Hæstiréttur íslands

Mál nr. 475/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 30

 

Miðvikudaginn 30. ágúst 2006.

Nr. 475/2006.

Sýslumaðurinn á Selfossi

(Steinunn Fjóla Sigurðardóttir fulltrúi)

gegn

X

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. ágúst 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. ágúst 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til laugardagsins 2. september 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. ágúst 2006.

Sýslumaðurinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að úrskurðað verði að X, [...], refsifangi á Litla-Hrauni, skuli sæta gæsluvarðhaldi til laugardagsins 2. september nk. kl. 16:00. Um lagaheimildir er vísað til 103. gr. a liðar laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Af hálfu kærða er þess krafist að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að í gærmorgun hafi borist tilkynning frá fangelsinu á Litla-Hrauni um að fundist hafi við leit á A, sem starfað hefur í sumar sem fangavörður á Litla-Hrauni, 3 pakkar með ætluðum fikniefnum til söludreifingar fyrir refsifanga.  Reyndist umræddur pakki innihalda 241 grömm af hassi og 33,66 grömm af amfetamíni skv. litaprófun.  Við yfirheyrslu hjá lögreglu játaði A að hafa staðið að flutningi á talsverðu magni af fíkniefnum inn í fangelsið á Litla-Hrauni, sem ætlað hafi verið til söludreifingar  Kvað hann kærða jafnframt hafa fengið  hann til að flytja inn hluta af umræddum fíkniefnum og einnig komið honum í samband við aðila sem útvegað hafi honum fíkniefnin.  Þá hafi hann afhent kærða efni í nokkur skipti við flutning inn í fangelsið.  Var kærði handtekinn vegna rannsóknar málsins á Litla-Hrauni kl. 08:31, en samkvæmt upplýsingum frá Litla-Hrauni hafði hann frá því í gærmorgun verið í einangrun.  Kærði hefur neitað sök. 

Á því er byggt af hálfu lögreglustjóra að rökstuddur grunur sé um að kærði hafi staðið að flutningi á talsverðu magni af fíkniefnum inn í fangelsið á Litla-Hrauni, sem ætlað hafi verið til söludreifingar.  Liggi fyrir að A hafi sagt kærða ásamt fleirum hafa fengið sig til að flytja inn hluta af þeim efnum inn í fangelsið og auk þess sett sig í samband við aðila sem hafi útvegað fíkniefnin.   Nauðsynlegt sé því að krafa þessi nái fram að ganga svo unnt sé að rannsaka málið án þess að aðilar nái að tala sig saman og hugsanlega að spilla sakargögnum eða hafa áhrif á vitni.

Verið sé að rannsaka ætluð brot kærða á lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni sem geti varðað allt að 6 ára fangelsisrefsingu ef sannast og á 173. gr. a.  almennra hegningarlaga, nr. 19,1940, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins sé á algjöru frumstigi og veruleg hætta þyki á að hinn grunaði muni torvelda rannsóknina með því að hafa áhrif á vitni og samseka.  

Gæsluvarðhalds sé krafist með vísan til alls ofanritaðs, rannsóknarhagsmuna, svo og með vísan til a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Kærði er grunaður um brot gegn fíkniefnalöggjöf og getur brot hans varðað fangelsisrefsingu allt að 12 árum ef sök sannast. Hann hefur neitað sök hjá lögreglu og hér fyrir dómi, en með hliðsjón af framburði A verður að telja að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að hann sé sekur um þá háttsemi sem hann er grunaður um. Rannsókn málsins er á algjöru frumstigi og þarf að yfirheyra kærða frekar og ná til vitorðsmanna hans.  Verður að telja að hætta sé á því að kærði geti torveldað rannsókn málsins fari hann frjáls ferða sinna, meðal annars með því að hafa samband við aðra sem kunna að tengjast ætluðum brotum, einnig að hann gæti komið hugsanlegum sönnunargögnum undan. Rannsóknarhagsmunir styðja þannig kröfu um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Er því fallist á að skilyrði a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála séu uppfyllt og er krafa sýslumannsins á Selfossi tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði, enda þykir tímalengd í hóf stillt miðað við umfang málsins.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, [kt.], skal sæta gæsluvarðhaldi til laugardagsins 2. september nk. kl. 16:00.