Hæstiréttur íslands

Mál nr. 424/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Sjálfræðissvipting


Föstudaginn 15. júlí 2011.

Nr. 424/2011.

A

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)

gegn

B og

C

(Hulda Rós Rúríksdóttir hrl.)

Kærumál. Sjálfræðissvipting.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að A yrði sviptur sjálfræði í 12 mánuði á grundvelli a. liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júlí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2011, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í 12 mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og að þóknun talsmanns greiðist úr ríkissjóði.

Af hálfu sóknaraðila er krafa um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi einkum reist á því að hann hafi í skýrslu fyrir héraðsdómi lýst því yfir að hann fallist á að taka lyf, en eingöngu í töfluformi. Í vottorði D á geðdeild Landspítala 28. júní 2011, sem hann staðfesti fyrir dómi, kemur fram að sóknaraðili hafi neitað allri lyfjatöku eftir komu á deildina og hafi hætt að taka lyf einum eða tveimur mánuðum fyrir innlögn. Í skýrslu D fyrir dómi kom fram að lyfjameðferð sóknaraðila yrði til að byrja með að vera í sprautuformi. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda sóknaraðila, A, og Huldu Rósar Rúriksdóttur hæstaréttarlögmanns, skipaðs talsmanns varnaraðila, B og C, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur til hvorrar um sig, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2011.

Með beiðni, dagsettri 28. júní 2011, hafa B, kt. [...], og C, kt. [...], krafist þess að A, kt. [...], verði sviptur sjálfræði í 12 mánuði á grundvelli a-liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Um aðild er vísað til a-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.

      Varnaraðili mótmælir kröfunni, en krefst þess til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími.

      Í staðfestu vottorði D [...], dagsettu 28. júní sl., kemur fram að varnaraðili greinist með [...]. Hann hafi dvalið á geðdeild frá 29. maí sl., en hafi fyrir þann tíma ekki tekið lyf sín um skeið. Hann hafi ekki fengist til að taka lyf á geðdeild, en verið mjög veikur og með viðvarandi [...]. Hann hafi lítið sem ekkert sjúkdómsinnsæi. Að undanförnu hafi ástand varnaraðila versnað til muna og hafi hann miklar ranghugmyndir, svo sem nánar er rakið í læknisvottorðinu. Hafi reynst nauðsynlegt að [...]. Leggur læknirinn til að varnaraðili verði sviptur sjálfræði í a.m.k. 12 mánuði til að koma megi við reglubundinni lyfjameðferð. Stefnt sé að því að varnaraðili flytjist á endurhæfingargeðdeild að Kleppsspítala til langvarandi endurhæfingar.

      Varnaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum og kvaðst ósáttur við lyfjagjöf sem honum væri veitt.

Niðurstaða

                Með vottorði D [...] er sýnt fram á að varnaraðili er óhæfur að ráða persónulegum högum sínum. Er fullnægt skilyrðum a-liðar 4. gr. lögræðislaga og verður varnaraðili sviptur sjálfræði svo að tryggja megi að hann njóti viðeigandi læknismeðferðar. Með hliðsjón af læknisvottorði verður svipting sjálfræðis miðuð við 12 mánuði, sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga.

                Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða málskostnað úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Aðalheiðar Helgadóttur hdl., og varnaraðila, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 75.300 krónur til hvorrar um sig að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kvað upp þennan dóm.

Úrskurðarorð:

                Varnaraðili, A, er sviptur sjálfræði í 12 mánuði.

      Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Aðalheiðar Helgadóttur hdl., og varnaraðila, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 75.300 krónur til hvorrar um sig, greiðist úr ríkissjóði.