Hæstiréttur íslands

Mál nr. 200/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Viðurkenningarkrafa
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                                         

Föstudaginn 15. apríl 2011.

Nr. 200/2011.

Vinnslustöðin hf.

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

Kærumál. Viðurkenningarkrafa. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

V hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hans á hendur Í var vísað frá dómi. Í málinu krafðist V hf. viðurkenningar á að óheimilt hefði verið að leggja á hann útflutningsálag á tímabilinu 1. janúar til 1. júní 2010. Í Hæstarétti var talið óumdeilt að umrætt álag hefði verið lagt á afla skipa V hf. á því tímabili sem krafa hans tæki til og hefði hann lagt fram í málinu sundurliðaðar upplýsingar um aflamagnið. Var V hf. talinn hafa lögvarða hagsmuni af dómkröfu sinni sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá væru engir annmarkar á kröfunni sem yllu því að Í ætti erfitt með að verjast henni eða dómstóll að taka afstöðu til hennar. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 23. mars 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér tildæmdur kærumálskostnaðar en til vara að kærumálskostnaður og málskostnaður í héraði verði látinn niður falla.

Sóknaraðili er útgerðarfélag sem meðal annars gerir að eigin sögn út tíu fiskiskip. Hann krefst í málinu viðurkenningar á að óheimilt hafi verið að leggja á hann útflutningsálag á tímabilinu 1. janúar til 1. júní 2010 með vísan til tilgreindra heimilda í reglugerð. Með útflutningsálaginu er bætt 5 % við þyngd þess botnfiskafla sem fluttur er óunninn á erlendan markað og vigtaður þar. Álagið hefur þau áhrif að aflinn er talinn þyngri sem því nemur, en þetta leiðir til þess að aflamagn sem heimilt er að veiða skerðist meira en ella hefði orðið. Í málinu er óumdeilt að álag þetta var lagt á afla skipa sóknaraðila á því tímabili sem krafa hans tekur til. Hann hefur lagt fram í málinu sundurliðaðar upplýsingar um þetta aflamagn.

Sóknaraðili telst samkvæmt framansögðu hafa lögvarða hagsmuni af dómkröfu sinni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Engir annmarkar eru á kröfunni sem valda því að varnaraðili eigi erfitt með að verjast henni eða dómstóll með að taka afstöðu til hennar. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Krafa sóknaraðila um málskostnað í héraði bíður efnislegrar meðferðar málsins þar.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðila, Vinnslustöðinni hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2011.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 11. febrúar sl., að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda, var höfðað 28. júní 2010. Stefnandi er Vinnslustöðin hf. Hafnargötu 2, Vestmannaeyjum. Stefndi er íslenska ríkið.

Dómkröfur stefnanda eru að viðurkennt verði með dómi að óheimilt hafi verið að leggja á hann útflutningsálag með vísan til 8. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 676/2009 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2009/2010, sbr. reglugerð nr. 1050/2009, frá 1. janúar 2010 til 1. júní 2010. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að málinu verði vísað frá dómi og að stefnda verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins. Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati réttarins. Til þrautavara er þess krafist að stefnukröfurnar verði lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.

Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms.

II.

Stefnandi er útgerðarfélag sem gerir út tíu skip. Frá gildistöku reglugerðar nr. 1050/2009 sem tók gildi 1. janúar 2010, þar sem bætt var við nýrri málsgrein, þ.e. 8. mgr., við 7. gr. reglugerðar nr. 676/2009 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2009/2010, hefur botnfiskafli, sem stefnandi hefur veitt og flutt á erlendan markað, verið reiknaður með 5% álagi. Ágreiningur málsins snýst um lögmæti þessa en umræddar reglugerðir voru settar samkvæmt ákvæðum laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða með síðari breytingum og lögum nr. 57/1996 um umgengni við nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

Í stefnu segir að samkvæmt útreikningum stefnanda hafi álagið skert aflaheimildir stefnanda miðað við umrætt tímabil um alls 73.947 kg. Að mati stefnanda hafi þessi skerðing valdið honum tapi sem nemur alls  24.027.342 krónum fyrir sama tímabil. Stefnandi hefur lagt fram skjal sem hefur að geyma hans eigin útreikning á þessu. Samkvæmt þessu telur stefnandi ljóst að útflutningsálagið hafi valdið honum umtalsverðu fjárhagslegu tjóni.

Í stefnu er einnig tiltekið að stefnandi sé aðili að Landssambandi íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og að sambandið hafi átt bréfaskipti við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið varðandi framangreint útflutningsálag. Rakin eru bréf LÍÚ til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins frá 12. nóvember 2009, 9. febrúar 2010 og 24. mars s.á. þar sem LÍÚ gerði grein fyrir röksemdum sínum gegn umræddu útflutningsálagi og óskaði endurskoðunar ákvörðunar ráðuneytisins. Stefnandi segir að með því að ráðherra hafi ekki brugðist við umleitunum um endurskoðun ákvörðunarinnar, sem stefnandi telur að fari í bága við stjórnarskrá lýðveldisins og samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sé nauðsynlegt að höfða mál þetta.

Stefnandi byggir kröfur sínar því að útflutningsálagið, sem hafi verið lagt á hann í samræmi við 7. gr. reglugerðar nr. 676/2009, sbr. reglugerð nr. 1050/2009, sé ólögmætt. Álagið brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar, grunnreglur í stjórnskipunarrétti, sbr. 40., 65., 72., og 77. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, og bókun 9 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Stefnandi hafi þurft að sæta útflutningsálagi frá 1. janúar 2010 og því orðið fyrir umtalsverðu fjárhagslegu tjóni. Stefnandi hafi þess vegna ríka hagsmuni af því að fallist verði að kröfu hans um viðurkenningu á því að óheimilt hafi verið að leggja á hann 5% útflutningsálag.

Stefnandi segir heimild sína til að krefjast viðurkenningardóms um kröfuna styðjast við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III.

Frávísunarkrafa stefnda er byggð á því að hvorki sé að finna reifun á því í stefnu hvaða réttaráhrif dómkröfu stefnanda sé ætlað að hafa né reifun um lögvarða hagsmuni henni tengdri. Ekki sé um það að ræða að álag sé almennt lagt á útgerðir heldur sé álagi bætt við niðurstöðu vigtunar afla þegar metið sé hversu miklu af aflamarki einstakra skipa sé náð hverju sinni. Ekki fáist annað séð en að dómkrafan, eins og hún sé orðuð og fram sett, feli í sér beiðni um lögfræðilegt álit á lagastoð reglugerðarákvæðisins andstætt 1. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála.

Við munnlegan flutning um frávísunarkröfu stefnda var m.a. á því byggt af hálfu stefnanda að óumdeilt væri að stefnandi hefði sætt umræddu álagi á vigtaðan afla og fyrir vikið hefði hann verið fljótari að klára aflamark sitt sem hefði leitt til fjárhagslegs tjóns, eins og sýnt hefði verið fram á með framlögðum útreikningi á tapi hans þess vegna. Því væri ljóst að stefnandi hefði skýra og lögvarða, fjárhagslega hagsmuni af dómkröfunni. Þá væri það viðurkennd grundvallarregla í íslenskum rétti að dómstólar væru yfirleitt bærir til að skera úr um hvers kyns ágreiningi um lögmæti ákvarðana og athafna stjórnvalds.

Stefnandi telur sér heimilt að krefjast viðurkenningardóms um kröfu sína samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar er gerður sá áskilnaður að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda. Þá er kveðið á um það í 1. mgr. 25. gr. sömu laga að dómstólar verði ekki krafðist álits um lögfræðileg efni nema að því leyti sem það er nauðsynlegt til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli.

Miðað við málatilbúnað stefnanda gætu lögvarðir hagsmunir hans af umdeildu útflutningsálagi falist í fjártjóni. Á hinn bóginn er í stefnu hvorki leitast við að gera grein fyrir því hvernig hlutur hans að þessu leyti né öðru yrði réttur næði krafa hans fram að ganga. Vanreifun á þessu grundvallaratriði er í andstöðu við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Að þessu virtu þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kröfur sínar, eins og þær eru úr garði gerðar, og verður því að vísa málinu frá samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. og 2. mgr. 25. gr. sömu laga.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er stefnanda gert að greiða stefnda 250.000 krónur í málskostnað.

Úrskurðinn kveður upp Áslaug Björgvinsdóttir

ÚRSKURÐARORÐ

Kröfu stefnanda á hendur stefnda, íslenska ríkinu, er vísað frá dómi.

Stefnandi, Vinnslustöðin hf., greiði stefnda, íslenska ríkinu 250.000 krónur í málskostnað.