Hæstiréttur íslands

Mál nr. 210/2003


Lykilorð

  • Kjarasamningur
  • Vinnusamningur
  • Opinberir starfsmenn


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. nóvember 2003.

Nr. 210/2003.

Hafnarfjarðarbær

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

Katrínu Pálsdóttur

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

 

Kjarasamningur. Vinnusamningur. Opinberir starfsmenn.

K krafði H um laun samkvæmt gildandi kjarasamningi. Taldi K sig jafnframt eiga rétt til nánar tilgreindra viðbótarkjara á grundvelli samnings sem hún hafði gert við H. Deilt var um hvernig skilja bæri sameiginlega yfirlýsingu samningsaðila, sem var meðal fylgiskjala kjarasamnings. Talið var að með yfirlýsingunni hefði stéttarfélag K skuldbundið sig til þess eins að aðhafast ekki þótt samningum um persónubundin viðbótarkjör yrði sagt upp frá og með tilgreindu tímamarki. Stéttarfélagið átti ekki aðild að samningnum um viðbótarkjör K og var því talið að H hefði borið að segja samningnum við K upp með lögformlegum hætti kysi hann að vera laus undan þeim skuldbindingum sem þar var kveðið á um. Með því að það hafði H ekki gert, var ekki talið að umrædd yfirlýsing aðila kjarasamningsins hefði fellt úr gildi viðbótarkjör K. Krafa K var samkvæmt þessu tekin að fullu til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. maí 2003. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu, en til vara að viðurkennd verði til skuldajafnaðar gagnkrafa hans á hendur stefndu að fjárhæð 257.365 krónur, „allt að sömu fjárhæð og dómkröfur stefnda kunna að verða teknar til greina.“ Að því frágengnu krefst áfrýjandi þess að krafa stefndu verði lækkuð. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð nokkur ný skjöl. Þeirra á meðal er bréf áfrýjanda til stefndu 28. maí 2003 þar sem sá fyrrnefndi sagði upp rétti þeirrar síðarnefndu „til greiðslu yfirvinnustunda vegna innkaupa efnis og áhalda, eftirlits með áhöldum og kennslustofu og viðhaldi áhalda og leirbrennslu“ með þriggja mánaða fyrirvara „að svo miklu leyti sem slíkur réttur kann að vera fyrir hendi“. Var í bréfinu vísað til þess máls, sem hér er til umfjöllunar, og tekið fram að uppsögn á ráðningarkjörunum sé „einungis til öryggis og án viðurkenningar á rétti“.

 Þá hafa verið lögð fram bréf þriggja sveitarfélaga varðandi uppsögn á viðbótarkjörum í framhaldi af gerð kjarasamnings launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands fyrir grunnskóla 9. janúar 2001. Eru það í fyrsta lagi bréf Reykjavíkurborgar 28. september 2001 til nafngreinds aðstoðarskólastjóra þar sem nánar tilgreindum viðbótarkjörum viðtakanda bréfsins var sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara meðal annars með vísan til þeirrar yfirlýsingar í kjarasamningnum, sem deilt er um túlkun á í þessu máli. Í öðru lagi tvö bréf Reykjanesbæjar 27. apríl 2001 þar sem samkomulagi um viðbótarkjör nafngreinds skólastjóra annars vegar og kennara hins vegar var sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara. Loks bréf Akraneskaupastaðar 28. mars 2001 þar sem tilkynnt var ákvörðun bæjarstjórnar um uppsögn samkomulags bæjarins og kennara við grunnskóla þar í bæ varðandi greiðslur umfram kjarasamninga. Einnig hafa verið lögð fram fundargerð samstarfsnefndar Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga vegna grunnskólans 2. september 2003, tölvupóstsamskipti lögmanns stefndu og skólastjóra Lækjaskóla 14. október 2003 og yfirlit stefndu um vikulega vinnuskyldu.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, skulu laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á því svæði, sem samningurinn tekur til. Skulu samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör ógildir. Varðandi opinbera starfsmenn kemur þessi sama meginregla fram í 24. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Sé í ráðningarsamningi milli starfsmanns og atvinnurekanda eða í síðara samkomulagi þeirra á milli samið um betri kjör er komið út fyrir svið kjarasamnings. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Hafnarfjarðarbær, greiði stefndu, Katrínu Pálsdóttur, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2002.

                Mál þetta, sem dómtekið var 20. f.m., er höfðað 18. mars 2002 af Katrínu Pálsdóttur, Langeyrarvegi 14, Hafnarfirði, á hendur Hafnarfjarðarbæ.

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 63.427 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 9.305 krónum frá 1. september 2001 til 1. október sama árs, af 18.610 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama árs, af 27.915 krónum frá þeim degi til 1. desember sama árs, af 37.220 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2002, af 46.525 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama árs, en af 63.427 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að viðurkennd verði til skuldajafnaðar „gagnkrafa stefnda á hendur stefnanda að fjárhæð [257.365 krónur] allt að sömu fjárhæð og dómkröfur stefnanda kunna að verða viðurkenndar“. Að því frágengnu krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

                Mál þetta á rætur að rekja til samnings sem Hafnarfjarðarbær gerði við myndmenntakennara í grunnskólum Hafnarfjarðar og Flensborgarskóla 12. september 1980. Stefnandi, sem hefur frá árinu 1970 starfað sem myndmenntakennari við Lækjarskóla í Hafnarfirði, undirritaði samninginn fyrir hönd grunnskólakennara. Samningurinn hljóðar svo:

                „Hafnarfjarðarbær og myndmenntakennarar í grunnskólum Hafnarfjarðar og Flensborgarskóla, gera með sér svohljóðandi samkomulag.

                Kennarar annist svo sem verið hefur, gegn greiðslu, innkaup efnis og áhalda, eftirlit með áhöldum og kennslustofu og viðhald áhalda og leirbrennslu.

                Greiðslur fyrir störf þessi mun Hafnarfjarðarbær inna af hendi mánaðarlega eftir á, þannig:

Kennarar í 1/1 stöðu fái greiddar 9 st. á mánuði í yfirvinnu launaflokks viðkomandi kennara.

Kennarar, sem kenna minna en 1/1 stöðu fái hlutfallslega greiðslu skv. ofangreindum stundum.

Samkomulag þetta gildi frá og með undirskriftardegi til og með 31. maí 1981. Sé því ekki sagt upp af samningsaðilum endurnýjast samkomulagið sjálfkrafa fyrir næsta skólaár.“

Þegar samningur þessi var gerður var rekstur grunnskóla í höndum ríkisins. Hafði samningnum ekki verið sagt upp þegar sveitarfélög tóku við rekstri grunnskóla á grundvelli laga nr. 66/1995 um grunnskóla. Þá er ekki um það ágreiningur að samningurinn hafi gilt áfram allt þar til kjarasamningur launanefndar sveitarfélag og Kennarasambands Íslands fyrir grunnskóla, sem undirritaður var 9. janúar 2001, tók gildi 1. ágúst sama árs. Af hálfu stefnda hefur því aðallega verið haldið fram til stuðnings sýknukröfu að síðastnefnda daginn hafi samningurinn hins vegar fallið úr gildi á grundvelli svohljóðandi sameiginlegrar yfirlýsingar samningsaðila í hinum nýja kjarasamningi: „Forsendur kjarasamnings þessa eru þær að ákvarðanir sem teknar hafa verið um viðbótarráðningarkjör sem samið hefur verið um á grundvelli launategunda kjarasamnings standi til og með 31. júlí 2001 og falli þá úr gildi.“ Í samræmi við þessa afstöðu hætti stefndi frá og með 1. ágúst 2001 að inna af hendi greiðslur til stefnanda samkvæmt samningnum. Stefnandi heldur því aftur á móti fram að samningurinn sé enn í fullu gildi. Krefur hún stefnda um greiðslu launa og orlofs samkvæmt honum fyrir tímabilið 1. ágúst 2001 til 1. febrúar 2002.

Með bréfi sem stefnandi ritaði stefnda 7. nóvember 2001 fyrir hönd myndmenntakennara var þess krafist á grundvelli lögfræðiálits sem því fylgdi að samningur þáverandi bæjarstjóra stefnda við myndmenntakennara frá 12. september 1980 yrði í heiðri hafður og samningsbundnar greiðslur inntar af hendi tafarlaust. Með bréfi stefnda til stefnanda 15. nóvember 2001 var tilkynnt að stefndi teldi eðilegt að vísa þeim ágreiningi sem upp væri kominn til samstarfsnefndar aðila framangreinds kjarasamnings frá 9. janúar 2001. Fyrir liggur að nefndin hefur ekki afgreitt málið.

II.

                Af hálfu stefnanda er á því byggt að í samningi þeim frá 12. september 1980, sem vísað er til hér að framan, hafi verið kveðið á um einstaklingsbundin ráðningarkjör sérgreinakennara við grunnskóla Hafnarfjarðar. Þannig hafi í samningnum falist viðbót við ráðningarsamning hvers og eins kennara. Samningur þessi geti ekki skoðast sem kjarasamningur, enda hafi hann ekki verið tekinn upp í kjarasamningi stéttarfélags stefnanda. Um samningsrétt bæjarstarfsmanna við gerð kjarasamnings hafi á þessum tíma farið samkvæmt reglugerð nr. 236/1976 um kjarasamninga starfsmanna sveitar- og sýslufélaga innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Samkvæmt henni hafi bæjarstarfsmannafélög haft gerð slíkra kjarasamninga með höndum. Hvorki bæjarstarfsmannafélög né BSRB hafi átt aðild að samningnum frá 12. september 1980. Í samningnum hafi þannig falist samkomulag um yfirborgun í formi ákveðins yfirvinnustundafjölda en ekki kjarasamningur. Með kjarasamningi sé ekki unnt að breyta einstaklingsbundnum ráðningarkjörum til lækkunar eða afnema þau, enda sé kjarasamningur samningur um lágmarkskjör, sbr. 24. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og 18. gr. laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda. Þannig þurfi að segja samningi um yfirborgun upp sérstaklega og með þeim uppsagnarfresti sem kveðið sé á um í ráðningarsamningi viðkomandi starfsmanns. Samningi þeim sem dómkrafa stefnanda í málinu styðst við hafi ekki verið sagt upp. Eigi stefnandi því rétt á þeim greiðslum sem hún krefur stefnanda um í málinu. Þá er það sjálfstæð málsástæða af hálfu stefnanda að sú yfirlýsing aðila kjarasamnings, sem undirritaður var 9. janúar 2001 og tekin er upp orðrétt í kafla I hér að framan, taki hvað sem öðru líður ekki til samningsins frá 12. september 1980. Með þeim „viðbótarráðningarkjörum“ sem þar sé vísað til sé átt við samninga sem sveitarfélög hafi gert við starfsmenn sína í kjölfar kjarsamnings frá 27. október 1997.

III.

                Af hálfu stefnda er um málavexti vísað til þess að við flutning á rekstri grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga á árinu 1996 hafi sveitarfélög tekið yfir gildandi kjarasamning svo og ráðningarsamninga starfsmanna grunnskóla við ríkið, sbr. lög nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Þá þegar hafi sveitarfélög og stéttarfélag grunnskólakennara, Kennarasamband Íslands, hafið endurskoðun á margvíslegum þáttum skólastarfs. Á árinu 1997 hafi verið undirritaður kjarasamningur milli þessara aðila með gildistíma frá 1. ágúst sama árs til 31. desember 2000. Í kjölfar gildistöku kjarasamnings hafi stefnandi og stefndi gert viðauka við gildandi ráðningarsamning og/eða verksamning við stefnanda um einstaka verkþætti sem meðal annars skyldi vinna undir verkstjórn skólastjóra. Hliðstæðir samningar hafi verið gerðir við fjölmarga aðra kennara. Hafi þessir viðaukar tekið til verkþátta sem tengst hafi endurskoðun á námsvísum og skólanámskrá, undirbúningi að breytingum á skólastarfi vegna nýrrar aðalnámskrár og eflingu samstarfs við foreldra. Viðaukum þessum hafi verið markaður ákveðinn gildistími og skyldu þeir í síðasta lagi falla úr gildi við lok gildistíma kjarasamnings 31. desember 2000. Með nýjum kjarasamningi 9. janúar 2001 hafi eldri kjarasamningur launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands fyrir grunnskóla verið framlengdur með tilteknum breytingum til og með 31. júlí 2001. Við gildistöku hins nýja kjarasamnings 1. ágúst 2001 hafi föst mánaðarlaun kennara hækkað verulega. Þá hafi samningsaðilar orðið ásáttir um að ráðast í að bæta skólastarf með kerfisbreytingu sem hefði þann tilgang að bæta skólastarf og skapa ákveðið svigrúm til kjarabreytinga með það að markmiði að gera grunnskólann samkeppnisfæran og kennarastarfið eftirsóknarvert. Sé þessari kerfisbreytingu ítarlega lýst í inngangskafla kjarasamnings. Í henni hafi meðal annars falist uppstokkun á gildandi launakerfi. Skipti þar að lútandi mestu fyrir úrlausn þessa máls að mánaðarlaun skyldu taka til allra þátta kennararstarfsins og sérgreindar greiðslur falla niður. Í samræmi við þetta hafi hin sameiginlega yfirlýsing, sem gerð er grein fyrir í kafla I hér að framan, verið sett inn í kjarasamninginn sem hluti hans. Þessu til enn frekari stuðnings sé vísað til greinar 2.1.6.2 í kjarasamningnum, en hún hljóðar svo: „Vinnuskylda kennara er 1800 stundir á ári. Skólastjóri ráðstafar vinnu kennara til þeirra faglegu starfa og verkefna sem starfsemi grunnskólans kallar á. Til vinnuskyldu kennara heyra öll fagleg störf kennara, s.s. kennsla, undirbúningur undir kennslu, mat á námsárangri, námsefnisöflun, umsjón með stofu og tækjum, skólanámskrárvinna, gerð kennsluáætlana, gerð einstaklingsnámskráa, innra mat á skólastarfi, foreldrasamstarf, innbyrðis samstarf kennara og samstarf þeirra við aðra sérfræðinga, þátttaka í vinnuteymum og öðru innra starfi skólans.“ Samkvæmt þessari grein og ákvæði bókunar númer 9 eigi skólastjóri að ráðstafa tilteknum vinnustundum, svonefndum verkstjórnarþætti og sé viðmiðunarhlutfall þeirra stunda að því er stefnanda varðar, miðað við 28 klukkustunda kennslu á viku og 37 vikna starfstíma skóla, 9,14 klukkustundir á viku.

Að því er málavexti varðar vísar stefndi auk framanritaðs til þess að á grundvelli greinar 11.1 í kjarasamningnum frá 9. janúar 2001 starfræki launanefnd sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands sérstaka samstarfsnefnd, skipaða tveimur fulltrúum frá hvorum aðila, sem hafi það hlutverk að fjalla um ágreining sem kunni að koma upp út af samningnum. Í framkvæmd hafi það verið svo að samstarfsnefnd hafi sameiginlega fjallað um álitaefni og gefið sameiginlegar yfirlýsingar til hlutaðeigandi vegna tilgreindra fyrirspurna. Verkefnisstjórn vegna kjarasamnings aðila, sem í sitja fulltrúar launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands, hafi  fjallað um og afgreitt álitaefni sambærileg því sem um sé deilt í máli þessu, en samstarfsnefndin hafi staðfest niðurstöður verkefnisstjórnar. Hér sé annars vegar um að ræða fyrirspurn þess efnis hvernig skilgreina beri umsjón með kennslustofu, verkfærum og efni. Hafi það verið niðurstaða verkefnisstjórnar og síðan samstarfsnefndar að umsjón með kennslustofu teljist til faglegra starfa kennara og að „tími til þeirra starfa [komi] úr verkstjórnarþætti skólastjórans“. Hins vegar hafi þeirri fyrirspurn verið beint til verkefnisstjórnar hvaða verk megi fela kennurum innan verkstjórnarþáttar. Þessari fyrirspurn hafi verkefnisstjórnin svarað með eftirfarandi hætti: „Öll fagleg störf. Dæmi: Kennarafundir, umsjón með nemendum, samstarf kennara, umsjón með stofu og tækjum, gerð kennsluáætlana, foreldrasamstarf, skólanámskrárvinna, innra mat á skólastarfi, samstarf við sérfræðinga utan skóla o.fl.“

Sýknukröfu byggir stefndi í fyrsta lagi á því að greiðslur samkvæmt samningnum frá 12. september 1980 hafi falið í sér viðbótarráðningarkjör sem fallið hafi niður við kerfisbreytingar þann 1. ágúst 2001 og á grundvelli yfirlýsingar samningsaðila um forsendur kjarasamnings. Í yfirlýsingunni sé af hálfu samningsaðila fallið að fullu frá öllum viðbótarráðningarkjörum sem í gildi voru við undirritun kjarasamnings og sem samið hafi verið um á grundvelli launategunda kjarasamnings. Byggir stefndi á því að umrædd yfirlýsing takmarkist á engan hátt við tiltekin afmörkuð viðbótarráðningarkjör eða undanskilji á einhvern hátt önnur sérstök viðbótarráðningarkjör. Mótmælir stefndi þeim skilningi stefnanda að með orðinu „viðbótarráðningarkjör“ í kjarasamningi hafi einungis verið átt við samninga sem sveitarfélög hafi gert við starfsmenn í framhaldi af kjarasamningi aðila frá 27. október 1997. Orðalag umræddrar yfirlýsingar sé afdráttarlaust og án nokkurra undantekninga. Bendir stefndi á það í þessu sambandi að allir samningar við stefnanda um viðbótarráðningarkjör hafi verið tímabundnir og fallið niður án sérstakrar uppsagnar. Hefði því með öllu verið óþarft að fjalla um þau viðbótarráðningarkjör í kjarasamningi. Samkvæmt þessu hafi skylda stefnda til greiðslu þeirra yfirvinnustunda sem mál þetta tekur til fallið niður frá og með 1. ágúst 2001. Verði hins vegar talið að greiðslur samkvæmt samningnum frá 12. september 1980 hafi ekki fallið undir yfirlýsinguna er á því byggt af hálfu stefnda að gerð umrædds kjarasamnings hafi falið í sér uppsögn á ráðningarbundnum kjörum gagnvart einstökum félagsmönnum Kennarasambands Íslands og sá tími sem leið frá undirritun, kynningu og atkvæðagreiðslu um kjarasamninginn hafi verið nægur og í reynd uppsagnarfrestur eða ígildi uppsagnarfrests að því er viðbótarráðningarkjör varðar. Kjarasamningurinn hafi verið undirritaður þann 9. janúar 2001, kynntur þá þegar og atkvæði um hann greidd. Stefndi hafi innt greiðslur af hendi til stefnanda á grundvelli samningsins frá 12. september 1980 fram til 1. ágúst 2001. Sá tími sem þannig hafi liðið frá undirritun kjarasamnings og þar til hætt hafi verið að standa stefnanda skil á umræddum greiðslum sé mun lengri en sá uppsagnarfrestur sem hún njóti.

Af hálfu stefnda eru sýknukrafa ennfremur á því reist að kjarasamningur launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands hafi verið gerður af hálfu stéttarfélags í umboði stefnanda og skuldbindi hana samkvæmt því. Geti stefnandi ekki haldið uppi kröfu á hendur stefnda vegna þessa. Félagsmönnum Kennarasambands Íslands, þar á meðal stefnanda, hafi verið kynnt efnisinnihald samnings rækilega og þeir tekið afstöðu til hans. Atkvæðagreiðsla um samþykkt kjarasamnings hafi verið skuldbindandi fyrir alla félagsmenn. Kennarasamband Íslands grundvalli samningsumboð sitt á ákvæðum laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Stéttarfélag stefnanda hafi starfa af því að semja um kaup og kjör félagsmanna og koma fram fyrir þeirra hönd við gerð kjarasamninga. Áréttar stefndi að við gerð kjarasamnings á árinu 2001 hafi samningsaðilar ákveðið að ráðast í að bæta skólastarf með kerfisbreytingu sem taka skyldi gildi þann 1. ágúst 2001 og væri ætlað að skapa svigrúm til kjarabreytinga. Breytingar þær sem gerðar hafi verið á gildandi kjarasamningi svo og á ráðningarbundnum kjörum kennara hafi fyrst og fremst falist í tilfærslu greiðslna innan launategunda kjarasamnings. Er því alfarið mótmælt sem látið sé liggja að í stefnu að kjarasamningur hafi breytt launakjörum stefnanda til lækkunar. Í því sambandi bendir stefndi á að með grein 15.1 í kjarasamningi hafi verið tryggt að enginn starfsmaður sem verið hafi í starfi við undirritun kjarasamnings og hafi gegnt sama starfi 1. ágúst 2001 myndi lækka í mánaðarlaunum. Föst mánaðarlaun stefnanda hafi þvert á móti hækkað verulega við þá kerfisbreytingu sem kjarasamningur fól í sér, það er úr 164.100 krónum í 199.131 krónu. Þessi hækkun á föstum mánaðarlaunum sé verulega meiri en mánaðarlegar greiðslur samkvæmt samningi um viðbótarráðningarkjör frá 12. september 1980. Staðfesti þessi staðreynd þá staðhæfingu stefnda að einungis hafi verið um að ræða tilfærslu launa milli launategunda innan kjarasamnings, en ekki afnám og/eða niðurfellingu greiðslna án þess að nokkuð hafi komið þar í staðinn. Byggir stefndi á því að framangreind ráðstöfun hafi verið stefnanda hagstæð í alla staði og ekki rýrt kjör hennar á nokkurn hátt. Hafi stéttarfélagi hennar því verið heimilt að semja á þennan veg fyrir hönd félagsmanna sinna.

Stefndi tiltekur að auki til stuðnings sýknukröfu sinni að öll þau verkefni sem tilgreind eru í samningnum frá 12. október 1980 falli nú undir vinnuskyldu kennara svo sem henni sé lýst í grein 2.1.6.2 í hinum nýja kjarasamningi. Í þeim launum sem stefnandi þiggi nú sé þannig innifalin greiðsla fyrir þau verkefni sem hér um ræðir. Þá hafi samstarfsnefnd launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands tekið afstöðu til þess álitaefnis sem uppi sé í málinu. Loks beri að hafa í huga að samkvæmt ákvæðum kjarasamnings þurfi kennari í fullu starfi að vinna 1800 dagvinnustundir og komi greiðsla yfirvinnustunda ekki til álita fyrr en þeim fjölda dagvinnustunda hafi verið skilað. Verður af málatilbúnaði stefnda ráðið að vegna þessa ákvæðis geti stefnandi, sem gegnir hálfu starfi, ekki átt rétt til yfirvinnugreiðslna.

Þá teflir stefndi að síðustu fram þeirri málsástæðu fyrir sýknukröfu sinni að um aðildarskort sé að ræða, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Dómkrafa stefnanda feli í reynd í sér kröfu um greiðslu vegna missis tiltekinna launagreiðslna sem eigi rót sína til kjarasamnings sem Kennarasamband Íslands hafi gert í umboði stefnanda. Ætla megi af þessu að í dómkröfu stefnanda felist krafa um greiðslu skaðabóta, enda sé ótvírætt að kjarasamningur girði fyrir að stefnandi fái notið sérstakra greiðslna samkvæmt samkomulagi myndmenntakennara frá 12. september 1980. Verði stefnandi samkvæmt því að beina kröfum sínum að stéttarfélagi sínu.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu er varakrafa hans á því byggð að samkvæmt yfirlýsingu í kjarasamningi um niðurfall viðbótarráðningarkjara í kjarasamningi hafi það verið forsenda kjarasamnings að samningar um viðbótarráðningarkjör féllu niður. Samkvæmt því hafi stefndi efnt sinn hluta kjarasamnings og stefnandi notið hærri launagreiðslna í hverjum mánuði er nemi annars vegar mismun á launum fyrir og eftir kerfisbreytingu og hins vegar þeim launum sem stefnandi geri kröfu til í málinu að henni verði dæmd. Föst mánaðarlaun stefnanda hafi hækkað um 35.031 krónu í kjölfar kjarasamnings, en vangreidd laun til stefnanda á grundvelli samningsins frá 1980 nemi samkvæmt kröfugerð hennar 9.305 krónum á mánuði. Hafi stefnandi samkvæmt þessu að minnsta kosti notið þeirra launa sem henni bar að virtum forsendum kjarasamnings og þeim skilyrðum sem báðir samningsaðilar hafi þar orðið ásáttir um. Í ljósi þessa beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda, eftir atvikum á grundvelli skuldajafnaðar. Stefnanda hafi borið að virða fyrrgreindar forsendur kjarasamnings fyrir sitt leyti, en að öðrum kosti félli niður réttur hennar til launahækkana samkvæmt kjarasamningi. Með vísan til framanritaðs telur stefndi sig eiga gagnkröfu á hendur stefnanda og krefst þess að hún komi til skuldajafnaðar að svo miklu leyti sem dómkrafa stefnanda verði tekin til greina. Er fjárhæð gagnkröfunnar fundin með því að reikna saman föst mánaðarlaun stefnanda á tímabilinu 1. ágúst 2001 til 1. mars 2002 og draga frá þeirri fjárhæð samtölu þeirra föstu mánaðarlauna sem stefnandi hefði að mati stefnda fengið greidd ef nýr kjarasamningur hefði ekki komið til. Nemur gagnkrafan miðað við þetta og tölulegar forsendur í greinargerð 257.165 krónum.

Um lagarök fyrir kröfum sínum vísar stefndi aðallega til meginreglna íslensks vinnuréttar, ákvæða laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og ákvæða laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla.

IV.

                Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni þau Birgir Björn Sigurjónsson, sem var formaður samninganefndar launanefndar sveitarfélaga þá er núgildandi kjarasamningur launanefndarinnar og Kennarasambands Íslands fyrir grunnskóla var gerður, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, en hún var formaður Félags grunnskólakennara á sama tíma, og Eiríkur Jónsson formaður Kennarasambands Íslands.

                Vitnin voru öll innt eftir því hvaða skilning þau legðu í þá yfirlýsingu sem ágreiningur er um í málinu. Í vitnisburði Eiríks Jónssonar kom fram að yfirlýsingunni hafi í hans huga verið stefnt gegn samningnum um viðbótarkjör sem gerðir hefðu verið í kjölfar kjarasamnings frá 1997. Annað hafi aldrei komið til umræðu. Þá hafi það ekki verið hugsunin að samningar þessir féllu sjálfkrafa niður 1. ágúst 2001 á grundvelli yfirlýsingarinnar, enda hafi Kennarasamband Íslands ekkert umboð til að semja á þann veg fyrir hönd félagsmanna sinna. Þannig hafi hvert og eitt sveitarfélag þurft að segja þessum samningum upp með lögbundnum uppsagnarfresti ef það kysi að vera óbundið af þeim. Í yfirlýsingunni hafi hins vegar falist að af hálfu Kennarasambands Íslands yrði ekki litið á þessar uppsagnir sem brot á nýgerðum kjarasamningi eða að sambandið liti svo á að uppsagnirnar leiddu til þess að forsendur kjarasamnings væru brostnar. Við kjarasamningsgerðina hafi verið kunnugt um 32 samninga af því tagi sem hér um ræðir, en ekki hafi verið litið á það yfirlit sem tæmandi. Eldri samningar hafi aldrei komið til umræðu. Vitnisburður Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur um þau atriði sem hér skipta máli var mjög á sama veg. Yfirlýsingunni hafi verið ætlað að taka til samninga eða einhliða ákvarðana sveitarfélaga um viðbótarkjör til handa kennurum í kjölfar kjarasamnings árið 1997. Margoft hafi verið rætt um það við samningaborðið af hálfu samninganefndar Kennarasambands Íslands að nefndin hefði ekkert umboð til að afnema persónubundin ráðningarkjör. Uppsagnir af hálfu sveitarfélaga hefðu því þurft að koma til ef afnema ætti þau viðbótarkjör sem hér um ræðir og í yfirlýsingunni hafi falist að af hálfu Kennarasambands Íslands yrði ekki aðhafst ef til þess kæmi. Í vitnisburði sínum lýsti Birgir Björn Sigurjónsson tilurð yfirlýsingarinnar og efnislegu inntaki hennar með svofelldum hætti: „Þessi yfirlýsing kom til út af því að í skólanum viðgengust ýmsar yfirvinnugreiðslur og reyndar ýmsar viðbótargreiðslur getum við kallað umfram efni kjarasamningsins og hafði gert það um nokkra hríð. Við töldum að við værum með kjarasamningi þessum að takast á við öll þau atriði sem þarna var við að etja og það var samkomulag okkar á milli um það að allar þær viðbótargreiðslur sem að gerðar væru á grundvelli launategunda kjarasamningsins féllu niður.“ Með launategund kjarasamnings sé átt við launaflokka eins og þeir eru skilgreindir í 1. kafla kjarasamnings, tímakaup í dagvinnu, tímakaup í yfirvinnu, álagsgreiðslur og almennu uppbótina. Aðspurt hafnaði vitnið þeim skilningi að yfirlýsingunni hafi eingöngu verið ætlað að taka til viðbótarkjara sem hefðu komið til í kjölfar kjarasamnings árið 1997. Þá minntist vitnið þess að af hálfu samninganefndar Kennarasambands Íslands hafi verið vangaveltur um það hvort sambandið hefði umboð til að semja um afnám persónubundinna ráðningarréttinda og haft hefði verið samband við lögmenn sambandsins til að kanna réttarstöðuna að þessu leyti. Enginn fyrirvari hafi verið gerður við efni yfirlýsingarinnar eins og hún hafi að endingu hljóðað.

V.

                Af því sem fram er komið er ljóst að á tímabilinu 1. ágúst 1997 til 31. desember 2000 fór um laun stefnanda, sem sinnir myndmenntakennslu í hálfu starfi við Lækjarskóla í Hafnarfirði, eftir kjarasamningi sem launanefnd sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands munu hafa gert sín á milli 27. október 1997. Á þessu sama tímabili þáði stefnandi að auki laun í formi yfirborgunar á grundvelli samnings sem hún undirritaði fyrir hönd myndmenntakennara í grunnskólum Hafnarfjarðar 12. september 1980, en hann er orðrétt tekinn upp í kafla I hér að framan. Með kjarasamningi 9. janúar 2001 var eldri kjarasamningur framlengdur með tilteknum breytingum til og með 31. júlí 2001. Á þessu framlengingartímabili naut stefnandi áfram launa samkvæmt samningnum frá 1980. Nýr kjarasamningur öðlaðist síðan að fullu gildi 1. ágúst 2001. Lýtur ágreiningur málsaðila aðallega að efni yfirlýsingar sem hann hefur að geyma og því álitaefni hvort hún taki til samningsins frá 1980.

                Þegar tekin skal afstaða til þess ágreinings sem hér er uppi er fyrst til þess að líta að með kjarasamningi eru lágmarkskjör launþega í viðkomandi starfsgrein ákveðin, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Með samningi um yfirborgun eða persónubundin viðbótarkjör er komið út fyrir svið kjarasamnings. Kennarasamband Íslands og Félag grunnskólakennara höfðu ekki umboð til að semja um afnám slíkra ráðningarkjara þá er kjarasamningurinn frá 9. janúar 2001 var undirritaður. Þegar þetta er virt eru engin efni til að leggja annan skilning í efni umræddrar yfirlýsingar en þann sem vitnisburður þeirra Eiríks Jónssonar og Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur við aðalmeðferð málsins felur í sér, enda fer hann ekki í bága við orðalag yfirlýsingarinnar. Samkvæmt því er litið svo á að með yfirlýsingunni hafi Kennarasamband Íslands skuldbundið sig til þess eins að aðhafast ekki þótt samningum um persónubundin viðbótarkjör, sem gerðir höfðu verið á grundvelli launategunda kjarasamnings, yrði sagt upp frá og með 1. ágúst 2001. Af þessu og framangreindu leiðir að með yfirlýsingunni var ekki létt af sveitarfélögum þeirri kvöð að þurfa að segja þessum samningum upp með lögformlegum hætti að því marki sem samningsákvæði leiddu ekki sjálfkrafa til þess að þeir féllu úr gildi. Getur engu breytt í þessu sambandi þótt hinn nýi kjarasamningur hafi falið í sér mikla kerfisbreytingu til hagsbóta fyrir kennara og leitt til umtalsverðrar launahækkunar þeim til handa.

Stéttarfélag átti ekki aðild að þeim samningi um viðbótarkjör sem hér er til umfjöllunar. Er fallist á það með stefnanda að um persónubundinn samning sé að ræða enda þótt hún hafi undirritað hann fyrir hönd tiltekins hóps kennara við grunnskóla Hafnarfjarðar. Samkvæmt þessu og með vísan til þess sem rakið er hér að framan er það niðurstaða dómsins að stefnda hafi borið að segja samningnum upp með lögformlegum hætti kysi hann að vera laus undan þeim skuldbindingum sínum sem þar er kveðið á um. Það hefur hann ekki gert með þeim hætti að þýðingu hafi fyrir rétt stefnanda til launa samkvæmt samningnum fyrir það tímabil sem mál þetta tekur til. Skal sérstaklega tekið fram að engu skiptir fyrir úrlausn málsins þótt verkefni þau sem tilgreind eru í samningum frá 12. september 1980 falli nú flest undir vinnuskyldu kennara svo sem henni er lýst í grein 2.1.6.2 í gildandi kjarasamningi.

Stefnandi á rétt til launa samkvæmt gildandi kjarasamningi, sem eins og áður greinir kveður á um lágmarkskjör. Með því að samningur hennar um viðbótarkjör var í fullu gildi á því tímabili sem dómkrafa hennar í málinu tekur til á hún að auki rétt til þeirra greiðslna sem hann mælir fyrir um. Er í ljósi þessa með öllu haldlaus sú málsástæða stefnda að hann hafi þegar staðið stefnanda skil á greiðslum samkvæmt samningnum. Þá er á sama grunni alfarið hafnað þeim málatilbúnaði stefnda að hann eigi gagnkröfu á hendur stefnanda eða að fyrir hendi séu atvik sem leitt geti til þess að hún þurfi að sæta lækkun á kröfu sinni. Þá er ennfremur haldlaus sú málsástæða að um aðildarskort sé að ræða, enda er stefndi með réttu sóttur til greiðslu launa sem stefnandi á samkvæmt framansögðu samningsbundinn rétt til.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er öllum dómkröfum stefnda hafnað og dómkrafa stefnanda að fullu tekin til greina, enda hafa andmæli stefnda í engu beinst að tölulegum grundvelli kröfugerðar stefnanda. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 63.427 krónur ásamt dráttarvöxtum svo sem í dómsorði greinir.

                Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari dæmir mál þetta.

 

D ó m s o r ð :

 

                Stefndi, Hafnarfjarðarbær, greiði stefnanda, Katrínu Pálsdóttur, 63.427 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 9.305 krónum frá 1. september 2001 til 1. október sama árs, af 18.610 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama árs, af 27.915 krónum frá þeim degi til 1. desember sama árs, af 37.220 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2002, af 46.525 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama árs, en af 63.427 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.