Hæstiréttur íslands

Mál nr. 258/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Opinber skipti
  • Fjárslit milli hjóna
  • Endurkrafa
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


                                                         

Þriðjudaginn 24. ágúst 1999.

Nr. 258/1999.

Jóhannes Ottósson

(Helgi V. Jónsson hrl.)

gegn

Hólmfríði G. Sigurðardóttur

(Ólafur Birgir Árnason hrl.)

Kærumál. Opinber skipti. Fjárslit milli hjóna. Endurgjaldskrafa. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.

Með hliðsjón af mati dómkvaddra matsmanna á verðmæti stóðhests, sem J hafði selt áður en hjúskap hans og H lauk, þótti J ekki hafa hrundið því að sala hestsins hefði falið í sér misbeitingu á ráðum hans yfir hestinum. Var fallist á að fullnægt væri skilyrðum 2. mgr. 107. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 fyrir endurgjaldskröfu H og því hafnað, að við mat á fjárhæð endurgjaldskröfu bæri að taka tillit til hugsanlegra útgjalda, sem tengst gætu ráðstöfun eignar, þar á meðal opinberra gjalda, sem skylda gæti vaknað til að greiða vegna sölu hennar til þriðja manns. Ekki var talið unnt að fjalla um kröfur J og H um útlagningu tiltekinna eigna að svo komnu máli, þar sem hvorki hafði verið aflað mats á eignunum eftir reglum 17. - 23. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., né varð ályktað um sammæli J og H um verðgildið, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 20/1991. Var þessum kröfum þeirra sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júní 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 3. júní 1999, þar sem sóknaraðili var dæmdur til að greiða varnaraðila endurgjaldskröfu vegna sölu stóðhestsins Safírs að fjárhæð 2.375.000 krónur auk vaxta, ákveðið var að hrossin Frigg og Drottning skyldu koma til skipta milli málsaðila á verði samkvæmt mati dómkvaddra manna, að hrossin Von, Vænting, Árvakur og Kóngur skyldu lögð út við skiptin á nánar tilgreindu verði hvert og að hesthús að Safírstræti 5 á Akureyri skyldi lagt út við skiptin á 2.475.000 krónur. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að teknar verði til greina kröfur hans, eins og þær komu fram í greinargerð fyrir héraðsdómi. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar auk kærumálskostnaðar.

I.

Varnaraðili sótti um leyfi til skilnaðar að borði og sæng við sóknaraðila hjá sýslumanninum á Akureyri 20. janúar 1998. Með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra 24. mars 1998 var tekin til greina krafa hennar um opinber skipti til fjárslita milli aðilanna. Skiptastjóri beindi kröfu til héraðsdóms 30. nóvember 1998 um úrlausn þriggja ágreiningsefna, sem höfðu risið við skiptin. Kom þar fram að í fyrsta lagi væri ágreiningur um hvort varnaraðili ætti endurgjaldskröfu samkvæmt 2. mgr. 107. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 vegna sölu sóknaraðila á stóðhestinum Safír, svo og um fjárhæð kröfunnar, væri fyrir henni lagastoð. Í annan stað greindi aðilana á um hvort og hvernig koma skyldu til skipta hrossin Frigg og Drottning, sem sóknaraðili kvæði sér vera óheimilt að ráðstafa án samþykkis föður síns. Í þriðja lagi væri deilt um hvernig meta bæri til verðs vegna skiptanna hrossin Von, Væntingu, Árvakur og Kóng, svo og hesthús að Safírstræti 5. Í hinum kærða úrskurði er tekin afstaða til þessara ágreiningsefna.

II.

Samkvæmt gögnum málsins seldi sóknaraðili stóðhestinn Safír 15. september 1997. Í kaupsamningi sagði að kaupverð væri 2.500.000 krónur og skyldi afhenda hestinn 20. október sama árs. Í beiðni varnaraðila um opinber skipti var vakin athygli á þessum viðskiptum og tekið fram að þess yrði krafist að skiptastjóri kannaði þau sérstaklega. Þá er fram komið að varnaraðili gerði þegar frá upphafi opinberra skipta kröfu um endurgjald samkvæmt 2. mgr. 107. gr. laga nr. 31/1993 vegna þessarar ráðstöfunar sóknaraðila. Þótt varnaraðila kunni að hafa orðið kunnugt um ráðstöfun hestsins þegar í október 1997 er alls ósannað að hún hafi samþykkt þessar gerðir sóknaraðila. Verður því ekki litið svo á að hún hafi glatað rétti til að halda fram endurgjaldskröfu af þessu tilefni.

Í matsgerð dómkvaddra manna 5. desember 1998 var komist að þeirri niðurstöðu að verðmæti hestins Safírs hafi 15. september 1997 verið 7.250.000 krónur. Þessu mati hefur ekki verið hrundið. Samkvæmt því er sannað að söluverð hestsins samkvæmt kaupsamningi 15. september 1997 var verulega lægra en nam eðlilegu gangverði hans og rýrði þannig sóknaraðili hjúskapareign sína sem þessu svaraði. Að þessu gættu hefur sóknaraðili ekki með skýringum sínum á þessum viðskiptum hrundið því að þau hafi falið í sér misbeitingu á ráðum hans yfir hestinum. Er og ljóst að með ráðstöfun hestsins gegn því verði, sem greindi í kaupsamningi um hann, var verulega skertur sá fjárhlutur, sem varnaraðili átti tilkall til. Verður því fallist á með varnaraðila að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 107. gr. laga nr. 31/1993 fyrir endurgjaldskröfu hennar.

Sóknaraðili heldur því fram að við ákvörðun á fjárhæð endurgjaldskröfu varnaraðila verði að bera saman hagnað af sölu hestsins fyrir þær 2.500.000 krónur, sem um ræddi í kaupsamningi 15. september 1997, og þann hagnað, sem fengist hefði með sölu hestsins á 7.250.000 krónur í samræmi við álit dómkvaddra matsmanna. Í þessum samanburði verði að taka tillit til reglna um virðisaukaskatt og tekjuskatt. Að þessu gefnu telur sóknaraðili mismuninn nema 2.205.221 krónu og verði að miða endurgjaldskröfu varnaraðila við þá fjárhæð.

Fjárhæð endurgjaldskröfu verður að ákveða með tilliti til þess að það hjóna, sem á var hallað, verði fjárhagslega eins sett og ef ráðstöfun hefði aldrei verið gerð. Við fjárslit á milli hjóna sem og endranær við skipti, sem fara eftir reglum laga nr. 20/1991, gildir sú meginregla 1. mgr. 20. gr. laganna að eign verði metin til peningaverðs miðað við gangverð hennar gegn staðgreiðslu kaupverðs. Samkvæmt þessu verður við ákvörðun matsverðs litið fram hjá hugsanlegum útgjöldum, sem tengst gætu ráðstöfun eignar, þar á meðal opinberra gjalda, sem skylda gæti vaknað til að greiða vegna sölu hennar til þriðja manns. Ekki liggur annað fyrir en að matsmenn hafi ákveðið verðmæti hestsins á þann hátt, sem hér um ræðir. Verður endurgjaldskrafa varnaraðila því miðuð við niðurstöðu þeirra.

Samkvæmt framansögðu verður að líta svo á að sóknaraðili hafi með sölu hestsins Safírs rýrt hjúskapareign sína um mismuninn á 7.250.000 krónum og 2.500.000 krónum, eða 4.750.000 krónur. Fallist verður á með varnaraðila að hún eigi rétt á endurgjaldi, sem nemur helmingi þeirrar fjárhæðar, eða 2.375.000 krónum. Ber að auka hlut varnaraðila við fjárslitin um þá fjárhæð, en heimild brestur til að leggja við hana vexti.

III.

Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdómara krefst sóknaraðili þess að hrossin Frigg og Drottning verði lögð honum út sem verðlaus væru, en þinglýst verði yfirlýsingu um tilkall varnaraðila til helmings söluverðs fáist heimild til sölu þeirra og verði þau seld. Til vara krefst sóknaraðili þess að hrossin verði lögð sér út gegn fjárhæð, sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði lagðir út hestarnir Árvakur og Kóngur, en sér verði lögð út hrossin Von og Vænting ásamt hesthúsi að Safírstræti 5 á Akureyri, allt miðað við nánar tiltekið verð.

Ekki er deilt um að framangreindar eignir eigi að koma til skipta við fjárslit aðilanna, sbr. 104. gr. laga nr. 20/1991. Verði ekki sammæli um verðmat slíkra eigna og liggi ekki þá þegar fyrir að þeim verði komið í verð við skiptin, er ekki önnur leið tæk til að fá niðurstöðu um verðgildi, sem lögð verði til grundvallar við fjárslitin, en að afla mats eftir reglum 17.-23. gr. laga nr. 20/1991, sbr. 3. mgr. 105. gr. þeirra. Hvorki hefur verið fengið slíkt mat á eignunum, sem hér um ræðir, né verður ályktað af málatilbúnaði aðilanna að sammæli séu á milli þeirra um verðgildið. Er því ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 110. gr. laga nr. 20/1991 til að fjalla að svo komnu um kröfur aðilanna um útlagningu eigna. Þegar af þeirri ástæðu verður öllum slíkum kröfum vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Viðurkennd er endurgjaldskrafa varnaraðila, Hólmfríðar G. Sigurðardóttur, við opinber skipti til fjárslita milli hennar og sóknaraðila, Jóhannesar Ottóssonar, að fjárhæð 2.375.000 krónur.

Vísað er frá héraðsdómi kröfum málsaðila, sem lúta að verðgildi og útlagningu hrossanna Friggjar, Drottningar, Vonar, Væntingar, Árvakurs og Kóngs og hesthúss að Safírstræti 5 á Akureyri.

Sóknaraðili greiði varnaraðila samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 3. júní 1999.

Ár 1999, fimmtudaginn 3. júní, var dómþing Héraðsdóms Norðurlands eystra sett í skrifstofu dómsins að Hafnarstræti 107, Akureyri og haldið af Ásgeiri Pétri Ásgeirssyni, héraðsdómara. Fyrir var tekið: Mál nr. Q-5/1998: Hólmfríður G. Sigurðardóttir gegn Jóhannesi Ottóssyni.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 21. f.m., er til komið vegna kröfu Ingu Þallar Þórgnýsdóttur hdl, þar sem hún með bréfi dagsettu á Akureyri 30. nóvember 1998, sem skiptastjóri, vísar til Héraðsdóms ágreiningi vegna opinberra skipta vegna fjárslita á búi hjónanna, Hólmfríðar Guðbjargar Sigurðardóttur, grunnskólakennara, kt. 200156-2779, Hjallalundi 14, Akureyri, sem er sóknaraðili máls þessa og Jóhannesar Ottóssonar, iðnfræðings, kt. 110154-3649, Dalsgerði 7 C, Akureyri, sem er varnaraðili máls þessa, síðast bæði búandi að Heiðarlundi 8 C, Akureyri.

Var málið tekið til úrskurðar 29. desember s.l. hér fyrir dómi og endurupptekið af dómara 25. janúar 1999, með vísan til 104. gr. laga nr. 91, 1991, sbr. 131. gr. laga nr. 20, 1991.

Aðalflutningur fór fram 30. mars s.l. og var málið flutt að nýju 21. f.m.

Endanlegar dómkröfur sóknaraðilja, Hólmfríðar G. Sigurðardóttur, eru:

1. Endurgjaldskrafa, sóknaraðili gerir þá kröfu að varnaraðili verði dæmdur til að greiða henni kr. 2.375.000, vegna sölu á stóðhestinum Safír þann 15. september 1997. Samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna var og er verðgildi hestsins kr. 7.250.000, en samkvæmt frásögn varnaraðilja hafi hesturinn verið seldur á kr. 2.500.000. Mismunurinn er því kr. 4.750.000 og er dómkrafa sóknaraðilja helmingur af þeirri fjárhæð, eða kr. 2.375.000. Krafist er vaxta af upphæðinni frá 15. september 1997, til vara frá 5. mars 1998, en til þrautavara frá 30. mars 1998.

2. Að hrossin, Frigg og Drottning verði dregin undir skiptin milli hjónanna á matsverði.

3. Að við útlagningu á hrossunum Von, Væntingu, Árvaki og Kóngi, verði við skiptin lagt til grundvallar matsverð hrossanna eins og fram komi í beiðni til Héraðsdóms, en ekki verð að frádregnum sköttum eins og varnaraðili hefur krafist.

4. Sama krafa er höfð uppi vegna hestshúss að Safírstræti 5, Akureyri, varðandi verðmat og í 3. tl. hér að framan.

Loks er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðilja að mati dómsins.

Dómkröfur varnaraðilja eru þær:

1.  Þess er alfarið krafist að varnaraðili verði sýknaður af endurgjaldskröfu sóknaraðilja.

2. Þess er krafist að hrossin, Frigg og Drottning, verði lögð varnaraðilja út án verðs, en þinglýst verði yfirlýsingu um rétt sóknaraðilja til helmings söluverðs fari svo að heimild fáist og verði nýtt til sölu hrossanna. Til vara samkvæmt þessum lið er þess krafist að hrossin, Frigg og Drottning, verði lögð varnaraðilja út á skattmatsverði, þ.e.a.s. hvort á kr. 25.000. Til þrautavara samkvæmt þessum lið er þess krafist að Frigg verði lögð varnaraðilja út á kr. 356.751 og Drottning verði lögð varnaraðilja út á kr. 59.161.

3. Þess er krafist að varnaraðilja verði lagt út hrossið Von á kr. 207.956 og hrossið Vænting á kr. 70.904. Þá er þess krafist að sóknaraðilja verði lögð út hrossin Árvakur og Kóngur á kr. 80.321 hvort, en virðisaukaskattur vegna þeirrar yfirfærslu greiðist af búinu. Þess er krafist að kr. 40.202 komi til hækkunar á búshluta varnaraðilja vegna þessarar útlagningar til sóknaraðilja. Til vara er þess krafist að sóknaraðilja verði lögð út hrossin Árvakur og Kóngur á kr. 80.321 hvort, en virðisaukaskattur vegna þeirrar yfirfærslu greiðist af búinu.

4. Þess er krafist að hesthúsið Safírstræti 5 á Akureyri, verði lagt varnaraðilja út á kr. 1.987.952.

Þá er þess krafist að varnaraðilja verði dæmdur málskostnaður úr hendi sóknaraðilja samkvæmt málskostnaðaryfirliti sem lagt var fram við aðalmeðferð eða að mati dómsins.

Sóknaraðili rekur málavexti svo að þann 20. janúar 1998 hafi hún mætt hjá sýslumanninum á Akureyri og krafist skilnaðar að borði og sæng við eiginmann sinn, varnaraðilja þessa máls. Þann 30. s.m. hafi varnaraðili mætt hjá sýslumanninum á Akureyri og samþykkt skilnaðarkröfuna, en eftir báðum sé bókað hjá sýslumanni að fjárskiptum millum þeirra sé ólokið og málinu frestað.

Þann 24. febrúar 1998 hafi varnaraðilja verið ritað bréf, þar sem að óskað var viðræðna um fjárslitin, þær viðræður hafi ekki borið árangur og hafi sóknaraðili lagt fram beiðni um opinber skipti þann 5. mars 1998. Með úrskurði uppkveðnum 24. þess mánaðar hafi Inga Þöll Þórgnýsdóttir, hdl., á Akureyri, verið skipuð skiptastjóri búsins.

Á fyrsta skiptafundi þann 30. mars 1998 hafi þegar komið upp ágreiningur milli aðilja hvernig meta ætti eignir þeirra við skiptin. Það hafi leitt til þess að þann 19. maí þ.á. voru dómkvaddir matsmenn til að meta hesthúsið að Safírstræti 5 og er matsgerðin á dskj. nr. 20.

Varnaraðili hafi ekki unað matinu og krafist yfirmats. Yfirmatsmenn hafi skilað matsgerð þann 6. nóvember 1998, sbr. dksj. nr. 27. Meti þeir Safírstræti á kr. 2.475.000, en það sé sú upphæð sem sóknaraðili geri kröfu um að lögð verði til grundvallar við fjárslitin.

Að kröfu varnaraðilja voru þann 2. júlí 1998 útnefndir matsmenn til að meta hesthúsið að Sörlaskjóli 3 hér í bæ og skiluðu þeir matsgerð þann 9. s.m., sbr. dskj. nr. 46. Hæfilegt söluverðmæti telja matsmenn kr. 1.900.000.  Varnaraðilja hafi verið útlögð sú eign af skiptastjóra á kr. 1.450.000, sbr. dskj. nr. 30.

Svo sem fram komi í kröfu um opinber skipti, sbr. dskj. nr. 2, hafi strax komið fram efasemdir sóknaraðilja um söluverð stóðhestsins Safírs á kr. 2.500.000 samkvæmt kaupsamningi dagsettum 15. september 1997, sbr. dskj. nr. 7. Það leiddi til þess að beðið var um dómkvaðningu matsmanna, sem skiluðu matsgerð í nóvember 1998, sbr. dskj. nr. 33. Samkvæmt matsgerðinni meta þeir verðmæti Safírs á bilinu 6-10.000.000 kr., en þó alls ekki minna en kr. 6.000.000. Vegna athugasemda sem fram komu á skiptafundi 21. nóvember 1998, sbr. dskj. nr. 35, ritaði lögmaður sóknaraðilja matsmönnum bréf og bað um endurupptöku matsins og nánara mat á stóðhestinum Safír. Viðbótarmatsgerð þeirra er að finna á dskj. nr. 40, frá 5. desember 1998, ásamt bókun varnaraðilja er var viðstaddur matsfund ásamt lögmanni sínum.  Samkvæmt matsgerðinni er verðgildi Safírs metið á kr. 7.250.000, sem sé sú tala sem lögð er til grundvallar endurgjaldskröfu sóknaraðilja.

Svo sem fundargerðir á dskj. nr. 23-26 og 39 frá 25. nóvember 1998 beri með sér hafi ekkert samkomulag náðst um hvernig fara ætti með eigur aðilja við fjárslitin og hafi þá einkum strandað á óskiljanlegri skattaleikfimi varnaraðilja og lögmanns hans, hvernig þeir vildu afreikna allar eignir til verðs eftir skatta, sbr. tilvitnaðar fundargerðir og dskj. nr. 28, sem er tillaga lögmanns varnaraðilja um útreikningsaðferð við skiptin, svo og dksj. nr. 31.

Málsástæður sóknaraðilja.

1. Endurgjaldskröfu sína vegna sölu á stóðhestinum Safír byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi misbeitt yfirráðum sínum yfir hjúskapareign sinni, sem leitt hafi til stórfelldrar skerðingar á fjárhluta þeim sem sóknaraðili eigi tilkall til við skiptin. Eignir hjónanna hafi verið þessar: Íbúð kr. 9.800.000, bifreið kr. 1.350.000, hestar kr. 4.320.000, hesthús að Sörlaskóli 3, kr. 1.450.000, hesthús að Safírstræti 5, kr. 2.475.000 eða eignir samtals kr. 19.395.000. Skuldir sbr. veðbókarvottorð kr. 1.279.000, nettóeign búsins því kr. 18.116.000.

Í þessu sambandi er á það bent að samkvæmt kaupsamningi um stóðhestinn Safír á dskj. nr. 7, er verð hestsins sagt kr. 2.500.000, en niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna, sbr. dskj. nr. 40, sé sú að eðlilegt söluverðmæti hans hafi verið kr. 7.250.000, sem er þá 40,02% af nettóeign búsins. Mismunurinn er kr. 4.750.000 eða 26,22% af heildarnettóeign hjónanna samanlagt. Endurgjaldskrafan hafi beina lagastoð í 2. mgr. 107. gr. laga nr. 31, 1993 og samkvæmt 4. mgr. sömu laga verði endurgjaldskrafan ekki höfð uppi nema við fjárslit hjóna.

2. Málsástæða sóknaraðilja fyrir því að draga skuli hrossin Frigg og Drottningu undir skiptin hafi beina stoð í dómi Hæstaréttar frá 3. september 1998, sbr. dskj. nr. 47, en þar sé sú niðurstaða Héraðsdóms Norðurlands eystra staðfest að hrossin Frigg og Drottning séu hjúskapareign varnaraðilja og eigi að koma til skipta við fjárslit aðilja. Það eitt að ekki megi selja hrossin nema með samþykki föður varnaraðilja segi ekkert um verðgildi þeirra, né að ekki skuli taka tillit til þeirra við fjárslit aðilja.

3. Um mat á verðgildi eigna aðilja við fjárslitið er einnig á það bent að hér sé ekki um sölu eða skattskyld viðskipti að ræða heldur skipti við fjárslit á milli hjóna. Um mat á eignum hjóna við skiptin verði að segjast að hugmyndir varnaraðilja um afreikning vegna skatta séu vægast sagt illskiljanlegar, sbr. útreikning hans á dskj. nr. 28, bls. 2. Á því dskj. megi sjá að eftir að varnaraðili hafi fengið í sinn hlut hross að verðgildi 1.800.000 og sóknaraðili hross að verðgildi kr. 800.000 og búið hross að verðgildi kr. 400.000 þá skuldi sóknaraðili varnaraðilja kr. 466.604.

Aðferð varnaraðilja sé alröng og er bent á dóm Hæstaréttar Íslands frá 3. desember 1991 í málinu 91, 1998, Sigríður Kristinsdóttir gegn Aðalbirni Jóakimssyni, því til stuðnings. Í rökstuðningi Hæstaréttar sem felldi úr gildi dóm héraðsdóms segi orðrétt: „Dómurinn taldi verðmæti hlutafjár beggja málsaðilja í Dynjanda h.f., sem var alls 75% heildarhlutafjár í félaginu, að gefnu nánar tilteknum forsendum, hafa verið þann dag alls kr. 9.538.000 kr.“ og „Nettóverðmæti hlutarins eftir greiðslu skatta 4.087.000 kr.“ … „Ekki hafa komið fram neinar skýringar á því hvers vegna reglur um skattskyldu söluhagnaðar af hlutabréfum eigi að lækka hlut aðaláfrýjenda við skiptin með þeim hætti, sem í héraðsdómi er gert.“

Svo og bendir sóknaraðili á dóm Hæstaréttar uppkveðinn 23. mars 1999 í máli nr. 94, 1999, Ágústa S. Björnsdóttir gegn Magnúsi Inga Hannessyni.

Mál það sem hér sé til úrlausnar sé hliðstætt þessum málum að breyttu breytanda og kveðst lögmaður sóknarðilja ekki þekkja þann útreikning sem fram komi hjá lögmanni varnaraðilja að skipti við fjárslit milli hjóna leysi úr læðingi duldar skattskuldbindingar eins og hann orði það.

Við skipti á hrossaeign aðilja og Safírstræti 5 beri að leggja til grundvallar gangverð eignanna á frjálsum markaði án nokkurs afreiknings. Ef um afreikning vegna skatta væri að ræða væri erfitt að gera sér í hugarlund til hvaða niðurstöðu það myndi leiða við fjárslit milli hjóna yfirleitt, t.d. þar sem að hjón stunduðu búskap í sveit, sem Hæstiréttur hafi reyndar svarað fyrir varnaraðilja með dóminum frá 23. mars 1999. Skiptaverð hrossanna og Safírstrætis 5 milli aðilja sé gangverð eða matsverð eignanna og ekkert annað.

Til lagaraka vísar sóknaraðili kröfu sinni til stuðnings til hjúskaparlaga nr. 31, 1993, 99. 103. og 107. gr. 2. og 4. mgr. skiptalaga nr. 20, 1991, 2. mgr. 106. gr. Málskostnaðarkrafan er byggð á lögum um meðferð einkamála.

Málsástæður varnaraðilja.

1. Varnaraðili byggir á því að ekkert þriggja skilyrða 2. mgr. 107. gr. hjúskaparlaga nr. 31, 1993 sé uppfyllt til að taka megi kröfu sóknaraðilja til greina. Í því sambandi bendir hann á að lagaákvæðið sjálft áskili að öll skilyrðin séu uppfyllt.

Í fyrsta lagi sé ekkert fram komið um að varnaraðili hafi rýrt hjúskapareign sína, enda hafi stóðhesturinn Safír verið seldur á því verði sem að hægt var að fá fyrir hann. Því er að minnsta kosti ekki haldið fram að hærra verð hafi boðist. Órökstudd matsgerð um verðgildi stóðhestsins eigi ekkert erindi í máli þessu, þar sem fyrir liggi að matsmenn hafi ekki tekið afstöðu til framlagðra upplýsinga um sölu sambærilegra hesta, sem varnaraðili lagði fyrir þá á matsfundi og hafi ekki lagt mat á verðgildi hests sem að seldur sé í einu lagi. Því er mótmælt að leggja megi til grundvallar mat á viðskiptum varnaraðilja á árinu 1997, hvort einhver annar hefði getað fengi hærra verð fyrir hestinn. Ef eitthvað verði lagt til grundvallar þá séu það þau verð sem að upplýst er að fengist hafi fyrir sambærilega hesta, en þau séu í samræmi við söluverð hestsins á árinu 1997.

Í öðru lagi sé ekkert framkomið í málinu um að varnaraðili hafi misbeitt ráðum sínum eða sýnt af sér af annað óhæfilegt atferli. Ekkert fordæmi sé um að maki sæti endurgjaldskröfu á þeim grundvelli að hafa ekki náð nægjanlega hagstæðum viðskiptasamningi ef hann gerði eins vel eins og hann hefði getað. Fyrir liggi að hærra verð hafi ekki fengist fyrir hestinn og allt kaupverð hans hafi gengið í sameiginlegt bú aðilja. Það sem máli skipti sé að varnaraðilja gekk gott eitt til með sölunni og hafi ekki öðru verið haldið fram.

Í þriðja lagi er á því byggt að jafnvel þó eitthvað hærra verð kynni að hafa fengist fyrir hestinn þá hefði það aldrei verið í þeim mæli að kallast veruleg skerðing á fjárhlut. Vísast til dskj. nr. 42, þar sem fram komi mismunur á raunverulegu söluverði og því verði sem matsmenn telja að þeir hefðu getað selt hestinn óséðan á nemi kr. 2.205.221 og hafi þá ranglega verið lagt til grundvallar að aðiljar skiptu með sér skattalegum afleiðingum tekjuársins 1997. Mismunurinn sé því í raun mun minni en dskj. nr. 42 beri með sér, en þar komi fram að enda þótt matsgerðin sé lögð til grundvallar nemi mismunurinn sem hlutfall af hreinni eign búsins 11,3% eða 13% eftir því hvort miðað sé við raunverulegt verð hesta eða bókfært verð.

Útreikningur sóknaraðilja í greinargerð þar sem að fundið sé út hlutfall söluverðs Safírs af nettóeign búsins án þess að bæta við eignina meint verðgildi hestsins sé hlægilegur og honum vísað á bug.

Við þetta sé að bæta að sóknaraðili hafi vitað um söluna og engar athugasemdir gert við hana á sínum tíma þar til krafan um opinber skipti var lögð fram ½ ári síðar. Skyndilegur áhugi sóknaraðilja kunni að hafa vaknað við lestur dagblaðsgreinar þar sem haldið var fram röngum fullyrðingum um Safír og verðgildi hans.

Útreikningur varnaraðilja á dskj. nr. 42 er þannig tíundaður, söluverð Safírs kr. 2.500.000 mínus virðisaukaskattur kr. 491.468 mínus tekjuskattur kr. 838.950 eða nettóeign kr. 1.169.082 og hins vegar miðað við niðurstöðu matsmanna, verð kr. 7.250.000 mínus virðisaukaskattur kr. 1.426.707 mínus tekjuskattur kr. 2.448.990 eða nettóeign kr. 3.374.303. Mismunur á hreinni eign búsins miðað við að unnt hefði verið að selja stóðhestinn Safír á kr. 7.250.000 sé því kr. 2.205.221.

Í útreikningum sínum gengur varnaraðili út frá heildareign búsins eða hreinni eign miðað við tvenns konar forsendur. Í fyrra tilfellinu íbúð kr. 9.800.000, innbú áætlað kr. 1.500.000, bifreið kr. 1.400.000, hestar bókfært verð kr. 490.000, hesthús kr. 1.500.000 og hesthús kr. 2.000.000 eða samtals kr. 16.690.000. Í hinu tilfellinu íbúð kr. 9.800.000, innbú kr. 1.500.000, bifreið kr. 1.400.000, hestar kr. 3.300.000 þ.e. raunverð mínus skattar þ.m.t. Safír miðað við raunverulegt söluverð mínus skattar, hesthús kr. 1.500.000 og hesthús kr. 2.000.000 eða samtals kr. 19.500.000. Mismunur sem hlutfall af hreinni eign búsins sé því 13% eða 11,3% eftir því hvort miðað er við raunverulegt verð hestanna eða bókfært.

2. Aðalkrafa varnaraðilja samkvæmt þessum lið er að óumdeilt sé að hross þessi megi hann ekki selja og því sé söluverð þeirra ekkert. Tekið er fram í þessu samhengi að krafa sóknaraðilja er ekki miðuð við arðsvon heldur verðgildi. Að gefnu tilefni tekur varnaraðili fram að undir rekstri málsins hafi því ekki verið haldið fram af hans hálfu að hrossin komi ekki undir skiptin. Ágreiningur standi einungis um verðgildi þeirra. Því er alfarið hafnað að fyrir liggi mat um kröfu sóknarðilja eins og hún var upphaflega gerð, hins vegar liggi fyrir opinbert mat, skattmat ríkisskattstjóra og liggi það til grundvallar upphaflegri varakröfu, nú aðalkröfu samkvæmt þessum lið. Auk þess hafi varnaraðili lýst því yfir að hann telji að hrossin væri hægt að selja annars vegar á kr. 100.000 og hins vegar kr. 700.000, þ.e.a.s. ef sala væri leyfileg. Er þrautavarakrafan miðuð við það mat, en að gættum sjónarmiðum um virðisaukaskatt og opinber gjöld.

3. Krafa varnaraðilja samkvæmt þessum lið er tvíþætt, annars vegar út af hrossunum Von og Væntingu, sem verði lagðar varnaraðilja út og hins vegar hrossunum Árvakri og Kóngi sem verða lögð sóknaraðilja út. Um Von og Væntingu er í fyrsta lagi krafist að ekki verði miðað við áætlað söluverð eins og krafa sóknaraðilja gengur út á, heldur verði að finna útreiknað verðgildi hrossa í eigu búsins. Þannig er tekið undir með sóknaraðilja að ekki sé um sölu að ræða heldur um búskipti hjóna og sé því aðalatriðið að finna nettóeign búsins. Það verð sem að varnaraðili hafi látið uppi álit á sé hugsanlegt söluverð úr rekstri. Samkvæmt lögum nr. 50, 1988 um virðisaukaskatt með síðari breytingum beri að leggja á virðisaukaskatt við sölu hrossa og skal leggja skattinn á heildarendurgjald eða heildarendurgjaldsvirði hins selda, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Það sé því ljóst að söluverð falli ekki allt til seljanda vöru heldur einungis svokallað skattverð sem er endurgjald hans fyrir vöru. Af þessari ástæðu sé í raun óumdeilanlegt að reiknaður virðisaukaskattur, sem sé innifalinn í áætluðu söluverði, geti aldrei talist til eigna bús. Um þetta atriði vísar varnaraðilja að öðru leyti til Ugeskrift for retsvæsen (UFR) 1978, 822 V, en dönsku virðisaukaskattslögin séu sambærileg vorum lögum að þessu leyti.

Um tekjuskatt megi vísa til svohljóðandi reikningsskilavenju, sem fram komi í drögum að leiðbeinandi reglum um reikningsskil nr. 6, sbr. dskj. nr. 37: „Hafi fyrirtæki metið eignir við hærra verð en svarar til framreiknaðs kostnaðarverðs að teknu tilliti til afskrifta, skal færa þá skattkvöð sem á slíku mati hvílir til skuldar sem frestaða skattskuld. Útreikningur skuldarinnar miðast við þann söluhagnað sem skattskyldur væri, ef viðkomandi eign væri seld á reikningsskiladegi við matsverðsins“ Þetta þýði að við mat á nettóeign fyrirtækis beri ávallt að taka tillit til dulinnar skattskuldbindingar, sem félli á fyrirtækið ef unnt væri að selja viðkomandi eign. Í nýjum útreikningi sé nú gert ráð fyrir lækkun tekjuskattshlutfalls eftir síðustu áramót 26,41% og útsvar á Akureyri 11,84%.

Ekki sé ágreiningur í málinu um að rekstur varnaraðilja sé skattskyldur skv. lögum nr. 75, 1981 um tekjuskatta og eignaskatt og lögum nr. 4, 1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Til stuðnings kröfu varnaraðilja að þessu leyti er vísað til dóms Hæstaréttar frá 3. desember 1998 í málinu 91, 1998 Sigríður Kristinsdóttir gegn Aðalbirni Jóakimssyni og gagnsök. Í dóminum komi afdráttarlaust fram að draga megi frá útreiknaðan tekjuskatt frá matsverði eignar í skiptum hjóna. Breyti hér engu þó dómurinn hafi talið sérstakt tilefni til útskýringa á 57,15% útreiknuðum tekjuskatti af hreinu söluandvirði, nánar tiltekinna hlutabréfa, útreikningi sem var augljóslega rangur miðað við önnur efnistök í héraðsdómi.

Um hestana Árvak og Kóng gildir hið sama varðandi virðisaukaskatt. Hér er til viðbótar vísað til reglu 8. gr. laga nr. 50, 1988 þar sem beinlínis er kveðið á um að greiða skuli virðisaukaskatt þegar skattskyld vara er tekin úr rekstri til einkanota. Það sé ljóst að útlagning hrossa til sóknaraðilja teljist úttekt úr rekstri varnaraðilja. Gerð er krafa um að þessi virðisaukaskattur greiðist úr sameiginlegu búi aðilja. Um tekjuskatta vísast til þess sem áður er fram komið, en ljóst sé að varnaraðili verði að gera grein fyrir bústofnsskerðingu á landbúnaðarframtali sínu vegna ársins 1999.

Varakrafa samkvæmt þessum lið byggist á því að óvíst er hvort varnaraðili þurfi að tekjufæra Árvak og Kóng á umsömdu matsverði við yfirfærslu til sóknaraðilja.

Varnaraðilja sé nauðsyn að fá dóm um skyldur sínar í þessu efni fyrir komandi rekstrarár.

4. Um þennan kröfulið vísast til þess sem að framan er rakið um virðisaukaskatt af Von og Væntingu. Matsverð að frádregnum virðisaukaskatti svari til bókfærðs verðs og sé því ekki um neina skattaskuldbindingu að ræða.

Varðandi málskostnað sem varnaraðili fjallar um undir 5. tl. þá segir orðrétt: „…að eins og málsgögn beri með sér þá hafi ekki staðið á honum að leysa mál þetta, en sífellt nýjar kröfur sóknaraðilja og málalengingar hafi orðið til þess að jafnvel undirbúnir fundir, þar sem fyrir lágu tillögur sóknaraðilja í ætt við sjónarmið varnaraðilja hafi farið í vaskinn með tilheyrandi kostnaði fyrir varnaraðilja. Enginn vilji hafi verið til að leysa málið af hálfu sóknaraðilja þrátt fyrir tilslakanir varnaraðilja og eindreginn vilja til að leysa málið með sem minnstum kostnaði.“ Vísar varnaraðili til gagna málsins í þessu sambandi.

Til lagaraka vísar varnaraðili til laga nr. 75, 1981 um tekju- og eignaskatt, laga nr. 4, 1995 um tekjustofna sveitarfélaga 4. kafla, hjúskaparlaga nr. 31, 1993 og málskostnaðarkrafan er byggð á lögum um meðferð einkamála.

Verða nú raktir framburðir aðilja og vitna hér fyrir dómi svo og önnur gögn málsins eftir því sem ástæða þykir til.

Sóknaraðili, Hólmfríður Guðbjörg Sigurðardóttir, bar að hún hafi fyrst vitað um söluna á Safír þann 29. október 1997. Þá hafi verið óróleikatímabil hjá þeim hjónum og hafi hún komið heim eftir 5 daga dvöl í Reykjavík og hafi litið í bókhald þeirra hjóna og hafi þá séð skjal þar sem fram kom að Safír hafði verið seldur þann 15. september. Hafi hún spurt varnaraðilja að þessu og hafi hann sagt þetta rétt vera. Hafi hún hringt til foreldra sinna, sem búa á Skúfsstöðum í Hjaltadal í Skagafirði, og hafi fengið staðfest að hesturinn væri farinn þaðan, en þar hafi hann verið. Þann 13. október 1997 hafi skilnaður þeirra hjóna komið til tals vegna ágreinings í sambandi við hrossahald og fjárfestingar í sambandi við hesthúsabyggingu. Varðandi það að hrossin Frigg og Drottningu mætti ekki selja hafi hún eingöngu haft orð varnaraðilja fyrir því. Hún neitaði því að með undirritun skattframtals 1998 hafi hún samþykkt sölu Safírs. Hafi hún aldrei séð landbúnaðarskýrslu þá er varnaraðili gerði og hafi hún spurt varnaraðilja eftir henni, en ekki fengið að sjá hana. Þegar skilnaður blasti við hafi varnaraðili sagt að hún skyldi missa, blæða og tapa vegna hans. Varðandi hrossaeign þeirra þá hafi þau verið flest með 26 hross og verið landlaus og það hafi legið í augum uppi hvaða álag þetta hefði haft á hjónaband og heimilislíf. Hafi Safír verð auglýstur til sölu í Eiðfaxa, en ekki komið viðunandi tilboð. Aðspurð um verðhugmyndir hennar á hestinum þá hafi þær verið háar og í engu samræmi við verðið er hann hafi verið seldur á kr. 2.500.000. Hafi hesturinn verið mjög vinsæll sem stóðhestur og verið leigður út um allt land. Aðspurð um tekjur af hestinum svaraði hún því til að varnaraðili hafi haft bókhaldið. Dýrt væri að halda stóðhest en hesturinn örugglega staðið undir kostnaði. Nánar gat hún ekki svarað til um tekjur af hestinum. Hún kvaðst ekki geta sætt sig við sölu á hesti á því verði sem hann gæti skilað á einu eða tveimur árum. Nánar aðspurð um hrossin Frigg og Drottningu þá hafi þær verið mjög kærar tengdaföður hennar og báðar mjög eigulegar skepnur, taldi þó Frigg betri, betur tamda og í fullri þjálfun og auk þess ákaflega skemmtilegt reiðhross. Hún upplýsti að þegar Safír var yngri hafi útlendingur haft samband og hafi þá viljað kaupa hestinn á kr. 14.000.000 að sögn varnaraðilja.

Varnaraðili Jóhannes Ottósson upplýsti að tekjur af Safír s.l. 2 ár fyrir sölu hans hafi numið brúttó um kr. 500.000 á ári en þar frá drægist virðisaukaskattur, flutningur o.s.frv. og kostnaður ca 50% af tekjum. Hafi hesturinn verið auglýstur árið 1996 í Eiðfaxa, júní- eða júlítölublaði. Tveir aðilar hefðu sýnt áhuga á kaupum, annar viljað greiða fyrir hestinn kr. 1.500.000 og hinn kr. 1.800.000 og hefði þeim boðum verið hafnað. Rétt væri að útlendingur hafi sýnt áhuga á kaupum árið 1992 og hafi hann haft samband símleiðis og taldi hann takmarkaða alvöru eða getu búa að baki boðunum og hafi hann nefnt söluverðið 14.000.000 til þess að losna við manninn og hefði ekki heyrt í honum síðan. Hann hafi selt hestinn á hámarksverði, menn hafi verið tilbúnir til að greiða fyrir hann kr. 1.800.000 til kr. 2.000.000. Við sölu hafi legið fyrir heilbrigðisskoðun á hestinum og hafi komið fram á röntgenmynd skuggi á afturfæti sem gæfi til kynna spattmyndun þannig að ekki hefði verið hægt að selja hestinn úr landi. Aðspurður um uppgefna sölu hrossa að fjárhæð kr. 1.515.760 á landbúnaðarskýrslu 1997, sem fylgdi skattframtali 1998, þá hafi það verið mistök sín að telja þar ekki fram allt söluverð Safírs í einu lagi, en eftirstöðvar kaupverðsins hafi hann talið fram á virðisaukaskattskýrslu í janúar 1998. Hann taldi söluverð eigna sem ekki mætti selja vera ekkert þ.e. 0 kr. og útskýrði fyrir dóminum hugtakið verðgildismat, sem væri annað en söluverð og taldi aðspurður það vera það sama og missir hagnaðarvonar. Hafi Safír verið mjög eftirsóttur er hann var 6-8 vetra gamall, en vinsældir hans hafi verið farnar að dvína og hesturinn ekki í fullri notkun sem stóðhestur. Hafi folatollur verið kr. 15.000 og með virðisaukaskatti kr. 18.000. Taldi hann sig hafa fengið gott verð fyrir hestinn og hafi metið það betra að selja hestinn vegna dvínandi vinsælda. Í dag væri hann 14 vetra og graðhestar yfirleitt í notkun til tvítugs. Taldi hann hestinn geta sinnt ca 50-70 hryssum, nú í dag, á ári,. Í dag vissi hann ekki um notkun hestsins. Hafi kaupandi vafalaust ætlað sér að hagnast á hestinum en það sé spurning hvernig til takist í markaðsmálum. Hann upplýsti að í dag væri innifalið í folatollum sem matsmenn geri grein fyrir t.d. sónarskoðun o.fl. þannig að þar séu ýmsir frádráttarliðir þegar gert sé upp. Varðandi það sem fram komi hjá hinum dómkvöddu matsmönnum varðandi þau 195 afkvæmi Safírs, sem á sé minnst, þá hafi einungis 11 af þessum hrossum komið til dóms. Sjálfur hafi Safír ekki farið í dóm og ekki hafi verið nógu mörg afkvæmi undan honum til þess. Hann kvaðst hafa sagt sóknaraðilja frá sölunni á Safír í október 1997. Varðandi skattframtal þeirra 1998 þá hafi sóknaraðili haft öll gögn fyrir framan sig og getað lesið ef hún hefði viljað, en hún hafi ekki séð ástæðu til að lesa eða kynna sér þau. Hann kvað söluandvirði Safírs hafa farið í rekstrarkostnað og til byggingar hesthúss.

Svo sem fram er komið voru dómkvaddir matsmenn til að meta verðgildi stóðhestsins Safírs. Á dskj. nr. 49 er matsbeiðni lögmanns sóknaraðilja dagsett 4. júlí 1998 til Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem óskað er að dómkvaddir verði tveir sérfróðir matsmenn til að láta í té rökstutt og skriflegt álit um eftirfarandi:

1 Hvert telja matsmenn verðgildi stóðhestsins Safírs í dag miðað við gangverð á frjálsum markaði?

2 Hefði gangverð Safírs verið annað þann 15. september 1997 þegar salan fór fram?

3 Ef svar við spurningu 2 er já, hvert hefði þá að áliti matsmanna verið eðlilegt gangverð 15. september 1997?

Dómkvaddir voru sem matsmenn þeir Sigurbjörn Bárðarson og Einar Gunnar Bollason, skiluðu þeir álitsgerð upphaflega um söluverðmæti stóðhestsins Safírs, þar sem gerð er grein fyrir hestinum. Fram kemur að orðspor Safírs hafi farið víða og hafi hann notið töluverðra vinsælda sem ræktunarhestur til undaneldis. Samkvæmt skráningu í gagnagrunni Bændasamtaka Íslands, Feng, séu skráð afkvæmi Safírs nú 195 og sé afkvæmafjöldi hans í meðallagi miðað við aðra þekkta fyrstu verðlauna stóðhesta, auk þess hafi Safír hlotið fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi sín. Af umsögn hrossaræktarráðunauta Bændasamtaka Íslands megi glöggt sjá að Safír sé afar álitlegur kynbótahestur og segi svo í bréfi Kristins Hugasonar, hrossaræktarráðunauts Bændasamtaka Íslands: „Í ljósi allra fyrirliggjandi gagna ályktar undirritaður sem svo að Safír sé í hópi bestu undaneldishesta landsins og ber að meta verðgildi hans í því ljósi.“ Segir í álitsgerðinni að Safír sé án vafa það sem kalla megi tískuhest, þ.e.a.s. hestur sem sé afar vinsæll til undaneldis. Þeir þættir í fari hestsins sem skapi þessar vinsældir sé hár og mikill fótaburður, góður vilji, gott geðslag, fallegt fas og góðar ættir. Til þess að gera sér grein fyrir verðmæti stóðhestsins Safírs verði að leita samanburðar í söluverðmæti annarra þekktra stóðhesta með svipaðar einkunnir úr einstaklingssýningum. Sem dæmi nefna þeir að Hrossaræktunarsamtök Vesturlands hafi keypt hlut í stóðhestinum Eið frá Oddhóli, sem metinn var á kr. 7.500.000 fyrir virðisaukaskatt. Hrossræktarsamtök Eyfirðinga og Þingeyinga hafi keypt hlut í stóðhestinum Núma frá Þóroddsstöðum sumarið 1997, sem einnig var metinn á kr. 7.500.000 fyrir virðisaukaskatt. Eiður og Númi hafi náð góðum árangri sem einstaklingar, en hafi enn ekki sannað gildi sitt með afkvæmum eins og Safír.

Hafandi skoðað öll gögn er það álit matsmannanna að verðmæti Safírs sé mjög áþekkt því sem er um hesta af svipuðum gæðum og hafa náð vinsældum. Er niðurstaðan að söluverðmæti hans sé að bilinu 6-10.000.000 kr. og þá alls ekki minna en 6.000.000 kr. Er álitsgerð þessi á dskj. nr. 33.

Í tilefni þessarar álitsgerðar matsmannanna var þeim tilmælum beint til þeirra að haldinn yrði matsfundur með aðiljum og fram kæmi í matsgerð afdráttarlaust mat á verðgildi hestsins.

Skiluðu matsmenn endanlegri matsgerð dagsettri 5. desember 1998, sbr. dskj. nr. 40, en þann dag var haldinn matsfundur, þar sem mættu varnaraðili og lögmaður hans, Halldór Jónsson, hdl.

Segir í matsgerðinni að matsmenn og aðiljar hafi verið sammála um að ekki þyrfti að fara á vettvang til að skoða hestinn, en samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum var hann sagður austur í sveitum.

Segir í matsgjörðinni að aðiljar hafi komið á framfæri sjónarmiðum sínum við matsmenn á matsfundi, sbr. meðfylgjandi fundargerð matsfundar.

Síðan segir í matsgerðinni að með vísan til fyrri matsgerðar og í ljósi athugasemda sem fram komu á matsfundi telja matsmenn stóðhestinn Safír til verðs á kr. 7.250.000. Sama verð meta matsmenn hestinn á þann 15. september 1997.

Fyrir dómi staðfesti matsmaðurinn Sigurbjörn Bárðarson matsgjörðina, en aðspurður um stöðu kvaðst hann vera atvinnutamningamaður, útflytjandi, ræktandi hrossa og reiðkennari. Hann kvað matsmenn hafa kynnt sér öll gögn varðandi samsvarandi stóðhesta og Safír og afkvæmi hans og leitað fanga þar sem hægt var. Aðspurður hvort venja væri að afla heilbrigðisvottorðs þegar dýrir hestar væru seldir, þá kvað hann það venju nú upp á síðkastið, jafnt um dýra hesta sem ódýra. Þeir matsmenn hafi ekki aflað sér heilbrigðisvottorðs um Safír vegna þess hve langt var liðið frá sölu og ekki hafi verið farið fram á heilbrigðisskoðun.  Ekki kvað hann skipta máli um heildarverð hvort hestur væri seldur í heilu lagi eða hlutum. Hann upplýsti að stóðhestur eins og Safír gæti skilað í folatoll ca. 1.500.000 til 2.000.000. kr. á ári miðað við að hann sinnti 70 merum og folatollur kr. 20.000 til kr. 30.000.

Matsmaðurinn Einar Gunnar Bollason, framkvæmdastjóri, staðfesti matsgjörðina. Sagði hann það venju að afla heilbrigðisvottorða með dýrum hestum í dag og reyndar með flestum hestum.  Ekki hafi þeir aflað heilbrigðisvottorðs um Safír þar sem að svo langt var liðið frá kaupunum og ekki hafi verið beiðni um það. Aðspurður hvort að hægt væri að fá hærra verð fyrir stóðhest sem að seldur væri í hlutum eða í heilu lagi, þá sagði hann ekkert almennt svar til við því, hugsanlega væri hægt að fá hærra verð með því að skipta honum upp í hluta og þar af leiðandi fá hærra verð. Hann upplýsti að verðlagning á folatolli væri miklum sveiflum háð og hefði hækkað gífurlega hjá bestu hestum. Að gefnum folatolli á bilinu frá kr. 15.000 til kr. 50.000, þá væri Safír á verðbilinu ca. kr. 30.000 til 35.000 að hans mati. Svona hestur gæti gagnast ca. 70 til 80 hryssum að hámarki á ári, en taldi raunhæfa tölu 50 til 60 hryssur. Miðað við hærri töluna, þ.e.a.s. 60x30.000 þá gæfi það kr. 1.800.000 á ári, en hesturinn gæti gefið ca. kr. 2.000.000 til kr. 2.500.000 af sér í folatoll af sér á ári. Verðmæti Safírs ráðist af því hversu hátt hann sé skráður í gagnagrunni og að hann sé mjög álitlegur kynbótahestur.

Álit dómsins:

I.

Að því er varðar endurgjaldskröfu sóknaraðilja, skv. tl. 1 hér að framan, þá fellst dómurinn að öllu leyti á þau lagarök og málsástæður sóknaraðilja, sem reifaðar eru.

Niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna um eðlilegt söluverðmæti stóðhestsins Safírs hefur ekki verið hnekkt og framburður matsmannanna um folatoll þann er hesturinn ætti að geta skilað styður enn frekar niðurstöðu þeirra.

Hesturinn var seldur 15. september 1997 og skýrði varnaraðili frá því að hann hefði greint sóknaraðilja frá sölunni í október það ár og sóknaraðili kveðst hafa komist að henni 29. þess mánaðar.

Ekkert er fram komið er jafna megi til eftirfarandi samþykkis sóknaraðilja á þessari ráðstöfun varnaraðilja. Hvernig svo sem velt er upp tölulegum mismun á söluverði Safírs og metnu markaðsverði telur dómurinn, með vísan til 2. mgr. 107. gr. laga nr. 31, 1991, að varnaraðili hafi rýrt hjúskapareign aðilja með því að misbeita ráðum yfir henni með sölu stóðhestsins Safírs án samráðs við sóknaraðilja og er því endurgjaldskrafa sóknaraðilja að fullu tekin til greina með kr. 2.375.000 og rétt þykir að varnaraðilja greiði sóknaraðilja vexti af þeirri fjárhæð frá 15. september 1997, skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987, sbr. lög nr. 67, 1989.

II.

Almennt hvað varðar fjárskipti hjóna þá er ekki að finna ákvæði í lögum um að skiptin sjálf felli á aðilja sérstaka skattskyldu. Vissulega er hægt að sjá fram á duldar skattskuldbindingar við búskipti hjóna við skilnað, en dómurinn getur ekki á það fallist með varnaraðilja að reikningsskilavenja sú, sem fram kemur í drögum að leiðbeinandi reglum um reikningsskil nr. 6, sbr. dskj. nr. 37, sem hér að framan er rakið, né heldur dómur Hæstaréttar Íslands 3. desember 1998 í máli nr. 91,1998, sé réttmætur grundvöllur fyrir þeim afreikningi er hann beitir í málatilbúnaði sínum. Þau verðmæti í hrossaeign, sem um er deilt í málinu eru eignfærð í skattframtölum aðilja á skattmati og sá ágreiningur sem nú er með aðiljum snýst eingöngu um innbyrðisverðmæti einstakra hrossa í stóðinu, sem hefur þá hugsanlega skattskyldu í för með sér við sölu til þriðja manns, en ekki við útlagningu til aðilja við skiptin. Sama á við um hesthúsið að Safírstræti 5 að breyttu breytanda. Við skipti milli aðilja málsins telur því dómurinn að leggja bera til grundvallar eðlilegt gangverð/söluverð eigna búsins burtséð frá skattaskuldbindingum.

III.

Að því er varðar kröfur sóknaraðilja, skv. 2. tl. hér að framan, varðandi hrossin Frigg og Drottningu, þó svo að sóknaraðili samþykki það að hrossin verði ekki seld, þá hafi þau verðgildi í sjálfu sér og falli þau undir skiptin samkvæmt matsverði matsmanna, þar sem ekki er samkomulag um verðmæti þeirra. Varðandi tl. 3 í kröfu sóknaraðilja, þá er með vísan til þess sem segir í II. kafla hér að framan, að þá skulu hrossin, Von, Vænting, Árvakur og Kóngur lögð út á þessu verði: Von kr. 400.000, Vænting kr. 130.000, Árvakur kr. 100.000 og Kóngur kr. 100.000. Varðandi kröfulið 4, þá skal miða verðmat hestshússins að Safírstræti 5 við yfirmat hinna dómkvöddu yfirmatsmanna á kr. 2.475.000.

Samkvæmt þessum málalyktum skal varnaraðili greiða sóknaraðilja kr. 400.000 í málskostnað auk virðisaukaskatt.

Úrskurð þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, Jóhannes Ottósson, greiði sóknarðilja, Hólmfríði G. Sigurðardóttur, endurgjaldskröfu vegna sölu stóðhestsins Safírs kr. 2.375.000 auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 15. september 1997 til greiðsludags. Hrossin, Frigg og Drottning komi til skipta milli aðilja á matsverði dómkvaddra matsmanna. Hrossin, Von, Vænting, Árvakur og Kóngur verði lögð út til skipta á eftirgreindu verði; Von kr. 400.000, Vænting kr. 130.000, Árvakur kr. 100.000 og Kóngur kr. 100.000.  Hesthús að Safírstræti 5 á Akureyri verði lagt út við skiptin á kr. 2.475.000.

Varnaraðili, Jóhannes Ottósson, greiði sóknaraðilja Hólmfríði G. Sigurðardóttur, málskostnað kr. 400.000 auk virðisaukaskatts á málskostnað.