Hæstiréttur íslands
Mál nr. 168/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Framsal sakamanns
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. mars 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2017, þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðherra frá 3. janúar sama ár um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kærumálskostnaður greiddur úr ríkissjóði að mati réttarins.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Kristrúnar Elsu Harðardóttur héraðsdómslögmanns, 248.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2017.
Með bréfi ríkissaksóknara 13. febrúar 2017 var vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur kröfu varnaraðila um að úrskurðað yrði um það hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi vegna ákvörðunar innanríkisráðuneytisins 3. janúar 2017, um að fallast á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um að framselja varnaraðila til Póllands. Er í þessu efni vísað til II. kafla laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984 og 1. mgr. 2. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Af hálfu sóknaraðila er krafist staðfestingar á ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 3. janúar 2017, um að framselja varnaraðila til Póllands.
Varnaraðili krefst þess að framsalskröfunni verði hafnað. Þá er krafist réttargæsluþóknunar úr ríkissjóði að mati dómsins.
I.
Í máli þessu er leitað endurskoðunar á ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 3. janúar 2017, um framsal varnaraðila, sem er pólskur ríkisborgari. Í beiðni um framsal, sem er frá 19. ágúst 2015, útgefinni af saksóknara í Póllandi, er óskað eftir framsali varnaraðila, með vísan til Evrópuráðssamningsins um framsal sakamanna, til meðferðar sakamáls vegna gruns um refsiverðan verknað. Fram kemur að varnaraðili sé í fyrsta lagi grunaður um að hafa í desember 2003 verið þátttakandi í skipulögðum brotasamtökum, en markmið samtakanna hafi m.a. falið í sér mannrán gegn lausnargjaldi, húsbrot, þjófnaði af heimilum og þjófnaði á farmi eða vörum, fjármunum og bifreiðum. Teljist sú háttsemi varða við 2. mgr. 258. gr. pólsku hegningarlaganna, sbr. 175. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í öðru lagi sé varnaraðili grunaður um að hafa þann 1. desember 2003, í félagi við aðila í skipulagðri brotastarfsemi, dulbúist sem lögreglumaður við umferðareftirlit og framið vopnað rán gegn nafngreindum ökumanni vöruflutningabifreiðar. Teljist sú háttsemi varða við 2. mgr. 280. gr. og 227. gr., sbr. 2. mgr. 11. gr. og 1. mgr. 65. gr. pólsku hegningarlaganna, sbr. 252. gr. og 116. gr. laga nr. 19/1940. Í þriðja lagi sé varnaraðili grunaður um hilmingu innan skipulagðra brotasamtaka þann 21. desember 2003. Teljist sú háttsemi varða við 1. mgr. 291. gr., sbr. 1. mgr. 294. og 1. mgr. 65. gr. pólsku hegningarlaganna, sbr. 254. gr. laga nr. 19/1940.
Í framsalsbeiðninni er vísað til þess að í málinu liggi fyrir framburður tveggja nafngreindra vitna ásamt öðrum gögnum sem renni stoðum undir ætlaða refsiverða háttsemi varnaraðila. Með úrskurði dómstóls í Varsjá, 13. mars 2014, hafi varnaraðila verið gert að sæta 14 daga varðhaldi í kjölfar handtöku. Saksóknari í Varsjá hafi fyrirskipað leit að varnaraðila með ákvörðun 20. mars 2014 og þann 21. nóvember 2014 hafi evrópsk handtökuskipun verið gefin út. Með framsalsbeiðninni fylgdi úrskurður dómstólsins í Varsjá og ákvörðun saksóknara um leit, ásamt viðeigandi lagaákvæðum og ljósmynd af varnaraðila. Þá er meðal gagna málsins evrópsk handtökuskipun á hendur varnaraðila.
Eftir að eftirlýsingin og handtökuskipunin barst yfirvöldum hér á landi tók lögreglustjórinn á Suðurlandi skýrslu af varnaraðila, 6. ágúst 2014, þar sem honum var kynnt að hann væri eftirlýstur af pólskum yfirvöldum með framsal í huga. Var varnaraðili inntur eftir afstöðu hans til væntanlegrar framsalskröfu pólskra yfirvalda og kvaðst hann mótmæla henni. Varnaraðili kvaðst ekki kannast við umrædd tilvik. Hann hefði ekki framið hin ætluðu brot eða kannast við þá aðila eða staðhætti sem þar væru tilgreindir. Hann kvaðst hafa komið til Íslands árið 2007 í þeim tilgangi að vinna og ekki verið að leynast hér á landi fyrir pólskum yfirvöldum. Þá kvaðst hann ekki eiga ættingja hér á landi. Í kjölfar þess að ríkissaksóknara barst formleg framsalsbeiðni til afgreiðslu var málið sent til lögreglustjórans á Suðurlandi þar sem beiðnin var kynnt honum, 6. nóvember 2015. Aðspurður kvað varnaraðili framsalsbeiðnina eiga við hann en neitaði sakargiftum og kvaðst ekki kannast við neitt af þeim brotum sem þar væru tilgreind. Var varnaraðila kynnt efni 7. gr. laga nr. 13/1984. Með bréfi innanríkisráðuneytisins 9. febrúar og 8. júní 2016 var óskað eftir frekari upplýsingum frá pólskum yfirvöldum varðandi hin ætluðu brot, málsmeðferð og rof á fyrningarfresti samkvæmt pólskum lögum. Bárust ráðuneytinu upplýsingar með bréfum sem móttekin voru 7. apríl og 2. ágúst 2016. Þar kemur m.a. fram að framangreind brot hafi öll verið framin í desember 2003 og ákæra gefin út vegna þeirra 4. febrúar 2009. Málsmeðferð fyrir dómi hafi þá ekki hafist vegna fjarveru varnaraðila. Af sömu ástæðum hafi ekki tekist að birta varnaraðila ákæruna, fá framburð hans eða afhenda honum gögn málsins. Málmeðferð hafi því verið frestað frá 10. desember 2010.
Ríkissaksóknari sendi innanríkisráðuneytinu gögn málsins ásamt álitsgerð varðandi lagaskilyrði framsals 17. ágúst 2016. Í álitsgerð ríkissaksóknara eru skilyrði laga nr. 13/1984 samkvæmt 1. gr., 1. mgr., 2. mgr. og 5. mgr. 3. gr., 8. gr., 10. gr. og 12. gr. talin uppfyllt. Einnig skilyrði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984 að því leyti sem ætluð brot séu ófyrnd.
Varnaraðili hefur sætt farbanni frá 6. ágúst 2015 vegna málsins og sætir farbanni til 2. maí nk. kl. 16.00.
II.
Um skilyrði framsals samkvæmt I. og II. kafla laga nr. 13/1984 vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili, sem er pólskur ríkisborgari, sé grunaður um refsiverða háttsemi í heimalandi sínu. Varnaraðili sé grunaður um þrjú brot. Myndi það fyrsta varða við 175. gr. a laga nr. 19/1940, það næsta við 252. gr. og 116. gr. laga nr. 19/1940 og það þriðja og síðasta við 254. gr. laga nr. 19/1940.
Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984 sé framsal óheimilt ef sök eða dæmd refsing sé fyrnd eða að öðru leyti fallin niður samkvæmt íslenskum lögum. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 19/1940 séu ætluð brot fyrnd sem myndu varða við 2. mgr. 258. gr., 1. mgr. 291. gr., sbr. 1. mgr. 294. og 1. mgr. 65. gr. pólsku hegningarlaganna, sbr. 116. gr., 175. gr. a. og 254. gr. laga nr. 19/1940. Samkvæmt gögnum málsins hafi fyrning ekki verið rofin innan þess frest sem getið sé um í 2. tl. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984. Á hinn bóginn sé það mat ríkissaksóknara að samkvæmt 4. tl. 1. mgr. og 4. mgr. 81. gr. laga nr. 19/1940 séu ætluð brot ófyrnd að íslenskum lögum, sem myndu varða við 2. mgr. 280. gr. og 227. gr., sbr. 2. gr. 11. gr. og 1. mgr. 65. gr. pólsku hegningarlaganna, sbr. 252. gr. og 116. gr. laga nr. 19/1940. Innanríkisráðuneytið hafi lagt það mat á aðstæður, að virtum málsatvikum, að ekki væru nægjanlegar ástæður fyrir hendi til að réttmætt væri að synja um framsal á grundvelli 7. gr. laga nr. 13/1984. Þá telji ráðuneytið að 8. gr. sömu laga stæðu ekki í vegi fyrir framsalli.
Með vísan til þessa teljist efnisskilyrði framsals uppfyllt að því er varði ætlað rán varnaraðila en vegna fyrningar teljist skilyrði framsals ekki uppfyllt að því er varði ætluð önnur brot hans.
III.
Varnaraðili byggir á því að í framsalsbeiðni pólskra yfirvalda frá 19. ágúst 2015, sem og í greinargerð sóknaraðila til dómsins frá13. febrúar 2017, sé farið yfir þau brot sem varnaraðili sé sakaður um að hafa framið í Póllandi og krafist sé framsals vegna. Í álitsgerð sóknaraðila til innanríkisráðuneytisins, 17. ágúst 2016, komi fram að sóknaraðili telji þau brot sem tiltekin séu í lið 1 og 3 í framsalsbeiðni pólskra yfirvalda fyrnd. Innanríkisráðuneytið hafi lýst því í ákvörðun sinni um að framselja varnaraðila 3. janúar 2017, að það mat sóknaraðila yrði ekki endurskoðað. Verði því ekki fjallað sérstaklega um þau brot heldur umfjöllun beint sérstaklega að því broti sem sóknaraðili og innanríkisráðuneytið telji ófyrnt og tiltekið sé í lið 2 í framsalsbeiðninni og greinargerð sóknaraðila.
Broti því sem sóknaraðili telji ófyrnt sé lýst í framsalsbeiðni pólskra yfirvalda. Varnaraðili sé sakaður um að hafa, í samverknaði við aðra og sem hluti af skipulögðum glæpasamtökum, dulbúinn sem lögreglumaður, framið vopnað rán með því að stöðva flutningabifreið, beita bílstjórann ofbeldi, hóta honum, binda hann á höndum og fyrir augu hans með límbandi, aka honum burt af vettvangi ránsins og aka svo á brott í hinni stolnu bifreið með þann varning sem í henni var. Verðmæti bílsins hafi verið talið um 55.000 pólsk slot og varningsins um 146.200 pólsk slot eða samtals 201.200 pólsk slot. Á gengi dagsins í dag sé um að ræða 5.231.200 íslenskar krónur.
Líkt og fram komi í greinargerð sóknaraðila varði framangreint brot við 252. gr. og 116. gr. laga nr. 19/1940. Það ákvæði sem hafi að geyma þyngstu refsinguna sé ákvæði 252. gr. laganna sem varði fangelsi allt að 10 árum. Í lokamálslið þess ákvæðis segi að hafi mjög mikil hætta verið samfara ráninu geti refsingin þó orðið allt að 16 ára fangelsi. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 13/1984 sé framsal óheimilt ef sök eða dæmd refsing sé fyrnd eða að öðru leyti fallin niður samkvæmt íslenskum lögum. Samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 19/1940 fyrnist sök á 10 árum þegar ekki liggi þyngri refsing við broti en 10 ára fangelsi. Refsirammi 252. gr. laganna sé allt að 10 ára fangelsi, nema mjög mikil hætta hafi verið samfara ráninu, en þá sé refsiramminn 16 ár. Hinum 16 ára refsiramma hafi ekki verið beitt í íslenskri dómaframkvæmd og ekki vísað til hans, ekki einu sinni í þekktustu og alvarlegustu málunum sem komið hafi fyrir íslenska dómstóla og varði brot gegn 252. gr. laga nr. 19/1940.
Hugtakið mjög mikil hætta, sem fram komi í lokamálslið 252. gr. laga nr. 19/1940, sé hvergi skilgreint, hvorki í frumvarpi til almennra hegningarlaga né í dómaframkvæmd. Af þeim sökum sé ómögulegt að segja til um hvaða háttsemi geti fallið þar undir né fullyrða um að tiltekin háttsemi falli þar undir. Refsing fyrir brot gegn ákvæði 252. gr. laga nr. 19/1940, þó samfara sé frelsissvipting og alvarlegar líkamsmeiðingar, sé hjá dómstólum yfirleitt ekki ákveðin lengri en þriggja og hálfs árs fangelsi, þrátt fyrir að dómfelldi hafi á sakaskrá brot sem hafi ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar. Þá sé þyngsta refsing, sem beitt hafi verið í máli er varði brot gegn ákvæðinu, sjö ár, sem rúmist vel innan hins 10 ára refsiramma, en það hafi verið í dómi Hæstaréttar Íslands frá 14. mars 2013, í máli nr. 556/2012. Dómfelldi í því máli hafði einnig hlotið marga dóma fyrir refsiverða háttsemi í heimalandinu sem haft hafi ítrekunaráhrif á ákvörðun refsingar.
Með tilliti til alls þessa sé ljóst að 16 ára refsirammi lokamálsliðar 252. gr. laga nr. 19/1940 sé ekki virkur og þau brot sem þar geti fallið undir hafi hvorki verið skilgreind af íslenskum dómstólum né af löggjafanum. Verði því að miða við að brot varnaraðila varði 10 ára fangelsi að íslenskum lögum. Slík brot fyrnist á 10 árum samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 19/1940. Þau brot sem varnaraðila séu gefin að sök hafi öll verið framin í desember 2003 eða fyrir rúmum 13 árum síðan. Þar sem ekki sé hægt að slá því föstu að mjög mikil hætta, í skilningi laganna, hafi verið samfara því ráni sem varnaraðila sé gefið að sök að hafa framið sé ætlað brot hans fyrnt. Sök hans sé því fyrnd vegna þessara brota og skilyrði til þess að framselja hann pólskum yfirvöldum ekki fyrir hendi, enda sóknaraðili ekki sýnt fram á að fyrningarfresturinn hafi verið rofinn. Beri því að ógilda ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 3. janúar 2017.
Varnaraðili vísar til laga um framsal sakamanna nr. 13/1984. Þá er vísað til almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Krafa um þóknun til handa réttargæslumanni varnaraðila og greiðslu hennar úr ríkissjóði byggir á 16. gr. laga nr. 13/1984.
IV.
Í 1. gr. laga nr. 13/1984 kemur fram að þann mann sem í erlendu ríki er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað sé heimilt að framselja samkvæmt lögunum. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. er framsal á manni aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum.
Svo sem að framan er rakið hafa dómsmálayfirvöld í Póllandi krafist framsals á varnaraðila vegna gruns um refsiverða háttsemi og meðferðar sakamáls. Með framsalsbeiðninni fylgir einnig handtökuskipun dómara við héraðsdóm í Varsjá, þar sem fram kemur að með vísan til sönnunargagna sem aflað hafi verið í málinu megi ætla að varnaraðili hafi framið þau brot sem hann er grunaður um. Í beiðni yfirvalda frá Póllandi kemur fram að varnaraðili sé grunaður um að hafa brotið af sér í þrígang. Sóknaraðili hefur lýst því að tvö af brotum varnaraðila séu fyrnd. Komi framsal því ekki til greina vegna þeirrar háttsemi varnaraðila.
Eftir stendur að sú háttsemi varnaraðila sem honum er gefin að sök í heimalandi sínu myndi hér á landi varða við 252. gr. og 116. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er um að ræða brot sem talin eru framin 1. desember 2003. Við slíkum brotum liggur fangelsi ekki skemur en 6 mánuðir og allt að 10 árum, en hafi mikil hætta verið samfara ráninu, getur refsingin þó orðið allt að 16 ára fangelsi. Samkvæmt framsalsbeiðninni er varnaraðili grunaður um brot þar sem meiriháttar hætta var samferða brotinu, þar sem skotvopni var beitt við ránið, sbr. 252. gr. i.f. laga nr. 19/1940. Við skýringu ákvæða 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 ber að miða við refsiramma viðkomandi ákvæðis, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 634/2007. Í því ljósi er óhjákvæmilegt annað en að líta til 252. gr. i.f. laga nr. 19/1940.
Samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 19/1940 fyrnast sakir vegna brota á 252. gr. i.f. laga nr. 19/1940 á 15 árum frá hinum refsiverða verknaði, sbr. 1. mgr. 82. gr. laganna. Varnaraðila er gefið að sök að hafa framið brot sín í desember 2003. Ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 girðir ekki fyrir framsal á varnaraðila að því er varðar grun um brot gegn 252. gr. og 116. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. mgr. 81. gr. laga nr. 19/1940. Samkvæmt gögnum málsins var gefin út handtökuskipun af héraðsdóminum í Varsjá þann 13. mars 2014 vegna ætlaðra brota varnaraðila sem sögð eru hafa átt sér stað í desember 2003. Samkvæmt þessu eru skilyrðin til framsals uppfyllt að því er varðar ætlað rán og brot gegn valdstjórninni, sbr. einkum 1. og 2. mgr. 3. gr. og 9. gr. laga nr. 13/1984.
Innanríkisráðuneytið hefur í ákvörðun sinni frá 22. ágúst 2013 annars vegar metið hagsmuni pólskra yfirvalda af því að fá varnaraðila framseldan með tilliti til grófleika brotsins sem beiðnin er reist á og hversu langt er um liðið síðan brotið var framið og hins vegar hagsmuna varnaraðila af því að synjað verði um framsal. Verður ekki annað séð en að það mat hafi verið framkvæmt með réttum og málefnalegum hætti. Við því mati verður ekki hróflað í máli þessu.
Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila úr ríkissjóði og með hliðsjón af umfangi málsins þykir þóknun réttargæslumanns, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, hæfilega ákveðin 421.600 krónur.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun innanríkisráðherra frá 3. janúar 2017, um að framselja varnaraðila, X, kt. [...], til Póllands, er staðfest.
Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Kristrúnar Elsu Harðardóttur héraðsdómslögmanns, 421.600, greiðist úr ríkissjóði.