Hæstiréttur íslands
Mál nr. 416/1998
Lykilorð
- Nytjastuldur
- Ölvunarakstur
- Akstur sviptur ökurétti
|
|
Fimmtudaginn 29. apríl 1999. |
|
Nr. 416/1998. |
Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Grétari Magnússyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Nytjastuldur. Ölvunarakstur. Akstur án ökuréttar.
G var ákærður fyrir nytjastuld, þjófnað, ölvunarakstur og akstur án ökuréttinda. Var hann sakfelldur fyrir að hafa í þremur tilvikum tekið bifreiðar í heimildarleysi og ekið þeim ölvaður og án ökuréttinda og honum dæmd fangelsisrefsing og svipting ökuréttinda ævilangt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. október 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða fyrir þau brot, sem áfrýjun tekur til, og þyngingar á refsingu, svo og að áréttuð verði ævilöng svipting ökuréttar.
Ákærði krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt I. kafla ákæru 18. júní 1998, en að öðru leyti að refsing verði milduð.
Í I. kafla ákæru 18. júní 1998 var ákærða gefið að sök að hafa tekið í heimildarleysi bifreiðina R 57346 aðfaranótt 24. apríl sama árs, þar sem hún hafi staðið við Dvergabakka í Reykjavík, og ekið henni að bifreiðastæði við Þverholt, en tekið síðan bifreiðina þaðan 27. sama mánaðar og ekið henni um Reykjavík þar til lögreglan stöðvaði aksturinn við Stakkahlíð. Í umrætt sinn hafi hann ekið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis. Gegn neitun ákærða hafa ekki verið færðar fram sönnur fyrir sök hans að því er varðar fyrrgreind atvik aðfaranótt 24. apríl 1998. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hins vegar staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt þessum kafla ákæru að öðru leyti, svo og um sakfellingu fyrir önnur brot, sem honum voru gefin að sök með henni og ákæru 9. júní 1998.
Samkvæmt framansögðu er staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sakfella ákærða fyrir að hafa tekið í heimildarleysi í fyrsta lagi bifreiðina R 2030 aðfaranótt 11. mars 1998, í öðru lagi bifreiðina R 57346 27. apríl sama árs og í þriðja lagi bifreiðina GH 146 aðfaranótt 1. maí sama árs. Í öllum tilvikum ók hann án ökuréttar og ölvaður, en áfengismagn í blóði hans mældist í því fyrsta 2,28o/oo, í öðru tilvikinu 2,36o/oo, en í því þriðja 2,78o/oo. Í héraðsdómi er greint frá sakaferli ákærða, þar á meðal fyrri brotum hans með akstri undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti. Í því ljósi eiga fyrirmæli 72. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 við um þau brot ákærða, sem um ræðir í málinu. Við ákvörðun refsingar verður að líta til ákvæða 1. mgr. 70. gr. sömu laga, einkum 3., 5. og 8. töluliðar, svo og 77. gr. þeirra. Að þessu gættu og fyrri dómum Hæstaréttar í sambærilegum málum þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin í héraðsdómi. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Grétar Magnússon, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 35.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. ágúst 1998.
Ár 1998, föstudaginn 21. ágúst, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 604/1998: Ákæruvaldið gegn Á og Grétari Magnússyni sem tekið var til dóms hinn 13. ágúst sl. að lokinni aðalmeðferð.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur höfðað mál þetta á hendur Á og Grétari Magnússyni, kt. 041162-2019, Blikahólum 2, Reykjavík, eins og rakið verður:
[...]
II.
Ákærðu Á og Grétari fyrir eftirgreind brot á almennum hegningarlögum aðfararnótt fimmtudagsins 21. ágúst 1997:
1. Nytjastuld, með því að hafa notað í heimildarleysi bifreiðina Chevrolet Chevelle Malibu, árgerð 1971, með skráningarnúmerið AA-876 og ekið henni frá bifreiðastæði við Ferjubakka 16 í Reykjavík að afleggjaranum að bænum Bjarteyjarsandi í Hvalfjarðarstrandarhreppi, en þar hafi hún stöðvast vegna þess að hún hafi orðið bensínlaus. (Mál nr. 013-1997-851)
Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga.
2. Þjófnað, með því að hafa stolið bensíni af pallbifreið með skráningarnúmerið RS-465 sem stóð við bæinn Brekku í Hvalfjarðarstrandarhreppi og farið niður í kjallara hússins og stolið þaðan sjóveiðistöng, bakpoka og hvolpi af tegundinni „Boxer”. (Mál nr. 013-1997-851)
Telst þetta varða við 244. gr. ofangreindra laga.
III.
Ákærða Grétari fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot með því að hafa notað bifreiðina R-2030 í heimildarleysi aðfararnótt miðvikudagsins 11. mars 1998 og ekið henni sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis, frá veitingahúsinu Keisaranum, Laugavegi 116, að Hafnarkránni, Hafnarstræti 9, og þaðan að mótum Kalkofnsvegar og Sæbrautar í Reykjavík þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn. (Mál nr. 010-1998-5545)
Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 1. gr. laga nr. 20,1956 og 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987.
IV.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og ákærði Grétar sviptur ökurétti skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44,1993."
Í þriðja lagi er málið höfðað á hendur ákærða Grétari með ákæru, dagsettri 18. júní sl. „fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot með því að hafa tekið eftirtaldar bifreiðar í heimildarleysi og ekið þeim sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis, svo sem hér er rakið.
I. Bifreiðinni R-57346 aðfaranótt föstudagsins 24. apríl 1998 frá Dvergabakka 2-20 í Reykjavík og ekið henni þaðan að bifreiðastæði við Þverholt og mánudaginn 27. apríl um götur í Reykjavík m.a. í Árbæjarhverfi og Breiðholtshverfi uns lögregla stöðvaði aksturinn í Stakkahlíð.
II. Bifreiðina GH-146 aðfaranótt föstudagsins 1. maí 1998 frá bifreiðastæði við Hverfisgötu 87 í Reykjavík og ekið henni þaðan um götur í borginni, gegn rauðu umferðarljósi á mótum Suðurlandsbrautar og Grensásvegar og Suðurlandsbrautar og Reykjavegar, en lögreglan stöðvaði aksturinn á Sæbraut við Höfðatún.
Framangreind brot ákærða teljast varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 1. gr. laga nr. 20,1956, og 1. mgr. 5. gr., 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44,1993.”
Málavextir í sömu röð.
[...]
II.
[...]
4. Ákærði Á kveður II. kafla annarrar ákærunnar vera réttan að því er hann varðar og viðurkennir að hafa tekið í heimildarleysi bifreiðina AA-876 og ekið henni eins og segir í 1. tl. kaflans. Þá viðurkennir hann að hafa stolið bensíni af pallbifreið á Brekku á Hvalfjarðarströnd, svo og verðmætum úr kjallara íbúðarhússins sem tilgreind eru í ákærunni. Ákærði Grétar neitaði þessum sakargiftum í upphafi og við meðferð málsins hefur hann sagt að hann rámi aðeins í þessa atburði en vísar að öðru leyti til framburðar síns hjá lögreglu. Helga Gísladóttir sem var með ákærðu í ferðinni hefur ekki komið fyrir dóm. Telja verður ósannað gegn neitun ákærða Grétars að hann hafi gerst sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni en að því er meðákærða Á varðar þykir vera sannað með játningu hans að hann hafi gerst sekur um nytjastuldinn og þjófnað á bakpoka og bensíni en ósannað að hann hafi stolið hvolpinum og sjóveiðistönginni. Hefur ákærði Á orðið sekur við 244. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga.
5. Ákærði Grétar var tekinn við akstur bifreiðarinnar R-2030, kl. 1.15 aðfaranótt miðvikudagsins 11. mars 1998. Var hann bæði undir áhrifum áfengis (2,28 ) og sviptur ökurétti ævilangt (dómur 11. júní 1996). Bifreið þessari hafði verið stolið af bifreiðastæði við Krummahóla um kvöldið eða nóttina. Lögreglumennirnir sem handtóku ákærða hafa komið fyrir dóm. Þeir segjast ekki hafa fundið bíllykla á ákærða eða í bifreiðinni. Ákærði segir kunningja sinn, Kela að nafni, hafa lánað sér bifreiðina. Hvort sem ákærði tók bifreið þessa í heimildarleysi við Krummahóla eða fékk umráð hennar hjá einhverjum öðrum verður því slegið föstu hér að hann hafi gert sér ljóst að hann hafði ekki heimild rétts umráðamanns til þess að aka henni. Er hann þannig orðinn sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæða.
III.
1. Ákærði Grétar kveðst ekki muna eftir atburðinum sem frá er skýrt í I. kafla síðustu ákærunnar. Fyrir liggur að ákærði var stöðvaður í akstri R-57346, föstudagsnóttina 24. apríl í vor. Reyndist hann vera undir áhrifum áfengis (2,36 ) og sviptur ökurétti ævilangt (dómur 10. mars 1998). Hjá lögreglu bar hann að hann hefði fengið bílinn að láni hjá fólki sem hann var að svalla með á skemmtistaðnum Keisaranum. Fram er komið að bíl þessum var stolið af bílastæði við Dvergabakka 2-20 þessa nótt. Hvort sem ákærði tók bíl þennan sjálfur í heimildarleysi við Dvergabakka eða fékk umráð hans hjá einhverjum öðrum verður því slegið föstu hér að hann hafi gert sér ljóst að hann hafði ekki heimild rétts umráðamanns til þess að aka honum. Er hann þannig orðinn sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæða.
2. Ákærði kveður sig ráma í atburðinn í II. kafla síðustu ákærunnar, en þó ekki svo vel að hann treysti sér til að segja neitt um hann annað en hann hefur sagt í skýrslum sínum hjá lögreglu en þá kvaðst hann ekki muna hvernig hann komst yfir bílinn. Fyrir liggur að hann var stöðvaður í akstri GH-146, föstudagsnóttina 1. maí í vor. Reyndist hann vera undir áhrifum áfengis (2,78 ) og sviptur ökurétti ævilangt (dómur 10. mars 1998). Fram er komið að bíl þessum var stolið af bílastæði við Hverfisgötu 87 þessa nótt. Hvort sem ákærði tók bíl þennan sjálfur í heimildarleysi við Hverfisgötu eða fékk umráð hans hjá einhverjum öðrum verður því slegið föstu hér að hann hafi gert sér ljóst að hann hafði ekki heimild rétts umráðamanns til þess að aka honum. Ekki hafa komið fram vitni að því að ákærði hafi ekið gegn rauðu umferðarljósi og ber því að sýkna hann af broti gegn 1. mgr. 5. gr. umferðarlaga. Að öðru leyti er hann orðinn sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæða.
Viðurlög og sakarkostnaður.
[...]
Sakarferill ákærða Grétars hófst árið 1978 og hefur hann síðan sætt refsiviðurlögum fyrir dómi í 30 skipti, þar af 9 sinnum fyrir 18 ára aldur, fyrir hegningarlagabrot, áfengislagabrot, fíkniefnabrot og umferðarlagabrot og hefur sakarferill hans verið samfelldur síðan. Ákærði hefur, síðan 6. nóvember 1980, fjórtán sinnum sætt viðurlögum fyrir ölvunarakstur og jafnoft fyrir akstur sviptur ökurétti. Síðast var ákærði dæmdur fyrir þessar sakir 10. mars sl. Eru brot ákærða nú öll framin eftir það. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.
Dæma ber ákærðu báða til þess að vera sviptir ökurétti ævilangt frá dómsbirtingu að telja.
Dæma ber ákærða Á til þess að greiða málsvarnarlaun til verjanda síns Stefáns Pálssonar, hrl., 45.000 krónur, og ákærða Grétar til þess að greiða málsvarnarlaun til verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar, hrl., 45.000 krónur. Þá ber að dæma ákærðu til þess að greiða allan annan sakarkostnað óskipt, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 45.000 krónur.
Mál þetta sótti Hjalti Pálmason, fulltrúi Lögreglustjórans í Reykjavík.
Dómsorð:
Ákærði Á sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði Grétar Magnússon sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærðu eru báðir sviptir ökurétti ævilangt frá dómsbirtingu að telja.
Ákærði Á greiði verjanda sínum Stefáni Pálssyni hrl. 45.000 krónur í málsvarnarlaun, og ákærði Grétar greiði verjanda sínum Hilmari Ingimundarsyni hrl, 45.000 krónur í málsvarnarlaun. Þá greiði ákærðu allan annan sakarkostnað óskipt, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 45.000 krónur.