Hæstiréttur íslands
Mál nr. 517/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Opinber skipti
|
|
Föstudaginn 23. september 2011. |
|
Nr. 517/2011. |
A (Gunnar Sólnes hrl.) gegn B (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um að dánarbú C yrði tekið til opinberra skipta. Í málinu hélt A því fram að skipti á dánarbúinu hefðu aldrei farið fram. Þá vefengdi A að E hefði fengið móðurarf sinn. Taldi héraðsdómur nægjanlega sannað að skipti hefðu farið fram á búinu og breytti þá engu þótt ekki hefðu fundist öll þau gögn sem snertu búskiptin. Krafa A var því ekki tekin til greina og engu breytti í þessu tilliti hvernig staðið hefði verið að uppgjöri gagnvart E löngu eftir skiptin. Staðfesti Hæstiréttur hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. september 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 9. september 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dánarbú C, sem andaðist [...] 1930, yrði tekið til opinberra skipta. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreint dánarbú verði tekið til opinberra skipta. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Hinn kærði úrskurður verður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, B, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 9. september 2011.
Mál þetta var þingfest 15. febrúar 2011 og tekið til úrskurðar 30. ágúst sama ár. Sóknaraðili er A, [...] í [...], en varnaraðili er B, [...] á [...].
Sóknaraðili krefst þess að dánarbú C, sem fæddist [...] 1888 en andaðist [...] 1930, síðast til heimilis að [...] í Borgarbyggð (þá Stafholtstungnahreppi), verði tekið til opinberra skipta. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að honum verði gert að greiða málskostnað með álagi.
I
Hinn [...] 1928 gengu í hjúskap C og D. Fyrir átti C dótturina E, móður málsaðila, en hún fæddist [...] 1924. Faðir E var A, [...] á [...]. Í hjúskap sínum eignuðust C og D tvo drengi en þeir létust báðir barnungir. Hjónin bjuggu í [...], en D var þinglýstur eigandi jarðarinnar frá árinu 1924. C andaðist [...] 1930, svo sem áður er komið fram.
Eftir andlát móður sinnar dvaldi E áfram hjá stjúpföður sínum í [...] og ólst þar upp. Hinn [...] 1932 gekk D að eiga G, en þau eignuðust dótturina H. G lést [...] 1941 en D andaðist [...] 1973. Dóttir þeirra H erfði [...] eftir föður sinn, en hún er þinglýstur eigandi jarðarinnar.
II
Í kjölfar þess að D gekk að eiga síðari eiginkonu sína var tekin saman erfðafjárskýrsla 30. desember 1933, sem hafði að geyma yfirlit yfir eignir dánarbús C. Samkvæmt skýrslunni voru eignir búsins jörðin [...] að matsverði 10.000 krónur, búfé að verðmæti 6.770 krónur og aðrar eignir að fjárhæð 855 krónur eða samtal 17.625 krónur. Frá þessu voru dregnar skuldir að fjárhæð 12.500 krónur og því nam hrein eign 5.125 krónum. Að teknu tilliti til búshelmings D komu til skipta 2.562,50 krónur. Skýrslan er undirrituð af D og I fyrir hönd E. Hinn 30. desember 1934 var tekin saman erfðafjárskýrsla um erfðafjárskatt sem greiða bar af arfi eftir hina látnu. Samkvæmt skýrslunni nam arfur D 640,63 krónum og þar af skattur að fjárhæð 8,08 krónur. Arfur E nam 1.921,87 krónum og þar af skattur 26,33 krónur. Tekið er fram í prentuðum texta skýrslunnar að skattur hafi verið sendur reglulegum skiptaráðanda og þar er ritað ógreinilega að því er virðist með blýanti að 34,41 króna hafi verið móttekin. Skýrslan er undirrituð að D og fyrrgreindum I, fyrir hönd E.
Hinn 18. janúar 1934 gaf D út skuldabréf til E. Bréfið er svohljóðandi:
„Jeg D í [...], viðurkjenni hjer með að vera orðinn skuldugur E stjúpdóttur minni kr. 1921,87 -eittþúsund níuhundruð tuttugu og eina kr. 87/100, sem er móðurarfur hennar. Af upphæð þessari greiði ég enga vexti til 18 ára aldurs hennar, en skuldbind mig hinsvegar til þess að annast uppeldi hennar til sama tíma. Til tryggingar fyrir skuld þessari svo og uppeldi skuldareigandans, veðset ég henni allar eigur mínar fastar og lausar, á eftir þeim veðböndum sem nú hvíla á þeim, þó er mér heimilt að veðsetja Kreppulánasjóði Íslands jörð mína [...], eins og til vinnst.
Skuldabréfi þessu má þinglýsa á minn kostnað.“
Skuldabréf þetta var móttekið 3. október 1934 til innfærslu í veðmálabækur Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og þinglesturs á næsta manntalsþingi Stafholtstungnahrepps.
Hinn 8. nóvember 1944 undirritaði I, sem tilgreindur var fjárráðamaður E, svohljóðandi yfirlýsingu:
„D í [...] hefur að fullu greitt móðurarf E að upphæð 1.925,00 -eittþúsund níuhundruð tuttugu og fimm, er því þar með veðbönd á eignum hans vegna þessarar skuldar brott fallin.“
Í kjölfar yfirlýsingarinnar var skuldabréfið móttekið 22. nóvember 1944 til aflýsingar á næsta manntalsþingi Stafholtstungnahrepps.
III
Hinn [...] 2006 andaðist E, en erfingjar hennar voru málsaðilar og systir þeirra J.
Með bréfi 19. janúar 2011 krafðist sóknaraðili þess að dánarbú ömmu sinnar, C, yrði tekið til opinberra skipta. Við fyrirtöku málsins 15. febrúar sama ár andmælti varnaraðili kröfunni og var mál þetta því þingfest til að leysa úr þeim ágreiningi, sbr. 1. mgr. 120. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991. Af hálfu J, systur málsaðila, var því lýst yfir að hún andmælti ekki kröfu um opinber skipti á búinu en ætlaði ekki að eiga aðild að ágreiningsmálinu.
IV
Sóknaraðili heldur því fram að skipti á dánarbúi C hafi aldrei farið fram þótt skiptaráðanda hafi borið skylda til að taka búið til skipta samkvæmt a-lið 5. gr. þágildandi laga um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl., nr. 3/1878, þar sem E hafi ekki verið komin til lögaldurs.
Sóknaraðili bendir á að hvorki liggi fyrir í málinu gögn um töku dánarbúsins til skipta né um skipun lögráðamanns fyrir E. Er vefengt af hálfu sóknaraðila að I hafi fengið formlega skipun til að gegna þeim starfa, auk þess sem bent var á til upplýsingar við flutning málsins að I hafi verið móðurbróðir D í [...], ekkils C, og jafnframt [...] þáverandi [...] í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, K.
Sóknaraðili telur að ekki hafi verið leitt í ljós með erfðafjárskýrslum eða skuldabréfi útgefnu af D til E að skiptum búsins hafi verið lokið. Er jafnframt vefengt að E hafi fengið móðurarf sinn með nokkru móti. Telur sóknaraðili að sú ráðstöfun sem fólst í útgáfu skuldabréfsins hafi verið alls ófullnægjandi og bendir í því sambandi á að ekki hafi verið gert ráð fyrir að D bæri að greiða vexti af höfuðstól bréfsins vegna framfærslu barnsins. Telur sóknaraðili að þetta hafi hróplega farið í bága við lögboðna framfærsluskyldu sem hvíldi á D gagnvart stjúpdóttur sinni.
Til stuðnings kröfu sinni vísar sóknaraðili til 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991.
V
Varnaraðili heldur því fram að skiptum á dánarbúi C hafi verið lokið í kjölfar andláts hennar. Til stuðnings þessu vísar varnaraðili til erfðafjárskýrslu vegna skiptanna og skuldabréfs D vegna greiðslu arfs til dóttur hinnar látnu, E, auk kvittunar fyrir greiðslu bréfsins. Í þessu sambandi telur varnaraðili engu breyta þótt ekki hafi fundist öll gögn sem snerta skiptin og bendir á að íbúðarhúsið að [...] hafi brunnið árið 1949, en þar hafi búið I, hreppstjóri og fjárhaldsmaður E. Þá kunni gögn einnig að hafa glatast við bruna íbúðarhússins í [...] á fjórða áratug liðinnar aldar. Samkvæmt þessu telur varnaraðili með öllu haldlausa þá málsástæðu varnaraðila að búinu hafi aldrei verið skipt.
Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðili sé ekki erfingi hinnar látnu og því geti hann ekki átt aðild að málinu. Að réttu lagi þurfi því dánarbú dóttur hennar að setja fram slíka kröfu.
Varnaraðili tekur fram að jörðin [...] hafi aldrei getað verið meðal eigna dánarbúsins. Ef búinu hefði aldrei verið skipt yrði einfaldlega að finna út hvaða eignir hefðu verið í búinu við andlát C og hvert hefði verið verðmæti þeirra á dánardegi hennar. Tekur varnaraðili fram að jörðin hafi verið þinglýst eign D og síðan dóttur hans í um bráðum 90 ár.
Til stuðnings kröfu um álag á málskostnað vísar varnaraðili til 2. mgr., sbr. a-lið 1. mgr. 131. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Telur varnaraðili kröfu sóknaraðila algerlega haldlausa og málatilbúnaðinn tilefnislausan að öllu leyti. Bendir varnaraðili á að ekki hefði þurft annað en að kanna þinglýstar heimildir um jörðina [...] til að fá upplýsingar um skiptin. Á hinn bóginn hafi verið mikil fyrirhöfn fyrir varnaraðila að afla og kanna gögn á Þjóðskjalasafni, Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar og víðar.
VI
Hinn [...] 1930 andaðist C. Erfingjar hennar voru eftirlifandi maki, D, bóndi í [...], og dóttir hennar, E, móðir málsaðila.
Eftir andlát E [...] 2006 gátu erfingjar hennar sett fram kröfu um skipti á dánarbúi ömmu sinnar ef búinu var óskipt. Verður ekki fallist á það með varnaraðila að nauðsynlegt hafi verið að endurupptaka skipti á dánarbúi E eingöngu í því skyni að setja fram kröfu um opinber skipti á búi móður hennar eða að gera hafi átt kröfuna fyrir hönd dánarbús E. Á síðari stigum gæti hins vegar þurft að endurupptaka skipti á dánarbúi E ef eignir kæmu til skipta.
Þegar C andaðist var dóttir hennar ólögráða barn og því bar skiptaráðanda að taka dánarbúið til skipta samkvæmt a-lið 1. mgr. 5. gr. þágildandi skiptalaga nr. 3/1878. Jafnframt bar skiptaráðanda að skipa E fjárhaldsmann, ef það hafði ekki þegar verið gert, sbr. 14. gr. laganna. Eftir að búið hafði verið skrifað upp og virt var skiptaráðanda heimilt að framselja búið til einkaskipta að fullnægðum þeim skilyrðum sem komu fram í 74. gr. laganna.
Varnaraðili hefur aflað frá Þjóðskjalasafni erfðafjárskýrslu 30. desember 1933, sem hefur að geyma yfirlit yfir eignir búsins og virðingu þeirra, og erfðafjárskýrslu 30. desember 1934 um erfðafjárskatt sem greiða bar af arfi til erfingja hinnar látnu. Á því árabili sem erfðafjárskýrslur voru teknar saman eða 18. janúar 1934 gaf D út skuldabréf til E fyrir móðurarfi hennar og svarar fjárhæð þess til eigna búsins og fjárhæðar arfs samkvæmt fyrrgreindum erfðafjárskýrslum. Til tryggingar var sagt í bréfinu að D veðsetti allar eignir sínar og var bréfinu þinglýst á jörðina [...]. Þá verða ekki bornar brigður á að sá sem undirritar skjöl fyrir hönd E hafi verið skipaður fjárhalsmaður hennar vegna skiptanna en þessum skjölum var framvísað gagnvart sýslumanni. Að öllu þessu gættu þykir nægjanlega sannað að skipti hafi farið fram á búinu og breytir þá engu þótt ekki hafi fundist öll þau gögn sem snerta búskiptin. Samkvæmt þessu verður ekki tekin til greina krafa sóknaraðila um að dánarbú C verði tekið til opinberra skipta. Er þess þá jafnframt gætt að engu breytir í þessu tilliti hvernig staðið var að uppgjöri gagnvart E löngu eftir að skiptin fóru fram.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir. Að því gættu að sóknaraðili fékk þær upplýsingar frá sýslumanninum í Borgarnesi með bréfi 12. ágúst 2010 að engin gögn fyndust um dánarbúið eru ekki efni til að taka til greina kröfu varnaraðila um að sóknaraðila verði gert að greiða álag á málskostnað samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Þeirri kröfu verður því hafnað.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð R O R Ð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, um að dánarbú C, sem andaðist [...] 1930 og var síðast til heimilis að [...] í Borgarbyggð, verði tekið til opinberra skipta.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, B, 300.000 krónur í málskostnað.