Hæstiréttur íslands
Mál nr. 203/2012
Lykilorð
- Skjalafals
- Flóttamannasamningur
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 25. október 2012. |
|
Nr. 203/2012.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Adil Rouabhia (Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.) |
Skjalafals. Alþjóðasamningur um stöðu flóttamanna. Aðfinnslur.
A var ákærður fyrir skjalafals með því að hafa í kjölfar komu sinnar til landsins framvísað við lögreglu í blekkingarskyni frönsku kennivottorði sem reyndist grunnfalsað. A játaði háttsemina en með vísan til 1. mgr. 31. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, sem Ísland er aðili að, krafðist hann þess að sér yrði ekki gerð refsing. Ekki var talið að A hefði leitt að því viðhlítandi rök eða lagt fram gögn um að lífi hans eða frelsi væri ógnað í heimalandi hans þannig að hann teldist flóttamaður í merkingu 1. gr. samningsins sbr. og 1. og 2. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu A því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. mars 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða og að refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið.
Atvikum á Keflavíkurflugvelli, sem áttu sér stað í kjölfar þess að ákærði kom til landsins 20. febrúar 2012, er réttilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram hefur ákærði, sem kveðst vera alsírskur ríkisborgari, játað fyrir héraðsdómi þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Hann krefst hins vegar sýknu af broti á 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þar sem óheimilt sé að beita hann refsingu samkvæmt 1. mgr. 31. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, sem fullgiltur hefur verið af Íslandi, sbr. auglýsingu nr. 74/1955 í A-deild Stjórnartíðinda það ár. Ákærði kveðst eiga unnustu hér á landi og hafi tilgangur hans með ferð sinni hingað til lands verið að sækja um hæli og búa hér með henni.
Samkvæmt framangreindu ákvæði samningsins skulu aðildarríki ekki beita refsingum gagnvart flóttamönnum vegna ólöglegrar komu þeirra til landsins eða vistar þar, ef þeir koma beint frá landi, þar sem lífi þeirra eða frelsi var ógnað í merkingu 1. gr., og koma inn í lönd þeirra eða eru þar án heimildar, enda gefi þeir sig tafarlaust fram við stjórnvöldin og beri fram gildar ástæður fyrir hinni ólöglegu komu sinni eða vist þar. Ákærði hefur ekki leitt viðhlítandi rök að því eða lagt fram gögn um að lífi hans eða frelsi væri ógnað í Alsír, sem telst vera heimaland hans í skilningi fyrrgreinds alþjóðasamnings og þaðan sem hann upphaflega kom, ef hann sneri þangað aftur, þannig að hann teljist vera flóttamaður í merkingu 1. gr. samningsins, sbr. og 1. og 2. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga. Þegar af þeim sökum verður hann ekki sýknaður af þeirri ástæðu sem að framan greinir.
Samkvæmt öllu framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða staðfest. Með vísan til forsendna dómsins verður refsing ákærða staðfest en gæsluvarðhald hans kemur til frádráttar refsingu eins og í dómsorði greinir.
Það athugist að við skýrslutöku af ákærða fyrir héraðsdómi var þess ekki gætt sem skyldi að hann svaraði sjálfstætt spurningum um málsatvik áður en honum var kynntur framburður hans hjá lögreglu. Er það ekki í samræmi við fyrirmæli 3. mgr., sbr. 2. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá er í hinum áfrýjaða dómi vísað til þess að ákærði hafi hjá lögreglu upplýst um brottför sína frá Alsír og ferðir sínar eftir það. Er hér augljóslega vitnað til skýrslu sem ákærði gaf hjá lögreglu 21. febrúar 2012. Við skýrslugjöf fyrir dómi bar hann á annan veg um áðurgreind atriði, til dæmis kvaðst hann hafa farið frá Alsír 18. desember 2010 í stað 8. þess mánaðar, án þess að hann væri beðinn um að skýra það ósamræmi, en umrædd skýrsla hans hjá lögreglu var ekki borin undir hann. Með því að vitna þannig til framburðar hjá lögreglu var brotið gegn 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 þar sem svo er fyrir mælt að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Er þetta hvort tveggja aðfinnsluvert.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að gæsluvarðhaldsvist ákærða, Adil Rouabhia, frá 23. febrúar til 28. febrúar 2012 skal koma til frádráttar refsingu hans.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 364.134 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, 338.850 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. febrúar 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 24. febrúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefinni 22. febrúar sl., á hendur Adil Rouabhia, fæddum 26. september 1984, alsírskum ríkisborgara, fyrir skjalafals, með því að hafa, mánudaginn 20. febrúar 2012, í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, í kjölfar komu sinnar til landsins með flugi SAS SK-4787, framvísað við lögreglu í blekkingarskyni, frönsku kennivottorði nr. 080975420115 á nafni Radouen Rouabhia, fd. 01.03.1984, sem reyndist grunnfalsað.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Mál þetta var þingfest þann 22. febrúar sl. og frestað til aðalmeðferðar þann 24. febrúar sl. Ákærði kom fyrir dóminn þann 22. febrúar sl. og játaði háttsemina rétta eins og henni er lýst í ákæru. Krafðist hann þess að honum yrði ekki gerð refsing með vísan til 31. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna sem Ísland væri aðili að.
Málavextir:
Ágreiningslaust er að ákærði kom til landsins þann 20. febrúar sl. með flugi SAS SK-4787 frá Noregi og framvísað við lögreglu kennivottorði nr. 080975420115 á nafni Radouen Rouabhia, fd. 01.03.1984, sem reyndist grunnfalsað. Í viðræðum við lögreglu hafi ákærði viðurkennt að hann væri ekki réttmætur eigandi skilríkisins sem hann hafði framvísað. Hann hafi fengið skilríkið lánað hjá félaga sínum í þeim tilgangi að komast hingað til lands til að hitta kærustu sína. Við leit í farangri ákærða fundust ýmis skjöl með nafninu Adil Rouabhia sem bæði voru á frönsku og arabísku. Ákærði kvaðst vera eigandi þeirra skjala og hans rétta nafn væri Adil Rouabhia, fæddur þann 13. september 1984, í Guelma, Alsír. Við skoðun skilríkjasérfræðings lögreglustjórans á Suðurnesjum kom í ljós að kennivottorðið sem aðilinn framvísaði við lögreglu var grunnfalsað, þ.e. falsað að öllu leyti. Við yfirheyrslu hjá lögreglu þann 21. febrúar 2012 kvaðst ákærði hafa farið frá Alsír til Frakklands, þaðan til Noregs og svo til Belgíu, aftur til Frakklands og þaðan til Englands, síðan aftur til Frakklands. Loks til Tyrklands með viðkomu á Ítalíu og Grikklandi. Þá hafi hann farið sömu leið til baka til Frakklands. Þá aftur til Belgíu, þaðan til Danmerkur og þaðan til Noregs og loks til Íslands. Aðspurður kvaðst ákærði að ferðalagið hefði staðið yfir síðan 8. desember 2010. Fingraför voru tekin af ákærða í þeim tilgangi að reyna varpa ljósi á það hver hann er. Í svari frá Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra segir að fingraför ákærða komi fram við leit í Euorodac gagnagrunninum sem haldi utan um hælisumsóknir í Evrópu. Samkvæmt þeim niðurstöðum hefur ákærði sótt um hæli í Noregi þann 22. janúar 2011 og í Bretlandi þann 7. ágúst 2011. Ákærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 22. febrúar sl. þar til dómur gengur í máli þessu, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 29. febrúar 2012. Var sá úrskurður staðfestur af Hæstarétti Íslands 24. febrúar sl. í málinu 120/2012.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið frá Alsír 8. desember 2010 og komið til Frakklands degi síðar. Hann hafi farið til Noregs í janúar 2011, verið í Belgíu í febrúar 2011 og farið þaðan til Parísar. Þá hafi hann farið aftur til Belgíu, Parísar og þaðan til Bretlands, Parísar, Tyrklands, farið í gegnum Ítalíu til Grikklands, aftur í gegnum Ítalíu til Parísar. Þaðan hafi hann farið til Brussel og þaðan til Kaupmannahafnar og síðan til Osló. Hann hafi farið frá París 19. febrúar 2012 til Oslóar og flogið þaðan til Íslands. Aðspurður kvaðst hann hafa verið með sitt eigið vegabréf og getað notað það á meðan áritunin á Schengensvæðið var enn í gildi en hún sé ekki í gildi lengur. Hann hafi ekki sótt um framlengingu þar sem hann hafi fengið þær upplýsingar að hann þyrfti aftur til Alsír til að sækja um hana. Hann hafi komið til Íslands til að sækja um hæli en hann eigi kærustu hér á Íslandi, sem hafi beðið eftir honum á flugvellinum. Aðspurður um það hvort fingraför hafi verið tekin af honum áður, kvað hann svo hafa verið gert í Frakklandi og Bretlandi en mundi ekki hvort svo hafi verið gert í Noregi þegar hann var staddur þar. Aðspurður kvaðst hann hafa sótt um hæli í Bretlandi en ekki annars staðar. Ákærði kvaðst hafa fyrst sótt um hæli í Bretlandi í ágúst 2011, en eftir dvöl þar í rúma tvo mánuði hafi hann verið sendur aftur til Frakklands. Hann hafi lent í vandamálum á flugvellinum í Frakklandi því ekki hafi átt að hleypa honum inn í landið. Í lokin hafi honum verið veitt heimild til að dvelja í Frakklandi í sjö daga. Eftir það yrði honum vísað aftur til Alsír. Honum hafi ætíð eftir það, verið vísað til Frakklands þar sem hann hafi sótt um hæli en Frakkar vildu hann ekki. Aðspurður ítrekað um það hvar hann hafi sótt um hæli, kvaðst hann ekki hafa sótt um hæli annars staðar en víða verið tekin fingraför af honum. Spurður um hælisumsókn hans í Noregi kvaðst ákærði hafa farið með lögfræðingi sínum á lögreglustöð í Noregi og óskað eftir hæli. Hann hafi verið skráður inn sem hælisleitandi og fengið skilríki sem sýndu það en daginn eftir hafi honum verið neitað um að sækja um hæli og skilríkin verið tekin af honum og honum vísað til Frakklands aftur. Samkvæmt Dyflinarsamningnum verði hann að sækja um hæli í því landi sem hann hafi áritun til, sem sé Frakkland. Hann hafi ekki sótt um hæli þar. Ákærði kvaðst ekki eiga sakarferil í Frakklandi. Hann hafi verið tekinn með falsað vegabréf í Frakklandi í júlí 2011, hann hafi verið tekinn á landamærum Frakklands og Bretlands og verið snúið við til Frakklands. Hann hafi þá verið á leið til Bretlands með áætlunarbifreið. Þá hafi hann verið inntur eftir því hvers vegna hann notaði falskt vegabréf og hann tjáð þeim að hann væri á leið til Bretlands til að sækja um hæli þar. Hann hafi síðar komist til Bretlands og sótt um hæli en þá hafi hann ekki verið með vegabréf á sér. Hann hafi farið með flutningaskipi til Bretlands í það skipti og ekki spurður um vegabréf. Aðspurður um það hvers vegna hann hefði ekki tjáð lögreglu frá ofangreindu þegar afskipti voru höfð af honum í flugstöðinni og hann inntur um það, þá kvað hann vörslur falsaðra vegabréfa í Frakklandi ekki fara á sakaskrá. Aðspurður hvers vegna hann notaði oft fölsuð skilríki í Evrópu svaraði hann því til að hann væri oft stöðvaður af lögreglu, oft án skilríkja en sagði síðan aftur frá ferð sinni til Bretlands.
Aðspurður um það hvers vegna hann hafi ekki gefið sig fram strax og hann kom í Flugstöð Leifs Eiríkssonar kvaðst hann ekki hafa vitað hvort þeir sem höfðu afskipti af honum, væri lögregla, tollvörður eða starfsmenn vallarins eða jafnvel farþegar. Auk þess talaði hann ekki íslensku né ensku. Ákærði kvaðst hafa ætlað að heimsækja unnustu sína hér á landi og hafi hann ætlað, ásamt henni, á lögreglustöð til að sækja um hæli sem flóttamaður þegar hann væri kominn inn í landið en hafi verið stöðvaður í flugstöðinni. Hann hafi óskað eftir hæli þegar að hann var handtekinn og áður en fingraför voru tekin af honum. Hann hafi borið beiðnina fram á frönsku. Aðspurður um að hælisumsókn hans hafi komið fram þegar að fingrafaratöku var að ljúka, kvað hann það ekki rétt. Hann hefði borið umsóknina fram áður. Kannski hann hafi borið umsóknina fram á ensku en hann hafi örugglega gert það á frönsku. Aðspurður um það hvort lífi hans og heilsu hafi verið ógnað meðan á dvöl hans stóð í Evrópu, kvaðst honum ekki hafa liðið vel þar og ekki búið við virðingu eða reisn.
Aðspurður af lögreglu í flugstöðinni um vegabréf, kvaðst hann hafa sagt lögreglu að hann væri ekki með vegabréf en hafa tekið upp úr vasa sínum, umslag, flugmiða og fleira og framvísað lögreglu þegar hann var krafinn um skilríki. Þar á meðal hafi verið franska kennivottorðið. Ákærði kveðst vera flóttamaður og um hann gildi 1. mgr. 31. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna sem Íslands sé aðili að. Megi því ekki gera honum refsingu fyrir að hafa reynt að komast inn í landið á fölsuðum pappírum. Aðspurður kvaðst ákærði eiga vegabréf sem hann geymi hjá vini sínum í París. Hann hafi ekki stöðu flóttamanns neins staðar í Evrópu. Þá kvaðst hann strax hafa skýrt frá því hver hann væri. Hann uppfylli því öll skilyrði flóttamannasamningsins. Þrátt fyrir að hafa játað brot sitt þá verði honum ekki gerð refsing fyrir samkvæmt 31. gr. samningsins.
Vitnið Annel Þorkelsson varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið á vakt við Græna hliðið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þann 20. febrúar sl. er ákærði kom til landsins. Hafi vitnið verið á vakt ásamt félaga sínum Ægi lögreglumanni. Hafi ákærða verið veitt eftirtekt þar sem hann hafði einungis bakpoka meðferðis. Hafi tollvörður stöðvað ákærða þegar hann kom að hliðinu og gert honum grein fyrir því að ákærði sætti skoðun. Hafi ákærði framvísað við afskiptin frönsku kennivottorði. Hafi hann verið látinn setja bakpokann í gegnumlýsingarvél og síðan verið leiddur inn í skoðunarherbergi. Hafi tveir lögreglumenn ásamt tollverði farið með ákærða þangað. Hafi hann spurt ákærða hvort hann hafi ekki önnur skilríki því honum sýnist kennivottorðið ekki vera í lagi. Ákærði hafi sagt nei og spurt hvort kennivottorðið væri ekki í lagi. Hafi vitnið tjáð honum að svo virtist ekki vera. Við skoðun á farangri ákærða hafi komið í ljós brúnt umslag með skjölum sem voru bæði á arabísku og frönsku. Vitnið kvaðst hafa spurt ákærða hver ætti þau skilríki og hafi ákærða svarað „my friend“. Síðar hafi hann sagt að vinur hans ætti kennivottorðið og ákærði hafi fengið það lánað. Hafi ákærða þá verið tilkynnt að skoða þyrfti farangur hans og ákærða nánar og var því farið með hann í leitarklefa þar sem leitað var á honum. Vitnið kvaðst hafa spurt ákærða strax hvort hann væri hælisleitandi og ákærði svarað neitandi. Hafi vitnið spurt ákærði aftur í leitarklefanum að því hvort hann væri hælisleitandi og hafi ákærði neitað því en sýnt vitninu símann sinn þar sem fram kom númer og skýring á því var „my wife“. Kvaðst ákærði hafa komið til landsins til að hitta konuna sína. Kvaðst vitnið hafa spurt ákærða af hverju hann hafi ekki notað sitt eigið vegabréf við komuna og hafi ákærði sagst ekki hafa vitað að hann gæti það. Hann ætti vegabréf í Frakklandi. Vitnið kvaðst hafa rætt við ákærða á ensku og hafi ekki verið neinir erfiðleikar við að skilja hann. Var ákærði síðan leiddur í varðstofu lögreglunnar, sem er í öðrum enda flugstöðvarbyggingarinnar, þar sem Magnús Kristinsson lögreglumaður og skilríkjasérfræðingur tók á móti ákærða. Hafi Magnús strax séð að kennivottorðið var ekki í lagi og sagt það. Vitnið kvaðst hafa spurt ákærða hvaða tungumál hann talaði og kvaðst hann tala ensku, frönsku og arabísku. Vitnið kvaðst sjálft hafa rætt við ákærða og skráð niður það sem eftir honum var haft og hafi samtal þeirra farið fram á ensku. Ákærði hafi vel skilið það sem fram fór.
Vitnið kvaðst hafa verið klætt í lögreglubúning og merkt bæði með „lögregla“ og „police“. Hafi ekki farið fram hjá neinum að vitnið var lögreglumaður. Aðspurt kvaðst vitnið hafa staðið nánast við hliðina á tollverðinum sem stöðvaði ákærða og því ekki farið fram hjá vitninu hvað þeim fór á milli. Tollvörðurinn hafi verið óeinkennisklæddur en framvísað embættisskildi.
Vitnið Magnús Kristinsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa átt afskipti af ákærða þegar hann var leiddur í varðstofu lögreglunnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Kvaðst vitnið strax hafa séð að kennivottorð sem ákærði framvísaði hafi ekki verið í lagi og við frekari rannsókn hafi komið í ljós að það var grunnfalsað. Í beinu framhaldi hafi fingraför og ljósmyndir verið teknar af ákærða. Engin hælisumsókn hafi verið komin fram á þeim tímapunkti þannig að ákærði hafi fengið númer sakamanns við fingrafaratökuna. Þegar henni var að ljúka kom fram hælisósk frá ákærða. Hafi þeir rætt saman á ensku og hafi ákærði vel skilið vitnið. Kvaðst vitnið hafa verið klætt sem lögreglumaður þegar ákærði kom á varðstofu lögreglunnar.
Vitnið Birgir Már Friðriksson tollvörður kvaðst hafa haft afskipti af ákærða strax í græna hliðinu. Aðspurt kvaðst vitnið hafa verið einkennisklætt sem tollvörður. Vitnið hafi vikið sér að ákærða og gert honum ljóst að hann væri tekinn í tollskoðun. Hafi vitnið Annel lögreglumaður verið nánast við hlið vitnisins. Ákærði hafi sett farangur sinn í gegnumlýsingarvél og síðan verið leiddur í herbergi til frekari skoðunar. Þar hafi ákærði verið krafinn um vegabréf og hann þá framvísað persónuskilríki sem síðan reyndist falsað frá grunni. Ásamt því hafi ákærði tekið upp úr vasa sínum flugmiðann frá Noregi og eitthvað annað bréf eða umlag. Vitnið Annel hafi átt samskiptin við ákærða og hafi þeir rætt saman á ensku. Hafi ákærði vel getað gert sig skiljanlegan á því tungumáli. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa heyrt ákærða bera fram beiðni um hæli á meðan það hafði afskipti af ákærða. Þá kvað vitnið ákærða ekki hafa reynt að ræða við þá á frönsku. Kvaðst vitnið hafa farið með lögreglumönnunum og ákærða inn í sérstakan leitarklefa þar sem farangur ákærða var skoðaður. Kvaðst vitnið ekki hafa átt nein orðaskipti við ákærða, vitnið Annel hafi séð um þau. Þegar leitinni og tollskoðun var lokið hafi afskiptum vitnisins lokið.
Niðurstöður.
Ákærði játar að hafa framvísað grunnfölsuðu kennivottorði við komu sína til landsins þann 20. febrúar sl. en krefst þess að honum verði ekki gerð refsing með vísan til 1. mgr. 31. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.
Ákærði hefur sjálfur upplýst hjá lögreglu að hann hafi verið á ferðalagi frá 8. desember 2010 og hafi farið frá Alsír til Frakklands, þaðan til Noregs og svo til Belgíu, aftur til Frakklands og þaðan til Englands, síðan aftur til Frakklands. Loks til Tyrklands með viðkomu á Ítalíu og Grikklandi. Þá hafi hann farið sömu leið til baka til Frakklands. Þá aftur til Belgíu, þaðan til Danmerkur, til Noregs og loks til Íslands.
Við komuna til landsins fór ákærði í grænt tollhlið og var þar tekinn í tollskoðun. Jafnframt var hann beðinn um skilríki til að sanna á sér deili. Framvísaði ákærði frönsku kennivottorði á nafni Radouen Roubhia með fæðingardegi 1. mars 1984 í Annaba í Alsír með gildistíma frá 14. september 2008 til 13. september 2018.
Ákærði var leiddur af tveimur einkennisklæddum lögreglumönnum og tollverði í leitarherbergi í flugstöðinni þar sem farangur hans og hann sjálfur var skoðaður. Við grunnskoðun á þeim skilríkjum sem ákærði framvísaði, virtist það ekki vera í lagi og var því farið með það til skilríkjasérfræðings á varðstofu lögreglunnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Var ákærði inntur eftir því ítrekað áður en til fingrafaratöku kom, hvort hann væri hælisleitandi einhversstaðar í Evrópu og neitaði ákærði því. Eftir skoðun á farangri ákærða var hann leiddur af tveimur einkenniklæddum lögreglumönnum í annan enda flugstöðvarinnar þar sem varðstofa lögreglunnar er til húsa. Þar var ákærða kynnt að taka þyrfti af honum ljósmyndir og fingraför. Var í því samhengi, ákærða gefið sakamannanúmer. Undir töku fingrafara óskaði ákærði eftir hæli á Íslandi. Var ákærði tekinn til skýrslutöku hjá lögreglu í framhaldi.
Ákærði kveðst ekki hafa gert sér grein fyrir því hvort þeir aðilar sem höfðu afskipti af honum við komuna til landsins hafi verið lögreglumenn, tollverðir, starfsmenn flugvallarins eða aðrir farþegar. Samkvæmt vitninu Annel og Magnúsi voru lögreglumenn einkennisklæddir við störf sín. Eru einkennisföt lögreglu merkt á sambærilegan hátt og í öðrum Evrópulöndum. Átti ákærða því ekki að dyljast að það var lögregla sem hafði fyrstu afskipti af honum, auk þess sem hann hefur sjálfur upplýst að lögregla hafi oftar en hann hafi tölu á, haft afskipti af honum. Verður ekki fallist á málsástæður ákærða að honum hafi ekki verið ljóst að það hafi verið lögregla sem hafði fyrstu afskipti af honum við komuna til landsins. Þá framvísaði ákærði grunnfölsuðu kennivottorði á flugstöðinni án þess að gera strax grein fyrir sér og var það ekki fyrr en við fingrafaratöku og eftir að ákærði hafi fengið meðhöndlun við fyrstu afskipti, sem sakamaður, að ákærði óskaði eftir hæli. Með þessari háttsemi verður ekki tekið undir það með ákærða að hann hafi, eins fljótt og honum var unnt, gert grein fyrir sér við komuna til landsins. Þá er frásögn ákærða um að hann hafi ætlað að fara á næstu lögreglustöð eftir að hann væri kominn inn í landið og sækja um hæli, ekki trúverðug. Eru skilyrði 1. mgr. 31. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna því ekki uppfyllt og verður ákærða gerð refsing fyrir brot sitt.
Samkvæmt dómaframkvæmd hefur verið sakfellt í tugum mála fyrir brot gegn 155. gr. almennra hegningarlaga fyrir sams konar brot, þrátt fyrir að aðilar hafi leitað hælis við komuna til landsins.
Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru en hún er réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Með hliðsjón af áralangri dómvenju þykja ekki vera efni til að skilorðsbinda refsinguna. Skal gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 23. febrúar sl. koma til frádráttar að fullri dagatölu. Þá bera að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sbr. 218. gr. laga nr. 88/2008, sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Helgu Völu Helgadóttur hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum, sem þykja hæfilega ákveðin 120.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Adil Rouabhia, fæddur 26. september 1984, skal sæta fangelsi í 30 daga. Skal gæsluvarðhaldsvist frá 23. febrúar sl. koma til frádráttar að fullri dagatölu.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helgu Völu Helgadóttur hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum, 120.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.