Hæstiréttur íslands
Mál nr. 106/2011
Lykilorð
- Skuldamál
- Stefnubirting
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 10. nóvember 2011. |
|
Nr. 106/2011.
|
Dánarbú Friðriks Fáfnis Eiríkssonar (Helgi Jóhannesson hrl.) gegn Jóni Friðrikssyni (Hlöðver Kjartansson hrl.) |
Skuldamál. Stefnubirting. Fyrning.
Dánarbú F krafði J um greiðslu skuldar á grundvelli fjögurra skuldabréfa útgefnum af Ö ehf., en J hafði tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna þeirra. Deildu aðilar um það hvort birting héraðsdómsstefnu á ætluðu lögheimili J í mars 2006 hefði verið lögum samkvæm og það hvort fyrningu kröfunnar hefði þannig verið slitið innan lögmælts fyrningarfrests. Var það niðurstaða Hæstaréttar að birting stefnunnar hefði verið í samræmi við ákvæði a. liðar 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 þar sem stefnan hefði verið birt á skráðu lögheimili J. Óumdeilt var að krafa dánarbús F hefði á þeim tíma ekki verið fyrnd og var J því gert að greiða dánarbúinu hina umkröfðu fjárhæð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. febrúar 2011. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.125.233 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 871.000 krónum frá 25. mars 2002 til 15. apríl sama ár en af 3.125.233 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Stefndi hefur ekki áfrýjað héraðsdómi og kemur krafa hans um frávísun málsins frá héraði því ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti, en rétturinn aðgætir hvort annmarkar hafi verið á málsókn áfrýjanda sem valda eigi frávísun án kröfu.
Krafa áfrýjanda byggist á fjórum skuldabréfum, útgefnum af Örfirisey ehf. Stefndi tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldinni samkvæmt öllum bréfunum. Vanskil urðu á greiðslu skuldabréfanna og var stefnda ásamt öðrum ábyrgðarmanni stefnt til greiðslu skuldarinnar með stefnu 16. febrúar 2006. Við þingfestingu málsins 9. mars sama ár var ekki sótt þing af hálfu stefndu og var stefnan árituð um aðfararhæfi 20. mars 2006. Með bréfi Hæstaréttar 19. júní 2009 var umsókn stefnda um endurupptöku málsins samþykkt og var það endurupptekið 6. maí 2010.
Meginágreiningur aðila um hvort birting héraðsdómsstefnu í máli þessu á ætluðu lögheimili stefnda í mars 2006 hafi verið lögum samkvæm. Byggir stefndi sýknukröfu sína á því að birtingin hafi verið ólögmæt og þar með hafi fyrningu kröfu áfrýjanda ekki verið slitið innan lögmælts fyrningarfrests. Af málatilbúnaði stefnda í héraði verður ekki annað ráðið en hann byggi eingöngu á því að stefnubirting hafi ekki verið lögmæt þar sem hún hafi ekki farið fram á lögheimili hans. Hafi stefnan hvorki verið birt fyrir honum sjálfum né öðrum sem hafi verið til þess bær að taka við henni fyrir hans hönd. Fyrir Hæstarétti byggir hann auk þess á því að af birtingarvottorði verði ekki ráðið með vissu hvenær birting hafi farið fram, sbr. c. lið 1. mgr. 87. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og að birtingarvottorðið beri ekki með sér að birting hafi farið fram eftir fyrirmælum 2. og 3. mgr. 86. gr. laganna. Þessum málsástæðum hélt stefndi ekki fram í héraði og verður þeim því ekki komið að fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991.
II
Samkvæmt fyrirliggjandi birtingarvottorði kom stefnuvottur að Fannafold 105, Reykjavík, á laugardegi 4. mars 2006, en fyrir liggur að 4. mars þetta ár bar upp á laugardag. Þar hittist fyrir Halldór Arnórsson, frændi stefnda, sem þar var búsettur, en húsið er einbýlishús. Í athugasemdadálk birtingarvottorðsins er eftirfarandi skráð: „Neitar Segir Jón búsettan í Svíþjóð bréf skilið eftir í bréfalúgu.“
Samkvæmt 2. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 skal stefna að jafnaði birt fyrir stefnda sjálfum á skráðu lögheimili hans eða þar sem hann hefur fasta búsetu, dvalarstað eða vinnustað. Birting er þó alltaf gild þótt hún fari fram á öðrum stað ef birt er fyrir stefnda sjálfum. Þá segir í a. lið 3. mgr. greinarinnar að birting sé einnig lögmæt ef birt er á skráðu lögheimili stefnda fyrir heimilismanni hans. Sé heimilismanns ekki kostur má birta fyrir þeim sem dvelst á skráðu lögheimili stefnda, en sé ekki um neinn slíkan að ræða má birta fyrir þeim sem þar hittist fyrir.
Samkvæmt vottorði Þjóðskrár Íslands 25. janúar 2011 tilkynnti stefndi sjálfur 9. september 2002 um flutning lögheimilis síns að Fannafold 105, Reykjavík, frá og með 5. september sama ár. Hann tilkynnti ekki um flutning lögheimilis síns til útlanda en 13. desember 2006 bárust Þjóðskrá upplýsingar frá skattstjóranum í Reykjavík um að skráning lögheimilis stefnda gæti verið röng. Þjóðskrá tók síðan 8. febrúar 2007 ákvörðun, að því er virðist gegn mótmælum stefnda, um að skrá lögheimili hans í útlöndum frá 1. janúar 2003. Var hann samkvæmt þessu með skráð lögheimili að Fannafold 105, Reykjavík, þegar stefnuvottur kom þangað umrætt sinn í þeim tilgangi að birta fyrir honum stefnu í málinu. Var umrædd birting stefnu því í samræmi við ákvæði a. liðar 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið var birting stefnu á hendur stefnda laugardaginn 4. mars 2006 lögum samkvæm. Ágreiningslaust er að á þeim tíma var krafa áfrýjanda ekki fyrnd. Verður stefndi því dæmdur til að greiða áfrýjanda 3.125.233 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði.
Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Jón Friðriksson, greiði áfrýjanda, dánarbúi Friðriks Fáfnis Eiríkssonar, 3.125.233 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 871.000 krónum frá 25. mars 2002 til 15. apríl 2002 en af 3.125.233 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 4. janúar síðastliðinn, var höfðað 22. febrúar og 4. mars 2006 af Dánarbúi Friðriks Eiríkssonar, Ársölum 5, Kópavogi, gegn Jóni Friðrikssyni, Fannafold 105, Reykjavík, og Stefáni Guðsteinssyni, Þverholti 26, Reykjavík.
Í stefnu er þess krafist að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 3.125.233 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. í III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 871.000 krónum frá 25. mars 2002 til 15. apríl sama ár en þá af 3.125.233 krónum til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Við þingfestingu málsins var ekki sótt þing af hálfu stefndu og var stefnan árituð um aðfararhæfi dómkrafna stefnanda auk málskostnaðar 20. mars 2006.
Stefndi Jón krafðist endurupptöku málsins með beiðni 20. febrúar 2009. Röksemdir hans fyrir endurupptöku voru þær að stefna hefði aldrei verið birt fyrir honum. Umsókn stefnanda um endurupptöku málsins var samþykkt með bréfi Hæstaréttar 19. júní 2009 og var málið endurupptekið 6. maí 2010.
Af hálfu stefnda Jóns er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Einnig er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýsir kröfunni þannig að hún sé byggð á fjórum skuldabréfum útgefnum af Örfirisey ehf. Samkvæmt bréfunum hafi Gemax segulómtæki, sem staðsett hafi verið að Lágmúla 5, verið sett til tryggingar skuldinni auk ábyrgðar stefnda Jóns Friðrikssonar og stefnda Stefáns Guðsteinssonar.
Skuldabréf nr. 14410 hafi verið gefið út 3. nóvember 2001, upphaflega að höfuðstól 800.000 krónur. Lánstími hafi verið 36 mánuðir. Afborganir skyldu vera 18 og greiðast á tveggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 25. mars 2002. Vextir væru tilgreindir ársvextir, sem skyldu vera eins og af óverðtryggðum lánum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 auk 4,5% fasts vaxtaálags. Vextir skyldu reiknast af höfuðstól skuldarinnar frá upphafsdegi vaxtaútreiknings og greiðast eftir á, á sömu gjalddögum og afborganir. Bréfið hafi fallið í vanskil 25. mars 2002 en þá hafi borið að greiða 1. gjalddaga þess, sem skiptist þannig að afborgun nemi 44.444 krónum og samningsvextir, 71.000 krónum, auk eftirstöðva nafnverðs, 755.556 krónum, eða samtals 871.000 krónur.
Skuldabréf nr. 3220 hafi verið gefið út 15. desember 2001, upphaflega að höfuðstól 700.000 krónur. Lánstími hafi verið 36 mánuðir. Afborganir skyldu vera 18 og greiðast á tveggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 15. apríl 2002. Vextir væru tilgreindir ársvextir, sem skyldu vera á hverjum tíma jafn háir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 auk 4,5% fasts vaxtaálags. Vextir skyldu reiknast af höfuðstól skuldarinnar frá upphafsdegi vaxtaútreiknings á bréfinu og greiðast eftir á, á sömu gjalddögum og afborganir. Bréfið hafi fallið í vanskil 15. apríl 2002 en þá hafi borið að greiða 1. gjalddaga þess, sem skiptist þannig að afborgun hafi numið 38.889 krónum og samningsvextir 51.411 krónum, auk eftirstöðva nafnverðs, 661.111 krónum, eða samtals 751.411 krónur.
Skuldabréf nr. 3221 hafi verið gefið út 15. desember 2001, upphaflega að höfuðstól 700.000 krónur. Lánstími hafi verið 36 mánuðir. Afborganir skyldu vera 18 og greiðast á tveggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 15. apríl 2002. Vextir væru tilgreindir ársvextir, sem skyldu vera á hverjum tíma jafn háir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 auk 4,5% fasts vaxtaálags. Vextir skyldu reiknast af höfuðstól skuldarinnar frá upphafsdegi vaxtaútreiknings á bréfinu og greiðast eftir á, á sömu gjalddögum og afborganir. Bréfið hafi fallið í vanskil 15. apríl 2002 en þá hafi borið að greiða 1. gjalddaga þess, sem skiptist þannig að afborgun hafi numið 38.889 krónum og samningsvextir 51.411 krónum, auk eftirstöðva nafnverðs, 661.111 krónum, eða samtals 751.411 krónur.
Skuldabréf nr. 3222 hafi verið gefið út 15. desember 2001, upphaflega að höfuðstól 700.000 krónur. Lánstími hafi verið 36 mánuðir. Afborganir skyldu vera 18 og greiðast á tveggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 15. apríl 2002. Vextir væru tilgreindir ársvextir, sem skyldu vera á hverjum tíma jafn háir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 auk 4,5% fasts vaxtaálags. Vextir skyldu reiknast af höfuðstól skuldarinnar frá tilgreindum upphafsdegi vaxtaútreiknings á bréfinu og greiðast eftir á, á sömu gjalddögum og afborganir. Bréfið hafi fallið í vanskil 15. apríl 2002 en þá hafi borið að greiða 1. gjalddaga þess, sem skiptist þannig að afborgun hafi numið 38.889 krónum og samningsvextir 51.411 krónum, auk eftirstöðva nafnverðs 661.111 krónum, eða samtals 751.411 krónur.
Samtala skuldabréfanna nemi 3.125.233 krónum og sé það stefnufjárhæð máls þessa. Skuldin hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því hafi verið nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.
Stefnandi heldur því fram að birting stefnunnar fyrir stefnda Jóni hafi verið lögmæt. Hún hafi farið fram á lögheimili hans 4. mars 2006 en það sé lögmæt birting samkvæmt a-lið 3. mgr. 85. gr. laga um meðferð einkamála. Stefnandi hafi verið með skráð lögheimili þar sem stefnan var birt en engu breyti um það þótt skráningunni hafi verið breytt löngu síðar. Stefnda beri að tilkynna um breytingu á lögheimili en hann beri sönnunarbyrði um að hann hafi staðið rétt að því. Engin gögn séu í málinu um að tilkynningarskyldu stefnda hafi verið fullnægt. Stefnandi hafi staðið að stefnubirtingunni með réttum hætti. Stefnandi mótmæli að krafan hafi fallið niður vegna fyrningar en fyrning hafi verið rofin innan fyrningarfrests.
Stefnandi vísi til meginreglna samningsréttarins um skuldbindingagildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fái m.a. stoð í lögum nr. 7/1936. Einnig sé vísað til vanefndaákvæða skuldabréfanna. Málið sé rekið samkvæmt 17. kafla laga 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfur um dráttarvexti styðji stefnandi við reglur 1. mgr. 6. gr. í III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing vísist til 32. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda Jóns
Af hálfu stefnda er vísað til þess að með bréfi Hæstaréttar 19. júní 2009 hafi verið heimiluð endurupptaka í máli þessu samkvæmt beiðni stefnda. Málinu hafði upphaflega verið lokið með áritun á stefnu um aðfararhæfi dómkröfu stefnanda auk málskostnaðar. Beiðni um endurupptöku hafi verið rökstudd með því að stefnda, Jóni, hafi ekki verið birt stefna málsins, enda hefði hann ekki átt lögheimili á Íslandi frá 1. janúar 2003.
Hin áritaða stefna hafi aldrei verið birt stefnda Jóni eða öðrum sem hafi verið bær til þess að taka við stefnubirtingu fyrir hans hönd. Þetta megi glögglega sjá á stefnubirtingarvottorði þar sem fram komi að birtingu hafi verið beint að aðila á meintu lögheimili stefnda en sá aðili hafi neitað að móttaka stefnu þar sem stefndi væri búsettur í Svíþjóð. Ekki sé fullnægjandi að skilja stefnuna eftir í bréfalúgu. Stefndi sé læknir að mennt og hafi frá árinu 2002 starfað í Noregi og Svíþjóð og ekki átt lögheimili hér á landi frá 1. janúar 2003. Stefndi hafi verið í góðri trú um að skráning á lögheimili hans á þessum tíma væri rétt í þjóðskrá. Hann geti ekki borið ábyrgð á mistökum þjóðskrárinnar varðandi skráningu á lögheimili hans. Stefnubirting með framangreindum hætti uppfylli því ekki ákvæði 85. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi, Jón, reisi sýknukröfu sína á þeim grundvelli að ábyrgð hans sem sjálfskuldarábyrgðaraðila á öllum skuldabréfunum sé fyrnd. Skuldabréfunum sé lýst í stefnu en þau hafi öll verið með gjalddaga í mars og apríl 2002 og hafi verið í vanskilum síðan.
Samkvæmt 4. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda fyrnist kröfur samkvæmt ábyrgðarskuldbindingum á 4 árum. Ljóst sé því að kröfur stefnanda á hendur stefnda væru fyrndar enda hafi fyrningu ábyrgðarskuldbindinga hans ekki verið slitið gagnvart honum með neinum þeim hætti sem lög geri ráð fyrir. Stefna málsins geti ekki talist hafa verið birt stefnda með lögmætum hætti en fyrningarfrestur sé liðinn. Krafa samkvæmt sjálfsábyrgð hafi runnið út á öllum 4 skuldabréfunum á árinu 2006.
Stefndi hafi eftir endurupptöku málsins freistað þess að fá stefnanda til að falla frá kröfum sínum í málinu á hendur honum þar sem krafan sé augljóslega fyrnd. Stefnandi hafi ekki orðið við þeirri áskorun.
Um málskostnaðarkröfu sína vísi stefndi til 130. gr. laga um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Samkvæmt 4. tl. 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda fyrnast kröfur samkvæmt ábyrgðarskuldbindingum á fjórum árum. Fyrningarfrestur byrjar að líða frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf samkvæmt 4. gr. sömu laga en eins og stefnandi lýsir féll krafa hans í gjalddaga á árinu 2002. Fyrning er rofin með birtingu stefnu en þá telst málssókn byrjuð, sbr. 11. gr. sömu laga. Hafi mál ekki verið höfðað innan fyrningarfrests fellur krafan niður fyrir fyrningu samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna.
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að birting hafi tekist innan fyrningarfrests þar sem stefnan í málinu hafi verið birt á lögheimili stefnda Jóns 4. mars 2006. Í vottorði þjóðskrár frá 7. október 2010 er því lýst að samkvæmt gögnum þjóðskrár hafi stefndi Jón verið skráður með lögheimili að Fannafold 105 í Reykjavík á tímabilinu 5. september 2002 til 8. febrúar 2007. Þjóðskrá hafi borist upplýsingar um að sú skráning gæti verið röng. Með ákvörðun þjóðskrár 8. febrúar 2007 hafi skráningunni verið breytt þannig að lögheimili mannsins í þjóðskrá skyldi vera talið í útlöndum frá og með 1. janúar 2003. Lögheimili hans hafi verið skráð frá útlöndum 18. maí 2010 að Hlíðarvegi 37 í Kópavogi miðað við 17. maí s.á. og hafi verið skráð þar síðan.
Engar frekari upplýsingar liggja fyrir í málinu um hina röngu skráningu lögheimils stefnda Jóns í þjóðskrá á þeim tíma sem hér skiptir máli eða hverjar ástæður voru fyrir henni. Þá er heldur ekki upplýst í málinu, enda engin gögn um það, að stefndi Jón hafi vanrækt að tilkynna breytingu á lögheimili þegar hann flutti til útlanda á árinu 2003 eða að hann hafi ekki farið eftir öðrum reglum sem leitt hafi til að lögheimili hans var ranglega skráð í þjóðskránni á umræddu tímabili. Með vísan til þess verður hann ekki látinn bera hallann af því að skráning á lögheimili hans var röng þegar birting stefnunnar fór fram.
Að þessu virtu og með vísan til ákvörðunar þjóðskrár um skráningu lögheimilis stefnda Jóns í þjóðskrá þannig að það skyldi talið vera í útlöndum frá og með 1. janúar 2003 þar til í maí 2010 er fallist á þá málsástæðu stefnda Jóns að birting stefnu hafi ekki farið fram á lögheimili hans 4. mars 2006. Fyrning var þar með ekki rofin innan fyrningarfrests og hefur krafa stefnanda á hendur stefnda Jóni því fallið niður fyrir fyrningu. Með vísan til þess ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda Jóni málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.
Málið dæmir Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari
D ó m s o r ð:
Stefndi, Jón Friðriksson, er sýknaður af kröfum stefnanda, Dánarbús Friðriks Eiríkssonar, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda Jóni 150.000 krónur í málskostnað.