Hæstiréttur íslands

Mál nr. 325/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Réttindaröð
  • Forgangskrafa
  • Samningskrafa
  • Nauðasamningur
  • Lögvarðir hagsmunir


Mánudaginn 27. júní 2011.

 

Nr. 325/2011.

Bank Ochrony Srdowiska S.A.

Fortis Bank Sa/Nv

Raiffaisenbank International AG og

DZ Bank AG

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Sögu Fjárfestingarbanka hf.

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Réttindaröð. Forgangskrafa. Samningskrafa. Nauðasamningur. Lögvarðir hagsmunir. Sératkvæði.

B o.fl. kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem máli þeirra á hendur S hf. var vísað frá dómi. B o.fl. lýstu kröfum við slit SB hf. og samþykkti slitastjórn þær sem forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. B o.fl. mótmæltu þeirri afstöðu. Eignir SB hf. nægðu ekki til fullrar greiðslu krafna og var leitað nauðasamnings við kröfuhafa í samræmi við 3. mgr. 103. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Var nauðasamningurinn staðfestur 18. ágúst 2010. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að réttur kröfuhafa eftir ákvæðum 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 til að mótmæla afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu sem annar kröfuhafi hefði gert væri samkvæmt orðum ákvæðisins háður þeirri forsendu að niðurstaða um hana hefði áhrif við skiptin á hagsmuni þess sem hefði uppi mótmælin. Nauðasamningur bindi lánadrottna og þá sem kæmu í þeirra stað. Engin frávik væri að finna í lögum nr. 21/1991 frá reglum í 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um að sá sem leiti dóms þurfi að eiga lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr kröfu sinni. Var hinn kærði úrskurður staðfestur með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 13. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2011, þar sem máli sóknaraðila og fleiri á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hafði slitastjórn Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf. tekið þá afstöðu við slitameðferð félagsins að krafa varnaraðila fengi notið stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Á kröfuhafafundi 6. ágúst 2009 lýstu sóknaraðilar á hinn bóginn yfir mótmælum sínum við þeirri afstöðu slitastjórnar. Með bréfi 8. febrúar 2010 vísaði slitastjórn ágreiningi málsaðila til Héraðsdóms Reykjavíkur með vísan til 171. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 120. gr. sömu laga, og 4. tölulið 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009, sbr. 5. og 6. gr. sömu laga um breytingu á 101. og 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Eignir Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf. nægðu ekki til fullrar greiðslu krafna og var leitað nauðasamnings við kröfuhafa. Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 18. ágúst 2010 var nauðasamningurinn staðfestur. Úrskurðurinn var ekki kærður til Hæstaréttar. Sóknaraðilar munu fara með samningskröfur á hendur Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. sem skipti um nafn eftir gerð nauðasamningsins og heitir ALMC hf.

Í 103. gr. laga nr. 121/2002 um fjármálafyrirtæki er að finna sérstakar reglur um lok slitameðferðar fjármálafyrirtækis, en þar segir meðal annars í 3. mgr.: Nægi eignir fjármálafyrirtækis ekki til fullrar greiðslu krafna sem ekki hefur endanlega verið hafnað við slitameðferð getur slitastjórn þegar hún telur tímabært leitað nauðasamnings til að ljúka henni. Skal slitastjórn þá gera frumvarp að nauðasamningi eftir reglum 36. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og boða til kröfuhafafundar til að bera það undir atkvæði. Eftir því sem átt getur við fara nauðasamningsumleitanir að öðru leyti eftir ákvæðum 2. mgr. 149. gr. og 151.–153. gr. sömu laga, en slitastjórn gegnir þá því hlutverki sem skiptastjóri hefði annars á hendi og heldur hún kröfuhafafundi við þessar umleitanir. Fáist frumvarp að nauðasamningi samþykkt skal slitastjórn leita staðfestingar hans eftir reglum IX. kafla sömu laga. Ef nauðasamningur er staðfestur efnir slitastjórn eftir þörfum skuldbindingar við kröfuhafa samkvæmt honum og lýkur svo slitameðferð eftir því sem segir í 1. og 2. mgr.

Framangreind ákvæði 2. mgr. 149. gr. og 151.–153. gr. laga nr. 21/1991 er að finna í XXI. kafla laganna sem fjallar um nauðasamninga við gjaldþrotaskipti. Í 151.-153. gr. eru meðal annars ákvæði um hvernig staðið skuli að nauðasamningsumleitunum, hvaða kröfum verði komið að við þá meðferð og um atkvæðagreiðslu til samþykkis á frumvarpi að nauðasamningi. Þá er í 2. mgr. 152. gr. mælt fyrir um að skiptastjóri skuli fá leyst úr ágreiningi um stöðu kröfu eftir ákvæðum 2. mgr. 120. gr. laganna ef úrslit atkvæðagreiðslu geta ráðist af ágreiningsatkvæði. Frestast þá að fá niðurstöðu atkvæðagreiðslu þar til úrlausn er fengin um ágreininginn. Í 2. mgr. 153. gr. er það svo gert að skilyrði fyrir staðfestingu nauðasamnings að kröfur samkvæmt 109. – 112. gr. laganna skuli áður greiddar, fullnægjandi trygging sé sett fyrir greiðslu þeirra eða hlutaðeigendur samþykki skriflega að nauðasamningur verði staðfestur án þess. Slitastjórn mun hafa tekið frá fé til greiðslu þeirrar kröfu sem ágreiningur stendur um í þessu máli.

Samkvæmt 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 gilda ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga nr. 21/1991 um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki sem sætir slitameðferð. Réttur kröfuhafa eftir ákvæðum 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 til að mótmæla afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu sem annar kröfuhafi hefur gert, er samkvæmt orðum ákvæðisins háður þeirri forsendu að niðurstaða um hana hafi áhrif við skiptin á hagsmuni þess sem hefur uppi mótmælin.

Í 1. mgr. 154. gr. laga nr. 21/1991 er, líkt og í lokamálslið 3. mgr. 103. gr. a. laga nr. 161/2002, gert ráð fyrir að gjaldþrotaskiptum skuli lokið ef nauðasamningur kemst á eftir ákvæðum XXI. kafla laganna. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði telst nauðasamningur kominn á samkvæmt 60. gr. laga nr. 21/1991 þegar krafa skuldara um staðfestingu nauðasamnings hefur verið tekin til greina með endanlegri dómsúrlausn. Þá bindur nauðasamningurinn lánardrottna og þá sem koma í þeirra stað um samningskröfur þeirra þannig að efndir samningskröfu í samræmi við ákvæði nauðasamnings hafa sömu áhrif og krafan hafi verið efnd eftir upphaflegu efni sínu. Sóknaraðilar munu eins og áður greinir fara með samningskröfur á hendur ALMC hf. og falla því undir nauðasamninginn.

Samkvæmt 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 gilda um meðferð mála samkvæmt XXIV kafla laga laganna almennar reglur um meðferð einkamála að því leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum laganna. Í þeim er hvergi að finna frávik frá reglum í 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um að sá sem leitar dóms þurfi að eiga lögvarða hagsmuni til að fá skorið úr kröfu sinni. Þó að fallist yrði á með sóknaraðilum að efnahagur ALMC hf. kynni að verða betri við að krafa varnaraðila yrði talin almenn en ekki forgangskrafa, er ekki unnt að fallast á að sóknaraðilar eigi lögvarða hagsmuni af að fá þetta viðurkennt eftir að þeir eru orðnir bundnir af nauðasamningnum, enda er um að ræða lögskipti sem félagið sjálft en ekki hluthafar þess eiga aðild að.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilar verða dæmdir til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Bank Ochrony Srxdowiska S.A., Fortis Bank Sa/Nv Raiffaisenbank International AG og DZ Bank AG, greiði sameiginlega varnaraðila, Sögu Fjárfestingarbanka hf., 400.000 krónur í kærumálskostnað

Sératkvæði

Gunnlaugs Claessen

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði lýsti varnaraðili kröfu við slit Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf. Slitastjórn tók þá afstöðu til kröfunnar að hana bæri að samþykkja sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 34.756.526 krónur. Á kröfuhafafundi 6. ágúst 2009 lýstu sóknaraðilar á hinn bóginn yfir mótmælum sínum við þessari afstöðu slitastjórnar. Af hálfu varnaraðila var ekki mætt til kröfuhafafundarins. Slitastjórn sendi Héraðsdómi Reykjavíkur bréf 8. febrúar 2010 þar sem óskað var eftir dómsmeðferð vegna ágreinings um kröfu varnaraðila, en erindið var sent með vísan til 171. gr. laga nr. 21/1991. Ágreiningslaust er að áður en erindi þetta var sent var ekki leitast við að jafna ágreining aðila á sérstökum fundi svo sem boðið er að gera við slíkar aðstæður, sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Er mælt fyrir um að ef ekki tekst að leysa ágreininginn á þeim fundi skuli slitastjórn beina málefninu til héraðsdóms eftir 171. gr. laganna. Þar sem hin lögboðna sáttameðferð, sem hér hefur verið lýst, fór ekki fram verður þegar af þeirri ástæðu að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað. Ég tel rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétt.

                                                   

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2011.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 4. apríl sl., um frávísunarkröfu varnaraðila, var þingfest 31. mars 2010.

Málið var endurupptekið 28. apríl sl. og var þá lögð fram bókun um breytta aðild sóknarmegin.

Sóknaraðilar eru samkvæmt framangreindri bókun:

Bank Ochrony Srdowiska, Bayerische Hypo und Vereinsbank (heitir nú UniCreditbank AG), Bayerische Landesbank, Deutsche Bank Luxembourg SA, DZ Bank AG, First Commercial Bank, Fortis Bank SA/NV, Intesa Sanpoulo S.p.A, Lloyds TSB Bank plc, Raiffeisen Zentralbank Oesterreich AG, Raiffeisenlandesbank Niederösterreich-Wien AG, Standard Bank plc, Sociéte General, State bank of India, Frankfurt, State Bank of India, Paris, The Royal Bank of Scotland, Delaware Investments.

Varnaraðili er Saga Capital Fjárfestingabanki hf., Hafnarstræti 53, Akureyri.

Sóknaraðilar mótmæla þeirri afstöðu slitastjórnar að samþykkja kröfu varnaraðila sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 og krefjast þess að felld verði úr gildi sú ákvörðun slitastjórnar Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. Til vara krefjast þeir þess að einungis krafa að jafngildi 20.887 evra verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Til þrautavara er þess krafist að felld verði úr gildi sú ákvörðun slitastjórnar Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., að dráttarvaxtakrafa varnaraðila, Saga-Capital Fjárfestingarbanka hf. í bú félagsins að fjárhæð 1.270.656 krónur hafi stöðu forgangskröfu samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess í þessum þætti málsins að kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, að skaðlausu.

Sóknaraðilar krefjast þess í þessum þætti málsins að kröfum varnaraðila um frávísun málsins verði hafnað. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Málsatvik

Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði Straumi-Burðarás fjárfestingarbanka hf., (hér eftir Straumur) slitastjórn 11. maí 2009, samkvæmt ákvæðum 4. töluliðs 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Slitastjórn gaf út innköllun til skuldheimtumanna Straums 12. maí 2009 og birtist hún fyrra sinni í Lögbirtingablaði, sem kom út 18. sama mánaðar. Kröfulýsingarfrestur var ákveðinn tveir mánuðir og var því á enda 18. júlí 2009.

Á kröfuhafafundi 6. ágúst 2009 var fjallað um skrá yfir lýstar kröfur og afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar þeirra. Kom þar m.a. fram sú afstaða til kröfu varnaraðila að hún væri samþykkt sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Á kröfuhafafundinum lýsti lögmaður sóknaraðila því yfir að þeir mótmæltu þeirri afstöðu slitastjórnar að kröfur sem lýst hafði verið í búið vegna innstæðna í þrotabúi bankans skyldu  njóta forgangs í krafti 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Andmæli þessi voru áréttuð síðar og ekki tókst að jafna ágreining um þau á kröfuhafafundum.

Kröfur sóknaraðila í bú Straums nema yfir 500.000.000 evrum. Þær hafa verið samþykktar sem almennar kröfur af slitastjórn Straums. Mótmæli sóknaraðila lúta að gildi neyðarlaganna svokölluðu, laga nr. 125/2008, en með ákvæðum 6. gr. þeirra laga var forgangur innstæðna lögleiddur. Því ákvæði var svo breytt með 3. mgr. 6. gr. laga nr. 44/2009, sem breyttu lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.

Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. ágúst 2010 var frumvarp að nauðasamningi fyrir Straum staðfest sem nauðasamningur félagsins. Úrskurðurinn var ekki kærður til Hæstaréttar og varð því bindandi fyrir þá sem eru aðilar að samningnum.

Málsástæður og lagarök

Varnaraðili kveður að greinargerð sóknaraðila fjalli aðeins að litlu leyti um kröfur sóknaraðila og tilurð þeirra. Varnaraðili kveður að mjög erfitt sé að átta sig á samhengi röksemda sóknaraðila fyrir því að ekki skuli viðurkenna kröfu varnaraðila sem forgangskröfu. Þannig fari megnið af greinargerð sóknaraðila í að rekja aðdragandann að hruni bankakerfisins og setningu laga nr. 125/2008, sem hafi leitt til tjóns fyrir sóknaraðila. Þá sé ljóst að sumum málsástæðum og kröfum sem hafðar séu uppi í greinargerð sóknaraðila geti ekki verið beint að varnaraðila í máli þessu, heldur virðist þær teknar orðrétt upp úr öðrum málum sem sóknaraðilar reki fyrir dómstólum. Þá sé víða ósamræmi í málflutningi sóknaraðila. Að auki séu víða hafðar uppi málsástæður í greinargerð sóknaraðila sem alls ekki eigi við í þessu máli, eins og málsástæða sóknaraðila um lögmætar væntingar. Málatilbúnaður sóknaraðila sé að þessu leyti fráleitur og útilokað fyrir varnaraðila að halda uppi nauðsynlegum vörnum. Greinargerð sóknaraðila fullnægi ekki kröfum um sem gerðar séu um skýrleika kröfugerðar, samkvæmt lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Þá bendir varnaraðili á að samkvæmt því sem fram komi í greinargerð sóknaraðila nemi kröfur þeirra í bú Straums yfir 500.000.000 evrum, án þess að kröfur þeirra séu tilgreindar nánar. Samþykktar almennar kröfur í bú Straums nemi 1.300.000.000 evrum og því fari sóknaraðilar með, að því er virðist um 35-40%, af almennum kröfum í búið.

Sóknaraðilar séu 27 talsins frá mörgum löndum og meðal þeirra sé banki með aðsetur utan Evrópusambandsins og EES-svæðisins. Í greinargerð sóknaraðila sé engin grein gerð fyrir viðskiptum þeirra við Straum. Hvergi sé fjallað um réttarsamband einstakra sóknaraðila við Straum, hvers eðlis kröfur þeirra séu, hvenær þær voru stofnaðar eða þær sundurliðaðar.

Málsástæður sóknaraðila séu hins vegar í mörgum atriðum þess eðlis að nauðsynlegt hefði verið að gera fullnægjandi grein fyrir þessum atriðum, enda varði margar þeirra samanburð á kröfu varnaraðila við annars konar kröfur. Ekki sé greint frá uppruna krafnanna, gjalddaga þeirra, skilyrðum, viðbrögðum sóknaraðila við útgáfu viðskiptabankaleyfis Straums og setningu neyðarlaganna, eða hvort og þá hvenær þær hafi verið gjaldfelldar. Þá gerir varnaraðili athugasemdir við að kröfur hvers sóknaraðila séu ekki tilgreindar með nánari hætti í greinargerð sóknaraðila og hver afstaða slitastjórnar Straums hafi verið til krafnanna. Mikið vanti upp á skýrleika í greinargerð sóknaraðila að þessu leyti. Því sé varnaraðila erfitt um vik að halda uppi vörnum í málinu.

Þá kveður varnaraðili málatilbúnað sóknaraðila með þeim hætti að svo virðist sem í raun sé verið afla lögfræðilegs álits fyrir dóminum, í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Vart verði séð hverjir séu fjárhagslegir hagsmunir hans af ágreiningi þeim sem hér er uppi. 

Ljóst sé að hagsmunir sóknaraðila af úrlausn þessa séu ekki fjárhagslegir, í raun einvörðungu lagatæknilegir. Mál sem varði enga eða hverfandi hagsmuni verði ekki rekin fyrir dómstólum.

Jafnframt bendir varnaraðili á að formreglum um boðun fundar til að jafna ágreining með aðilum hafi ekki verið framfylgt. Varði það því, að skilyrði 3. málsliðs 2. mgr. 120. gr. laga um gjaldþrotaskipti, um vísun ágreiningsefnis af hálfu slitastjórnar til héraðsdóms, séu ekki uppfyllt og verði því að vísa málinu frá dómi og senda það til slitastjórnar til réttrar meðferðar.

Við munnlegan málflutning kom fram hjá lögmanni varnaraðila að staðfestur hefði verið nauðasamningur fyrir Straum. Sóknaraðilar fái greitt samkvæmt þeim samningi og úrlausn um það hvort krafa varnaraðila verði að endingu viðurkennd sem forgangskrafa eða almenn krafa breyti engu um það, að sóknaraðilar fái greitt samkvæmt nauðasamningi, sem þeir hafi gengist undir.

Sóknaraðilar benda á, að jafnvel þótt hagsmunir sóknaraðila séu ekki miklir í krónum talið, séu þeir fyrir hendi og þeir hafi því lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu í málinu. Þeir hafi beina hagsmuni af því að fá skorið úr um stjórnskipulegt gildi neyðarlaganna.

Vegna þeirrar málsástæðu varnaraðila að slitastjórn hafi ekki boðað til fundar til að jafna ágreining, með lögformlegum hætti, lýsti lögmaður sóknaraðila því yfir að slíkur fundur hefði engu breytt um það að ágreiningsefninu hefði verið vísað til héraðsdóms.

Niðurstaða

Eins og að framan greinir var frumvarp að nauðasamningi fyrir Straum-Burðarás fjárfestingarbanka hf., staðfest sem nauðasamningur félagsins með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 18. ágúst 2010. Úrskurðurinn var ekki kærður til Hæstaréttar.

Samkvæmt 60. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. bindur nauðasamningur lánardrottna og þá sem í stað þeirra koma um samningskröfur þeirra og hafa efndir samningskröfu í samræmi við ákvæði nauðasamnings sömu áhrif og ef krafan hefði verið efnd eftir upphaflegu efni sínu.

Sóknaraðilar eru bundnir af framangreindum nauðasamningi og fá greiðslu krafna sinna samkvæmt honum. Breytir engu um það hversu mikið þeir fá greitt, hvort krafa varnaraðila teljist forgangskrafa eða almenn krafa við slitameðferð Straums Burðaráss hf.  Hafa sóknaraðilar því enga hagsmuni af því að leita úrlausnar dómsins um það hvort kröfu varnaraðila skuli skipað í réttindaröð sem forgangskröfu eða almennri kröfu. Verður kröfu sóknaraðila því vísað frá dómi með vísan til 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 3. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991, sbr. og 2. mgr. 178. gr. sömu laga.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður sóknaraðilum gert að greiða varnaraðila in solidum 300.000 krónur í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður og af hálfu varnaraðila flutti málið Vilhjálmur Bergs héraðsdómslögmaður.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Sóknaraðilar Bank Ochrony Srdowiska, Bayerische Hypo und Vereinsbank (heitir nú UniCreditbank AG), Bayerische Landesbank, Deutsche Bank Luxembourg SA, DZ Bank AG, First Commercial Bank, Fortis Bank SA/NV, Intesa Sanpoulo S.p.A, Lloyds TSB Bank plc, Raiffeisen Zentralbank Oesterreich AG, Raiffeisenlandesbank Niederösterreich-Wien AG, Standard Bank plc, Sociéte General, State bank of India, Frankfurt, State Bank of India, Paris, The Royal Bank of Scotland, Delaware Investments, greiði óskipt varnaraðila, Saga Capital fjárfestingabanka hf., 300.000 krónur í málskostnað.