Hæstiréttur íslands

Mál nr. 226/2005


Lykilorð

  • Víxill
  • Kærumál
  • Fjárnám


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. júní 2005.

Nr. 226/2005.

Sparisjóðurinn í Keflavík

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

gegn

Grágás ehf.

(Halldór H. Backman hrl.)

 

Kærumál. Fjárnám.Víxill.

G hafði undirgengist víxilskuldbindingu í viðskiptum við S til tryggingar skuld þriðja manns. Fyrir lá að höfuðstóll skuldarinnar hafði verið greiddur niður um rúmar þrjár milljónir. Jafnframt hafði G greitt S tæpar tvær milljónir, sem G taldi að ætti að ganga inn á höfuðstól skuldarinnar, og þar með hefði hann verið greiddur að því marki, sem víxillinn átti að tryggja. S var ekki talinn hafa hrundið þessu þannig að nægilega væri sýnt fram á að hann nyti heimildar til að leita fjárnáms á grundvelli víxilsins. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna fjárnámsbeiðni S.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 26. maí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. maí 2005, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Keflavík 10. febrúar sama ár um að hafna beiðni sóknaraðila um fjárnám hjá varnaraðila. Kæruheimild er í 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess, að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og lagt fyrir hann að ljúka gerðinni í samræmi við aðfararbeiðni. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í máli þessu leitar sóknaraðili heimildar til að fá gert fjárnám hjá varnaraðila á grundvelli víxils, sem nánar er lýst í hinum kærða úrskurði, en óumdeilt er að varnaraðili gekkst undir víxilskuldbindingu þessa í viðskiptum við sóknaraðila til tryggingar skuld þriðja manns. Samkvæmt 17. gr. víxillaga nr. 93/1933 getur varnaraðili haft uppi gagnvart sóknaraðila mótbárur, sem varða lögskipti þeirra að baki þessari skuldbindingu. Fyrir liggur að höfuðstóll skuldarinnar, sem víxillinn átti að tryggja að hluta, hefur verið greiddur niður um 3.024.442 krónur. Jafnframt hefur varnaraðili greitt sóknaraðila 1.975.558 krónur, sem varnaraðili telur að ganga eigi inn á höfuðstól skuldarinnar, og þar með hafi hann verið greiddur að því marki, sem víxillinn átti að tryggja. Þessu hefur sóknaraðili ekki hrundið þannig að nægilega sé sýnt fram á að hann njóti heimildar til að leita fjárnáms á grundvelli víxilsins samkvæmt 8. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sparisjóðurinn í Keflavík, greiði varnaraðila, Grágás ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. maí 2005.

             Mál þetta var tekið til úrskurðar 20. f.m.

             Sóknaraðili er Sparisjóðurinn í Keflavík, Tjarnargötu 12 í Keflavík.

             Varnaraðili er Grágás ehf., Vallargötu 14 í Keflavík.

             Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Keflavík frá 10. febrúar 2005 þess efnis að krafa sóknaraðila um fjárnám hjá varnaraðila næði ekki fram að ganga og að lagt verði fyrir sýslumann að ljúka gerðinni í samræmi við aðfararbeiðni. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

             Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að dómurinn staðfesti þá ákvörðun sýslumannsins í Keflavík að synja kröfu sóknaraðila um fjárnám hjá varnaraðila. Þá er krafist málskostnaðar. Til vara er þess krafist að framkvæmd úrskurðar héraðsdóms verði frestað meðan á málskoti til Hæstaréttar stendur og að málskostnaður falli niður.

I.

             Hinn 10. febrúar 2005 var tekin fyrir hjá sýslumanninum í Keflavík beiðni sóknaraðila um fjárnám hjá varnaraðila til tryggingar skuld að fjárhæð 3.446.976 krónur. Studdist beiðnin við tryggingarvíxil að fjárhæð 5.000.000 krónur, útgefinn 4. nóvember 2004 af Sigurjóni Rúnari Vikarssyni fyrir hönd varnaraðila, en samþykktan til greiðslu 16. nóvember 2004 af Sigurjóni Rúnari. Mun Sigurjón Rúnar hafa afhent sóknaraðila víxilskjalið í mars 2000 og hafði það þá ekki verið útfyllt hvað varðaði útgáfudag, gjalddaga og fjárhæð. Viðfest umboð „til útfyllingar víxileyðublaðs vegna ábyrgðar“ er svohljóðandi: „Við undirrituð, sem ritað höfum nöfn okkar á meðfylgjandi víxileyðublað til tryggingar á ábyrgð [á] skuldabréfi nr. 1109-74-271924 [greiðandi] Sigurjón R. Vikarsson gefum hér með Sparisjóðnum í Keflavík umboð til að fylla út víxilinn hvenær sem hann sér ástæðu til, hvað varðar útgáfudag, upphæð og gjalddaga og innheimta hann á venjulegan hátt sem víxilskuld. Víxilfjárhæðin má þó aldrei nema hærri upphæð en kr. 5.000.000. Fjárhæð sem sem færð yrði á víxilinn, má ekki varða önnur viðskipti en tilgreind eru í umboði þessu, auk vaxta og kostnaðar. Víxillinn er til tryggingar á láni 1109-74-271924 að höfuðstól 19.000.000. Ábyrgð þessi fellur niður þegar lánið hefur verið greitt niður um 5.000.000 af höfuðstóli.“ Varnaraðili mótmælti því að gerðin næði fram að ganga. Voru mótmæli hans á því byggð að ábyrgð varnaraðila hafi verið fullnægt með innborgun hans 3. desember 2004 að fjárhæð 1.975.558 krónur, enda hafi með þeirri greiðslu verið búið að greiða 5.000.000 krónur inn á höfuðstól framangreinds skuldabréfs. Féllst sýslumaður á mótmæli varnaraðila og ákvað með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989 um aðför að krafa sóknaraðila um fjárnám næði ekki fram að ganga. Leitar sóknaraðila nú eftir því að fá þá ákvörðun fellda úr gilda og barst héraðsdómi krafa þess efnis 17. febrúar 2005.  

II.

             Að því er málsatvik varðar er vísað til þess í greinargerð sóknaraðila að forsvarsmaður varnaraðila, Sigurjón Rúnar Vikarsson, hafi tekið skuldabréfalán hjá sóknaraðila að höfuðstól 19.000.000 krónur. Til tryggingar á greiðslu lánsins hafi hann afhent sóknaraðila víxileyðublað sem hafi verið útfyllt að öðru leyti en því að á það vantaði útgáfudag, gjalddaga og fjárhæð og um leið veitt sóknaraðila umboð til að fylla það út að þessu leyti og gera skjalið þannig að fullgildum víxli. Auk hefðbundins texta umboðs til útfyllingar víxileyðublaðs hafi svohljóðandi texti verið ritaður á umboðið: „Víxillinn er til tryggingar á láni 1109-74-271924 að höfuðstól 19.000.000. Ábyrgð þessi fellur niður þegar lánið hefur verið greitt niður um kr. 5.000.000 af höfuðstóli.“ Vegna vanskila á greiðslu afborgana af skuldabréfinu hafi víxileyðublaðið verið fyllt út í samræmi við umboðið og svo sem tilgreint er í kafla I hér að framan. Hafi síðasta greiðsla verið innt af hendi 10. janúar 2003 og vanefndir því verið orðnar verulegar þegar sóknaraðili neytti heimildar sinnar til að útfylla víxileyðublaðið. Greiðsluáskorun hafi verið birt fyrir fyrirsvarsmanni varnaraðila af stefnuvotti þann 23. nóvember 2004. Með bréfi 25. nóvember 2004 hafi varnaraðili boðist til að greiða 1.975.558 krónur gegn yfirlýsingu sóknaraðila að um fullnaðargreiðslu af hálfu varnaraðila væri að ræða. Verði gögn málsins ekki skilin á annan hátt en þann að varnaaðili líti svo á að greiddi hann þá fjárhæð væri hann búinn að greiða 5.000.000 krónur af höfuðstóli skuldarinnar og ábyrgð hans væri af þeim sökum fallin niður. Með bréfi 2. desember 2004 hafi sóknaraðili hafnað þessum skilningi varnaraðila og ítrekaði greiðsluáskorun. Með bréfum sama dag hafi báðir aðilar ítrekað sjónarmið sín á ný. Í kjölfarið hafi varnaraðili greitt 1.975.558 krónur inn á skuldina. Hinn 20. desember 2004 hafi sóknaraðili síðan krafist aðfarar og hafi málið verið tekið fyrir hjá sýslumanni 8. febrúar 2005. Hafi gerðinni þá verið frestað til 10. sama mánaðar og sýslumaður þá tekið þá ákvörðun sem sóknaraðili krefst nú ógildingar á. 

Sóknaraðili telur ákvörðun sýslumanns um að hafna því að aðförin nái fram að ganga í ósamræmi við meginreglu fullnusturéttarfars um að mótmæli gerðarþola við aðför fresti ekki aðfarargerð. Regla þessi komi meðal annars fram í 26. gr.,  2. mgr. 27. gr. og 2. mgr. 85. gr.  laga um aðför nr. 90/1989.

Í 26. gr. segi að aðför verði ekki frestað, á meðan á gerð stendur, nema aðilar séu á það sáttir. Í  2. mgr. 27. gr. komi fram að mótmæli gerðarþola skuli að jafnaði ekki stöðva gerð, nema þau varði atriði sem sýslumanni ber að gæta af sjálfsdáðum, eða sýslumaður telji mótmælin af öðrum sökum valda því að óvíst sé að gerðarbeiðandi eigi þau réttindi, sem hann krefst fullnægt, eða að hann eigi rétt á að gerðin fari fram með þeim hætti, sem hann krefst.

Augljóst sé af gögnum málsins, sem fyrir lágu þegar hin kærða ákvörðun sýslumanns var tekin, að framangreindum skilyrðum 2. mgr. 27. gr. sé ekki fullnægt. Hvorki sýslumaður né varnaraðili hafi gert athugasemdir við að formkröfum aðfararlaga sé fullnægt. Efnislega byggi krafa sóknaraðila á víxli sem honum hafi verið heimilt á grundvelli umboðs þar um frá varnaraðila að fylla út og innheimta. Hefðbundin skilyrði séu í umboðinu um hámarksfjárhæð og þau viðskipti, sem víxillinn stendur til ábyrgðar fyrir, tilgreind. Auk þess hafi verið kveðið á um það í umboðinu að ábyrgð varnaraðila félli niður þegar höfuðstóll skuldabréfalánsins hefði verið greiddur niður um 5.000.000 krónur. Hvergi komi fram að ábyrgð varnaraðila lækki að tiltölu við lækkun á höfuðstólnum eins og varnaraðili virðist halda fram.

Þegar víxillinn var gefinn út hefðu vanefndir á þeirri skuld sem víxillinn var settur til tryggingar fyrir verið orðnar verulegar. Hafi á þessu tímamarki ekki verið búið að greiða höfuðstól skuldabréfsins niður um 5.000.000 krónur. Öll skilyrði til útgáfu víxilsins samkvæmt umboðinu hafi þannig verið fyrir hendi og ábyrgð varnaraðila í gildi. Með greiðslu eftir útgáfu víxilsins hafi varnaraðili ekki getað bætt úr því. Þá hafi varnaraðili ekki heldur getað ákveðið með yfirlýsingu að ráðstafa ætti þeirri greiðslu, sem hann innti af hendi, upp í höfuðstól skuldarinnar eingöngu en ekki til greiðslu á samningsbundnum vöxtum eða dráttarvöxtum. Þvert á orðalag umboðsins geti varnaraðili ekki heldur ákveðið að hann beri aðeins ábyrgð á höfuðstól skuldarinnar. Varnaraðili sé því greiðsluskyldur í samræmi við ákvæði víxillaga nr. 93/1933. Sé sýslumanni því skylt að gera aðför í samræmi við aðfararbeiðni enda öllum skilyrðum aðfararlaga fullnægt og fyrirliggjandi að gerðarbeiðandi eigi þau réttindi sem hann krefst aðfarar fyrir.

Af hálfu sóknaraðila er sérstaklega tiltekið að í ákvörðun sýslumanns komi ekki fram á hvoru skilyrði 2. mgr. 27. gr. aðfararlaga ákvörðun sýslumanns um að synja um framgang gerðarinnar sé byggð, né rökstuðningur fyrir þeirri ákvörðun. Ákvörðun sýslumanns fullnægi því ekki þeim formkröfum sem gerðar séu til slíkra ákvarðana varðandi rökstuðning, sbr. 1. mgr. 86. gr. aðfararlaga.

III.

Að því er málavexti varðar heldur varnaraðili því fram að 20. mars 2000 hafi aðilar málsins gengið frá samkomulagi sín á milli um ábyrgð varnaraðila á tiltekinni skuld Sigurjóns Rúnars Vikarssonar samkvæmt skuldabréfi nr. 1109-74-271924.  Samkomulag þetta hafi nánar tiltekið verið í formi umboðs til handa sóknaraðila að fylla út tryggingavíxil vegna hugsanlegra vanefnda á skuldabréfinu.  Svo sem fram komi í skjalinu sé áskilið að víxilfjárhæðin og þar með ábyrgð varnaraðila sé að hámarki 5.000.000 krónur og því gert ráð fyrir því beinlínis að fjárhæðin kunni að verða lægri, enda segi síðar í skjalinu: „Víxillinn er til tryggingar á láni nr. 1109-74-271924 að höfuðstól 19.000.000.  Ábyrgð þessi fellur niður þegar lánið hefur verið greitt niður um 5.000.000 af höfuðstóli.“ Rétt sé að skuldabréf þetta hafi verið í vanskilum frá 10. janúar 2003, en þá hafi verið búið að greiða 6.926.167,70 krónur inn á lánið í heild sinni. Þar af hafi höfuðstóll lánsins verið greiddur niður um 3.024.442,20 krónur. Með símskeyti 5. nóvember 2004 hafi varnaraðila verið tilkynnt um það af hálfu sóknaraðila að umræddur tryggingavíxill hefði þegar verið fylltur út með gjalddaga þann 16. nóvember 2004.  Hafi varnaraðila aldrei verið tilkynnt um það fyrirfram að til stæði að gefa téðan víxil út, né verið gefinn kostur á að greiða upp ábyrgð sína áður en til útgáfu víxilsins kæmi.

Af texta umrædds umboðs verði ráðið að sóknaraðila hafi eingöngu verið heimilt að fylla út víxilinn á þann hátt að fjárhæð hans myndi nema mismun á greiddum höfuðstól lánsins og hámarksfjárhæðinni.  Er á því byggt að sóknaraðili hafi útbúið skjalið að öllu leyti og ráðið efni þess. Þannig hafi sóknaraðili samþykkt að ábyrgð varnaraðila yrði bundin við tiltekna fjárhæð og tiltekin skilyrði, það er tiltekna fjárhæð af höfuðstól bréfsins. Í ljósi málatilbúnaðar sóknaraðila sé áréttað að ekkert í skjalinu gefi tilefni til að ætla að ábyrgð varnaraðila gæti numið hærri fjárhæð en þar komi fram og gildi það jafnframt um hugsanlega áfallna vexti og kostnað sem kynni að hafa fallið á skuldabréfið sjálft.  Öðru máli kynni eflaust að gegna um vanskilavexti og kostnað vegna vanefnda á víxlinum sem slíkum, en því sé ekki til að dreifa hér.  Byggir varnaraðili á því að ekkert sé fram komið í málinu sem geti valdið því að ábyrgð varnaraðila nemi hærri fjárhæð en þegar hafi verið greitt af höfuðstóli lánsins, að meðtaldri greiðslu varnaraðila þann 3. desember 2004, sem beinlínis hafi verið skilgreind af hálfu varnaraðila sem innborgun á höfuðstól lánsins og þar með fullnaðargreiðsla á ábyrgð varnaraðila.

Sjálfskuldarábyrgð varnaraðila hafi berum orðum verið bundin við höfuðstól hins tiltekna skuldabréfs. Óumdeilt sé að búið hafi verið að greiða 3.024.442,20 krónur inn á höfuðstólinn löngu áður en hinn umdeildi víxill var gefinn út. Mismunur á ábyrgð varnaraðila og þegar greiddum höfuðstóli hafi numið 1.975.557,80 krónum og hafi varnaraðili greitt þá fjárhæð þann 3. desember 2004.  Hafi þá ekki verið liðinn mánuður frá því að varnaraðila var tilkynnt um kröfuna og þá fyrirætlan sóknaraðila að ganga að ábyrgðinni. Í því sambandi sé ljóst, allt að einu, að kröfur sóknaraðila um innheimtukostnað og vexti eigi ekki við rök að styðjast.

Í greinargerð sóknaraðila er því mótmælt að varnaraðila hafi verið heimilt að skilgreina greiðslu sína sem innborgun á höfuðstól. Þessi mótmæli segir varnaraðili haldlaus, enda hafi honum verið fullkomlega heimilt að skilgreina sína greiðslu í samræmi við þá ábyrgðarskuldbindingu sem á honum hvíldi. Hún hafi verið bundin við höfuðstól, eins og áður hefur komið fram, og því eðlilegt fyrir varnaraðila að binda greiðsluna við höfuðstól sömuleiðis.

Varnaraðili telur þá skýringu sóknaraðila fráleita að honum hafi verið heimilt, fyrst ekki höfðu verið greiddar 5.000.000 krónur inn á höfuðstól bréfsins þegar sóknaraðila þóknaðist, að gefa umræddan víxil út og krefja varnaraðila um greiðslu á allri víxilfjárhæðinni. Sé á það minnt að varnaraðila hafi ekki verið gert viðvart um þessa fyrirætlan sóknaraðila, né hafi varnaraðila gefinn kostur á að gera upp sína ábyrgð í samræmi við efni umboðsins áður en sóknaraðili gaf út víxilinn.  Ef taka ætti röksemdir sóknaraðila til greina sé ljóst að ábyrgð varnaraðila væri ekki bundin við 5 milljónir af höfuðstóli bréfsins heldur einhverja aðra og óskilgreinda upphæð sem eigi sér enga stoð í umboðinu. Þvert á móti sé beinlínis tekið fram að ábyrgðin falli niður af sjálfsdáðum „þegar lánið hefur verið greitt niður um 5.000.000 af höfuðstóli“.  Engu máli skipti samkvæmt orðalagi umboðsins hver greiði lánið niður né hvenær það sé gert.

Að mati varnaraðila skipti hér grundvallarmáli hver skuldbinding varnaraðila hafi verið í raun, en ekki hver hugsanleg víxilskuld varnaraðila kynni að hafa verið. Ljóst sé að víxill sá sem um ræðir sé eyðuvíxill og í raun tryggingavíxill sem varði tiltekna ábyrgðaryfirlýsingu varnaraðila. Hafi sóknaraðila verið veitt heimild til að fylla út víxil ef á þyrfti að halda til að fá fullnustu ábyrgðarinnar. Víxilfjárhæðin hafi ekki mátt nema hærri fjárhæð en 5.000.000 krónum. Gagnályktun leiði hins vegar til þeirrar eðlilegu niðurstöðu að sóknaraðila hefði borið að gefa víxilinn út með fjárhæðinni 1.975.557,80 krónum  og ekki krónu umfram það.  Greiðsla varnaraðila hefði því nægt til uppgjörs á slíkri víxilskuld að öllu leyti.  Telur varnaraðili að sóknaraðili hafi, með alvarlegum og ólögmætum hætti, brotið gegn samkomulagi aðila og undirrituðu umboði til útfyllingar víxileyðublaðinu, gegn betri vitund. Sóknaraðili sé bankastofnun sem beri ríkar skyldur gagnvart viðsemjendum sínum og honum beri að viðhafa heilbrigða viðskiptahætti.  Byggir varnaraðili á því að gagnályktun frá 10. gr. víxillaga nr. 93/1933 styðji þessi sjónarmið. Engu breyti að þessu leyti þótt sóknaraðili hefði skráð fjárhæð inn á víxileyðublaðið sjálft í öndverðu, en telja verði að sóknaraðila hafi verið heimilt að lækka fjárhæð víxilsins, annaðhvort með breytingu á efni hans eða með því að tilgreina innborgun á víxilinn að sömu fjárhæð og nam þegar greiddum innborgunum á höfuðstól skuldabréfsins.

Að framangreindu virtu telur varnaraðili að sýslumaður hafi réttilega og með stoð í 2. mgr. 27. gr. aðfararlaga hafnað beiðni sóknaraðila um fjárnám hjá varnaraðila. Samkvæmt ákvæðinu sé sýslumanni beinlínis veitt heimild til að synja um aðför ef óvíst má telja að gerðarbeiðandi eigi þau réttindi sem hann hyggst tryggja. Þessu skilyrði fyrir aðför hafi að mati sýslumanns ekki verið fullnægt. Engu breytir hér þótt ákvæðið feli í sér undantekningu frá þeirri meginreglu sem fram komi í 1. mgr. þess.  Hér sé um matskennda ákvörðun sýslumanns að ræða og þó vera kunni að rökstuðningur hennar sé fábrotinn breyti það því ekki að dómari mun taka til efnislegrar úrslausnar réttmæti ákvörðunarinnar sem slíkrar, ekki hvort hún hafi verið rökstudd með viðunandi hætti. Í 8. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga, sem aðfararbeiðni sóknaraðila styðst við, sé sérstaklega áskilið að krafa á grundvelli víxils þurfi að vera gild.  Það hljóti því að koma til skoðunar af hálfu sýslumanns, annað hvort ex officio eða eftir ábendingu gerðarþola, hvort fjárkrafa sé í raun gild.  Hér beri einnig að taka tillit til þess að hvorki við meðferð aðfarargerða hjá sýslumanni né við úrlausn dómstóla um réttmæti ákvarðana sýslumanns gildi ákvæði 17. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Skuldari geti því komið að ýmiskonar efnislegum vörnum sem útilokaðar væru í venjulegu víxilmáli og því ljóst að bæði sýslumaður og eftir atvikum dómstólar verði að taka afstöðu til slíkra varna með efnislegum hætti.

Með hliðsjón af framansögðu byggir varnaraðili á því að ákvörðun sýslumannsins í Keflavík hafi verið rétt og hana beri að staðfesta.  Sóknaraðili eigi ekki gilda fjárkröfu á hendur varnaraðila, enda hafi varnaraðili fullnægt sinni ábyrgð með greiðslu þeirri sem að framan getur. Sóknaraðili sé ekki grandlaus handhafi víxils heldur þvert á móti grandvís um grundvöll kröfunnar og þar með vanheimildir sínar til að fylla víxileyðublaðið út með þeim hætti sem gert var. Sóknaraðili hafi fengið greidda að fullu þá fjárhæð sem sóknaraðili hafi sjálfur áskilið sér hjá varnaraðila sem ábyrgðarmanni. Allan vafa um annað beri að túlka varnaraðila í hag.

Að mati varnaraðila er fráleitt að líta svo á að hann kunni að bera ábyrgð á vöxtum og kostnaði vegna vanefnda á skuldabréfinu, svo sem haldið sé fram í greinargerð sóknaraðila. Vísar varnaraðili í því sambandi meðal annars til tómlætis sóknaraðila við að beina kröfu að varnaraðila vegna skuldabréfsins. Það væri og allt að einu í andstöðu við ákvæði ábyrgðaryfirlýsingarinnar og hvernig ábyrgð varnaraðila er skilgreind þar.

Varnaraðili telur beinlínis ranga þá staðhæfingu í greinargerð sóknaraðila að hvergi komi fram í umræddu umboði að ábyrgð varnaraðila lækki að tiltölu við lækkun á höfuðstóli. Í umboðin sé komist svo að orði að ábyrgðin falli niður „þegar lánið hefur verið greitt niður um 5.000.000 af höfuðstóli“.  Í því orðlagi hljóti að felast að ábyrgðin lækki hlutfallslega í samræmi við innborganir á höfuðstól skuldabréfsins.  Byggir varnaraðili á því að sóknaraðili hefði átt að geta þess með skýrum hætti, í raun áskilja það sérstaklega í umboðinu, hafi það verið ætlun hans að binda ábyrgð varnaraðila við 5 milljónir króna óháð innborgunum á höfuðstól skuldabréfsins, allt þar til 5 milljónir króna hefðu verið greiddar og fella þá niður ábyrgðina í heild sinni.  Málatilbúnaður sóknaraðila að þessu leyti sé algerlega röklaus og fráleitur.  Ljóst sé að ábyrgð varnaraðila hafi ekki verið bundin því skilyrði að varnaraðili bæri sjálfur ábyrgð á því að greiða 5 milljónir króna burtséð frá innborgunum annarra á skuldabréfið.

Varakrafa varnaraðila er á því byggð að svo mikill vafi leiki á réttmæti kröfu sóknaraðila, að jafnvel þó svo dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að fallast beri á kröfu sóknaraðila verði varnaraðili að fá tóm til að bera þá ákvörðun undir Hæstarétt án þess að þurfa að þola fjárnám í eignum sínum á grundvelli víxilsins.  Telur varnaraðili að gæta verði meðalhófs í þessu sem öðru, enda vandséð að sóknaraðili verði af verulegum hagsmunum þó svo varnaraðili fái ráðrúm til að skjóta málinu til Hæstaréttar.

IV.

             Svo sem fram er komið studdist sú ákvörðun sýslumannsins í Keflavík, sem sóknaraðili gerir kröfu til að verði felld úr gildi, við 2. mgr. 27. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Ákvæðið hljóðar svo: „Að jafnaði skulu mótmæli gerðarþola ekki stöðva gerðina, nema þau varði atriði, sem sýslumanni ber að gæta af sjálfsdáðum, eða sýslumaður telur mótmæli af öðrum sökum valda því, að óvíst sé að gerðarbeiðandi eigi þau réttindi, sem hann krefst fullnægt, eða að hann eigi rétt á að gerðin fari fram með þeim hætti, sem hann krefst.“ Verður eindregið ráðið af því sem fram er komið í málinu að ákvörðunin hafi verið byggð á því mati sýslumanns í ljósi andmæla varnaraðila að óvíst væri að sóknaraðili ætti þau réttindi sem fjárnáms var krafist fyrir með stoð í 8. tölulið 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga. 

Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 90/1989 kemur meðal annars fram að það sé almenn regla samkvæmt frumvarpinu að ágreiningi um réttmæti málstaðar gerðarbeiðanda eigi fyrst að ráða til lykta fyrir dómi eftir að gerðinni sem slíkri er lokið, vilji gerðarbeiðandi fara þá leið gegn mótmælum gerðarþola. Verði sýslumaður því að beita valdi til að stöðva framgang gerðar vegna mótmæla gerðarþola nánast með því hugarfari að það verði ekki gert nema sýnt sé fram á að verulega líklegt sé að krafa gerðarbeiðanda fái ekki staðist að lögum.

Að því er framkomin andmæli varnaraðila varðar er fyrst til þess að líta að ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður ekki beitt þegar leitað er fullnustu án undangenginnar málssóknar á kröfu samkvæmt víxli með fjárnámi í skjóli heimildar í 8. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 88/2000 sem birtur er í dómsafni réttarins það ár á bls. 1447. Sæta varnir, sem varnaraðila er heimilt að hafa uppi gegn kröfu sóknaraðila, því ekki takmörkunum samkvæmt 118. gr. laga nr. 91/1991. Ákvæði víxillaga leiða á hinn bóginn til þess að heimildir gerðarþola til að hafa uppi við fjárnám varnir sem lúta að efnisatriðum í sambandi við kröfu samkvæmt víxli eru háðar nánast sömu takmörkunum og gilda um heimildir hans ef dómsmál er höfðað um kröfuna eftir XVII. kafla einkamálalaga. Þær takmarkanir eiga hins vegar ekki við ef víxilhafi er upphaflegur viðsemjandi skuldarans, en þegar þannig háttar til getur gerðarþoli borið fyrir sig hvers kyns atriði sem lúta að lögskiptum að baki víxlinum. Á þetta við um þá aðstöðu sem uppi er í því máli sem hér er til úrlausnar.

Víxilskjal það, sem mál þetta snýst um, var svo sem fram er komið ekki útfyllt hvað varðaði fjárhæð, útgáfudag og gjalddaga þegar sóknaraðili móttók það 20. mars 2000. Efni umboðs sem varnaraðili þá veitti sóknaraðila til að fylla víxilskjalið út að þessu leyti og gera það þannig að fullgildum víxli er rakið í kafla I hér að framan. Liggur að mati dómsins beinast við að skýra það á þann veg að heimiluð víxilfjárhæð samkvæmt því hafi átt að lækka frá þeirri hámarksfjárhæð sem þar er tilgreind og til samræmis við lækkun á höfuðstól skuldabréfsins og að ábyrgðin ætti að falla niður þegar höfuðstóllinn hefði verið greiddur niður um 5.000.000 krónur. Að öðrum kosti hefði til að mynda ekkert átt að vera því til fyrirstöðu að tilgreind hámarksfjárhæð yrði færð inn á víxilskjalið áður en sóknaraðili móttók það og að umboð til að gera það að fullgildum víxli tæki þá aðeins til útgáfudags og gjalddaga. Hafi það verið ætlun sóknaraðila að afla sér ábyrgðar umfram þetta bar honum að sjá til þess að ábyrgðaryfirlýsingin væri orðuð með þeim hætti að hún hefði ótvírætt það efnislega innihald sem á er byggt af hans hálfu.

Óumdeilt er að höfuðstóll umrædds skuldabréfs hafði verið greiddur niður um 3.024.442 krónur þá er sóknaraðili neytti heimildar sinnar til að fylla víxilskjalið út. Samkvæmt þessu og að því gefnu að framangreindur skilningur á efni umboðsins verði lagður til grundvallar teldist stefnanda hafa farið út fyrir þá heimild sem umboðið veitti honum þá er hann færði fjárhæðina 5.000.000 krónur inn á víxilskjalið. Styddist fjárkrafa sóknaraðila þá við víxil sem ekki væri gildur að lögum, sbr. 10. gr. víxillaga nr. 93/1933. Var sýslumanni samkvæmt þessu og öðru því sem rakið er hér að framan rétt að hafna beiðni sóknaraðila um fjárnám hjá varnaraðila.

Samkvæmt framansögðu er kröfum sóknaraðila hafnað og ákvörðun sýslumannsins í Keflavík 10. febrúar 2005 um að synja beiðni sóknaraðila um fjárnám hjá varnaraðila staðfest.

Eftir framangreindum málsúrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 200.000 krónur í málskostnað.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

             Ákvörðun sýslumannsins í Keflavík 10. febrúar 2005 um að hafna beiðni sóknaraðila, Sparisjóðsins í Keflavík, um fjárnám hjá varnaraðila, Grágás ehf., er staðfest.

             Sóknaraðili greiði varnaraðila 200.000 krónur í málskostnað.