Hæstiréttur íslands
Mál nr. 267/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
|
|
Þriðjudaginn 7. september 2004. |
|
Nr. 267/2004. |
A og B(Atli Gíslason hrl.) gegn C(Jónas A. Aðalsteinsson hrl.) |
Kærumál. Dánarbússkipti.
A og B kröfðust þess að dánarbú móður þeirra yrði tekið til opinberra skipta. Hélt C því fram að skipti hefðu farið fram og þær A og B fengið greiddan sinn arfshluta fyrir stofnun hjúskapar hennar og föður þeirra í samræmi við lagafyrirmæli þar um. Í Hæstarétti var með vísan til gagna sem lágu fyrir í málinu lagt til grundvallar að C hefði ekki tekist að sýna fram á að A og B hefðu fengið greiddan lögmæltan erfðahlut eftir móður þeirra. Var krafan því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júní 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dánarbú X yrði tekið til opinberra skipta. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og dánarbú X tekið til opinberra skipta. Þær krefjast jafnframt kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I.
Móðir sóknaraðila, X, lést [...] febrúar 1959. Sóknaraðilar voru þá fimm og sex ára gamlar. Foreldrar þeirra voru í hjúskap, en faðir sóknaraðila, Y, leitaði ekki eftir leyfi til að sitja í óskiptu búi. Með bréfi 11. desember 1961 til borgarfógetaembættisins í Reykjavík fór hann þess hins vegar á leit að mega skipta dánarbúi eiginkonu sinnar einkaskiptum í samráði við Z, föður hinnar látnu og afa dætranna. Meðal málsgagna er einnig endurrit frá þinghaldi í skiptarétti Reykjavíkur 12. janúar 1962. Var þar meðal annars bókað að Y og Z hafi komið fyrir réttinn. Hafi þeir óskað eftir að sá síðarnefndi yrði skipaður réttargæslumaður hinna ófjárráða erfingja við skiptin og að mættu yrði afhent dánarbúið til einkaskipta. Var jafnframt fært til bókar samþykki skiptaráðanda við þessari ósk og að Y ábyrgðist skuldir búsins og greiðslu erfðafjárskatts. Var bókunin undirrituð af báðum mættu.
Y og varnaraðili gengu í hjúskap [...] mars 1962. Y lést [...] apríl 2003 og reis síðar ágreiningur með málsaðilum vegna kröfu sóknaraðila um greiðslu arfs eftir móður þeirra. Er krafan reist á því að skiptum hafi ekki verið lokið áður en faðir þeirra og varnaraðili stofnuðu til hjúskapar síns og hafi sóknaraðilar hvorki þá né síðar fengið greiddan arf eftir móður sína. Varnaraðili mótmælti þegar kröfunni og eru mótmælin einkum byggð á því að skipti hafi farið fram og sóknaraðilar fengið greiddan sinn arfshluta fyrir stofnun hjúskaparins [...] mars 1962 í samræmi við lagafyrirmæli þar um. Málavöxtum og málsástæðum aðilanna er nánar lýst í hinum kærða úrskurði.
II.
Í áðurnefndu endurriti frá þinghaldi í skiptarétti 12. janúar 1962 kemur fram að ekki hafi verið bent á aðrar eignir í dánarbúinu en húseignina [...] með leigulóðarréttindum að verðmæti 138.000 krónur samkvæmt fasteignamati. Skuld sé við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins að fjárhæð 101.194,20 krónur, en ekki aðrar skuldir. Af hálfu sóknaraðila hefur fyrir Hæstarétti verið bent sérstaklega á að ekki sé unnt að draga þá ályktun af þessu að lítil verðmæti hafi verið í búinu og af þeim sökum eðlilegt að greiðslu arfshluta til þeirra sjái ekki stað í skattframtölum föður þeirra frá þessum tíma. Markaðsverð eignarinnar en ekki fasteignamat hefði verið lagt til grundvallar við skipti, ef fram hefðu farið. Á þessum tíma hafi fasteignamat einstakra eigna numið sömu fjárhæð árum saman en ekki breyst reglulega eins og síðar varð. Þannig hafi fasteignamat nefndrar húseignar samkvæmt skattframtölum verið óbreytt á tímabilinu 1957 til 1961 eða 138.000 krónur, sem ekki hafi verið í neinu samræmi við markaðsverð hennar. Þessu til stuðnings hafa sóknaraðilar lagt fyrir Hæstarétt auglýsingar úr Morgunblaðinu frá þessum tíma, þar sem fjölmargar íbúðir voru auglýstar til sölu. Af samanburði á verði margra íbúða og að teknu tilliti til ólíkrar gerðar þeirra megi ráða að markaðsverð [...] hafi numið að minnsta kosti tíföldu fasteignamatsverði eignarinnar árið 1962. Að því virtu standist ekki sú niðurstaða héraðsdómara að verðmæti fasteignarinnar hafi verið hið sama og fasteignamat hennar og veðbönd þannig á eigninni fyrir stórum hluta andvirðis hennar. Þegar virt sé hve stórir erfðahlutar sóknaraðila hefðu orðið af eignarhlut móður þeirra í húseigninni samkvæmt þágildandi erfðalögum nr. 42/1949 sé alveg ljóst að skattframtöl föður þeirra hefðu borið skýrt með sér ef skipti hefðu farið fram á dánarbúi fyrri eiginkonu hans. Með sama hætti hefði verulegur arfshluti sóknaraðila komið fram á skattframtölum þeirra sjálfra gjaldárin 1970 og 1971 eftir að þær urðu sjálfstæðir skattaðilar. Enga vísbendingu sé hins vegar að finna í framtölunum um að slík greiðsla hafi verið innt af hendi, sem með öðru renni stoðum undir að skipti hafi ekki farið fram.
III.
Málsaðilar hafa leitað eftir því við opinberar stofnanir að kannað yrði í skjalasöfnum þeirra hvort þar væri að finna gögn, sem ráða mætti af hvort skipti á dánarbúi X hafi farið fram á áðurnefndu tímabili, svo sem varnaraðili ber fyrir sig. Hafa aðilarnir í því skyni leitað til Þjóðskjalasafns Íslands, embættis sýslumannsins í Reykjavík og dómsmálaráðuneytis. Er í hinum kærða úrskurði gerð grein fyrir hvað fram er komið við þá leit. Meðal málsgagna er tölvubréf sýslumanns 20. október 2003 þar sem fram kemur að farið hafi verið yfir bréfabækur borgarfógetaembættisins í Reykjavík, sem geymdar eru á þjóðskjalasafni, fyrir tímabilið 10. febrúar 1959 til maí 1962. Ekkert bréf hafi verið þar að finna, sem snerti þetta mál, en áður hafi verið gengið úr skugga um að engin erfðafjárskýrsla finnist vegna búsins frá þessu tímabili. Athugun var engu að síður haldið áfram eftir þetta, sem leiddi til þess að áðurnefnt endurrit þinghalds í skiptarétti 12. janúar 1962 kom í leitirnar. Þá er meðal málsgagna ljósrit einnar blaðsíðu úr „Ministerialbók (prestsþjónustubók)“ Fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík með stimpli þjóðskjalasafns, sem hefur að geyma upplýsingar um hjónavígslur. Þar kemur fram að Y og varnaraðili voru gefin saman í hjónaband [...] mars 1962. Í reit fyrir athugasemdir er skráð: „Lbr. 1.3.62 Bú uppgert“. Óumdeilt er að skammstöfunin merki að leyfisbréf dómsmálaráðuneytis sé dagsett 1. mars 1962, en leyfisbréfið sjálft eða ljósrit þess hefur ekki verið lagt fram. Þá hafa sóknaraðilar lagt fyrir Hæstarétt bréf þjóðskjalasafns 23. júní 2004, þar sem gerð er grein fyrir leit í skjölum þess. Könnuð hafi verið skjöl ríkisendurskoðunar, sem hafi verið tekjufylgiskjöl frá borgarfógetaembættinu í Reykjavík 1962. Þar á meðal hafi verið „Skýrsla um erfðafjárskatt greiddan árið 1962“, undirrituð af borgarfógeta 30. janúar 1963. Færsla um dánarbú X finnist þar ekki og meðal erfðafjárskýrslna, sem fylgdu skýrslu borgarfógeta, sé engin sem varði það. Bréf safnsins til varnaraðila 5. ágúst 2004 hefur einnig verið lagt fyrir Hæstarétt. Segir þar meðal annars að fundist hafi bók frá embætti yfirborgardómarans í Reykjavík, sem hafi að geyma skrá yfir útgefin leyfisbréf til hjónavígslu frá 18. júlí 1961 til 18. október 1962. Hafi embættið annast afgreiðslu leyfisbréfa í umboði dómsmálaráðuneytis. Í bókinni sé getið um leyfisbréf handa Y og varnaraðila 1. mars 1962. Í svonefndri færslubók dómsmálaráðuneytis hafi verið tilgreind annars konar leyfisbréf, svo sem aldursleyfi vegna hjúskapar. Loks er fram komið af hálfu málsaðila að kannað hafi verið án árangurs hvort í vörslum þeirra sjálfra kynnu að finnast gögn, sem máli skipta varðandi ágreiningsefni þeirra.
IV.
Fram er komið að leyfi var veitt 12. janúar 1962 til að skipta dánarbúi X einkaskiptum. Y gekk í hjúskap að nýju [...] mars sama árs og bar því að ljúka skiptunum fyrir þann dag, sbr. 18. gr. þágildandi laga nr. 39/1921 um stofnun og slit hjúskapar. Samkvæmt sömu lagagrein gat stjórnarráðið leyst undan þessu skilyrði stæði sérstaklega á. Sóknaraðilar halda fram að leggja verði til grundvallar að leyfisbréfið 1. mars 1962 hafi eingöngu verið til að leysa hjónaefnin undan því að lýst væri með þeim, sbr. III. kafla laganna, enda séu engar vísbendingar fram komnar um annað. Leyfisbréfið liggur ekki fyrir, en málatilbúnaður varnaraðila er fyrst og fremst reistur á því að skipti hafi farið fram fyrir [...] mars 1962. Kemur þá ekki sérstaklega til álita hvort leyfisbréfið hafi falið í sér undanþágu Y til handa frá því að ljúka skiptum fyrir stofnun nýs hjúskapar og ekki er heldur fram komið hverjar þær sérstöku ástæður hafi verið í þessu tilviki, sem hefðu getað réttlætt að slík undanþága yrði veitt.
Í prestsþjónustubók Fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík kemur fram áðurnefnd athugasemd um að bú sé uppgert. Engin skýring er fram komin um hvaða gögn kunni að hafa verið lögð fyrir vígslumann um það eða hvað lá annars að baki þessari athugasemd hans. Við könnun á gögnum borgarfógetembættisins í Reykjavík frá þessum tíma hefur ekki fundist erfðafjárskýrsla vegna skipta á dánarbúi X. Ekki er heldur fram komin nein haldbær skýring á því hvers vegna ekki var getið um slík skipti í áðurnefndri skýrslu embættisins „um erfðafjárskatt greiddan árið 1962“, ef þau hefðu í raun farið fram og erfðafjárskattur greiddur. Skattframtöl, sem getið er í II. kafla að framan, veita heldur ekki vísbendingu um að sóknaraðilum hafi verið greiddur arfur. Þegar allt framangreint er virt verður lagt til grundvallar að varnaraðila hafi ekki tekist að sýna fram á að sóknaraðilar hafi fengið greiddan lögmæltan erfðahlut eftir móður þeirra. Verður krafa sóknaraðila samkvæmt því tekin til greina, sbr. 1. mgr. 38. gr. og 147. gr. laga nr. 20/1991.
Sóknaraðilum var unnt að hafa uppi kröfu sína löngu áður en það var gert. Hefði með því mátt auðvelda gagnaleit, sem hlaut að verða því fyrirhafnarmeiri því lengra sem leið frá þeim atvikum, sem málið er sprottið af. Er að því virtu rétt að hver aðilanna beri sinn kostnað af kærumáli þessu, en ekki er krafist málskostnaðar í héraði.
Dómsorð:
Dánarbú X er tekið til opinberra skipta.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2004.
Með bréfi, dagsettu 31. mars 2004 og mótteknu í Héraðsdómi Reykjavíkur sama dag, gerðu tvær dætur X, sem fædd var [....] september 1922 en andaðist [...] febrúar 1959, kröfu um að dánarbú hennar yrði tekið til opinberra skipta. Þegar umrædd krafa var tekin fyrir 23. apríl 2004 var henni mótmælt af hálfu eftirlifandi eiginkonu Y, en X var fyrri kona hans. Sérstakt ágreiningsmál var þá þingfest vegna umrædds ágreinings. Málsaðilar skiluðu greinargerðum 4. maí 2004 og var málið tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 11. maí 2004.
Sóknaraðilar eru A og B.
Varnaraðili er C.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að dánarbú X, sem fædd var [...] september 1922 en lést [...] febrúar 1959, síðast til heimilis að [...], verði tekið til opinberra skipta. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar.
Dómkröfur varnaraðila eru þær að kröfum sóknaraðila um opinber skipti á dánarbúi X verði synjað en málskostnaður verði felldur niður.
Helstu málsatvik
Sóknaraðilar máls þessa eru dætur X, sem lést [...] febrúar 1959 og eiginmanns hennar, Y, sem lést [...] apríl 2003. Dánarbú Y hefur verið tekið til opinberra skipta og Steinunn Guðbjartsdóttir hdl. skiptastjóri þrotabúsins.
Y kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, varnaraðila þessa máls, [...] mars 1962. Þau eignuðust einn son, E, [...]. Hann er ekki aðili að ágreiningsmáli þessu en Lilja Jónasdóttir hrl. gætir hagsmuna hans við skipti á dánarbúi föður hans.
Þegar X andaðist höfðu þau Y reist sér hús að [...]. Ekki er vitað til þess að Y hafi óskað eftir setu í óskiptu búi með dætrum sínum. Þegar þau Y og varnaraðili höfðu afráðið að ganga í hjónaband sendi hann borgarfógetanum í Reykjavík bréf, dagsett 11. desember 1961, þar sem hann óskaði eftir leyfi til að mega skipta dánarbúi eiginkonu sinnar í samráði við Z, móðurafa sóknaraðila. Bókað var í skiptarétti 12. janúar 1962 að tekið væri fyrir að skrifa upp og virða eignir dánar og félagsbús Y og X. Y og Z faðir X heitinnar voru mættir í réttinum og er bókað að þeir hafi gert grein fyrir því að verðmæti eigna búsins næmi 138.000 krónum og skuldir pr. 1. janúar 1962 næmu 101.194,20 krónum.
Skiptaráðandi tók þegar afstöðu til framangreindrar beiðni og afhenti Y og sóknaraðilum búið til einkaskipta og skipaði jafnframt Z réttargæslumann hinna ófjárráða erfingja, við búskiptin með þeim réttindum og skyldum sem því fylgdu. Bókað var að Y lýsti því yfir að hann bæri ábyrgð á skuldum búsins og greiðslu erfðafjárskatts í ríkissjóð. Undirrituðu Y og Z bókunina.
Þau Y og varnaraðili gengu í hjúskap [...] mars 1992 og voru gefin saman af presti Fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík. Í framlögðu ljósriti úr hjónavígslubók er að finna staðfestingu á umræddri hjónavígslu og er þar skráð í sérstakan athugasemdadálk: „Lsb 1.3.62 Bú uppgert”. Þá hefur verið lagt fram í málinu ljósrit úr skjalasafni Hagstofu Íslands af hjónavígsluvottorði vegna umræddrar hjónavígslu og er á það ritað „Lsb 1.3.62”.
Önnur gögn hafa ekki verið lögð fram í málinu því til staðfestingar að skiptum á dánarbúi X hafi verið lokið.
Í málinu liggur fyrir tölvubréf frá embætti sýslumannsins í Reykjavík til lögmanns sóknaraðila, dagsett 20. október 2003, þar sem fram kemur að farið hafi verið yfir bréfabækur embættisins á Þjóðskjalasafni fyrir tímabilið 10. febrúar 1959 og fram í maí 1962 en þar hafi ekki verið að finna neitt bréf frá embættinu sem snerti mál þetta. Áður hafi verið gengið úr skugga um að engin erfðafjárskýrsla fyndist vegna búsins á þessu tímabili.
Umrædd bókun vegna fyrirtöku í skiptarétti Reykjavíkur vegna leyfis til einkaskipta fannst síðar á Þjóðskjalasafni Íslands og voru lögmenn málsaðila upplýstir um þann fund 26. nóvember 2003.
Aðilar deila um það hvort skiptum hafi verið lokið á dánarbúi X áður en eftirlifandi eiginmaður hennar gekk að nýju í hjónaband með varnaraðila 3. mars 1962 og hvort sóknaraðilar hafi fengið greiddan út móðurarf sinn.
Helstu málsástæður og lagarök aðila
Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að það sé viðurkennt í íslenskum rétti að andlát leiði til þess að erfingjar samkvæmt erfðalögum verði sameigendur að eignum dánarbúsins. Erfingjar hins látna gangi þannig inn í rétt arfleifanda að því er eignir búsins varðar.
Á því er byggt að sóknaraðilar hafi orðið sameigendur með föður sínum, Y, að eignum móður þeirra, X, við andlát hennar árið 1959. Þær hafi þannig öðlast eignarrétt að hluta eigna dánarbús hennar enda byggi erfðalög og lög um skipti á dánarbúum nr. 20/1991 á þessum sjónarmiðum. Vísað er til hrd. 1953, bls. 411 og hrd 1967, bls. 910 því til stuðnings að maki sem ekki hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi geti ekki ráðstafað eignum búsins. Einnig er á því byggt að eignaréttur tapist ekki vegna tómlætis og er um það vísað til hrd. 1993, bls. 2307. Sóknaraðilar telja sig ekki hafa tapað rétti til eignarhluta sinna úr dánarbúi móður þeirra á grundvelli tómlætis enda gengi gagnstæð niðurstaða í bága við meginreglur eignaréttar, erfðaréttar og skiptaréttar og væri auk þess óeðlileg og ósanngjörn.
Sóknaraðilar halda því fram að skiptum á dánarbúi móður þeirra hafi aldrei verið lokið. Fyrir liggi að búið hafi verið framselt til einkaskipta en engin gögn liggi fyrir hjá embætti sýslumannsins í Reykjavík eða á Þjóðskjalasafni sem staðfesti að skiptum hafi verið lokið. Hvergi í skattframtölum föður sóknaraðila sé að finna upplýsingar þess efnis að skipti hafi farið fram. Engu máli skipti í þessu samhengi hvaða upplýsingar komi fram í embættisbók vígslumanns þess er gefið hafi saman föður sóknaraðila og eftirlifandi eiginkonu hans, enda komi ekki fram í ljósriti úr þeirri bók við hvaða gögn sú fullyrðing styðjist að skiptum á dánarbúi fyrri konu Y hafi verið lokið. Sú yfirlýsing bindi ekki sóknaraðila sem enga aðild hafi átt að henni. Þá hafi enginn verið viðstaddur hjónavígsluna sem gætt hafi hagsmuna sóknaraðila.
Af framangreindu sé ljóst að skiptum á dánarbúi X hafi aldrei verið lokið en samkvæmt l. mgr. 38. gr. skiptalaga nr. 20/1991 sé það skilyrðislaus réttur erfingja að dánarbú móður þeirra verði tekið til opinberra skipta. Þó að langt sé um liðið frá andláti móður þeirra sé réttur þeirra til eigna sinna og greiðslu arfs í fullu gildi og fyrnist ekki með nokkrum hætti.
Af hálfu sóknaraðila er vísað til þess að ef skiptum hefði verið lokið á dánarbúi X fyrir hjúskap föður þeirra og eftirlifandi eiginkonu hans hefði eign hans verið búshluti hans og arfshluti eftir fyrri eiginkonu, en ekki allar eignirnar úr fyrri hjúskap. Réttur sóknaraðila til hluta eigna móður þeirra hafi stofnast á undan rétti varnaraðila til búshluta og arfs eftir eiginmann hennar. Varnaraðili hafi þannig notið hagræðis af því að eiginmaður hennar greiddi ekki arfshluta eftir X til sóknaraðila. Verði kröfu sóknaraðila hafnað telja þeir að varnaraðili myndi hagnast með ólögmætum hætti vegna þess að ekki hafi verið farið að lögum við málalok í dánarbúi móður þeirra.
Sóknaraðilar telja að horfa verði til þess að varnaraðili hafi verið 35 ára gömul þegar hún gekk að eiga Y, sem hún vissi að var ekkill og einstæður faðir. Henni hafi staðið það næst að ganga úr skugga um það áður en hún hafi gengið að eiga Y að skiptum eftir fyrri konu hans væri lokið og að ekki væri misfarið með arfshluta sóknaraðila. Það standist hvorki lög, lagatúlkun né sanngirnissjónarmið að varnaraðili vinni rétt á aðgerða- og aðgæsluleysi sínu og auðgist með ólögmætum hætti og hirði arf eftir móður sóknaraðila. Þá benda sóknaraðilar á að þegar dánarbúi móðurforeldra sóknaraðila hafi verið skipt árið 1969 hafi faðir þeirra komið fram fyrir þeirra hönd sem lögráðamaður. Arfur sóknaraðila úr því dánarbúi hafi numið töluverðum fjárhæðum eins og glöggt megi sjá af gögnum vegna skipta þess dánarbús. Sóknaraðilar hafi aðeins fengið hluta þeirra eigna sem komið hafi úr því dánarbúi og töluverður hluti af arfinum runnið í bú föður þeirra og varnaraðila.
Sóknaraðilar telja að við mat á aðstæðum öllum beri að horfa til þess að sambúð sóknaraðila við stjúpmóður þeirra hafi verið erfitt. Sóknaraðilum hafi því ekki gefist kostur á því að gæta réttar síns þann stutta tíma sem þær hafi búið í foreldrahúsum. Vegna þessa erfiða sambands hafi þær flutt að heiman um leið og þær hafi haft aldur og þroska til. Í stað þess að krefjast skipta á dánarbúi móður sinnar í lifanda lífi föður þeirra og hætta þannig sambandinu við föður sinn, sé nú að föður þeirra látnum rétti tíminn kominn fyrir sóknaraðila til að gera upp arf eftir móður þeirra.
Sóknaraðilar telja að töluleg framsetning varnaraðila á því hver arfur sóknaraðila eftir móður þeirra hafi verið við andlát hennar skipti engu við úrlausn málsins. Á því er byggt að móðurforeldrar sóknaraðila hafi verið efnafólk á þeim tíma sem húsið að [...] hafi verið byggt og þau kostað byggingu þess. Í upptalningu á eignum dánarbús X hjá borgarfógeta hafi umrædd fasteign verið talin fram miðað við fasteignamat en ekki markaðsverð. Horfi varnaraðili til erfðafjárskattsstofns þegar hún reikni út ætlaðan arf sóknaraðila en eins og kunnugt er geti fjárhæð útgreidds arfs verið allt önnur en stofn til útreiknings erfðafjárskatts. Þá er bent á að líkur bendi til þess að fasteignamat [...] hafi verið lágt m.t.t. markaðsverðs eignarinnar í kringum árið 1960. Því til stuðnings er bent á að í skattframtali 1963 hafi fasteignamat eignarinnar verið 138.000 krónur en jeppabifreið verið talin á 105.000 krónur.
Á því er byggt af hálfu sóknaraðila að ef skipti hefðu farið fram á dánarbúi móður þeirra hefðu merki þess óhjákvæmilega sést í skattframtölum föður þeirra þar sem slík skipti hefðu augljóslega breytt eignastöðu hans samkvæmt skattframtölum.
Mótmælt er þeirri fullyrðingu varnaraðila að ekki liggi annað fyrir en að lögráðamaður systranna hafi gætt þeirrar skyldu sinnar að greiða þeim arfshlut þeirra eftir móður þeirra í peningum. Jafnframt er því mótmælt að það að kvöð hafi ekki verið þinglýst á fasteign dánarbúsins um að arfur sóknaraðila stæði inni í búi föður þeirra, bendi til þess að sóknaraðilar hafi fengið arf eftir móður sína greiddan.
Sóknaraðilar telja að varnaraðila beri að sýna fram á að lagaskilyrðum um skipti dánarbús móður sóknaraðila hafi verið fullnægt og því hvíli sönnunarbyrðin á varnaraðila ætli hún að byggja á því að skiptum hafi verið lokið og þannig halda því fram að önnur málalok hafi orðið á dánarbúinu en opinber gögn eða önnur fyrirliggjandi gögn segi til um.
Þá er á því byggt að það breyti engu um dómkröfur sóknaraðila hverjar eignir varnaraðili hafi átt er hún hafi gengið í hjúskap með föður sóknaraðila og er í því sambandi vísað til þess að engin gögn liggi fyrir sem sýni að dánarbú móður sóknaraðila hafi á einhverjum tímapunkti orðið eignalaust eða verið á barmi þess. Aðaleign dánarbúsins, fasteignin [...], hafi alltaf verið til staðar. Varnaraðili hafi engin gögn lagt fram til staðfestingar á því að verðmæti eigna hennar hafi verið langt umfram eignir þeirra Y og móður sóknaraðila.
Af hálfu varnaraðila er bent á að Y hafi sent beiðni um leyfi til einkaskipta til borgarfógetans í Reykjavík með bréfi, dagsettu 11. desember 1961, að höfðu samráði við móðurafa sóknaraðila, Z, sem skyldi gæta hagsmuna sóknaraðila við skiptin og frágang þeirra. Beiðnin hafi verið var tekin fyrir í Skiptarétti Reykjavíkur 12. janúar 1962. Samkvæmt fyrirliggjandi bókun í þingbók, hafi þá verið tekið fyrir að skrifa upp og virða eignir dánar- og félagsbús Y og X, [...]. Í réttinn hafi mætt Y heitinn og Z. Þeir hafi gert grein fyrir að verðmæti eigna búsins næmi 138.000 krónum og skuldir 1. janúar 1962 101.194,20 krónum. Síðan segi í bókun að mættu hafi óskað þess að Z yrði skipaður réttargæslumaður hinna ófjárráða erfingja við skiptin og að mættum yrði afhent bú þetta til einkaskipta.
Skiptaráðandi hafi þegar tekið afstöðu til þessarar beiðni og afhent þeim tengdafeðgunum í framhaldi búið til einkaskipta og jafnframt skipað Z réttargæslumann hinna ófjárráða erfingja, systranna A og B, við búskiptin með þeim réttindum og skyldum sem því fylgdu. Y heitinn hafi síðan lýst því yfir að hann bæri ábyrgð á skuldum búsins og greiðslu erfðafjárskatts í ríkissjóð. Þannig hafi því réttarhaldi og búsuppskrift lokið og þeir Y og Z undirritað umrædda bókun.
Samkvæmt þessari uppskrift hafi hreinar eignir búsins numið samtals 36.806 krónum og arfur til sóknaraðila máls þessa því numið 6.900 krónum eða samtals 13.800 til þeirra beggja samkvæmt þágildandi erfðalaga. Í bréfi Y til embættis borgarfógeta frá 11. desember 1961 hafi hann óskað eftir þvi að halda öllu búinu, sem væri reyndar lítið annað en húseign að [...], sem þá hafi verið í byggingu, og skuldir henni áhvílandi. Af hálfu varnaraðila er talið að sú beiðni hafi samrýmist heimildarákvæðum 59. gr. þágildandi skiptalaga nr. 3/1878 um það efni. Engar athugasemdir hafi verið bókaðar um þetta í framangreindu réttarhaldi.
Fyrir liggi að skiptaráðandi hafi gætt leiðbeiningarskyldu sinnar i réttarhaldinu þegar hann hafi bókað sérstaklega að Z væri skipaður lögráðamaður systranna með þeim réttindum og skyldum sem þeirri skipun fylgdu. Ljóst sé að þær skyldur hafi ekki síst falist í því að gæta að ákvæðum 62. og 77. gr. skiptalaganna um skyldu til greiðslu á erfðahlut ófulltíða erfingja í peningum eingöngu svo sem það hafi verið orðað í greinum þessum.
Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að ekki liggi annað fyrir í málinu en að lögráðamaður systranna hafi gætt þessarar skyldu sinnar og séð til þess að þær fengju arfshluta sinn í peningagreiðslu. Engum kvöðum hafi verið þinglýst á fasteignina [...] á þessum tíma í þessu sambandi svo sem skylt hefði verið ef arfur systranna hefði átt að standa inni í búi föður þeirra, sbr. 62. grein þágildandi skiptalaga um það tilvik.
Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að þau Y heitinn hafi gengið i hjúskap [...] mars 1962. Áður en til hjúskaparins hafi verið stofnað hafi skiptum á dánar- og félagsbúi Y og X verið lokið, svo sem skylt hafi verið samkvæmt ákvæðum 18. gr. laga nr. 39/1921 um stofnun og slit hjúskapar, sem í gildi hafi verið á þeim tíma. Leyfisbréf til vígslunnar hafi verið gefið út af dómsmálaráðuneyti [...] mars 1962, til staðfestingar þess að hjónavígsluskilyrðum væri fullnægt.
Ákvæða 37. greinar laga nr. 39/1921 um sama efni hafi einnig verið gætt af vígslumanni og í framlögðu ljósriti úr embættisbók hans sé að finna staðfestingu hjónavígslunnar. Í þeirri bókun geti hann þess sérstaklega að bú Y sé uppgert, vafalaust til áréttingar á því að hann hafi sjálfur sérstaklega kannað það atriði. Til samanburðar er af hálfu varnaraðila vísað til núgildandi ákvæði 1. tl. 2. mgr. 7. gr. rg. nr. 326/1996 um könnun hjónavígsluskilyrða.
Af hálfu varnaraðila er bent á að hún hafi verið vel stæð fjárhagslega af lausu fé þegar þau Y hafi gengið í hjúskap. Af skattframtölum þeirra hjóna frá 1963 og 1964 megi ráða að eigið fé samkvæmt sameiginlegu skattframtali þeirra hafi verið liðlega þrisvar sinnum meira en fyrir hjúskapinn. Þá sé ótalið að verðmæti hlutabréfa hennar hafi verið margfalt hærra en fram komi í skattframtali. Húseignin [...], sem varnaraðili búi nú í, sé hins vegar nánast eina eign dánarbúsins.
Því er haldið fram að varnaraðili hafi alla tíð verið þess fullviss að Y hafi verið búinn að ljúka skiptum með dætrum sínum áður en þau gengu í hjúskap. Það segist hún hafa byggt á frásögn hans sjálfs fyrir hjúskap þeirra. Það hafi einnig verið áréttað og staðfest í hjúskaparskjölunum, sem og af N, nú látnum tengdaföður varnaraðila, sem hafi verið annar tveggja svaramanna þegar þau Y hafi gengið í hjúskap. Hún hafi aldri heyrt neitt um búskipti þessi frá Z, afa sóknaraðila í móðurætt, en ágætt samband hafi verið milli þeirra á þessum tíma.
Af hálfu varnaraðila er aðallega byggt á því að skiptum á félags- og dánarbúi X og Y hafi verið lokið fyrir 1. mars 1962 og því beri að synja kröfu sóknaraðila um opinber skipti.
Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að lögmaður hennar hafi 8. ágúst 2003 afhent Eyrúnu Guðmundsdóttur, deildarstjóra hjá sýslumanninum í Reykjavík, þau gögn sem hann hafði þá þegar aflað með beiðni um gagnaskann hjá embættinu varðandi skipti á dánarbúi X og Y. Þeirri beiðni hafi verið mjög vel tekið af hálfu Eyrúnar. Niðurstaða gagnaleitar embættisins hafi þó orðið sú, samkvæmt tölvupósti frá 20. október 2003, að engin gögn hefðu fundist í varðveittum skjölum embættisins um skipti á umræddu búi. Af hálfu varnaraðila hafi verið lögð áhersla á að leit yrði haldið áfram.
Fram hafi komið hjá Eyrúnu að varsla og aðgengi gagna embættisins frá þessum árum væri ekki eins góð og skyldi og leit erfið auk þess sem skjöl kynnu vissulega að hafa glatast á þetta löngum tíma.
Leit embættisins hafi verið fram haldið að beiðni lögmanns varnaraðila og leitt til þess að fyrrnefnd fyrirtekt skiptaréttar hafi fundist í lok nóvember 2003. Þetta ferli staðfesti frásögn Eyrúnar um erfitt aðgengi að svo gömlum gögnum embættisins og einnig að seint verði fullyrt að engin gögn séu eða hafi verið til. Embætti sýslumannsins í Reykjavík hafi að sjálfsögðu aldrei sagt að umbeðin gögn væru ekki til heldur hafi embættið aðeins gert grein fyrir því að ekki hefðu fundist frekari gögn en nú hafi verið lögð fram í málinu.
Af hálfu varnaraðila er bent á að greiðsla erfðafjárskatts hafi ekki verið forsenda skiptaloka á þessum tíma. Þótt greiðsluskjöl erfðafjárskatts hafi ekki fundist veiti það ekki vísbendingu um að skiptum hafi ekki verið lokið. Á það er einnig bent að hvorki er kunnugt um kröfu um greiðslu vangoldins skatts né eftirrekstur um skiptalok sem þó hefði verið skylt að gera að liðnu einu ári frá veitingu einkaskiptaleyfis samkvæmt 78. gr. þágildandi skiptalaga.
Þá er bent á það af hálfu varnaraðila að í hrd. 1984, bls. 1391, sé lagt til grundvallar, með vísan til bréfs Ríkisendurskoðunar frá 10. maí 1984, að að allar erfðafjárskýrslur frá sýslumanni Gullbringu- og Kjósarsýslu vegna ársins 1958 hafi farist í eldsvoða þegar hús Iðnaðarbankans hafi brunnið árið 1967, en embætti Ríkiendurskoðunar hafi þá verið þar til húsa. Því megi leggja til grundvallar að erfðafjárskýrsla vegna skipta á dánarbúi X finnist ekki af sömu ástæðu.
Þá er vísað til þess að sóknaraðilar hafi vitað um andlát móður sinnar enda þótt þær væru ungar að árum þegar hún lést. Þær hafi ekki verið ættleiddar af varnaraðila. Þær hafi haft fullt tilefni til að kanna eigin fjárhag þegar þær hafi fyrst talið fram til skatts 15 ára gamlar. Þá hafi þær haft ástæðu til að inna föður sinn eftir ítarlegum upplýsingurn um eigin fjármál, þ. á m. um búskipti eftir móður þeirra. Sérstaklega er vísað til þess að önnur sóknaraðila hafi áratugum saman aðstoðað Y og varnaraðila við gerð skattframtaa og hún því verið gjörkunnug fjármálum þeirra á því tímabili.
Tilefni til upplýsingaöflunar af hendi sóknaraðila um búskipti eftir móður þeirra systra hafi í síðasta lagi gefist þegar þær tóku endanlega við fjármálum sínum úr hendi föður síns þegar þær hafi orðið fjár síns ráðandi.
Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að með hliðsjón af framangreindu beri að fella sönnunarbyrði á sóknaraðila um þá fullyrðingu þeirra að skipti dánarbús móður þeirra hafi ekki enn farið fram.
Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að hún geti ekki fallist á samkomulag sem grundvallist á þeim niðurlægjandi ranghugmyndum sóknaraðila gagnvart föður þeirra að hann hafi misfarið með eða dregið sér arfafé þeirra systra eða að hann hafi ekki réttilega skipt búi með þeim eftir móður þeirra.
Við þau búskipti sem farið hafi fram eftir andlát móður sóknaraðila hafi eignarréttarkrafa þeirra í eignir búsins fallið niður og breyst í fjárkröfu á vörslumann hins úthlutaða arfs. Móttakandi og vörslumaður arfs þeirra systra hafi verið hinn skipaði lögráðamaður þeirra við skiptin, Z. Ekkert liggi fyrir í málinu um það hvernig hann hafi gengið frá þeim málum.
Þá er því haldið fram af hálfu varnaraðila að enginn tilvitnaðra dóma í greinargerð sóknaraðila fjalli um atvik sem séu hliðstæð atvikum þessa máls.
Loks er því haldið fram að af hálfu E, sonar þeirra Y og varnaraðila, muni vera tekið undir og byggt á þeim sjónarmiðum sem fram komi af hálfu varnaraðila í málinu.
Niðurstaða
Varnaraðili á, sem síðari eiginkona föður sóknaraðila, hagsmuna að gæta af því hvort skiptum á dánarbúi móður sóknaraðila teljist hafa verið lokið áður en varnaraðili gekk í hjónaband þar sem það kann að hafa veruleg áhrif á það hversu miklar eigir falli undir opinber skipti á dánarbúi eiginmanns hennar og þar með á búshlut hennar og arfshlut. Af hálfu sóknaraðila hafa engar athugasemdir verið gerðar við aðild varnaraðila að ágreiningsmáli þessu. E, sonur varnaraðila og hálfbróðir sóknaraðila samfeðra, hefur ekki látið ágreiningsmál þetta til sín taka. Hann telst ekki aðili að málinu þótt úrslit þess hafi áhrif á væntanlegan erfðahluta hans.
Eins og áður er fram komið sendi Y, faðir sóknaraðila og eiginmaður varnaraðila, borgarfógetanum í Reykjavík bréf, dagsett 11. desember 1961, þar sem fram kom að vegna andláts eiginkonum hans X, sem andast hefði [...] febrúar 1959 væri nauðsynlegt að fram færi arfskipti eftir hana til barna þeirra, B 8 ára og A 7 ára. Þá kom fram í bréfinu að þar sem þeim væri óhægt að selja nokkuð af eignunum, sem væru lítið annað en húseign að frádreginni áhvílandi skuld, leyfði hann sér að fara þess á leit að mega sjálfur, í samráði við móðurafa sóknaraðila, framkvæma skiptin að fullgreiddum erfðafjárskatti til hins opinbera.
Samkvæmt framlögðu endurriti úr gerðarbók skiptaréttar Reykjavíkur frá 12. janúar 1962, vegna fyrirtöku á umræddri beiðni, var dánarbú X afhent Y og dætrum hans til einkaskipta og afi þeirra Z skipaður réttargæslumaður þeirra við þessi búskipti með þeim réttindum og skyldum sem því fylgdu. Jafnframt var bókað að Y ábyrgðist skuldir búsins og greiðslu erfðafjárskatts í ríkissjóð.
Af framangreindu bréfi Y og eftirfarandi fyrirtöku í skiptarétti er ljóst að Y gerði reka að því að skipta dánarbúi fyrri eiginkonu sinnar og fékk búið afhent til einkaskipta þar sem afi barnanna skyldi gæta hagsmuna þeirra.
Þrátt fyrir leit í gögnum sýlumannsins í Reykjavík og á Þjóðskjalasafni Íslands hefur ekki fundist ótvíræð staðfesting á því að skiptum á dánarbúi móður sóknaraðila hafi verið lokið og afrit af erfðafjárskýrslu hefur ekki fundist. Slík gögn hafa heldur ekki fundist í vörslum málsaðila.
Það að gögn um lok einkaskipta á dánarbúi X og afrit erfðafjárskýrslu finnist ekki hjá málsaðilum, í skjalasafni sýslumannsins í Reykjavík, Þjóðskjalasafni Íslands eða öðrum opinberum skjalasöfnun getur ekki talist óræk sönnun þess að skiptum hafi ekki verið lokið í reynd, enda um að ræða nærri hálfrar aldar gömul skjöl og alþekkt að ekki er á vísan að róa með að finna svo gömul skjöl í opinberum skjalasöfnum.
Eins og sóknaraðilar hafa bent á er ekki hægt að ráða af samanburði á skattframtölum Y frá árunum 1956 til 1961 og skattframtölum hans og varnaraðila eftir þann tíma að eignir hans hafi skerst sem nemur útgreiddum móðurarfi sóknaraðila. Eins og bent hefur verið á af hálfu varnaraðila var fasteignin [...] verulega veðsett á þessum tíma og arfshluti þeirra systra því væntanlega ekki svo hár að greiðslu á móðurarfi sóknaraðila hans hefði óhjákvæmilega séð stað í skattframtölum. Engar sérstakar ályktanir verða því dregnar af skattframtölum varðandi það álitaefni hvort skiptum á dánarbúi móður sóknaraðila hafi verið lokið.
Lagt hefur verið fram í málinu ljósrit úr hjónavígslubók með stimpli Þjóðskjalasafns Íslands. Varnaraðili kveður ljósritið vera úr hjónavígslubók Fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík og hefur það ekki verið dregið í efa af hálfu sóknaraðila. Þar er skráð að Y vélstjóri og C bústýra hafi gengið í hjónaband [...] mars 1962 og að svaramenn hafi verið þau M og N. Í sérstakan athugasemdadálk er skráð „Lbr. 1. 3. 62 Bú uppgert” Óumdeilt er að þessi skammstöfun þýði að leyfisbréf dómsmálaráðuneytisins vegna hjónavígslunnar hafi verið gefið út 1. mars 1962. Umrætt leyfisbréf hefur hins vegar ekki fundist. Þá heldur varnaraðili því fram að í þessu felist einnig að dómsmálaráðuneytið og vígslumaður hafi gengið úr skugga um að það skilyrði fyrir hjónavígslu væri fullnægt að skiptum á dánarbúi fyrri eiginkonu Y hefði verið lokið. Af hálfu sóknaraðila er þeirri túlkun mótmælt og því haldið fram að umrædd bókun sé ekki sönnun þess.
Þá hefur af hálfu varnaraðila verið lagt fram ljósrit úr skjalasafni Hagstofu Íslands af hjónavígsluvottorði vegna hjúskaparstofnunar Y og varnaraðila en þar er einnig vitnað til umrædds leyfisbréfs frá 1. mars 1962 með sama hætti og að ofan greinir.
Í 18. gr. laga um stofnun og slit hjúskapar, nr. 39/1921, sem í gildi voru þegar til framangreinds hjúskapar var stofnað, sagði að ef annað hjóna hefði verið gift og fjárfélag verið með hjónunum þegar hjúskap þeirra sleit, mætti ekki vígja það nema skiptaráðandi hefði tekið búið til skipta eða einkaskiptum væri lokið. Þó gæti stjórnarráðið leyst undan þessu skilyrði ef sérstaklega stæði á. Í 33. gr. laganna var mælt fyrir um að þegar vígsla væri heimil án lýsingar skyldi vígslumaður sá er gæfi hjónaefni saman einn gæta allra vígsluskilyrða samkvæmt 20. gr. Í umræddri 20. gr. er meðal annars vísað til vígsluskilyrðis fyrrnefndrar 18. gr. laganna. Í 25. gr. laganna var mælt fyrir um að undanþágu frá hjúskaparlýsingu mætti fá með leyfisbréfi en slíkt bréf virðist samkvæmt framangreindu hafa verið gefið út vegna umræddrar hjónavígslu.
Samkvæmt þeim lagaákvæðum sem hér hafa verið rakið var það skylda þess vígslumanns sem gaf Y og varnaraðila saman að ganga úr skugga um að skiptaráðandi hefði tekið félagsbú þeirra Y og X til skipta eða að einkaskiptum á búinu væri lokið, hafi Y ekki verið leystur undan því skilyrði af stjórnarráðinu, sem engar vísbendingar eru um í málinu. Enda þótt ekki komi fram í umræddri bókun í hjónavígslubók á hverju vígslumaður byggði þessa athugasemd bendir umrædd skráning eindregið til þess að vígslumaður hafi gætt þeirrar lagaskyldu sinnar að ganga úr skugga um að búskiptum væri lokið. Það sem einkum styður það að búskiptum hafi verið lokið fyrir umrædda hjónavígslu er að dánarbú X hafði sannanlega verið fengið Y og dætrum hans til einkaskipta og Z afi þeirra systra verið tilnefndur réttargæslumaður þeirra við skiptin. Umræddur Z var á lífi þegar Y gekk aftur í hjónaband og telja verður harla ólíklegt í ljósi skyldna hans sem réttargæslumaður sóknaraðila að hann hefði látið það afskiptalaust að fyrrverandi tengdasonur gengi aftur í hjónaband án þess að ljúka skiptum eftir fyrri eiginkonu sína.
Í 62. gr. þágildandi skiptalögum nr. 3/1878 var meðal annars fjallað um það tilvik þegar börn hins framliðna skiptu búi með eftirlifandi foreldri og sagði þar að þá mættu erfðahlutir hinn ómyndugu standa inni hjá því hjóna sem eftir lifði, gegn veði í gervöllu búinu eftir þinglýstu ágripi af skiptagerð, ef arfur barnanna yrði ekki greiddur af hendi án þess að selja yrði það af lausafé eða fasteignum búsins sem hið eftirlifandi þyrfti á að halda vegna atvinnu sinnar eða til daglegra nauðsynja. Þar sem óumdeilt er að slíkri þinglýsingu var ekki til að dreifa á fasteigninni [...] verður að ganga út frá því að skiptum hafi ekki verið lokið í samræmi við umrætt ákvæði.
Í 77. gr. fyrrnefndra skiptalaga var mælt fyrir um að í búum sem skipt væri einkaskiptum mætti ekki leggja út í erfðahlut ófulltíða erfingja annað en peninga nema skiptaráðandi samþykkti, eða svo væri ástatt sem í 62. gr. greindi. Ennfremur segir í 77. gr. að rita skuli á eitt skjal skrá yfir eigur og skuldir búsins, útreikninga á erfðahlutum, og hvað hverjum hafi verið lagt út í hans hluta. Skjali þessu skuli fylgja skírteini um að fjárhaldsmenn hafi tekið við fjármunum þeir, er skjólstæðingum þeirra hafi hlotnast. Skyldu þeir og erfingjar rita undir skjalið og senda skiptaráðanda sem fyrst til endurskoðunar.
Ekkert slíkt skjal liggur fyrir í málinu og engar vísbendingar eru um það hvort eða hvernig móðurarfur þeirra systra var greiddur út. Ljóst er samkvæmt framansögðu að ábyrgð Z afa sóknaraðila var mjög rík í þessu sambandi þar sem hann hafði verið tilnefndur réttargæslumaður þeirra við búskiptin. Þar sem gera verður ráð fyrir að Z hafi verið ljós sú lagaskylda Y að ljúka skiptum á dánarbúi fyrri eiginkonu sinnar áður en hann gengi í hjónaband og sá hjúskapartálmi sem það var að þeim skiptum væri ekki lokið verður að ætla að frá arfshluta sóknaraðila í samræmi við 77. gr. þágildandi skiptalaga þótt skjöl þar að lútandi finnist ekki.
Af málatilbúnaði sóknaraðila að dæma hafa þær lengi litið svo á að þær hafi ekki fengið greiddan út móðurarf sinn og jafnvel ekki arf eftir móðurforeldra sína en móðuramma þeirra andaðist 19. júní 1969. Lögmaður sóknaraðila hélt því fram fyrir dómi að þær hefðu borið þetta undir föður sinn en hann ekki ljáð máls á þessu. Þær hafi því kosið að bíða með kröfu um greiðslu á móðurarfi sínum þar til faðir þeirra væri látinn. Styður þessi frásögn sóknaraðila af meintri neitun föður þeirra ekki málatilbúnað þeirra um að skiptum sé ólokið á dánarbúi móður þeirra.
Í máli þessu hafa sóknaraðilar ekki sýnt fram á að fjárhæðir sem samsvara móðurarfi þeirra hafi ekki staðið þeim til ráðstöfunar þegar þær urðu lögráða. Enda þótt umrædd forsenda þeirra yrði lögð til grundvallar kunna ýmsar aðrar skýringar að vera á því að móðurarfurinn stóð þeim ekki til ráðstöfunar aðrar en að skiptum á dánarbúinu hafi ekki verið lokið. Samkvæmt því sem fram er komið í málinu var ekki um háar fjárhæðir að tefla. Þá eru faðir þeirra og afi ekki lengur til frásagnar um mögulega ráðstöfun arfshluta þeirra.
Líta verður svo á að sóknaraðilar beri ríka ábyrgð á þeim vandkvæðum sem uppi eru í máli þessu á að leiða í ljós með óyggjandi hætti hvort skiptum á búi móður þeirra hafi verið lokið áður en faðir þeirra gekk í hjónabanda að nýju og hvort þær hafi fengið greiddan út móðurarf sinn. Þykir í því sambandi skipta verulegu máli að þeim mátti vera kunnugt um það hjónavígsluskilyrði að hjónaefni má ekki gefa saman nema skiptum á félagsbúi vegna fyrri hjúskapar sé lokið. Þá mátti þeim vera ljóst að mikilvægt væri að fá á hreint meðan faðir þeirra væri enn á lífi hvort skiptum á búi móður þeirra hefði verið lokið. Með vísan til þess þykir rétt að sóknaraðilar beri hallann af þeirri óvissu sem uppi er í málinu um það hvort skiptum á búi X hafi þegar verið lokið.
Með framlögðu ljósriti úr hjónavígslubók, sem þykir bera það með sér að vígslumaður hafi gengið úr skugga um að búskiptum vegna fyrra hjónabands Y væri lokið, og öðrum framlögðum gögnum, þykir varnaraðili hafa sýnt nægjanlega fram á að skiptum á dánarbúi móður sóknaraðila hafi verið lokið áður en Y gekk í hjónaband með varnaraðila.
Þegar af framangreindri ástæðu ber að hafna kröfu sóknaraðila um að bú móður þeirra, X, sem andaðist [...] febrúar 1959, verði tekið til opinberra skipta.
Af hálfu varnaraðila hefur þess verið krafist að hver aðili beri sinn kostnað af máli þessu. Með hliðsjón af úrslitum málsins og þessari kröfu þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu.
Af hálfu sóknaraðila flutti mál þetta Hulda Rós Rúriksdóttir hdl. en Jónas A. Aðalsteinsson hrl. af hálfu varnaraðila.
Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kröfu sóknaraðila, A og B, um að dánarbú X verði tekið til opinberra skipta er synjað.
Málskostnaður fellur niður.