Hæstiréttur íslands
Mál nr. 650/2011
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
|
|
Fimmtudaginn 10. maí 2012. |
|
Nr. 650/2011.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl. Einar Hugi Bjarnason hdl.) |
Kynferðisbrot. Börn.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot, framin á tilteknu árabili, gegn dóttur fyrrverandi sambýliskonu sinnar. Héraðsdómur taldi brotaþola hafa gefið trúverðuga skýrslu, en að líta bæri til þess að X, sem staðfastlega hefði neitað sök, væri ekki ótrúverðugur. Var það niðurstaða héraðsdóms að önnur gögn málsins styddu ekki nægilega við framburð brotaþola um að X hefði brotið gegn henni. Hefðu þannig ekki verið færðar viðhlítandi sönnur á, svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa, að X hefði gerst sekur um þau brot sem honum voru gefin að sök og var hann því sýknaður. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með vísan til forsendna dómsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. nóvember 2011. Af hálfu ákæruvalds er þess aðallega krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og hann dæmdur til refsingar, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.
Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.
Ákæruvaldið heldur því meðal annars fram fyrir Hæstarétti að mat héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dóminum sé rangt og séu efni til að meta framburðinn svo að í honum felist lögfull sönnun um sekt ákærða. Niðurstaða fjölskipaðs héraðsdóms um sýknu ákærða af sakargiftum í málinu var einkum reist á mati dómsins á sönnunargildi framburðar við munnlega sönnunarfærslu fyrir dómi. Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála getur Hæstiréttur ekki endurmetið þá niðurstöðu til sakfellingar ákærða, sbr. til hliðsjónar meðal annars dóma réttarins 17. september 2009 í máli nr. 19/2009, 1. október 2009 í máli nr. 141/2009, 11. febrúar 2010 í máli nr. 479/2009, 7. apríl 2011 í máli nr. 570/2010, 19. maí 2011 í máli nr. 571/2010, 16. júní 2010 í máli nr. 30/2010 og 20. desember 2011 í máli nr. 229/2011. Yrði fallist á málflutning ákæruvalds um rangt mat héraðsdóms á sönnunargildi framburðarins gæti það þannig að lögum ekki orðið til þess að aðalkrafa þess yrði tekin til greina, heldur myndi það samkvæmt 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 leiða til þess að héraðsdómur yrði ómerktur og málinu vísað heim til munnlegrar sönnunarfærslu á ný, svo sem varakrafa ákæruvalds kveður á um. Ekki eru efni til að fallast á að svo hátti til í máli þessu. Verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Eftir þessum úrslitum verður allur sakarkostnaður málsins lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins, samtals 486.623 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2011.
I
Málið, sem dómtekið var 13. september síðastliðinn, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 27. júní 2011 á hendur X kennitala [...], [...], [...], fyrir kynferðisbrot gegn A, fæddri [...], dóttur fyrrverandi sambýliskonu ákærða, framin á tímabilinu 2005 til febrúar 2011, á þáverandi heimilum þeirra að [...], [...], [...], [...], [...] og [...], [...], með því að hafa einu sinni til tvisvar í viku nuddað getnaðarlim sínum upp við kynfæri stúlkunnar, látið hana fróa sér og hafa munnmök við sig, nuddað og sleikt brjóst hennar og kysst hana á munninn með tungukossi.
Telst þetta varða við 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu B, kennitala [...], vegna A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 5.000.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi er bótakrafan er birt fyrir ákærða en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. að liðnum mánuði frá birtingu bótakröfunnar til greiðsludags auk greiðslu þóknunar við réttargæslu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á réttargæsluþóknun.“
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Ákærði krefst þess að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi.
II
Upphaf málsins er bréf barnaverndar í heimilissveitarfélagi brotaþola til lögreglu 4. mars síðastliðinn. Í bréfinu kemur fram að hjúkrunarfræðingur í skóla brotaþola hefði tilkynnt 2. mars að brotaþoli segðist verða fyrir líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi heima hjá sér. Sama dag ræddu starfsmenn barnaverndar við hana og sagði hún þá að ákærði beitti hana kynferðislegu ofbeldi, en vildi ekki tjá sig frekar um það. Þá er haft eftir henni að stuttu fyrir jól hefði vinkona móður hennar verið að gæta hennar og hefði maður hennar misnotað sig. Í bréfinu er einnig sagt frá því að árið 2003 hefði vaknað grunur um kynferðislegt ofbeldi gagnvart brotaþola. Talað var við hana í Barnahúsi en ekkert kom út úr því og lauk málinu þar með. Þetta sama ár og árið 2006 var tilkynnt um vanrækslu gagnvart brotaþola, en hún var flutt í annað sveitarfélag áður en til aðgerða kom. Í nýja sveitarfélaginu greindi brotaþoli einnig frá kynferðislegu ofbeldi og var það mál til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum og lögreglu, en því lauk 2007 án þess að botn fengist í það. Brotaþoli flutti aftur í hið fyrra sveitarfélag og voru málefni hennar til meðferðar hjá barnavernd þar árið 2008 og fram á árið 2009. Var móður hennar veitt aðstoð við uppeldið. Í september 2009 var tilkynnt um að brotaþoli sýndi af sér markalausa, frakka og óviðeigandi hegðun gagnvart drengjum. Brotaþoli fór í viðtöl í Barnahúsi í febrúar til apríl 2010 án þess að þau leiddu til frekari aðgerða og lokaði barnavernd málinu í desember 2010.
Meðal gagna málsins er bréf Barnahúss frá árinu 2007. Þar kemur fram að brotaþoli hefði komið í þrjú viðtöl sumarið 2006. Tvisvar hefði hún skýrt frá því að maður hefði sleikt á henni „pjölluna“. Ekki kom fram hjá henni hver þetta hefði verið, en hún kvaðst einu sinni hafa séð hann í Kringlunni og flýtt sér í burtu, en ekki orðið hrædd. Í bréfi Barnahúss frá desember 2010 segir að brotaþoli hefði komið þangað í 5 viðtöl frá febrúar og fram í apríl sama ár. Segir í bréfinu að brotaþoli hefði verið glaðleg og ræðin í viðtölum og hún eigi auðvelt með að tjá sig. Gerð var grein fyrir fræðslu sem brotaþoli fékk þar sem frætt var um tilfinningar og mörk, hvað væri viðeigandi og hvað ekki. Einnig var hún frædd um einkastaði líkamans og viðbrögð við kynferðislegu ofbeldi. Þá kom fram að brotaþoli kvaðst ekki muna mikið eftir fyrri komu í Barnahús. Sagðist hún aldrei hugsa um það kynferðislega ofbeldi sem var ástæða komu hennar 2003. Í lok bréfsins segir að ekki verði séð að kynferðisofbeldið væri henni hugleikið.
Brotaþoli var skoðuð af kvensjúkdómalækni og barnalækni í júlí 2006. Í vottorði þeirra segir að um sé að ræða eðlilega þroskaða stúlku og því lýst nánar. Um skoðun kvensjúkdómalæknis segir „ytri kynfæri eru eðlileg. Meyjarhaft er heilt og sést ekki opna sig. Enginn roði á spöng, eðlilegur tonus og eðlileg spenna í endaþarmsvöðva og endaþarmssvæði lítur eðlilega út. Þannig er skoðun algerlega eðlileg á ytri kynfærum sem útilokar þó ekki að stúlkan kunni að hafa orðið fyrir einhverskonar kynferðislegu ofbeldi. Tekið er þvagsýni í almenna skoðun, ræktun og PCR fyrir chlamydiu og leiðir það ekkert óeðlilegt í ljós.“
Brotaþoli var athuguð af sálfræðingi í febrúar 2010 vegna vísbendinga um ADHD. Niðurstaðan var sú að þótt hún ætti við athyglisvanda og ókyrra hegðun, eins og það er orðað, að stríða þá uppfyllti það ekki skilyrði þess að teljast ADHD.
Tekin var skýrsla af brotaþola fyrir dómi 4. apríl síðastliðinn og verður nú meginefni hennar rakið. Hún kvaðst hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu stjúpföður síns, ákærða, og væri það bæði líkamlegt og kynferðislegt. Líkamlega ofbeldinu lýsti brotaþoli nánar þannig: „Hann hefur svona til dæmis lamið mig með herðatré, samt ekki úr tré, úr plasti og það brotnar stundum þegar hann lemur mig með því. Hann gerir það þegar mamma er kannski úti og hann fer aldrei út, hann er alltaf heima í tölvunni og þá vil ég ekki vera hjá honum, þannig að ég reyni alltaf að vera einhversstaðar úti að leika mér með vinkonum mínum og ég kem seint heim og þá lemur hann mig alltaf.“ Er spurt var hvar ákærði lemdi hana sagði brotaþoli hann lemja sig á hendur og höfuð og stundum á rassinn, en ekki á hann beran heldur væri hún í fötum. Ástæður barsmíðanna sagði brotaþoli vera að hún væri óþekk, kæmi seint heim á kvöldin og rifi kjaft við ákærða. Brotaþoli kvað kynferðisofbeldið hafa byrjað þegar þau bjuggu í ákveðnu hverfi, en það heimili er ekki tilgreint í ákærunni. Hún kvaðst hafa verið fimm ára og verið ein heima með ákærða. Móðir hennar hefði farið í afmæli, en ákærði ekki viljað fara með henni. Ákærði hefði boðið henni í bað með sér og þar hefði gerst eitthvað ógeðslegt. Eftir smástund sagði brotaþoli að ákærði hefði gert eitthvað með typpinu á sér. Síðan segir hún: „Oftast þá reynir hann að troða því í kynfærin á mér.“ og með kynfærunum á hún við rass og píku. „Hann reynir alltaf að troða því í en hann getur það aldrei og þá tekur hann typpið og strýkur því svona fram og til baka.“ Brotaþoli ítrekaði að ákærði reyndi að troða typpinu inn í sig en hefði ekki tekist það. Þess í stað hefði hann strokið því við píkuna þar til eitthvað hvítt hefði komið úr því og farið á hann. Þá kvaðst brotaþoli einnig hafa þurft að sleikja typpi ákærða og halda utan um það og hreyfa það. Einnig kvað hún hann sleikja á sér píkuna. Hún kvað þetta hafa gerst í herbergi móður hennar þegar hún væri farin út að spila póker eða bingó. Brotaþoli kvað ákærða segja sér að fara úr öðrum fötum en bol og nærbuxum þegar hún væri heima og þegar hann ætlaði að gera þetta við hana tæki hann hana úr nærbuxunum. Sjálfur fari hann í bað eða skoli á sér typpið enda þurfi hún að sleikja það. Hún kvað móður sína fara út tvisvar til þrisvar í viku og þá gerðist þetta, þó þannig að færi hún þrisvar þá gerðist þetta tvisvar og væri einn dagur á milli.
Brotaþoli kvað sér líða illa þegar ákærði gerði þetta. „Ég segi alltaf við hann hvort að hann geti hætt þessu en hann bara segir að þegar ég verði fjórtán ára og hann getur svona gert svona troðið typpinu inn í píkuna á mér að þá muni hann hætta og verða svona bara almennilegur pabbi.“ Hún kvaðst einu sinni hafa sagt móður sinni frá þessu en hún hefði ekki trúað sér. Hún hefði líka verið svo hrædd við lögregluna að hún hefði sagst vera að plata. Þá kvað hún ákærða hafa sagt sér að ef hún segði frá þessu myndi hún fara frá móður sinni. Hún kvaðst hins vegar hafa sagt tveimur vinkonum sínum frá því að hún væri lamin, en ekki frá kynferðisofbeldinu. Einnig bar brotaþoli að ákærði hefði nuddað og sleikt á sér brjóstin og hún þurft að kyssa hann tungukossi. Þegar brotaþoli var spurð nánar um það hvar þetta hefði gerst svaraði hún: „Sko hann hefur bara gert á tveimur stöðum það er heima hjá mér og einu sinni“ erlendis. Þá var hún spurð hvort hann hefði gert þetta allan tímann sem hún hefði búið á núverandi heimili og svarar hún: „Hann hefur gert þetta bara eiginlega alltaf síðan held ég svona janúar.“ Nánar spurð um þetta sagði brotaþoli ákærða hafa gert þetta á öllum heimilum, sem um getur í ákæru auk eins annars og einnig erlendis. Þá kvaðst hún hafa hugsað að segja frá þessu því þá myndi þetta hætta, en hún hefði verið hrædd um að þá myndi hún verða tekin frá móður sinni en það vildi hún ekki.
Brotaþoli var skoðuð af barnalækni og kvensjúkdómalækni 13. apríl síðastliðinn. Í vottorði þeirra segir að engin útbrot eða áverkamerki sé að finna á húð og heldur engin merki um bólgu eða eymsli við þreifingu á líkama. Hefðbundin líkamsskoðun hefði því verið eðlileg. Um skoðun kvensjúkdómalæknis segir: „Það er algjörlega eðlileg skoðun á ytri kynfærum, meyjarhaft er til staðar sem er V-laga með litlu skarði um kl. 19, fínar brúnir og op á meyjarhafti er eðlilegt, 3-4 mm í þvermál. Kynþroski er II samkvæmt Tanner stigum. Æðateikning er eðlileg og það er ekki hægt að sjá nein merki um ytri áverka á kynfærum. Spöng er sömuleiðis eðlileg og endaþarmssvæði er eðlilegt á að líta og eðlilegur tonus í endaþarmsvöðva. Stúlkan skilar þvagprufu í almenn smásjárskoðun og ræktun og auk þess PCR fyrir chlamydia og kom ekkert óeðlilegt út úr þeim rannsóknum.“ Það var því álit læknanna að almenn líkamsskoðun hefði ekki leitt neitt í ljós sem benti til þess með vissu að brotaþoli hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eða áreiti, en útilokaði það heldur ekki. Ekki sáust nein merki um innþrengingu í leggöng.
Brotaþoli var athuguð af barnasálfræðingi í maí síðastliðnum og í niðurstöðu segir: „Um er að ræða [...] ára stúlku sem gefur trúverðuga frásögn af langvarandi kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi. Stúlkan hefur skýr einkenni áfallastreituröskunar sem samræmast því sem búast má við þegar barn býr við slíkar aðstæður.“
Þá er meðal gagna málsins skýrsla um sálfræðilega athugun á brotaþola. Þar segir að í febrúar 2009 hefði borist beiðni frá foreldrum hennar og skóla um athugun á henni vegna einbeitingarskorts og eirðarleysis. Þá er sagt frá því að hún eigi sögu um kynferðislegt ofbeldi þegar hún bjó úti á landi fyrir [...] árum síðan. Eftir að gerð hefur verið grein fyrir hinum ýmsu prófum, sem fyrir hana voru lögð, segir að hjá henni komi fram frávik í hegðun og málþroska. Mat á vitsmunaþroska bendi til greindar með miklum misstyrk. „Málstarf bendir til málhömlunarmynsturs þar sem frammistaðan er langt fyrir neðan frammistöðu í öðrum prófhlutum. Veikleikar birtast þar í almennri þekkingu og ytri hugtakaflokkun. Styrkleikar koma fram í sjónrænum verkefnum sem reyna á rökhugsun og þrautalausnir. Ekki var hægt að reikna út heildartölu greindar sökum þess mikla munar.“ Um hegðun brotaþola segir að hún hefði einkennst af mótþróa og hvatvísi í fyrravetur. „Kennari þá hafði orð á því að hún væri oft með sérstaka hegðun gagnvart strákum sem einkenndist af fremur líkamlegum og óviðeigandi hnoði, kjassi og vísi að kossaflensi.“ Nú hefði nýr kennari tekið við henni og hegðun hennar breyst til hins betra, „en þó borið töluvert á óviðeigandi og frakkri hegðun gagnvart strákum.“ Bent er á að vegna forsögu hennar þurfi að fylgjast vel með henni vegna þess að „slíkum fórnarlömbum er mjög hætt við meiri áhættuhegðun á yngri árum. Að auki fær hún mikla styrkingu frá eldri skólafélögum sínum fyrir þessa hegðun.“
Loks ber að geta um skýrslu sálfræðings hjá Barnahúsi, en brotaþoli hefur komið í fjögur viðtöl í júní og júlí síðastliðnum. „Viðtölin hafa leitt í ljós fjölmörg vandamál sem þekkt eru meðal barna sem sætt hafa kynferðislegu ofbeldi í langan tíma. Ljóst er að viðtalsmeðferð er hvergi nærri lokið og áfram þurfi að vinna með þessi einkenni hjá stúlkunni í komandi viðtölum. Þá er enn eftir að kanna hjá stúlkunni tilfinningar eins og skömm og sektarkennd. Í heild benda einkenni stúlkunnar ekki til að öll greiningarskilmerki áfallastreituröskunar séu uppfyllt að fullu.“ Hún sýni fjölmörg einkenni um hana, einkum forðun og ofurviðkvæmni fyrir áreitum í umhverfinu.
Ákærði var yfirheyrður þrívegis af lögreglunni og neitaði staðfastlega að hafa beitt brotaþola kynferðislegu ofbeldi. Hann viðurkenndi hins vegar að hafa af og til beitt hana líkamlegum refsingum þegar tilefni var til vegna hegðunar hennar að hans mati.
III
Ákærði neitaði sök. Hann kvaðst hafa flutt til landsins árið [...] og vera íslenskur ríkisborgari. Árið 2003 hefðu hann og móðir brotaþola hafið sambúð á höfuðborgarsvæðinu. Áður kvaðst hann hafa búið í þorpi úti á landi og verið þar fyrstu 3 árin á Íslandi. Hann kvað brotaþola og móður hennar einnig hafa búið úti á landi. Ákærði var spurður hvort hann hefði skýringar á ásökunum brotaþola og kvað hann hana ekki vera hrifna af sér þar eð hann væri að setja henni reglur um útivist og fleira sem hún væri ekki ánægð með. Þá kvaðst hann refsa henni með því að láta hana vera inni í herbergi ef hún hlýddi ekki. Brotaþoli væri ekki ánægð með þetta. Hann kvað samskipti sín og brotaþola ekki hafa verið góð og hefði hún verið sér reið og óþekk þegar hann vildi segja henni fyrir verkum. Ákærði kvaðst hafa búið með móður brotaþola á þeim stöðum sem greinir í ákæru. Þá kvaðst hann hafa verið í vinnu á þessum tíma. Hann hefði til dæmis unnið í samlokugerð og þá unnið á kvöldin og nóttunni. Eins hefði hann unnið á veitingastað en sú vinna hefði verið „svört“. Á þessum tíma hefði móðirin verið að vinna á elliheimili um tíma, en að öðru leyti verið atvinnulaus. Ákærði kvaðst hafa gætt brotaþola meðan á sambúðinni stóð þegar móðirin vann aukavaktir. Móðirin hefði stundum farið að spila um helgar og þá sent brotaþola til systurdóttur sinnar sem gætti hennar. Þetta hefði aðallega verið um helgar og hann mjög sjaldan gætt hennar um helgar, enda hefði hann þá verið að vinna á veitingastað og unnið um helgar frá níu að kvöldi til þrjú um nóttina. Þegar hann vann á veitingastaðnum hefði systurdóttir móður brotaþola gætt brotaþola. Þar hefði hann unnið síðastliðin 4 til 5 ár, en hætt á þessu ári. Þá hefði maður nokkur stundum gætt brotaþola, en hann væri kvæntur konu af sama þjóðerni og móðir brotaþola. Einhvertíma hefði brotaþoli sagt að maðurinn hefði gert eitthvað við sig og hún vildi ekki fara til hans. Einnig hefði móðursystir brotaþola oft gætt hennar, en hún hefði búið á heimilinu í einhvern tíma frá 2009. Ákærði var spurður hvort hann hefði farið í bað með brotaþola og kvað hann það hafa gerst þegar hún var lítil og þá hefði móðirin verið með. Þá kannaðist ákærði við að hafa verið mikið í tölvu heima hjá sér.
Móðir brotaþola bar að hafa búið með ákærða í 7 til 8 ár, en þau byggju ekki saman í dag. Þau hefðu kynnst á vinnustað og hafið sambúð eftir um eins árs kynni. Þau hefðu fyrst búið saman á höfuðborgarsvæðinu en síðan flutt út á land. Hún kannaðist við að hún og ákærði hefðu búið saman á þeim stöðum sem nefndir eru í ákæru nema í húsnæði félagasamtaka, en meðan hún bjó þar hefðu þau verið par og ákærði komið í heimsóknir. Móðirin var spurð hvenær hún hefði fyrst heyrt um ætluð brot ákærða gegn brotaþola og kvaðst hún ekkert vita um þau. Hún kvað brotaþola hafa, þegar þær bjuggu úti á landi og brotaþoli var [...] ára, sagt nágranna þeirra að ákærði hefði brotið gegn sér en síðar sagt að það væri ósatt. Brotið hefði átt að vera að ákærði hefði látið hana snerta lim sinn. Hún kvað nágrannann hafa sagt sér þetta til að hún gæti spurt brotaþola hvort þetta væri satt eða ekki. Þá kvaðst hún hafa látið brotaþola gista hjá nágrannanum, sem kvæntur er konu af sama þjóðerni og hún, til að þau gætu spurt brotaþola nánar um þetta. Þau hefðu gert það og sagt móðurinni að brotaþoli væri að stríða með þessu og hún hefði verið að ljúga. Móðirin kvaðst hafa rætt þetta við brotaþola og eins athugað hvort ekki væri í lagi með hana, en ekkert hefði bendlað ákærða við brot gegn henni. Hún kvað brotaþola hafa bendlað annan mann við kynferðisbrot gegn sér, en það hefði verið meðan þær bjuggu á höfuðborgarsvæðinu. Hún var spurð um ætluð brot ákærða gegn henni undanfarið, það er eftir að þau fluttu aftur á höfuðborgarsvæðið, og kvaðst hún ekkert vita um þau, brotaþoli hefði ekki rætt við sig um þau. Þá kvað móðirin ákærða ekki oft hafa verið einan með brotaþola heldur hefði systir hennar oftast verið á heimilinu. Þó hefðu komið tímabil þegar þau voru ein heima þegar hún var að vinna. Brotaþoli hefði þá verið [...] eða [...] ára. Loks benti hún á að systir hennar hefði búið með þeim á tímabili. Móðirin kvaðst hafa spilað um helgar og þá hefði brotaþoli mjög oft farið til frænku sinnar, systurdóttur móðurinnar, en stundum hefði systir sín gætt brotaþola. Systir hennar hefði búið hjá þeim í 3 ár. Hún tók fram að þær systur hefðu ekki farið að spila á sama tíma. Ástæða þess að ákærði gætti ekki brotaþola hefði verið sú að hann hefði þurft að gæta sonar þeirra. Þá kvað móðirin brotaþola hafa viljað fara með sér að spila, ef hún gat ekki farið til frænku sinnar, frekar en að vera heima hjá ákærða. Móðirin kvað brotaþola engin merki hafa sýnt um að henni væri illa við ákærða og ekki hefði hún sagt sér frá ætluðum brotum hans. Þá kvaðst hún aldrei hafa orðið vör við ætluð brot ákærða gegn henni. Hún kvað brotaþola ekki vera beint óþekka en fyrir kæmi að hún plataði eða lygi til að geta farið á einhvern stað sem hún vildi fara á.
Faðir brotaþola, sem fer nú einn með forsjá hennar, bar að þau hefðu ekki rætt um þessi mál, en hún búi nú hjá honum og hafi gert frá [...] síðastliðnum. Hann kvaðst aldrei hafa orðið var við að hún væri með kynferðislegt tal eða annað í þá veru. Hins vegar hefði hann fundið fyrir óöryggi hjá henni. Þá kvað hann þetta hafa haft áhrif á hana, meðal annars hefði ákærði hringt í hana fyrir um 6 vikum og hún orðið skelfingu lostin.
Félagsráðgjafi hjá barnavernd þar sem brotaþoli á heima kærði málið á sínum tíma til lögreglu. Skóli hennar hafði haft samband þar eð brotaþoli hafði skýrt vinkonum sínum frá kynferðislegu ofbeldi sem hún sætti. Haft hefði verið tal af brotaþola sem hefði skýrt frá bæði líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Að fengnum þeim upplýsingum hefði verið haft samband við lögreglu. Félagsráðgjafinn kvað brotaþola strax hafa nefnt ákærða sem geranda. Þá kvað hún stofnunina lengi hafa haft áhyggjur af brotaþola og meðal annars hefði verið tilkynnt um hana frá leikskóla [...]. Þá voru atvik þau að kennari hefði verið að toga í fæturna á henni og þá hefði hún sagt „ætlar þú að kyssa á mér píkuna?“. Skömmu síðar hefði hún flutt út á land og þar hefðu afskipti af henni haldið áfram, enda alltaf grunur um kynferðislegt ofbeldi.
Skólastjóri í skóla, sem brotaþoli var áður í, staðfesti bréf sem hann ritaði barnavernd í maí 2008. Í bréfinu koma fram áhyggjur af ástandi brotaþola, hún væri oft í reiðileysi á skólalóðinni, mætti mjög snemma og færi seint heim. Hann kvaðst hafa fengið upplýsingar frá kennara brotaþola um að grunur væri um að hún sætti kynferðislegu ofbeldi. Þá bar hann að brotaþoli hefði, eftir sýningu frá samtökunum Blátt áfram, sýnt merki um að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og hefði hann tilkynnt það til barnaverndar.
Kennari brotaþola í framangreindum skóla bar að eldri strákar hefðu kvartað yfir því að hún væri að áreita þá, kyssa og fleira. Það hefði verið eins og hún væri að gera sig til fyrir þeim. Af þessu tilefni voru samdar reglur, meðal annars um að ekki mætti kyssa fyrr en eftir fermingu. Þá hefði brotaþoli verið farin að klæða sig á áberandi hátt miðað við aldur. Þegar brotaþoli kom í fyrsta sinn í skólann hefði móðir hennar sagt sér að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni þegar þær bjuggu úti á landi og hún væri í Barnahúsi vegna þess. Þá bar kennarinn að samtökin Blátt áfram hefðu verið með sýningu í skólanum og eftir þá sýningu hefði brotaþoli komið og sagt þeim, sem voru með sýninguna, að hún hefði lent í þessu. Brotaþoli hefði einnig sagt sér þetta og lýst hvað hefði gerst, en það var þannig að hún hefði verið í pössun og þar hefði verið maður sem hefði sleikt á henni píkuna. Síðan hefði dóttir mannsins komið og kippt henni úr rúminu og þar með bjargað sér.
Ráðgjafi á skóla- og fjölskylduskrifstofu í sveitarfélagi, þar sem brotaþoli og móðir hennar bjuggu á sínum tíma, bar að tvisvar hefði vaknað grunur um kynferðisbrot gegn brotaþola meðan hún bjó úti á landi. Í fyrra skiptið kom tilkynning frá leikskóla um kynferðislegt tal hennar. Talið var að eldri krakkar væru að kenna henni orð af þessu tagi og hún væri síðan að segja þau, en hún var talin frökk. Síðara tilvikið var að maður, kunnugur móður brotaþola, hefði hringt og sagt að hún hefði sagt sér að maður, sem hún kallaði tilteknu nafni, hefði sleikt á sér píkuna. Þetta átti að vera maður konu sem gætti brotaþola þegar hún bjó á höfuðborgarsvæðinu áður en hún flutti út á land. Ráðgjafinn kvaðst ekki hafa haft vitneskju um fósturföður brotaþola á þessum tíma.
Sálfræðingur sem starfar hjá þjónustumiðstöð í hverfi brotaþola bar að hafa athugað hana 2009. Ástæðan var áhyggjur af hegðun hennar, meðal annars einbeitingarskorti og eirðarleysi í tímum. Eins fór hún ekki eftir fyrirmælum og sýndi af sér markaleysi í samskiptum við önnur börn. Hann kvaðst hafa lagt þroskapróf fyrir brotaþola og voru niðurstöðurnar þær að framangreind einkenni væru til staðar og eins mældist málþroski lágur. Brotaþoli væri hins vegar ekki haldin athyglisbresti þótt ýmislegt í hegðun hennar gæti bent til þess.
Hjúkrunarfræðingur í skóla brotaþola bar að hafa verið kölluð til í mars síðastliðnum, en þá hefði skólasystir brotaþola sagt frá því að hún hefði sætt kynferðislegu ofbeldi heima hjá sér. Brotaþoli hefði sagt skólasysturinni frá þessu. Hjúkrunarfræðingurinn kvaðst hafa tilkynnt þetta til barnaverndar svo og foreldrum stúlknanna sem höfðu verið með brotaþola. Hún kvað brotaþola hafa verið brugðið, einkum vegna þess hve skólasystrum hennar var brugðið við þessar fréttir. Þær hefðu allar verið grátandi. Hjúkrunarfræðingurinn kvað upplýsingar hafa fylgt brotaþola úr fyrri skóla hennar um vanrækslu uppalenda. Brotaþoli hefði greinilega mikið þurft að hugsa um sig sjálf og það hefði gert hana sterkari en jafnöldrur hennar. Þá kvað hún brotaþola oft hafa leitað til sín vegna alls konar kvilla sem að öllu jafna væri sinnt á heimilum barna.
Skólasystir brotaþola bar að hún hefði sagt sér í trúnaði að hún væri barin heima hjá sér. Nokkrum mánuðum síðar hefði svo brotaþoli sagt í skólanum að hún væri beitt kynferðislegu ofbeldi heima hjá sér. Það væri fósturpabbi hennar sem beitti hana því og átti þetta að hafa gerst nokkrum sinnum. Hún kvað brotaþola hafa sagt að hún væri beitt ofbeldi og kynferðislegu ofbeldi heima hjá sér. Skólasystirin taldi þetta einnig hafa gerst þegar brotaþoli var í hinum skólanum. Ekki var hún viss um hvenær þetta átti að hafa gerst síðast, en það væri eitthvað síðan. Þetta mun hafa byrjað þegar hún var [...] til [...] ára og hefðu alls fjórir menn átt hlut að máli, en oftast hafi það verið fósturpabbi hennar. Auk hans hefði það verið útlendur frændi hennar, einhver strákur sem hún þekkti ekki og var að gæta hennar, en ekki mundi hún eftir fleirum. Þetta taldi hún aðallega hafa gerst áður en hún kom í núverandi skóla.
Önnur skólasystir brotaþola bar að brotaþoli hefði sagt sér að hún sætti kynferðislegu ofbeldi, en sagði það þó ekki beint. Hún hefði sagt sér þetta í [...] bekk, en nú væru þær í [...] bekk. Ekki mundi hún að segja meira frá þessu og ekki kvaðst hún muna af hverju brotaþoli sagði frá þessu en taldi að henni hefði liðið illa og þegar hún var spurð hvort ekki væri allt í lagi hefði hún farið að segja frá þessu. Það hefði verið fósturpabbi hennar sem beitti hana ofbeldinu á heimilinu og hefði þetta átt að hafa gerst þegar brotaþoli var lítil og í öðrum skóla, en ekki eftir að hún byrjaði í núverandi skóla. Þá átti kærasti barnapíu líka að hafa reynt að misnota hana, en ekki mundi hún hvar brotaþoli átti heima þá.
Móðir fyrrum skólasystur brotaþola kvaðst ekki vita um ætluð brot ákærða gegn henni, en hún kvaðst hafa sinnt brotaþola eftir sýningu hjá Blátt áfram í skólanum. Þessi sýning hefði ýft upp gömul sár hjá brotaþola sem hefði sagt sér frá því að hún hefði lent í kynferðisofbeldi, en það hefði ekki tengst stjúpföður hennar. Hún kvaðst ekki hafa fengið upp hjá brotaþola hver gerandinn var, en það hefði verið vitað um þetta atvik þótt maðurinn hefði ekki verið sakfelldur. Einnig hefði brotaþoli minnst á atvik sem átti að hafa gerst í útlöndum.
Stuðningsfulltrúi í bekk brotaþola bar að hafa verið að leysa kennarann af og þá orðið vör við mikið uppnám í hópi stúlkna í bekknum. Í ljós hefði komið að ein þeirra hefði sagt öðrum frá að ýmislegt væri í gangi heima hjá brotaþola. Stuðningsfulltrúinn kvaðst hafa kallað til hjúkrunarfræðing sem hefði tekið stúlkurnar að sér. Þær hefðu sagt sér að brotaþoli væri lamin og gáfu einnig í skyn að hún hefði orðið fyrir misnotkun af hendi stjúpföður að því er hún taldi. Hún kvað brotaþola vera dálítið sérstaka í framkomu gagnvart drengjum, hún sækti í þá og þeir yrðu dálítið pirraðir á henni stundum. Þetta hindraði hana ekki í því að pirra þá eða espa upp.
Núverandi kennari brotaþola bar að hafa kennt henni frá hausti 2010. Hann kvað hana ekki hafa sagt sér neitt um ætlað brot. Kennarinn kvað hegðun brotaþola gagnvart drengjum vera öðruvísi en annarra telpna í bekknum, hún gengi lengra en þær og ataðist meira í þeim með líkamlegri snertingu og því um líku.
Sálfræðingur, sem athugaði brotaþola í maí síðastliðnum, bar að hafa rannsakað hana og ritað um hana skýrslu, sem rakin var í II. kafla. Sálfræðingurinn kvað brotaþola vera með einkenni um áfallastreituröskun. Hún væri hins vegar ekki ofvirk, en væri bæði lífleg og opin allt þar til komið væri að ofbeldinu, en þá hvítnaði hún upp og yrði óörugg. Þetta benti til þess að henni liði mjög illa við að rifja upp þessa hluti. Brotaþoli væri mjög trúverðug og samkvæm sjálfri sér auk þess að hafa gott minni. Sálfræðingurinn kvaðst hafa lesið yfirheyrsluna yfir brotaþola í héraðsdómi og hefði hún skýrt frá á sama hátt hjá sér og þar. Þá kvað hún það mjög þekkt að börn sem verði fyrir kynferðislegu ofbeldi sýni af sér kynferðislega hegðun eins og brotaþoli hefði gert, bæði gagnvart drengjum og eins í tali. Áfallastreituröskun og kynferðisleg hegðun séu algengustu merki um að viðkomandi barn hefði orðið fyrir misnotkun. Upplýsingar um brotaþola frá leikskóla bendi til þess að hún hefði verið með óviðeigandi kynferðislegt tal og hegðun allt frá [...] til [...] ára aldri. Mjög ólíklegt sé að svo ungt barn hegði sér svona án þess að það byggist á eigin reynslu. Sálfræðingurinn tók þó fram að til væru börn, sem sýndu af sér kynferðislega hegðun, án þess að hafa orðið fyrir misnotkun, en þau væru í minnihluta.
Sálfræðingur, sem starfar í Barnahúsi og samdi álitsgerð sem rakin var í II. kafla, staðfesti hana og bar að þetta væri í þriðja skipti sem brotaþoli væri til meðferðar í Barnahúsi. Fyrst hefði verið grunur um að kunningi fjölskyldunnar hefði beitt hana ofbeldi, en þá hefði hún verið mjög ung. Aftur hefði verið óskað eftir meðferðarviðtölum árið 2010, en þá hefði hún verið að sýna af sér kynferðislega hegðun gagnvart strákum. Eins hefðu foreldrar vinkonu hennar haft áhyggjur af kynferðislegu tali þeirra. Sálfræðingurinn kvað kynferðislegt tal oft fylgja hvatvísi hjá börnum og eins athyglisbresti og ofvirkni og þyrfti ekki að vera merki um misnotkun. Kynferðislegt tal gæti á hinn bóginn einnig verið merki um misnotkun. Í viðtölunum 2010 hefði brotaþoli ekki gefið neitt upp um hugsanlegan geranda. Nú hefði hún hins vegar opnað sig meira og sagt gerandann vera ákærða. Hann hefði meðal annars sagt að þegar hún yrði eldri myndi hann ganga alla leið með henni og þá yrði hann góður við hana. Þá kvað sálfræðingurinn mjög algengt að börn, sem hefðu verið misnotuð, kvörtuðu undan líkamlegum kvillum sem kannski ættu ekki við rök að styðjast. Stundum væru þau að reyna að vekja athygli á vanlíðan sinni vegna misnotkunarinnar, en gætu ekki sagt frá henni sjálfri.
Maður, sem þekkti til brotaþola og móður hennar meðan þær bjuggu úti á landi, bar að ákærði hefði búið þar með þeim. Maðurinn kvað brotaþola hafa einu sinni sagt frá manni sem átti að hafa misnotað hana. Svo var það eitt kvöld að maðurinn hafði ekið þeim mæðgum heim og þegar þangað var komið hefði brotaþoli sagt að ákærði gerði einnig svona við sig. Maðurinn kvaðst hafa sagt henni að segja móður sinni frá þessu og hefði hún gert það á hennar máli og hann svo ekið mæðgunum heim til sín aftur þar sem þær voru um nóttina. Brotaþoli hefði hins vegar ekki fengist til að segja meira frá þessu, enda hefði hún virkað eins og hrædd. Hann kvaðst hins vegar ekki vita hvort það hefði verið vegna þess að hún hefði verið hrædd eða vegna þess að hún var að segja ósatt. Maðurinn kvaðst ekki vera viss um hvort hún hefði verið að segja satt í raun og veru. Hann kvað upphaf þess að brotaþoli sagði honum frá þessu vera að brotaþoli hefði komið á heimili hans í afmæli. Þá hefði hann tekið eftir því að hún hefði borið sig aumlega þótt enginn hefði verið að skamma hana og hann því farið að tala við hana, enda hefði hún viljað það. Eins hefði hún viljað vera hjá honum og sagst vera að leita að pabba. Þá hefði hún viljað hátta þarna heima hjá honum, sagði að sér væri heitt, og eins láta kitla sig. Maðurinn kvaðst aldrei hafa skammað hana, bara leyft henni að vera og tjá sig um það sem hún vildi. Einu sinni hefði hún sagt honum að hún vildi ekki koma við slönguna á honum því það væri svo ógeðslegt. Eftir að hafa sagt þetta hefði hún frosið og var eins og hún vildi ekki kannast við að hafa sagt þetta. Síðar hefði brotaþoli svo sagt að tiltekinn maður hefði gert eitthvað kynferðislegt við sig og sagt að hann hefði verið góður við sig. Einhvern tíma fór brotaþoli suður og sagði sér þegar hún kom til baka að hún hefði hitt þennan mann í Kringlunni og sagði að hún hefði orðið hrædd. Þá bar maðurinn að hafa rætt þessi mál við ákærða sem hefði sagt að brotaþoli hefði látið eins við sig og hefði hann ýtt henni frá sér. Kvaðst hann telja ákærða vera trúverðugan um það, en sér hefði fundist ákærði og móðir brotaþola hafa verið ströng gagnvart henni og refsað henni fyrir yfirsjónir. Kvað maðurinn konu sína, sem er frá sama landi og móðir brotaþola, hafa sagt sér að svona tíðkaðist að gera gagnvart börnum þar.
Móðursystir brotaþola bar að hafa búið hjá systur sinni síðastliðin 2 ár en byggi þar ekki lengur. Á þessum tíma hefði ákærði stundum gætt brotaþola þegar móðir hennar fór að spila sem hún gerði föstudaga og laugardaga, stundum bara annan daginn. Hún kvaðst þá hafa verið heima og einnig gætt brotaþola. Þegar hún var að vinna var systir hennar heima. Hún kvaðst hafa sofið fyrir framan herbergi brotaþola og ekki orðið vör við nein samskipti milli ákærða og brotaþola, en hún hefði vakað flestar nætur og horft á sjónvarp. Ákærði hefði verið mikið í tölvu og ekki haft afskipti af brotaþola. Áður en hún flutti inn á heimilið hefði ákærði gætt brotaþola ásamt eldri dóttir hennar sem nú er 24 ára. Þegar dóttirin gætti brotaþola kom hún til hennar á heimili móðursysturinnar. Það hefði ekki oft komið fyrir að ákærði hefði verið einn með brotaþola.
Yngri dóttir framangreindrar móðursystur brotaþola bar að þekkja brotaþola vel en ekki væri mikill samgangur milli þeirra núna. Hún kvað brotaþola ekki hafa sagt sér frá þessu máli og ekki hafa sagt sér frá ofbeldi af hálfu ákærða. Hún kvaðst hafa komið á heimili brotaþola áður en foreldrar hennar skildu og móðir hennar flutti á heimilið, en ekki eins oft eftir skilnaðinn. Dóttirin kvaðst vita til þess að brotaþoli væri mikið ein heima þegar móðir hennar færi út að spila, en hún hefði ekki komið til sín lengi. Hún kvað ákærða ekki mikið hafa gætt brotaþola þar eð hann hefði oftast verið í tölvunni.
IV
Ákærða er gefið að sök kynferðisbrot gegn brotaþola á sex ára tímabili á þeim heimilum sem í ákæru greinir. Aðalsönnunargagn ákæruvaldsins er skýrsla sem tekin var af brotaþola fyrir dómi og að framan var rakin. Af óviðráðanlegum orsökum gat dómarinn, sem skýrsluna tók, ekki tekið sæti í dómnum. Dómendur hafa skoðað mynddisk af yfirheyrslunni og er það mat þeirra að brotaþoli hafi gefið trúverðuga skýrslu þegar hún lýsti því sem ákærði á að hafa gert henni og er ákæruefni málsins. Á hinn bóginn er einnig á það að líta að ákærði, sem hefur staðfastlega neitað sök, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, er að mati dómsins ekki ótrúverðugur. Við úrlausn málsins verður því að meta hvort önnur gögn þess styðji nægjanlega við skýrslu brotaþola þannig að á henni verði byggt.
Í II. kafla var gerð grein fyrir afskiptum yfirvalda af málefnum brotaþola og viðtölum við hana í Barnahúsi á árunum 2003 og 2006. Þar kemur fram að hún bendlar ákærða ekki við kynferðislegt ofbeldi heldur annan mann. Þá bendir framburður vitna til þess að fleiri menn kunni að hafa komið við sögu auk þess sem brotaþoli kunni að hafa verið beitt kynferðislegu ofbeldi erlendis. Brotaþoli hefur sótt tvo skóla á höfuðborgarsvæðinu. Grunur um kynferðislegt ofbeldi gagnvart henni vaknaði í fyrri skólanum og var framburður vitna þaðan reifaður hér að framan. Kom fram hjá þeim að brotaþoli hegðaði sér þannig gagnvart drengjum að ástæða þótti til að hafa afskipti af því. Þá kom og fram hjá vitnum að hegðun þessi gæti verið merki um að viðkomandi hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi en gæti þó átt sér aðrar orsakir. Brotaþoli var skoðuð af læknum 2006 og kom ekkert fram við þá skoðun sem benti til þess að hún hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Í síðari skóla brotaþola, sem hún sækir nú, kom upp grunur um að hún hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og er málið sprottið af rannsókn sem fylgdi í kjölfarið. Í II. kafla var rakin skýrsla brotaþola fyrir dómi svo og það sem sálfræðingar og aðrir höfðu komist að við athugun á henni. Það var mat sálfræðinganna að brotaþoli bæri öll merki þess að hafa verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Brotaþoli var skoðuð af læknum og var niðurstaða þeirra hin sama og við fyrri athugun. Ekkert á líkama brotaþola benti til þess að hún hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi en útilokaði það ekki heldur.
Ákærða er gefið að sök að hafa fyrst brotið gegn brotaþola á heimili þeirra úti á landi, en þar bjó fjölskyldan frá miðju ári 2005 fram í ársbyrjun 2006. Meðal gagna málsins eru lögregluskýrslur varðandi rannsókn er fór fram vegna gruns um að brotið hefði verið gegn brotaþola. Sú rannsókn beindist ekki að ákærða heldur öðrum manni sem neitaði alfarið sakargiftum og varð ekki af frekari aðgerðum í málinu. Í III. kafla var rakinn framburður manns sem bjó í sama sveitarfélagi og fjölskylda brotaþola á þessum tíma. Í framburði hans kom fram að brotaþoli hefði sagt sér að ákærði misnotaði sig en síðan hefði hún ekki fengist til að tjá sig frekar um það eins og rakið var. Móðir brotaþola kannaðist við þetta, en bar að þegar komið hefði til þess að ganga frekar á hana hefði hún dregið í land eins og rakið var. Önnur gögn málsins, sem rakin hafa verið, styðja að mati dómsins ekki nægjanlega við þann framburð brotaþola að ákærði hafi misnotað hana meðan fjölskyldan bjó úti á landi.
Þá eru í ákæru tilgreind fjögur heimili á höfuðborgarsvæðinu sem fjölskylda brotaþola bjó á eftir að þau fluttu utan af landi. Fjölskyldan bjó á þremur þessara heimila frá ársbyrjun 2006 til hausts 2008 er hún flutti á núverandi heimili móður brotaþola, en brotaþoli býr nú hjá föður sínum og ákærði mun búa annars staðar. Á einu þessara heimila, sem rekið er af félagasamtökum, bjó ákærði ekki með fjölskyldunni, en hann og móðir brotaþola voru par engu að síður. Á öðru heimilinu var hann ekki skráður en mun engu að síður hafa búið þar. Meðan brotaþoli var í fyrri skólanum bjó hún á þessum þremur heimilum og þá var aflað þeirra gagna frá skólanum, sálfræðingi, Barnahúsi og læknum sem að framan greinir. Þessar athuganir leiddu hins vegar ekki til þess að máli hennar væri vísað til lögreglu. Tvö vitni, fyrrum kennari brotaþola og móðir fyrrum skólasystur hennar, komu fyrir dóminn og báru um hvað brotaþoli hefði sagt þeim um kynferðislegt ofbeldi gagnvart sér. Hvorugt þeirra bar að hún hefði bendlað ákærða við ofbeldið. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að gögn málsins styðji ekki við framburð brotaþola um að ákærði hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi meðan fjölskyldan bjó á þessum þremur heimilum.
Haustið 2008 flutti fjölskyldan á núverandi heimili móður brotaþola og jafnframt skipti brotaþoli um skóla. Samkvæmt framburði brotaþola fór móðir hennar af heimilinu tvisvar til þrisvar í viku til að spila og þá hefði ákærði misnotað sig eins og lýst var í II. kafla. Móðir brotaþola kannaðist við að hafa farið að spila og hefðu þá systir hennar eða frænka gætt brotaþola en ákærði hefði gætt sonar þeirra. Þessi framburður fær stuðning í framburði móðursystur brotaþola og frænku hennar eins og rakið hefur verið. Þær gátu ekki borið um ætluð brot ákærða gagnvart brotaþola. Þá kom og fram hjá móðurinni að hún hefði aldrei orðið vör við ætluð brot ákærða gagnvart brotaþola og hún hefði ekki sagt sér frá slíku. Eins kvað hún henni ekki hafa verið illa við hann. Við mat á framburði móðurinnar verður þó að hafa í huga samband hennar og ákærða. Í III. kafla var það rakið að brotaþoli kvað ákærða hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi þegar félagsráðgjafi hafði tal af henni eftir að skólasystur hennar höfðu sagt frá því sem hún hafði sagt þeim. Framburður skólasystranna er hins vegar ekki glöggur um það hvar og hvenær þetta átti að hafa gerst og töldu þær helst að þetta hefði gerst áður en hún kom í skólann. Einnig að fleiri menn en ákærði hefðu átt hlut að máli. Sálfræðingarnir tveir sem hafa athugað brotaþola bera báðir að hún hafi sagt þeim að ákærði hefði misnotað sig. Þá kom og fram hjá þeim að hún bæri ýmis merki þess sem væri einkennandi fyrir börn er hefðu verið misnotuð eins og rakið var. Samkvæmt því, sem nú hefur verið rakið, er það mat dómsins að gegn eindreginni neitun ákærða hafi ekki verið færð fram gögn sem styðji nægjanlega við framburð brotaþola um að ákærði hafi misnotað hana á heimili því er síðast greinir í ákærunni.
Samkvæmt öllu því, sem nú hefur verið rakið, er það niðurstaða dómsins að ekki hafi verið færðar viðhlítandi sönnur á, svo hafði sé yfir skynsamlegan vafa, sbr. 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008, að ákærði hafi gerst sekur um þau brot sem honum eru gefin að sök og verður hann því sýknaður.
Með vísun til 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 er skaðabótakröfu brotaþola vísað frá dómi.
Sakarkostnaður skal greiddur úr ríkissjóði svo og málsvarnarlaun verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns brotaþola að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg, dómsformaður, Ásgeir Magnússon og Ragnheiður Harðardóttir.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Skaðabótakröfu brotaþola er vísað frá dómi.
Sakarkostnaður skal greiddur úr ríkissjóði svo og málsvarnarlaun verjanda ákærða, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 702.800 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl., 313.750 krónur.