Hæstiréttur íslands
Mál nr. 301/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. maí 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. maí 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að nánar tilgreindum fyrirtækjum verði gert að láta sóknaraðila í té upplýsingar um bankahólf, bankareikninga, banka- og fjármálaviðskipti og greiðslukortaupplýsingar varnaraðila á tímabilinu frá 9. maí 2010 til 9. maí 2017. Þá var hafnað kröfu sóknaraðila um að A hf. og B hf. verði gert að láta lögreglu í té upplýsingar um kreditkortareikninga varnaraðila. Kæruheimild er í p. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreindar kröfur verði teknar til greina.
Einkahlutafélagið C var stofnað 7. febrúar 2014 og er í eigu varnaraðila og eiginkonu hans. Á grundvelli úrskurðar héraðsdóms 10. maí 2017 um afléttingu bankaleyndar vegna félagins frá og með 7. febrúar 2014 til og með 9. maí 2017 hefur sóknaraðili aflað ýmissa gagna. Meðal þeirra eru upplýsingar um færslur í reiðufé á fjóra tilgreinda bankareikninga í eigu félagsins, samtals að fjárhæð 385.699.458 krónur, í febrúar 2016. Þá liggja fyrir í málinu upplýsingar um millifærslu að fjárhæð 122.000.000 krónur inn á tilgreindan reikning, en sama dag og hún átti sér stað voru færðar 50.000.000 krónur af reikningi einkahlutafélagsins inn á reikning annars einkahlutafélags í eigu varnaraðila. Einnig voru sama dag með níu færslum lagðar samtals 2.801.787 krónur í reiðufé inn á reikninga C ehf.
Varnaraðili er undir rökstuddum grun um brot gegn 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt því og þar sem fullnægt er skilyrðum fyrri málsliðar 1. mgr. 68. gr. og 2. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 verður krafa sóknaraðila tekin til greina á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
D hf., E hf., F hf., G hf., A hf., H hf., I ehf. og B hf., er skylt að láta lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu í té allar upplýsingar, sem fyrirtækin kunna að hafa, um bankahólf, bankareikninga, banka- og fjármálaviðskipti og greiðslukortaupplýsingar varnaraðila, X, frá og með 7. febrúar 2014 til og með 9. maí 2017. Þá er A hf. og B hf. skylt að láta sóknaraðila í té allar upplýsingar, sem fyrirtækin kunna að hafa um kreditkortareikninga varnaraðila, þar með talið hverjir rétthafar kreditkortareikninganna eru, auk staðfestingar yfirfærslunúmera (IBAN og SWIFTCODE) vegna allra yfirfærslnanna á sama tímabili.
Úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2017
Héraðsdómi Reykjaness barst í gær krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að D hf., kt. [...], E hf., kt [...], F hf., kt. [...], G hf., kt. [...], A hf., [...], H hf., kt. [...], I ehf., kt. [...] B hf., kt. [...], verði með úrskurði gert skylt að láta lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu í té allar upplýsingar sem fyrirtækin kunna að hafa um bankahólf, bankareikninga, banka- og fjármálaviðskipti og greiðslukortaupplýsingar X, kt. [...], frá og með 9. maí 2010 til og með 9. maí 2017.
Þess er einnig krafist að A hf., [...] og B hf., kt. [...], verði með úrskurði gert skylt að láta lögreglu í té allar upplýsingar sem þeir kunna að hafa um kreditkortareikninga X, kt. [...], þar með talið hverjir rétthafar kreditkortareikninganna eru, auk þess sem óskað er eftir staðfestingar yfirfærslunúmera (IBAN og SWIFTCODE) vegna allra yfirfærslnanna. Þessar upplýsingar skulu ná frá og með 9. maí 2010 til og með 9. maí 2017.
Í greinargerð lögreglustjórans segir að 21. febrúar 2017 hafi peningaþvættisskrifstofu Héraðssaksóknara borist tilkynning er varði X, kt. [...], C ehf., kt. [...] og J ehf., kt. [...]. Hafi meðal annars komið fram að C ehf. sé með fjóra bankareikninga hjá F hf. Á tímabilinu frá 1. febrúar 2016 til 8. febrúar 2017 hafi reiðufjárinnborganir á fjóra tilgreinda bankareikninga verið samtals 385.699.458 krónur. Þá hafi einnig komið fram að 1. mars 2016 hafi á tíu mínútna tímabili verið lagt inn á reikningana samtals 2.801.787 krónur í reiðufé, í níu mismunandi innlögnum. Þá hafi upphæðirnar verið mismunandi í hvert skipti. Þá sé einnig millifærsla að upphæð 122.000.000 króna inn á tilgreindan reikning til skoðunar en sama dag eru síðan 50.000.000 króna millifærðar af reikningi C ehf. til J ehf. Seinna sama dag voru síðan 80.000.000 króna millifærðar milli reikninga C ehf. hjá F hf.
Lögregla hafi verið að vinna í því að skoða umrædda peningaþvættistilkynningu og farið yfir upplýsingar sem borist hafa (sjá meðfylgjandi upplýsingaskýrslu).
Um er að ræða einstaklinginn X og fyrirtækin C ehf. og J ehf. Samkvæmt skattframtali X fyrir reikningsárið 2010 þá hafi X keypt 50% í J ehf. af K á 50.000.000 króna og hafi þar með verið 100% eigandi J ehf. X hafi frá árinu 2005 rekið pólsku verslunina C ehf. Reksturinn hafi fyrst um sinn verið í höndum einkahlutafélagsins L ehf. (árin 2005 og 2006). Árið 2007 hafi orðið nafnabreyting á félaginu og hafi nýja heitið verið J ehf. X hafi verið einn af stofnendum félagsins. Þann 4. nóvember 2008 hafi hann tekið við framkvæmdarstjórn. Þann 19. janúar 2011 hafi hann látið af framkvæmdarstjórn og tekið sama dag við prókúru félagsins. Sama dag hafi sambýliskona X, M, tekið sæti sem varamaður í stjórn félagsins. Í dag skipi X og M stjórn félagsins.
Í meðfylgjandi upplýsingaskýrslu er fjárhagur X og fyrirtækjanna C ehf. og J ehf. samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum ítarlega rakinn. Í ljósi þeirra upplýsinga sem þar komi fram telur lögregla að rekstur verslunarinnar C ehf., sem fyrst hafi verið í höndum J ehf. og síðar C ehf., sé óeðlilegur miðað við önnur sambærileg fyrirtæki í sama rekstri. Fyrir liggi tilkynning Peningaþvættisskrifstofu þar sem fram komi að inn á reikninga C ehf. renni mikið magn reiðufjár. Þá komi einnig fram millifærsla að fjárhæð kr. 122.000.000, sem er mögulega ekki í samræmi við eðli rekstursins.
Umsvif J ehf. á fasteignamarkaði veki athygli lögreglu sem og umsvif C ehf. á hlutabréfamarkaði (sjá upplýsingaskýrslu). Sér í lagi vegna þess að bæði er ekki algengt að lítil fyrirtæki séu almennt að hasla sér völl á hlutabréfamarkaði og einnig vegna þess að C ehf. er í hópi stærstu einkafjárfesta í N.
Við skoðun á fjármálasögu X og J ehf. megi sjá að arðgreiðslur sem eru ekki í samræmi við eignaskiptingu J ehf. X virðist bæði ekki hafa gert grein fyrir og gefið upp rangar upplýsingar á skattframtölum sínum er varði arðgreiðslur til hans frá J ehf. Þá beri einnig að benda á að ekki er að finna nein gögn sem skýra yfirfærslu reksturs verslunarinnar C úr J ehf. til C ehf.
Lögregla telji því nauðsynlegt að halda áfram með rannsókn málsins og krefst því heimildar til að afla bankagagna viðkomandi aðila og fyrirtækja. Rannsókn málsins beinist að ætluðum umfangsmiklum þvætti á ágóða brotastarfsemi og því nauðsynlegt að afla sem víðtækra upplýsinga um fjármál framangreindra aðila. Tilgangurinn með slíkri gagnaöflun er að meta umfang ætlaðra brota sem og að greina hvort hægt sé að hafa upp á þeim ágóða sem kann að hafa orðið til við brotastarfsemina með það að markmiði að gera hann upptækan. Telji lögregla því nauðsynlegt, til að fá heildstæða yfirsýn yfir fjármál þeirra aðila sem um ræðir, að fá gögn sem varða fjármál þeirra sjö ár aftur í tímann, eða frá 9. maí 2010, í samræmi við ákvæði VII. kafla A almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er talið að hagsmunirnir í málinu séu mun ríkari en þeir hagsmunir að bankaleynd haldist.
Þess er krafist að krafan verði tekin fyrir á dómþingi án þess að kærði verði kvaddur á dómþingið. Vísað er til 1. mgr. 103. gr., sbr. 104. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Með vísan til framangreinds, 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr., 1. mgr. 54. gr., 68. gr. og 2. mgr. 69. gr., sbr. 1. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er þess farið á leit að framangreint rannsóknarúrræði verði heimilað eins og krafist er.
Dómari fellst á að krafan hljóti meðferð fyrir dómi án þess að kærði verði kvaddur á dómþing, enda gæti vitneskja hans um kröfuna spillt fyrir rannsókn.
Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal rannsaka og afla allra tiltækra gagna um verknað þann sem um er að ræða, svo sem stað og stund og öll nánari atvik, sem ætla má að skipt geti máli, leita þess sem grunaður er um brot, finna sjónarvotta og aðra sem ætla má að borið geti vitni, svo og að hafa uppi á munum sem hald skal leggja á og öðrum sýnilegum sönnunargögnum. Þá skal rannsaka vettvang ef við á og yfirleitt öll ummerki sem kunna að vera eftir brot.
Þá er í 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 mælt fyrir um að leggja skuli hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla megi að þeir ellegar hlutir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma hafi sönnunargildi í sakamáli, að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að verða gerðir upptækir. Ef þess er kostur að tryggja sönnun í því skyni sem í 1. mgr. segir án þess að leggja þurfi hald á mun og skal þá þess í stað beina því til eiganda eða vörsluhafa munarins að veita aðgang að honum eða láta í té upplýsingar, sem hann hefur að geyma, svo sem með því að afhenda afrit af skjali eða annars konar upplýsingum, sbr. 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Í 2. mgr. 69. gr. laganna segir að séu munir í eigu eða vörslum annars manns en sakbornings og ekki er hætta á að þeir fari forgörðum eða þeim verði skotið undan og skuli þá haldlagning ákveðin með úrskurði dómara nema fyrir liggi ótvírætt samþykki eiganda eða vörsluhafa.
Framangreindum heimildum eru settar þröngar skorður vegna friðhelgi einkalífs manna samkvæmt 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944. Þá verður við úrlausn málsins enn fremur að taka mið af því að samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki eru stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess.
Krafa lögreglustjóra í málinu er afar víðtæk, bæði að umfangi og í tíma. Er þess krafist að lögreglu verði veittar allar tiltækar upplýsingar um fjármál kærða á sjö ára tímabili. Til grundvallar kröfu lögreglustjóra er tilkynning peningaþvættisskrifstofu Héraðssaksóknara og tilgreindar innborganir reiðufjár á bankareikninga á tímabilinu frá 1. febrúar 2016 til 8. febrúar 2017 sem reifaðar eru í kröfunni. Með kröfunni fylgir upplýsingaskýra lögreglu um fjárhag X og félaganna C ehf. og J ehf. Ekki liggja fyrir önnur gögn til stuðnings kröfu lögreglustjóra.
Þrátt fyrir fullyrðingar lögreglustjóra í greinargerð með kröfu hans um umsvif tilgreindra félaga á fasteignamarkaði og hlutabréfamarkaði liggur ekki nægilega ljóst fyrir að mati dómsins að hvaða upplýsingum hin víðtæka krafa beinist, en skilyrði er fyrir haldlagningu samkvæmt 2. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. sömu greinar, að svo þurfi að hátta til að ætla megi að munir, þar á meðal skjöl, ellegar hlutir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma hafi sönnunargildi í sakamáli. Má nefna í þessu sambandi að ekki er útskýrt hvers vegna „heildstæð yfirsýn yfir fjármál“ kærða vegna ætlaðrar brotastarfsemi hans réttlætir kröfu um afhendingu gagna um fjármál kærða sjö ár aftur í tímann.
Samkvæmt því sem nú er fram komið þykir skorta á að krafa lögreglustjóra sé nægjanlega rökstudd, afmörkuð og studd gögnum. Þykir krafan ekki uppfylla skilyrði 1. mgr., sbr. 2. mgr., 68. gr., sbr. 2. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008, auk þess sem hún verður ekki, svo sem hún er fram sett af hálfu lögreglustjóra, talin rúmast innan þeirra marka sem af fyrrnefndri 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands leiðir. Samkvæmt því verður kröfunni hafnað.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Hafnað er kröfu lögreglustjóra um að D hf., kt [...], E hf., kt. [...], F hf., kt. [...], G hf., kt. [...], A hf., kt. [...], H hf., kt. [...], I ehf., kt. [...]og B hf., kt. [...], verði gert skylt að láta lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu í té allar upplýsingar sem fyrirtækin kunna að hafa um bankahólf, bankareikninga, banka- og fjármálaviðskipti og greiðslukortaupplýsingar X, kt. [...], frá og með 9. maí 2010 til og með 9. maí 2017.
Einnig er hafnað kröfu lögreglustjóra um að A hf., kt. [...],[...] og B hf., kt. [...],[...], verði gert skylt að láta lögreglu í té allar upplýsingar sem þeir kunna að hafa um kreditkortareikninga X, [...], þar með talið hverjir rétthafar kreditkortareikninganna eru, auk þess sem hafnað er að staðfesta skuli yfirfærslunúmer (IBAN og SWIFTCODE) vegna allra yfirfærslnanna frá og með 9. maí 2010 til og með 9. maí 2017.