Hæstiréttur íslands
Mál nr. 477/2005
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 1. júní 2006. |
|
Nr. 477/2005. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn Dany Hudson Tavares De Sa (Björgvin Jónsson hrl.) |
Líkamsárás. Skilorð.
D var gefið að sök að hafa slegið A í andlitið með glasi með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð fyrir ofan vinstri augabrún, hrufl á vinstra augnloki og grunn sár við nefrót og enni. D játaði sakargiftir og þótti brot hans réttilega fært undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þótti ekki koma til álita að lækka refsingu D með vísan til 3. mgr. 218. gr. a sömu laga þar sem ekki yrði nægilega ráðið af framburði vitna að atlaga hans hefði verið unnin í áflogum eða átökum við A. Þá þótti ekki í ljós leitt að háttsemi A hefði verið með þeim hætti að 1. eða 4. tl. 74. gr. laganna ætti við. Hins vegar þótti nægilega í ljós leitt að A hefði ítrekað áreitt D umrædda nótt og var litið til þess við ákvörðun refsingar hans. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin sex mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. nóvember 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að refsing hans verði látin niður falla, til vara að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið en að því frágengnu að refsing verði milduð og skilorðsbundin.
Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa aðfaranótt 3. júlí 2004 á skemmtistaðnum Opus í Hafnarstræti í Reykjavík slegið A í andlitið með glasi sem við það hafi brotnað með þeim afleiðingum að hann hlaut 4 cm skurð fyrir ofan vinstri augabrún, hrufl á vinstra augnloki og grunn sár við nefrót og á enni. Í hinum áfrýjaða dómi er brot hans réttilega fært undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Eins og þar kemur fram hefur ákærði játað sakargiftir. Hann hefur hins vegar borið því við að A hafi átt upptökin og vísar í því efni til 3. mgr. 218. gr. a. laganna og 1. og 4. töluliðar 1. mgr. 74. gr. sömu laga. Í fyrsta lagi hafi A ítrekað ýtt við sér á dansgólfi skemmtistaðarins. Í öðru lagi hafi A síðar um kvöldið er þeir voru við barinn ýtt við sér og einnig hafi hann ásamt vinum sínum kýlt sig. Hafi ákærði þá svarað í sömu mynt. Loks kvaðst hann síðar um nóttina hafa átt leið framhjá barnum og hafi A og „einhverjir vinir hans“ byrjað að kýla sig og berja. Kvaðst ákærði þá hafa verið með bjórglas í hendi og slegið A í andlitið. Framburður ákærða um að A hafi reitt hann til reiði með þessum hætti er á sama veg við rannsókn lögreglu og fyrir dómi og fær hann nokkurn stuðning í vætti B, vinar A, og C, vinar ákærða, en báðir voru á skemmtistaðnum þessa nótt. Bar C fyrir dómi að A og félagi hans hafi ítrekað ónáðað ákærða. A hafi ýtt við ákærða á dansgólfinu og verið að „espa til slagsmála“. C kvaðst hins vegar ekki hafa orðið var við handalögmál milli þeirra, en séð A „gera tilraun til að slá Dany með hnefa“. Kvaðst vitnið við svo búið hafa dregið ákærða á brott með sér. Ljóst er af framburði C að hann sá ekki aðdraganda þess að ákærði sló A með glasinu. Vitnið B skýrði svo frá hjá lögreglu að A hafi fyrr um nóttina „frekar ... átt upptökin af þessum deilum“ og seinna um nóttina hafi hann séð „einhver slagsmál vera í uppsigi, tveir menn hafi skipst á höggum“. Skyndilega hafi annar þeirra, sem hann skömmu síðar sá að var A, gripið um andlitið og úr því byrjað að blæða, en ákærði hlaupið á brott. Vitnið kvaðst fyrir dómi ekki hafa séð hvor átti upptökin, en fullyrti þá að ekki hafi verið um átök að ræða. Framburður A var nokkuð á reiki. Við rannsókn málsins skýrði hann svo frá að hann hafi verið nýkominn á barinn þegar ákærði sló hann fyrirvaralaust með glasinu. Í yfirheyrslu fyrir dómi bar hann hins vegar að snemma um kvöldið hafi þeir ákærði verið með „einhverjar ýtingar á dansgólfinu“ og sérstaklega spurður um hvort þeim hafi lent saman á barnum bar hann að það gæti verið að hann hafi ýtt við ákærða, en neitaði með öllu að hafa ráðist á eða kýlt hann. Hann neitaði því einnig að þeir hafi lent í handalögmálum.
Fallist er á með héraðsdómi að sú háttsemi ákærða að slá brotaþola í andlitið með glasi hafi verið hættuleg. Er ekkert fram komið í málinu sem réttlættir þann verknað. Ekki verður nægilega ráðið af framburði vitna að atlaga ákærða hafi verið unnin í áflogum eða átökum milli hans og brotaþola. Kemur því ekki til álita að lækka refsingu ákærða með vísan til 3. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga. Þá er heldur ekki í ljós leitt að háttsemi A hafi verið með þeim hætti að 1. eða 4. töluliður 74. gr. laganna eiga hér við. Hins vegar er nægilega í ljós leitt með staðföstum framburði ákærða, sem að nokkru fær stoð í framburði vinar hans C, A sjálfs og vinar hans B, að A hafi ítrekað áreitt ákærða umrædda nótt og verður til þess litið við ákvörðun refsingar hans. Ákærði hefur ekki fyrr sætt refsingu svo vitað sé. Er hún hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, en rétt þykir að fresta fullnustu hennar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Dany Hudson Tavares De Sa, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, samtals 172.657 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 149.400 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2005.
Mál þetta var höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 14. apríl sl. á hendur Dany Hudson Tavares De Sa, [kt], Hvammabraut 12, Hafnarfirði ,,fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 3. júlí 2004, á skemmtistaðnum Opus, Hafnarstræti 7, Reykjavík, slegið A, [kt], í andlitið með glasi sem við það brotnaði, með þeim afleiðingum að hann hlaut 4 cm langan skurð fyrir ofan vinstri augabrún, hrufl á vinstra augnlok og grunn sár við nefrót og á enni.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Ákærði krefst þess að refsing ákærða verði látin niður falla, en til vara að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið. Til þrautavara er þess krafist að ákærða verði eingöngu gerð sú vægasta refsing sem lög frekast heimila og að refsing verði alfarið skilorðsbundin. Þá er þess krafist að verjanda verði tildæmd hæfileg málsvarnarlaun.
Málsatvik.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 3. júlí 2004 var lögregla send að skemmtistaðnum Ópus í Hafnarstræti aðfaranótt 3. júlí 2004, en þaðan hafði borist tilkynning um slagsmál. Á vettvangi var A, blóðugur í andliti með stóran skurð á vinstri augabrún. Vildi A ekki aðstoð lögreglu og var mjög æstur. Hann sættist þó á að fara á bráðamóttöku LSH í Fossvogi og var fluttur þangað með sjúkrabifreið. Á slysadeild ræddi lögreglumaðurinn Guðmundur Ingi Rúnarsson við A og kvað hann þá mann, dökkan á hörund, hafa kýlt sig í andlitið með glerflösku, en fyrr um kvöldið hefði A verið að deila við hann. A kvað mann þennan hafa verið að espa sig upp og verið með leiðindi. Á vettvangi hittust fyrir þeir B og C, sem báðir voru á veitingastaðnum er átökin urðu milli A og ákærða.
Við lögregluyfirheyrslu yfir A 5. júlí 2004 kvaðst A hafa verið mjög skamma stund á veitingastaðnum Ópus er ákærði hafi slegið hann í andlitið með bjórkrús. Krúsin hafi brotnað og hafi A skorist töluvert í andliti. Kvaðst A ekkert kannast við ákærða og ekki hafi komið til orðaskipta milli þeirra.
Við lögregluyfirheyrslu 31. janúar 2005 skýrði A svo frá að um miðjan júní 2004 hefði hann farið á veitingastaðinn Ópus ásamt vini sínum, D, og hefði vinur hans farið að deila við ákærða. A hefði farið að dansa við einhverja stúlku á veitingastaðnum og ákærði og A ýtt hvor við öðrum, en ekkert annað gerst, fyrr en þeir hittust aftur aðfaranótt 3. júlí 2004.
Samkvæmt áverkavottorði frá 3. ágúst 2004 kom A á slysadeild LSH Fossvogi, aðfaranótt 3. júlí 2004. Í vottorðinu segir að við skoðun hafi hann verið með um 4 sm skurð á enni fyrir ofan vinstri augabrún. Hann hafi einnig verið með hruflsár á augnloki fyrir neðan vinstri augabrún. Einnig hafi hann verið með tvö grunn sár vinstra megin á nefi, yfir nefrótina og einnig víðar á enni. Hann hafi kvartað um óþægindi í vinstra auga, eins og það væri glerbrot þar, en eftir að skolað hafði verið vandlega úr auganu hafi ekki verið að sjá merki um sár eða aðskotahlut í auganu. Þá hafi hann verið með gips á hægri hendi eftir fyrri áverka. Saumuð hafi verið 8 spor í sár á ennið. Sár á nefi og fyrir neðan augabrún hafi verið límd saman með límplástri. Greining slysadeildar var sár í andliti og aðskotahlutir í auga.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði, Dany Hudson Tavares De Sa, kvaðst hafa verið að fara að dansa á veitingastaðnum Ópus umrætt kvöld og hafi A, sem ákærði hafði aldrei séð áður, komið að ákærða og ýtt við honum, aftan frá. Kvaðst ákærði hafa talið í fyrstu að það hafi verið óvart, en það hafi gerst aftur og A hafi slegið til ákærða og þeir þá farið að slást, en engin orð hafi fallið á milli þeirra. Þá hafi komið dyravörður þar að og skilið þá að. Síðan hafi dálítill tími liðið og hafi ákærði staðið við barinn er A hafi aftur komið að ákærða og ýtt við ákærða, aftan frá. Einhver vinur A hafi verið með honum og þeir hafi byrjað að kýla ákærða. Hafi ákærði kýlt til baka. Vinur A hefði komið þar að og skilið þá að og reynt að tala við A. Ákærði hefði þá farið á annan bar, en komið aftur til baka á Opus skömmu síðar. Hann hafi sest niður á barnum, en þá hafi A aftur birst og verið með einhver leiðindi. Ákærði kvaðst þá hafa ætlað á salernið, en á leiðinni þangað hafi A komið að ákærða ásamt tveimur vinum A og byrjað að kýla ákærða. Höggin hafi aðallega lent í andliti og á bringu ákærða. Ákærði hafi þá verið með bjórglas í vinstri hendi og kvaðst ákærði hafa slegið því í andlit A og hafi glasið brotnað á andliti hans. Ákærði kvaðst ekki hafa leitt hugann að því að hann væri með glas í hendinni, um ósjálfráð viðbrögð hafi verið að ræða. Ákærði kvaðst vera rétthentur. Síðan hafi ákærði farið af staðnum, en lögreglan hafi stöðvað vin hans, C, og rætt við hann. Þeir hafi svo hist daginn eftir og þá hafi ákærði farið til lögreglunnar. Ákærði kvaðst hafa drukkið um 3 bjóra umrætt kvöld. Ákærði kvað einhverja vini ákærða hafa komið út á eftir ákærða er hann yfirgaf skemmtistaðinn og hafi þeir átt í einhverju orðaskaki við ákærða. Ákærði kvaðst ekki hafa séð A eftir árásina.
Ákærði kvaðst hafa flutt til Íslands fyrir tveimur árum síðan. Hann kvaðst vera í vinnu hjá fyrirtækinu Gullfiskur.
Vitnið, C, kvaðst vera vinur ákærða og hefðu þeir ákærði og tvær stúlkur sem með þeim voru, sest við borð nálægt dansgólfinu á veitingastaðnum Ópus umrætt kvöld. Þau hafi verið á leið á dansgólfið er hópur manna hafi komið að og einhver maður ýtt við ákærða. Ákærði hafi snúið sér við og ákærði og þessi maður farið að rífast, en vitnið kvaðst hafa leitt ákærða að borðinu aftur. Eftir stutta stund hafi maðurinn komið aftur og farið að atast í ákærða og hafi vitnið ítrekað fengið ákærða til að leiða þetta hjá sér. Þeir hafi síðan farið af veitingastaðnum og yfir á Kaffi Viktor, enda kvaðst vitnið hafa séð að þeir gátu ekki skemmt sér á Opus, vegna þessa manns, sem sífellt var að áreita þá. Er þeir hafi snúið aftur á veitingastaðinn hafi maðurinn verið þar enn og vandræðin byrjað á ný. Vitnið kvaðst hafa reynt að ræða við dyraverði og fá þá til að hafa afskipti af ákærða og A, en þeir hafi ekki gert það. Vitnið kvaðst hafa reynt að draga ákærða í burtu og eftir stutta stund hafi þeir orðið ölvaðir. Kvaðst þá vitnið ekki muna eftir sér fyrr en hann var staddur fyrir utan veitingastaðinn og hafi þurft að dvelja nótt í fangageymslu lögreglu. Vitnið kvaðst ekki hafa séð nein hnefahögg ganga á milli ákærða og A, enda kvaðst vitnið ávallt fá ,,blackout” er hann verði vitni að átökum undir áhrifum áfengis. Vitnið kvaðst þó hafa séð A reyna að slá ákærða, en áður en til þess hafi komið hafi vitnið dregið ákærða í burtu. Vitnið kvaðst ekki hafa séð er ákærði sló A með bjórglasinu. Vitnið kvaðst heldur ekki hafa séð að ákærði ætti frumkvæði að átökum, enda sé það ekki líkt ákærða að standa í slíku. Vitnið kvaðst hafa drukkið mikið áfengi þetta kvöld.
Vitnið, E, frændi A, kvaðst hafa verið staddur á veitingastaðnum umrætt kvöld, ásamt A, en áður hefði hann verið heima hjá A að drekka. Vitnið kvaðst hafa staðið við barinn veitingastaðnum umrætt kvöld og hafi A staðið fyrir aftan vitnið, en vitnið kvaðst ekki hafa haft augun á A þann tíma sem þeir voru á veitingastaðnum. Vitnið kvaðst allt í einu hafa séð að glerbrotum rigndi yfir fót vitnisins og hafi vitnið snúið sér við og hafi þá A haldið um andlit sitt. Vitnið kvaðst ekki hafa séð neitt til samskipta ákærða og A fyrr um kvöldið. Ákærði hafi síðan gengið út og vinur A hafi gengið á eftir ákærða út. Vitnið kvað síðan slagsmál hafa brotist út milli ákærða og vinar A fyrir utan veitingastaðinn. Vitnið kvaðst hafa verið mjög ölvað umrætt kvöld.
Vitnið, A, kvaðst hafa komið á veitingastaðinn Opus umrætt kvöld ásamt E vini hans um tólfleytið. Þá hafi þeim ákærða lent saman á dansgólfinu, þeir hafi ýtt hvor við öðrum og B, vinur vitnisins hafi stíað þeim í sundur. Vitnið kvaðst ekki muna hvers vegna þetta hafi verið. Vitnið kvaðst hafa verið með gifs á hægri hendi, en hann sé rétthentur og kvaðst ekki hafa kýlt ákærða, þannig á sig kominn. Síðan hafi vitnið farið af veitingastaðnum heim til sín og fengið sér að drekka. Ákærði kvaðst hafa fundið á sér áfengisáhrif um kvöldið. Þegar þeir E hafi komið aftur á veitingastaðinn um tveimur tímum síðar hafi ákærði gengið að honum nánast um leið og hann kom inn á staðinn og barið hann í andlitið með glasi og hafi glasið brotnað. Vitnið kvaðst hafa verið statt á barnum er þetta gerðist.
Er borinn var undir vitnið framburður E fyrir dómi, um að A hefði verið búinn að vera við barinn í um 20-30 mínútur er A varð fyrir árás ákærða, kvaðst vitnið hafa orðið fyrir höfuðhöggi þetta kvöld og minnið væri ekki alveg í lagi.
Spurður um hvort vitnið hefði ráðist á ákærða þetta kvöld, kvaðst vitnið hafa ýtt við honum, en ekki gefið honum slíkt tilefni til að berja hann með glasi í höfuðið.
Vitnið, B, kvaðst vera vinur A. Hann kvaðst hafa hitt A á Opus umrætt kvöld. Vitnið hafi staðið umrætt kvöld við barinn og A og ákærði hafi staðið öðrum megin við barinn en vitnið hinum megin. Vitnið kvaðst ekki vita hver hafi átt upptökin að þeim deilum. Er borinn var undir vitnið framburður vitnisins í lögregluskýrslu um að A hefði frekar átt upptökin að deilunum en ákærði, kvað vitnið langt um liðið og það geti vel verið að A hafi frekar átt upptökin, en vitnið sé ekki með það á hreinu. Þeir A og ákærði hafi ýtt hvor við öðrum og hafi vitnið þá gengið á milli og stíað þeim í sundur. Þeir hafi ekki verið að kýla hvor annan, en ýta hvor við öðrum. Talsvert seinna um kvöldið hafi vitnið verið að dansa á dansgólfinu og hafi þá tekið eftir því að einhver æsingur var við barinn. Vitnið hafi litið í áttina að barnum og séð að A hélt höndum fyrir andlit sitt og kvaðst vitnið hafa séð blóð drjúpa af höndum hans. Vitnið kvað að sér hefði strax dottið í hug að ákærði hefði verið þar að verki, vegna þess að ákærði og A hefðu fyrr um kvöldið verið að kýta. Vitnið hafi litið í átt til ákærða,en ákærði hefði þá gripið jakka sinn af stól og hlaupið af stað. Vitnið hafi hlaupið á eftir ákærða og ýtt í bakið á honum. Ákærði hafi snúið sér við og þeir hafi lent í slagsmálum. Vitnið kvaðst ekki vita hver hefði verið með A umrætt kvöld. Vitnið kvaðst ekki telja að A hefði yfirgefið veitingastaðinn og enga möguleika á að A hefði farið burt af veitingastaðnum í 2-3 klukkustundir.
Vitnið kvaðst hafa fundið til áfengisáhrifa þetta kvöld, en hann kvaðst muna atburði vel.
Vitnið, Guðmundur Ingi Rúnarsson lögreglumaður, kvaðst hafa komið á vettvang umrætt kvöld, en kvaðst muna mjög lítið eftir atvikum. Þó kvaðst vitnið muna eftir því að A hefði verið á vettvangi, mjög ölvaður og æstur. Þá hafi töluvert blætt úr honum en lögreglumenn og sjúkraflutningamenn hafi þurft að beita hann fortölum til að fá hann til að líta á skurðina í andliti hans. Vitnið staðfesti skýrslu þá sem það gerði og liggur frammi í málinu.
Niðurstaða.
Ákærði hefur játað að hafa slegið A í andlitið með glasi og hafi glasið brotnað á andliti hans. Ákærði kvað hins vegar tiltekinn aðdraganda hafa verið að árás sinni á A og kvaðst hvorki geta játað því né neitað að afleiðingar árásar hans hafi verið þær sem í ákæru greinir.
Samkvæmt læknisvottorði Theódórs Friðrikssonar frá 3. ágúst 2004, voru áverkar A þeir sem í ákæru greinir, er hann kom á slysadeild LSH umrædda nótt og samkvæmt vætti Guðmundar Inga Rúnarssonar hafði ákærði skurði í andliti sem mikið blæddi úr, þegar lögregla kom á vettvang. Er samkvæmt framangreindu sannað að áverkar A voru þeir sem í ákæru greinir. Er ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Samkvæmt framburði vitnisins A höfðu þeir ákærði átt í einhverjum útistöðum á veitingastaðnum Opus fyrr um kvöldið, áður en atburðir þeir sem greinir í ákæru áttu sér stað. Vitnið A kvað þá einungis hafa ýtt hvor við öðrum, en vitnið kvaðst hafa verið í gifsi á hægri hendi og því ekki getað kýlt ákærða, eins og ákærði hefur haldið fram að hann hafi gert. Framburður vitnisins B er á sama veg, að ákærði og vitnið A hafi verið að ýta hvor við öðrum, en vitnið B hafi gengið á milli þeirra og skilið þá að. Vitnið kvaðst ekki muna glöggt eftir því hvor þeirra átti þá upptökin en kvaðst ekki útiloka að það hefði verið A, eins og vitnið greindi frá í lögregluskýrslu. Ákærði hefur borið fyrir dómi að vitnið A og vinir hans hafi ítrekað áreitt ákærða og slegið hann, áður en ákærði sló til A með bjórglasi. Framburður vitnisins C rennir nokkrum stoðum undir þennan framburð ákærða, en við mat á sönnunargildi framburðar hans verður að líta til tengsla hans við ákærða og þess að vitnið kvaðst hafa drukkið mikið áfengi um kvöldið og fái ávallt ,,blackout” er það verði vitni að átökum. Önnur vitni sem komu fyrir dóm hafa ekki getað staðfest framburð ákærða um atburðarás frá því að deilur spruttu fyrst milli ákærða og A, fram að árás ákærða á A.
Játning ákærða liggur fyrir um að hann hafi slegið vitnið, A, í andlitið með bjórglasi, sem brotnaði í andliti hans. Jafnvel þótt dómurinn telji sannað að þeir A og ákærði hafi fyrr um kvöldið deilt og stjakað hvor við öðrum, og ekki sé útilokað að A hafi átt upptökin að þeim deilum, réttlætir það á engan hátt hættulega árás ákærða á A, síðar um kvöldið, en árás þar sem glerhlut er slegið í andlit er ávallt afar hættuleg og ræður því tilviljun ein, hvaða áverkar hljótast af því.
Ákærði hefur aldrei áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé. Hann játaði þá háttsemi sem greinir í ákæru og verður litið til þess við ákvörðun refsingar. Á hinn bóginn verður einnig litið til þess hve hættuleg árás ákærða var. Þegar framangreint er virt er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 6 mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu þriggja mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði sakarkostnað málsins, sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Ólafsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.
Uppkvaðning dómsins hefur dregist nokkuð vegna anna dómara.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Dany Hudson Tavares De Sa, sæti fangelsi í 6 mánuði, en frestað er fullnustu 3 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði sakarkostnað málsins, sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.