrúverðugar einnig hefur borði (sic) á miklu ósamræmi í frásögnum hennar. Þess ber einnig að geta að A er mjög ósannsögul og með ríkt ímyndunarafl.

Í viðtali sem undirrituð átti við D, móður A í [...] átti A að hafa greint móður sinni frá því að pabbi hennar hefði gert það með henni í þrjú til fjögur skipti. Í eitt skipti þá var hún að fara að sofa, var búin að taka lyfin sín sagðist hafa verið mjög þreytt og ekki getað ýtt honum af sér. Þegar A sagði móður sinni frá atvikinu þá var hún ásamt börnunum sínum þremur í bíl og voru drengirnir að tala um klám og kynlíf. D átti erfitt með að tímasetja hvenær A greindi henni frá ofanrituðu en heldur að það hafi verið [...] og að A hafi verið fimmtán ára. Í framhaldi af ofanrituðu fór D með A til kvensjúkdómalæknis, sú skoðun leiddi í ljós að meyjahaftið (sic) var órofið.

A fór einnig í skoðun til kvensjúkdómalæknis í [...] eftir að A sagist vera barnshafandi eftir að hafa haft mök við útlending sem hún hitti í sjoppu á [...] og farið með honum heim. Sú skoðun leiddi einnig í ljós að meyjahaftið (sic) var órofið.“

Með bréfi, dags. 11. júní 2010, til I læknis óskaði sækjandi eftir því að framkvæmd yrði kvenskoðun á brotaþola með það að markmiði að kanna í fyrsta lagi hvort meyjarhaft hennar sé nú rofið, í öðru lagi hvort staðsetning meyjarhaftsins sé að einhverju leyti óeðlileg og í þriðja lagi hvort einhverjar þær ástæður séu fyrir hendi sem leiði til þess að það rofni ekki eins greiðlega og almennt gerist.

Svarbréf læknisins er dagsett 14. júní 2010. Þar kemur m.a. fram eftirfarandi:

„Í [...] gerði ég neðanskoðun og segi þá: „Meyjarhaftið er órofið og þar að auki með streng sem liggur aðeins til vinstri við miðlínu frá fram og yfir að afturveggnum.“ Í skoðun [...] segi ég: „Ytri kynfæri líta eðlilega út. Meyjarhaftið er órofið og fæ að setja inn fingur varlega, það er ekkert óeðlilegt að finna.“ Næsta skoðun er gerð [...]. Skoðun er gerð í svæfingu og að beiðni J barnalæknis og skoðaði hún A ásamt mér. Í niðurstöðu segir: „á ytri kynfærum er ekkert óeðlilegt að sjá, hymen hringurinn er órofinn en gefur ágætlega eftir þegar sett er upp lítið speculum.“ Næsta skoðun er 18.03.2009 og þar segir: „VVP er eðlilegt að sjá.“ Skammstöfunin VVP þýðir vulva, vagina og portio eða ytri kynfæri, leggögn og legháls lítur eðlilega út. Í þeirri skoðun geri ég leggangaómun og þarf þá að setja upp staut sem er ca. 2. cm í þvermál og gekk það greiðlega.“

Um kvenskoðun á brotaþola hinn 12. júní sl. segir eftirfarandi í bréfinu:

„Ytri kynfæri A líta eðlilega út og er meyjarhaftshringurinn órofinn en framan til við hliðina á þvagrásinni vinstra megin er örlítil ójafna sem væntanlega er eftirstöðvar af strengnum sem ég lýsi í skoðuninni [...] en hann er a.ö.l. ekki til staðar. Neðsti hluti legganga lítur eðlilega út og er eðlilegur þegar ég þreifa. Leggangaopið og meyjarhaftshringurinn gefa mjög vel eftir og er þar engin fyrirstaða. Frekari skoðun er ekki gerð.

Niðurstaða vottorðsins er sú að ekki sjáist rof í meyjarhafti. Einnig að meyjarhaftið sé á réttum stað og líti eðlilega út. Loks segir að leggangaop og meyjarhaftshringur konunnar séu mjög mjúk og teygjanleg. Meyjar haftið rofni ekki hjá öllum konum við fyrstu samfarir og rofni þá oftast ekki heldur síðar fyrr en við fæðingu barns. Ekki þurfi frekari skýringar við.

Af hálfu ákærða voru lögð fram vottorð K heilsugæslulæknis, dags. 14. júní 2010 og vottorð L læknis og sérfræðings í þvagfæraskurðlækningum, dags. 10. júní 2010.

Í vottorði heimilislæknisins segir að ákærði sé með [...] og hafi gengist undir [...] vegna þess árið [...]. Einnig sé vitað að hann sé með [...] sem ekki hafi verið hægt að víkka út. Ákærði sé á umtalsverðri lyfjameðferð vegna þessa og undir eftirliti [...]læknis. Ennfremur hafi ákærði verið með [...] um [...] skeið. Nýlega hafi verið sýnt fram á [...]og sé hann nú í meðferð hjá [...]lækni vegna þess og verði svo áfram um ókomin ár. Auk þess hafi ákærði [...] og nýlega hafi verið sýnt fram á [...] í [...] og líklegt sé að hann þurfi að gangast undir skurðaðgerð [...] vegna þessa.

Þannig sé ljóst samkvæmt framansögðu að X glímir við erfiða langvinna sjúkdóma og þarf að sækja reglulega meðferð vegna þessa og undirritaður telur að það gæti haft mjög neikvæð áhrif á hans heilsu að þurfa að afplána fangelsisvist.“

Í fyrrgreindu vottorði L læknis segir eftirfarandi:

„Það staðfestist hér með að X greindist með [...] í [...]. Stuttu eftir það fór hann í aðgerð þar sem [...] var [...]. Hann reyndist hafa [...]. X var síðan í reglulegu eftirliti hjá mér á stofu. Í nótu þann [...] hef ég skrifað að hann fái [...] og hafi takmarkaðan áhuga á því. Sjúklingur fær síðan [...] árið [...] og er eftir það vísað til M [...]læknis. Í framhaldi af því fer sjúklingur í [...] á vegum M og eftir það verið í eftirliti á hans vegum.

Eftir [...]aðgerð á [...] er það þekktur algengur fylgikvilli að fá [...] og er [...] allt upp í [...]%. Auk þess getur [...]meðferð eins og sjúklingur fékk einnig aukið á þessi vandamál. Þessi meðferð, þ.e.a.s. aðgerð og [...]meðferð hefur hins vegar engin áhrif á [...].“

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum og hjá lögreglu eftir því sem þurfa þykir:

Ákærði neitar sök. Í skýrslu sinni hér fyrir dómi sagðist hann hafa átt eðlileg samskipti við brotaþola og fjölskyldu hennar fram að því er mál þetta kom upp fyrir um ári síðan. Hann sagði að móðir barnanna hefði hins vegar haft lítil samskipti við hann og N konu hans eftir að hún skildi við son þeirra og föður barnanna, Z. Ákærði sagði að börnin hefðu komið [...] í helgarferðir nokkrum sinnum á ári og þá oft gist þá hjá þeim, afa sínum og ömmu. Þá hefðu þau hjón mætt til þeirra í afmæli, við fermingar og aðra viðburði. Síðast hefðu þau séð systkinin í fermingu C.

Aðspurður sagði hann það fráleitt að hann hefði káfað á brotaþola innanklæða og sagðist hann ekki átta sig á því hvað brotaþola gengi til að halda þessu fram.

Hann sagði að þegar systkinin hefðu gist hjá þeim hefði pabbi þeirra oftast einnig verið með í för. Systkinin hefðu þá yfirleitt sofið öll þrjú í gestaherberginu á hornsófa, sem hægt væri að stækka. Hann sagði að amma þeirra hefði búið um þau og oftast borið honum boð frá krökkunum um það hvort að hann nennti að segja þeim sögur fyrir svefninn. Sagðist ákærði vera þekktur fyrir að segja sögur og kunna mikið af þeim. Hann sagðist yfirleitt hafa orðið við þessari bón krakkanna og sagt þeim sögur. Hann sagði að það væri alrangt hjá brotaþola að hann hefði káfað á henni á meðan hann sagði þeim sögur fyrir svefninn. Stundum hefði hún þóst vera hrædd við eitthvað í sögunni og gripið í höndina á honum í augnablik, en það hefði verið allt og sumt.

Ákærða var sýndur uppdráttur á dskj. nr. 10. Hann sagði að þau hjónin hefðu látið gera svefnherbergi þar sem gert væri ráð fyrir borðstofu á uppdrættinum. Hann sagði að börnin hefðu sofið í svefnherberginu, sem væri beint á móti anddyrinu. Pabbi þeirra hefði hins vegar sofið á gestarúmi inni í stofu.

Í einni slíkri helgarferð hefðu börnin viljað fara niður í bæ til að kaupa sér bland í poka, en þau hefðu verið með einhverja peninga meðferðis. Þau hjónin hefðu farið með börnin þrjú í verslunarmiðstöðina [...] í þeim tilgangi. Þau hefðu öll verið fótgangandi. Þá hefði brotaþoli séð tímaritið Bleikt og blátt til sölu í versluninni [...] og viljað kaupa það. Sagðist ákærði hafa sagt við hana að ef hún vildi eiga blaðið skyldi hún kaupa það sjálf. Nánar aðspurður sagðist hann halda að hann myndi það rétt að bræður brotaþola hefðu verið með í þessari ferð. Hann sagði að það væri fjarri lagi að hann hefði keypt þetta blað handa brotaþola og sagðist ekki vita hvort brotaþoli keypti blaðið. Eftir þetta hefðu þau öll farið heim aftur, enda hefðu þau oftast gert það þegar þau voru búin að sinna sínum erindum.

Ákærði sagðist ekki minnast þess að þau hefðu farið í ökuferð eftir að áðurgreint blað var keypt. Sagðist hann ekki muna betur en að þau hefðu gengið heim þegar búið var að versla. Þá neitaði ákærði því að hafa reynt að hafa samfarir við brotaþola í bifreið sinni. Sagðist hann hafa farið í aðgerð vegna [...] fyrir um [...] árum og ekki risið hold síðan. Því væri rétt hægt að ímynda sér að hann hefði ætlað að hafa samfarir við þessi skilyrði. Sagði ákærði að þetta væri algjör tilbúningur.

Þegar ákærði var spurður hvort hann hefði haft munnmök við brotaþola í sumarbústað á [...] eða [...] sagðist hann í fyrsta lagi ekki vera viss um hvað átt væri við með munnmökum og sagðist áreiðanlega aldrei hafa haft munnmök, hvorki við hana né neinn annan. Nánar aðspurður sagðist hann ekki vita hversu víðtækt þetta hugtak væri, þ.e. hvort þetta næði yfir það sem hann gerði fyrir hana eða það sem hún gerði fyrir sig. Sér skildist þó að þetta næði yfir hvoru tveggja.

Aðspurður sagðist hann hafa haldið upp á [...] ára afmæli sitt í sumarbústað dóttur sinnar og tengdasonar í [...]. Þar hefðu verið allir hans afkomendur, þ. á m. brotaþoli, bræður hennar og faðir, en um [...] manns hefðu verið í veislunni. Ekki hefðu allir getað gist í húsinu og sagðist hann ekki muna betur en að sonur hans hefði farið með brotaþola og bræður hennar að aflokinni veislunni. Hann sagðist þó ekki útiloka það að þau hefðu gist þarna.

Þá sagðist ákærði muna eftir því að þau N kona hans hefðu komið í sumarbústað, sem Z sonur þeirra leigði í [...], sennilega ári eftir afmælisveisluna í [...]. Hann sagðist halda að þau hjón hefðu gist þar eina nótt.

Ákærði sagðist vita að börnin væru öll skert og meira og minna brengluð á sálinni, eins og ákærði orðaði það. Hann sagði að það væri auðséð af framkomu þeirra. Sagðist hann halda að brotaþoli væri mörgum árum á eftir jafnöldrum sínum í þroska. Sjálfur sagðist hann hafa [...] [...] ára gömlum börnum sem stæðu henni fyllilega á sporði. Aðspurður sagðist hann hafa orðið var við að [...]

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 23. júlí 2009, sem er í öllum megindráttum í samræmi við skýrslu hans hér fyrir dómi. Í skýrslu sinni hjá lögreglu sagði ákærði að þau hjónin hefðu ekki gist í bústaðnum hjá syni sínum og börnum í [...], heldur hefðu þau gist í bústað í öðru hverfi. Þá sagðist hann halda að strákarnir hefðu ekki verið með í för þegar brotaþoli bað hann um að kaupa tímaritið Bleikt og blátt.

Brotaþoli, A, sagðist oft hafa gist hjá afa sínum og ömmu ásamt bræðrum sínum og föður. Nánar aðspurð sagðist hún hafa gist hjá þeim oft á ári. Þau hefðu þá sofið á hornsófa. Sagðist hún oft hafa verið mjög kvíðin að fara til afa síns. Það hefði verið vegna þess að þegar hann hefði verið að segja þeim sögur hefði hann alltaf viljað fara með höndina undir sængina til að snerta pjölluna. Aðspurð sagði hún að honum hefði ekki tekist það því hún hefði haldið sænginni alveg þétt að sér. Aðspurð sagðist hún hafa verið í náttkjól og nærbuxum. Hún sagði að hann hefði alltaf farið með höndina undir sængina hjá pjöllunni og sagðist hún hafa vitað að hann vildi koma við pjölluna því hún sagðist þekkja hann upp á hár. Hann hefði verið búinn að reyna þetta áður og þá hefði hann verið kominn mjög langt, en hún hefði þá tekið höndina undan sænginni. Hann hefði þá hætt. Stundum hefði hann spurt: „Má ég þetta?“ og sett upp sérstakan svip og lyft höfðinu. Sagðist hún þá hafa skilið hvað hann var að biðja um því hann hafði notað þessa bendingu áður. Hún sagði að þetta hefði gerst mjög oft. Bróðir hennar B hefði einu sinni orðið vitni að þessu í gestaherberginu og þá hefði afi hennar sagt honum að loka augunum og fara að sofa. Aðspurð sagði hún að ákærði hefði a.m.k. tvisvar farið með höndina undir fötin.

Brotaþoli sagðist einu sinni hafa farið í ökuferð með ákærða, en bræður hennar hefðu ekki fengið að koma með þeim. Amma hennar hefðu heldur ekki komið með. Þau ákærði hefðu farið í verslunina [...] í [...] og þar hefði ákærði keypt handa henni tímaritið Bleik og blátt og sagt henni að hún ætti að skoða það. Aðspurð sagðist hún ekki hafa beðið um blaðið. Sagðist hún hafa skoðað blaðið en fundist það ógeðslegt. Eftir það hefðu þau farið út fyrir bæinn þar sem engin hús voru sjáanleg. Þar hefði ákærði sagt henni að fara í aftursætið og reynt að fara upp á hana þar. Ákærði hefði verið búinn að klæða sig öllu úr að neðan og einnig hefði hann reynt að klæða hana úr peysunni, en hún hefði bannað honum það og farið aftur í framsætið. Sagðist brotaþoli hafa orðið mjög reið og sagt ákærða að fara með hana heim. Ákærði hefði hlýtt þar sem hún hefði verið svo reið. Nánar aðspurð sagðist hún hafa barist á móti ákærða í greint sinn og haldið í peysuna. Hún sagði að ákærði hefði ekki sagt sér hvað hann ætlaði að gera, en hún sagðist hafa áttað sig á því þegar hann hefði klætt sig úr fötunum.

Brotaþoli sagðist hafa byrgt þetta atvik lengi inni og loks sagt mömmu sinni frá þessu. Hún sagðist ekki hafa rætt þetta við N ömmu sína eða bræður. Hún sagðist aðspurð hafa falið blaðið þegar þau komu aftur heim því hún hefði ekki viljað að amma hennar sæi blaðið. Þegar hún hefði komið heim til [...] hefði hún látið mömmu sína vita af þessu og hún hefði orðið svo reið að hún hefði rifið blaðið.

Brotaþoli var spurð að því hvort ákærði hefði einhvern tíma sleikt hana og sagði hún þá að einu sinni þegar hún hefði gist hjá ákærða í [...] hefði hann reynt að sleikja á henni kynfærin. Hún hefði verið farin að sofa í hornsófanum og bræður hennar hefðu verið frammi. Sagðist hún hafa farið að sofa á undan bræðrum sínum og beðið afa sinn um að segja sér sögu. Hún sagði að hann hefði reynt þetta, en hún hefði verið mjög reið og ríghaldið sænginni. Hún sagði að hann hefði ekki verið byrjaður að sleikja, þar sem hann hefði ekki náð því. Hann hefði ætlað að klæða hana úr brókinni og verið byrjaður að koma með tunguna, eins og brotaþoli orðaði það. Hann hefði þó ekki verið búinn að snerta kynfærin með tungunni. Hún sagðist ekki muna hvort afi hennar hefði reynt þetta oftar.

Þá greindi brotaþoli frá því aðspurð að þegar þau hefðu verið í sumarbústað eitt sinn og hún inni í herbergi að lesa bók hefði ákærði komið til hennar þegar enginn var inni og reynt að snerta hana. Sagðist hún hafa bannað honum það, hætt að lesa og farið út til bræðra sinna.

Hún sagðist muna eftir því að hafa verið í afmæli afa síns, sem haldið hefði verið upp á í sumarbústaðnum hjá O og P. Þar hefðu bræður hennar og faðir einnig verið. Hún sagði að sig minnti að þau systkinin hefðu gist uppi á háalofti í bústaðnum, en þau hefðu venjulega sofið þar þegar þau gistu í þessum bústað. Þá sagðist hún muna eftir því að afi hennar og amma hefðu komið í heimsókn til þeirra þegar þau voru í einhverjum öðrum sumarbústað, en ekki gist þar.

Brotaþoli sagði að ákærða hefði einu sinni tekist að snerta á henni kynfærin, en það hefði verið fyrst eftir að þetta byrjaði og þá hefðu þau verið í [...]. Þá hefði hann verið að segja henni sögur fyrir svefninn og amma hennar hefði verið frammi. Nánar aðspurð sagði hún að afi hennar hefði snert kynfæri hennar tvisvar til þrisvar sinnum. Eftir þau skipti hefði hún farið að halda sænginni fast þegar hann reyndi að snerta hana uns hún stoppað hann af. Hún sagði að sér hefði liðið mjög illa og verið mjög reið og pirruð. Sagðist hún öll hafa verið farin að skjálfa. Þegar hún hefði sagt honum að hætta hefði hann sagt: „pínu meira“. Hún hefði þá sagt nei, þetta væri búið.

Hún sagðist oft hafa sagt mömmu sinni að hún vildi ekki fara til afa síns. Mamma hennar hefði þá sagt að hún skildi hana, en hún hefði samt neyðst til að fara.

Brotaþoli sagðist aðspurð hafa sagt B að afi hennar hefði sleikt á henni kynfærin, en hún sagðist hafa treyst bróður sínum. Hún sagði að afa sínum hefði tekist einu sinni að sleikja á henni kynfærin þegar hún var einhvern tímann hjá honum í [...]. Hún sagði jafnframt að hann hefði oft reynt það, en ekki tekist það aftur. Aðspurð sagði hún að ákærði hefði aldrei reynt það þegar þau voru í sumarbústað.

Aðspurð sagði brotaþoli að sér líða illa út af þessu og sagðist ekki tala við afa sinn. Hún sagði að sér hefði fundist erfitt að hitta hann í fermingu C bróður síns. Sagðist hún hafa rætt þetta mál svolítið við mömmu sína og vera búin að ræða það við H sálfræðing. Hún sagðist hins vegar ekki tala mikið um þetta því það væri erfitt. Aðspurð sagði hún að mamma hennar hefði sagt henni frá því að ákærði hefði verið kallaður [...] vegna þess að hefði hann hefði alltaf verið að káfa á stelpunum þegar hann var [...]. Brotaþoli sagði að ákærði hefði gert þetta fyrst þegar hún var 14-15 ára og síðast þegar hún var 18 ára.

Brotaþoli gaf skýrslu fyrir dómi við rannsókn málsins hinn 9. júní 2009. Þar sagði hún að einu sinni þegar hún var 17 ára og þau voru í [...] hefði afi hennar ætlað að fara út í búð með ömmu og þá hefði hún bara mátt koma með, en ekki bræður hennar. Þá hefði afi hennar keypt blaðið Bleikt og blátt. Hún sagðist hafa skoðað blaðið en fundist það ógeðslegt. Síðan hefði hann keyrt aðeins út fyrir bæinn og ætlað að fara aftur í bílinn og upp á hana, en hún hefði stoppað hann. Sagðist hún hafa verið ákveðin og stoppað hann.

Þá sagði brotaþoli að þegar afi hennar hefði verið að segja sögur hefði hann ætlað að koma við klofið, en hún hefði ekki leyft það. Sagðist hún bara hafa haldið sænginni fast og B hefði vitað af þessu. Þá sagði hún að B hefði þóst vera sofandi og afi sinn hefði haldið að hann væri sofandi. Þetta hefði verið í [...] og hún að verða 17 ára. Sagðist hún hafa haldið í sængina svo að hann gæti ekki snert budduna. Hann hefði ekki náð því, því hún hefði ekki leyft það. Hún sagði að hann hefði alltaf gert þetta í [...] þegar þau komu [...]. Sagðist hún ekki hafa viljað þetta og því hefði hún farið að halda sænginni fast. Þá hefði hann farið í fýlu. Aðspurð sagðist hún halda að afi sinn hefði komið þrisvar til fjórum sinnum við budduna með hendinni.

Brotaþoli sagði að ákærði hefði reynt að koma við sig einu sinni í sumarbústaðnum hjá O og P. Sagðist hún hafa verið að lesa í bók þegar hann hefði komið inn. Hún hefði þá bara farið fram. Aðspurð sagðist hún ekki muna eftir því að afi sinn hefði sleikt budduna. Hann hefði þó reynt það en hún hefði ekki leyft honum það. Þegar hún var innt nánar út í þetta sagði hún að hann hefði sagt henni að fara aftur í og hefði hann ætlað…, en hún stoppað hann og sagt honum að fara heim. Hún sagði að ákærði hefði oft spurt hana þegar þau voru heima hjá honum í [...] hvort hann mætti koma við hana að neðan en hún hefði bara sagt nei.

Brotaþoli sagðist fyrst hafa sagt mömmu sinni frá þessu þegar hún var 17 ára því hún hefði ekki getað haldið þessu lengur inni, eins og hún orðaði það. Hún sagði að sér hefði ekki liðið vel á meðan á þessu stóð og sagðist hafa hugsað margt og mikið. Þá sagði hún að sér liði ekki vel í dag.

B, bróðir brotaþola, sagði að fyrir tveimur til þremur árum hefðu þau systkinin ásamt pabba sínum verið í [...] ára afmælisveislu N ömmu sinnar, sem haldinn hefði verið í sumarbústað. Þar hefði X afi hans einnig verið. Í veislunni hefði áfengi verið haft um hönd og afi hans hefði verið eitthvað í því, en ekki blindfullur. Um kvöldið hefði hann farið að sofa og síðan rankað við sér þegar hann heyrði í afa sínum og systur, þ.e. eins og smjatt. Í herberginu hefði verið rökkur, en hann sagðist hafa séð að afi hans var að fikta við klofið á systur hans og sleikja það. Afi hans hefði í fyrstu ekki tekið eftir því að hann var vaknaður en síðan hefði hann sagt honum að fara að sofa. Hann sagði að afi sinn hefði ekki verið í öllum fötunum og systir hans hefði ekki verið í brókinni og ekki með sængina yfir sér. Hann sagði að systir hans hefði ekki getað varið sig og ekki þorað annað en að segja já. Sagðist hann muna eftir því að afi hans hefði sett fingurna inn í leggöngin og út aftur og einnig hefði hann sleikt kynfærin. Jafnframt hefði hann snert brjóstin. Sagðist hann hafa talað um þetta við systur sína og hún tjáð honum að henni hefði fundist þetta leiðinlegt og liðið frekar illa. Hann sagðist hafa verið 14 ára þegar þetta gerðist.

Aðspurður sagði hann að þegar þau systkinin hefðu gist hjá afa sínum og ömmu í [...] hefðu þau öll sofið í sama herbergi. Hann sagði að afi sinn hefði alltaf beðið eftir því að þeir C sofnuðu og þá hefði hann farið þukla á brjóstunum á A og strjúka yfir lærin. Sagði hann að A hefði sagt sér frá þessu. Sagðist hann stundum hafa vaknað þegar afi hans hefði rekist utan í hann, en þá hefði hann bara farið strax að sofa. Sagðist hann ekki hafa þorað að horfa á þau og því ekki vita hvað þau voru að gera. Sagðist hann halda að afi hans hefði þá verið uppi á A, eins og vitnið orðaði það. Á meðan á þessu stóð hefði amma hans bara verið að horfa á sjónvarpið. Hann sagðist hafa talað um þetta við A þegar þau komu til [...]. Hann sagði að brotaþoli hefði oft talað um þetta við sig og tjáð honum að afi sinn hefði gert þetta oft. Hann sagði að afi sinn hefði síðast gert eitthvað svona við brotaþola þegar hann var 15 til 16 ára og þau voru í [...].

Hann sagði að einu sinni fyrir þremur til fjórum árum hefðu þau systkinin ásamt afa sinum og ömmu farið að versla í [...] eða [...] í [...] og þá hefði afi hans keypt tímaritið Bleikt og blátt handa A. Hann sagði að A hefði þegið blaðið, en sagðist ekki vita hvort hana langaði í það. Hann sagði afi sinn hefði passað sig á því að kaupa blaðið þegar amma hans var farin fram. Nánar aðspurður sagðist hann vera viss um að hafa verið með í þessari búðarferð og sagðist hafa séð þegar blaðið var keypt. Eftir þetta hefðu þau farið heim á bílnum, borðað kvöldmat og síðan farið að sofa í gestaherberginu.

Hann sagði að A hefði sagt sér fyrir stuttu síðan að ákærði og hún hefðu farið aftur í gamla jeppann hans og þar hefði hann þuklað á henni, þ.e. strokið og þuklað á brjóstum og líkamanum og þá hefði hann kysst hana. A hefði sagt honum að hún hefði hrint honum frá sér. Einnig að henni hefði liðið illa eftir þetta. Þá hefði A sagt að afi hennar hefði viljað fara einn með henni svo að hann gæti gert eitthvað svona við hana.

Þau systkinin hefðu sagt mömmu sinni frá blaðinu þegar þau komu til [...] og þá hefði mamma hennar orðið reið, rifið blaðið og hent því. A hefði liðið illa og ekki viljað fara til afa síns og ömmu og sagði hann að mamma þeirra hefði skilið hana vel.

Vitnið gaf skýrslu fyrir dómi við rannsókn málsins hinn 9. júní 2009. Sagðist hann hafa verið í sama herbergi og séð þegar afi hans sett tunguna á kynfæri systur sinnar. Hann sagði að A hefði viljað þetta þótt hún vilji ekki alltaf viðurkenna það. Hann sagðist ekki hafa verið sofnaður, en síðan hefði hann sofnað og því vissi hann ekki hvort hann hefði farið inn í hana eða ekki, eins og vitnið orðaði það. Hann sagði að þetta hefði átt sér stað í sumarbústað, sem þau hefðu verið með á leigu í [...] í [...]. A hefði oft beðið ákærða um þetta og stundum hefði hann sagt nei, en síðan hefði hann gefist upp og gert það bara. Þá sagði hann að afi sinn hefði sleikt puttann og sett hann inn í leggöngin. Sagðist hann hafa horft á þetta og einnig heyrt í þeim. Þá sagði hann að afi sinni væri klámsjúkur og það væri eins og hann lifði fyrir kynlíf. Aðspurður sagðist hann halda að hann hefði verið 14 ára þegar þetta gerðist.

Aðspurður sagði hann að fyrir tveimur til þremur árum hefði ákærði gefið henni blaðið Bleikt og blátt í [...]. Annað hvort hefði brotaþoli beðið um það eða afi hans bara keypt blaðið sjálfur.

C, bróðir brotaþola, sagði að þegar þau systkinin hefðu gist hjá afa og ömmu í [...] hefðu þau alltaf sofið öll saman í gestaherberginu. Afi hans hefði oft sagt þeim sögur fyrir svefninn og þá hefði hann alltaf viljað sitja við hliðina á A og alltaf fært sig nær og nær henni. Hefði hann þá verið að þreifa á líkama hennar, þ.e. á lærum og brjóstum. Hann sagði sig minnti að systir hans hefði alltaf verið með sængina yfir sér en það hefði alveg sést hvað hann var að gera. Einnig hefði hann snert hana í gegnum sængina. Hann sagði að sig minnti að A hefði verið í náttkjól og brók. A hefði fundist þetta mjög óþægilegt. Hann sagði að afi sinn hefði snert A mest á lærunum og verið mest með höndina undir sænginni, en líka verið með höndina yfir sænginni. Sagði hann að sig minnti að hann hefði séð þetta oftar en einu sinni og að þetta hefði gerst oftast þegar þau voru að fara að sofa. Hann sagði að systir hans hefði beðið þá bræður um að vera hjá sér til að hann myndi síður reyna að gera svona. Hann sagði að afi sinn hefði alltaf passað að amma hans væri ekki viðstödd. Hann sagðist ekki vera viss um hvað hann var gamall þegar hann sá þetta fyrst, en sagðist hafa verið 13 eða 14 ára gamall þegar hann sá þetta síðast. Hann sagðist ekki hafa rætt þetta við neinn fullorðinn.

Einu sinni hefðu þau systkinin farið í búð með pabba sínum og afa. Þegar þau hefðu verið nýkomin í búðina hefði afi hans pikkað í A og sagt að þau yrðu að fara ein saman. Síðan hefði hann keypt handa henni blaðið Bleikt og blátt. Sagðist hann ekki vera viss um hvort búðin var í [...] eða í [...]. Nánar aðspurður sagðist hann ekki muna hvort amma hans var með eða hvort hún var heima. Hann sagði að þau hefðu farið á bíl í búðina og sagði að sig minnti að eftir búðarferðina hefðu farið heima að borða. Hann sagði að sig minnti að búið væri að henda blaðinu.

C sagðist minnast þess að hafa gist í sumarbústað hjá O og P, en sagðist ekki muna eftir neinum atvikum þar. Hann sagði aðspurður að sig minnti að A hefði einhvern tímann sagt sér að afi þeirra hefði sleikt á henni kynfærin. Hann sagði að A hefði ekki þótt þægilegt að segja frá þessu. Hann sagði að þau systkinin væru búin að ræða þetta mál talsvert.

Vitnið gaf skýrslu fyrir dómi við rannsókn málsins hinn 9. júní 2009. Hann sagði að þegar ákærði sagði þeim sögur fyrir svefninn hefði hann reynt hann að snerta brjóstin á brotaþola. Sagðist hann bæði hafa tekið eftir þessu sjálfur og heyrt talað um það líka. Þetta hefði gerst þegar þau gistu hjá afa sínum og ömmu í [...]. Sagðist hann halda að þetta hefði gerst oftar en einu sinni og sagðist alla vega hafa séð þetta einu sinni. Hann sagðist halda að systir sín hefði verið í nærbuxum og stórum bol þegar þetta gerðist.

D, móðir brotaþola, sagði að dóttir sín hefði byrjað að segja frá málsatvikum þegar hún var á milli 16 og 17 ára. Hún sagðist hafa trúað barninu, en þó ekki lagt fram kæru. Sagðist hún hafa talað við foreldra sína um málið og einnig við félagsráðgjafa. Ekkert meira hefði verið gert í málinu á þessum tíma. Hún sagðist ekki hafa rofið nein samskipti og sagði hún að brotaþoli hefði farið til afa síns eftir að hún sagði henni frá þessu.

Hún sagði að brotaþoli hefði tjáð sér að hún hefði farið með afa sínum í búð, en bræður hennar hefðu ekki mátt fara með. Hann hefði keyrt út fyrir bæinn, sagt henni að fara aftur í og byrjað að girða niður um sig. Hún hefði þá spurt hvað hann væri að gera og sagt honum að gjöra svo vel að hætta og fara með sig heim. Brotaþoli hefði tjáð henni að ákærði hefði reynt að hafa við hana samfarir í bílnum.

Þá hefði brotaþoli sagt henni að oft þegar hann hefði verið að segja þeim systkinum sögur fyrir svefninn hefði hann farið undir sængina og þuklað á pjöllunni á henni og brjóstunum. Hefði það bæði átt sér stað á heimili ákærða í [...] og í sumarbústað. Ákærði hefði þá farið með höndina undir sængina til að snerta á henni kynfærin. Hefði hún verið farin að ríghalda í sængina til að hann kæmist ekki undir hana. Brotaþoli hefði ekki tekið það sérstaklega fram hvort ákærða hefði tekist að koma við kynfæri hennar. Hún sagðist aðspurð ekki minnast þess að brotaþoli eða bræður hennar hefði rætt um munnmök við sig.

Hún sagði að brotaþoli hefði einu sinni komið heim með tímaritið Bleikt og blátt og sagt að afi hennar hefði gefið henni það. Sagðist vitnið hafa fleygt blaðinu. Sér hefði skilist að ákærði hefði farið með brotaþola í verslun og spurt hana hvort hún vildi svona blað og hún hefði játað því. Hún sagði aðspurð að B hefði sagt henni frá þessu.

Hún sagði að það hefði verið orðin kvöð fyrir brotaþola að fara til afa og ömmu og henni hefði liðið illa. Komið hefði fram hjá brotaþola að ástæðan væri þessi háttsemi ákærða. Hún sagði að brotaþoli hefði ekki umgengist ákærða eftir að málið kom upp.

Hún sagðist aðspurð ekki hafa trúað sögu brotaþola um útlendinginn sem hefði hitt hana úti í sjoppu og gert hana barnshafandi. Um tilbúning hefði verið að ræða hjá brotaþola, enda hefði komið í ljós við skoðun hjá kvensjúkdómalækni [...] að meyjarhaftið var órofið. Læknar hefðu tjáð henni að meyjarhaftið væri það aftarlega að það rifnaði ekki við samfarir.

Hún sagði að saga brotaþola varðandi ákærða hefði hins vegar ekkert breyst hjá henni og væri alltaf eins. Hún sagði að brotaþoli vildi ekki ræða þetta mál og skammaðist sín greinilega fyrir þetta. Brotaþola liði mjög illa, væri bæði þunglynd og framtakslaus. Helst vildi hún vera undir sæng.

Hún sagði aðspurð að vel gæti verið að brotaþoli hefði heyrt hana segja frá þeim orðrómi að afi þeirra hefði leitað á ungar stúlkur.

Vitni gaf skýrslu hjá lögreglu 10. júlí 2009, sem er í megindráttum í samræmi við skýrslu hennar hér fyrir dómi.

Q, móðuramma brotaþola, sagði að D dóttir hennar hefði fyrst sagt þeim hjónum frá ætluðum brotum gegn brotaþola fyrir nokkrum árum. Hún sagði að þeim hjónum hefði verið hlíft við þessu lengi vel og síðan hefðu þau lokað svolítið á þetta og ekki viljað trúa þessu. Sagðist hún fyrst hafa heyrt af því að keypt hefðu verið blöð handa brotaþola. Einnig sagðist hún minnast þess að brotaþoli hefði einhverju sinni sagt: „Svona gera afar ekki.“ Annars sagði hún að þetta hefði þurrkast mikið út úr minninu af því að þau hjónin hefðu lokað á þetta.

Hún sagði að D og Z hefðu fyrst búið heima hjá þeim hjónum og þegar D hefði gengið með C hefðu þau flutt saman í hús með tveimur íbúðum. Þegar börnin voru orðin stálpuð hefði D flutt ásamt börnunum í stærra húsnæði.

Hún sagði að brotaþoli hefði ekkert rætt þetta mál við hana. B hefði tjáð henni að hann hefði orðið vitni að einhverju í [...] þegar afi þeirra hefði verið að lesa fyrir þau fyrir svefninn.

Aðspurð sagðist hún minnast þess að brotaþoli hefði verið með verki í kviðarholi. Hún sagðist vera [...] og því hefði það oft komið í hennar hlut að fara með brotaþola til læknis. Hún sagðist hafa farið með A til I kvensjúkdómalæknis þegar A hefði haldið að hún væri ófrísk. Þá hefði komið í ljós að meyjarhaft hennar var órofið og einnig að það væri óvenjulega aftarlega. Hún sagðist ekki muna eftir sögu um útlending. Hún sagðist hafa farið með brotaþola aftur til kvensjúkdómalæknis eftir þetta og þá hefði verð framkvæmd ófrjósemisaðgerð á brotaþola með hennar samþykki.

R, móðurafi barnanna, sagðist hafa heyrt um ætluð brot ákærða gegn brotaþola fyrir einu til tveimur árum. Hann sagði að strákarnir hefðu sagt honum frá því að ákærði hefði keypt tímaritið Bleikt og blátt og gefið brotaþola það. Einnig sagðist hann hafa heyrt sagt frá óeðlilegum strokum, en sagðist ekki muna hver sagði honum frá þeim. Sagði hann að honum hefði verið haldið töluvert fyrir utan þetta mál. Hann sagði að þau foreldrar D hefðu búið í sama húsi og hún og börnin á árunum [...] til [...] eða [...].

S rannsóknarlögreglumaður sagðist hafa stýrt yfirheyrslum yfir sakborningum og vitnum í málinu. Sjálfur hefði hann yfirheyrt feðgana, en fenginn hefði verið sérfræðingur til að yfirheyra brotaþola og bræður hennar. Hann sagði að teikning á skjali nr. I-3-1 væri sótt af netinu, en [...] væri með teikningar af öllum húsum á síðunni [...].is. Hann sagði að ákærða hefði ekki verið kynnt þessi teikning við skýrslutökur hjá lögreglu. Þá sagði hann að ekki hefði verið tekin skýrsla af eiginkonu ákærða við rannsókn málsins.

F læknir staðfesti vottorð frá 3. desember 2009 á skjali merktu I-7-1. Hann sagðist hafa verið heimilislæknir brotaþola allt frá fæðingu hennar. Hann sagði aðspurður að ekki hefðu fundist skýringar á kviðverkjum brotaþola á sínum tíma. Hann sagði að hjá ungum börnum kæmi vanlíðan oft fram sem kviðverkir. Ekki hefði fengist skýring á því á sínum tíma af hverju þessi vanlíðan stafaði. Eftir á að hyggja gæti kynferðisleg misneyting, sem brotaþoli hefði sætt, verið skýring á þessum verkum.

Hann sagðist fyrst hafa frétt af málinu þegar R, afi brotaþola, hefði sagt honum frá þessu í júní 2009. Í [...] sagðist hann hafa rætt við móður brotaþola um það hvort kviðverkirnir gætu verið af sálrænum toga, en hún hefði ekkert minnst á þetta mál við hann. Hann sagðist hafa starfað sem skólalæknir og í starfi hans þar hefði oft komið upp tilvik vegna skapillsku og árásarhneigðar brotaþola gagnvart karlmönnum. Loks sagðist hann aðspurður ekki þekkja brotaþola að ósannsögli.

H sálfræðingur sagði að brotaþoli hefði verið í sálfræðimeðferð hjá sér. Hún sagðist notast við hugræna atferlismeðferð við meðferð brotaþola. Langan tíma hefði tekið að ávinna sér traust brotaþola og ná sambandi við hana. Raunveruleg meðferð hefði fyrst hafist í síðustu tveimur til þremur viðtalstímunum. Hún sagði að brotaþoli væri með dæmigerð einkenni þeirra, sem orðið hefðu fyrir kynferðislegu ofbeldi. Nefndi hún sem dæmi svokölluð forðunareinkenni, þ.e. að vilja ekki tala um eða rifja upp þessa reynslu því minningarnar væru óþægilegar. Einnig væri brotaþoli kvíðin og döpur, hún einangraði sig og ætti erfitt með að takast á við daglegt líf. Þá hefði hún orðið vör við mjög skerta sjálfsvitund hjá brotaþola og lágt sjálfsmat. Einnig markaleysi í kynferðislegri hegðun. Brotaþoli væri með andlegan þroska á við [...] til [...] ára gamalt barn, en með eðlilegan og fullþroska líkama. Hún sagði að brotaþoli væri mjög útsett fyrir kynferðisbrotum. Brotaþoli væri hvatvís eins og barn og setti það í forgang að fullnægja þörfum sínum hverju sinni.

Hún sagði aðspurð að vanlíðan brotaþola væri vissulega einnig að rekja til fleiri gerenda en ákærða í máli þessu. Hún sagði að það væru hins vegar ákveðnir hlutir og minningar, sem brotaþoli tengdi við afa sinn. Sagði hún að brotaþoli bæri mjög neikvæðar tilfinningar í hans garð og kallaði hann Skrattann því henni þætti erfitt að segja X afi. Þetta nafn hefði fyrst komið fram í þriðja viðtalinu og væri að öllu leyti hugmynd brotaþola.

Hún sagði að í framtíðinni þyrfti brotaþoli að fá mjög umfangsmikla atferlismeðferð, sem fælist í daglegri handleiðslu og leiðbeiningum.

G kvensjúkdómalæknir staðfesti að hafa skoðað brotaþola nokkrum sinnum í gegnum tíðina. Hún staðfesti og vottorð, útgefið 15. júní sl. Hún sagði að staðsetning meyjarhafts brotaþola væri eðlileg samkvæmt hennar skoðun bæði núna og áður. Hún sagði að í fósturlífi væri þunn himna yfir leggangaopinu sem lokaði því. Það opnaðist síðan í venjulega til fulls fyrir fæðingu barnsins. Stöku sinnum væri það þó alveg lokað og stundum yrði hluti af þessari himnu eftir, sem væri þá eins og strengir. Þegar hún hefði skoðað brotaþola í [...] lýsti hún því í gögnum að strengur lægi frá afturvegg og að framvegg. Sagði hún að það hefði verið hluti af þessari þunnu himnu frá fósturlífi. Í kvenskoðun [...] væri ekkert talað um þennan streng og líklega hefði hann verið farinn þá. Alla veganna hefði hann ekki verið til staða við skoðun í [...]. Aðspurð sagði hún að mögulegt væri að þessi strengur hefði farið með einhverjum öðrum hætti en við samfarir, en langlíklegast væri að hann hefði rofnað við samfarir.

Hún sagði að meyjarhaftið væri í opi legganganna og þannig væri það einnig hjá brotaþola. Hún sagði að oft væri haft til merkis um það að kona hefði lifað kynlífi að meyjarhaftið væri rofið. Hún sagði að það væri hins vegar ekki óyggjandi sönnun þess að kona hefði ekki haft samfarir. Hún sagði að meyjarhaft hjá sumum væri það mjúkt og eftirgefanlegt að það rofnaði ekki við samfarir. Hún sagðist ekkert geta fullyrt um það hvort brotaþoli hefði haft samfarir eða ekki. Hún sagðist aðeins geta fullyrt að meyjarhaft hennar væri órofið en að það væri það mjúkt og eftirgefanlegt að hún gæti vel hafa haft samfarir án þess þó að geta fullyrt það.

N, eiginkona ákærða, sagði að áður fyrr hefðu barnabörn hennar, brotþoli og bræður hennar, komið um það bil tvisvar til þrisvar sinnum á ári í heimsókn til hennar og ákærða og þá alltaf gist hjá þeim ásamt föður sínum. Börnin hefðu hins vegar ekkert komið til þeirra síðastliðin þrjú ár. Þegar börnin hefðu gist hjá þeim hefði brotaþoli sofið í gestaherberginu, strákarnir legið á flatsæng í opnu rými við hliðina á herberginu og á móti svefnherbergi þeirra ákærða, og pabbi þeirra í stofunni, en þau ákærði byggju í lítilli íbúð. Þegar börnin hefðu verið minni hefðu þau sofið öll saman í gestaherberginu og þá hefði C stundum sofið á sófanum hjá systur sinni og B á flatsæng á gólfinu. Hún sagði að börnin hefðu aldrei viljað hafa herbergið lokað. Síðar hefði brotaþola viljað sofa ein í herberginu þar sem hún hefði farið snemma að sofa á kvöldin.

Hún sagði aðspurð að ákærði hefði oft sagt þeim sögur og ævintýri fyrir svefninn og stundum lesið fyrir þau bækur. Hún sagði að alltaf hefði verið opið inn í herbergið og hún heyrt hvað ákærði var að lesa eða segja frá. Aldrei hefði verið um neinar klámsögur að ræða. Börnin hefðu alltaf haft jafn gaman af þessu og þau hefðu beðið um þetta. Stundum hefði ákærði þó ekki nennt að fara inn til þeirra og fundist þau of stór. Einnig hefði hann reynt að fá þau til að lesa sjálf bækur. Síðast þegar börnin hefðu komið til þeirra fyrir þremur árum hefðu börnin þó verið orðin það stór að ákærði hefði ekki sagt þeim sögur fyrir svefninn.

Hún sagði að börnin væru öll mjög óeðlileg, enda væru þau á alls kyns lyfjum. Þegar þau stálpuðust hefðu þau [...]

Hún sagði að þegar haldið hefði verið upp á [...] afmæli hennar í bústað í [...] hefðu börnin gist í fellihýsi. Börnin hefðu verið svolítið treg að vera inni í bústaðnum og viljað vera úti í fellihýsinu. [...].

Aðspurð sagðist hún vita til þess að afi þeirra hefði aldrei keypt klámblað handa krökkunum. Hún sagðist aldrei hafa séð þetta blað. Þegar krakkarnir hefðu verið hjá þeim hefði oft verið farið með þau niður í bæ til að versla, t.d. nammi á nammidögum. Hún sagði að þau hjón hefðu einu sinni gist með krökkunum og föður þeirra í sumarbústað [...], en þar hefði verið haldið upp á afmæli ákærða. Pabbi þeirra hefði gist með öðrum stráknum í einu herberginu og A gist í öðru herberginu með hinum stráknum. Þau ákærði hefðu síðan gist í þriðja herberginu. Hún sagði að þetta væri eina tilvikið sem þau hefðu gist í sumarbústað með börnunum og föður þeirra. Enginn möguleiki hefði verið á því að ákærði hefði getað lokað sig af með börnunum í þessum sumarbústað.

Hún sagði að ákærði væri búinn að vera getulaus í 10 ár eftir aðgerð [...] og sagðist hún geta staðfest það að honum risi ekki hold.

Z, faðir brotaþola, sagði að þroski systkinanna væri ekki eðlilegur og sagði að þroska þeirra hefði heldur hrakað. Brotaþoli hefði mjög snemma greinst ofvirk og misþroska og henni gengi mjög illa í skóla. Strákarnir væru báðir seinþroska.

Hann sagði að áður fyrr hefðu börnin heimsótt foreldra hans, þ.e. afa sinn og ömmu, nokkrum sinnum á ári og þá hefði hann ávallt sjálfur verið með í för. Þau hefðu þá alltaf gist hjá foreldrum hans. Börnin hefðu hins vegar ekkert heimsótt afa sinn og ömmu undanfarið ár.

Hann sagði að systkinin hefðu yfirleitt alltaf sofið öll saman í gestaherberginu á tvíbreiðum svefnsófa og stundum eitt eða tvö á dýnu á gólfinu við hliðina á sófanum eða frammi. Það hefðu þá yfirleitt verið strákarnir sem sváfu á dýnunni. Oftast hefðu þau þó sofið öll saman í herberginu. Sjálfur sagðist hann hafa sofið í stofunni. Hann kannaðist við að ákærði hefði oft sagt börnunum sögur fyrir svefninn. Yfirleitt hefðu dyrnar á herberginu verið opnar og því hefðu sögurnar heyrst fram á gang. Hann sagðist ekki muna hvort móðir hans sat einnig inni í herberginu og hlustaði á sögurnar. Aðspurður sagðist hann aldrei hafa orðið var við eða heyrt af því að ákærði hefði verið að fara með hendurnar undir sængina. Hann sagðist telja að hann hefði heyrt og orðið var við ef einhver togstreita hefði átt sér stað inni í herberginu.

Hann sagðist hafa farið ásamt börnunum og foreldrum sínum í sumarbústað u.þ.b. einu sinni á ári undanfarin ár. Þau hefðu m.a. gist í bústað [...] systur hans í [...] og leigt bústað í [...] og í [...].

Hann sagði að haldið hefði verið upp á [...] afmæli ákærða í bústað í [...] og þá hefði hann gist með krökkunum í bústaðnum. Hann sagði að sig minnti að A hefði verið ein í herbergi, en strákarnir saman í herbergi. Sjálfur hefði hann sofið í þriðja herberginu og foreldrar hans í því fjórða.

Aðspurður sagist hann ekki vita til þess að brotaþoli hefði komið með tímaritið Bleikt og blátt úr einni af heimsóknunum til afa og ömmu í [...] og sagðist ekki hafa séð þetta blað í fórum krakkanna. Hann sagði að krakkarnir hefðu sagt sér að brotþoli hefði beðið afa sinn um að kaupa blaðið. Sagðist hann ekki vita til þess að hann hefði keypt blaðið.

Hann sagði krakkarnir hefðu oft farið í bíltúr með afa sínum, ein eða með honum eða N. Hann sagði að brotaþoli hefði aldrei tjáð sig við hann um ætluð kynferðisbrot ákærða gagnvart henni.

I sálfræðingur sagði að hann hefði verið beðinn um kanna trúverðugleika framburðar brotaþola með hliðsjón af þroska hennar. Hann sagðist hafa komist að því að brotaþoli væri með væga þroskahömlun, þ.e. vitsmunalegur þroski hennar væri marktækt undir meðaltali miðað við hennar aldur. Sagðist hann hafa rætt við brotaþola og gert á henni prófanir. Hann sagði að heildarniðurstaða hans væri sú að framburður brotaþola sé trúverðugur í hvívetna. Erfiðleikar kæmu þó fram í [...], en þeir væru þó vægir og kæmu alls ekki í veg fyrir að lýsing brotaþola á málsatvikum væri trúverðug. Þá hefði það einnig skotið stoðum undir þessa niðurstöðu að komið hefði fram mikil vanlíðan hjá brotaþola, sem tengdist þessu. Sagðist hann hafa orðið að hitta brotaþola nokkrum sinnum áður en brotaþoli fór að treysta honum þannig að hún gæti sagt honum frá málinu. Lýsing brotaþola á atburðum hefði verið trúverðug, þótt tímasetningar og atburðarás gætu hafa skolast til hjá henni. Það væri þó skiljanlegt með hliðsjón af því að um mörg tilvik væri að ræða yfir langt tímabil og með fleiri en einum ætluðum geranda. Brotaþoli myndi þessa atburði vel. Hann sagði að vitsmunaleg geta brotaþola væri að mestu á við [...] til [...] gömul börn. Aðspurður sagðist hann ekki vera sannfærður um að brotþoli átti sig vel á því hvort tiltekinn atburður gerðist fyrir [...],[...] eða [...] árum. Þar gæti fötlunin og áfallið haft áhrif með þeim afleiðingum að slíkar tímasetningar væru á reiki.

Hann sagði að brotaþoli hefði sýnt mikla vanlíðan þegar hún hefði verið að lýsa þessum atburðum og að hún hefði alls ekki verið áköf að segja frá þessu. Sagðist hann telja að frásögn brotaþola væri ekki ákall um athygli eða að hún fengi eitthvað út úr því að segja frá þessu.

Hann sagði að fötlun brotaþola gerði það að verkum að erfiðara væri fyrir brotaþola að sporna gegn misnotkun annarra, sérstaklega nákominna, en ef hún hefði eðlilegan þroska. Auðveldara væri því að misnota traust hennar en heilbrigðra barna.

Aðspurður um greindarpróf, sem hann hefði lagt fyrir brotaþola, sagði hann að annað prófið, þ.e. fyrir börn og unglinga, væri staðlað miðað við íslenskar aðstæður. Eldra prófið, greindarpróf fyrir fullorðna, væri hins vegar ekki staðlað og væri ekki til hér á landi. Hann sagði að prófanir sýndu að brotaþoli væri undir öllum skekkjumörkum í þroskamati og hægt væri að segja með miklu öryggi að hún væri með væga þroskahömlun.

III.

Í máli þessu er ákærða gefið að sök kynferðisbrot gegn sonardóttur sinni, brotaþola í máli þessu, með því að hafa á árunum [...] og [...] brotið gegn henni eins og nánar greinir í ákæruliðum a-c og við það m.a. notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegra annmarka sinna.

Fram hefur komið að I sálfræðingur framkvæmdi greindarmat á brotaþola að beiðni lögreglu. Í skýrslu hans, sem dags. er 24. febrúar 2010, segir að niðurstöður greindarprófunar sýni greind ofarlega á stigi vægrar þroskahömlunar hjá brotaþola. Áðurgreindur sálfræðingur staðfesti hér fyrir dómi að prófanir hefðu sýnt að brotaþoli væri undir öllum skekkjumörkum í þroskamati og að hægt væri að segja með miklu öryggi að hún væri með væga þroskahömlun. Framlagt bréf [...], dags. [...]og vottorð H sálfræðings, dags. 8. júní 2010, sem hún staðfesti hér fyrir dómi, benda til hins sama. Þykir í ljós leitt með vísan til þessara gagna, annarra framlagðra gagna og framburða vitna, að brotaþoli sé þroskaskert og því haldin andlegum annmörkum eins og í ákæru greinir.

Í a-lið ákærunnar er ákærða gefið að sök að hafa á heimili sínu að [...] í [...] káfað þrisvar til fjórum sinnum á kynfærum brotaþola innanklæða.

Brotaþoli lýsti þessum atvikum á þann veg hér fyrir dómi að þegar þau systkinin gistu hjá afa sínum og ömmu [...] hefði ákærði oft sagt þeim sögur fyrir svefninn og þá hefði hann alltaf viljað fara með höndina undir sængina til að snerta pjölluna. Í fyrstu hefði honum tekist að snerta á henni kynfærin. Sagði brotaþoli fyrst að ákærða hefði farið a.m.k. tvisvar sinnum með höndina undir fötin, en síðar í skýrslunni sagði hún að afi hennar hefði snert kynfærin tvisvar til þrisvar sinnum. Eftir þessi fyrstu skipti hefði hún farið að halda sænginni fast þegar hann reyndi að snerta hana og náð að stoppa hann af. Þegar hún hefði sagt honum að hætta hefði hann sagt: „Pínu meira.“ Hún hefði þá sagt nei, og að þetta væri búið. Hún sagði að ákærði hefði reynt þetta mjög oft. Hún sagði að hann hefði hann stundum spurt: „Má ég?“og kinkað kollinum um leið á sérstakan hátt og þannig hefði hún skilið um hvað hann var að biðja því hann hefði notað þessa bendingu áður. Hún sagði að ákærði hefði fyrst gert þetta þegar hún var 14-15 ára og síðast þegar hún var 18 ára.

Brotaþoli sagði að sér hefði liðið mjög illa og verið reið og pirruð þegar ákærði hafði þessa háttsemi í frammi. Þá lýsti hún því að hún hefði öll skolfið á meðan á þessu stóð. Sagðist hún hafa kviðið því mjög að fara til afa síns og ömmu vegna þessarar háttsemi ákærða.

Í skýrslu sinni fyrir dómi við rannsókn málsins bar brotaþoli á sama hátt. Hún sagði að ákærði hefði ætlað að koma við klofið þegar hann hefði verið að lesa sögur, en hún hefði ekki leyft það. Sagðist hún hafa haldið í sængina svo að hann gæti ekki snert budduna. Hann hefði þó komið þrisvar til fjórum sinnum við budduna með hendinni.

Í könnunarviðtali í Barnahúsi greindi brotaþoli frá því að ákærði hefði reynt að koma við hana að neðan þegar hann var að segja sögur, en hún hefði haldið sænginni mjög fast. Þetta hefði fyrst átt sér stað þegar hún var 16 ára.

Bróðir brotaþola, B, bar um það hér fyrir dómi að brotaþoli hefði tjáð sér að ákærði hefði alltaf beðið eftir því að þeir bræður sofnuðu og þá hefði hann farið að þukla á brjóstunum á brotaþola og strjúka henni um lærin. Sagðist hann stundum hafa rankað við sér þegar afi hans hefði rekist utan í hann, en ekki þorað að líta á þau því hann sagðist hafa haldið að afi sinn væri uppi á brotaþola, eins og hann orðaði það. Brotaþoli hefði oft talað um þetta við sig og tjáð sér að ákærði hefði gert þetta oft. Hann sagðist hafa verið 15-16 ára síðast þegar ákærði gerði eitthvað svona við brotaþola.

Í skýrslu sinni fyrir dómi við rannsókn málsins tjáði vitnið sig ekki um þessi atvik, en í könnunarviðtali í Barnahúsi sagði vitnið að ákærði hefði þuklað á brotaþola.

Bróðir brotaþola, C, skýrði frá því hér fyrir dómi að ákærði hefði oft sagt þeim sögur fyrir svefninn og þá hefði hann alltaf viljað sitja við hliðina á brotaþola og alltaf fært sig nær og nær henni. Hefði hann þá verið að þreifa á líkama hennar, þ.e. á lærum og brjóstum. Ákærði hefði farið með höndina undir sængina, en það hefði alveg sést hvað hann var að gera. Hann hefði aðallega snert brotaþola á lærunum. Sagðist hann minna að hann hefði séð þetta oftar en einu sinni og oftast þegar þau voru að fara að sofa. Brotaþoli hefði beðið þá bræður um að vera hjá sér svo að ákærði myndi síður gera þetta við hana. Hann sagðist hafa verið 13 eða 14 ára gamall þegar hann sá þetta síðast.

Í skýrslu sinni fyrir dómi við rannsókn málsins sagði hann að þegar ákærði hefði verið að segja þeim sögur fyrir svefninn hefði hann reynt að snerta brjóstin á brotaþola. Sagðist hann bæði hafa tekið eftir þessu sjálfur, en einnig hefði hann heyrt aðra tala um það. Sagðist hann halda að þetta hefði gerst oftar en einu sinni og sagðist alla vega hafa séð þetta einu sinni.

Í könnunarviðtali í Barnahúsi sagðist hann halda að afi sinn hefði ætlað að koma við brotaþola og að brotaþoli hefði beðið þá bræður að passa sig svo að afi þeirra myndi ekki koma við hana. Sagðist hann minna að afi þeirra hefði komið við brotaþola þegar hún var að fara að sofa.

Móðir brotaþola, D, sagði í skýrslu sinni hér fyrir dómi, sem er í samræmi við skýrslu hennar hjá lögreglu, að brotaþoli hefði byrjað að segja sér frá málsatvikum þegar hún var 16 til 17 ára. Þá sagði hún að brotaþoli hefði farið í heimsókn til afa síns og ömmu í [...] eftir að hún sagði henni frá háttsemi ákærða. Hún sagði að brotaþoli hefði tjáð sér að þegar ákærði hefði verið að segja þeim systkinum sögur fyrir svefninn hefði hann farið með höndina undir sængina og þuklað á pjöllunni og brjóstunum. Hún hefði verið farin að ríghalda í sængina svo að hann kæmist ekki undir hana. Ekki hefði komið fram hjá brotaþoli hvort ákærða hefði tekist að koma við kynfæri hennar.

Ákærði hefur í skýrslum sínum hjá lögreglu og fyrir dómi afdráttarlaust neitað sök í málinu. Hér fyrir dómi kvaðst hann telja það fráleitt að hann hefði káfað á brotaþola innanklæða. Hann staðfesti að þau systkinin hefðu yfirleitt sofið öll þrjú í gestaherbergi á heimili hans þegar þau gistu hjá þeim hjónum í [...]. Þá kannaðist hann við að hafa oft sagt þeim systkinum sögur fyrir svefninn. Skýrslum ákærða fyrir dóminum og hjá lögreglu ber saman í öllum meginatriðum.

Framburður og framkoma brotaþola, sem er tæplega tvítug, bar þess greinileg merki að hún er þroskaskert. Frásögn brotaþola hér fyrir dómi af atvikum þeim, sem greinir í a-lið ákærunnar, var hins vegar allskýr um öll meginatriði og er ágætt samræmi á framburði hennar um þessi atvik fyrir dómi við aðalmeðferð og rannsókn málsins, svo og í könnunarviðtali í Barnahúsi. Hefur framburður hennar um þessi atvik verið stöðugur. Þá hefur brotaþoli lýst líðan sinni á meðan á þessu stóð og eftir þessa atburði með trúverðugum hætti og fær sú frásögn brotaþola stoð í skýrslum þeirra sálfræðinga, sem kannað hafa líðan hennar og ástand. Einnig þykir skýrsla vitnisins H um afar neikvæðar tilfinningar brotaþola í garð ákærða skjóta stoðum undir framburð brotaþola. Jafnframt fær framburður brotaþola um þessi atvik einnig stuðning í framburði móður hennar um að brotaþola hefði liðið illa þegar til stóð að hún færi [...] í heimsókn til afa síns og ömmu. Loks þykir frásögn brotaþola af svipbrigðum og sérstökum bendingum ákærða þegar hann vildi láta til skarar einkar trúverðug.

Fram hefur komið að bræður brotaþola, þeir B og C, eru einnig þroskaskertir og bar framburður þeirra hér fyrir dómi þess allskýr merki. Ágætt samræmi er þó á framburði þeirra fyrir dómi við aðalmeðferð og rannsókn málsins, svo og í könnunarviðtali í Barnahúsi og á það sérstaklega við nokkuð greinargóðan framburð vitnisins C, sem tjáði sig meira um þessi atvik en vitnið B. Framburður bræðranna um það hvenær þeir urðu síðast vitni að þessari hegðun ákærða er í samræmi við framburð brotaþola. Þykir framburður þessara vitna um þau atvik er greinir í a-lið ákærunnar trúverðugur.

Ákærða, brotaþola, bræðrum hennar, föður og ömmu, bar saman um það að þegar systkinin komu [...] og gistu á heimili afa síns og ömmu í [...] hafi þau öll þrjú sofið saman í gestaherbergi íbúðarinnar, en amma þeirra hefur reyndar borið um það að þannig hafi fyrirkomulagið verið þegar börnin voru minni, en þegar þau stækkuðu hefði brotaþoli sofið ein í gestaherberginu. Öllum ber þeim og saman um að ákærði hafi iðulega sagt systkinunum sögur fyrir svefninn. Einnig hefur komið fram að faðir barnanna og amma hafi verið frammi á meðan. Hefur brotaþoli borið um það að hún hafi haldið fast í sængina sína til varna því að ákærði færi með höndina undir sængina. Ekkert hefur hins vegar komið fram um frekari átök eða orðaskipti þeirra á milli. Með hliðsjón af þessu þykir ljóst að ákærði gat haft þessa háttsemi í frammi inni í gestaherberginu án þess að faðir barnanna eða amma, sem voru annars staðar í íbúðinni, yrðu þess vör.

Með vísan til trúverðugs framburðar brotaþola, sem samrýmist stöðugum og trúverðugum framburði vitnisins C og fær góðan stuðning í framburði vitnanna, B og H, sem og með hliðsjón af öðrum gögnum málsins þykir, þrátt fyrir eindregna neitun ákærða, í ljós leitt svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi að minnsta kosti tvisvar sinnum haft í frammi háttsemi þá er greinir í a-lið ákærunnar.

Er þessi háttsemi ákærða réttilega heimfærð í ákæru til 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 61/2007.

Í b-lið ákærunnar er ákærða gefið að sök að hafa reynt einu sinni að hafa samræði við brotaþola í bifreið, sem staðsett hafi verið á höfuðborgarsvæðinu.

Í skýrslum sínum fyrir dómi, bæði við aðalmeðferð og rannsókn málsins, svo og í könnunarviðtali í Barnahúsi, hefur brotaþoli tengt þetta atvik við kaup ákærða á tímaritinu Bleiku og bláu. Hefur hún greint frá því að þau ákærði hafi farið ein í ökuferð, en bræður hennar hafi ekki mátt koma með. Þau hafi farið í verslunina [...] og þar hafi ákærði keypt handa henni umrætt blað og sagt henni að skoða það. Að svo búnu hefði hann ekið út fyrir bæinn, sagt henni að fara í aftursætið á jeppanum og reynt að fara upp á hana þar, eins og hún orðaði það, en hún hefði stöðvað hann. Við aðalmeðferð málsins sagði brotaþoli að ákærði hefði klætt sig úr öllu að neðan og reynt að klæða hana úr peysunni. Jafnframt sagðist brotaþoli hafa barist á móti ákærða og haldið í peysuna.

Ákærði hefur neitað því alfarið, bæði hér fyrir dómi og hjá lögreglu, að hafa reynt að hafa samræði við brotaþola í bifreið sinni og hefur borið því við að hann hafi verið getulaus í 10 ár vegna aðgerðar [...]. Hann hefur hins vegar staðfest að brotaþoli hafi eitt sinn beðið hann um að kaupa handa sér tímaritið Bleikt og blátt, en hann hefði sagt henni að ef hún vildi eignast blaðið yrði hún að kaupa það sjálf. Með í þessari búðarferð hefðu verið auk hans og brotaþola, bræður brotaþola og amma barnanna. Þá sagðist hann ekki minnast þess að hafa farið í ökuferð eftir að blaðið var keypt, og sagðist ekki muna betur en að þau hefðu gengið heim þegar búið var að versla.

Vitnið B bar um það við aðalmeðferð málsins að fyrir þremur til fjórum árum hefðu þau systkinin farið með afa sínum og ömmu að versla í [...] eða [...] í [...] og þá hefði afi hans keypt áðurgreint tímarit handa brotaþola. Hann sagðist ekki vera viss um hvort brotaþola langaði í blaðið. Sagðist hann vera viss um að hafa verið í þessari búðarferð og sagðist hafa séð þegar blaðið var keypt. Í dómskýrslu við rannsókn málsins sagði vitnið að fyrir tveimur til þremur árum hefði ákærði gefið brotaþola umrætt blað í [...].

Vitnið bar einnig um það að brotaþoli hefði tjáð sér að hún og ákærði hefðu farið aftur í jeppa ákærða og þar hefði hann þuklað og strokið á brjóstum og líkama hennar og einnig kysst hana.

Vitnið C sagði að einu sinni hefðu þau systkinin farið með pabba sínum og afa að versla. Þá hefði afi hans pikkað í brotaþola og sagt að þau yrðu að fara ein saman. Síðan hefði hann keypt handa henni áðurgreint tímarit. Hann var ekki viss um hvort verslunin var í [...] eða [...] og sagðist ekki muna hvort amma hans var með í för eða ekki. Vitnið tjáði sig ekki um þetta í skýrslu sinni fyrir dómi við rannsókn málsins, en í könnunarviðtali í Barnahúsi sagði hann að afi sinni hefði gefið brotaþola klámblað og sagt henni að fela það.

Báðir bræðurnir báru um það að þau hefðu verið á bíl og eftir búðarferðina hefðu þau farið heim að borða. Er það í samræmi við framburð ákærða.

Vitnið D bar um það að hafa séð blaðið í fórum systkinanna og foreldrar hennar, þau Q og R, könnuðust við að hafa heyrt af kaupum á þessu blaði. Vitnið D sagði einnig að brotaþoli hefði tjáð sér að afi hennar hefði ekið út fyrir bæinn, sagt henni að fara aftur í og byrjað að hysja niður um sig. Hann hefði síðan reynt að hafa við hana samfarir en hún hefði stoppað hann af.

Af framburði brotaþola er ljóst að engir aðrir en þau ákærði geta verið til frásagnar um atvik það, sem b-liður ákærunnar tekur til. Þá er ljóst að framburður vitnanna B og D, sem ákæruvaldið byggir á til stuðnings málatilbúnaði sínum, er aðeins endursögn á frásögn brotaþola. Þá er framburður bræðra brotaþola um hvar blaðið var keypt og hverjir voru með í för í greint sinn misvísandi og í ósamræmi við framburð brotaþola, sem hefur borið um það að þau ákærði hefðu farið ein í verslunina. Þá hafa báðir bræðurnir borið um það að eftir að blaðið var keypt hafi þau farið heim á bílnum og síðan farið að borða. Er þetta heldur ekki í samræmi við framburð brotaþola.

Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir sönnunarbyrðin um sekt sakbornings og atvik, sem telja má honum í óhag, á ákæruvaldinu. Svo sem hér hefur verið rakið er um sakaratriði málsins í raun ekki við önnur gögn að styðjast en framburð brotaþola, en eins og áður greinir fær hann að öðru leyti ekki nægan stuðning í framburði vitna. Með hliðsjón af því og öðru framangreindu verður ekki talið, gegn neitun ákærða, að ákæruvaldinu hafi tekist að sanna svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, að ákærði hafi sýnt af sér þá háttsemi sem honum er gefin að sök í b-lið ákærunnar. Ber því að sýkna ákærða af þessum ákærulið.

Í c-lið ákærunnar er ákærða gefið að sök að hafa einu sinni haft við brotaþola munnmök í sumarbústað á [...] eða [...].

Í skýrslu sinni hér fyrir dómi sagði brotaþoli að einu sinni þegar hún hefði gist hjá afa sínum og ömmu í [...] hefði afi hennar reynt að sleikja á henni kynfærin. Hún hefði þá verið farin að sofa á undan bræðrum sínum á hornsófanum í gestaherberginu. Hún sagði að ákærði hefði ætlað að klæða hana úr brókinni og reynt að sleikja kynfærin en ekki náð því þar sem hún hefði ríghaldið sænginni og verið mjög reið. Þá sagðist hún ekki muna hvort ákærði reyndi þetta oftar. Síðar í skýrslunni sagði brotaþoli að hún hefði sagt B bróður sínum frá því að ákærði hefði sleikt á henni kynfærin. Sagði hún nánar aðspurð að ákærða hefði tekist einu sinni að sleikja á henni kynfærin en það hefði verið þegar hún var í heimsókn hjá honum í [...]. Hún sagði jafnframt að hann hefði oft reynt það en ekki tekist það aftur. Aðspurð sagði hún að ákærði hefði aldrei reynt þetta þegar þau voru í sumarbústað.

Við rannsókn málsins sagði brotaþoli fyrir dómi að hún myndi ekki eftir því að ákærði hefði sleikt budduna. Hann hefði þó reynt það en hún hefði ekki leyft það. Þegar hún var innt nánar út í þetta sagði brotaþoli að ákærði hefði sagt henni að fara aftur í og hefði svo ætlað…, en hún hefði stoppað hann og sagt honum að fara heim.

Í könnunarviðtali í Barnahúsi sagði brotaþoli að ákærði hefði komið með munninn við kynfæri hennar í sumarbústaðnum.

Vitnið B sagði að í afmælisveislu N ömmu sinnar, sem haldin hefði verið í sumarbústað, hefði hann vaknað upp við að ákærði var að fikta í klofinu á brotaþola og sleikja það. Sagði hann að ákærði hefði sett fingurna inn í leggöngin og sleikt kynfærin. Sagðist hann hafa heyrt í þeim, þ.e. eins konar smjatt. Brotaþoli hefði ekki verið í brókinni og ekki með sængina yfir sér. Jafnframt sagði hann að brotaþoli hefði ekki getað varið sig og ekki þorað annað en að segja já. Þá sagðist hann hafa rætt þetta við systur sína síðar og hún tjáð honum að henni hefði fundist þetta leiðinlegt og að henni liði frekar illa.

Við rannsókn málsins sagði vitnið fyrir dómi að hann hefði séð þegar ákærði setti tunguna á kynfæri brotaþola, en þetta hefði átt sér stað í sumarbústað í [...]. Sagðist hann hafa horft á þau og einnig heyrt í þeim. Hann hefði síðan sofnað og því vissi hann ekki hvort hann hefði farið inn í hana eða ekki, eins og vitnið orðaði það. Jafnframt sagði hann að brotaþoli hefði viljað þetta og oft beðið ákærða um þetta. Stundum hefði hann sagt nei, en síðan gefist upp og gert þetta bara. Vitnið sagði að ákærði hefði einnig sleikt puttann og sett hann inn í leggöngin.

Í könnunarviðtali í Barnahúsi sagði vitnið að ákærði hefði sleikt píkuna á brotaþola og alveg upp brjóstin. Sagði hann að þetta hefði gerst í sumarbústað í [...] ára afmælisveislu afa síns. Sagðist hann hafa verið að reyna að sofna þegar þetta gerðist og sagðist ekki vita hvort hann hefði stungið þessu inn, eins og hann orðaði það, því hann hefði sofnað.

Vitnið C sagði í skýrslu sinni hér fyrir dómi ekki muna eftir neinum atvikum í sumarbústaðnum hjá [...] og [...]. Hann sagði aðspurður að sig minnti að brotaþoli hefði tjáð sér að afi þeirra hefði sleikt á henni kynfærin.

Vitnið minntist hvorki á þetta í skýrslu sinni fyrri dómi við rannsókn málsins né í könnunarviðtali í Barnahúsi.

Vitnið D sagðist aðspurð ekki minnast þess að brotaþoli eða bræður hennar hefðu rætt um munnmök við sig.

Þegar ákærði var inntur út í sakarefni c-liðar ákærunnar sagðist hann ekki vera viss um hvað átt væri við með munnmökum og sagðist áreiðanlega aldrei hafa haft munnmök, hvorki við brotaþola né neinn annan. Hann kannaðist hins vegar við það að hafa haldið upp á [...] ára afmæli sitt í sumarbústað dóttur sinnar og tengdasonar í [...]. Einnig að þar hefðu verið brotaþoli og bræður hennar ásamt föður þeirra.

Eins og að framan greinir ber brotaþola og vitninu B ekki saman um málsatvik. Brotaþoli þvertók fyrir það hér fyrir dómi að ákærði hefði reynt að sleikja kynfæri hennar í sumarbústað, en hann hefði hins vegar reynt það og tekist það einu sinni á heimili sínu í [...]. Hún hefði þá verið ein í gestaherberginu ásamt ákærða. Vitnið B sagðist hins vegar hér fyrir dómi hafa orðið vitni að þess konar háttsemi hjá ákærða í sumarbústað í [...]. Ekki er fullt samræmi á framburði þessa vitnis hér fyrir dómi og fyrir dómi við rannsókn málsins um viðbrögð brotaþola við þessari háttsemi ákærða. Þá hefur framburður brotaþola um þessi atvik verið óstöðugur og ber skýrslum hennar hér fyrir dómi, við rannsókn málsins og í könnunarviðtali í Barnahúsi ekki fullkomlega saman.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið, gegn neitun ákærða, að ákæruvaldinu hafi tekist að sanna svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, að ákærði hafi sýnt af sér þá háttsemi sem honum er gefin að sök í c-lið ákærunnar. Ber því að sýkna ákærða af þessum ákærulið.

Niðurstaða málsins er því sú að ákærði er sakfelldur fyrir háttsemi þá er greinir í a-lið ákærunnar, en sýknaður af ákæruliðum b og c.

Eins og áður greinir þykir háttsemi ákærða samkvæmt a-lið ákæru réttilega heimfærð til 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 61/2007.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði ekki áður sætt refsingu.

Ákærði hefur með brotum sínum brugðist trúnaði gagnvart þroskaskertu barnabarni sínu og á sér engar málsbætur. Til þess verður þó að líta að hann er kominn hátt á áttræðisaldur og er haldinn líkamlegum sjúkdómum samkvæmt framlögðum læknisvottorðum. Þá verður og að líta til þess að eins og málið liggur fyrir er ósannað að brot ákærða hafi verið framin eftir 3. apríl 2007, þegar lög nr. 61/2007 tóku gildi, en með 9. gr. þeirra var breytt til hækkunar refsimörkum 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga. Að virtu þessu og 4. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði.

Af hálfu brotaþola, A, hefur þess verið krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 1. [...] til 19. desember 2009 og dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags.

Með broti sínu hefur ákærði bakað sér skyldu til að greiða stúlkunni miskabætur, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Brot ákærða eru til þess fallin að skaða sjálfsmynd stúlkunnar og valda henni alvarlegum afleiðingum um ókomna tíð. Verður ákærði dæmdur til að greiða stúlkunni miskabætur að fjárhæð 600.000 krónur. Þar sem óljóst er hvenær hin bótaskyldu atvik áttu sér stað skulu ekki reiknast almennir vextir á kröfuna, en dráttarvextir reiknist eins og greinir í dómsorði.

Sakarkostnaður er alls að fjárhæð 1.537.337 krónur, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Ólafs Rúnars Ólafssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin að fjárhæð 753.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Arnbjargar Sigurðardóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin að fjárhæð 313.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Í sakarkostnaði er einnig meðtalinn útlagður kostnaður verjanda að fjárhæð 101.490 krónur og útlagður kostnaður réttargæslumanns að fjárhæð 56.575 krónur.

Í samræmi við niðurstöðu málsins er ákærða gert að greiða 1/3 hluta alls sakarkostnaðar, en 2/3 sakarkostnaðar er felldur á ríkissjóð, sbr. 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008.

Dóm þennan kveða upp Ragnheiður Bragadóttir, Sandra Baldvinsdóttir og Sveinn Sigurkarlsson, héraðsdómarar.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 10 mánuði.

Ákærði greiði brotaþola 600.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá 19. desember 2009 til greiðsludags.

Ákærði greiði 1/3 hluta sakarkostnaðar, sem er samtals að fjárhæð 1.537.337 krónur, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Ólafs Rúnars Ólafssonar hdl., 753.000 krónur, útlagður kostnaður hans 101.490 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Arnbjargar Sigurðardóttur hdl, 313.750 krónur og útlagður kostnaður hennar 56.575 krónur, en 2/3 hlutar alls sakarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.