Hæstiréttur íslands

Mál nr. 53/2008


Lykilorð

  • Fíkniefnalagabrot
  • Hilming
  • Skilorð
  • Upptaka


                                     

Fimmtudaginn 2. október 2008.

Nr. 53/2008.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur saksóknari)

gegn

Gísla Styff

(Jón Egilsson hdl.)

 

Fíkniefnalagabrot. Hilming. Skilorð. Upptaka.

G var sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot, hylmingu og umferðarlagabrot og dæmdur í 22 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þar sem afbrot G  tengdust að miklu leyti óreglu var refsing hans einnig bundin því sérstaka skilyrði að hann neytti ekki áfengis eða deyfilyfja á skilorðstímanum, sbr. 3. tölulið 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 11. janúar 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst nú staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms en þyngingar á refsingu og staðfestingar á upptöku. 

Ákærði krefst sýknu af þeim hluta II. kafla ákæru sem snýr að því að hann hafi ætlað hluta umræddra fíkniefna til söludreifingar í ágóðaskyni. Ákærði krefst annars staðfestingar héraðsdóms að öðru leyti en því að dæmd refsing hans verði milduð og höfð skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er sannað að ákærði hafi ætlað einhvern hluta fíkniefnanna, sem um ræðir í II. kafla ákæru, til söludreifingar þótt ekki verði fullyrt hversu mikið af þeim hafi verið ætlað til slíkrar dreifingar. Með þessari athugasemd verður héraðsdómur staðfestur um sakfellingu ákærða. Við ákvörðun refsingar verður einkum litið til þess að ákærði hefur ekki áður sætt refsingu sem áhrif hefur á ákvörðun refsingar í þessu máli. Hins vegar verður horft til þess að um var að ræða mikið magn sterkra fíkniefna og hilmingarbrot ákærða lutu að miklu verðmæti. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um ákvörðun refsingar ákærða að öðru leyti en hvað varðar fullnustu hennar.

Nokkuð er liðið frá brotum ákærða. Ákærði hefur lagt fyrir Hæstarétt gögn er sýna breytt heilsufarsástand hans og að hann hafi nú snúið lífi sínu til betri vegar frá því sem var er hann framdi brot sín. Eins og hér stendur sérstaklega á þykir mega binda refsingu ákærða almennu skilorði í fjögur ár samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þegar litið er til þess hversu mjög afbrot ákærða tengjast óreglu hans verður refsingin einnig bundin því sérstaka skilyrði að hann neyti ekki á skilorðstímanum áfengis eða deyfilyfja, sbr. 3. tölulið 3. mgr. 57. gr. laganna. Komi til fullnustu refsingarinnar skal dragast frá með fullri dagatölu gæsluvarðhaldsvist ákærða er hann sætti 16. til 22. desember 2005 samkvæmt 76. gr. almennra hegningarlaga.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Gísli Styff, sæti fangelsi í 22 mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum fjórum árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og skilorð 3. töluliðar 3. mgr. 57. gr. sömu laga.

Komi til fullnustu refsingarinnar skal dragast frá með fullri dagatölu gæsluvarðhaldsvist ákærða er hann sætti 16. til 22. desember 2005.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað eru staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 359.460 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 311.250 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 30. nóvember 2007 í máli nr. S-463/2007:

                Þetta mál, sem var dómtekið 9. nóvember sl., er höfðað með ákæru lögreglu­stjórans á höfuðborgarsvæðinu útgefinni 19. maí sl. á hendur Gísla Styff, kt. 020666-5369, Sunnuvegi 10, Hafnarfirði:

I.

„Fyrir brot gegn umferðarlögum með því að hafa, fimmtudaginn 6. október 2005 ekið bifreiðinni DB-610, ófær um að stjórna henni örugglega vegna neyslu örvandi og deyfandi efna, frá Lágmúla í Reykjavík sem leið lá í átt til Hafnarfjarðar, vestur Álftanesveg uns bifreiðin hafnaði á ljósastaur og valt við gatnamót Álftanesvegar og Herjólfsgötu.

Telst þetta varða við 1., sbr.  2. mgr. 44. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50, 1987.

II.

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 15. desember 2005 á þáverandi dvalarstað sínum, Reykjavíkurvegi 1 í Hafnarfirði, haft í vörslum sínum 13,79 g af amfetamíni, 98,04 g af vímuefninu MDMA, 105,23 g af hassi, 1,13 g tóbaksblönduðu kannabisefni og 205 stykki af vímuefninu LSD (Lysergide), sem fannst við húsleit þar, en ákærði ætlaði fíkniefnin að hluta til neyslu og að hluta til söludreifingar í ágóðaskyni.

Telst framangreind háttsemi varða við 2. gr. og 5. gr.  laga nr. 65, 1974 og 6. gr. sömu laga að því er varðar meðferð ákærða á MDMA, hassi, tóbaksblönduðu kannabisefni og LSD (Lisergyde), sbr. lög nr. 13, 1985 og lög nr. 68, 2001 og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002.

2. Fyrir vopnalagabrot á sama stað og á sama tíma og greinir í lið nr. 1:

2.1. Með því að hafa haft í vörslum sínum púðursprengju, merkta signal kanonslag tvær lengjur af dýnamíti sem vógu samtals 5,6 kg og eina rafmagnshvellhettu án þess að hafa tilskilin leyfi lögreglustjóra og án þess að geyma sprengiefnin á fullnægjandi hátt í sérstakri sprengiefnageymslu, en lögregla fann sprengiefnið og hvellhettuna við húsleit greint sinn.

Telst framangreind háttsemi varða við 1. og 3. mgr. 27. gr. og 1, sbr. 2. mgr. 28. gr. sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16, 1988 og reglugerð nr. 684, 1999 um sprengiefni.

2.2. Með því að hafa átt og haft í vörslum sínum, óskráða Remington 1100 haglabyssu og loftriffill af gerðinni Jelly, án skotvopnaleyfis og tvö haglaskotbelti með samtals 43 skotfærum og 132 skotfæri, geymt vopnin og skotin óaðskilin og eigi í læstum hirslum, en lögregla fann skotvopnin og skotfærin við húsleit í greint sinn.

Telst framangreind háttsemi varða við 1. mgr. 12. gr., 1. sbr. 2. mgr. 23. gr. sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16, 1988 sbr. reglugerð um skotvopn, skotfæri ofl. nr. 787, 1998.

2.3. Með því að hafa haft í vörslum sínum tvö skrautsverð með 40 cm blaði, hníf með 20 cm blaði, hníf með 27 cm blaði, hníf með 24 cm blaði, sverð með 70 cm blaði, allt vopn sem lögregla fann við húsleit í greint.

Telst framangreind háttsemi varða við a. og d. lið 2. mgr. 30. gr. sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16, 1998.

3. Fyrir hilmingu með því að hafa haft eftirtalda muni í vörslum sínum, sem fundust við húsleit á sama stað og á sama tíma og greinir í lið nr. 1, þrátt fyrir að ákærða gæti ekki hafa dulist að um þýfi væri að ræða og þannig haldið mununum ólöglega fyrir eigendum fram til 15. desember 2005:

3.1. Compaq EVO N800V fartölvu að verðmæti kr. 185.000.-, en fartölvan var tekin ófrjálsri hendi úr fyrirtækinu Fagus, Unubakka 20 í Þorlákshöfn þann 20. maí 2004.

3.2. VHS myndbandsspólu og Canon MV 500i myndbandsupptökuvél í tösku, samtals að verðmæti kr. 70.000.-, en munirnir voru teknir ófrjálsri hendi úr íbúðarhúsnæði að Hlíðarhvammi 11 í Kópavogi þann 29. september 2004.

3.3. Sekonic ljósmælir að verðmæti kr. 70.000.-, Linhof technorama 617 SIII ljósmyndavél að verðmæti kr. 400.000.- og Bose hátalara að óþekktu verðmæti, en munirnir voru teknir ófrjálsri hendi úr íbúðarhúsnæði að Lambastekk 6 í Reykjavík þann 1. desember 2004.

3.4. HP Omnibook xe4500 fartölvu að verðmæti kr. 200.000.-, en fartölvan var tekin ófrjálsri hendi úr Ljósmyndastofu Erlings, Laugavegi 24 í Reykjavík þann 4. febrúar 2005.

3.5. Acar Travelmade 4152 fartölvu að verðmæti kr. 119.900.-, en fartölvan var tekin ófrjálsri hendi úr versluninni Svar Tækni, Síðumúla 37 í Reykjavík þann 22. ágúst 2005.

3.6. Manhattan flatsjónvarpi TFTV-201 að verðmæti kr. 59.000.-, en flatsjónvarpið var tekið ófrjálsri hendi úr versluninni Svar Tækni, Síðumúla 37 í Reykjavík þann 1. september 2005.

3.7. Hasselblad 500EL/M myndavél, Polaroid passamyndavél model 40 og Sunpak auto 26 FD leifturljós, allt að óþekktu verðmæti, en munirnir voru teknir ófrjálsri hendi úr versluninni BECO, Langholtsvegi 84 í Reykjavík þann 8. september 2005.

3.8. Medion fartölvu að verðmæti kr. 240.000.-, í eigu Eðalverks ehf., en fartölvan var tekin ófrjálsri hendi úr vinnuskúr Eðalverks ehf. við Rúmfatalagerinn í Skeifunni í Reykjavík þann 8. september 2005.

3.9. Toshiba Qosmio G20 fartölvu að verðmæti kr. 289.000.-, en fartölvan var tekin ófrjálsri hendi úr versluninni Start við Bæjarlind í Kópavogi þann 13. september 2005.

3.10. Toshiba Satelite M40-183 fartölvu að verðmæti kr. 81.208.- og Toshiba Satellite Qosmio F20-111 að verðmæti kr. 102.757.-, en fartölvan var tekin ófrjálsri hendi úr versluninni Tæknival, Skeifunni Reykjavík, þann 4. október 2005.

3.11. Konica stafrænni myndavél að verðmæti kr. 40.000.-, en myndavélin var tekin ófrjálsri hendi úr íbúðarhúsnæði að Lindargötu 60 í Reykjavík þann 21. október 2005.

3.12. Dell Latitude D505 fartölvu að verðmæti 140.000.-, en fartölvan var tekin ófrjálsri hendi úr íbúðarhúsnæði að Mánagötu 10 í Reykjavík þann 10. nóvember 2005.

3.13. Sony DSR-PDI170P kvikmyndatökuvél að verðmæti kr. 400.000.- 500.000.-, í eigu Kvikmyndaskóla Íslands, en kvikmyndatökuvélin var tekin ófrjálsri hendi úr bifreiðinni OK-434 þar sem hún var staðsett á bifreiðastæði við verslunina 11/11 við Brekkuhús í Reykjavík þann 24. nóvember 2005.

Framangreind háttsemi varðar við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

III.

Fyrir umferðarlagabrot með því að hafa sunnudaginn 26. febrúar 2006 ekið bifreiðinni VR-635 með 160 km hraða á klst. (að teknu tilliti til vikmarka) norður Hafnarfjarðarveg á móts við Silfurtún í Garðabæ, þar sem leyfður hámarkshraði var 80 km á klst, án þess að hafa meðferðis gilt ökuskírteini.

Telst framangreind háttsemi varða við 1. mgr. sbr. 3. mgr. 37. gr. og  48. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

IV.

Fyrir umferðarlagabrot með því að hafa fimmtudaginn 2. mars 2006 ekið bifreiðinni YT-192 með 124 km hraða á klst. (að teknu tilliti til vikmarka) suður Kringlu­mýrarbraut á móts við Esso bensínstöð við Fossvog, þar sem leyfður hámarkshraði var 80 km á klst.

Telst framangreind háttsemi varða við 1. mgr. sbr. 3. mgr. 37. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

V.

Fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa miðvikudaginn 6. september 2006 á þáverandi dvalarstað sínum að Reykjavíkurvegi 1 í Hafnarfirði, haft í vörslum sínum 13,48 g af amfetamíni og 3,01 g af hassi,  sem lögregla fann við húsleit.

Telst framangreind háttsemi varða við 2. gr. sbr., 5. laga nr. 65, 1974 og 6. gr. sömu laga að því er varðar meðferð ákærða á hassi, sbr. lög nr. 13, 1985 og lög nr. 68, 2001 og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002.“

Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44, 1993.  Þess er ennfremur krafist að gerð verði upptæk fíkniefni sem hald var lagt á, sbr. ákæruliði nr. II og V,  samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001. Þess er krafist að gert verði upptækt sprengiefni, hvelhetta, skotvopn, skotfæri og eggvopn sem hald var lagt á, sbr. ákærulið nr. II,  samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 16, 1998.

A.

Í þinghaldi 24. september sl. játaði ákærði sök varðandi II. kafla ákæru liði 2. og 3 með þeim skýringum að hann hefði ekki átt þátt í innbrotunum og hafi ekki ætlað að taka þátt í að selja viðkomandi muni. Ennfremur tilgreindi hann muni sem væru í eigu föður hans (sbr. liði II.2.2. og II.2.3.). Að auki játaði hann vörslur þeirra fíkniefna sem eru talin upp í II. kafla ákæru lið 1. en neitaði að þau hefðu verið ætluð til söludreifingar í ágóðaskyni. Ákærði neitaði sök varðandi III. kafla ákæru, en játaði sök varðandi IV og V kafla ákæru.  Þá féllst hann á upptökukröfur ákæruvalds.

Í ljósi ofangreinds féll fulltrúi ákæruvalds frá I. kafla ákæru og liðum 2.2. og 2.3. í II. kafla ákæru utan varslna á Remington 1100 haglabyssu og breytti jafnframt upptökukröfu til samræmis. Málið var síðan flutt um það hvort ákærði hefði ætlað að selja fíkniefni, sem talin eru upp í II. kafla ákæru lið 1. í ágóðaskyni svo og um umferðarlagabrotið sem greint er í III. kafla ákæru.

Ákærði krefst sýknu af þeirri ákæru að hafa ætlað fíkiefnin að hluta til til söludreifingar í ágóðaskyni og ákæru um hraðakstur 26. febrúar 2006. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög framast leyfa, svo og að refsingin verði að öllu leyti skilorðsbundin. Þess er krafist að gæsluvarðhaldsvistun ákærða frá 16. til 22. desember 2005 komi til frádráttar mögulegri fangelsisrefsingu. Verjandi hans krefst málsvarnarlauna svo og að kostnaður við öflun læknisfræðilegra gagna sem lögð hafa verið fram í málinu verði hluti af sakarkostnaði.

B.                Málsatvik vegna II. kafla ákæru liðar 1.

Í frumskýrslu lögreglu dags. 16. desember 2005 vegna II. kafla ákæru liðar 1. segir að lögreglu hafi ítrekað borist upplýsingar þess efnis að sala og neysla fíkniefna og lyfja færi fram í íbúð ákærða að Reykjavíkurvegi 1. Af þeim sökum hafi lögregla óskað eftir við Héraðsdóm Reykjaness þann 14. desember að fá heimild til húsleitar hjá ákærða í risíbúð í húsi foreldra hans og hafi heimildin verið veitt. Leitin hafi farið fram 15. desember. Faðir ákærða hafi hleypt lögreglunni inn en ákærði hafi fundist sofandi í rúmi sínu. Þegar ákærði hafi vaknað hafi hann verið mjög „lyfjaður“ að sjá og hafi þeim virst sem hann gerði sér ekki grein fyrir stað og stund. Lögregla hafi því beðið föður ákærða að kalla til verjanda. Þegar hann hafi verið kominn hafi ákærði verið fluttur í fangaklefa en verjandinn hafi verið viðstaddur húsleitina. Við leit í húsnæðinu hafi verið haldlögð ætluð fíkniefni, lyf, ætlað þýfi, sprengiefni, hvellhettur, byssur, hnífar og fleira.

Efnin sem fundust voru í allnokkrum smærri einingum en þó voru 202 stykki af LSD í einni einingu og 97,08 g af MDMA í annarri. Ætlað Ecstasy, LSD og sýni af tveimur öðrum efnum voru send til greiningar og styrkleikamælingar hjá Rannsókna­stofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði. Í matsgerð Jakobs Kristinssonar, dags. 3. febrúar 2006, kemur fram að styrkur MDMA-basa í sýni var 80% sem samsvarar 95% af MDMA-klóríði.  Styrkur lýsergíðs (LSD) reyndist samsvara 53 míkrógrömmum í hverri einingu. Í þriðja sýninu reyndist vera lyfið venlafaxín að 13% styrkleika en í fjórða sýninu var efedrínklóríð.  Í málinu var einnig lagt fram skriflegt svar Jakobs, við fyrirspurn fulltrúa ákæruvaldsins, þess efnis að hægt væri að vinna um 1400 töflur af 56 mg styrkleika úr því magni og þeim styrkleika af MDMA sem fannst á heimili ákærða.

Þegar skýrsla var tekin af ákærða daginn eftir húsleitina kvaðst hann eiga þau fíkniefni sem hafi fundist í íbúð hans. Hann kvaðst hafa ætlað að nota hluta þeirra en selja hluta. Síðla dags þann 16. desember var ákærði úrskurðaður í gæsluvarðhald í vikutíma.

Þann 21. desember tók lögregla aftur skýrslu af ákærða og sagði hann þá að öll þau fíkniefni sem fundust heima hjá honum hafi verið ætluð til eigin neyslu.  Taldi hann taugaveiklun skýringuna á því hvers vegna hann hefði áður sagt að hluti efnanna hefði verið ætlaður til sölu. Hann hefði neytt fíkniefna óhóflega undanfarna 6 mánuði og hafi notað allt sem hann hefði komist í. Sérstaklega spurður um sölu amfetamíns áðurliðna 12 mánuði sagði hann að ef fólk vildi borga þá þæði hann greiðsluna og kvaðst hafa þegið greiðslu fyrir amfetamín á síðastliðnum mánuði fyrir handtökuna. Þegar fólk greiddi fyrir efnið greiddi það bara þá upphæð sem það sjálft vildi greiða. Ákærði taldi að efni sem fundist hefði í frystihólfi í ísskáp hans væri amfetamín. Hann kvað það LSD sem fannst vera ætlað til einkaneyslu en hann hafi einnig gefið eitthvað af því. Ákærði bar að tölvuvogir sem fundist hefðu hjá honum notaði hann til að vita hversu stóran skammt hann tæki en einnig til að vega efni sem hann útvegaði öðrum. Plastfilmu sem hjá honum fannst kvaðst hann nota til að pakka inn fíkniefnum.

Við skýrslutöku 22. desember bar ákærði að þeir sem hefðu fengið efni hjá honum hefðu greitt fyrir þau og hefði fólk ekki viljað greiða hefði það ekki fengið efni. Hann kvað fólk bæði greiða með peningum og munum. Eigin neyslu kvaðst hann fjármagna með bótum frá Tryggingastofnun og með sölu fíkniefna. Á sama hátt fjár­magnaði hann kaup stórra skammta. Hann gaf upp tiltekið verð á skammti af nánar tilgreindum fíkniefnum en sagði að verðið réðist einnig af fjárhagsstöðu hans sjálfs og viðskiptavina hans. Ákærði ítrekaði að hann hefði haldið að það efni, sem bráðabirgða­niðurstaða sýndi að væri MDMA, væri amfetamín.

Fyrir dómi bar ákærði að hann hefði ekki haft nein fíkniefni til sölu. Hann kvaðst ekki skilja lögregluskýrslur sem hefðu verið teknar af honum. Hann muni ekki eftir að hafa gefið þær. Hann átti sig ekki á að hann hafi játað þetta á sig. Hann hafi aldrei sagt margt af því sem haft sé eftir honum í lögregluskýrslum. Hann haldi helst að lögreglan hafi búið til framburð hans. Hann hafi undirritað fullt af blöðum sem hann hafi ekki einu sinni lesið. Tölur um verð fyrir skammta, sem komi fram í skýrslunum, séu ekki frá honum komnar því hann hafi ekki verið að selja nein fíkniefni.

Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að það efni sem reyndist MDMA væri það efni.  Hann hafi bent á þetta sem amfetamín. Þær 205 töflur af LSD sem hafi fundist hjá honum hafi verið ætlaðar til eigin nota en á þeim tíma hafi ákærði verið að hugsa um að „stúta“ sér. Einnig hafi rúm 100 grömm af hassi verið til eigin nota. Á þessum tíma hafi fíkniefnaneysla hans verið mikil. Hann hafi étið 37 „pappa“ af LSD og óskiljanlega mikið magn af öðrum efnum.

Sérstaklega aðspurður um það hvernig hann hafi fjármagnað neyslu sína bar hann að margt fólk hafi komið að heimsækja hann og allir hafi komið með eitthvað.  Hann hafi hleypt öllum inn, líka fólki sem hann hafi aldrei séð. Fólk hafi neytt efnanna saman. Hann hafi einnig notað eigin peninga til að kaupa þessi fíkniefni en hann hafi haft um 100.000 krónur í tekjur á mánuði.

Tölvuvogir hafi einhver borið til hans frá Taílandi til að reyna að selja þær hérlendis. Ekki sé ólöglegt að flyta inn tölvuvogir. Það sé tilbúningur lögreglu sem komi fram í lögregluskýrslu, að hann hafi sagst nota vogirnar þegar hann útvegi fólki efni. Plastfilma, sem fundist hafi hjá honum, sé til matvöruframleiðslu en ekki til pökkunar á fíkniefnum. Hann taldi að allt, sem kæmi fram í lögregluskýrslu þess efnis að hann segðist nota filmuna til pökkunar fíkniefna, væri tilbúningur lögreglunnar. Slíkt hefði hann aldrei sagt við lögreglu.

Ákærði kvaðst vera greindur með geðklofa sem lýsi sér með ofskynjunum. Hann hafi lokað sig af í tvö ár og horft á sjónvarpið. Sjúkdómnum sé haldið niðri með sterkum lyfjum. Sjúkdómurinn eigi sér langa sögu. Hann kveðst ekki hafa neitt tímaskyn. Hann hafi farið á geðdeild 2001 eða 2002 en fyrir þann tíma hafi hann haldið sig fyrir framan sjónvarpið í tvö ár án þess að fara út. Hann hafi ekki átt í neinum samskiptum við fólk. Hann hafi reynt að gera eitthvað í sínum málum og hafi leitað bæði til félagsráðgjafa, sálfræðings og geðlæknis. Hann hafi farið að taka lyf sem gerðu honum gott í byrjun en síðan hafi þau farið að hafa slæm áhrif.  Minni hans blokkerist, allt hringsnúist stöðugt í höfðinu á honum og hann geti ekki einbeitt sér.

Hann hafi reynt að fyrirfara sér nokkrum sinnum en ekki virðist skipta máli hversu mikið af lyfjum hann taki, sjálfsvígstilraunir hans takist ekki. Á því tímabili sem hér sé til skoðunar hafi hegðun hans breyst frá því að hleypa engum inn til sín í það að hleypa allskonar fólki inn til sín. Hann hafi svo áttað sig á því að hann væri orðinn snarklikkaður.

Vegna þessa máls hafi hann farið „austur“ í gæsluvarðhald. Þar hafi hann ekki fengið að tala við geðlækni sinn og hafi ekki getað sofið. Þegar hann hafi komið út úr gæsluvarðhaldinu hafi hann verið svo ruglaður í hausnum að hann hafi verið að pæla í að stúta sér. Undanfarið ár hafi hann verið að reyna að finna lífssýn, fari til geðlæknis og sæki AA-fundi. Hann hafi hellt sér út í bílasport aftur og telji sig nú vita hvað hann vilji í lífinu og vilji láta gott af sér leiða. Honum þyki fyrir rugltímabili sínu og kveðst ánægður með að sá tími sé liðinn. Hann líti á hann sem reynslu sem hann geti jafnvel miðlað af til annarra. Hann kveðst hafa náð tökum á geðsjúkdómi sínum með réttri lyfjagjöf og sé hættur óreglu og hafi aftur náð sambandi við fjölskyldu sína.

Hann kvaðst muna mjög lítið frá sínu lífi í desember 2005 en hann hafi heyrt ýmsar sögur af sér á því tímabili. Hann hafi notað öll vímuefni sem hann hafi komist í en hann hafi óeðlilegt þol fyrir lyfjum, vímuefnum, víni og mat.  Neysluskammtar hans í desember 2005 hafi verið af amfetamíni 10 grömm og jafnvel meira, 5-10 grömm af MDMA í nefið á sólarhring, um 10-20 grömm af hassi á dag, og jafnvel meira, og allt að 37 skammtar í einu af LSD og meira yfir daginn. Hann áréttaði að hann hafi haldið að það MDMA sem fannst hjá honum væri amfetamín.

Hann kvaðst aldrei hafa ætlað að græða á sölu fíkniefna og neitar því að hafa ætlað eitthvað af efnunum til söludreifingar í ágóðaskyni. Á þessum tíma hafi hann haldið sig heima hjá sér og verið illa haldinn af ofskynjunum. Ákærði kvaðst á þessum tíma hafa verið í fríu fæði og uppihaldi hjá foreldrum sínum.

Fyrir dóminn kom vitnið Jakob Kristinsson, dósent í eiturefnafræði við læknadeild Háskóla Íslands. Vitnið staðfesti matsgerð sína dags. 3. febrúar 2006. Að sögn vitnisins er meðalgildi styrkleika þess MDMA sem hafi komið til rannsóknar undanfarin ár 50-60 mg í töflu en þó hafi styrkleiki efnanna sveiflast frá því að vera 20 mg í hverri töflu og upp yfir 100 mg í töflu. Vitnið taldi að til útreiknings á því hversu margar töflur mætti gera úr því magni af MDMA sem fannst hjá ákærða mætti nota 55 mg sem meðalgildi. Það magn sem fannst hjá ákærða, 98,04 g, í þeim styrkleika sem það fannst, 80%, samsvaraði 1782 töflum með 55 mg styrkleika. Ef styrkur hverrar töflu væri 150 mg væru þetta 506 töflur. Ef styrkurinn væri 300 mg væru töflurnar 253. Ef töflurnar væru óhemjusterkar gætu þær verið enn færri. Hinsvegar hefðu sterkustu töflur sem vitnið hefði fengið til skoðunar verið 150 mg en þær veikustu um 20 mg.

Vitnið sagðist ekki hafa séð neinar rannsóknir um áhrif MDMA sem væri tekið í nefið og gæti þess vegna ekki fullyrt hvort það hefði önnur áhrif en að taka inn Ecstasy-töflur. Aldrei hafi heldur komið til rannsóknar hjá vitninu Ecstasy-töflur sem hafi innihaldið MDMA ásamt heróíni og kókaíni. Mögulegt sé að hann hafi fengið til skoðunar blöndu af MDMA og amfetamíni eða metamfetamíni en nánast allar Ecstasy-töflur séu með hreinu MDMA og einstaka sinnum MDEA en að öllum jafnaði séu engin önnur virk efni í Ecstasy-töflum en MDMA. Áður fyrr hafi þetta efni eingöngu borist í töfluformi en undanfarin fimm ár hafi það að litlu leyti borist í duftformi. Annaðhvort þurfi að gera úr því töflur eða taka það í skömmtum eins og amfetamín. Eitt gramm af MDMA í þeim styrkleika sem hafi fundist hjá ákærða sé hættulegur skammtur. Ekki myndist þol gegn MDMA þó menn taki mikið af því. Óregla leiði ekki heldur til þess að menn myndi þol gagnvart eiturverkunum MDMA. 

Þol myndist gegn amfetamíni, morfíni og heróíni. Þó menn myndi þol gegn morfíni og heróíni þá gildi það ekki gegn amfetamíni og þol gegn róandi lyfjum veiti ekki heldur þol gegn MDMA eða Ecstasy. Eitt gramm af MDMA af þeim styrkleika sem hafi fundist hjá ákærða sé hættulegur skammtur. Þar sem styrkleiki þess hefði verið 80% væru 800 mg af virka efninu í eins gramms skammti af þessu dufti en 800 mg af MDMA sé eiturskammtur. Fimm grömm af efni með þessum styrkleika sé örugglega banvænn skammtur. Hann hafi aldrei séð töflur með 250 mg af MDMA. Vitnið ítrekaði að 98,04 g af 80% styrkleika samsvaraði um 1700 töflum af 55 mg styrkleika.

Um efnagreiningu sína á LSD bar vitnið að sá styrkur sem fannst í efnum í vörslum ákærða, 53 míkrógrömm í hverri einingu, sé ekki óvenjulegt hlutfall virks efnis. Hann fái sjaldan til rannsóknar efni með hærri styrk en 100 míkrógrömm í hverri einingu. Vitnið taldi að það þyrfti 2 „pappa“ af LSD til að ná fram fullum áhrifum. Erfitt sé að segja hvar þolmörkin liggi gagnvart alvarlegri eitrun af LSD. Hann kvaðst ekki viss um að hægt sé að mynda þol gegn eiturverkunum LSD. Efnið hafi hinsvegar ekki jafnbráðar eiturverkanir og MDMA. MDMA sé óútreiknanlegra efni og menn hafi látist af töku „venjulegra“ skammta. Stutt sé því á milli banvænna skammta og venjulegra skammta af því efni.

Vegna rannsóknar málsins efnagreindi vitnið einnig efni sem reyndist lyfið venlafaxín. Vitnið bar að það lyf sé notað við þunglyndi en verki á annan hátt en venjuleg þunglyndislyf. Þetta lyf hafi blandaða verkun. Stórir skammtar af efninu geti verið slævandi en vímuáhrif fái menn ekki af neyslu venjulegra skammta. Neysla á þessu efni myndi ekki þol gegn öðrum fíkniefnum. Engin venjuleg geðlyf séu þannig að fólk sem neytir þeirra myndi þol gegn ólöglegum ávana- og fíkniefnum. Verkun efnanna sé óskyld. Mögulegur fræðilegur grund­völlur sé fyrir krossþoli milli róandi lyfja og kannabisefna. Milli MDMA og amfetamíns sé fræðilegur grundvöllur fyrir krossþoli en með neyslu geðlyfja myndist ekki þol gegn fíkniefnum.

Með mikilli neyslu amfetamíns myndist mikið þol gegn verkunum þess. Í tíu gramma skammti af amfetamíni af þeim styrk sem hér sé í umferð, tæplega 6%, séu 600 mg af virku efni. Vitnið hafi heyrt að þeir sem hafi mikið þol taki um 1 gramm af amfetamíni en hann hafi ekki fengið þær sögusagnir staðfestar og viti ekki hversu sterkt það efni sé. Ekki sé útilokað að allra hörðustu neytendur gætu lifað af neyslu tíu gramma skammts af amfetamíni sé efnið nógu veikt. Áhrif neyslunnar á hegðun manna fari eftir þolinu. Venjulegur skammtur af amfetamíni til lækninga séu 5 mg í einu af hreinu amfetamíni eða 30-60 mg á dag. Amfetamín sé lítið notað til geðlækninga en notað gegn athyglisbresti í börnum og drómasýki.

Fyrir dóminn kom lögreglumaðurinn Jón Gunnar Sigfús Sigurgeirsson sem tók skýrslur af ákærða 16., 21. og 22. desember 2005. Vitnið staðfesti skýrslurnar. Hann bar að ákærði hefði við skýrslugjöfina sagt að hann hefði ætlað að selja hluta af þeim fíkniefnum sem fundust hjá honum. Vitnið minnti að ákærði hefði eitthvað verið missaga um sölu sína. Að sögn vitnisins var tilefni þess, að lögreglan fór í aðgerðir á heimili ákærða, að lögreglunni höfðu borist upplýsingar frá fólki um fíkniefnasölu frá heimili ákærða. Það hefði einnig vakið grunsemdir lögreglunnar þegar fundist hefðu fíkniefni á fólki sem kom frá heimili ákærða og hefði viðurkennt að hafa keypt efnin af honum. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vart við geðsjúkdóm ákærða þegar hann tók skýrslur af honum. Ákærði hafi verið mjög þægilegur við lögreglu og samvinnuþýður.

Niðurstaða varðandi II. kafla ákæru, lið 1.

Í lögregluskýrslu sem tekin var af ákærða 16. desember 2005 bar hann að hann hygðist neyta hluta af hassinu, spíttinu og því LSD sem fundist hefði hjá honum en hluta þessara efna ætlaði hann að selja. Í skýrslu, dags. 21. desember, segir ákærði öll fíkniefnin ætluð til eigin neyslu. Misræmi í framburði sínum um sölu efnanna kvað hann skýrast af taugaveiklun. Síðar í skýrslunni kveðst hann þiggja greiðslu vilji fólk borga honum fyrir efnin. Í skýrslu, sem ákærði gaf 22. desember, bar hann að fólk greiddi fyrir efnin sem það fengi frá honum. Vildi það ekki borga fengi það ekki efni.  Greitt væri með peningum eða munum. Eigin neyslu fjármagnaði hann með bótum frá Tryggingastofnun og með sölu fíkniefna og kaup á stærri skömmtum fjármagnaði hann á sama hátt. Í öll skiptin var verjandi með ákærða við skýrslugjöfina og undirritaði skýrslurnar með honum. Í skýrslunni frá 22. desember er tekið fram að ákærði lesi skýrsluna yfir og segi hana rétt bókaða. Fyrir dómi fullyrti ákærði að allt það sem haft væri eftir honum í lögregluskýrslum um sölu efnanna, vigtun og pökkun, væri tilbúningur lögreglu. Ekkert af þessu hefði hann sagt við skýrslutöku.

Ekki er dregið í efa að ákærði hafi neytt fíkniefna á þeim tíma þegar lögregla fann það magn fíkniefna sem tilgreint er í II. kafla ákæru, 1. lið. Hinsvegar er ekki hægt að leggja trúnað á yfirlýsingar ákærða um ofurmannlegt þol hans gegn áhrifum þessara tegunda fíkniefna, svo sem að hann gæti neytt 5 gramma af MDMA með 80% styrkleika og þyrfti allt að 35 pappa af LSD til að ná fram áhrifum af því efni þegar venjulegur maður mun finna áhrif af tveimur pöppum. Einnig bar ákærði að hann gæti hæglega tekið 10 grömm af amfetamíni en vitnið Jakob Kristinsson bar að hann hefði heyrt að menn með mikið þol gætu neytt allt að einu grammi af efninu. Vitnið Jakob bar einnig fyrir dómi að sumir þeir skammtar sem ákærði lýsti að hefðu verið eðlilegir neyslu­skammtar hans væru banvænir skammtar.

Ákærði bar að alls kyns fólk hefði komið til hans. Fólk sem hann þekkti lítið og jafnvel ekki neitt. Í ljósi þess hversu dýr fíkniefni eru er einnig afar ótrúverðugt að fólk sem er hvorki skylt ákærða né í sérstöku vinfengi við hann, sé annaðhvort af greiðasemi við hann eða í einhverju hugsunarleysi að skilja efni eftir hjá honum í því magni sem hjá honum fannst. Við mat á því hvort ákærði hafi ætlað að selja hluta þeirra efna sem fundust hjá honum verður einnig að líta til þess að ákærði kveðst einvörðungu hafa haft um 100.000 krónur í bætur frá Tryggingastofnun á mánuði.  Þótt ekki þyki trúverðugt að ákærði hafi myndað svo mikið þol gegn eiturverkunum þeirra ávana- og fíknilyfja sem fundust hjá honum að hann hafi haft þol gegn banvænum skömmtum þykir mega fallast á þá fullyrðingu hans, þar sem hún fær stoð í framburði vitnisins Jakobs Kristinssonar, að hann hafi myndað nokkurt þol gegn þeim efnum sem unnt er að mynda þol gegn, þ.e.a.s. amfetamíni og hassi, og hann hafi því þurft eitthvað stærri skammta til að finna áhrif af þeim og má fallast á að eigin neyslu hafi hann getað fjármagnað með eigin tekjum. Hinsvegar er óútskýrt hvernig ákærði fjármagnaði kaup á svo stórum skömmtum sem hjá honum fundust. Einnig þykir mega líta til þess sem fram kom í lögregluskýrslum sem teknar voru af ákærða við rannsókn málsins. Við allar skýrslutökur var verjandi með ákærða og með undirritun sinni á lögregluskýrslu staðfestir hann að það sem í skýrsluna sé fært sé rétt haft eftir ákærða. Því þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi ætlað hluta þeirra ávana- og fíkniefna sem fundust á heimili hans 15. desember 2005 til söludreifingar í ágóðaskyni. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi og er hún réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

C.                Málsatvik vegna III. kafla ákæru.

Í frumskýrslu lögreglu dags. 1. mars. 2006 segir að lögreglan hafi við umferðar­eftirlit ekið suður Hafnarfjarðarveg. Þá hafi lögreglumennirnir séð hvar hvítri Saab 9-3 bifreið var ekið á miklum hraða norður Hafnarfjarðarveg fram úr öðrum bifreiðum.  Hraði Saab-bifreiðarinnar, 160 km/klst., hafi verið læstur á skjá lögreglubifreiðarinnar.  Lögreglu­mennirnir hafi þegar haldið á eftir bifreiðinni en misst sjónar á henni þar sem henni var ekið áfram norður Hafnarfjarðarveg yfir í Kópavog. Þegar lögreglan hafi verið komin í gjána í Kópavogi hafi þeir séð bifreiðina kyrrstæða á aðrein af Digranesvegi að Hafnarfjarðarvegi. Á staðnum var tekin skýrsla af ökumanni bifreiðarinnar sem stóð í aðreininni, ákærða. Hann kvaðst hafa verið að koma heiman að frá sér og hafa keyrt framhjá Smáralind í gegnum Kópavog. Í Kópavogi hafi hann komið við í húsi. Með ákærða var farþegi og hefur lögreglan eftir honum í frumskýrslu sinni að hann hafi sagt þá hafa komið akandi eftir Hafnarfjarðarveginum. Lögreglan tók myndband af eftirför sinni og þeirri skýrslu sem ákærði gaf í lögreglubifreiðinni.

Fyrir dómi kannaðist ákærði ekki við að hafa ekið þeirri bifreið sem lögregla tók myndband af og lagt var fram í dóminum.  Hann bar að hann hefði verið að koma frá heimili sínu að Reykjavíkur­vegi. Hann hafi komið akandi Reykjanesbraut, hafi keyrt undir brúna hjá Smáralindinni, beygt niður hjá ljósunum, tekið hringtorgið, keyrt upp brekkuna, komið við í húsi í Kópavogi og hafi svo haldið áfram og komið niður aðrein að Hafnarfjarðarvegi. Hann hafi kosið að fara þá leið sem hann lýsti þar sem hún sé greiðfærari og neitaði því að hafa ekið Hafnarfjarðarveginn á þessum tíma.  Hann kvaðst ekki neita því að hafa ekið án þess að hafa ökuskírteini meðferðis.

Gunnar Hilmarsson lögreglumaður bar fyrir dómi að hann og annar lögreglu­maður hafi ekið Hafnarfjarðarveg til suðurs. Þeir hafi séð Saab-bifreið koma á móti þeim þar sem þeir voru staddir á móts við Aratún í Garðabæ. Bifreiðin hafi komið inn í radarinn á 160 km hraða. Þeir hafi snúið við og elt bílinn en hafi misst sjónar á honum þegar hann hafi ekið undir brýrnar í Kópavogi. Þegar þeir hafi ekið í gegnum gjána í Kópavogi sjái þeir bílinn kyrrstæðan í aðrein. Þeir hafi talið að bílnum hefði verið bakkað upp í aðreinina.

Vitnið kvaðst viss um að bíllinn í aðreininni hafi verið sá bíll sem ók á móti lögreglumönnunum á Hafnarfjarðarveginum. Þeir hafi þekkt bílinn þegar þeir mættu honum þar sem hann hafi verið í nokkra daga í vörslu lögreglunnar skömmu áður. Hefði lögreglumaður sem með honum var munað númer þeirrar bifreiðar. Vitnið bar að á vettvangi hefði vitnið rætt við farþega í Saab-bifreiðinni, sem hafi verið umráðamaður hennar, og hefði farþeginn sagt sér að hann og ákærði hefðu ekið Hafnarfjarðarveginn. Vitnið bar að ratsjáin hafi verið prófuð fyrir og eftir mælingu og ekkert geri mælinguna tortryggilega.

Sverrir Guðfinnsson lögreglumaður staðfesti fyrir dómi frumskýrslu málsins og vettvangsskýrslu. Vitnið bar að hann hefði verið með Gunnari Hilmarssyni á eftirliti og hafi vitnið verið farþegi í bílnum og hafi stýrt ratsjá lögreglubílsins. Þeir hafi ekið suður Hafnarfjarðarveg og hafi mætt bílnum á 160 km hraða. Þeir hafi haldið á eftir bílnum en misst sjónar á honum. Þeir hafi þó haldið eftirförinni áfram og séð bílinn í gjánni, en þar hafi hann verið í aðreininni eins og hann væri að koma niður á Hafnarfjarðarveg.

Vitnið kvaðst þekkja bílinn. Hann ætti bíl af sömu tegund. Þessir bílar hafi fyrst komið á markað 2003 en þar sem umboðið hafi ekki sinnt innflutningi á þeim hafi einstaklingar flutt þá inn sjálfir.  Á þessum tíma hafi honum verið kunnugt um tvo bíla af þessari tegund með þessum lit „í umferðinni“. Hann hafi einnig þekkt bílinn þar sem lögreglan hefði haft afskipti af honum vegna rannsóknar máls skömmu áður. Um leið og þeir hafi mætt bílnum hafi hann þekkt bílinn. Vitnið taldi sig ekki hafa séð númer bifreiðarinnar en hann hafi ekki verið í vafa umhvaða bíll þetta var. Hann geti greint tegund Saab-bifreiða eins og aðstæður voru þarna þótt þær fari framhjá á miklum hraða. 

Sérstaklega spurður út í þekkingu sína á Saab-bifreiðum bar vitnið að á ákveðnu tímabili hafi verið til bæði Saab 900 og Saab 9000. Árið 1998 taki Saab 9-5 við af 9000-bílnum. Mikill munur sé á þeim í útliti. Fljótlega upp úr þessu hafi boddíinu á 900-bílnum verið breytt og hann heitið eftir það 9-3. Árið 2003 komi gjörbreytt útlit. Af þeirri árgerð hafi komið einn bíll, grár, sem hafi farið til Akureyrar og annar bíll, hvítur, með númerið ZF. Vitnið kvaðst vegna áhuga síns á bílum þekkja Saab 9-3 Sport Sedan úr á löngu færi. Þann bíl sem lögreglan stöðvaði 26. febrúar 2006 þekki vitnið mjög vel þar sem lögreglan hefði þurft að hafa afskipti af honum tvisvar áður. Á þessum tíma hafi fáir bílar af þessari tegund verið á götunum. Eftir þetta hafi umboðið farið að flytja þessa tegund bíla inn og því séu fleiri á landinu nú en voru í febrúar 2006.

Vitnið bar að ákærði hefði staðfastlega neitað að hafa ekið Hafnarfjarðarveginn á umræddum tíma.  Hann hefði sagst vera að koma úr Kópavoginum.  Ekki hafi verið unnt að senda lögreglubíl á móti þeim þar sem hvorki lögreglan í Kópavogi né Reykjavík hafi haft bíla lausa til að aka á móti þeim.

Niðurstaða vegna III. kafla ákæru.

Í vettvangsskýrslu og fyrir dómi bar ákærði að hann hefði ekið Reykjanesbraut, framhjá Smáralind, í gegnum Kópavog og hafi komið þar við í húsi og í framhaldi af því hafi hann ekið niður aðreinina að Hafnarfjarðarvegi.

Ekki er véfengt að miklir bílaáhugamenn geti greint ákveðnar bíltegundir þó bílum sé ekið framhjá þeim á miklum hraða í rigningu og þungbúnu veðri og því er ekki véfengt að vitnið Sverrir Guðfinnsson lögreglumaður hafi séð bifreið af tegundinni Saab 9-3 aka á 160 km/klst. þar sem lögregla var við hraðamælingar á Hafnarfjarðarvegi 26. febrúar 2006. Í hljóð- og myndbandsupptöku úr lögreglu­bifreiðinni sem lögð var fram í málinu kemur ekki fram að vitnið Sverrir sjái númer bifreiðarinnar sem framhjá ók en greinilegt er að hann mundi upphafsstafi númers þeirrar Saab-bifreiðar sem hafði nýlega staðið í bílageymslu lögreglunnar og vissi hver var skráður eigandi hennar. Þótt hinn lögreglumaðurinn hafi sagst þess fullviss að sá bíll sem þeir mættu hafi verið sami bíllinn og ákærði ók í umrætt sinn er til þess að líta að sá lögreglumaður ók lögreglu­bifreiðinni og var því alls ekki í aðstöðu til að veita þeim bílum sem sem komu úr gagnstæðri átt jafnmikla eftirtekt og sá lögreglumaður sem stýrði ratsjánni. Verður því ekki talið að ökumaður lögreglubílsins hafi getað greint af sömu nákvæmni og vitnið Sverrir tegund þeirrar bifreiðar sem ekið var Hafnarfjarðarveg til suðurs á ofsahraða umræddan dag. Þrátt fyrir að vitninu Sverri hafi ekki verið kunnugt um nema einn annan bíl af sömu tegund og sama lit hafa ekki verið lögð nein gögn fyrir dóminn um það hversu margir bílar af þessari tegund og lit voru til á landinu í febrúar 2006. Auk þess var farþegi, sem var með ákærða umrætt sinn, ekki leiddur fyrir dóminn.

Í ljósi staðfasts framburðar ákærða í vettvangsskýrslu og fyrir dómi, svo og þess að einungis annar lögreglumaðurinn var fær um að veita bílnum, sem þeir mættu, nægilega eftirtekt og ekki síst í ljósi þess að af myndbandinu sést að lögreglan missti sjónar af bifreiðinni þegar henni var ekið yfir Arnarneshæð þykir ekki hægt að fullyrða að sú Saab-bifreið sem lögreglan mældi á ofsahraða á Hafnarfjarðarvegi hafi verið sama Saab-bifreiðin og ákærði ók þann dag. Þennan vafa um atvik verður að meta ákærða í hag og verður hann því ekki sakfelldur fyrir hraðakstur skv. III. kafla ákæru.

Í vettvangsskýrslu kemur fram að ákærði hafi ekki verið með ökuskírteini meðferðis og véfengdi hann það ekki fyrir dómi. Því verður hann sakfelldur fyrir að hafa ekki haft ökuskírteini meðferðis í umrætt sinn.

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust viðurkennt að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í II. kafla ákæru lið. 2.1., einnig lið 2.2. að því er varðar óskráða Remington 1100 haglabyssu og lið 3. svo og kafla IV. og V. Telst sannað með þeirri játningu sem fær stoð í sakargögnum að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum liðum ákærunnar og eru brot hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

D.

Samkvæmt sakavottorði ákærða féllst hann þann 30. ágúst 2001 í Héraðsdómi Reykjaness á greiðslu sektar og sviptingu ökuréttar í eitt ár og þann 9. nóvember sama ár var hann dæmdur í Héraðsdómi Norðurlands vestra til greiðslu sektar og sviptingar ökuréttar í eitt ár frá 26. febrúar 2002. Ofangreind brot hafa ekki þýðingu fyrir ákvörðun refsingar í þessu máli.

Við ákvörðun refsingar verður ekki litið framhjá því hversu mikið magn efna ákærði hafði í vörslum sínum, að hluta til til söludreifingar í ágóðaskyni. Það horfir einnig til refsiþyngingar hversu sterkt það MDMA-efni sem fannst hjá ákærða var.  Með hliðsjón af 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 22 mánaða fangelsi. 

Verjandi ákærða lagði fram vottorð frá yfirlækni bráðaþjónustu geðsviðs dags. 21. júní sl. Þar kemur fram að ákærði leitaði sex sinnum á bráðaþjónustuna á tímabilinu 6. september 2006 til 30. mars 2007 og óskaði eftir róandi lyfjum og svefnlyfjum. Einnig segir að í skýrslum geðdeildar komi fram að ákærði hafi fengið greininguna „schizophrenia unspecified“. Í vottorði dags. 17. september 2007 frá Ómari Hjaltasyni geðlækni sem hitti ákærða reglulega frá hausti 2003 til hausts 2005 segir að erfitt sé að greina sjúkdóm ákærða. Hann hafi einhverskonar geðrofssjúkdóm og gangi í gegnum endurtekin þunglyndistímabil og hafi einkenni kvíða. Hinsvegar svari ákærði þunglyndis- og kvíðalyfjum og líði betur taki hann slík lyf stöðugt. Í matsgerð skv. skaðabótalögum dags. 12. júní 2007 kemur fram að talið sé að ákærði sé varanlega óvinnufær á almennum vinnumarkaði sökum sjúkdóms síns. Önnur vottorð sem lögð hafa verið fram í málinu um geðhagi ákærða eru dagsett 2002, 2003 og 2004 og vitna um það sama. Þessi gögn geta ekki haft neina þýðingu við ákvörðun refsingar í málinu enda hefur verjandi ekki haldið því fram að ákærði sé ósakhæfur og ekkert sem komið hefur fram í málinu eða framlögðum gögnum bendir til þess. Vegna alvarleika brotsins þykir skilorðsbinding refsingarinnar ekki koma til greina að neinu leyti.

Samkvæmt 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 16. til 22. desember 2005 frá refsingunni með fullri dagatölu.

Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, samtals 1.033.700 krónur.  Þar af eru 213.296 krónur vegna matsgerðar Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Jóns Egilssonar, hdl., 517.920 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og útlagður kostnaður lögmannsins vegna framlagðra læknisvottorða um geðheilsu ákærða 28.900 krónur. Hluti af áðurgreindri fjárhæð sakarkostnaðar er einnig þóknun til verjanda ákærða á rannsóknarstigi málsins Jóns Höskuldssonar, hdl. 265.434 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti svo og 8.150 krónur vegna ferðakostnaðar verjandans.

Ákærði sæti upptöku á þeim fíkniefnum sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins og talin eru upp í II. kafla ákæru lið 1. Einnig skal gera upptæk haldlögð vopn sem talin eru í II. kafla ákæru lið 2.1. svo og haldlagða Remington 1100 haglabyssu sem getið er í II. kafla ákæru, lið 2.2. og þá muni sem taldir eru upp í II. kafla ákæru lið 3.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

dómsorð :

Ákærði, Gísli Styff, sæti fangelsi í 22 mánuði og kemur gæsluvarðhald sem hann sat í frá 16. til 22. desember 2005 til frádráttar með fullri dagatölu. 

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins samtals 1.033.700 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar, hdl., 517.920 krónur, útlagðan kostnað lögmannsins 28.900 krónur, þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi Jóns Höskuldssonar hdl., 265.434 krónur og ferðakostnað lögmannsins 8.150 krónur.

Ákærði sæti upptöku á haldlögðum fíkniefnum, 13,79 g af amfetamíni, 98,04 g af vímuefninu MDMA, 105,23 g af hassi, 1,13 g tóbaksblönduðu kannabisefni og 205 stykki af vímuefninu LSD (Lysergide). Einnig skal gera upptæka haldlagða púðursprengju, tvær lengjur af dýnamíti og eina rafmagnshvellhettu. Að auki skal gera upptæka haldlagða Remington 1100 haglabyssu sem getið er í II. kafla ákæru, lið 2.2. og haldlagðar fartölvur, myndavélar, sjónvörp og fleiri muni sem taldir eru upp í II. kafla ákæru lið 3. talin að verðmæti 2.400.000 krónur.