Hæstiréttur íslands
Mál nr. 422/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
- Res Judicata
|
|
Þriðjudaginn 26. október 1999. |
|
Nr. 422/1999. |
Þuríður Gísladóttir (sjálf) gegn Hollustuvernd ríkisins (Kristján Þorbergsson hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur. Res judicata.
Þ höfðaði mál gegn Hollustuvernd ríkisins til heimtu bóta vegna uppsagnar úr starfi hjá stofnuninni. Vísaði héraðsdómari málinu frá þar sem að áður hafði verið dæmt í máli, sem Þ hafði höfðað gegn ríkissjóði til heimtu bóta vegna sömu uppsagnar. Talið var að varnaraðili í báðum málunum væri í reynd íslenska ríkið og að málsástæður væru ekki svo neinu næmi breyttar frá fyrri málshöfðun. Var niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins staðfest með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. október 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 1999, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði neytti varnaraðili með bréfi 25. september 1992 heimildar samkvæmt ráðningarsamningi 10. mars 1987 til að segja sóknaraðila upp störfum hjá sér með þriggja mánaða fyrirvara. Sóknaraðili höfðaði mál 3. nóvember 1993 á hendur heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Þar krafðist hún bóta að fjárhæð 960.000 krónur vegna uppsagnarinnar, sem hún taldi í raun hafa verið ólögmæta brottvikningu úr stöðu. Sýknað var af þessari kröfu sóknaraðila með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. apríl 1994 og var honum ekki áfrýjað til Hæstaréttar. Sóknaraðili hefur nú höfðað mál þetta gegn varnaraðila og krefst bóta að fjárhæð 45.540.720 krónur úr hendi hans vegna sömu uppsagnar úr starfi.
Þótt fyrrnefndu máli, sem sóknaraðili höfðaði 3. nóvember 1993, hafi verið beint að ríkissjóði, en máli þessu í orði kveðnu að Hollustuvernd ríkisins, breytir það því ekki að aðilinn til varnar verður í báðum tilvikum réttilega talinn íslenska ríkið í reynd. Kröfufjárhæð í þessu máli er að vísu hærri en í fyrra málinu, en af málatilbúnaði sóknaraðila verður ekki ráðið að hún beri við svo neinu nemi í þetta sinn málsástæðum, sem ekki var haldið fram eða tilefni var til að hafa uppi í fyrra skiptið. Samkvæmt þessu og með vísan til þeirrar meginreglu, sem fram kemur í 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest um annað en málskostnað.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 1999.
Mál þetta er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þuríði Gísladóttur, kt. 111060-5259, Akraseli 17, Reykjavík, gegn Hollustuvernd ríkisins, kt. 490882-0149, Ármúla 1a, Reykjavík, með stefnu sem birt var 19. apríl 1999.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 45.540.720 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. janúar 1993 til greiðsludags. Jafnframt er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu skv. mati dómsins. Til vara að stefndi verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu skv. mati dómsins. Og til þrautavara að stefnukrafa sæti stórfelldri lækkun og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu skv. mati dómsins.
Munnlegur flutningur um frávísunarkröfu stefnda fór fram 1. þ.m.
Á árum áður starfaði stefnandi hjá stefnda en var sagt upp störfum með bréfi 25. september 1992. Með stefnu 18. október 1993 höfðaði stefnandi mál gegn heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Gerði stefnandi kröfu um skaðabætur að fjárhæð 960.000 kr. vegna meintrar ólögmætrar uppsagnar. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. apríl 1994 var ríkissjóður sýknaður af kröfum stefnanda. Héraðsdómi var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.
Stefndi byggir kröfu um frávísun þessa máls á því að með dómi 22. apríl 1994 hafi verið skorið úr ágreiningi málsaðila. Dæmt hafi verið að stefnandi ætti ekki rétt til skaðabóta vegna uppsagnarinnar. Og þó að stefnandi geri nú kröfu um mun hærri bætur í þessu máli en í málinu sem dómur féll í 22. apríl 1994 þá breyti það engu um að efnislega hafi verið skorið úr ágreiningi aðila. Á þeim tíma hafi að vísu lög leitt til þess að stefndi gat ekki átt málsaðild að bótamáli vegna meintrar ólögmætrar uppsagnar með öðrum hætti en í nafni ríkissjóðs. Eigi að síður sé dómurinn frá 22. apríl 1994 bindandi um úrslit þess sakarefnis sem hér um ræðir fyrir aðila þessa máls, sbr. 1. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi telur að vísa eigi málinu frá dómi ex officio. Borið hafi að stefna fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins þar eð dómur stefnanda í vil myndi leiða til greiðsluskyldu úr ríkissjóði. Þá sé það fjármálaráðuneytið sem fari með fyrirsvar fyrir hönd ríkissjóðs við gerð kjarasamninga við opinberra starfsmenn og efndir gagnvart þeim. Þá heldur stefndi því einnig fram að vísa beri málinu frá dómi vegna vanreifunar.
Stefnandi telur að hér sé um annað sakarefni að ræða en í máli hennar gegn ríkissjóði sem dómur féll í 22. apríl 1994. Stefnandi telur engin lagaskilyrði hafa verið til að segja upp ráðningarsamningi hennar, andmælaréttur hennar hafi alfarið verið virtur að vettugi, henni hafi ekki verið veitt áminning eða gefinn kostur á að bæta ráð sitt og um leið hafi grundvallarreglur stjórnsýsluréttar og stjórnarskrár verið að engu hafðar. Kröfu sína kveðst hún reisa á því að hún hafi mátt treysta því að fá að gegna starfi þar til einhverjar sérstakar ástæður kæmu til er vörðuðu hana sjálfa eða starf hennar á þann veg að starfsmannalögum yrði réttilega beitt um uppsögn hennar.
Í munnlegum flutningi um frávísunarkröfu stefnda hélt stefnandi fram að brotnar hefðu verið jafnræðisreglur þegar henni var sagt upp störfum, atvinnurekandi hafi mismunað starfsfólki eftir kynferði. Dómur í máli hennar gegn ríkissjóði hafi verið felldur án þess að fjallað væri um sakarefni það sem væri til umfjöllunar í þessu máli, þ.e. uppsögn úr starfi vegna hjúskaparstöðu. Lögmaður stefnda mótmælti því að stefnandi kæmi að nýjum málsástæðum.
Með dómi í máli stefnanda gegn ríkissjóði nr. E-8521/1993 frá 22. apríl 1994 var ályktað að stefnandi ætti ekki rétt á bótum vegna þess að stefnanda var sagt upp störfum hjá Hollustuvernd ríkisins á árinu 1992. Dómurinn er bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila sem hér er borið fyrir dóminn. Málinu verður því vísað frá dómi sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Rétt er að stefnandi greiði stefnda 75.000 kr. í málskostnað.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Málinu er vísað frá dómi. Stefnandi, Þuríður Gísladóttir, greiði stefnda, Hollustuvernd ríkisins, 75.000 kr. í málskostnað.